Hæstiréttur íslands
Mál nr. 428/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Málshöfðunarfrestur
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Föstudaginn 2. september 2011. |
|
Nr. 428/2011.
|
Þrotabú GV heildverslunar ehf. (Halldór Jónsson hrl.) gegn Jóhanni J. Ólafssyni (Ragnar Halldór Hall hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Málshöfðunarfrestur. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli þb. G ehf. á hendur J var vísað frá dómi, með vísan til þess að við málshöfðun hefði verið liðinn málshöfðunarfrestur samkvæmt 148. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Í dómi Hæstaréttar segir meðal annars að samkvæmt 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991 verði þrotabú að höfða mál til riftunar á ráðstöfun þrotamanns innan sex mánaða frá því að skiptastjóri átti þess kost að krefjast riftunar, en frestur þessi hefjist þó aldrei fyrr en við lok kröfulýsingarfrests. Með 2. mgr. 1. gr. laga nr. 31/2010 hafi reglunni verið breytt til bráðabirgða á þann veg að til ársloka 2012 skyldi málshöfðunarfrestur, sem þar um ræðir, vera tólf mánuðir. Mál þetta hafi ekki verið höfðað innan árs frá lokum kröfulýsingarfrests við skipti á þb. G ehf. og því ekki höfðað í tæka tíð. Þb. G ehf. bar einnig fyrir sig í málinu að það væri rekið til heimtu skaðabóta úr hendi J eftir almennum reglum en Hæstiréttur taldi að málið væri vanreifað að þessu leyti. Var úrskurður um að vísa málinu frá héraðsdómi því staðfestur af Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. júlí 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. júní 2011, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 12. júlí 2011. Hann krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti að því er varðar kæru sóknaraðila, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur að öðru leyti en því að sóknaraðila verði gert að greiða sér hærri fjárhæð í málskostnað en þar var ákveðin. Í báðum tilvikum krefst varnaraðili kærumálskostnaðar.
Á kæru sóknaraðila eru ekki þeir annmarkar að næg ástæða sé til að verða við aðalkröfu varnaraðila um að máli þessu verði vísað frá Hæstarétti.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði leitar sóknaraðili, sem áður bar heitið Jóhann Ólafsson & Co. ehf., með máli þessu riftunar á greiðslu skuldar félagsins við varnaraðila að fjárhæð 110.300.000 krónur, sem hafi verið innt af hendi samkvæmt samkomulagi 16. júní 2009 með afhendingu hluta í Hvítlist hf., auk þess sem sóknaraðili krefur varnaraðila um greiðslu á 350.000.000 krónum með nánar tilgreindum vöxtum frá síðastnefndum degi ásamt málskostnaði. Samkvæmt gögnum málsins var sóknaraðili tekinn til gjaldþrotaskipta 7. ágúst 2009 og er frestdagur við skiptin 30. júlí sama ár, en kröfulýsingarfresti mun hafa lokið 14. október 2009. Fyrir liggur að varnaraðili gerði skriflegt samkomulag við skiptastjóra sóknaraðila 7. apríl 2010, þar sem sá fyrrnefndi lýsti meðal annars yfir að hann féllist á að sóknaraðili myndi höfða mál á hendur sér til riftunar á ráðstöfunum félagsins þótt frestur til þess yrði liðinn, en það skyldi þó gert ekki síðar en 1. júní 2010. Sóknaraðili höfðaði á hinn bóginn mál þetta 31. janúar 2011, en með hinum kærða úrskurði tók héraðsdómur til greina kröfu varnaraðila um að því yrði vísað frá dómi, þar sem þá hafi verið liðinn málhöfðunarfrestur samkvæmt 148. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Samkvæmt 1. mgr. síðastnefndrar lagagreinar verður þrotabú að höfða mál til riftunar á ráðstöfun þrotamanns innan sex mánaða frá því að skiptastjóri átti þess kost að krefjast riftunar, en frestur þessi hefst þó aldrei fyrr en við lok kröfulýsingarfrests. Með 2. mgr. 1. gr. laga nr. 31/2010, sem tóku gildi 23. apríl á því ári, var reglu þessari breytt til bráðabirgða á þann veg að til ársloka 2012 skyldi málshöfðunarfrestur, sem þar um ræðir, vera tólf mánuðir. Án tillits til þess hvort lagabreyting þessi geti tekið til tilvika, þar sem sex mánaða frestur til málshöfðunar var liðinn við gildistöku hennar, verður ekki fram hjá því horft að mál þetta var ekki höfðað innan eins árs frá lokum kröfulýsingarfrests við gjaldþrotaskipti á sóknaraðila. Hann hefur ekki sýnt fram á að nokkur þau atvik hafi verið hér uppi, sem gætu leitt til þess að málshöfðunarfrestur teldist byrja að líða á síðara tímamarki en við lok kröfulýsingarfrests. Að því leyti, sem sóknaraðili reisir dómkröfur sínar á reglum XX. kafla laga nr. 21/1991, var málið af þessum sökum ekki höfðað í tæka tíð.
