Hæstiréttur íslands
Mál nr. 408/2005
Lykilorð
- Manndráp
|
|
Fimmtudaginn 23. febrúar 2006. |
|
Nr. 408/2005. |
Ákæruvaldið(Bogi Nilsson ríkissaksóknari) gegn Magnúsi Einarssyni (Kristinn Bjarnason hrl.) |
Manndráp.
M var ákærður fyrir manndráp með því að bregða þvottasnúru um háls eiginkonu sinnar á heimili þeirra og þrengja að með þeim afleiðingum að hún lést af völdum kyrkingar. Í héraði var hann sakfelldur fyrir brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga auk þess sem hann var dæmdur til greiðslu skaðabóta. Málinu var einungis áfrýjað af hálfu ákæruvaldsins til refsiþyngingar. Í dómi Hæstaréttar kom fram að mat héraðsdómara á trúverðugleika framburðar M, sem var einn til frásagnar um samskipti hans og konu hans skömmu fyrir verknaðinn, yrði ekki endurskoðað, sbr. 4. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991. Varð því m.a. að leggja til grundvallar að ásetningur hefði ekki skapast með M um að bana konu sinni fyrr en í odda skarst með þeim um nóttina. Vísað var til þess að um alvarlegt brot væri að ræða. Talið var þó að fyrir hendi væru ástæður sem virða mætti til lækkunar refsingar og var hún ákveðin fangelsi í 11 ár.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 2. september 2005. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst þess aðallega að refsing verði milduð, en til vara að héraðsdómur verði staðfestur.
Samkvæmt stefnu áfrýjar ríkissaksóknari héraðsdómi á grundvelli 148. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 8. gr. laga nr. 37/1994, eingöngu til refsiþyngingar samkvæmt a. lið 147. gr. fyrrnefndu laganna. Telur hann þá refsingu sem ákærða var ákveðin í dóminum of væga. Niðurstaða héraðsdóms um sök ákærða, heimfærslu brots hans til refsiákvæðis og um skaðabætur kemur því ekki til endurskoðunar.
Ákærði sagði af sjálfsdáðum til brots síns og hefur samkvæmt gögnum málsins sýnt iðrun gerða sinna. Hann er einn til frásagnar um samskipti sín og konu sinnar eftir að hann kom í íbúð þeirra um klukkan eitt aðfaranótt 1. nóvember 2004, skömmu fyrir verknaðinn. Héraðsdómur hefur metið það svo að ákærði hafi í megin atriðum skýrt rétt frá atvikum og að skýrsla hans sé í höfuðdráttum trúverðug. Samkvæmt 4. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994, verður þetta mat héraðsdóms ekki endurskoðað.
Samkvæmt framansögðu verður við ákvörðun refsingar ekki byggt á annarri atburðarás en þeirri sem héraðsdómur reisir dóminn á, þar á meðal að ásetningur hafi ekki skapast með ákærða um að bana konunni fyrr en í odda skarst með þeim um nóttina. Við refsiákvörðun ber að líta til ákvæða 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Verður ekki fram hjá því litið hversu alvarlegt brot ákærða er. Þrátt fyrir það þykir mega við það miða til lækkunar refsingar, sem að framan greinir, að ákærði hafi af sjálfsdáðum sagt til brots síns og skýrt frá atvikum í megin atriðum og sýnt iðrun gerða sinna. Þá hefur hann ekki áður gerst sekur um refsivert brot sem máli skiptir og á sér ekki sögu um ofbeldislega hegðun. Ætla má með stoð í geðheilbrigðisrannsókn Sigurðar Páls Pálssonar geðlæknis og sálfræðiskýrslu dr. Jóns Friðriks Sigurðssonar að andlegt ástand ákærða fyrir og við verknaðinn útskýri atburðarásina og hafi afbrýðisemi og niðurlæging orðið til þess að innibyrgð reiði hans hafi brotist út og leitt til þess að hann framdi verknaðinn. Verður því höfð hliðsjón af ákvæði 75. gr. almennra hegningarlaga við refsiákvörðunina. Að þessu virtu er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 11 ár. Gæsluvarðhaldsvist hans frá 1. nóvember 2004 skal koma til frádráttar refsingunni.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan kostnað sakarinnar í héraði og fyrir Hæstarétti samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara og málsvarnarlaun að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Magnús Einarsson, sæti fangelsi í 11 ár, en gæsluvarðhaldsvist hans frá 1. nóvember 2004 kemur til frádráttar refsingunni.
Ákvæði héraðsdóms um skaðabætur skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði allan kostnað sakarinnar í héraði og fyrir Hæstarétti 3.089.461 krónu, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans á báðum dómstigum, Kristins Bjarnasonar hæstaréttarlögmanns, samtals 1.568.700 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 8. júlí 2005.
Málið er með ákæru útgefinni 31. mars s.l. höfðað gegn Magnúsi Einarssyni, Hamraborg [...], Kópavogi, "fyrir manndráp, með því að hafa, aðfaranótt 1. nóvember banað eiginkonu sinni, [A], á heimili þeirra að Hamraborg [...], Kópavogi, með því að bregða þvottasnúru um háls hennar og þrengja að með þeim afleiðingum að hún lést af völdum kyrkingar.
Telst þetta varða við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Bótakröfur á hendur ákærða.
Af hálfu [B], kennitala [...], er krafist skaðabóta að fjárhæð kr. 6.670.346, af hálfu [C], kennitala [...], skaðabóta að fjárhæð kr. 7.350.372, af hálfu [D], kennitala [...], skaðabóta að fjárhæð kr. 1.500.000 og af hálfu [E], kennitala [...], skaðabóta að fjárhæð kr. 1.500.000. Bótakrefjendur krefjast að auki vaxta, á nefndar fjárhæðir, samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. nóvember 2004 til 15. mars 2005, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga til greiðsludags."
Af hálfu ákærðs er krafist vægustu refsingar sem lög heimila. Þá er krafist lækkunar á bótakröfunum.
Verjandi ákærðs hrl. Kristinn Bjarnason, krefst málsvarnarlauna sér til handa og að hluti þeirra og annars sakarkostnaðar verði greiddur úr ríkissjóði.
I.
Málsatvik eru þau að aðfaranótt mánudagsins 1. nóvember 2004 var lögreglunni í Kópavogi tilkynnt um Fjarskiptamiðstöð lögreglunnar, að manndráp hefði átt sér stað að Hamraborg [...], íbúð 4-D í Kópavogi. Tveir lögreglumenn sem voru í lögreglubifreið á leið vestur Nýbýlaveg í Kópavogi fóru þegar á staðinn og er þeir komu vettvang, mættu þeir ákærða, þar sem hann beið þeirra á stigapallinum fyrir utan íbúð sína 4D. Hann var greinilega í uppnámi og sagðist hafa myrt eiginkonu sína A og lægi hún á gólfinu í forstofu íbúðarinnar. Kom fram hjá ákærða að börn þeirra, B og C, væru sofandi inni í íbúðinni og hefði haft samband við ættingja sína og A og væri von á þeim fljótlega. Annar lögreglumaðurinn fór inn í íbúðina og sannreyndi frásögn ákærða og lýsti aðstæðum svo: „Á gólfi í forstofu íbúðarinnar lá [A] á bakinu og snéri höfuð hennar til suðurs. Líkami hennar var hvítur ásýndar og kaldur viðkomu. Á hálsi hennar mátti sjá þunna rönd eða hringfar og mar meðfram röndinni. Við athugun kom í ljós að ekkert lífsmark var með [A], en hún var klædd stuttermabol, í gráum íþróttabuxum og hvítum bómullarsokkum. Engin merki um átök voru sjáanleg í íbúðinni, en í ljós kom, að í barnarúmi í hjónaherberginu lá sonur A og ákærða, C, kt. [...] og var sofandi og í barnaherberginu svaf dóttir þeirra B, kt. [...]. Ofan á kommóðu við austurvegg í forstofu íbúðarinnar, fannst blá plastsnúra í tveimur hlutum, sem búið var að hnýta saman í lykkju. Þá voru ofan á kommóðunni tvö kveðjubréf, undirrituð af A og tók tæknideild lögreglunnar í Reykjavík þessa muni til rannsóknar.“
Klukkan 03:16 komu tveir aðrir lögreglumenn á staðinn og tóku þeir ákærða og ræddu við hann þarna á staðnum. Hann tjáði þeim, að hann hefði komið heim til sín fyrr um nóttina og þá orðið var við karlmann, sem hann taldi vera að koma út af sínu heimili. Hann hafði talið víst að A hafi verið honum ótrú með þeim manni. Hann sagðist svo hafa rætt málið við A en án niðurstöðu. A hefði svo vaknað um nóttina og vakið hann og viðurkennt framhjáhald og í kjölfarið ákveðið að svipta sig lífi. Hún hefði beðið hann að aðstoða sig við verknaðinn og hann orðið við því, en að öðru leyti vildi hann ekki tjá sig um málið. Hann var handtekinn og færður á lögreglustöðina í Kópavogi, þar sem honum var tekið blóðsýni og þvagsýni og svo var hann fluttur á lögreglustöðina í Reykjavík, þar sem framkvæmd var á honum líkamsskoðun af rannsóknarlögreglumanni og Helga Guðbergssyni lækni, sem áður hafði komið á vettvang og úrskurðað A látna.
