Hæstiréttur íslands
Mál nr. 21/2006
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Umferðarlagabrot
- Ölvunarakstur
- Hegningarauki
- Ökuréttarsvipting
|
|
Þriðjudaginn 11.apríl 2006. |
|
Nr. 21/2006. |
Ákæruvaldið(Bogi Nilsson ríkissaksóknari) gegn Viggó Sigurðssyni (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Áfrýjunarleyfi. Umferðarlagabrot. Ölvunarakstur. Hegningarauki. Ökuréttarsvipting.
V var með héraðsdómi sakfelldur samkvæmt eigin játningu fyrir að hafa ekið tvívegis undir áhrifum áfengis og umfram leyfilegan hámarkshraða, en í síðara skiptið olli hann einnig árekstri við tvær lögreglubifreiðar. Að teknu tilliti til sakarferils V var hann dæmdur í 290.000 króna sekt í ríkissjóð og var sviptur ökurétti í 18 mánuði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason og Árni Kolbeinsson og Haraldur Henrysson fyrrverandi hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 15. desember 2005 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst þess nú að ákærða verði ákvörðuð þyngri refsing og frekari ökuréttarsvipting en ákveðin var í héraðsdómi.
Ákærði krefst staðfestingar héraðsdóms.
Héraðsdómari sýknaði ákærða af brotum, sem lýst er í I. kafla ákæru og er sú niðurstaða ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti.
Brot þau, sem um er fjallað í II. kafla ákæru og ákærði var sakfelldur fyrir í héraðsdómi samkvæmt eigin játningu, voru framin aðfaranótt 19. apríl 2005. Ók hann tvívegis undir áhrifum áfengis. Í fyrra skiptið ók hann á 93 km hraða á klst. þar sem hámarkshraði er 60 km á klst. Í síðara skiptið ók hann gegn rauðu ljósi á einum gatnamótum, án þess að virða stöðvunarskyldu á öðrum, á 140 km hraða á klst. þar sem hámarkshraði er 70 km á klst. og loks olli hann árekstri við tvær lögreglubifreiðar á hringtorgi. Eru brot þessi réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
Skömmu fyrir uppsögu héraðsdóms í máli þessu, eða 15. september 2005, var ákærði dæmdur í Héraðsdómi Norðurlands eystra til greiðslu 130.000 króna sektar og til tveggja ára ökuréttarsviptingar frá 22. september 2005 að telja fyrir brot gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Fram kemur í þeim dómi að lögreglustjórasátt, sem ákærði gekkst undir 14. apríl 2004 vegna brots er hann framdi 16 ára að aldri, er látin hafa ítrekunaráhrif á brot hans þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 71. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Svo virðist sem héraðsdómari í máli því sem hér er til úrlausnar hafi ekki haft vitneskju um þennan dóm.
Í héraðsdómi er og ekki tekið tillit til þess að hinn 19. apríl 2005 var ákærði sviptur ökurétti til bráðabirgða, sbr. 2. mgr. 103. gr. umferðarlaga.
Samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga verður ákærða dæmdur hegningarauki við framangreindan dóm Héraðsdóms Norðurlands eystra 15. september 2005 og verður refsing ákvörðuð með hliðsjón af 77. gr. sömu laga. Að öllu virtu þykir rétt að refsiákvörðun héraðsdóms standi óbreytt, þ.e. 290.000 króna sekt í ríkissjóð og komi 20 daga varðhald í stað sektarinnar, greiðist hún ekki innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa. Þá ber að svipta ákærða ökurétti í 18 mánuði og skal sú svipting teljast frá 22. september 2007, er sviptingu samkvæmt fyrrgreindum dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra lýkur. Til frádráttar sviptingunni komi hins vegar sá tími er ákærði var sviptur ökurétti til bráðabirgða 19. apríl 22. september 2005, eða 157 dagar.
Staðfest verður ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað.
Kostnað vegna áfrýjunar sakarinnar ber samkvæmt 169. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 að greiða úr ríkissjóði þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, sem tiltekin eru í dómsorði að meðtöldum virðisaukaskatti.
Dómsorð:
Ákærði, Viggó Sigurðsson, greiði 290.000 krónur í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa en sæti ella 20 daga fangelsi.
Ákærði er sviptur ökurétti í 18 mánuði frá 22. september 2007 að telja en til frádráttar sviptingartíma komi 157 dagar.
