Hæstiréttur íslands
Mál nr. 475/2007
Lykilorð
- Áfrýjun
- Áfrýjunarfrestur
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Fimmtudaginn 8. maí 2008. |
|
Nr. 475/2007. |
Ákæruvaldið(Kolbrún Sævarsdóttir, saksóknari) gegn X (Einar Gautur Steingrímsson hrl.) |
Áfrýjun. Áfrýjunarfrestur. Frávísun máls frá Hæstarétti.
Bréf X þar sem hún lýsti þeirri ákvörðun sinni að áfrýja dómi á hendur sér til Hæstaréttar barst ríkissaksóknara 30. mars 2007. Þann 11. apríl 2007 var dómurinn birtur fyrir X og var þar skráð að hún tæki áfrýjunarfrest. Þann 30. apríl 2007 sendi ríkissaksóknari X og verjanda hennar bréf þar sem óskað var eftir frekari útlistun á því að hvaða ákæruliðum krafa X um sýknu laut. Tilkynning lögmanns X um áfrýjun dómsins barst ríkissaksóknara ekki fyrr en 28. ágúst 2007 og var þá áfrýjunarfrestur löngu liðinn, sbr. 2. mgr. 151. gr. laga nr. 19/1991, auk þess sem sú tilkynning uppfyllti ekki skilyrði ákvæðisins um efni slíkrar yfirlýsingar. Var því talið að annmarkar á tilkynningu X um áfrýjun hafi leitt til þess að áfrýjunarstefna hafi verið gefin út eftir að liðnar voru átta vikur frá uppkvaðningu héraðsdóms og var áfrýjun af hálfu ákæruvaldsins því ekki studd við 152. gr. laga nr. 19/1991. Var málinu því sjálfkrafa vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 30. ágúst 2007 að fenginni yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur.
Ákærða krefst nú sýknu af liðum 2.1 og 2.3 í ákæru 26. september 2006 og sýknu af ákæru 23. október 2006. Að öðru leyti krefst ákærða þess að henni verði ekki gerð frekari refsing en hún fékk með dómum Héraðsdóms Reykjaness 15. desember 2006 og Héraðsdóms Suðurlands 26. júlí 2006.
I
Hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp 20. mars 2007. Ákærða var ekki viðstödd uppkvaðningu hans, en þar var hins vegar verjandi hennar. Hinn 27. mars 2007, sendi ákærða ríkissaksóknara svofellt bréf:: „Efni: Yfirlýsing um áfrýjun. Með vísan til XVIII. kafla laga nr. 19/1991 óskar dómfellda [...] yfir áfrýjun á dómi Héraðsdóms Reykjavíkur [...] sem kveðinn var upp þ. 20. mars sl. en hefur ekki enn verið birtur dómfellda. Áfrýjað er í því skyni að fá sýknudóm að hluta og lækkun refsivistar, sem undirritaðri þykir allt of þung.“
Bréf þetta er stimplað um móttöku ríkissaksóknara 30. mars 2007. Þann 11. apríl 2007 var dómurinn birtur fyrir ákærðu. Þar var skráð að hún tæki áfrýjunarfrest. Þann 30. apríl 2007 sendi ríkissaksóknari ákærðu og verjanda hennar í héraði bréf þar sem segir meðal annars: „Í héraðsdóminum er fjallað um fjórar ákærur á hendur yður og eru ákæruliðir á annan tug. Þér voruð sýknuð af þremur ákæruliðum og þar með af ákæru dagsettri 16. október 2006 að öllu leyti. Ef þér viljið áfrýja í því skyni að „fá sýknudóm að hluta“ eins og segir í áfrýjunaryfirlýsingu yðar er nauðsynlegt, til þess að unnt verði að gefa út áfrýjunarstefnu í málinu, að fram komi að hvaða ákæruliðum krafan um sýknu lýtur. Embætti ríkissaksóknara mun veita yður aðstoð við ritun áfrýjunaryfirlýsingar ef þér óskið eftir.“
Hinn 28. ágúst 2007 barst ríkissaksóknara bréf frá verjanda ákærðu í héraði, sem dagsett er 9. maí 2007. Þar segir: „Varðar: Bréf saksóknara vegna áfrýjunaryfirlýsingar [...] Ofangreindur aðili hefur farið þess á leit að undirritaður lögmaður aðstoði hana vegna umrædds. Svo sem fram kemur í bréfi embættisins er í héraðsdómi sýknað af þremur ákæruliðum og er ekki óskað eftir áfrýjun er þá varðar. Þeir ákæruliðir sem óskað er sýknu af, eða lækkunar refsingar eru eftirfarandi: [...] Auk þess er krafist sýknu af bótakröfum, á þeim grundvelli að þær séu ósannaðar og vanreifaðar.“
Hinn 29. ágúst 2007 ritaði ríkissaksóknari lögmanni ákærðu svofellt bréf: „Í gær, 28. ágúst, barst símsent bréf yðar, dagsett 9. maí sl., þar sem lýst er kröfum X, sbr. áfrýjunaryfirlýsingu hennar, dagsetta 27. mars sl. og bréf þessa embættis, dagsett 30. apríl sl. Þótt bréf yðar, dagsett 9. maí sl., hafi ekki borist þessu embætti fyrr en í gær verður nú gefin út áfrýjunarstefna vegna dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. [...] með tilliti til áfrýjunaryfirlýsingar X, dagsettrar 27. mars sl., sbr. og bréf yðar dagsett 9. maí sl. en móttekið 28. ágúst sl.“ Skráð er í bréfið að afrit þess væri sent ákærðu.