Vettvangurinn var svo rannsakaður af rannsóknarlögreglumönnum og fulltrúum frá tæknideild lögreglunnar í Reykjavík.
Þá kom Þóra Steffensen, réttarmeinafræðingur og á vettvang. Hún framkvæmdi síðar krufningu á líkinu og liggur frammi krufningsskýrsla hennar og er ályktun hennar þessi:
"Dánarorsök [A] er kyrking og er um manndráp að ræða.
Við krufninguna sást far á hálsi og var mikil blæðing í vöðvum aftanvert á hálsinum, beint undan farinu. Breidd farsins og útlit getur samrýmst því að það sé undan snúru af því tagi er til staðar var í holi íbúðarinnar að Hamraborg [...], íbúð númer 4D, er lögreglan kom á vettvang þann 1. nóv. 2004. Það far er sést aftan til á hálsinum ofan við aðalfarið virðist af sama toga, og miðað við staðsetningu beggja faranna á hálsi virðist það tilkomið við að snúran hafi runnið til á hálsinum (niður á við), þegar hert var að. Ummerkin samrýmast því ekki að um sjálfsáverka sé að ræða. Þeir marblettir og skrámur er sjást á kjálkabarði og hálsi samrýmast því að vera tilkomin undan þrýstingi frá höndum, en ekki er hægt að segja til um hvort það sé vegna tilrauna [A] til að losna úr snúrunni við kyrkinguna, eða vegna þrýstings frá höndum gerandans. Staðsetning blæðinga í vöðvum framan til á hálsi (undir kjálkabörðum) sem er vel ofan við farið eftir snúruna, eru þó líklegast undan þrýstingi frá höndum geranda.
Á vinstri löngutöng var skráma/grunnur skurður sem er fersk og blætt hafði úr og bendir það til átaka milli [A] og geranda.
Lítil æðamissmíð fannst á mænukylfu, sem var tilviljanafundur og átti engan þátt í dauðanum.
Ekki fannst áfengi í líkinu og skimun fyrir fíkniefnum var neikvæð."
Við rannsókn á blóðsýninu og þvagsýni sem tekið var úr ákærðum, kom í ljós, að alkóhól var ekki í mælanlegu magni í blóði og engin lyf eða ávana- og fíkniefni fundust við leit í þvagi eða blóði.
Af hálfu tæknideildar lögreglunnar voru gerðar ítarlegar rannsóknir á vettvangi og teknar af honum myndir og fór þar fram skoðun á líki A og tekin voru af því lífsýni, en merki voru á því um að blætt hefði úr sári á handarbaki. Á löngutöng vinstri handar var og sár, sem blætt hafði úr og blóðkoma var sjáanleg ofan á vísifingri og baugfingri. Þá var rauðleitt kám sjáanlegt á peysu A ofarlega vinstra megin við hálsmálið og greinanlegt ofarlega við hálsmálið hægra megin. A bar eyrnalokk í vinstra eyra en ekki því hægra, en gat var á vinstra eyrnasnepli. Við skoðun á svefnherberginu fannst eyrnalokkur án klemmu í laki rúmsins sem var í kuðli. Við horn rúmsins lágu tveir skrautpúðar og var rauðleitt kám á öðrum þeirra og einnig á pífulaki yfir öðrum rúmgaflinum. Frekari rannsóknir fóru fram á svefnherberginu 4. nóvember s.l. og var herbergið þá myrkvað og Luminol efnablöndu úðað yfir gólfið og kom í ljós svörun um að efnið hafi komist í snertingu við blóð á gólfinu vestan við hjónarúmið og mátti sjá á gólfinu för eftir þrif á blóði svonefnd þrifför.
II.
Ákærður hefur við skýrslutökur hjá lögreglu og hér fyrir dómi viðurkennt að hafa valdið dauða A með kyrkingu og er í aðalatriðum samræmi í framburði hans hjá lögreglu og hér fyrir dómi og hefur hann haldið fast við, að er hann framdi verknaðinn, hafi hann farið að óskum A, sem hefði sagst vilja deyja, en áður hafði hann við skýrslutöku hjá lögreglu talað um, að hún hafi beðið hann að aðstoða sig við að deyja, en hún hafði þjáðst af þunglyndi og liðið illa og verður vikið að því nánar síðar.
Ákærður kvað þau Avera búin að vera saman í tíu ár, en þau hafi gifst fyrir þremur og hálfu ári. Að undanförnu hafi hann verið búinn að ganga í gegnum erfiðleikatímabil í hjónabandinu og kvað þau hafa ákveðið að leita ráðgjafar vegna þessara erfiðleika. Þau fyrst farið til Gunnars Sigurjónssonar sóknarprests í Digraneskirkju og svo Sigfúsar sóknarprests í Hjallakirkju og kvað hann þau ekki hafa verið búin að leysa úr þessum vandamálum sínum en hann hafði þó vonast til þess að það gerðist án þess að til skilnaðar kæmi. Hann hafði þó flutt eitthvað af fatnaði og persónulegum munum út af heimilinu og til föður síns. Hann hafi þó alltaf verið búsettur á heimilinu og sofið þar. Ákærðan var fyrir nokkru tekið að gruna að kona hans héldi fram hjá honum með öðrum manni eða mönnum. Honum hafði þótt símareikningur þeirra verða óeðlilega hár og því óskað eftir sundurliðun frá símanum til að ganga úr skugga um að ekki ættu sér stað einhver mistök. Þá hafði komið í ljós að hringt hafði verið mikið í ákveðið símanúmer sem skráð var á F, [...], Reykjavík og er hann hafði innt A eftir því hverju þetta sætti hafði hún tjáð honum að vinkona hennar fengi að hringja í þetta númer þegar hún kæmi í heimsókn og væri handhafi númersins unnusti hennar eða elskhugi. Hann hafði samt komist að raun um að það var eiginkona hans sem var í þessu símasambandi við A og þetta hafði gengið svona til frá því í ágúst s.l. og þau verið í SMS og MNS samböndum. Hann komst og að því að hún hafði síðar verið í SMS og MNS samskiptum við annan mann G, [...], Reykjavík, og hafði hann kynnt sér vefsíðu G og þar séð m.a. mynd af honum. Honum hafði svo um miðjan október s.l. orðið nokkuð ljóst, að náin kynni voru milli eiginkonu hans og F, en þá hafði hann hringt í hana, þar sem hún var heima hjá F seint um kvöld eða að nóttu, þegar hún átti í raun að vera að vinna hjá vinalínu Rauðakrossins. Hann var að passa börnin og hafði hann þá þrívegis hringt í hana til að fá hana til að koma heim. Í fjórða skiptið sem hann hringdi var ekki lagt á og hafði hann heyrt ástaratlot þeirra. Hann hafði þá farið heim til F og hann hefði komið til dyra á nærbuxum einum fata. Hann hafði viljað fá að tala við eiginkonu sína og F skilað til hans að hún vildi ekki tala við hann, en niðurstaðan samt orðið sú, að hún hafi komið með honum, en samt neitað að hafa legið með F og haldið framhjá honum.