Að frágengnu því, sem að framan greinir, ber sóknaraðili fyrir sig að mál þetta sé rekið til heimtu skaðabóta úr hendi varnaraðila eftir almennum reglum. Um þetta er þess að gæta að í héraðsdómsstefnu er málatilbúnaður sóknaraðila í meginatriðum miðaður við að málið sé rekið til riftunar og endurheimt verðmæta samkvæmt ákvæðum XX. kafla laga nr. 21/1991, en í stefnu er aðeins lítillega rætt um skaðabætur eftir almennum reglum þar sem fjallað er um kröfu hans um greiðslu úr hendi varnaraðila. Málið er þannig ekki reifað í stefnu svo að viðhlítandi sé til þess að það geti gengið til efnisdóms einvörðungu um kröfu sóknaraðila um skaðabætur. Að þessu virtu verður staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar um að vísa málinu í heild frá dómi.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.
Sóknaraðili, þrotabú GV heildverslunar ehf., greiði varnaraðila, Jóhanni J. Ólafssyni, samtals 750.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. júní 2011.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar hinn 2. maí sl., að loknum munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu stefnda, var höfðað fyrir dómþinginu af Þrotabúi GV heildverslunar ehf., á hendur Jóhanni J. Ólafssyni, Kleifarvegi 5, Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu 31. janúar 2011.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að rift verði með dómi greiðslu að fjárhæð 110.300.000 krónur á skuld Jóhanns Ólafssonar & Co. ehf. við stefnda með yfirtöku á hlutum í Hvítlist hf. samkvæmt samkomulagi, dagsettu 16. júní 2009. Stefnandi krefst þess og að stefnda verði gert að greiða honum 350.000.000 króna ásamt vöxtum, samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 16. júní 2009 til 10. mars 2011, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að málinu verði vísað frá dómi, en til vara að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum krefst stefndi þess að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að skaðlausu.
Til þrautavara krefst stefndi þess að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og málskostnaður verði látinn falla niður.
Hinn 2. maí 2011 fór fram munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu stefnda og er einungis sá þáttur málsins til úrlausnar hér. Dómkröfur stefnanda í þessum þætti málsins eru þær að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað.
Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, áður en úrskurður var kveðinn upp.
II
Málavextir eru þeir, að með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 7. ágúst 2009, var bú GV heildverslunar ehf. tekið til gjaldþrotaskipta. Halldór Jónsson hdl. var skipaður skiptastjóri búsins. Frestdagur við skiptin var 30. júlí 2009, en þann dag barst héraðsdómi beiðni um gjaldþrotaskipti. Fresti til að lýsa kröfu í búið lauk 14. október 2009.
Fyrirtækið Jóhann Ólafsson & Co. ehf. hóf rekstur árið 1916, en stofnandi þess var Jóhann Ólafsson, faðir stefnda. Starfsemi fyrirtækisins var á sviði innflutnings, heildsöludreifingar og smásölu. Stefndi tók við rekstri félagsins af föður sínum árið 1963. Fyrirtækið var gert að hlutafélagi árið 1969 og fór reksturinn vaxandi. Stefnandi kveður að á síðasta áratug síðustu aldar hafi umsvif félagsins aukist verulega og hafi það m.a. eignast meirihluta hlutafjár í félaginu Hvítlist hf., GV heildverslun, Snæfiski, Volta, Hótelvörum, Veitingavörum, ML-104 og Unique.
Stefnandi kveður að á árinu 2007 hafi átt sér stað mikil umskipti hjá Jóhanni Ólafssyni & Co. ehf. Rekstrartap hafi verið mikið og skuldir félagsins aukist verulega. Fyrirtækið hafi tekið að gera ýmsar ráðstafanir og breytingar í því skyni að bregðast við versnandi rekstrarumhverfi. Skortur á lausafé hafi gert vart við sig og hafi félagið átt í miklum samskiptum við viðskiptabanka sinn, Glitni banka hf., í því skyni að reyna að tryggja rekstur félagsins.
Samkvæmt fundargerð stjórnarfundar Jóhanns Ólafssonar & Co. ehf., sem dagsett er 21. ágúst 2008, hafi verið samþykkt að taka lán hjá stefnda og verðsetja allan 68,2% hlut félagsins í Hvítlist hf. fyrir allt að 200 milljónir króna til stefnda, gegn láni frá honum. Hafi framkvæmdastjóra verið falið að ganga frá lánasamningi. Með handveðsyfirlýsingu, dagsettri 25. ágúst 2008 hafi stefnda verið settir að handveði hlutir að nafnverði 21.079.762 krónur í Hvítlist hf. Vottar að dagsetningu og undirritun samningsins eru Jón Árni Jóhannsson og Margrét B. Karlsdóttir. Sama dag var gerður lánasamningur milli stefnda og félagsins, þar sem stefndi lánaði félaginu 45.000.000 króna og er þar tekið fram að skuldin sé tryggð með veðrétti í umræddu hlutafé í Hvítlist hf.
