Hæstiréttur íslands
Nr. 2018-219
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Ráðningarsamningur
- Kjarasamningur
- Laun
- Tómlæti
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Með beiðni 8. nóvember 2018 leitar Skaginn hf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 12. október sama ár í málinu nr. 185/2018: Anton Guðmundsson gegn Skaganum hf., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Anton Guðmundsson leggst gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila leyfisbeiðanda um greiðslu vegna kjarasamningsbundins frítökuréttar og réttar til vikulegs frídags vegna vinnu hans hjá leyfisbeiðanda á tilgreindu tímabili. Héraðsdómur sýknaði leyfisbeiðanda af kröfu gagnaðila en Landsréttur komst að gagnstæðri niðurstöðu. Vísaði Landsréttur til þess að leyfisbeiðandi hefði borið ábyrgð á því að gætt væri að vikulegum frídegi gagnaðila og að hann fengi þá lágmarkshvíld sem í kjarasamningi greindi, auk þess sem leyfisbeiðandi gæti ekki borið fyrir sig ákvæði ráðningarsamnings sem væru í andstöðu við kjarasamning, sbr. 7. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur og 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Beiðni sinni til stuðnings vísar leyfisbeiðandi einkum til þess að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi þar sem ekki hafi reynt á sambærileg ágreiningsefni á sviði vinnuréttar fyrir Hæstarétti. Þá telur leyfisbeiðandi bersýnilegt að dómur Landsréttar sé efnislega rangur.
Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í máli þessu myndi hafa fordæmisgildi um áhrif tómlætis starfsmanns, ekki síst þegar sá gegnir stöðu trúnaðarmanns starfsmanna á vinnustað, við að hafa uppi athugasemdir um tilhögun og greiðslu launa sinna. Jafnframt gæti reynt á tengsl starfskjara samkvæmt kjarasamningi og ráðningarsamningi. Á þeim grunni er umsókn leyfisbeiðanda um áfrýjunarleyfi tekin til greina.