Hæstiréttur íslands

Mál nr. 499/2016

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs. (Þorsteinn Einarsson hrl.)
gegn
Íslandsbanka hf. (Stefán A. Svensson hrl.)

Lykilorð

  • Fjármálafyrirtæki
  • Lánssamningur
  • Gengistrygging
  • Viðbótarkrafa
  • Endurgreiðsla ofgreidds fjár
  • Fullnaðarkvittun
  • Skuldajöfnuður
  • Vextir

Reifun

S og Í hf., sem síðar fékk nafnið G hf. (forveri stefnda), gerðu með sér þrjá lánssamninga á árunum 2001-2005. S höfðaði mál gegn ÍB hf. og hafði annars vegar uppi fjárkröfu vegna tveggja lánssamninga sem gerðir höfðu verið upp með nýjum lánssamningi við ÍB hf. árið 2011 og hins vegar krafðist S viðurkenningar á rétti sínum til að skuldajafna kröfu á hendur G hf. við lánssamningi milli S og ÍB hf. vegna þriðja lánsamningsins sem hann hafði gert upp við G hf. árið 2008. Taldi S að hinir upprunalegu lánssamningarnir hefðu verið í íslenskum krónum og bundnir við gengi erlendra mynta með ólögmætum hætti. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að þótt að S hafi getað tekið lánin út í áföngum hefði ekki verið tiltekið í lánssamningunum að hver lánshluti yrði sjálfstætt lán né vísað til þess að um rammasamning eða lánalínu væri að ræða. Var því talið að líta bæri á hvern lánssamning sem sjálfstæða lánsskuldbindingu. Þá var talið m.a. með vísan til þess að báðir aðilar hefðu uppfyllt meginskyldur sínar samkvæmt samningunum með greiðslum í íslenskum krónum að lánssamningarnir hefðu verið bundnir ólögmætri gengistryggingu. Enn fremur var deilt um hvort ÍB hf. gæti á grundvelli endurútreiknings lánanna gert kröfu um aðra og hærri vexti en gert hefði verið ráð fyrir á grundvelli samningana. Var talið með vísan til heildarmats á öllum aðstæðum stæði það ÍB hf. nær að bera þann vaxtamun sem hefði hlotist af hinni ólögmætu gengistryggingu. Þá var viðurkenndur fyrrgreindur skuldajöfnunarréttur S með vísan til ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins frá 14. október 2008 um ráðstöfun eigna og skulda G hf. Voru því kröfur S teknar til greina.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. júlí 2016. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 167.614.749 krónur, aðallega með nánar tilgreindum vöxtum frá 11. janúar 2011 til 31. mars 2015, til vara með vöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, en að því frágengnu með vöxtum samkvæmt 8. gr. þeirra laga og í öllum tilvikum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi þess að viðurkenndur verði réttur sinn til að skuldajafna kröfu á hendur Glitni banka hf. að fjárhæð 45.511.634 krónur, aðallega með vöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001, en til vara vöxtum samkvæmt 8. gr. þeirra laga, í báðum tilvikum frá 20. janúar 2008 til 31. mars 2015 og með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags á móti kröfum stefnda vegna lánssamnings aðila 25. janúar 2011. Að lokum krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Samkvæmt gögnum málsins gerðu áfrýjandi og Íslandsbanki hf. með sér þrjá lánssamninga á árunum 2001 til 2005. Sá fyrsti var frá 20. september 2001. Á forsíðu hans sagði: „Lánssamningur (Lán í erlendum gjaldmiðlum).“ Í upphafsorðum samningsins var tiltekið að hann væri „um lán til 15 ára að fjárhæð, að jafngildi kr. 190 milljónir í eftirtöldum myntum: USD, EUR, GBP, CHF og JPY.“ Þá kom fram í 1. grein samningsins að „lágmarksfjárhæð hvers lánshluta sem greiddur er út samkvæmt samningi þessum“ yrði 50.000.000 krónur „eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í öðrum gjaldmiðlum.“ Þá var tiltekið að áfrýjanda bæri að senda bankanum með minnst tveggja virkra bankadaga fyrirvara beiðni um útborgun lánsins þar sem greint yrði frá reikningi sem leggja ætti „lánið eða lánshlutann inn á.“ Í þeirri beiðni skyldi lántaki tilkynna lánveitanda „í hvaða erlenda gjaldmiðla hann muni umbreyta lánsfjárhæðinni og í hvaða hlutföllum.“ Fjárhæð hvers gjaldmiðils yrði þó ekki ákveðin fyrr en tveimur bankadögum fyrir útborgun lánsins og yrðu á því tímamarki „fjárhæðirnar endanlegar og munu ekki breytast innbyrðis þaðan í frá, þótt upphafleg hlutföll þeirra kunni að breytast á lánstímanum.“ Yrði þá lánið „eftirleiðis tilgreint með fjárhæð þeirra erlendu mynta, eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum myntum eða íslenskum krónum“ samkvæmt nánari fyrirmælum í ákvæðum samningsins um vexti og myntbreytingar. Þá kom fram í 2. grein að lánið skyldi endurgreitt í þeim gjaldmiðlum sem það samanstæði af. Samkvæmt 3. grein skyldi skuld í evrum bera þriggja mánaða EURIBOR-vexti, að viðbættu 0,7% álagi, en skuld í öðrum myntum skyldi bera þriggja mánaða LIBOR-vexti, að viðbættu sama álagi. Vextir skyldu greiðast frá útborgunardegi lánsins. Í 4. grein var kveðið á um að væri lánið í skilum gæti áfrýjandi óskað eftir myntbreytingu þess við bankann á vaxtagjalddaga, þannig að „eftirstöðvar lánsins miðist við aðra erlenda mynt eða reiknieiningu, eina eða fleiri“. Við umreikning vegna myntbreytingar skyldi nota sölugengi þess gjaldmiðils sem hætt væri að miða við og kaupgengi þess gjaldmiðils sem framvegis yrði miðað við samkvæmt gengisskráningu lánveitanda á íslensku krónunni tveimur virkum bankadögum fyrir myntbreytinguna. Þá kom fram í 3. grein samningsins að stæði áfrýjandi ekki í skilum með greiðslur af láninu væri lánveitanda heimilt að umreikna lánið í íslenskar krónur miðað við skráð sölugengi lánveitanda í lok gjaldfellingardags og bæri áfrýjanda að greiða dráttarvexti og færi um þá samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001 um vexti og verðtyggingu. Samkvæmt þremur beiðnum um útborgun lánsins, 21. september, 21. nóvember og 18. desember 2001, voru lánshlutarnir tilgreindir í bandaríkjadölum, evrum, sterlingspundum og japönskum jenum en þess óskað að greiðslan færi fram í íslenskum krónum.

            Í lánssamningi milli áfrýjanda og Íslandsbanka 11. júlí 2002 sagði á forsíðu: „Lánssamningur (Lán í erlendum gjaldmiðlum).“ Í upphafsorðum samningsins var tiltekið að hann væri „um lán til 15 ára að fjárhæð, að jafngildi kr. 423.000.000 milljónir ... í eftirtöldum erlendum myntum og hlutföllum:  USD 31%, GBP 14,8%, JPY 9,2%, CHF 12,6% og EUR 32,4%.“  Voru ákvæði lánssamningsins að öðru leyti sambærileg og í hinum fyrri samningi, sem gerð var grein fyrir hér að framan, með því fráviki þó að vaxtaálag var lægra eða 0,5%. Samkvæmt þremur beiðnum um útborgun lánsins, 11. september og 20. desember 2002 og 15. ágúst 2003, voru lánshlutarnir tilgreindir í bandaríkjadölum, sterlingspundum, japönskum jenum, svissneskum frönkum og evrum en þess óskað að greiðslan færi fram í íslenskum krónum.

            Við báða samningana var gerður viðauki 15. febrúar 2005 en með honum var áfrýjanda heimilað að myntbreyta báðum lánunum í íslenskar krónur. Áfrýjandi nýtti þá heimild og myntbreytti fyrra láninu í íslenskar krónur miðað við 10. júní 2006 en svo aftur í erlendar myntir 6. júní 2008. Lánin voru bæði gerð upp með nýjum lánssamningi milli áfrýjanda og stefnda 25. janúar 2011 í kjölfar umsóknar áfrýjanda um höfuðstólslækkun og myntbreytingu lána í erlendri mynt. Í þessari stöðluðu umsókn bankans var fyrirvari þess efnis að lántaki fyrirgerði ekki mögulegum betri rétti sínum, kæmist Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að skilmálar í erlendum lánum bankans, sambærilegum þeim sem umræddi í tilviki lánssamninganna frá 2001 og 2002, uppfylltu ekki þau skilyrði er rétturinn setti fyrir því að lán gæti talist erlent lán í löglegu horfi.