Stefnandi kveður að samkvæmt 4. mgr. 7. gr. samþykkta Hvítlistar hf. sé óheimilt að veðsetja hluti í félaginu án samþykktar félagsstjórnar, en stefnandi kveður ekkert liggja fyrir um að slíks samþykkis hafi verið aflað. Þá hafi stefnandi, í lánssamningi við Glitni banka hf., dagsettum 28. september 2007, skuldbundið sig til þess að veðsetja ekki eignir sínar eða dótturfélaga sinna umfram það sem það hafði þá gert.
Stefnandi kveður að nokkur skjöl sem fundist hafi í vörslum stefnanda séu illa samrýmanleg því að fyrrnefnd veðsetning hafi átt sér stað hinn 25. ágúst 2008. Þannig séu til minnispunktar sem virðist teknir saman vegna fundar fulltrúa Jóhanns Ólafssonar & Co. ehf. með Glitni banka hf. hinn 26. september 2008. Í minnispunktunum sé velt upp þeirri hugmynd að Jóhann Ólafsson & Co. ehf. selji hlutabréfin í Hvítlist hf., eftir atvikum með því að Glitnir banki hf. láni félaginu hluta verðmætis hlutabréfanna gegn því að fá Hvítlist ehf. í óafturkræft söluferli, þar sem söluandvirðinu yrði ráðstafað inn á lán Jóhanns Ólafssonar & Co. ehf. við bankann. Ekki liggi fyrir að þessari fyrirætlan hafi verið mótmælt eða að öðru leyti gerðar athugasemdir um að bréfin væru veðsett.
Í lok september 2008 hafi starfsmaður Glitnis banka hf. kynnt framkvæmdastjóra Jóhanns Ólafssonar & Co. ehf. drög að verðmati Hvítlistar hf. upp á 230 milljónir króna, en framkvæmdastjórinn hafi sagt starfsmanninum að meðeigandi Jóhanns Ólafssonar & Co. ehf. finnist verðið „klárlega of lágt“.
Í skjali sem ber heitið „Forsendur rekstraráætlunar Jóhanns Ólafssonar & Co fyrir árið 2009“ og dagsett er 7. október 2008, er gert ráð fyrir að hlutabréf félagsins í Hvítlist hf. verði seld til að afla fjár til rekstrarins. Stefnandi kveður að í skjalinu sé á reiki hvert sé áætlað söluverð bréfanna en ýmist séu nefndar 300 eða 350 milljónir króna í því sambandi.
Með lánasamningi, dagsettum 26. nóvember 2008, lánaði stefndi Jóhanni Ólafssyni & Co ehf. 25 milljónir króna sem tryggðar voru með veði í hlutabréfum í Hvítlist hf.
Stefnandi kveður að í gögnum þrotabúsins sé að finna punkta eftir fund 6. desember 2008, þar sem fram komi í 4. tl. að „Jóhann J Ólafsson taki handveð í hlutabréfum Hvítlistar“, í nánari skýringum við þennan lið segi síðan: „Jóhann J. Ólafsson tekur hlutabréf Hvítlistar að veði fyrir þeim peningum sem hann hefur lánað JÓ& co.“ Ekki komi fram í þessum punktum hver skrifi þá, en þeir beri það með sér að það hafi verið einn af stjórnendum félagsins.
Hinn 16. janúar 2009 var undirrituð réttarsátt milli Jóhanns Ólafssonar & Co. ehf. og Sigurðar Ingimarssonar, en Sigurður hafði frá 1988 verið framkvæmdastjóri, og síðar forstjóri, Jóhanns Ólafssonar & Co. ehf. allt til 2007. Stefnandi kveður að deilur hafi verið milli aðila um uppgjör í tengslum við starfslok Sigurðar. Réttarsáttin hafi verið með sjálfskuldarábyrgð stefnda. Gunnar Bachman, framkvæmdastjóri Jóhanns Ólafssonar & Co. ehf sendi Gesti Jónssyni hrl tölvupóst 6. febrúar 2009, en Gestur Jónsson fór m.a. með mál félagsins og stefnda vegna málssóknar Sigurðar Ingimarssonar, fyrrum forstjóra félagsins. Stefnandi kveður athyglisvert að í þessum póstum tali framkvæmdastjóri Jóhanns Ólafssonar & Co. ehf. um það hvernig stefndi geti fengið veð í hlutabréfum Jóhanns Ólafssonar & Co. ehf. í Hvítlist hf. Samkvæmt áður nefndri handveðsyfirlýsingu, sem dagsett sé 25. ágúst 2008, og undirrituð af framkvæmdastjóranum fyrir hönd veðsala, hafi þessi hlutabréf verið veðsett tæpu hálfu ári áður. Þá virðist framkvæmdastjórinn í samráði við lögmann félagsins áforma að „láta veð af hendi eftir á“.
Í skjali, dagsettu 23. janúar 2009, sem sé meðal gagna þrotabúsins og beri yfirskriftina „Hugleiðingar mínar um stöðu félagsins“, sé því slæmri stöðu félagsins lýst, auk þess sem þar komi fram að hluti af lausninni felist í „að hlutabréf í Hvítlist hf. verði í persónulegri eigu Jóhanns J. Ólafssonar utan hlutar GS í Hvítlist“. Ekki komi fram hvers hugleiðingar þetta séu, en ljóst sé af þeim að það sé einn stjórnenda félagsins.
