Hæstiréttur íslands
Mál nr. 257/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Mánudaginn 20. júní 2005. |
|
Nr. 257/2005. |
Ákæruvaldið(Bogi Nilsson ríkissaksóknari) gegn X (Jón Egilsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. júní 2005. Kærumálsgögn bárust réttinum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júní 2005, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, en þó ekki lengur en til miðvikudagsins 13. júlí 2005 kl. 16.00. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur.
Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði hefur varnaraðili sætt gæsluvarðhaldi allt frá því hann var handtekinn 27. október 2004, fyrst á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr 19/1991, en frá 9. desember 2004 á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laganna samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann dag, sem staðfestur var í Hæstarétti 13. desember 2004 í máli nr. 489/2004. Gekk síðast um þetta dómur Hæstaréttar 9. maí 2005 í máli nr. 190/2005, þar sem staðfestur var úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. maí 2005 um gæsluvarðhald varnaraðila til 15. júní 2005. Ákæra var gefin út á hendur honum 9. maí 2005 og var málið dómtekið 1. júní sl. að loknum aðalflutningi. Dóms er að vænta í málinu á næstu dögum, sbr. 2. mgr. 133. gr. laga nr. 19/1991.
Fyrir liggur að Hæstiréttur hefur í fyrri dómum sínum um gæsluvarðhald varnaraðila talið skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 uppfyllt. Ekki eru efni til þess að breyta því mati nú. Með hliðsjón af þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur um gæsluvarðhaldsvist varnaraðila, þó þannig að gæsluvarðhaldinu verði markaður sá tími, sem greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur, þó þannig að gæsluvarðhald yfir varnaraðila, X, standi eigi lengur en til föstudagsins 1. júlí 2005 kl. 16.00.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júní 2005.
Ríkissaksóknari hefur krafist þess að X, kt. [...], [...], verði með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, en þó ekki lengur en til miðvikudagsins 13. júlí nk. kl. 16.00.
Í greinargerð ríkissaksóknara kemur fram að honum hafi þann 30. mars sl. borist til meðferðar mál frá lögreglunni í Reykjavík er varði stórfellt fíkniefnabrot ákærða o.fl. Af gögnum málsins megi ráða að ákærði sé undir sterkum grun um aðild að innflutningi á 7.649,98 g af amfetamíni til landsins. Umrædd fíkniefni hafi verið keypt í Hollandi í byrjun júlí 2004 og send til Íslands frá Þýskalandi með skipi sem hafi komið til landsins 19. s.m. Hafi fíkniefnin fundist við leit tollvarða í sendingunni. Þáttur ákærða í málinu sé talin verulegur þar sem hann sé grunaður um að hafa staðið að skipulagningu, fjármögnun og kaupum á fíkniefnunum. Ákærði neiti sök. [...]
[...] Hafi Hæstiréttur því ítrekað tekið undir það álit ákæruvalds að fyrir liggi sterkur grunur um að ákærði hafi framið brot sem geti varðað hann allt að 12 ára fangelsi, sbr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 64/1974, sbr. lög nr. 32/2001. Ákærði hafi setið í gæsluvarðhaldi frá 27. október 2004, fyrst á grundvelli rannsóknarhagsmuna en með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 9. desember 2004, sem staðfestur hafi verið í Hæstarétti þann 13. sama mánaðar, á grundvelli almannahagsmuna.
Ríkissaksóknari hafi gefið út ákæru í málinu þann 9. maí sl. aðalmeðferð málsins verið haldin 31. maí til 1. júní sl. og því sé dóms að vænta á næstu dögum, sbr. mál Héraðsdóms Reykjavíkur nr. S-713/2005.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna, 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, og dóma Hæstaréttar í málum kærða nr. 432/2004, 470/2004, 489/2004, 32/2005, 92/2005, og 143/2005, sé þess krafist að framangreind krafa nái fram að ganga.
Ákærði var handtekinn þann 27. október 2004 og hefur sætt gæsluvarðhaldi síðan. Á gæsluvarðhaldstímabilinu hefur ákærði neitað allri aðild að málinu og talið framkomnar upplýsingar frá öðrum sakborningum rangar og ósannaðar, [...]. Með dómum Hæstaréttar Íslands, síðast í málinu nr. 143/2005, var talið að brot þau er ákærði væri undir grun um að hafa framið væru þess eðlis að telja yrði að gæsluvarðhald væri nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Væri því fullnægt skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til gæsluvarðhalds yfir ákærða. Á þessu hefur ekki orðið breyting. Ríkissaksóknari gaf út ákæru í málinu þann 9. maí sl. aðalmeðferð málsins er lokið og er dóms að vænta á næstu dögum. Skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 er fullnægt samkvæmt framansögðu og verður krafa ríkissaksóknara um gæsluvarðhald tekin til greina eins og hún er fram sett.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 13. júlí nk. kl. 16.00.