Ákærður kvaðst hafa gert sér grein fyrir, að hjónaband þeirra A var að lognast út af og að honum væri ofaukið í hjónabandinu. Hann kvað A hafa viljað að hann flytti að heiman og hann verið búinn að tala við foreldra sína um að fá að vera í herbergi þar. A hafi svo viljað að hann væri hjá henni á nóttunni og það haldið áfram þannig, þó að hann hafi verið byrjaður að flytja hluta af persónulegum munum sínum til foreldra sinna. Hann hafði ekki viljað skilnað. Honum hafi þótt mjög vænt um börnin þeirra, dótturina, sem fædd er árið 2000 og soninn sem fæddur er 2003 og hann hafi alla tíð elskað konu sína mjög mikið. Hann hafði því tregðast við að samþykkja skilnað og viljað halda í samband þeirra í von um að þetta gengi yfir og það slitnaði upp úr sambandi F og A. Hann vissi einnig að foreldrar og ættingjar hennar voru á móti sambandi þeirra og hann vissi að F hafði rætt við föður A um þessi mál og taldi ákærður að samkomulag hefði orðið milli þeirra, um að F héldi ekki sambandi við A meðan á skilnaði stæði. Ákærður kvað A hafa verið mjög þunglynda, sérstaklega eftir að hún eignaðist börnin og hafi hún átt það til að detta í nokkra daga þunglyndi og hafði hann þá iðulega þurft að fara úr vinnu til að vera hjá henni. Hann kvað ástand hennar hafa verið bágborið og hún talað um að svipta sig lífi.
Á árinu 2001 hafi hún leitað til Kristófers Þorleifssonar geðlæknis, sem gefið hafi henni lyf við þunglyndinu en hún ekki fengist til að taka þau. Þá hafi hún orðið fyrir þeirri reynslu að verða fyrir kynferðislegu ofbeldi í miðborginni á árinu 2002 og þá verið ráðlagt að leita til ákveðins sálfræðings, en hún ekki sinnt því. Hann kvað ekki hafa borið meir á þessu þunglyndi dagana fyrir dauða hennar en endranær. Hann lýsti aðdragandanum að því að hann banaði A, þ.e. atburðunum á laugardeginum og sunnudeginum.
Á laugardagsmorgni höfðu þau vaknað snemma og A farið til vinnu sinnar við þrif á bensínstöðvum Esso, víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu, en hann hafði verið með börnin og farið með þau í Smáralind, þar sem þau hafi eytt mestum hluta dagsins, A hafði komið til þeirra eftir hádegi og þau verið að kaupa jólagjafir og svona ýmislegt til að eiga fyrir börnin í skóinn í byrjun desember, en svo farið heim um kl. 16:00 til að taka þar til í geymslunni. Eftir að hafa farið í Sorpu og í heimsókn til foreldra A höfðu þau komið aftur heim kl. 17:30 og um kl. 18:00 hefði A sagt honum að hún ætlaði að fara að passa með vinkonu sinni H í Gullsmára og ætlað að mæta þar kl. 21:00. Honum hafði strax fundist þessi saga ótrúleg en ekki sagt neitt. A hafði svo laust eftir kl. 20:30, eftir að hafa sett börnin í rúmið og tekið sig til og farið í pössunina. Hann kvaðst hafa spurt hana áður hvort hún væri örugglega að fara til H í Gullsmára og hún játað því og boðið honum að hringja í hana síðar um kvöldið til að kanna stöðuna. Hann hafði því verið einn með börnin og bíllaus. Sú hugsun hafi sótt að honum, að hún væri ekki hjá H í Gullsmára og hafði honum fundist að hann yrði að fá úr þessu skorið. Hann hafði haft samband við I bróður sinn og beðið hann að passa fyrir sig og jafnframt að lána sér bifreið. Hann hafi fyrst ekið að húsi H við Gullsmára, en þar hafi bifreið þeirra ekki verið. Hann hafi þá ekið að heimili F við [...], en þar var bifreiðin ekki heldur. Hann hafði þá ekið að húsi foreldra F við [...] og séð bifreiðina þar fyrir utan sem og bifreið F. Hann hafði haft með sér videovél og gengið í kringum húsið til að athuga hvort hann sæi A innan dyra, en ekki séð hana, en hann þá tekið myndir af bifreiðum þeirra utan við húsið. Þegar A kom heim seinna um nóttina hafði hann borið á hana, að hún hafi verið hjá A og sýnt henni myndir af myndbandi af bifreið þeirra fyrir utan hús foreldra A, en hún hefði engu að síður neitað því og haldið því fram, að ákærður hefði sviðsett þetta.
Á sunnudeginum hafi A farið til vinnu um kl. 10:00, en um klukkan 12:00 kvað hann hana hafa hringt í sig, talað um að henni liði illa, hana langaði til að deyja og að hún væri að leita að stað til að deyja á. Hann hafði boðist til að koma og tala við hana og þau sannmælst um að hittast um 12:30 við bensínafgreiðslu Esso við Borgartún. Er þangað kom vildi hún ekkert við hann tala, en um kl. 14:00 til 14:30 eftir að hún var komin heim höfðu þau talast aftur við, en hann var þá staddur hjá tengdaforeldrum með börn þeirra. Hún hafi þá sagt honum að sér liði mjög illa og beðið hann að koma heim. Þegar hann kom heim var A í miklu uppnámi og var búin að gráta mikið. Hún hafði þá talað um að hún hefði saknað hans og verið mjög góð og innileg við hann. Hann hafði spurt hana af hverju henni liði svona illa og hún þá talað um að F væri búinn að vera svo leiðinlegur við hana og þau hafi verið að rífast. Þetta hafði styrkt ákærða í því að samband hennar við F væri ekki til framtíðar. Um kl. 20:00 hafði ákærður farið úr íbúðinni að ósk A, sem vildi vera ein við að svæfa börnin. Hann hafði þá farið í bíltúr og um kl. 21:00 hafði A hringt í hann, sagt honum að henni liði „allt í lagi“ og um kl. 22:00 hafði hún hringt aftur í hann og hún þá spurt hvort hann vildi ekki koma heim og sagðist hann þá hafa innt hana eftir því hvort hún vildi örugglega fá hann heim og hún játað því. Hann hefði sagt henni að hann kæmi eftir smástund, en hann hafi ætlað að halda áfram að aka um. 15 mínútum síðar kvað hann A hafa hringt og spurt hvort hann vildi ekki bara vera hjá pabba sínum um nóttina og hann játað því, en samt ekki farið til föður síns, heldur viljað sjá til hvort þetta breyttist aftur hjá A og haldið áfram að aka um, en eftir smátíma ekið inn í bílageymsluna í Hamraborg til að skila bifreiðinni og fara í göngutúr. Í göngutúrnum fékk hann nokkur SMS skilaboð frá A, þar sem hún spurði hvort hann væri kominn til föður síns og hann tjáði henni að hann væri á leið að taka "strætó". Hann hafði áfram verið í nágrenni við íbúðina og þau skipst á SMS skeytum. Eitthvað eftir miðnætti hafði hann sent henni SMS skeyti og spurt hvort hún væri sofnuð og hún svarað því neitandi. Hann hafði eftir þetta fylgst með íbúðinni og viljað sjá hvenær A færi að sofa. Um kl. 00:30 hafði hann hringt í Aog spurt hvort hann mætti ekki koma upp að tala við hana, þar sem honum væri kalt. Hún hafði þá ætlað að hringja í hann eftir smástund, en ekki gert það. Hann þá ítrekað beiðnina og hún þá sagt, að hann mætti koma eftir smástund. Hann hafði þá staðsett sig í garði hússins þannig að hann sá dyr íbúðarinnar inn á stigaganginum og skömmu síðar hafi hann séð mann koma út um dyrnar og hann þá áttað sig á því að eitthvað var í gangi. Hann hafði þá stokkið inn í stigahúsið og beðið þar, þar sem hann vildi sjá manninn. Hann kvað manninn hafa verið að tala í síma og hann fylgt honum eftir um bílageymsluna út í garð. Hann kvaðst hafa þekkt manninn af mynd á vefsíðu hans, en hann hafði séð símanúmer hans í síma A og í framhaldi af því farið inn á heimasíðuna hans og vissi að hann heitir G. Ákærður kveðst svo hafa farið upp í íbúðina til A, sem hafi spurt hann hvort hann vildi ekki vera um nóttina. Hann kvaðst svo hafa spurt hana um manninn, sem var að koma út úr íbúðinni og hún fyrst neitað að hann hafi komið, en svo haldið því fram, að hann hafi komið inn til að fá að hringja og haldið fast við það, þó að ákærður hafi bent henni á að maðurinn hafi verið með farsíma í hendinni, er hann hafi mætt honum.