Með samningi, dagsettum 16. febrúar 2009, lánaði stefndi Jóhanni Ólafssyni & Co. ehf. 132.835.686 krónur gegn handveði í hlutum félagsins í Hvítlist hf. Var það gert vegna réttarsáttarinnar við Sigurð Ingimarsson, þar af nam verðmæti skuldabréfs útgefnu af Sigurði 60.000.000 króna. Færslur þessar voru ekki færðar í bókhald Jóhanns Ólafssonar & Co. ehf.
Jóhann Ólafsson & Co. ehf. átti í miklum og vaxandi erfiðleikum og var í miklum samskiptum við viðskiptabanka sinn, Íslandsbanka hf., en Íslandsbanki hf. hafði þá tekið við starfsemi Glitnis banka hf., sbr. ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, dagsettri 14. október 2008, um ráðstöfun eigna og skulda Glitnis banka hf. til Nýja Glitnis banka hf., sem síðar fékk nafnið Íslandsbanki hf. Á glærum framkvæmdastjóra félagsins, sem útbúnar voru vegna fundar með Íslandsbanka 5. mars 2009, var farið yfir stöðu fyrirtækisins. Þar eru vangaveltur um hvaða kostir séu í stöðunni og var einn þeirra sá að óska eftir því að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta.
Stjórn Jóhanns Ólafssonar & Co. ehf. fékk fyrirtækið Expectus til að verðmeta eignarhluta félagsins í Hvítlist hf. Samkvæmt verðmati Expectus, dagsettu 9. júní 2009, var eignarhlutur fyrirtækisins metin 110,3 milljónir.
Á hluthafafundi í Jóhanni Ólafssyni & Co. ehf hinn 2. júní 2009, þar sem mættir voru stefndi, Jón Árni Jóhannsson og Gunnar Bachman, var samþykkt að ganga til uppgjörs við Jóhann J. Ólafsson á greiðslu skulda við hann. Kom fram að nota ætti 68,2% hlut félagsins í Hvítlist hf. sem greiðslu skuldar.
Hinn 16. júní 2009 undirrituðu Jóhann Ólafsson & Co. ehf. og stefndi samkomulag um greiðslu á hlut veðskuldar félagsins við stefnda og innlausn á veði. Samkvæmt samkomulaginu var skuld félagsins við stefnda 220.000.000 króna og byggði hún á þremur lánaskjölum gerðum 25. ágúst 2008, 26. nóvember 2008 og 16. febrúar 2009. Upphafleg fjárhæð skuldarinnar var 202.835.686 krónur. Gerðu allir aðilar samkomulag um að stefndi tæki hin veðsettu hlutabréf í Hvítlist hf. upp í kröfu sína á hendur félaginu á því verði sem hluturinn hafði verið metinn á af Expectus eða 110,3 milljónir króna. Að gerðu framangreindu uppgjöri reiknaðist skuld fyrirtækisins við stefnda 107.700.000 krónur og var því lýst yfir að stefndi væri réttur eigandi að 68,21% hlutafjár í Hvítlist hf.
Með tilkynningu til fyrirtækjaskrár Ríkisskattstjóra, dagsettri 19. júní 2009, var tilkynnt að samþykkt hefði verið á hluthafafundi Jóhanns Ólafssonar & Co. ehf. hinn 19. júní 2009 að breyta nafni félagsins og væri nýtt nafn félagsins GV heildverslun ehf. Hinn sama dag, 19. júní 2009, er nafni félagins ML 103 ehf., sem stofnað hafði verið nokkrum dögum áður af lögmönnum Jóhanns Ólafssonar & Co. ehf., breytt í Jóhann Ólafsson & Co. ehf. Sama dag var tilgangi hins nýja Jóhanns Ólafssonar & Co. ehf. jafnframt breytt í það að vera „innflutningur, heildsala, smásala, rekstur fasteigna og lánastarfsemi“, auk þess sem stefndi var kjörinn stjórnarmaður félagsins, í stað lögmanns Jóhanns Ólafssonar & Co. ehf., og sonur hans kjörinn eini varastjórnarmaður. Enn fremur var Gunnar Bachman, framkvæmdastjóri Jóhanns Ólafssonar & Co. ehf. eldra, ráðinn framkvæmdastjóri hins nýja félags. Jóhann Ólafsson & Co. ehf. hið nýja keypti lager Osram pera af stefnanda og er í dag umboðsaðili fyrir og selur Osram perur, sem hið eldra félag með sama nafni hafði áður gert.
Hinn 30. júlí 2009 óskaði stjórn GV heildverslunar ehf. (áður Jóhann Ólafsson & Co. ehf.) eftir því að bú félagsins yrði tekið til gjaldþrotaskipta og með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, dagsettum 7. ágúst 2009, var fallist á þá beiðni.