Eins og áður segir var áfrýjunarstefna gefin út 30. ágúst 2007 þar sem kom fram að ákærða hefði óskað áfrýjunar til sýknu á öllum ákæruliðum sem hún hefði verið sakfelld fyrir í héraði, en ella til mildunar refsingar svo og til sýknu af skaðabótakröfum, en jafnframt væri þá áfrýjað af ákæruvaldsins hálfu til staðfestingar á sakfellingum og refsiákvörðun héraðsdóms og ákvörðun hans um greiðslu skaðabóta. Í greinargerð ákærðu fyrir Hæstarétti komu síðan fram endanlegar kröfur hennar.
II
Fallist er á með ákærðu að hún eigi ríkan rétt til að fá endurskoðaðan áfellisdóm í sakamáli. Hins vegar kemur það ekki í veg fyrir að löggjafinn setji nánari reglur þar að lútandi, svo sem um fresti til áfrýjunar. Samkvæmt 2. mgr. 151. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála skal ákærði lýsa yfir áfrýjun dóms með bréflegri tilkynningu til ríkissaksóknara innan fjögurra vikna frá birtingu dóms, þegar birtingar hefur verið þörf samkvæmt 3. mgr. 133. gr. laganna, en ella innan þess tíma frá uppkvaðningu hans. Í tilkynningunni skal tekið nákvæmlega fram í hverju skyni sé áfrýjað, þar á meðal varðandi kröfur samkvæmt XX. kafla ef því er að skipta. Ríkissaksóknara og öðrum ákærendum er skylt að veita ákærða leiðbeiningar um gerð tilkynningar ef eftir því er leitað. Eins og að framan er rakið lýsti ákærða yfir áfrýjun 27. mars 2007 áður en henni hafði verið birtur dómurinn með formlegum hætti en verjandi hennar í héraði hafði verið viðstödd dómsuppsöguna. Á það skorti að tilkynning ákærðu hafi uppfyllt kröfur laganna eins og ríkissaksóknari benti á í bréfi sínu til hennar og verjandans 30. apríl 2007. Við birtingu dómsins 11. apríl 2007 ritaði ákærða nafn sitt undir yfirlýsingu um að hún hefði tekið við leiðbeiningum um rétt til áfrýjunar og að hún tæki sér áfrýjunarfrest. Hins vegar barst tilkynning lögmanns hennar um áfrýjun dómsins ekki til ríkissaksóknara fyrr en 28. ágúst 2007. Var þá áfrýjunarfrestur löngu liðinn, sbr. 2. mgr. 151. gr. laga nr. 19/1991 auk þess sem sú tilkynning uppfyllti ekki heldur skilyrði ákvæðisins um efni slíkrar yfirlýsingar.
Í 152. gr. laga nr. 19/1991 segir að hyggist ríkissaksóknari áfrýja héraðsdómi skuli áfrýjunarstefna gefin út innan átta vikna frá uppkvaðningu hans. Ef ákærði áfrýjar dómi getur ríkissaksóknari áfrýjað honum af hálfu ákæruvalds þótt sá frestur sé liðinn. Það ákvæði gildir eðli málsins samkvæmt því aðeins að yfirlýsing ákærða um áfrýjun hafi verið fullnægjandi. Áfrýjunarstefna var gefin út eftir að liðnar voru átta vikur frá uppkvaðningu héraðsdóms og verður áfrýjun af hálfu ákæruvalds því ekki studd við 152. gr. laganna.
Samkvæmt öllu framanrituðu leiða annmarkar á tilkynningu ákærðu um áfrýjun héraðsdóms til þess að málinu verður sjálfkrafa vísað frá Hæstarétti. Ákærðu verður jafnframt gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og í dómorði greinir.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Ákærða, X, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins 143.410 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Einars Gauts Steingrímssonar hæstaréttarlögmanns, 124.500 krónur.