Málskostnaðarákvæði héraðsdóms er staðfest.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. október 2005.
Ár 2005, fimmtudaginn, er á dómþingi, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Pétri Guðgeirssyni, héraðsdómara, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 852/2005: Ákæruvaldið (Sturla Þórðarson) gegn Viggó Sigurðssyni (Sveinn Andri Sveinsson hrl.), sem tekið var til dóms hinn 4. október sl., að lokinni aðalmeðferð.
Málið er höfðað með ákæru Lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 6. júní sl. á hendur ákærða, Viggó Sigurðssyni, kt. 220187-3149, Bakkahjalla 1, Kópavogi, “fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa ekið bifreiðum um götur í Reykjavík, svo sem hér er rakið:
I.
Bifreiðinni VS-782, að morgni sunnudagsins 31. október 2004, sviptur ökurétti um götur í Breiðholtshverfi, gegn rauðu umferðarljósi á gatnamótum Höfðabrekku og Stekkjarbakka, á gatnamótum Höfðabakka og Vesturlandsvegar, og Höfðabakka og Dvergshöfða og með 169 km hraða á klst. um gatnamót Höfðabakka og Gullinbrúar, þar sem hámarkshraði er 60 km á klst. M. 010-2004-25371
II.
Bifreiðinni EG-015, aðfaranótt þriðjudagsins 19. apríl 2005, undir áhrifum áfengis, svo sem hér er rakið:
1.
Um kl. 00.11 (vínandamagn í blóði 1,47 ) frá Grafarvogshverfi og með 93 km hraða á klst. suður Höfðabrekku, þar sem hámarkshraði er 60 km á klst.
M. 010-2005-12485
2.
Um kl. 01.15 (vínandamagn í blóði 1,30 ) austur Breiðholtsbraut, gegn rauðu umferðarljósi á mótum Breiðholtsbrautar og Skógarsels, um gatnamót Vatnsendavegar og Breiðholtsbrautar án þess að virða stöðvunarskyldu, með 140 km hraða á klst. um vegarkafla við Selásbraut, þar sem hámarkshraði er 70 km á klst., og inn á hringtorg á gatnamótum Breiðholtsbrautar og Suðurlandsvegar þar sem ákærði ók á tvær lögreglubifreiðar áður en akstri hans lauk.
M. 010-2005-12494
Brotið í lið I telst varða við 1. mgr. 5. gr., 1., sbr. 3., mgr. 37. gr. og 1. mgr. 48. gr., brotin í lið II við 1., sbr. 3., mgr. 45. gr. og brotið í lið II. 2 að auki við 1. mgr. 4. gr., 1. mgr. 5. gr. og 1., sbr. 3., mgr. 37. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993, 2. gr. laga nr. 23/1998 og 8. gr. laga nr. 84/2004.”
Málavextir
I. kafli ákærunnar.
Samkvæmt skýrslu Björns Kristins Broddasonar lögreglumanns, voru nokkrir lögreglumenn í umferðareftirliti á bíl á Norðurfelli, sunnudagsmorguninn 31. október 2004, þegar þeir mættu bílnum VS-782 sem ekið var á móti þeim. Segir í skýrslunni að þeir hafi þóst þar þekkja ákærða undir stýri og vissu þeir að hann var sviptur ökurétti. Sneru þeir við og veittu bíl þessum eftirför og gáfu merki með forgangsljósum. Var bíllinn eltur um götur vítt og breitt um Breiðholt og yfir þrenn gatnamót á móti rauðu ljósi og auk þess eftir öfugum vegarhelmingi á köflum. Hraði bílsins var mikill, svo og lögreglubílsins, sem ekið var með 169 km hraða um gatnamót við Höfðabakka en þó dró í sundur með þeim. Hvarf bíllinn að lokum sjónum lögreglumannanna í Grafarvogshverfi.
Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu 19. apríl sl. og neitaði hann því að hafa ekið bílnum í þetta sinn. Kvað hann A, [...], hafa ekið bílnum eftir að hafa tekið hann í leyfisleysi við Bakkahjalla 1 í Kópavogi. Kvað hann A hafa sagt sér þetta og beðið sig um að taka það á sig að hafa ekið bílnum í þetta sinn, þar eð hann hefði lent í eltingarleik við lögregluna sem hann hefði stungið af. Sjálfur kvaðst ákærði hafa verið í gleðskap í húsi í Melahverfi. Síðar þennan dag gaf ákærði aðra skýrslu hjá lögreglunni um þetta. Sagðist hann þá hafa verið í bílnum með A og fleirum sem hann tiltók, þeim B og C. Hefði A ekið bílnum.