Tilkynning um gjaldþrotaskipti var birt í Lögbirtingablaðinu í fyrra sinn hinn 14. ágúst 2009. Af hálfu stefnda var ekki lýst kröfu í þrotabúið innan kröfulýsingarfrests, hvorki vegna eftirstöðva skuldarinnar sem gerð var upp með samkomulaginu hinn 16. júní 2009, né vegna annarra krafna. Stefndi lýsti hins vegar kröfum í þrotabúið hinn 1. september 2010, tæpu ári eftir lok kröfulýsingarfrests, vegna eftirstöðva framangreinds samkomulags og vegna tveggja skuldabréfa, sem útgefin voru árin 2002 og 2003, en stefndi átti tryggingarbréf að fjárhæð 15.000.000 króna, sem hvíldi á fasteign Jóhanns Ólafssonar & Co. ehf., Sundaborg 7 í Reykjavík.
Á fundi 6. apríl 2010, kynnti skiptastjóri stefnda að gögn þrotabúsins bentu til þess að tilteknar ráðstafanir þrotabúsins kynnu að vera riftanlegar í skilningi laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Um var að ræða lánasamninga, þar sem óljóst var samkvæmt bókhaldi hvort lánsfjárhæðin hefði í raun öll verið greidd inn til Jóhanns Ólafssonar & Co. ehf. Skiptastjóri gaf stefnda kost á því að koma sínum sjónarmiðum og gögnum að til að varpa ljósi á málið. Jafnframt kom fram að skiptastjóri ætti eftir að kanna ýmis gögn sem snertu samskipti stefnda við félagið. Stefnandi kveður að stefndi hafi sjálfur talið mikilvægt að koma að gögnum um þessi atriði og kvaðst myndu gera það fyrir 21. apríl 2010. Þar sem málshöfðunarfrestur vegna einhverra framangreindra atriða hafi getað verið að renna út hafi stefndi fallist á fyrir sitt leyti að mögulegt riftunarmál á hendur honum yrði höfðað að liðnum slíkum fresti, en þó eigi síðar en 1. júní 2010, sbr. yfirlýsingu/samkomulag, dagsett 7. apríl 2010.
Stefnandi kveður stefnda ekki hafa komið neinum gögnum eða skýringum til skiptastjóra, þrátt fyrir samkomulagið. Skiptastjóri hafi því ekki átt annan kost en þann að grafast frekar fyrir um staðreyndir málsins með rannsókn á því mikla magni gagna sem sé í vörslum stefnanda. Stefnandi kveður rannsókn þessa hafa vakið grunsemdir um að umrætt handveð í hlutum stefnanda í Hvítlist hf. væri ekki rétt dagsett, m.ö.o. falsað. Þegar skiptastjóri hafi borið þennan grun undir stefnda á fundi hinn 27. maí 2010, hafi stefndi viðurkennt að handveðsyfirlýsingin hafi ekki verið undirrituð 25. ágúst 2008, eins og hún beri með sér, heldur mun síðar. Þessu mótmælir stefndi. Stefnandi kveður og að í kjölfarið hafi hafist samningaviðræður um það með hvaða hætti stefndi bætti búinu og kröfuhöfum þess það tjón sem hlotist hefði af því að stefndi tók hlutina í Hvítlist hf., sem greiðslu upp í skuld sína við stefnanda. Þessar samningaviðræður hafa ekki borið árangur og hafi stefndi dregið til baka játningu sína fyrir skiptastjóra um fölsun handveðsetningaryfirlýsingarinnar.
III
Stefnandi byggir riftunarkröfu sína á því að greiðsla að fjárhæð 110.300.000 krónur á skuld stefnanda til stefnda með yfirtöku á hlutum í Hvítlist hf. samkvæmt samkomulagi, dagsettu 16. júní 2009, hafi verið greidd með óvenjulegum greiðslueyri í skilningi 134. gr. gjaldþrotalaga. Skuldin hafi verið greidd með afhendingu hlutabréfa sem teljist óvenjulegur greiðslueyrir skuldar. Þá byggir stefnandi á því að greiðslan hafi skert greiðslugetu þrotamanns verulega í skilningi 134. gr. gjaldþrotalaga. Fjárhagsstaða Jóhanns Ólafssonar & Co. ehf. hafi verið orðin afar bágborin þegar greiðslan hafi verið innt af hendi, aðeins nokkrum vikum áður en stjórnendur félagsins hafi lagt fram beiðni um að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Stjórnendum félagsins hafi verið þessi staða félagsins ljós um nokkurt skeið. Stefnandi byggir og á því að greiðslan geti ekki talist venjuleg eftir atvikum þar sem aldrei hafi stofnast til veðréttar til handa stefnda yfir hlutafé stefnanda í Hvítlist hf. að nafnvirði 21.079.762 krónur. Stefnandi byggir á því, að veðskjal það sem veðsetningin eigi að hafa byggst á sé falsað. Gögn málsins sem og játning stefnda í samtali við skiptastjóra bendi til þess að handveðsyfirlýsingin hafi alls ekki verið undirrituð á þeim degi sem skjalið bendi til, heldur löngu síðar, jafnvel ekki fyrr en um leið og bréfin hafi verið notuð sem greiðsla upp í skuld stefnda við Jóhann Ólafsson & Co. ehf. með samkomulagi, dagsettu 16. júní 2009. Stefndi virðist ekkert hafa gert til þess að tryggja veðinu réttarvernd sem þó hefði verið eðlilegt eins og á stóð ef aðilar hafi raunverulega talið að um veðrétt væri að ræða.