            Þriðji lánsamningurinn milli áfrýjanda og Íslandsbanka hf. var gerður 15. febrúar 2005 og bar heitið: „Lánssamningur (Lán í erlendum gjaldmiðlum og íslenskum krónum óverðtryggt).“ Var samningurinn „til 15 ára með 30 ára greiðsluferli að fjárhæð að jafngildi allt að kr. 353.000.000 ... í íslenskum krónum og/eða erlendum myntum“. Í 1. grein samningsins sagði að „lágmarksfjárhæð hvers lánshluta sem greiddur er út samkvæmt samningi þessum“ yrði 50.000.000 krónur „eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í öðrum gjaldmiðlum.“ Þá var tiltekið að áfrýjanda bæri að senda bankanum með minnst tveggja virka bankadaga fyrirvara beiðni um útborgun lánsins þar sem greint yrði frá reikningi sem leggja ætti „lánið eða lánshlutann inn á.“ Í þeirri beiðni skyldi „lántaki tilkynna lánveitanda í hvaða myntum hann hyggst taka lánið og í hvaða hlutföllum“. Samkvæmt 3. grein skyldi skuld í evrum bera þriggja mánaða EURIBOR-vexti, skuld í öðrum myntum skyldi bera þriggja mánaða LIBOR-vexti og skuld í íslenskum krónum skyldi bera þriggja mánaða REIBOR-vexti, í öllum tilvikum að viðbættu 0,4% álagi. Vextir skyldu greiðast frá útborgunardegi lánsins. Þá voru ákvæði í samningnum um heimild til myntbreytinga og um heimild lánveitandans til heimtu dráttarvaxta vegna vanskila, sambærileg og í lánssamningnum 20. september 2001. Samkvæmt þremur beiðnum um útborgun lánsins, 2. mars og 2. desember 2005 og 28. september 2006, voru lánshlutarnir tilgreindir í svissneskum frönkum, norskum krónum, bandaríkjadölum, japönskum jenum, sænskum krónum og evrum en þess óskað að greiðslan færi fram í íslenskum krónum. Til útborgunar á hluta lánsins í íslenskum krónum kom 25. júní 2006. Áfrýjandi gerði lánið fyrirvaralaust upp við Glitni banka hf. 20. janúar 2008.

            Samkvæmt gögnum málsins voru allir lánshlutar þessara þriggja lána greiddir út í íslenskum krónum inn á bankareikning áfrýjanda og greiddi áfrýjandi afborganir lánanna einnig í íslenskum krónum.

II

            Í málinu deila aðilar um hvort lánssamningana þrjá beri að meta hvern og einn sem sjálfstæða lánsskuldbindingu eða svokallaðan rammasamning eða lánalínu, sem leiði til þess að skoða beri hverja og eina útborgun lánshluta sem hinar eiginlegu lánveitingar. Þá lítur ágreiningur aðila að því hvort umræddar lánveitingar hafi verið lögleg lán í erlendum gjaldmiðlum eða lán í íslenskum krónum bundið gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti. Stefndi ber því jafnframt við, hvað sem öðru líður, að engin skilyrði standi til þess að áfrýjanda sé tækt að skuldajafna ætlaðri kröfu sinni á hendur Glitni banka hf. vegna endurútreiknings samningsins frá 15. febrúar 2005 á móti kröfum stefnda vegna lánssamnings áfrýjanda og stefnda frá 25. janúar 2011. Verði fallist á að lánssamningarnir séu gengistryggðir með ólögmætum hætti deila aðilar um það hvort skilyrði séu til þess að stefndi geti á grundvelli endurútreiknings lánssamninganna og þar með tilfærslu þeirra í lögmætt horf gert kröfu á hendur áfrýjanda um aðra og hærri vexti en gert var ráð fyrir á grundvelli samninganna. Enn fremur er á því byggt af hálfu stefnda að tilhögun fyrirvara áfrýjanda við lántökuna 25. janúar 2011 standi því í vegi að hann geti hagað fjárkröfu sinni með þeim hætti sem raunin er. Loks deila aðilar um hvort og þá hvaða vexti möguleg fjárkrafa áfrýjanda eigi að bera.         

III

Þegar metið er hvort fyrrnefndir lánssamningar áfrýjanda við forvera stefnda hafi verið um lán í íslenskum krónum, sem bundin væru við gengi erlends gjaldmiðils í andstöðu við ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, ber fyrst að taka afstöðu til þess hvort um sjálfstæða lánsskuldbindingu sé að ræða ellegar svokallaðan rammasamning eða lánalínu, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar frá 25. október 2012 í máli nr. 19/2012, 27. mars 2014 í máli nr. 734/2013, 13. maí 2015 í máli nr. 738/2014, 20. apríl 2016 í máli 616/2015 og 19. janúar 2017 í máli nr. 254/2016. Á hinn bóginn varð niðurstaðan á sama veg í dómi Hæstaréttar frá  2. mars 2017 í máli nr. 477/2016 án þess að í lánssamningi væri skírskotaði til lánalínu eða rammasamkomulags.

Í lánssamningum þeim, sem reynir á í þessu máli, var meðal annars tekið fram að „Lántaki lofar að taka að láni og lánveitandi að lána umsamda lánsfjárhæð“ sem áður hafði verið tilgreind að jafngildi tiltekinna fjárhæða í íslenskum krónum, eftir atvikum með tilvísun til erlendra mynta, eins og nánar hefur verið rakið hér að framan. Fram kom í öllum tilvikum að lánið væri laust til útborgunar og að lánveitandinn lofaði, að gættum útborgunarskilmálum, að greiða lánið til lántaka. Þá kom í öllum tilvikum fram að lánið bæri að endurgreiða í þeim gjaldmiðlum sem það samanstæði af. Þó svo að jafnframt kæmi fram að áfrýjandi gæti tekið lánin út í áföngum var ekki tiltekið að hver lánshluta yrði sjálfstætt lán og hvergi var í lánssamningunum vísað til þess að um rammasamning eða lánalínu væri að ræða. Þann vafa sem uppi er um skýringu samningsins verður að túlka áfrýjanda í hag en ágreiningslaust er að skilmálar lánasamninganna voru samdir af forvera stefnda. Verður því lagt til grundvallar, svo sem áfrýjandi byggir á, að líta beri á hvern lánssamninganna þriggja sem sjálfstæða lánsskuldbindingu sem metin verður sem slík.

Í dómum Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010 var því slegið föstu að ófrávíkjanleg ákvæði 14. gr. laga nr. 38/2001 stæðu því í vegi að lántaki væri skuldbundinn af ákvæði í samningi um að fjárhæð láns í íslenskum krónum tæki breytingum eftir gengi erlends gjaldmiðils. Frá þeim tíma hefur rétturinn kveðið upp fjölmarga dóma, þar sem á það hefur reynt hvort skuldbinding samkvæmt lánssamningi teljist vera um fjárhæð í íslenskum krónum, sem á þennan óheimila hátt hafi verið gengistryggð, eða fjárhæð í erlendum gjaldmiðli sem fyrrnefnt lagaákvæði tekur ekki til. Í dómum sínum um hvort samningur sé um lán í erlendri mynt eða í íslenskum krónum bundið gengi erlendrar myntar hefur Hæstiréttur fyrst og fremst lagt til grundvallar skýringu á texta þess lánssamnings þar sem lýst er skuldbindingu þeirri sem lántaki gengst undir. Þegar sú textaskýring tekur ekki af skarið um hvers efnis lánssamningurinn er að þessu leyti hefur verið litið til atriða sem lúta að því hvernig hann hefur verið efndur og framkvæmdur að öðru leyti. Einkum hefur verið litið til þess hvernig aðilar hafa efnt aðalskyldur sínar. Fyrir texta umræddra lánssamninga er grein gerð hér að framan. Getur skýring samningstexta ein og sér ekki ráðið úrslitum málsins. Á hinn bóginn verður ráðið af gögnum málsins að forveri stefnda greiddi á grundvelli lánssamninganna íslenskar krónur inn á bankareikning áfrýjanda og greiddi áfrýjandi einnig afborganir af lánunum í íslenskum krónum. Báðir samningsaðilar efndu því meginskyldur sínar samkvæmt lánssamningunum með greiðslum í íslenskum krónum. Engu breytir um þessa niðurstöðu að lánssamningnum frá 20. september 2001 var myntbreytt í þrígang enda var skuldin í yfirlýsingu um myntbreytingu ekki tilgreind í erlendum myntum og samningurinn eftir sem áður efndur með þeim hætti að íslenskar krónur skiptu um hendur. Að öllu framangreindu gættu verður fallist á það með áfrýjanda að lánssamningarnir þrír hafi verið um lán í íslenskum krónum bundið gengi erlendra gjaldmiðla, en samkvæmt 13. og 14. gr., sbr. 2. gr., laga nr. 38/2001 er slík verðtrygging ólögmæt, sbr. til hliðsjónar dóm réttarins frá 17. desember 2015 í máli nr. 292/2015.

IV

Af stefnda hálfu er jafnframt á því byggt að fyrirvari sá sem gerður var af áfrýjanda hálfu árið 2011 við uppgreiðslu skuldbindinga samkvæmt lánssamningunum frá 2001 og 2002 hafi aðeins tekið til leiðréttingar á láni því sem hann þá tók til uppgreiðslu hinna eldri lána en ekki falið í sér rétt til þess að hafa uppi beina fjárkröfu kæmi síðar í ljós að skuldbindingar samkvæmt hinum uppgreiddu samningum reyndust ekki lögmætar. Í umræddum fyrirvara, sem rakin er hér að framan, og fram kom í umsókn áfrýjanda um höfuðstólslækkun lána í erlendri mynt 25. janúar 2011, sagði: „Með því að nýta sér úrræði Íslandsbanka hf. til höfuðstólslækkunar láns í erlendum myntum hefur lántaki ekki fyrirgert mögulegum betri rétti sínu, komist Hæstiréttur Íslands að þeirri niðurstöðu að skilmálar í erlendum lánum bankans, samkvæmt samskonar skuldaskjölum, uppfylli ekki þau skilyrði er rétturinn setur fram fyrir því að lán geti talist erlend. Fyrirvari þessi gildir um þau skuldaskjöl sem gefin verða út í samræmi við umsókn þessa og koma í stað hinna erlendu lána.“ Á það verður ekki fallist að fyrirvarinn verði túlkaður með þeim þrönga skilningi sem stefndi byggir á, þannig að hann feli aðeins í sér heimild til lækkunar lánsins frá árinu 2011 en ekki til þess að hafa uppi beina fjárkröfu af sama tilefni. Þykir orðalag fyrirvarans ekki gefa afdráttarlaust tilefni til að hann verði skilinn á þann veg og er þess þá jafnframt að gæta að óumdeilt er að umræddur fyrirvari var saminn af starfsmönnum forvera stefnda.