Ákærður lýsir atburðarrásinni eftir þetta nánar þannig, að þau hafi gengið til sængur og hún lagst í rúmið næst glugganum, en hann nær rimlarúminu, þar sem sonur þeirra svaf. A hafi enn haldið því fram, að maðurinn hafi einungis verið að hringja og hann jánkað því, þar sem hann var þreyttur og vildi fara að sofa. Hann hafði sofnað fljótt en sofið laust þar sem hann varð var við að hún fór fljótlega fram og kom svo aftur. Einhverju síðar hefði hún vakið hann og hafði honum fundist að hún hafi öskrað nafn hans. Hann hafði þá sest upp og séð að A var komin með band um háls sér og var til fóta hennar megin á leið upp í rúm. Hann kvað birtu hafa borist inn í hjónaherbergið frá ganginum og hafði hann séð, að hún var rauð á hálsinum eftir bandið, en á því hafi verið einhverskonar lykkja. Hann kvað hana hafa sagt við sig að hún væri orðin leið á lífinu, hataði börnin sín og ætti ekki skilið að vera með þau. Hann taldi að hann hefði sagt við hana, að þetta væri allt í lagi, reynt að róa hana og viljað tala um þetta daginn eftir og jafnframt beðið hana að taka af sér bandið. Hann kvað hana þá hafa sagt sér alla sólarsöguna um að hún væri búin að ljúga að honum í marga mánuði og rakið að hún hafi haldið fram hjá honum með F, tilgreind tilvik og lýst því í smáatriðum, sem hann myndi þó ekki nákvæmlega, en mundi að þetta hafi sært hann djúpt. Eftir að hún hafði sagt þetta hafa hún reynt að herða bandið að hálsi sér. Hann kvaðst hafa upplifað það þannig, að hann ætti að herða að hálsi hennar. Ákærður ber hjá lögreglu að A hafi beðið hann að herða að, en hér fyrir hefur hann haldið sig við það að hún hafi við þessar aðstæður sagt ákveðið að hún vildi deyja og sagt, „leyfðu mér að deyja“. Hann kvaðst þarna hafa misst stjórn á sér, tekið í bandið og hert fast að og þegar hann hafði svo áttað sig á hvað var að gerast, var A líflaus við hliðina á honum. Hann hafði þá tekið hana að sér og fundið merki um öndun. Hann hafði þá ætlað að taka hana upp og fara með hana fram á gang, til að reyna lífgunartilraunir, en ekki tekist betur til, en að hann hefði fallið með hana á gólfið og orðið sjálfur undir henni. Hann hafði svo borið hana fram á gang, þar sem hann reyndi að vekja hana og reyndi þá að taka snúruna frá hálsi hennar, en hún var það föst, að hann varð að skera hana í sundur til að geta losað hana. Ákærður sagðist fyrst eftir þetta hafa hringt í Gunnar Sigurjónsson prest og í Neyðarlínuna, en eftir að honum var bent á, að hann hefði síðar samkvæmt myndum úr upptökuvélum fyrir bifreiðageymsluna verið þar að færa bifreið sína, kvaðst hann hafa fundið veikan hjartslátt hjá A er hann lagði hana niður á ganginn og hann í flýti hlaupið niður og út til að sækja bílinn til að fara með A upp á spítala, að því er hann taldi. Þegar hann kom upp aftur hafi hann áttað sig á því, að hann gæti aldrei farið með hana niður, hún væri það þung, jafnframt áttað sig á því, að hjá henni var enginn andardráttur og hjartsláttur lítill sem enginn og hann hafði heldur ekki getað vakið hana þó að hann hafi hrist hana til. Hann hafði á þessu tímamerki munað eftir börnunum og farið inn í herbergin til þeirra. Hann hafði þá séð blóð á gólfi hjónaherbergisins og einnig hafa hreinsað það áður en hann hringdi í prestinn og fundist það eðlilegt að þrífa það strax. Hann neitaði því, að hann hafi verið að hugleiða að fjarlægja lík A úr íbúðinni, það hefði ekki hvarflað að honum.
Ákærður var spurður hvort honum hefði ekki dottið í hug að koma í veg fyrir dauða A, þegar hún hafi ætlast til aðstoðar hans við að deyja. Hann sagði að honum hafi liðið það illa og ástand hans verið þannig á þessari stundu, að honum hafi ekki dottið það í hug. Hann var beðinn að útskýra nánar hvað hann ætti við með því. Hann kvaðst þá eiga við það, hún hafi sagt við hann, að hana langaði til að deyja og sagt við hann „leyfðu mér að deyja.“ Hann hafi elskað þessa konu meira en eigið líf og þannig ekki hugsað um afleiðingarnar. Ákærðum var bent á að blóð í íbúðinni og fleira styðji það að þar hafi orðið átök. Hann kvað þá hafa orðið átök, en ekki slagsmál, en gat þó ekki lýst átökunum neitt nánar, mundi þau ekki í smáatriðum, en útilokaði ekki að A hafi kallað á hjálp, þótt hann minntist þess ekki, en þótt trúlegt að þá hefðu börnin vaknað. Honum var bent á framburð vitnis, sem heyrt hafi neyðaróp úr íbúðinni hans. Hann vildi ekki fullyrða neitt, en kvaðst ekki minnast þess að hafa heyrt neyðaróp frá A. Hann taldi að blóðblettir sem við rannsókn málsins fundust í hjónarúminu á svefnherbergisgólfi og kodda yrðu raktir til þess er hann og A féllu á gólfið, en hann hafði samt ekki séð neina áverka á A.
Ákærður var spurður að því hvort hann hafi í greint sinn ráðist að A og banað henni með kyrkingu vegna afbrýðissemi og ósættis vegna skilnaðar þeirra. Hann ítrekaði þá að hún hafi beðið um þetta, vera megi að afbrýðisemi hafi spilað þar inn í, en þetta hafi samt verið þannig, að hann hafi gert allt til að A myndi líða vel. Hann sagði að í þeirri geðshræringu sem hann varð fyrir hafi margt spilað inn í svo sem afbrýðisemi, ást til A, lygar og svik og margt fleira. Hann kvað þau hafa verið að reyna að laga sambandið, og hún alltaf haldið því fram að ekkert væri í gangi, það væri bara í höfðinu á honum, því hafi það kannski verið of mikið fyrir hann að komast að öllum þessum lygum og svikum af hennar hálfu. Ákærður taldi ekki að hann hafi valdið dauða A í æðis- eða afbrýðiskasti, heldur hafi verið um að ræða hræðsluviðbrögð (panik).
Ákærður var spurður að því hvort hann hafi gert sér grein fyrir hvað hann var að gera. Hann sagði að þetta hefði gerst svo hratt og hann gert þetta ósjálfrátt eftir að hann hafði misst stjórn á sér. Hann kvað eftir á að hyggja sé hugsanlegt að afbrýðisemi hafi spilað þarna inn í. Hann kvað hafa runnið á hann æði og þetta verið stundarbrjálæði og hann misst stjórn á sér. Hann kvað það og hafa getað spilað inn í að hann komst í þetta ástand, að honum hafi fundist hann vera niðurlægður með háttsemi A undanfarið. Hann kvaðst ekki hafa hugsað út í það, hvort A væri veik og væri ekki sjálfrátt, en eftir á sjái hann að hann hefði átt að hyggja að því.
Í málinu hefur verið lagt fram vottorð Kristófers Þorleifssonar, geðlæknis, þar sem hann lýsir ástandi A, er hún leitaði til hans 19. nóvember 2001 og segir svo í niðurstöðu vottorðsins.