Stefnandi byggir á því að veðsetningin hafi farið í bága við bann við veðsetningu hluta í Hvítlist hf. án leyfis stjórnar þess, samkvæmt 4. mgr. 7. gr. samþykkta félagsins. Þrátt fyrir að tveir af þremur stjórnarmönnum Hvítlistar hf. hafi vottað dagsetningu og undirritun framkvæmdastjóra stefnanda geti slík vottun ekki jafngilt samþykki þeirra um veðsetningu. Þá liggi ekkert fyrir um það hvernig eða hvort stjórn Hvítlistar hf. hafi sem slík tekið afstöðu til veðsetningarinnar.
Stefnandi byggir einnig á því, að framkvæmdastjóra Jóhanns Ólafssonar & Co. ehf. hafi skort heimild til þess að undirrita handveðsetningaryfirlýsinguna fyrir hönd félagsins. Við undirritun framkvæmdastjórans komi fram að undirritunin sé gerð samkvæmt umboði stjórnar. Ekkert liggi hins vegar fyrir um að stjórnin hafi í raun gefið slíkt umboð og veðsetning eignar eins og hlutanna í Hvítlist hf. geti ekki talist falla innan hefðbundins hlutverks framkvæmdastjóra. Í fundargerð stjórnar, dagsettri 21. ágúst 2008, þar sem lántökur frá stefnda og veðsetning bréfanna hafi verið samþykktar komi fram að framkvæmdastjóra sé „falið að ganga frá lánasamningi“. Ekki sé skýrlega kveðið á um að hann hafi umboð stjórnarinnar til þess að undirrita slíkan lánasamning og ekkert sé tekið fram um aðkomu hans að gerð eða undirritun veðskjala. Ljóst sé því að umboð framkvæmdastjórans verði ekki byggt á fundargerðinni og ekkert liggi fyrir um að það hafi verið gefið með öðrum hætti.
Samkvæmt framangreindu telur stefnandi að ekki hafi stofnast til veðréttar til handa stefnda í hlutum Jóhanns Ólafssonar & Co. ehf. í Hvítlist hf. heldur hafi veðskjöl verið útbúin til að klæða framsal á umræddum hlutum til stefnda í lögmætan búning. Því hafi í raun verið um að ræða greiðslu upp í skuld með óvenjulegum greiðslueyri, en ekki fullnustu veðs eða uppgjör veðkröfu. Það hafi í för með sér að ekki verði litið svo á að greiðslan hafi verið venjuleg eftir atvikum, enda engin önnur atvik sem leiði til þeirrar niðurstöðu.
Jafnvel þó svo að talið yrði að veðréttur hafi stofnast þegar handveðsyfirlýsingin hafi verið gerð í raun og veru, einhvern tíma eftir 25. ágúst 2008, væri um að ræða veðrétt sem hefði verið riftanlegur samkvæmt 137. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Þar sem umræddri eign hafi verið rástafað til stefnda séu ekki lengur efni til þess að krefjast riftunar á veðréttinum, hvort heldur veðréttur hafi stofnast yfir eigninni eða ekki.
Stefnandi byggir á því, að greiðsla skuldarinnar með þessum hætti hafi á ótilhlýðilegan hátt verið til hagsbóta fyrir stefnda á kostnað annarra kröfuhafa, jafnframt því sem hún hafi leitt til þess að eignir stefnanda hafi ekki verið til reiðu til fullnustu fyrir aðra kröfuhafa. Ráðstafanir sem í greiðslunni hafi falist telur stefnandi riftanlegar á grundvelli 141. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Ráðstafanirnar hafi verið ótilhlýðilegar þar sem þær hafi mismunað kröfuhöfum. Þá virðist gögn málsins benda til þess að stefndi hafi falsað gögn, eða tekið þátt í fölsun gagna, vegna veðsetningarinnar.
Með þessum ráðstöfunum hafi stefndi, stjórnarformaður í Jóhanni Ólafssyni & Co. ehf. og aðaleigandi þess félags, tryggt sér greiðslu á skuld stefnanda við sig. Þetta hafi hann gert með uppgjöri sem, ef marka megi dagsetningar gagna málsins, hafi átt sér stað innan við tveimur mánuðum áður en lögð hafi verið fram beiðni til Héraðsdóms Reykjavíkur um að bú Jóhanns Ólafssonar & Co. ehf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Þannig hafi stefndi tryggt sér greiðslu frá félaginu, en ljóst sé að við skiptin muni lítið koma upp í almennar kröfur vegna þessara ráðstafana. Ráðstafanirnar hafi einnig leitt til þess að hlutirnir í Hvítlist hf. hafi ekki verið í vörslu búsins við töku þess til skipta og þannig ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum. Ljóst sé að Jóhann Ólafsson & Co. ehf. hafi verið ógjaldfær þegar ráðstafanirnar hafi átt sér stað, stuttu áður en stjórnendur hafi lagt fram beiðni um gjaldþrotaskipti. Stefndi hafi verið stjórnarformaður Jóhanns Ólafssonar & Co. ehf., jafnframt því að vera viðtakandi greiðslunnar og hafi því verið grandsamur, bæði um ógjaldfærni stefnanda sem og þær aðstæður sem leitt hafi til þess að greiðslan hafi verið ótilhlýðileg.