V

Svo sem rakið er hér að framan voru lán samkvæmt lánssamningunum frá 20. september 2001 og 11. júlí 2002 greidd upp með nýju láni samkvæmt lánssamningi  25. janúar 2011 en lánssamningurinn frá 15. febrúar 2005 var greiddur upp 20. janúar 2008.

Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur þeirri meginreglu kröfuréttar verið slegið fastri að kröfuhafi, sem fengið hefur minna greitt en hann á rétt til úr hendi skuldara, eigi tilkall til viðbótarkröfu. Frá þeirri meginreglu gilda þó undantekningar við sérstakar aðstæður, sem ráðast af heildarmati á öllum atvikum og lögskiptum aðila. Meðal þeirra atriða sem vega þungt er óhagræði skuldara af viðbótarkröfunni, en því meira sem það er því ríkari eru rökin til að víkja frá meginreglunni.

Við nánari skoðun á þeim atriðum sem mestu máli skipta við slíkt mat er í fyrsta lagi til þess að líta að þegar áfrýjandi innti af hendi greiðslur til stefnda af  lánssamningunum er ljóst að báðir aðilar gengu út frá því við hverja greiðslu að útreikningur kröfuhafans á fjárhæð afborgunar og vaxta tæki mið af því að gengistrygging lánanna væri gild. Var áfrýjandi því í góðri trú um að greiðslur hans á umsömdum vöxtum fælu í sér fullar efndir.

Í öðru lagi er þess að gæta um stöðu aðila að lánveitandinn var stórt fjármálafyrirtæki á alþjóðlegum markaði, sem bauð viðskiptavinum sínum ýmis lánakjör, þar með talin gengistryggð lán, sem reyndust ólögmæt. Ekkert liggur fyrir um að áfrýjandi hafi búið yfir slíkri sérþekkingu um fjármálastarfsemi að jafnað verði við þá sem fjármálafyrirtæki búa að öðru jöfnu ein yfir. Augljós aðstöðumunur var þannig á lánveitanda og lántaka í viðskiptum þeirra í umrætt sinn, sbr. til hliðsjónar sambærilegt mat réttarins í dómi 17. desember 2015 í máli nr. 292/2015.

Þá verður í þriðja lagi talið að festa hafi í öllum tilvikum verið kominn á framkvæmd lánssamninganna, en áfrýjandi greiddi reglulega samningsbundnar afborganir samkvæmt þeim frá 10. mars 2003 til 20. desember 2010.

Loks verður í fjórða lagi að líta til þess að hlutfall viðbótarkröfu stefnda vegna vaxta miðað við höfuðstól er verulegt í tilviki  lánssamningsins frá 20. september 2001, eða 63%, og í tilviki  samningsins frá 11. júlí 2002 nam sama hlutfall 54%. Loks nam viðbótarkrafan 24% af höfuðstól lánsins samkvæmt lánssamningnum 15. febrúar 2005.

Þegar allt framangreint er virt þykir það standa stefnda nær en áfrýjanda að bera þann vaxtamun sem af hinni ólögmætu gengistryggingu hlaust og um er deilt í málinu. Samkvæmt því verður fallist á þann útreikning sem liggur til grundvallar dómkröfum áfrýjanda en upplýst var við flutning málsins fyrir Hæstarétti að ekki væri ágreiningur þar um yrði á annað borð fallist á málsástæður áfrýjanda varðandi ólögmæti gengistryggingar og vaxtamun framangreinds efnis.

VI

Samkvæmt framansögðu verður tekin til greina krafa áfrýjanda á hendur stefnda að fjárhæð 167.614.749 krónur. Krafa áfrýjanda ber ekki vexti enda leiðir skylda til greiðslu þeirra ekki af samningi, venju eða lögum, sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001. Hins vegar er fallist á kröfu áfrýjanda um að fjárkrafa hans beri dráttarvexti frá 31. mars 2015.

Svo sem áður er rakið gerði áfrýjandi upp 20. janúar 2008 lánssamning 15. febrúar 2005 miðað við að gengisbinding hans væri gild. Af þeim sökum  ofgreiddi áfrýjandi fjárhæð sem svaraði til gengisfalls íslensku krónunnar. Með málsaðilum er ekki tölulegur ágreiningur um þá fjárhæð og svarar hún til þeirrar kröfu sem áfrýjandi hefur uppi til skuldajafnaðar. Við þetta uppgjör stofnaðist endurkrafa áfrýjanda á hendur forvera stefnda, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 21. nóvember 2013 í máli nr. 348/2013.

Kröfu áfrýjanda þess efnis að viðurkenndur verði réttur hans til að skuldajafna kröfu á hendur Glitni banka hf. að fjárhæð 45.511.634 krónur er mótmælt af stefnda hálfu á þeim grundvelli að slíkri kröfu sé ranglega beint að sér þar sem lánið samkvæmt lánssamningnum frá 15. febrúar 2005 hafi verið gert að fullu upp við forvera stefnda Glitni hf. 20. janúar 2008. Í 1. mgr. 13. töluliðar ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins 14. október 2008 um ráðstöfun eigna og skulda Glitnis banka hf. til áfrýjanda segir: „Framsal kröfuréttinda samkvæmt þessari ákvörðun skal ekki svipta skuldara rétti til skuldajafnaðar sem hann átti gagnvart fyrri kröfuhafa eða þrotabúi hans.“ Með vísan til þess að framsal kröfuréttinda við framangreinda ráðstöfun svipti skuldara ekki rétti til skuldajafnaðar verður viðurkenndur réttur áfrýjanda til skuldajafnaðar með kröfu sem stofnaðist vegna ofgreiðslu umrædds lánssamnings í tíð Glitnis banka hf. við kröfu stefnda. Líta verður svo á að áfrýjandi hafi lýst yfir skuldajöfnuði með því að höfða málið í héraði 30. mars 2015 og verður kröfunni, að fjárhæð 45.511.634 krónur, því skuldajafnað á móti lánssamningi stefnda og áfrýjanda 25. janúar 2011 miðað við þann dag. Við þann skuldajöfnuð ber krafa áfrýjanda ekki vexti, sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001.

Stefndi verður dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Stefndi, Íslandsbanki hf., greiði áfrýjanda, Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins bs., 167.614.749 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 31. mars 2015 til greiðsludags.

Viðurkenndur er réttur áfrýjanda til að skuldajafna kröfu sinni á hendur Glitni banka hf. að fjárhæð 45.511.634 krónur við lánssamning áfrýjanda og stefnda 25. janúar 2011 miðað við 30. mars 2015.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 2.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. apríl 2016.

 

                Mál þetta, sem dómtekið var hinn 4. febrúar sl., að lokinni aðalmeðferð, og endurupptekið og flutt að nýju 19. apríl sl., var höfðað fyrir dómþinginu af Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins bs., Skógarhlíð 14, Reykjavík, á hendur Íslandsbanka hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu 30. mars 2015.

Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 167.614.749 krónur með 5,75% vöxtum frá 11. janúar 2011 til 11. febrúar 2011, en frá þeim degi með 5,5% vöxtum til 1. september 2011, en frá þeim degi með 5,75 vöxtum til 11 nóvember 2011, en frá þeim degi með 6% vöxtum til 1. apríl 2012, en frá þeim degi með 6,25% vöxtum til 1. júní 2012, en frá þeim degi með 6,75% vöxtum til 21. júní 2012, en frá þeim degi með 7% vöxtum til 21. nóvember 2012, en frá þeim degi með 7,25% vöxtum til 21. nóvember 2014, en frá þeim degi með 7% vöxtum til 21. desember 2014, en frá þeim degi með 6,55% vöxtum til 31. mars 2015 en frá þeim degi með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, til greiðsludags.

Til vara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 167.614.749 krónur með vöxtum samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 11. janúar 2011 til 31. mars 2015, en frá þeim degi til greiðsludags með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001.

Til þrautavara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 167.614.749 krónur með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 11. janúar 2011 til 31. mars 2015, en frá þeim degi til greiðsludags með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001.

Þá krefst stefnandi þess að viðurkenndur verði með dómi réttur stefnanda til að skuldajafna kröfu á hendur Glitni banka hf. að fjárhæð 45.511.634 krónur með vöxtum samkvæmt 4 .gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 20. janúar 2008 til 31. mars 2015, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, vegna endurútreiknings lánssamnings frá 15. febrúar 2005, á móti kröfum stefnda vegna lánssamnings stefnanda og stefnda, dagsetts 25. janúar 2011, að fjárhæð 602.366.237 krónur.

                Til vara krefst stefnandi þess að viðurkenndur verði með dómi réttur stefnanda til að skuldajafna kröfu á hendur Glitni banka hf. að fjárhæð 45.511.634 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 20. janúar 2008 til 31. mars 2015, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, vegna endurútreiknings lánssamnings frá 15. febrúar 2005, á móti kröfum stefnda vegna lánssamnings stefnanda og stefnda, dagsetts 25. janúar 2011, að fjárhæð 602.366.237 krónur.

Í öllum tilvikum krefst stefnandi greiðslu málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda samkvæmt mati dómsins.

Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað, að skaðlausu.

II

Stefnandi er byggðasamlag sem sinnir slökkvistarfi, sjúkraflutningum, almannavörnum og öðrum verkefnum sem stjórn stefnanda ákveður hverju sinni og varðar velferð íbúa.  Stofnendur og eigendur stefnanda eru sex sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. Reykjavíkurborg, Kópavogsbær, Hafnarfjarðarbær, Garðabær, Mosfellsbær og Seltjarnarnesbær.

Mál þetta er til komið vegna ágreinings um lögmæti þriggja lánssamninga sem stefnandi gerði upphaflega við Íslandsbanka hf., síðar Glitnir banki hf.

