Hæstiréttur íslands
Mál nr. 306/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Dánarbússkipti
|
|
Miðvikudaginn 14. júní 2006. |
|
Nr. 306/2006. |
A(Dögg Pálsdóttir hrl.) gegn B (Hanna Lára Helgadóttir hrl.) |
Kærumál. Dánarbússkipti.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að nánar tilgreindir eignarhlutar í tveimur fasteignum væru eign B og kæmu því ekki til skipta við opinber skipti á dánarbúi föður hans.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. maí 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. júní sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. maí 2006, þar sem leyst var úr ágreiningi aðilanna um réttindi þeirra við skipti á dánarbúi C. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að kröfum varnaraðila verði hafnað, en verði þær í einhverju teknar til greina krefst sóknaraðili að viðurkennt verði að hann eigi inni hjá dánarbúinu ógreiddan arf eftir móður aðilanna, D. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess aðallega að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur, en til vara að viðurkennt verði að honum beri að fá greitt að óskiptu úr dánarbúinu 725.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. ágúst 2005 til greiðsludags, svo og að hann eigi 1/18 hluta í sumarhúsi að E. Í báðum tilvikum krefst hann kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, A, greiði varnaraðila, B, 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. maí 2006.
Málið barst dómnum 2. desember sl. Það var þingfest 13. janúar sl. og tekið til úrskurðar 25. apríl sl.
Sóknaraðili er B, [heimilisfang].
Varnaraðili er A, [heimilisfang].
Sóknaraðili krefst þess “að viðurkennt verði að hann eigi 8,63% íbúðar merktri 02-0102 og 09-0101 að F, eða sem svarar þeim hluta arfs eftir móður sóknaraðila, sem faðir sóknaraðila ráðstafaði til kaupa á fasteigninni. Eignarhluti þessi sem svarar 17,26% eignarhluta dánarbús föður sóknaraðila, C, [kt.], í fasteigninni, falli að óskiptu dánarbúinu í hlut sóknaraðila. Til vara er þess krafist að kr. 725.000 verði greiddar sóknaraðila úr óskiptu dánarbúinu auk vaxta skv. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. ágúst 2005 til greiðsludags. Þá er þess krafist að viðurkennt verði að sóknaraðili eigi 1/18 hlut í sumarhúsinu að E.” Þá er krafist málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað, en verði “fallist á einhverja(r) af kröfum sóknaraðila eða allar krefst varnaraðili þess að viðurkennt verði að hann eigi móðurarf inni í dánarbúi C [kt.].” Þá er krafist málskostnaðar.
II
Aðilar málsins eru albræður, synir hjónanna C og D er lést [...] 1969. C lést [...] 2004. Búi D var skipt einkaskiptum og er skiptagerðin dagsett 7. mars 1975 og sömuleiðis erfðafjárskýrslan. Auk framangreindra manna var sonur D erfingi hennar. Þegar skiptin voru gerð voru hann og varnaraðili fjárráða, en sóknaraðili var þá tæplega 11 ára og var móðursystir hans réttargæslumaður hans við skiptin, eins og það er orðað. Í skiptagerðinni kemur fram að hver bræðranna þriggja fékk í sinn hlut tiltekna fjárhæð, en síðan segir að hlutur sóknaraðila greiðist þannig að meginhluti fjárhæðarinnar greiðist með 1/9 hlut í íbúð að G, hluti með 1/9 hlut í sumarbústað og afgangurinn með peningum. Svo segir orðrétt: “Að öðru leyti heldur eftirlifandi maki eignum búsins en greiðir fjárráða meðerfingjum sínum hluti þeirra á þann hátt, sem þeir hafa orðið sammála um.” Sama dag og skiptin fóru fram gáfu fjárráða erfingjar og réttargæslumaður sóknaraðila út skiptayfirlýsingu sem ber með sér að hafa verið þinglýst. Samkvæmt henni varð sóknaraðili eigandi að framangreindum hlut í íbúðinni að G, en faðir hans átti 8/9 hluta. Á sama hátt varð hann eigandi að 1/18 hlut í sumarbústað að E.