Tekin var skýrsla af A 19. apríl sl. og neitaði hann því að hafa verið ökumaður bílsins. Kvað hann ákærða hafa ekið og hefði ákærði beðið sig að taka á sig aksturinn sem hann hefði samþykkt. Rúmri viku síðar var önnur skýrsla tekin af A og kvaðst hann þá hafa ekið bílnum en ákærði og þeir tveir hinir hefðu verið farþegar, ákærði í framsæti.
Verður nú gerð grein fyrir því sem fram er komið í málinu fyrir dómi.
Ákærði segir að þeir A, B og C hafi verið heima hjá ákærða að drekka bjór. Hafi þeir farið á bíl að Select og haldið þaðan í Engihjalla. Hafi A ekið bílnum. Þaðan hafi A ekið þeim upp í Breiðholtshverfi þar sem þeir mættu lögreglunni. A hafi ekið áfram eins og leið lá upp í Grafarvog, þ.á.m. yfir gatnamót gegn rauðum umferðarljósum. Hafi hraðinn verið mikill í þessum akstri. Hann kveðst hafa skrökvað því hjá lögreglunni að A hefði stolið bílnum, líklega vegna þess að A hefði skrökvað upp á sig akstrinum. Hann segir það rangt sem komið hafi fram að hann hafi beðið A um að taka á sig aksturinn.
Björn Kristinn Broddason lögreglumaður, hefur komið fyrir dóminn og sagt að þeir hafi mætt svörtum bíl og þá séð ákærða undir stýri þess bíls. Kveðst hann hafa haft afskipti af ákærða kvöldið áður og því kannast við hann. Hafi lýsing verið góð. Þau hafi veitt bílnum eftirför með ljósum og eftirförin borist um Breiðholt og yfir í Grafarvog þar sem þau misstu af bílnum. Hafi hraðinn verið mikill, 69 km, og ákærði ekið gegn rauðum umferðarljósum. Hann segist hafa verið viss um að ákærði var ökumaður bílsins. Aðspurður um það hvort honum geti hafa missýnst og ákærði hafi verið í farþegasætinu frekar en undir stýri segir vitnið að hann telji svo ekki vera því félagi hans hafi verið “með það alveg á hreinu” hver hafi verið undir stýri. Auk þess kveðst hann hafa haft afskipti af ákærða kvöldið áður. Sérstaklega aðspurður segist hann auk þess hafa séð þetta með vissu.
Rétt er að það komi fram að lögreglumaðurinn var bæði tregur í frásögn sinni og afundinn þegar hann gaf skýrslu fyrir dóminum.
Rut Jónsdóttir lögreglumaður, hefur skýrt frá því að hún hafi verið í lögreglubílnum með Birni Kristni og þau mætt bílnum sem um ræðir. Hafi hún séð ákærða undir stýri og kannaðist við hann frá fyrri afskiptum. Segist hún vera viss um það ökumaðurinn var ákærði og hafi hún bent Birni Kristni á að þar væri ákærði á ferð. Hafi henni skilist á Birni Kristni að hann hefði einnig séð ákærða aka. Þegar ákærða var veitt eftirför hafi hann ekki sinnt stöðvunarmerkjum og horfið þeim sjónum í Grafarvogi eftir mikinn glæfraakstur. Hafi lögreglubíllinn um skeið verið á 169 km hraða, en samt hafi dregið í sundur með bílunum.
C, sem fyrr er nefndur, hefur skýrt frá því að ákærði hafi ekki ekið bílnum í umrætt sinn, heldur hafi það verið A. Hafi A verið undir stýri þegar þeir mættu lögreglubílnum og í eftirförinni sem lokið hafi í Grafarvogshverfi án þess að lögreglan hafi náð þeim. Hann kannast aðspurður við að hann hafi sagt í símtali við lögreglumann að hann vissi ekki hver hefði verið ökumaðurinn í umrætt sinn vegna þess að hann var “dauður” af áfengisdrykkju. Þetta hafi hann sagt til þess að blandast ekki í málið og deilur tveggja vina sinna, þeirra ákærða og A.