Óumdeilt er að kröfuréttindi samkvæmt tveimur þessara samninga, nr. 104054 og nr. 104053, fluttust til stefnda með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 14. október 2008. Kröfuréttindi samkvæmt þriðja samningnum, dagsettum 15. febrúar 2005, fluttust hins vegar ekki til stefnda, enda skuldbindingar stefnanda samkvæmt honum greiddar upp í janúar 2008.

Í fyrsta lagi er um að ræða lánssamning nr. 104054 frá 20. september 2001.  Á forsíðu samningsins er hann sagður verið um lán í erlendum gjaldmiðlum.  Í aðfararorðum samningsins segir að um sé að ræða lán til 15 ára að fjárhæð, að jafngildi 190 milljóna króna í eftirtöldum erlendum myntum: „USD, EUR, CBP, CHF og JPY“

Í 1. gr. í samningnum kemur fram að lánið sé laust til útborgunar frá undirritun samningsins til 10. mars 2002.  Þá segir þar að lágmarksfjárhæð hvers lánshluta sem greiddur sé út samkvæmt samningnum sé 50.000.000 króna, eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í öðrum gjaldmiðlum.  Í greininni er enn fremur kveðið á um að lántaki skuli senda lánveitanda beiðni um útborgun með a.m.k. tveggja virkra bankadaga fyrirvara, þar sem tiltekinn sé sá reikningur sem leggja skuli lánið eða lánshlutann inn á.  Í útborgunarbeiðni skuli lántaki tilkynna lánveitanda í hvaða erlenda gjaldmiðli hann muni umbreyta lánsfjárhæðinni og í hvaða hlutföllum.  Kemur þá fram að valréttur lántaka takmarkist hverju sinni við Bandaríkjadali, evrur, bresk pund, svissneska franka og japönsk jen.  Auk þess mátti lánið aldrei vera samsett úr fleiri gjaldmiðlum en fimm í einu og fjárhæð hvers gjaldmiðils mátti ekki vera lægri en 6% af eftirstöðvum lánsins umreiknuðum í íslenskar krónur.  Að lokum segir í greininni að fjárhæð hvers gjaldmiðils ákvarðist ekki fyrr en tveimur virkum bankadögum fyrir útborgun lánsins.  Á þeim tíma verði fjárhæðirnar endanlegar og muni ekki breytast innbyrðis þaðan í frá, þótt upphafleg hlutföll þeirra kunni að breytast á lánstímanum.  Lánið yrði þá eftirleiðis tilgreint með fjárhæð þeirra erlendu mynta, eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum myntum eða íslenskum krónum.  Í 1. gr. var og gert ráð fyrir því að lánsloforð lánveitanda myndi falla niður fyrirvaralaust hefði stefnandi ekki sent beiðni um útborgun fyrir 8. mars 2002.

Í 2. gr. í samningnum kemur fram að lánið beri að endurgreiða í þeim gjaldmiðlum sem það samanstendur af.  Skuldbatt stefnandi sig til að endurgreiða lánið með 59 afborgunum á þriggja mánaða fresti, fyrst 10. júní 2002.  Greiddur yrði 1/120 hluti höfuðstóls við fyrstu 58 afborganir af láninu en lokagreiðslan 10. desember 2016 væri 62/120 hluti höfuðstólsins.  Stefnandi hafði heimild til að greiða skuldina að hluta eða fullu á tilteknum tímamörkum en lágmarksgreiðsla umfram greiðsluskyldu var ákveðin 250.000 Bandaríkjadalir eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í öðrum gjaldmiðlum. 

Samkvæmt 3. gr. í samningnum báru lánshlutar í öðrum myntum en evrum þriggja mánaða LIBOR-vexti en lánshlutar í evrum þriggja mánaða EURIBOR-vexti, hvort tveggja að viðbættu 0,70% vaxtaálagi.  Dráttarvextir skyldu vera vaxtagrunnur, eftir því sem við ætti, auk vaxtaálags, að viðbættu 5% vanskilaálagi.  Við vanefnd var lánveitanda heimilt að umreikna lánið í íslenskar krónur miðað við sölugengi lánveitanda í lok gjaldfellingardags, í þeim myntum sem lánið samanstæði af.

Í 4. gr. í lánasamningnum er að finna myntbreytingarheimild, en þar er kveðið á um að lántaka sé heimilt að óska eftir myntbreytingu lánsins, í fyrsta sinn 10. september 2004, þannig að eftirstöðvar lánsins miðist við aðra erlenda mynt eða reiknieiningu, eina eða fleiri, frá og með upphafi næsta vaxtatímabils enda tilkynni hann það skriflega til lánveitanda a.m.k. 10 dögum fyrir gjalddaga.

Við myntbreytingu skyldi „við umreikning nota sölugengi þess gjaldmiðils sem hætt er að miða við og kaupgengi þess gjaldmiðils sem framvegis skal miða við“. Þá segir í greininni að samningurinn kunni að fá ný lánsnúmer við myntbreytingu að öllu leyti eða að hluta.

Í þrígang var dregið á lánið með undirritun beiðna um útborgun láns, þ.e. þann 21. september 2001, lánsleggir nr. 302453-302456, 21. nóvember 2001, lánsleggir nr. 302639-302642 og 18. desember 2001, lánsleggir nr. 302708-302711.  Í öllum útborgunarbeiðnum segir orðrétt: „Með vísan til 1. gr. samnings milli Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs. og Íslandsbanka-FBA hf., dags. 20. september 2001 um lán að fjárhæð kr. 190.000.000,00 er þess óskað að lánið verði greitt út í íslenskum krónum með eftirgreindum hætti.“  Í útborgunarbeiðnunum eru svo fjárhæð hvers lánshluta tilgreindir í hverri mynt og eftir fjárhæðinni segir alls staðar „Greiðist í íslenskum krónum.“

Á framlögðum kaupnótum vegna lánsins kemur fram fjárhæð hvers lánshluta í hinum erlendu gjaldmiðlum, jafngildi hvers gjaldmiðils í íslenskum krónum miðað við tiltekið gengi, sem lagðar voru inn á reikning stefnanda og samanlögð fjárhæð þess í íslenskum krónum.  Samkvæmt kaupnótunum fékk hver lánshluti sérstakt lánsnúmer, þ.e. lánshlutar nr. 302453-302456 í Bandaríkjadölum, evrum, breskum pundum og jenum, lánshlutar nr. 302639-642 í Bandaríkjadölum, breskum pundum, japönskum jenum og evrum og lánshlutar nr. 302708-711 í Bandaríkjadölum, breskum pundum, japönskum jenum og evrum.

Samkvæmt framlögðum skjölum stefnda um svokölluð stundarviðskipti með gjaldeyri voru erlendu gjaldmiðlarnir yfirfærðir í íslenskar krónur á tilteknu gengi.  Lánið var greitt út í íslenskum krónum inn á reikning stefnanda nr. 515-26-2130. 

Gerður var viðauki við umræddan samning þann 15. febrúar 2005.  Hann fól meðal annars í sér að myntbreytingarheimild 4. gr. samningsins var breytt að beiðni stefnanda þannig að framvegis væri stefnanda heimilt að myntbreyta láni yfir í íslenskar krónur, en heimild stefnanda til myntbreytingar hafði verið bundin við tiltekna erlenda gjaldmiðla.  Færi svo að stefnandi nýtti nýtilkomna heimild sína skyldu vextir lánssamnings í íslenskum krónum taka mið af þriggja mánaða REIBOR-vöxtum, auk 0,40% vaxtaálags.

Í desember 2005 nýtti stefnandi heimild sína til að myntbreyta skuldbindingum sínum í Bandaríkjadali, sem þá var að fjárhæð 569.563 Bandaríkjadalir, lánshlutar 302453, 302639 og 302708, í sænskar krónur og svissneska franka, sbr. tölvubréfasamskipti aðila.  Í tengslum við þessar myntbreytingar liggja fyrir útprentanir af þeim stundarviðskiptum með gjaldeyri sem stefndi kveður að farið hafi fram í þessum tilgangi, þar sem 1.883.846,05 sænskar krónur og 435.270 svissneskir frankar, sem stefnandi hafi í reynd fengið að láni hjá lánveitanda í tengslum við myntbreytinguna, hafi verið yfirfærðir í 235.997 Bandaríkjadali á genginu 7.9825 og 333.566 Bandaríkjadalir á genginu 1.3049.  Bandaríkjadalir hafi síðan verið nýttir til að greiða upp skuldbindingar stefnanda í þeirri mynt og eftir staðið skuldbindingar stefnanda í sænskum krónum og svissneskum frönkum, sbr. kaupnótu, þar sem fjárhæð skuldbindinga stefnanda í sænskum krónum og svissneskum frönkum, lánshlutar nr. 307127-128, komi fram, sem og jafngildi þeirra í íslenskum krónum.

Þann 8. júní 2006 óskaði stefnandi aftur eftir „myntbreytingu á láninu“, þannig að öllum lánshlutum samningsins, þ.e. nr. 302454-456 í evrum, breskum pundum og japönskum jenum, nr. 302640-642 í breskum pundum, japönskum jenum og evrum, nr. 302709-711 í breskum pundum, japönskum jenum og evrum, og nr. 307127-128 í sænskum krónum og svissneskum frönkum, yrði myntbreytt í íslenskar krónur miðað við 10. júní 2006.  Í tengslum við þessa myntbreytingu liggja fyrir útprentanir af þeim svokölluðu stundarviðskiptum með gjaldeyri sem stefndi kveður að farið hafi fram í þessum tilgangi, þar sem íslenskar krónur, sem stefnandi hafi í reynd fengið að láni í þessum tilgangi hafi verið yfirfærðar í hina erlendu gjaldmiðla, sem stefnandi skuldaði.  Þeir gjaldmiðlar hafi í framhaldinu verið nýttir til að greiða upp skuldbindingar stefnanda og eftir staðið skuldbinding stefnanda í íslenskum krónum, sbr. kaupnótu, dagsetta 10. júní 2006, er sýnir skuldbindingu stefnanda í íslenskum krónum eingöngu, 136.100.175 krónur, lánshluti nr. 307985.