Kröfu sína um að stefndi greiði 350.000.000 króna, ásamt vöxtum og dráttarvöxtum, byggir stefnandi á endurgreiðslureglum 142. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Stefnandi telur að miða eigi við tjónsbætur, enda hafi viðsemjanda verið fyllilega kunnugt um riftanleika ráðstafananna.
Stefnandi byggir einnig kröfu sína á almennu skaðabótareglunni, þ.e. að stefndi hafi með ólögmætum og saknæmum hætti valdið stefnanda tjóni sem sé bein afleiðing hinnar saknæmu og ólögmætu háttsemi og beri því að bæta stefnanda það tjóna. Hin saknæma og ólögmæta háttsemi stefnda hafi falist í því að hann hafi tekið þátt í því að ráðstafa hlutabréfum í eigu Jóhanns Ólafssonar & Co. ehf. til sín persónulega þrátt fyrir að hafa vitað, eða mátt vita, að það yrði til tjóns fyrir kröfuhafa Jóhanns Ólafssonar & Co. hef. þar sem verðmæti hlutabréfanna kæmi þá ekki til jafnra skipta milli kröfuhafa heldur rynni allt til stefnda. Þetta hafi stefndi gert þrátt fyrir að honum væri fullkunnugt um að Jóhann Ólafsson & Co. ehf. hefði skuldbundið sig, með lánasamningi, dagsettum 28. september 2007, við viðskiptabanka sinn, til þess að veðsetja ekki eignir sínar eð dótturfélaga sinna umfram það sem þá hafi þegar verið gert. Meðal þeirra sem undirritað hafi samninginn fyrir hönd Jóhanns Ólafssonar & Co. ehf. hafi verið stefndi sjálfur. Honum hafi því mátt vera fulljóst um tilvist veðsetningarbannsins.
Þá virðist stefndi hafa falsað gögn, eða tekið þátt í að falsa gögn vegna veðsetningarinnar sem greiðslan byggi á. Stefnandi telur að fölsunin ein og sér leiði til endurgreiðsluskyldu stefnda.
Stefnandi telur að fjárhæð bóta, hvort heldur sem er samkvæmt endurgreiðslureglum gjaldþrotaskiptalaga eða almennu skaðabótareglunni sé rétt ákvörðuð 350.000.000 króna. Þetta sé sú fjárhæð sem fyrirsvarsmenn og eigendur Jóhanns Ólafssonar & Co. ehf. hafi talið vera eðlilegt verð fyrir hlutina í Hvítlist hf. þegar til hafi staðið að selja félagið í október 2008. Byggir stefnandi á því að þessir aðilar hafi vitað best hvaða verðmæti hafi verið um að ræða. Verði ágreiningur um fjárhæð bóta áskilur stefnandi sér rétt til þess að krefjast dómkvaðningar matsmanna til þess að meta verðmæti hlutanna í Hvítlist hf., sem afhentir hafi verið stefnda sem greiðsla.
Kröfu um vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, byggir stefnandi á því að upphafstíma vaxta beri að miða við tjónsatburð, þ.e. þegar greiðslan til stefna hafi átt sér stað. Upphafstími dráttarvaxta sé miðaður við mánuð frá því að stefnandi hafi lagt fram öll gögn sem nauðsynleg hafi verið til að ákvarða bætur, en það hafi verið við þingfestingu málsins.
Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., almennra reglna kröfuréttar, laga um hlutafélög nr. 2/1995 og laga um einkahlutafélög nr. 134/1994, reglna um réttaráhrif ógildra löggerninga, almennu skaðabótareglunnar og reglna um fjárhæð skaðabóta.
Kröfu um vexti og dráttarvexti byggir stefnandi á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
IV
Stefndi byggir kröfu sína um frávísun á því, að málshöfðunarfresti sem stefnandi hafi samkvæmt 148. gr. laga nr. 21/1991, til að höfða riftunarmál á hendur stefnda, hafi átt að ljúka 14. apríl 2010, eða 6 mánuðum eftir lok kröfulýsingarfrests í þrotabúið. Aðilar hafi þó fyrir lok frestsins samið um að framlengja frestinn til 1. júní 2010, en ekki lengur en það.
Mál þetta hafi verið höfðað með stefnu birtri 31. janúar 2011, en þá hafi verið liðnir 8 mánuðir frá lokum þess frests sem samið hafi verið um með samkomulaginu 7. apríl 2010. Með samkomulaginu hafi stefndi fallist á að framlengja frest þrotabúsins um einn og hálfan mánuð, frá 14. apríl 2010 til 1. júní 2010.