"Niðurstaða mín var sú að [A] væri haldin mjög alvarlegu þunglyndi með sjálfvígshugsunum en þó ekki með nein sjálfvígsform. Ljóst að hún hafði nokkuð lengi strítt við þunglyndi, sem greinilega varð mjög alvarlegt á meðgöngu, þannig fengið meðgöngu- og fæðingarþunglyndi ofan á þunglyndi sem fyrir var. Hún var með mjög laskaða sjálfsmynd, sem sést oft þegar einstaklingar hafa orðið fyrir langvinnu einelti og andlegu og líkamlegu ofbeldi sem því fylgir. Viðhorf hennar gagnvart dóttur dæmigert fyrir konu sem verður þunglynd á meðgöngu og eftir fæðingu.
Fram kom og í vottorðinu að A væri með miklar sjálfsvígshugsanir, en ekki nein sjálfsvígsáform, þannig hafi hvarflað að henni að henda sér út af fjórðu hæð og hugsi um það þegar hún er á leið heim úr vinnunni, að einhver æki á hana, ef hún væri ein í bílnum, en hún myndi samt sjálf aldrei aka á.
Vitnið J íbúi að Hamraborg [...], íbúð 2D, Kópavogi, kvaðst umrædda nótt um kl. 02:20 hafa vaknað við skerandi skelfingar- og angistaróp í konu, en gerði sér ekki grein fyrir hvaðan hljóðið kom, en hélt í fyrstu að þetta væri fylleríisvein utan frá, sem ekki hafi verið óvanalegt. Það hafði svo farið fram á stigagang, en heyrði hljóðin þar dauft. Það hafi svo hlustað eftir hljóðinu í baðherberginu en heyrði þau ekki vel, heldur heyrði hún þau best í svefnherbergi sínu. Um hafi verið að ræða endurtekin öskur í konu, en inn á milli heyrði það dýpri rödd og óm af einhverju, sem var sagt. Það hafði verið ljóst að ekki var allt með felldu, en það gat ekki áttað sig á því hvaðan hljóðin komu, og því hafði hún ekki hringt í lögreglu. Það hafði síðar heyrt að konan hrópaði hvað eftir annað, "láttu mig vera", en svo hafi það heyrt dynki, eins og eitthvað hafi fallið þungt utan í vegg eða á gólf, en eftir það hafi allt verið hljótt og hefði þetta staðið yfir til klukkan að verða 02:30. Það hafði hlustað eftir umgangi í húsinu en ekki orðið vart við neitt og svo sofnað um kl. 2o-15 mínutum fyrir 03:00 um nóttina.
Vitnið I, [...], Reykjavík, staðfesti að það hefði komið heim til A kvöldið áður en hún lést. Það hafði kynnst henni tveim vikum áður á MSN spjallforriti á internetinu. Vitnið kvað A hafa sagt sér frá því, að hún hafi átt í stormasömu sambandi og sagt frá persónulegum högum sínum. Það kvaðst hafa komið til A um kl. 22:00 og hafi hún verið nýbúin að koma börnunum í rúmið og annað sofnað, en hitt verið farið að sofa. Vitninu virtist hún vera í góðu skapi, verið glaðleg og engin spenna verið í henni. Þau höfðu spjallað saman og það hafði aðstoðað hana við að tengja afruglara fyrir Stöð 2 og í lokin höfðu samskipti þeirra orðið náin. Vitnið kvaðst svo hafa farið frá henni um kl. 01:00 og hún virst áfram glaðleg, en í spennu vegna þess að hún hafi átt von á eiginmanni sínum, sem hafði hringt þrívegis á síðustu 10 mínútum sem það dvaldi hjá A. Skildist því, að eiginmaður hennar hefði engan samastað til að vera á um nóttina, þar sem hann hafði ekki fengið inni hjá föður sínum og hefði A eftir þrjár hringingar samþykkt að hann gisti í íbúðinni um nóttina. Það hafði er það fór mætt manni á stigaganginum sem það hafði boðið góða kvöldið og spurt hvernig það kæmist út úr húsinu. Það gat ekki fullyrt að það væri ákærði, en lýsing þess á manninum samræmdist því að það hafi verið hann. Vitnið hafði svo farið heim til sín. Það kannaðist við að um kl. 01:14 hafi verið hringt í síma þess úr síma með nafnleynd og hafi verið skellt á er það svaraði og svo hafði það fengið tvö SMS skeyti frá A og var annað sent kl. 01:59 og hljóðar svo "tetta var taeft, ada, munaði mjou", en hin skilaboðin sem send voru kl. 02:03 hafi hljóðað svo: "tetta var fraebaert". Það kvaðst ekki hafa svarað þessum skeytum, það kvaðst ekki hafa verið í stuði til þess og ætlað að fara að sofa. Það kvað A hafa haft áhuga á að hitta það aftur, en það ekki gefið til kynna að til þess kæmi og ekkert verið ákveðið í þeim efnum. Því virtist A vera bitur í garð eiginmanns síns eins og títt er í skilnaðarmálum.
Vitnið F, [...], Reykjavík, bar að það hefði kynnst A í gegnum internetið á "private.is" að það taldi hjá lögreglu hafa verið í byrjun ágúst s.l., en fyrir dómi taldi það hafa verið um mánaðarmótin ágúst/september s.l. og þau fyrst verið að spjalla á spjallrásinni, en svo viku síðar hist. Það kvað hana hafa sagt því að hún væri skilin og ætti bara eftir að ganga frá pappírum þar um. Það vissi þó að eiginmaðurinn var enn á heimilinu og annaðist börnin. Það höfðu orðið náin kynni með því og A og þau hafi ætlað að taka saman eftir skilnaðinn. Það kom fram hjá vitninu að um tveim vikum fyrir andlát A, hafi A farið með ákærða til foreldra hennar og þar höfðu skilnaðarmálin verið rædd og samband hennar við vitnið, sem ekki ótti æskilegt vegna fortíðar þess, en það hafi orðið manni að bana árið 1996. Það kvað A hafa komið heim til þess sama kvöld og verið grátandi yfir því að hafa ekki fengið neinn stuðning frá ættingjum og að allir á heimilinu hafi verið á móti henni. Það kvaðst þá hafa hringt í föður hennar og skýrt þeirra hlið á málinu og hafi samtalið staðið í um 20 mínútur og endað með því að ákvörðun var tekin um að það gæfi henni svigrúm til að ganga frá skilnaðinum og þau væru ekki saman á meðan. Það kvaðst hafa staðið við þessa ákvörðun og þau bara talast við í síma þar til um helgina 30.-31. október s.l.. Það kvaðst ekki hafa vitað að hún var í sambandi við annan mann. Það kvað A svo hafa hitt sig laugardagskvöldið 30. október s.l. á heimili móður þess. Þau höfðu talað um söknuðinn vegna aðskilnaðarins og rætt um aðstæður og svo horft á eina bíómynd og A svo farið heim til sín um kl. 21:30. Þau höfðu svo talað saman á sunnudagsmorguninn 31. október s.l. og hún svo komið heim til þess að [...] og verið í miklu uppnámi yfir því að hann væri staðráðinn í að standa við samkomulagið við föður hennar og hún verið ósátt er hún fór frá því. Vitnið staðfesti að það hafi fengið SMS skeyti frá A um kl. 15:00 á sunnudaginn 31. október s.l. þar sem hún hafi beðið hann að tengja afruglara á heimili hennar og það játað því með SMS skeyti. En eftir að hafa hugsað málið hafði það komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri rétt að fara á heimili hennar m/v það sem á undan var gengið og loforðsins við föður hennar og hringdi í hana um kl. 21:00 og ræddi við hana um þessi mál og benti henni á hvernig hún gæti tengt afruglarann.
III.
Auk þeirrar vettvangsrannsóknar og myndatöku sem að framan getur fór fram ítarleg rannsókn af tæknideild Lögreglunnar í Reykjavík, af munum og fatnaði sem fundust á brotastað og voru talin tengjast ætluðu broti ákærða. Fatnaður sá sem ákærður var í og fötin sem lík A var klætt voru skoðuð sérstaklega og rannsökuð. Þá fór fram líkamsskoðun á ákærða og lík A var grandskoðað og rannsökuð sérstaklega sár og áverkar. Þá var tekið naglskaf af ákærða og naglskaf og neglur af líki A. Afskurðir úr handklæði, koddaveri, nærbuxum og sokk ákærða með blóðkámi á, naglasköfin og neglurnar, svo og pinnar með blóði, munnholstroku og stroksýnum af ýmsum stöðum á líki A auk pinna með blóðsýni úr því og svo munnholsstrokur úr ákærða voru send til DNA greiningar hjá Rettsmedisnisk Institut við Háskólann í Olsó. Þá var og óskað rannsóknar á því hvort á naglaskafi og nöglum af líki A fyndust leifar af plasti samskonar efni og væri í afskornum bút af þvottasnúru sem haldlögð var á vettvangi.