Einnig óskaði stefnandi eftir því, þann 6. júní 2008, að allri skuldbindingu hans, sem þá var eingöngu í íslenskum krónum, yrði aftur myntbreytt í erlenda gjaldmiðla, eða nánar tiltekið Bandaríkjadali 74,5%, bresk pund 20% og evrur 5,5%.  Í málinu liggja frammi útprentanir af þeim stundarviðskiptum sem stefndi kveður að farið hafi fram í þessum tilgangi, þar sem Bandaríkjadalir, bresk pund og evrur, sem stefnandi hafi í reynd fengið að láni í þessum tilgangi, voru yfirfærð í íslenskar krónur, sem stefnandi skuldaði.  Krónurnar hafi í framhaldinu verið nýttar til að greiða upp skuldbindingu stefnanda.  Eftir hafi þá staðið skuldbindingar stefnanda að fjárhæð 1.232.138,67 Bandaríkjadalir, lánshluti nr. 312211, 168.588,21 breskt pund, lánshluti 312212, og 57.993,37 evrur, lánshluti nr. 312213.

Afborganir af láninu fóru alltaf fram í íslenskum krónum.  Á greiðsluseðlum Íslandsbanka hf. var mynt lánssamningsins tilgreind undir liðnum „Grunnverðtrygging“.  Á greiðsluseðlunum kemur fram að til greiðslu á gjalddaga sé ákveðin fjárhæð í erlendri mynt, auk þess sem eftirstöðvar fyrir og eftir greiðslu eru tilgreindar í þeirri mynt.  Einnig kom fram upphafleg fjárhæð í íslenskum krónum og í erlendri mynt.  Þá voru enn fremur leiðbeiningar um hvernig greiða ætti lánið undir liðnum „Útreikningur“ á greiðsluseðlunum. Þar sagði m.a.: „Margfaldað er „Til greiðslu [myntar]“ með sölugengi [myntar] á greiðsludegi til að finna greiðslufjárhæð í íslenskum krónum.  Notað er opinbert viðmiðunargengi Seðlabankans.“

Uppgreiðsla lánsins fór fram með lánssamningi, dagsettum 25. janúar 2011, en á forsíðu samningsins er lánið sagt vera „lán í íslenskum krónum óverðtryggt“.

Í öðru lagi er um að ræða lánssamning nr. 104053 frá 11. júlí 2002, sem á forsíðu hans er sagður vera um lán í erlendum gjaldmiðlum.  Í aðfararorðum samningsins segir að um sé að ræða lán til 15 ára að fjárhæð, að jafngildi 423.000.000 króna „í eftirtöldum erlendum myntum og hlutföllum: USD 31,0%, GBP 14,8%, JPY 9,2%, CHF 12,6% og EUR 32,4%“.

Í 1. gr. í samningnum segir að lánið sé laust til útborgunar frá undirritun samningsins til 10. mars 2003.  Þá er þar kveðið á um að lágmarksfjárhæð hvers lánshluta sem greiddur verði út samkvæmt samningnum sé 50.000.000 króna eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í öðrum gjaldmiðlum.  Í greininni er enn fremur kveðið á um að lántaki skuli senda lánveitanda beiðni um útborgun með a.m.k. tveggja virkra bankadaga fyrirvara, þar sem tiltekinn sé sá reikningur sem leggja skuli lánið eða lánshlutann inn á.  Í útborgunarbeiðni skuli lántaki tilkynna lánveitanda í hvaða erlenda gjaldmiðli hann muni umbreyta lánsfjárhæðinni og í hvaða hlutföllum.  Samkvæmt þessari grein samningsins takmarkaðist valréttur lántaka hverju sinni við Bandaríkjadali, bresk pund, Kanadadali, danskar krónur, norskar krónur, sænskar krónur, svissneska franka, japönsk jen og evrur.  Auk þess sem lánið mátti aldrei vera samsett úr fleiri gjaldmiðlum en fimm í einu og fjárhæð hvers gjaldmiðils mátti ekki vera lægri en 6% af eftirstöðvum lánsins umreiknuðum í íslenskar krónur.  Þá segir þar, að fjárhæð hvers gjaldmiðils ákvarðist ekki fyrr en tveimur virkum bankadögum fyrir útborgun lánsins, en á því tímamarki yrðu fjárhæðirnar endanlegar og mynduðu upphaflegan höfuðstól lánsins.  Þá var kveðið á um að að lánsloforð lánveitanda myndi falla niður fyrirvaralaust hefði stefnandi ekki sent beiðni um útborgun fyrir 8. mars 2003.

Í 2. gr. í samningnum kemur fram að lánið ber að endurgreiða í þeim gjaldmiðlum sem það samanstendur af.  Samkvæmt 2. gr. samningsins skuldbatt stefnandi sig til að endurgreiða lánið með 58 afborgunum á þriggja mánaða fresti, fyrst 20. september 2003. Greiddur yrði 1/120 hluti höfuðstóls við fyrstu 57 afborganir af láninu en lokagreiðslan 20. desember 2017 væri 63/120 hluti höfuðstólsins. Stefnandi hafði heimild til að greiða skuldina að hluta eða fullu á tilteknum tímamörkum en lágmarksgreiðsla umfram greiðsluskyldu var ákveðin „USD 250.000 ... eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í öðrum gjaldmiðlum“.

Samkvæmt 3. gr. í samningnum báru lánshlutar í öðrum myntum en evrum þriggja mánaða LIBOR-vexti en lánshlutar í evrum þriggja mánaða EURIBOR-vexti, hvort tveggja að viðbættu 0,50% vaxtaálagi.  Dráttarvextir skyldu vera vaxtagrunnur, eftir því sem við ætti, auk vaxtaálags, að viðbættu 5% vanskilaálagi.  Við vanefnd var lánveitanda heimilt að umreikna lánið í íslenskar krónur miðað við sölugengi lánveitanda í lok gjaldfellingardags, á þeim myntum sem lánið samanstæði af.

Í 4. gr. í lánssamningnum er að finna myntbreytingarheimild, en þar er kveðið á um að lántaka sé heimilt að óska eftir myntbreytingu þess, í fyrsta sinn 20. júní 2003, og svo á vaxtagjalddögum, þannig að eftirstöðvar lánsins miðist við aðra erlenda mynt eða reiknieiningu, eina eða fleiri, frá og með upphafi næsta vaxtatímabils, enda tilkynni hann það skriflega til lánveitanda a.m.k. 10 dögum fyrir gjalddaga.  Við myntbreytingu skyldi, þegar umreiknað var, nota sölugengi þess gjaldmiðils sem hætt var að miða við og kaupgengi þess gjaldmiðils sem framvegis skyldi miða við.  Kynni samningurinn að fá ný lánsnúmer við myntbreytingu að öllu leyti eða að hluta.

Í þrígang var dregið á lánið með undirritun beiðna um útborgun láns, þ.e. þann 11. september 2002, lánsleggir nr. 303400-303404, þann 20. desember 2002 lánsleggir nr. 303637-303641 og þann 15. ágúst 2003 lánsleggir nr. 304212-304216.  Í öllum útborgunarbeiðnum segir orðrétt: „Með vísan til 1. gr. samnings milli Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs. og Íslandsbanka hf., dags. 11. júlí 2002 um lán að fjárhæð kr. 423.000.000,00 er þess óskað að lánið verði greitt út í íslenskum krónum með eftirgreindum hætti og í útborgunarbeiðninni eru svo lánshlutarnir tilgreindir í hverri mynt en eftir fjárhæðinni segir alls staðar „Greiðist í íslenskum krónum.“  Lánið var greitt út í íslenskum krónum.

Með fyrstu útborgunarbeiðninni, dagsettri 11. september 2002, óskaði stefnandi eftir því að „lánið verði greitt út í íslenskum krónum með því að lánshluti í „USD: 229.463,06. Greiðist í íslenskum krónum ... GBP: 118.544,06. Greiðist í íslenskum krónum ... Lánshluti í JPY: 29.057.700,29. Greiðist í íslenskum krónum ... Lánshluti í CHF: 397.648,69. Greiðist í íslenskum krónum ... Lánshluti í EUR: 236.239,07. Greiðist í íslenskum krónum“, samtals að jafngildi 100.000.000 króna.  Skyldi leggja hvern lánshluta inn á reikning stefnanda nr. 512-26-2130.  Síðari útborgunarbeiðnir stefnanda, dagsettar 20. desember 2002 og 15. ágúst 2003, samtals að jafngildi 200.000.000 króna og 123.000.000 króna, innihéldu samskonar orðalag þar sem vísað var til tiltekinna fjárhæða í Bandaríkjadölum, breskum pundum, japönskum jenum, svissneskum frönkum og evrum, sem skyldi greiða í íslenskum krónum inn á sama reikning stefnanda.

Á kaupnótunum kemur fjárhæð hvers lánshluta fram í hinum erlendu gjaldmiðlum, jafngildi hvers erlends gjaldmiðils í íslenskum krónum miðað við tiltekið gengi og sem lagðar voru inn á reikning stefnanda. Samkvæmt kaupnótunum fékk hver lánshluti sérstakt lánsnúmer, þ.e. nr. 303400-404, lánsleggir í Bandaríkjadölum, breskum pundum, japönskum jenum, svissneskum frönkum og evrum, nr. 303637-641 lánsleggir í Bandaríkjadölum, breskum pundum, japönskum jenum, svissneskum frönkum og evrum og nr. 304212-216 lánshluti í Bandaríkjadölum, breskum pundum, japönskum jenum, svissneskum frönkum og evrum.