B hefur sagt frá því að A hafi ekið allan bíltúrinn. Hafi A verið undir stýri þegar þeir mættu lögreglubílnum og í eftirförinni sem lokið hafi í Grafarvogshverfi. Hann kannast aðspurður við að hann hafi sagt í símtali við lögreglumann að hann vissi ekki hver hefði verið ökumaðurinn í umrætt sinn vegna þess að hann var dauðadrukkinn. Þetta hafi hann sagt til þess að blandast ekki í málið af hræðslu við að geta bakað sér vandræði.
A hefur komið fyrir dóminn og sagst hafa ekið bílnum í umrætt sinn. Hafi þeir félagarnir verið heima hjá ákærða og þar sem hann hafi ekki verið búinn að neyta áfengis hafi hann tekið að sér að aka bílnum. Hafi þeir mætt lögreglubílnum í Breiðholti og eftirför byrjað. Hafi verið ekið hratt og einu sinni gegn rauðu umferðarljósi. Hafi hann reynt að stinga lögregluna af og tekist það loks í Grafarvogshverfi. Kveðst hann hafa ekið bílnum alla ferðina. Hann hafi sagt hjá lögreglunni að ákærði hefði ekið vegna þess að lögreglumennirnir hefðu sagt við hann að ákærði yrði örugglega kærður fyrir aksturinn, hvað svo sem vitnið segði, enda hefðu tveir lögreglumenn séð ákærða aka bílnum. Um það sem hann sagði hjá lögreglu að ákærði hefði beðið sig um að taka á sig aksturinn segir hann að það skýrist af því að hann sé alls óvanur því að sitja í svona málum.
Niðurstaða.
Ákærði hefur frá upphafi neitað sök. Vinir hans og samferðamenn, C og B, hafa borið með honum um þetta, en þess er þó að geta að þeir reyndu að koma sér undan því að gefa skýrslur í málinu með því að segjast hafa verið ofurölvi og ekki vita hver hefði ekið bílnum. A varð tvísaga um þetta atriði í skýrslum hjá lögreglu en hefur nú fyrir dómi sagst hafa ekið bílnum en ekki ákærði. Tveir lögreglumenn hafa borið að ákærði hafi setið undir stýri á bílnum þegar bílarnir mættust í Norðurfelli. Þess er þó að gæta að framburður annars þeirra er ekki alveg ótvíræður um það hvort hann hafi séð þetta sjálfur eða hvort hann hafi reitt sig á það sem félagi hans sagði um þetta. Að öllu þessu virtu þykir ekki óhætt, gegn eindreginni neitun ákærða og viðurkenningu A á akstrinum fyrir dómi, að telja sannað að ákærði hafi ekið bílnum. Ber því að sýkna hann af þessum ákærulið.
II. kafli ákærunnar.
Ákærði hefur skýlaust játað þau brot sem hann er ákærður fyrir í þessum ákærukafla. Hefur hann orðið sekur um brot gegn þeim lagaákvæðum sem tilfærð eru við brotin í ákærunni.
Viðurlög og sakarkostnaður.
Ákærði, sem fæddur er 22. janúar 1987, var sektaður fyrir ölvun við akstur og réttindaleysi í apríl 2004. Refsing hans þykir hæfilega ákveðin 290.000 króna sekt og komi 20 daga fangelsi í stað sektarinnar, greiðist hún ekki innan 4 vikna frá dómsbirtingu.
Dæma ber ákærða til þess að vera sviptur ökurétti í 18 mánuði frá dómsbirtingu að telja.
Dæma ber ákærða til þess að greiða verjanda sínum, Sveini Andra Sveinssyni hrl., 50.000 krónur í málsvarnarlaun, en úr ríkissjóði ber að dæma verjandanum 70.000 krónur í málsvarnarlaun. Virðisaukaskattur er innifalinn í málsvarnarlaununum. Annan sakarkostnað, 45.034 krónur, ber að dæma ákærða til þess að greiða.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærði, Viggó Sigurðsson, greiði 290.000 krónur í sekt og komi 20 daga fangelsi í stað sektarinnar, greiðist hún ekki innan 4 vikna frá dómsbirtingu.
Ákærði er sviptur ökurétti í 18 mánuði frá dómsbirtingu að telja.
Ákærði greiði verjanda sínum, Sveini Andra Sveinssyni hrl., 50.000 krónur í málsvarnarlaun, en úr ríkissjóði greiðist verjandanum 70.000 krónur í málsvarnarlaun. Annan sakarkostnað, 45.034 krónur, greiði ákærði.