Með bréfi 28. júní 1977 var þess óskað að borgarfógeti í Reykjavík samþykkti að hlutur sóknaraðila í íbúðinni á G yrði seldur og í staðinn eignaðist sóknaraðili 1/16 hlut í íbúð að H. Þá íbúð hafði C keypt í janúar sama ár ásamt I. Þau voru þá í þann mund að ganga í hjónaband og gerðu af því tilefni kaupmála 23. júní sama ár. Þar er hálf íbúðin við H og hálfur sumarbústaðurinn tilgreind séreign C, en ekki minnst á að sóknaraðili eigi hlut í þessum eignum. Í skjölum varðandi kaup þeirra á íbúðinni er hvergi minnst á að sóknaraðili eigi hlut í henni og heldur ekki þegar hún var síðar seld. Hið sama er að segja um það þegar C seldi íbúðina við G í ágúst 1978. Í stað íbúðarinnar við H keyptu þau C og I íbúð við F, en það er í þeirri íbúð sem sóknaraðili krefst þess að viðurkennt verði að hann eigi hlut. Í kaupsamningnum um íbúðina er þess ekki getið að sóknaraðili eigi hlut í henni.
Að C látnum sóttu synir hans, aðilar málsins, um leyfi til einkaskipta og var þeim veitt það 19. júlí 2004. Í umsókninni tilgreina þeir eignir og skuldir og í reit yfir skuldir er getið um kröfu sóknaraðila vegna móðurarfs, en ekki er getið um samskonar kröfu varnaraðila. Aðilar náðu ekki samkomulagi um að skipta búinu og var málinu vísað til sýslumanns sem krafðist opinberra skipta og var úrskurður um það kveðinn upp 11. október sl. Hjá skiptastjóra héldu aðilar því fram að þeir ættu báðir ógreiddan móðurarf í búi föður þeirra. Skiptastjóra tókst ekki að jafna ágreininginn og vísaði hann því málinu til dómsins.
III
Sóknaraðili byggir á því að honum hafi aldrei verið greiddur út allur móðurarfur sinn, heldur hafi hann upphaflega eignast hlut í íbúðinni við G og þegar hún var seld hafi hann eignast hlut í íbúðinni við H og loks í íbúðinni við F. Engu breyti þótt eignarhlut hans hafi ekki verið þinglýst, enda hafi bæði föður hans og stjúpu verið ljóst að hann ætti hlut íbúðunum. Á sama hátt eigi hann eignarhlut í sumarbústaðnum, en honum hafi heldur ekki verið þinglýst á nafn hans. Einnig byggir sóknaraðili á því að varnaraðili hafi með undirritun sinni á umsókn um einkaskiptin samþykkt að sóknaraðili ætti ógreiddan móðurarf eins og þar sé tilgreint. Varnaraðila hafi hins vegar verið greiddur út hans arfur á sínum tíma, eins og gögn málsins beri með sér, og eigi hann því ekki kröfu um arf eftir móður þeirra nú.
Af hálfu varnaraðila er á því byggt að krafa sóknaraðila til móðurarfs sé fallin niður vegna tómlætis hans við að halda honum fram. Hann hafi þannig ekki hirt um að láta þinglýsa eignarhluta sínum í íbúðunum við H og F. Verði hins vegar talið að ekki sé um tómlæti að ræða þá er á því byggt að krafa sóknaraðila sé fallin niður vegna fyrningar, sbr. 2. tl. 4. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Verði fallist á kröfur sóknaraðila að einhverju leyti byggir varnaraðili á því að honum beri arfshluti úr búinu eftir móður sína. Faðir aðila hafi aldrei greitt sér móðurarfinn, heldur hafi varnaraðili tekið lán til að styðja föður sinn í því að greiða hálfbróður sínum hans arfshluta. Faðirinn hafi greitt lánið en aldrei greitt varnaraðila móðurarf hans.