Stefndi telur að samkomulagið hafi verið stefnanda hagfellt, enda hafi stefnandi samið það sjálfur og hagað efni þess í samræmi við sína eigin áætlun um framvinduna. Af hálfu þrotabúsins hafi á þessum tíma ekki verið óskað eftir neinum gögnum frá stefnda, enda liggi fyrir að skiptastjórinn hafi allan þann tíma haft öll nauðsynleg gögn til að byggja ákvörðun sína á. Þar sem þetta tímabil hafi runnið út hafi stefndi mátt ætla að þrotabúið hefði ekkert tilefni haft til aðgerða gegn honum. Mál sem höfðað sé eftir að frestur til þess sé útrunninn beri að vísa frá dómi, hvort sem sé eftir kröfu stefnda eða ex officio. Um þetta hafi gengið allmargir hæstaréttardómar.
V
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 7. ágúst 2009 var bú GV heildverslunar ehf. tekið til gjaldþrotaskipta.
Riftunarkrafa stefnanda varðar ráðstöfun hins gjaldþrota félags, GV heildverslunar ehf. á hlutafé í Hvítlist hf. til stefnda, sem hafði fengið þetta hlutafé að veði til tryggingar endurgreiðslu á fjármunum sem stefndi lagði félaginu til.
Samkvæmt 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991 skal höfða dómsmál til að koma fram riftun á grundvelli XX. kafla laganna áður en sex mánuðir eru liðnir frá því skiptastjóri átti þess kost að gera riftunarkröfuna. Frestur þessi byrjar þó aldrei að líða fyrr en við lok kröfulýsingarfrests.
Með lögum nr. 31/2010 um breytingu á lögum nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., sem samþykkt voru á Alþingi 20. apríl 2010, með gildistíma frá þeim degi, var bætt við XXVII. kafla laganna nýju ákvæði til bráðabirgða. Er greinin svohljóðandi: Að því leyti sem í ákvæðum 2. mgr. 131. gr., 2. mgr. 132. gr., 2. mgr. 133. gr., 2. mgr. 134. gr., 2. mgr. 137. gr. og 2. mgr. 138. gr. laganna er kveðið á um tuttugu og fjögurra mánaða frest skal sá frestur vera fjörtíu og átta mánuðir í þeim málum sem höfðuð eru fyrir árslok 2012. Jafnframt skal sex mánaða málshöfðunarfrestur í 148. gr. laganna vera tólf mánaða frestur fram til ársloka 2012.
Á skiptastjóra hvílir m.a. sú skylda að taka yfir allar eignir og gögn þrotabúsins þegar eftir að hann er skipaður og taka til athugunar bókhaldsgögn búsins, m.a. til þess að ganga úr skugga um hvort þrotamaður hafi viðhaft slíkar ráðstafanir sem gætu verið riftanlegar.
Eins og að framan greinir var frestdagur við skiptin á þrotabúi GV heildverslunar ehf. 30. júlí 2009 og frestur til þess að lýsa kröfum í búið lauk 14. október 2009. Samkvæmt 148. gr. laga nr. 21/1991, byrjaði því málshöfðunarfresturinn að líða 14. október 2009, nema sérstök tilvik leiði til þess að telja skuli upphaf málshöfðunarfrestsins vera síðar.
Fyrir liggur að aðilar gerðu með sér samkomulag 7. apríl 2010 um að framlengja frestinn til 1. júní 2010, þar sem skiptastjóri taldi að málshöfðunarfresturinn væri að líða.
Samkvæmt því sem fram kemur í stefnu liggur ekki annað fyrir en að stefnandi hafi haft öll þau gögn sem nauðsynleg voru til að geta metið lagaskilyrði fyrir höfðun riftunarmáls við lok kröfulýsingarfrestsins, og verður ekki séð að ný gögn eða upplýsingar hafi komið fram eftir að samkomulag aðila um að framlengja frestinn til 1. júní 2010 var gert. Er stefna var birt í máli þessu hinn 31. janúar 2011 voru liðnir meira en tólf mánuðir frá lokum kröfulýsingarfrests. Verður því að líta svo á að frestur til málshöfðunar samkvæmt 148. gr. laga nr. 21/1991, hafi verið liðinn, er stefna í máli þessu var birt. Þá verður ekki fallist á það með stefnanda að þó svo einnig sé byggt á almennu skaðabótareglunni í málinu að málshöfðunarfrestur gjaldþrotaskiptalaga eigi ekki við um dómkröfu hans nema að hluta, enda lýtur krafa hans að ráðstöfunum þrotamanns í aðdraganda gjaldþrotaskipta.
Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið, er fallist á kröfu stefnda um að vísa málinu frá dómi.
Eftir þessari niðurstöðu ber að úrskurða stefnanda til þess að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 200.000 krónur, og hefur þá ekki verið litið til virðisaukaskattsskyldu stefnda.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Þrotabú GV heildverslunar ehf., greiði stefnda Jóhanni J. Ólafssyni, 200.000 krónur í málskostnað.