Niðurstöður DNA rannsóknanna í málinu reyndust í mörgum atriðum ekki mjög afgerandi. Þannig þótti blóðkám á handklæði og koddaveri geta verið úr syni ákærða og A, án þess það yrði fullyrt þar eð samanburðarsýni úr honum var ekki til rannsóknar. Sýni með blóðkámi á nærbuxum ákærða gaf svörun um blóð, sem samsvaraði blóði úr A. Sýni með kámi úr sokk ákærða gaf ekki svörun um blóð og var ekki rannsakað frekar. Blóð á hægri og vinstri hönd hinnar látnu reyndist úr henni, en magn DNA á sýni um blóð á vinstri hendi reyndist ekki nægilegt til kennslagreiningar, en sýnið var blandað DNA úr karlmanni. Sýni úr munnholi, leggöngum, endaþarmi og hálsi hinnar látnu voru rannsökuð með tilliti til þess hvort sæði væri til staðar, sem ekki reyndist vera. Naglaskaf ákærða samsvaraði DNA sniði ákærða, en í minnihluti blöndunar var DNA snið sem talið var geta stafað frá hinni látnu, en ekki var samt unnt að fullyrða það. Samanburðarsýninu um neglur og naglaskaf hinnar látnu og svo bút af þvottasnúru voru send til rannsóknara til rannsóknarstofunnar Kripos og er upplýst í réttinum að niðurstöður rannsóknarinnar voru neikvæðar á þann veg, að engin plastefni fundust í naglaskafinu né á nöglunum.
Svo sem fyrr er rakið fundust ofan á kommóðu á gangi íbúðar ákærða og A þrjú kveðjubréf undirrituð af A, sem var stílað á Magga eða ákærða, en hin voru stíluð á sitt hvort barn hennar og undirritað mamma og bera þau með sér að höfundur þeirra hafi í hyggju að stytta sér aldur og kemur fram í bréfinu til ákærða að A hafi liðið mjög illa síðastliðið rúmt ár og hún sjái ekki fram á að það muni lagast og því geti hún ekki lifað þessu lífi áfram.
Við rannsókn málsins vaknaði grunur um að ákærður kynni sjálfur að hafa skrifað þessi bréf. Ákærður gaf rithandarsýnishorn og voru þau ásamt óbeins rithandarsýnis frá ákærða og tveggja óbeinna rithandarsýna sem tekin voru skrifuð af A send til Kriminaltekniska Laboratoriel í Svíþjóð og eru niðurstöður rannsóknarinnar í sérfræðiáliti stofnunarinnar þær, að allt bendi til þess, að skriftin á bréfinu sé eftir A og niðurstöðurnar bendi og eindregið til þess að hún sé ekki eftir Magnús Einarsson.
Við rannsókn málsins hafði og komið fram, að þetta voru gömul bréf, og hafði ákærður áður fundið þau í skúffu í skáp í svefnherberginu og tekið ljósrit af þeim til síðari nota, ef A þyrfti að hlíta læknismeðferðar vegna þunglyndis.
Ummerki á vettvangi sem og ákomur á líki A þóttu að mati tæknideildar lögreglunnar benda til átaka milli ákærða og A í sambandi við kyrkinguna og var plastbandið eða þvottasnúran sem notuð hafði verið við verkið grandskoðuð og sáust ákomur á plastbandinu, þar sem rof hafði komið í ytra borð plastbandsins, sem þótti geta bent til þess að A hafi með fingrunum reynt að losa bandið af hálsinum og ákomurnar á bandinu væru t.d. eftir neglur, en áverkar á hálsi líks A gátu og bent til þess. Þá töldu tæknimennirnir að kyrkingin hefði ekki farið fram eins og ákærði hélt fram, því að á hálsi líksins af A hefði þá átt að vera merki eftir hnútinn á bandinu og gerðu þeir kannanir í því sambandi.
Þann 17. nóvember 2004 fór fram á vegum tæknideildar lögreglunnar sviðsetning á atburðarrásinni við kyrkinguna miðað við hvernig starfsmenn deildarinnar töldu hana hafa verið og hafa ljósmyndir af sviðsetningum verið lagðar fram í málinu en viðstödd rannsóknina auk Þrastar Eyvindssonar lögreglufulltrúa og Björgvins Sigurðssonar sérfræðings tæknideildar var Þóra Steffensen réttarmeinafræðingur. Samantekt, niðurstaða og rökstuðningur niðurstöðu tækni-deildar er á þennan veg.
"Samantekt - niðurstaða:
Að lokinni rannsókn á bandinu sem haldlagt var í íbúð 4-D, þann 01.22.2004, og grunaði sagðist hafa notað til að herða að hálsi [A], er það mat rannsakara að ekki hafi verið búin til lykkja eða snara úr bandinu, eins og fram kom hjá grunaða við yfirheyrslu hjá lögreglunni í Kópavogi, dags. 01.11.2004, kl. 12:12. Það er mat rannsakara að bandið hafi verið með tveimur lykkjum og hnútum á hvorum enda.
Hvað ákomurnar á lengra bandinu varðar telja rannsakarar nokkrar líkur á því að þær séu tilkomnar eftir neglur [A], þar sem ummerki í sárunum eru eins og eftir þrýsting inn á við sem og tætt upp ytra byrði plastsins. Eins og fram kemur í vettvangsrannsóknarskýrslu R.J., dags. 01.11.2004, voru áverkar, lítil sár eða rispur, sjáanlegir á handarbaki og fingrum látnu.
Rökstuðningur við niðurstöðu:
1) Rannsóknir sýndu að band með lykkju og þ.a.l. hnútum á hvorum enda skilur eftir för og greinileg ummerki á beru hörundi, sérstaklega ef vel er hert að.
2) Engin för eða ummerki eftir hnúta var að finna á hálsi látnu.
3) Engin hikför voru sjáanleg á hálsi látnu, þ.e. önnur sams konar för eða rákir eftir bandið, sem hefðu átt að vera sýnileg hafi látna verið með lykkju eða snöru um hálsinn.
4) Vísað er í rannsókn, sviðsetningu starfsmanna Tæknideildar þar sem sams konar band var notað við sviðsetninguna. Blóðkám á bol látnu má skýra á þann hátt að látna hafi reynt að losa bandið af hálsi og við það rispast á fingrum þannig að blæddi úr sárum. Blóðkámið á nefndum bol ofarlega í axlarhæð, og aðeins er blóðsmit á yfirborði sem bendir sterklega til þess að blóðugur hlutur (í nefndu tilfelli fingur eða hönd) hafi strokist við yfirborð bolsins. Fjórar litlar ákomur, rof, á bandinu sem fannst á vettvangi geta verið tilkomnar eftir fingurneglur, þar sem allar ákomurnar eru innávið, þ.e. ofan á plastumgjörð bandsins."
Rannsóknarlögreglumennirnir Ragnar Jónsson og Ómar Pálmason, sem stóðu að þessari rannsókn hafa staðfest skýrslu sína hér fyrir dómi og halda því fram að kyrkingin hafi farið fram eins og því er lýst í skýrslunni. Þeir hafa ekki getað skýrt hvernig ákoma eða rof í yfirborði bandsins inni í minni lykkjunum eru tilkomnar, ef kyrkingin hefur ekki orðið með þeim hætti sem ákærður heldur fram. Vitnið Ómar Pálmason var að því spurt, hvort ekki hafi átt að koma rof eða merki í bandið, þar sem það krossaðist ef kenning þess og Ragnars Jónssonar væri rétt og var svar þess á þá leið að slíkt mark kæmi ekki við krossunina.