Samkvæmt framlögðum gögnum stefnda um svokölluð stundarviðskipti með gjaldeyri voru hinir erlendu gjaldmiðlar yfirfærðir í íslenskar krónur á tilteknu gengi.

Viðauki var gerður við lánssamninginn 11. júlí 2002, þar sem breytt var 1. mgr. 1. gr. samningsins á þann hátt að lánið varð laust til útborgunar til 10. október 2003 í stað 10. mars 2003.

Þann 15. febrúar 2005 var gerður við umræddan samning sams konar viðauki og gerður var við samning nr. 104054 sama dag, þar sem myntbreytingarheimild samningsins var breytt að beiðni stefnanda.

Afborganir af láninu fóru alltaf fram í íslenskum krónum.  Samkvæmt greiðsluseðlum vegna lánsins kemur fram að til greiðslu á gjalddaga sé ákveðin fjárhæð í erlendum myntum, auk þess sem eftirstöðvar fyrir og eftir greiðslu eru tilgreindar í erlendum myntum.  Einnig kemur þar fram upphafleg lánsfjárhæð í íslenskum krónum og erlendri mynt og skýring á því hvernig greiðslufjárhæð í íslenskum krónum er fundin.  Á greiðsluseðlum Íslandsbanka hf. var mynt lánssamningsins tilgreind undir liðnum „Grunnverðtrygging“.  Þá voru enn fremur leiðbeiningar um hvernig greiða ætti lánið undir liðnum „Útreikningur“ í greiðsluseðlunum.  Þar sagði m.a.: „Margfaldað er „Til greiðslu [myntar]“ með sölugengi [myntar] á greiðsludegi til að finna greiðslufjárhæð í íslenskum krónum. Notað er opinbert viðmiðunargengi Seðlabankans.“

Skuldbindingar stefnanda samkvæmt samningum nr. 104054 og 104053, þ.e. lánshlutar nr. 312211-213 samkvæmt samningi nr. 104054 og lánshlutar nr. 303400-404, 303637-641 og 304212-216 samkvæmt samningi nr. 104053, voru síðan greiddar upp með nýju láni frá stefnda samkvæmt samningi, dagsettum 25. janúar 2011. Uppgreiðslan fór fram í kjölfar umsóknar stefnanda „um höfuðstólslækkun og myntbreytingu láns/lána í erlendri mynt“, sbr. tölvubréf stefnanda og umsóknina sjálfa.  Í tölvubréfinu útskýrir stefnandi rök sín og ráðgjafa síns fyrir umsókninni, meðal annars að það væri „betra að skulda í sömu mynt og tekjurnar eru í“.

Þann 25. janúar 2011 undirritaði stefnandi „Umsókn um höfuðstólslækkun og myntbreytingu láns/lána í erlendri mynt“, með þeim fyrirvara sem þar sérstaklega greinir, og lýtur að „mögulegum betri rétti ... komist Hæstiréttur Íslands að þeirri niðurstöðu að skilmálar í erlendum lánum bankans, samkvæmt samskonar skuldaskjölum, uppfylli ekki þau skilyrði sem rétturinn setur fram fyrir því að lán geti talist erlent.“  Gilti fyrirvari þessi „um þau skuldaskjöl sem gefin verða út í samræmi við umsókn þessa og koma í stað hinna erlendu lána“.  Umsóknin tók til allra skuldbindinga stefnanda samkvæmt framangreindum samningum nr. 104054 og nr. 104053.  Nánar tiltekið var sótt um „að lánaskilmálum láns/lána umsækjanda í erlendri mynt við Íslandsbanka hf. (lánveitanda) verði breytt þannig að allir lánshlutar umreiknist í íslenskar krónur og höfuðstóll lækki“.  Um lækkun höfuðstóls segir: „Breytingin felst í því að skilmálum lánsins/lánanna er breytt þannig að eftirstöðvar þess/þeirra umreiknast í íslenskar krónur frá og með 11.01.2011.  Miðað er við lækkun á höfuðstól þannig að hann sé umreiknaður í íslenskar krónur m.v. sölugengi undirliggjandi mynta þann 29.09.2008 samkvæmt gengisskráningu Seðlabanka Íslands.  Munurinn á þeirri stöðu og uppreikningi þann 11.01.2011 er höfuðstólslækkun lánsins/lánanna.  Vanskil og áfallnir vextir frá síðasta gjalddaga sæta ekki lækkun og leggjast ofan á höfuðstól nýja lánsins/nýju lánanna.“  Kom þar einnig fram að höfuðstóll lána eftir höfuðstólslækkun verði 602.366.237 krónur og að lækkun næmi því 111.710.217 krónum.

Sama dag, þ.e. 25. janúar 2011, gerðu stefnandi og stefndi með sér samning um óverðtryggt lán til 30 ára að fjárhæð 602.366.237 krónur.  Skyldi ráðstafa láninu til að endurfjármagna, þ.e. greiða upp, skuldbindingar stefnanda samkvæmt samningum nr. 104054 og nr. 104053, þ.e. fyrrgreinda lánshluta, eins og þær stóðu eftir framangreinda höfuðstólslækkun og myntbreytingu.  Eftirstöðvarnar, þ.e. það sem nam framangreindri höfuðstólslækkun, 111.710.217 krónur, voru afskrifaðar.

Í þriðja og síðasta lagi er um að ræða lánssamning frá 15. febrúar 2005, sem á forsíðu er sagður vera um lán í erlendum gjaldmiðlum og íslenskum krónum, óverðtryggt.  Í aðfararorðum samningsins segir að um sé að ræða lánssamning til 15 ára með 30 ára greiðsluferli að fjárhæð að jafngildi allt að 353.000.000 króna, þó aldrei lægra en 335.000.000 króna.

Á forsíðu lánssamningsins komi fram að um sé að ræða „lán í erlendum gjaldmiðlum og íslenskum krónum óverðtryggt“.  Í upphafsorðum samningsins segi að um sé að ræða „lán til 15 ára með 30 ára greiðsluferli að fjárhæð að jafngildi allt að kr. 353.000.000,- þrjúhundruðfimmtíuogþrjármilljónir 00/100 – þó aldrei lægra en 335.000.000,- þrjúhundruðþrjátíuogfimmmilljónir – í íslenskum krónum og/eða erlendum myntum með þeim skilmálum sem greinir í samningi þessum.“

Þá komi fram í 1. gr. í samningnum að lágmarksfjárhæð hvers lánshluta sem greiddur yrði út samkvæmt samningnum væri 50.000.000 króna eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í öðrum gjaldmiðlum.  Í greininni er enn fremur kveðið á um að lántaki skuli senda lánveitanda beiðni um útborgun með a.m.k. tveggja virkra bankadaga fyrirvara, þar sem tilteknir séu þeir reikningar sem leggja skuli lánið eða lánshlutann inn á.  Í útborgunarbeiðni skuli lántaki tilkynna lánveitanda í hvaða erlenda gjaldmiðli hann muni umbreyta lánsfjárhæðinni og í hvaða hlutföllum, þó að lágmarki 6% fyrir einstakan gjaldmiðil.  Fjárhæð hvers erlends gjaldmiðils fyrir sig skyldi þó ekki ákvarðast fyrr en tveimur virkum bankadögum fyrir útborgun lánsins.  Á því tímamarki yrðu fjárhæðirnar endanlegar og myndu ekki breytast innbyrðis þaðan í frá, þótt upphafleg hlutföll þeirra kynnu að breytast á lánstímanum.  Lánið yrði þá eftirleiðis tilgreint með fjárhæð þeirra erlendu mynta, eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum myntum og íslenskum krónum samkvæmt heimildum samningsins.  Í greininni var gert ráð fyrir því að lánsloforð lánveitanda myndi falla niður fyrirvaralaust hefði stefnandi ekki sent beiðni um útborgun fyrir 12. janúar 2006, en lán samkvæmt samningnum var laust til útborgunar frá undirritun hans fram til 14. janúar 2006.  Þá kom fram að hefði lántaki ekki sent lánveitanda skriflega beiðni um útborgun fyrsta lánshluta fyrir 28. febrúar 2005 félli lánsloforð lánveitanda niður fyrirvaralaust. 

Í 2. gr. í samningnum komi fram að lánið bar að endurgreiða í þeim gjaldmiðlum sem það samanstóð af.  Mátti lántaki því aðeins greiða lánshluta í erlendum myntum í íslenskum krónum að lánveitandi hefði samþykkt það.  Skuldbatt stefnandi sig til að endurgreiða lánið með 60 afborgunum á þriggja mánaða fresti, fyrst 20. apríl 2005.  Greiddur yrði 1/120 hluti höfuðstóls við fyrstu 59 afborganir af láninu en lokagreiðslan, 20. janúar 2020, yrði 61/120 hluti höfuðstólsins.  Stefnandi hafði heimild til að greiða skuldina að hluta eða fullu á tilteknum tímamörkum en lágmarksgreiðsla umfram greiðsluskyldu var ákveðin „USD 250.000 ... eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í öðrum gjaldmiðlum“.

Samkvæmt 3. gr. í samningnum báru lánshlutar í öðrum myntum en evrum þriggja mánaða LIBOR-vexti en lánshlutar í evrum þriggja mánaða EURIBOR-vexti, hvort tveggja að viðbættu 0,40% vaxtaálagi.  Lánshluti í íslenskum krónum bar þriggja mánaða REIBOR-vexti.  Dráttarvextir skyldu vera vaxtagrunnur, eftir því sem við ætti, auk vaxtaálags, að viðbættu 5% vanskilaálagi.  Við vanefnd var lánveitanda heimilt að umreikna lánið í íslenskar krónur miðað við sölugengi lánveitanda í lok gjaldfellingardags, á þeim myntum sem lánið samanstæði af.

