Hæstiréttur íslands
Mál nr. 145/2000
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Þriðjudaginn 11. apríl 2000. |
|
Nr. 145/2000. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík (Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Sigmundur Hannesson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. og C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. og c. liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. apríl 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. apríl 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 10. maí nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. apríl 2000.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X [...] verði, með vísan til a- og c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, gert að sæta gæsluvarðhaldi, til miðvikudagsins 10. maí nk. kl. 16:00.
[...]
Fyrir liggur að til rannsóknar eru fjöldi innbrota í bifreiðar sem kærði er ýmist grunaður um beina aðild að eða hilmingu. Kærði hefur eindregið neitað aðild að þeim innbrotum nema að frátöldum þjófnaði á verkfærum í bílskúr við [...] hinn 13. mars sl. Kærði kannast við að hafa verið um tíma búsettur hjá [...] þar sem þýfi úr mörgum innbrotum hefur fundist. Ekki hefur náðst í [...]. Rannsókn þessara mála er ekki lokið. Kærði er vanaafbrotamaður með langan brotaferil að baki og hefur ítrekað gerst sekur um auðgunarbrot. Kærði er undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem varðað getur fangelsisrefsingu skv. XXVI. kafla almennra hegningarlaga. Þá liggur fyrir að 18. þ.m. verður kveðinn upp dómur í máli sem lögreglustjórinn í Reykjavík höfðaði á hendur kærða m.a. fyrir þjófnaði í alls sjö skipti framda á árinu 1999. Telja verður með vísan til framanritaðs og rannsóknargagna að fullnægt sé skilyrðum um gæsluvarðhald kærða samkvæmt a- og c-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, en án þess að kærða sé gert að sæta skerðingu á frelsi samkvæmt b-lið 1. mgr. 108. gr. laga um meðferð opinberra mála.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 10. maí nk. kl. 16:00. Kærði skal ekki sæta í gæsluvarðhaldinu skerðingu á frelsi samkvæmt b-lið 1. mgr. 108. gr. laga 19/1991.