Þóra Steffensen, réttarmeinafræðingur, [...], staðfesti krufningsskýslu sína varðandi lík A og niðurstöður hennar sem réttar. Það kvað helstu áverka hafa verið marbletti og skrámur undir kjálkabarði, en auk þess voru og skrámur og marblettir á hálsinum, blæðingar í mjúkvefjum, skrámur á vinstri öxl og rifa á löngutöng. Þá hafi verið far á hálsinum eftir snúruna sem hafi verið 0,3 sm að dýpt og hafi innblæðingar frá farinu bent til þess, af miklu afli hafi verið beitt við kyrkinguna. Vitnið taldi að miðað við hvað farið var skýrt og að miklu afli var beitt hefði mátt búast við að far eftir hnútinn á lykkjunum hefði sést, ef þeirri aðferð hefði verið beitt, sem ákærði haldi fram. Það kvað þó erfitt að fullyrða það, en ólíklegt sé, að ekki hefði sést far eftir hnútinn, en það verði þó ekki útilokað og verði þá að taka tillit til afstöðunnar þegar hert er á snúrunni. Vitnið gat ekki sagt til um í hvaða röð áverkarnir á hálsinum hefðu komið. Það kvað hafa verið viðtækar blæðingar á hálsinum, sem ekki yrðu skýrðar út frá herðingu snúrunnar inn í hálsinn. Staðsetning þessara áverka á hálsinum séu þannig, að þeir hafi geta komið vegna átaka milli ákærða og A, en það kvaðst ekki geta sagt til um það hvort áverkarnir komi vegna þess, að A hafi verið að reyna að losa snúruna um hálsinn á sér eða hvort ákærður hafi gripið um hálsinn á henni í þessari atlögu með snúruna. Það kvað hins vegar marblettinn og skrámurnar neðan við kjálkaborðið hafa verið það vel fyrir ofan farið, að það væri ekki eftir hugsanlega tilraun við að klóra eða grafa sig undan snúrunni, heldur í samræmi við að ákærður hafi þrýst þar á með höndunum í atferlinu.
Vitninu voru sýndar myndir af áverkum á hálsi líksins, sem fram koma á dskj. nr. 9, bls. 12 og 13 og bent á mar eða blæðingu í húð hjá hársverðinum hægra megin ofan við snúrufarið. Vitninu þótti farið of línulaga til að vera eftir hnút, en útilokaði það ekki, en reynsla vitnisins var sú, að ef hnúturinn er ekki við hársvörðinn, sjáist oftast hnútaför eftir kyrkingu eða hengingu.
IV.
Undir rannsókn málsins gekkst ákærður undir það að fara í geðrannsókn og var Sigurði Páli Pálssyni, geðlækni, [...], falin geðrannsóknin. Í niðurlagi geðheilbrigðisskýrslu hans um ákærða kemur þetta fram.
"Samantekt geðskoðunar og viðtala.
Magnús á við að stríða verulega fælni frá barnsaldri sem eykst á unglingsárum. Fælni og þráhyggjueinkenni hafa gert hann mjög óöruggan í mann-legum samskiptum. Líklegast gæti þetta hafa stuðlað að atburðarás þeirri sem síðar varð.
Magnús hefur ekki "profíl" afbrotamanns og er líklegt að andlegur veikleiki hans hafi stuðlað að því að sú staða kom upp að hann að lokum missir stjórn á sér.
Mat mitt er að taka verði mark á frásögn Magnúsar um atburðarrás að mörgu leyti, þó eyður séu í frásögn hans og vissar misfellur við lögregluskýrslu (sjá einnig sjálfstætt mat sálfræðings). Magnús var örugglega undir miklum hugaræsingi er atburður átti sér stað.
Niðurstöður.
1. Það er niðurstaða mín að Magnús sé sakhæfur og ábyrgur gerða sinna.
2. Geðskoðun sýnir ekki nein örugg einkenni sturlunar, rugls eða ranghugmynda. Engin merki komu fram sem benda til persónuleikabreytinga af völdum vefrænna skemmda.
3. Magnús á ekki við að stríða alvarlegan geðsjúkdóm (í venjulegum skilningi laga) en hann hefur verið fælinn, kvíðinn, lokaður og mjög óöruggur með sjálfan sig á löngum tímabilum. Það er mat mitt að andleg vandamál Magnúsar útskýri atburðarrás þá sem átti sér stað fyrir morðið og við verknað. Ekki er hægt aðstæðna vegna að meta í greinargerð þessari hlut [A] í atburðarrásinni. Slíkt verður dómurinn sjálfur að meta.
4. Magnús þarf örugglega áfram mikla sálgæslu og stuðning til að vinna úr þessu áfalli. Þó hann lýsi illa þunglyndi sínu tel ég að hann sé á köflum mjög lífsleiður og fylgjast verði því vel með honum. Þó ekki komi fram nú við þessa geðrannsókn að Magnús þoli ekki fangelsisvist á að endurskoða það reglulega."
Sigurður hefur borið vitni hér fyrir dómi og staðfest framangreinda skýrslu. Það kvað hafa komið fram þunglyndiseinkenni hjá ákærða, en engin merki um andfélagslega hegðun, en undir miklu álagi gæti hann orðið hvatvísari. Það taldi að hlaðist hafi upp spenna og misskilningur hjá ákærða og hann svo misst stjórn á sér, er eiginkonan hafi sagt frá undangengnum atvikum (framhjáhaldi o.fl.) Það taldi ekki að ákærður hafi framið kyrkinguna í afbrýðiskasti, heldur í "panik" og innibyrgð reiði hafi brotist fram. Það kvað það, að hjá ákærða brýst út mikil reiði, geta haft áhrif á minni hans. Þetta geti verið ýmist þannig að menn muni betur eða að menn missi út ákveðin atriði.
Það kvað það ekki passa við þá heildarmynd sem það hefði af ákærða að hann hafi undirbúið kyrkinguna t.d. sótt band, búið til hnúta eða lykkjur o.s.frv.
Sálfræðimat það sem vísað er til í geðheilbrigðisskýrslu, vann Jón Friðrik Sigurðsson, sálfræðingur, [...] og kemur þetta fram í samantekt.
"Hér að framan hefur eiginleikum, ástandi og takmörkunum Magnúsar verið lýst í stuttu máli til að gefa sem skýrasta mynd af honum og viðbrögðum hans aðfaranótt 1. nóvember 2004, þegar hann varð konu sinni að bana. Oft getur verið erfitt að átta sig á því hvað verður til þess að menn fremja verknað eins og þennan og að meta hversu trúverðugir þeir eru í lýsingum sínum og útskýringum. Eins og að framan greinir virðist Magnús trúverðugur í flestu því sem hann segir um sjálfan sig og viðbrögð sín þessa afdrifaríku nótt þótt ekki sé fullkomlega öruggt að treysta framburði hans og ýmislegt í honum sé óljóst og jafnvel ótrúverðugt eins og lýsing hans á hegðun konu sinnar. Ekkert bendir þó til þess að hann hafi skiplagt verknaðinn fyrirfram.
Myndin hér fyrir neðan er tilraun til að setja það, sem fram hefur komið hér að ofan, í einfalt skema til að skýra samhengi persónueinkenna og takmarkana Magnúsar við tilfinningar hans og hegðun í aðdraganda þess að hann varð konu sinni að bana. Nokkuð ljóst er að persónueinkenni hans og viðkvæmni gerðu það að verkum að hann varð mjög háður konu sinni og þegar brestir komu í samband þeirra og hún fór fram á skilnað varð hann kvíðinn og óöruggur og reyndi allt hvað hann gat til að gera henni til hæfis. Hún átti í sambandi við annan mann sem gerði hann tortrygginn, þannig að hann fylgdist með henni og yfirheyrði hana um hvert hún fór og hvað hún var að gera. Hann byrgði inni reiði sína og reyndi jafnvel að telja sér trú um að ástandið væri ekki eins alvarlegt og það reyndist. Aðfaranótt 1. nóvember 2004, þegar hann segir að hún hafi játaði að hafa verið með öðrum mönnum og lýst kynferðislegu sambandi við þá í smáatriðum, þá missti hann stjórn á reiði sinni og varð henni að bana.
[Mynd]
Jón Friðrik staðfesti hér fyrir dómi skýrslu sína.
Vitnið tók fram að þegar það tali um að ákærður taki ekki fulla ábyrgð á gerðum sínum, eigi það við brot hans og í sambandi við það, vísi það til brots ákærða og að hann hafi misst stjórn á sér, en almennt séð, beri hann fulla ábyrgð á gerðum sínum.