IV
I, seinni kona C, bar að hann hefði skýrt sér frá því, áður en þau giftu sig, að hann hefði greitt varnaraðila og stjúpsyni sínum út móðurarf þeirra. Öðru máli hafi hins vegar gegnt um arfshluta sóknaraðila, en hann hafi átt hlut í framangreindum íbúðum og var það hans móðurarfur. Þá hafi hann og átt hlut í sumarhúsinu.
Varnaraðili bar að honum hefði ekki verið greiddur út móðurarfur á sínum tíma, heldur hafi hann tekið lán til að faðir hans gæti greitt hálfbróður hans arfinn. Hann kannaðist enn fremur við að þeir feðgarnir, aðilar málsins og faðir þeirra, hafi átt með sér fund þar sem fram hafi komið að sóknaraðili ætti ógreiddan arf eftir móður sína og hafi átt að greiða hann við andlát föðurins. Bar varnaraðili að sér hafi verið ljóst að sóknaraðili ætti ógreiddan móðurarf hjá föður þeirra. Á þessum fundi var ekki rætt um að varnaraðili ætti ógreiddan móðurarf. Eftir andlát föðurins ræddu aðilar hins vegar saman og hélt varnaraðili því þá fram við sóknaraðila að hann ætti ógreiddan arfshlutann. Varnaraðili kvaðst aldrei hafa rætt það við föður sinn að eftir væri að greiða honum arfinn og aldrei farið fram á að fá hann greiddan. Hann hafi hins vegar tjáð sóknaraðila þetta strax eftir andlát föðurins.
Varnaraðili hefur þannig viðurkennt að sóknaraðili eigi ógreiddan móðurarf í búi föður aðila og verður því fallist á þá kröfu sóknaraðila, sbr. 1. mgr. 50. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Aðalkrafa sóknaraðila er að viðurkennt verði að hann eigi eignarhlut í fasteignum. Slíkar kröfur falla ekki niður fyrir tómlæti eða fyrningu og er hafnað þeim málsástæðum varnaraðila. Þá er og ekki ágreiningur um stærð eignarhlutanna í þeim tveimur fasteignum sem sóknaraðili gerir kröfu til. Eftir stendur því aðeins að úrskurða um hvort varnaraðili eigi einnig ógreiddan móðurarf úr búi föður síns.
Meðal gagna málsins er skiptagerð í búi móður aðila frá 7. mars 1975. Hún er m.a. undirrituð af varnaraðila og kemur þar fram að faðir hans greiðir honum hans hlut í móðurarfinum á þann hátt sem þeir hafa orðið sammála um. Aðilar báðu um leyfi til einkaskipta á búi föður þeirra 16. júlí 2004 og láta þess þá getið að sóknaraðili eigi kröfu á búið vegna móðurarfs en ekkert er minnst á að varnaraðili eigi sams konar kröfu. Það virðist fyrst vera með bréfi lögmanns varnaraðila 1. júlí 2005 sem hann hefur þá kröfu uppi. Þá er þess að geta að seinni kona föður aðila bar að hann hefði sagt henni að hann hefði gert upp móðurarfinn við varnaraðila. Með vísun til þessa er það niðurstaða dómsins að varnaraðila hafi ekki tekist að sanna að hann eigi ógreiddan móðurarf sinn og er kröfu hans því hafnað.
Samkvæmt framansögðu verða kröfur sóknaraðila um að hann eigi hluti í framangreindum fasteignum teknar til greina, eins og nánar greinir í úrskurðarorði og varnaraðili jafnframt úrskurðaður til að greiða honum 150.000 krónur í málskostnað.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð
Viðurkennt er að sóknaraðili, B, eigi 8,63% hlut í íbúð, merkt 02-0102 og 09-0101 að F og 1/18 hlut í sumarhúsi að E.
Hafnað er kröfu varnaraðila, A, um að hann eigi ógreiddan móðurarf í dánarbúi C.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 150.000 krónur í málskostnað.