Í 4. gr. í lánasamningnum er að finna myntbreytingarheimild en þar er kveðið á um að lántaka sé heimilt að óska eftir myntbreytingu lánshluta í erlendum myntum á vaxtagjalddögum, þannig að eftirstöðvar lánsins miðist við aðra erlenda mynt eða reiknieiningu, eina eða fleiri, frá og með upphafi næsta vaxtatímabils enda tilkynni hann það skriflega til lánveitanda a.m.k. þremur dögum fyrir gjalddaga.  Við myntbreytingu skyldi „semja um gengi þeirra gjaldmiðla sem um ræðir tveimur bankadögum fyrir myntbreytingu“ en ef samkomulag næðist ekki skyldi „við umreikning nota sölugengi þess gjaldmiðils sem hætt er að miða við og kaupgengi þess gjaldmiðils sem framvegis skal miða við“.  Kynni samningurinn að fá ný lánsnúmer við myntbreytingu að öllu leyti eða að hluta.

Í fjórgang var dregið á lánið með undirritun beiðna um útborgun þess, þ.e. þann 2. mars 2005, lánsleggir 305960-305962, 2. desember 2005, lánsleggir 307096-3073098, 28. júní 2006, lán í íslenskum krónum, og 28. september 2006, lánsleggir 308403-308404.  Í öllum útborgunarbeiðnum segi orðrétt:

„Með vísan til 1. gr. samnings milli Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs. og Íslandsbanka hf., dags. 15. febrúar 2005 um lán að fjárhæð kr. 353.000.000,00 er þess óskað að lánið verði greitt út í íslenskum krónum með eftirgreindum hætti.“  Í útborgunarbeiðninni eru svo lánshlutarnir tilgreindir í hverri mynt en á eftir fjárhæðinni segi alls staðar „Greiðist í íslenskum krónum“.

Með fyrstu útborgunarbeiðninni, dagsettri 2. mars 2005, óskaði stefnandi eftir því að „lánið verði greitt út í íslenskum krónum með eftirgreindum hætti: Lánshluti í CHF: 675.284,58. Greiðist í íslenskum krónum ...  Lánshluti í NOK: 2.570.694,09. Greiðist í íslenskum krónum ... Lánshluti í USD: 574.335,41.  Greiðist í íslenskum krónum“, samtals að jafngildi 95.000.000 króna.  Skyldi leggja hvern lánshluta inn á reikning stefnanda nr. 512-26-2130.  Síðari útborgunarbeiðnir stefnanda, dagsett 2. desember 2005, samtals að jafngildi 125.000.000 króna, og 28. september 2006, samtals að jafngildi 60.000.000 króna, innihéldu sams konar orðalag þar sem vísað var til tiltekinna fjárhæða í svissneskum frönkum, japönskum jenum, sænskum krónum og evrum, sem skyldi greiða í íslenskum krónum inn á sama reikning stefnanda.

Samkvæmt framlögðum kaupnótum var hver lánshluti greiddur í íslenskum krónum inn á tilgreindan reikning stefnanda.  Á kaupnótunum kemur fjárhæð hvers lánshluta fram í hinum erlendu gjaldmiðlum, jafngildi hvers erlends gjaldmiðils í íslenskum krónum miðað við tiltekið gengi.  Samkvæmt kaupnótunum fékk hver lánshluti sérstakt lánsnúmer, þ.e. nr. 305960-962, nr. 307996-998 og nr. 305403-404. Auk þess óskaði stefnandi eftir því að einn lánshlutinn, nr. 308054, yrði í íslenskum krónum, að fjárhæð 20.000.000 króna.

Samkvæmt framlögðum skjölum stefnda um svokölluð stundarviðskipti með gjaldeyri voru lánshlutar í erlendum gjaldmiðlum yfirfærðir í íslenskar krónur á tilteknu gengi.

Á greiðsluseðlum vegna lánsins kemur fram að til greiðslu sé ákveðin fjárhæð í erlendri mynt.  Auk þess eru eftirstöðvar þar tilgreindar í erlendri mynt og íslenskum krónum, sem og skýring á því hvernig greiðslufjárhæð í íslenskum krónum væri fundin, en notast væri við opinbert viðmiðunargengi Seðlabankans.  Afborganir af láninu hafi alltaf farið fram í íslenskum krónum.  Á greiðsluseðlum Íslandsbanka hf. var mynt lánssamningsins tilgreind undir liðnum „Grunnverðtrygging“. 

Sem fyrr segir var lán samkvæmt samningnum frá 15. febrúar 2005 gert upp að fullu þann 20. janúar 2008, fyrir stofnun stefnda

Samkvæmt heimild í 100. gr. a. í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hlutahafafundar Glitnis banka hf., þann 7. október 2008, vék stjórn hans frá og setti skilanefnd yfir bankann.  Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 14. október sama ár, sem reist var á sömu lagaheimild, var eignum og skuldum bankans ráðstafað.  Í þeirri ákvörðun fólst að öllum eignum Glitnis banka hf., þ.m.t. kröfuréttindum, var ráðstafað til stefnda sem þá hét Nýi Glitnir banki hf.  Í 13. tölulið umræddrar ákvörðunar var svo sérstaklega tekið fram að framsal allra kröfuréttinda samkvæmt ákvörðuninni skyldi ekki svipta skuldara rétti til skuldajöfnuðar sem hann átti gagnvart fyrri kröfuhafa eða þrotabúi hans.

Að mati stefnanda var lánið verulega ofgreitt vegna ólögmætrar gengistryggingar.  Enda þótt lánið hafi verið gert upp í tíð Glitnis banka hf. beri engu að síður að líta til þess að á þeim tíma stóð stefnandi í skuld við Glitni banka hf. á grundvelli lánssamninga nr. 104054 og 104053, sem sannarlega voru yfirteknir af stefnda á grundvelli framangreindrar ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins 14. október 2008, og endurfjármagnaðir á grundvelli lánssamnings aðila, dagsetts 25. janúar 2011, að fjárhæð 602.366.237 krónur.  Með vísan til 13. töluliðar framangreindrar ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins telur stefnandi að hann eigi rétt til að skuldajafna kröfu sinni, vegna ólögmætrar gengistryggingar lánssamnings, dagsetts 15. febrúar 2005, á móti kröfum stefnda á grundvelli lánssamnings, dagsetts 25. janúar 2011. Stefndi byggir hins vegar á því að kröfuréttindi samkvæmt samningnum hafi ekki flust yfir til hans með fyrrgreindri ákvörðun Fjármálaeftirlitsins né með öðrum hætti.  Í aðdraganda uppgreiðslunnar hafi átt sér stað tölvubréfasamskipti stefnanda og lánveitanda, þar sem stefnandi hafi tilkynnt lánveitanda að hann hygðist greiða lánið upp.  Lánveitandi hafi þá sent stefnanda skjal þar sem fram hafi komið „uppgreiðsluverðmæti í hverri mynt miðað við 20. janúar 2008“.  Af hálfu lánveitanda kom og eftirfarandi fram: „Ég þarf að vita hvort þið greiðið nákvæmlega þessar myntir inn á reikninga hjá okkur eða hvort við fáum greiðslu í ISK, þe. ef [sic] takið lán í erlendum myntum en greitt út í ISK? Ég þarf annaðhvort að fá þetta nákvæmlega mynt á móti mynt eða þá í ISK, ef ISK þá mun ég gefa ykkur nákvæma tölu þann 18 jan en við þurfum þá að fá gengi í þetta allt. Ef þið greiðið í mynt inn á reikning hjá okkur þá þarf að senda myntir frá öðrum banka þann 17. janúar svo verði komið til okkar á réttum tíma.“  Stefnandi svaraði á þá leið að hann hygðist greiða lánið upp í viðkomandi mynt inn á reikning bankans.  Áfallna vexti og kostnað myndi stefnandi síðan greiða beint til bankans, þar sem endurfjármögnunin tæki ekki tillit til ógreiddra vaxta.

Framlagðar kvittanir og reikningsyfirlit sýna að uppgreiðslan fór fram með því að Glitnir banki hf. tók við hinum erlendu myntum inn á gjaldeyrisreikninga sína frá Lánasjóði sveitarfélaga, þaðan sem þeim var ráðstafað til uppgreiðslu skuldbindinga stefnanda.

Áður en mál þetta var höfðað áttu aðilar í samskiptum, þ. á m. tölvubréfasamskiptum, þar sem þeir komu sér saman um útreikninga krafna stefnanda í máli þessu, að gefnum ákveðnum forsendum.

III

Stefnandi byggir á því að lánsskuldbindingar samkvæmt lánssamningum nr. 104054 frá 20. september 2001, nr. 104053 frá 11. júlí 2002 og 15. febrúar 2005 séu í íslenskum krónum í skilningi 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.  Í því samhengi vísar stefnandi m.a. til þess að í öllum samningunum sé höfuðstólsfjárhæð lánanna einungis tilgreind í íslenskum krónum.

Í samningi nr. 103054 séu tegundir erlendra mynta aðeins tilgreindar en lánsfjárhæð sé ekki tilgreind í erlendum myntum. Þá sé hlutfall mynta að sama skapi ekki tilgreind í samningnum.

Í samningi nr. 104053 séu tegundir erlendra mynta tilgreindar en lánsfjárhæð sé ekki tilgreind í erlendum myntum.  Á hinn bóginn séu hlutföll mynta tilgreindar í samningnum.

Í samningnum frá 15. febrúar 2005 sé hvorki tegund erlendra mynta tilgreind né hlutföll nefnd í samningnum.

Stefnandi telur að í dómum Hæstaréttar sé að finna mjög skýrar leiðbeiningar um hvernig fari eigi með samninga af þessum toga, sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. 603/2010, 155/2011, 520/2011, 50/2012, 386/2012, 498/2013, 337/2013, 3/2012, 391/2013 og 66/2012.