Það sagði að miðað við lýsingar ákærða á sjálfum sér, passar það nokkuð vel, að hann hafi tilhneigingu til að gera lítið úr erfiðleikum sem hann mætir. Hann hefur verið háður konu sinni og allt sem ruggaði bátnum hafði raunverulega endað þannig, að hann gerði sem minnst úr því til að halda friðinn eða bjarga sér út úr aðstæðum. Það kvað ekkert benda til að það hefði skert minni um atburðarrásina og hafði ekki merkt minnisglöp, vegna þess að það missti stjórn á sér. Það kvað ekkert í rannsókn þess útiloka, að ákærður væri að segja alveg rétt frá um aðdragandann að dauða A.
V. Málsniðurstöður.
Með játningu ákærðs, sem er í samræmi við rannsóknargögn málsins, er sannað að ákærður banaði eiginkonu sinni A aðfararnótt 1. nóvember 2004 í með kyrkingu í íbúð þeirra að Hamraborg [...], Kópavogi.
Í málinu verður við það miðað, að við kyrkinguna hafi verið notað sundurskorið plastband sem fannst ofan á kommóðu á gangi íbúðarinnar er lögreglan var kvödd á staðinn.
Ekki er unnt að fullyrða nákvæmlega hvernig kyrkingin fór fram en bæði ákomur á líki A, ummerki í íbúðinni og framburður nágrannakonu benda til þess að átök hafi átt sér stað skömmu fyrir dauða hennar og það fær stoð í krufningarskýrslu og framburði Þóru Steffensen réttarmeinafræðings að um harkaleg átök hafi verið að ræða. Þegar allt er virt sem á undan var gengið og lýst hefur verið hér að framan verður að telja að ákærður hafi orðið reiður, afbrýðissamur og niðurlægður og fer ekki á milli mála að hann er í andlegu ójafnvægi og ráðvilltur umrædda nótt. Um samskipti ákærðs og A umrædda nótt skömmu fyrir kyrkinguna er einungis við frásögn ákærðs að styðjast. Frásögn hans um að verknaður hans hafi tengst ætlaðri sjálfsvígstilraun A telur dómurinn ótrúverðuga. En á hinn bóginn verður frásögn ákærðs um að A hafi skýrt honum frá kynferðislegum samskiptum sínum við aðra menn og lýst þeim í smáatriðum eigi vísað á bug.
Það verður að telja ósannað að ákærður hafi haft fyrirfram mótaðan ásetning til að bana konu sinni, heldur er það mat réttarins að um skyndiásetning hafi verið að ræða hjá ákærðum, sem mótast hafi rétt fyrir kyrkinguna. Þá hafði ákærður orðið gripinn ofsahræðslu og út hafi brotist innibyrgð reiði sem hafi leitt til þess að hann hafi framið verknaðinn í örvæntingu. Honum hlaut samt að hafa verið ljóst að miðað við hve miklu afli hann beitti er hann herti bandið að hálsi A að yfirgnæfandi líkur væru til þess að hún hlyti bani af. Verður verknaður ákærða felldur undir 211. gr. almennra hegningarlaga.
Ljóst er af því sem fram hefur komið í málinu að ákærður vann verknaðinn í mikilli geðshræringu, reiði og geðæsingu og þykja refsilækkunarheimildir 4. tl. 1. mgr. 74. gr. og 75. gr. almennra hegningarlaga eiga hér við. Einnig þykir 9. tl. 74. gr. laganna geta átt við að hluta en hins vegar verður að meta það ákærðum til refsiþyngingar að hann bregst ekki strax við er honum rennur reiðin og hringir á neyðaraðstoð er hann fann þá lífsmark með A og hann afmáir og verksummerki.
Ákærður hefur ekki áður sætt refsingu er hér skipti máli.
Að öllu virtu í máli þessu, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 9 ár, en samkvæmt heimild í 76. gr. almennra hegningarlaga ber að draga gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 1. nóvember 2004 til dagsins í dag frá refsingunni.
Bótakröfur:
Af hálfu B, [...] er gerð krafa um bætur að fjárhæð kr. 6.670.346 og standa afi hennar og amma, D, [...] og E, [...], sem falin hefur verið forsjá hennar að bótakröfunni fyrir hennar hönd en krafan sundurliðast þannig:
1. Vegna missi framfæranda sbr. 14. gr. skaðabótalaga, lágmarkslífeyris frá 1. nóvember 2004 til 18 ára aldurs kr. 2.670.346.
2. Miski skv. 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga kr. 4.000.000.
Fallist er á kröfuna um bætur vegna missi framfæranda óbreytta, en miskabætur þykja hæfilega ákveðnar kr. 2.600.000.
Af hálfu C, [...] er gerð krafa um kr. 7.350.372 í bætur og standa af hans hálfu afi hans og amma, D, [...] og E, [...] að kröfunni, en þau hafa forsjá hans,.
Krafan sundurliðast þannig:
1. Vegna missi framfæranda sbr. 14. gr. skaðabótalaga, lágmarkslífeyris frá 1. nóvember 2004 til 18 ára aldurs kr. 3.350.352.
2. Miski skv. 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga kr. 4.000.000.
Fallist er á kröfuna um bætur vegna missi framfæranda óbreytta, en miskabætur þykja hæfilega ákveðnar kr. 2.600.000.
Foreldrar A, D og E, gera hvort um sig kröfu um kr. 1.500.000 í miskabætur skv. 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga og er fallist á kröfuna þannig að miskabæturnar þykja hæfilegar kr. 1.000.000 til hvors þeirra.
Allir bótakrefjendur krefjast vaxta á dæmdar fjárhæðir bóta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. nóvember 2004 til 15. mars 2005, en svo dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags. Fallist er á þetta. , en vextir af miskabótakröfunn reiknast frá deginum í dag.
Þórdís Bjarnadóttir hdl. gerði bótakröfurnar fyrir alla bótakrefjendur, en hún var réttargæslumaður þeirra við rannsókn málsins hjá lögreglu og hefur krafist fyrir hönd þeirra lögmannsþóknunar vegna gerð bótakrafna í málinu og þykir hún hæfilega ákveðin kr. 112.500 vegna kröfugerðar fyrir B, kr. 112.500. vegna C, kr. 68.475 vegna D og einnig kr 68.475 vegna E og hefur í öllum tilvikum verið tekið tillit til virðisaukaskatts á lögmannsþóknunina.
Sakarkostnaður:
Dæma ber ákærða til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Kristins Bjarnasonar hæstaréttarlögmanns, sem þykja hæfilega ákveðin 860.000 krónur auk 24,5% virðisaukaskatts og annan sakarkostnað sem gerð hefur verið grein fyrir og nemur kr. 1.465.085 krónum. Við ákvörðun málsvarnarlauna hefur verið tekið tillit til starfa verjandans á rannsóknarstigi málsins.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari.
Guðmundur L. Jóhannesson, Finnbogi H. Alexandersson og Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómarar kváðu upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærður, Magnús Einarsson, sæti fangelsi í 9 ár, en gæsluvarðhaldsvist hans frá 1. nóvember 2004 til dagsins í dag komi með fullri dagatölu til frádráttar refsingu þessari.
Ákærður greiði B dóttur sinni, [...], kr. 5.270.346 auk vaxta skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. nóvember 2004 til 15. mars 2005, en dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags auk kr. 112.500 að meðtöldum virðisaukaskatti vegna lögmannsaðstoðar Þórdísar Bjarnadóttur hdl.
Ákærður greiði C syni sínum, [...], kr. 5.950.000 auk vaxta skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. nóvember 2004 til 15. mars 2005, en dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags auk kr. 112.500 að meðtöldum virðisaukaskatti vegna lögmannsaðstoðar Þórdísar Bjarnadóttur hdl.
Ákærður greiði D og E, [...], hvoru um sig kr. 1.000.000 auk vaxta skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. nóvember 2004 til 15. mars 2005, en dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags auk þessa greiði hann hvoru um sig kr. 68.475 að meðtöldum virðisaukaskatti vegna lögmannsaðstoðar Þórdísar Bjarnadóttur hdl.
Ákærður greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Kristins Bjarnasonar hæstaréttarlögmanns 860.000 krónur og annan sakarkostnað að fjárhæð 1.465.085 krónur.