Af framangreindum dómafordæmum megi draga þá ályktun að tilgreining lánsfjárhæðar hafi grundvallarþýðingu við mat á því hvort um sé að ræða gengistryggt lán eða erlent.  Útgreiðsla og afborganir af láninu geta hins vegar komið til skoðunar ef textaskýring tekur ekki af skarið um hvers efnis lánssamningurinn er, t.d. ef erlendir gjaldmiðlar eru tilgreindir í hlutföllum.

Í öllum samningum stefnanda séu lánssamningarnir tilgreindir í íslenskum krónum.  Í samningunum nr. 104054 og nr. 104053 séu þó tegundir mynta tilgreindar og í samningnum nr. 104053 sé hlutfall mynta tilgreint.  Kunni því að koma til skoðunar hvernig aðilar efndu aðalskyldur sínar samkvæmt samningunum.  Eins og greini hér að framan hafi útgreiðslur lána nr. 104054 og 104053, sem og lánssamningsins dags. 15. febrúar 2005, farið fram í íslenskum krónum, eins og skýrt komi fram í útborgunarbeiðnum.  Þá hafi allar afborganir verið inntar af hendi í íslenskum krónum.  Til viðbótar þessu beri enn fremur að líta til þess að í lánssamningnum frá 15. febrúar 2005 sé erlend mynt ekki tilgreind, þ.e. hvorki sem lánsfjárhæð né sem hlutfall af lánsfjárhæð.  Geti textaskýring þess lánssamnings aldrei leitt annað í ljós en að samningurinn feli í sér lán í íslenskum krónum.  Með því að eina fjárhæðin, sem tilgreind hafi verið í lánssamningnum, hafi verið í íslenskum krónum geti engum vafa verið undirorpið að hann hafi eingöngu tekið til skuldbindingar í þeim gjaldmiðli, sem óheimilt hafi verið að binda við gengi erlendra gjaldmiðla, samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/2001.

Þá beri enn fremur til þess að líta að í greiðsluseðlum sé ítrekað viðurkennt að umræddir lánssamningar séu gengistryggð lán.  Þar komi fram hver sé verðtryggingargrunnur, þ.e. gengi á hverjum gjalddaga, og útreikningurinn á gengistryggingu sérstaklega útskýrður.  Stefnandi telur að þessi gögn séu skýr og mikilvæg samtímagögn sem sýni, svo ekki verði um villst, að um gengistryggð lán sé að ræða.  Gögnin lýsi vel afstöðu Glitnis banka hf. og stefnda til samninganna en augljóst megi vera að bankarnir hafi litið svo á að lánin væru gengistryggð og skyldu því breytast í samræmi við breytingar á gengi gjaldmiðla frá grunnverðtryggingargengi þeirra.  Gögn þessi staðfesti með öðrum orðum efni samnings aðila og vilja þeirra við samningsgerð. 

Með hliðsjón af öllu framangreindu sé ljóst að skuldbindingar stefnanda á grundvelli framangreindra lánssamninga séu aðeins tilgreindar í íslenskum krónum og geti þær ekki falið í sér lán í erlendri mynt.  Um sé að ræða lán í íslenskum krónum sem bundin séu gengi erlendra gjaldmiðla.  Hafi forveri stefnda, Glitnir banki hf., á annað borð ætlað að hafa samningana í erlendum myntum hefði honum verið í lófa lagið að tilgreina hina erlendu mynt sem höfuðstólsfjárhæð í samningum aðila.  Það hafi bankinn hins vegar ekki gert og því blasi við að um sé að ræða gengistryggða lánssamninga

Krafa stefnanda geri ráð fyrir því að viðurkenndur verði réttur hans til að skuldajafna kröfu á hendur Glitni banka hf., vegna endurútreiknings lánssamnings frá 15. febrúar 2005, á móti kröfum stefnda vegna lánssamnings, dagsettum 25. janúar 2011.  Sú krafa sé reist á 13. gr. ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda Glitnis banka hf., kt. 550500-3530, til Nýja Glitnis banka hf., kt. 491008-0160, frá 14. október 2008.  Samkvæmt umræddri grein skuli framsal kröfuréttinda samkvæmt ákvörðuninni ekki svipta skuldara rétti til skuldajöfnuðar sem hann hafi átt gagnvart fyrri kröfuhafa eða þrotabúi hans.

Ef fallist verður á málsástæður stefnanda um að samningurinn frá 15. febrúar 2005 hafi falið í sér gengistryggingu sé ljóst að stefnandi hafi átt kröfu á hendur Glitni banka hf. þegar stefnda hafi verið framseldar kröfur á hendur stefnanda, á grundvelli lánssamninga nr. 104054 og 104053, með framangreindri ákvörðun Fjármálaeftirlitsins.  Af þeim sökum blasi við að stefnanda sé heimilt að skuldajafna kröfu sinni, sem sé til komin vegna ofgreiðslu á samningnum frá 15. febrúar 2005, á móti kröfum stefnda á grundvelli lánssamnings, dagsetts 25. janúar 2011, en á grundvelli hans hafi lánaskuldbindingar lánssamninga nr. 104054 og 104053 verið endurfjármagnaðar.

Um heimild til öflunar viðurkenningardóms vísar stefnandi til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, en stefnandi kveðst hafa lögvarða hagsmuni af því að skorið verði úr um þessa kröfu hans.  Stefnandi leggur fram útreikning PWC, en þeir sýni glögglega fram á að um umtalsverða hagsmuni sé að ræða fyrir stefnanda.

Við útreikninginn styðjist PWC við dóm Hæstaréttar í máli nr. 464/2012.  Í þeim dómi, ásamt dómum réttarins í málum nr. 430/2013, 661/2013 og 544/2013, hafi rétturinn mótað regluna um gildi fullnaðarkvittana en í stuttu máli megi segja að reglan feli í sér að hafi lántaki greitt vexti af samningi í samræmi við kröfur lánastofnunar frá lántökudegi til þess dags er honum hafi mátt vera ljóst að samningurinn væri ólögmætur, verði lántakinn ekki krafinn um vexti Seðlabanka Íslands, sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, aftur í tímann.

Stefnandi telur einsýnt að skilyrði séu fyrir hendi til þess að víkja frá reglunni um viðbótarkröfur.  Þá beri í fyrsta lagi að líta til þess að stefnandi hafi verið í góðri trú og hvorki vitað né mátt vita að greiðslur hans væru ófullnægjandi þegar þær hafi verið inntar af hendi.  Í því sambandi beri til þess að líta að fjárhæðir, sem stefnandi hafi greitt stefnda á tímabili fullnaðarkvittana, hafi verið í samræmi við greiðslutilkynningar stefnda.  Stefndi hafi tekið við vaxtagreiðslum og gefið út fyrirvaralausar kvittanir vegna þeirra.  Þá verði einfaldlega að leggja til grundvallar að stefnandi hafi greitt þá vexti sem tilgreindir hafi verið á greiðsluskjölum stefnda í góðri trú.

Í öðru lagi sé aðstöðumunur aðila augljós, en Glitnir banki hf. var fjármálafyrirtæki, sem starfaði á lánamarkaði, sem bauð viðskiptavinum upp á lán með ólögmætri gengistryggingu.  Stefnandi sinni slökkvistarfi og hafi enga sérþekkingu á sviði fjármála.  Því megi ljóst vera að það hafi staðið Glitni banka hf. nær að gæta að því gagnvart stefnanda að samningarnir væru í samræmi við lög og beri hann áhættuna af því að svo hafi ekki verið gert.

Í þriðja lagi telur stefnandi engum vafa undirorpið að slík festa hafi verið á framkvæmd greiðslna af samningunum að það réttlæti frávik frá meginreglunni um viðbótarkröfu kröfuhafa.

Í fjórða lagi telur stefnandi það skilyrði uppfyllt að viðbótarkröfur vegna allra lánssamninganna teljist verulegar og feli augljóslega í sér mikla röskun á stöðu stefnanda.  Vísar stefnandi til þess að viðbótarvextir vegna láns nr. 104053 nemi 228.032.688 krónum, eða sem nemi 54% af höfuðstól lánsins og 174% af greiddum vöxtum.  Viðbótarvextir vegna láns nr. 104054 nemi 119.871.154 krónum, eða sem nemi 63% af höfuðstól lánsins og 430% af greiddum vöxtum.  Viðbótarvextir vegna láns, dagsetts 15. febrúar 2005, nemi 67.247.342 krónum, eða sem nemi 24% af hlutfalli höfuðstól lánsins og 329% af greiddum vöxtum.  Því megi vera ljóst að krafa stefnda um viðbótarvexti feli í sér slíka röskun á stöðu stefnanda að stefndi hafi misst rétt sinn til fullra efnda og sé þar af leiðandi óheimilt að krefjast viðbótarvaxta aftur í tímann.

Samningurinn nr. 104054, dagsettur 20. september 2001, og sé samsettur úr eftirfarandi lánsleggjum:

·                     302453-302456

·                     302639-302642

·                     302708-302711

·                     312211-312213 (myntbreyting)

Upphaflegur höfuðstóll lánsins hafi numið 191.140.080 krónum, en lánið hafi verið greitt upp með lánssamningi milli stefnanda og stefnda að fjárhæð 602.366.237 krónur, dagsettum 25. janúar 2011.  Aðferð PWC við útreikning á láninu frá lántökudegi taki mið af hæstaréttarmáli nr. 464/2012, þar sem kveðið sé á um að afborgunarhluti hverrar greiðslu á greiðsludegi, samkvæmt lánssamningi, komi til lækkunar á ógengistryggðum höfuðstól hverju sinni.  Við útreikninginn sé notast við upphaflegan höfuðstól.  Til frádráttar komi svo allar greiðslur samkvæmt fullnaðarkvittunum sem flokkist sem afborgunarhluti.  Ekki sé horft til hvað stefnandi hafi greitt stefnda, eða forvera hans, í vexti á framangreindu tímabili.  Á grundvelli þessa útreiknings liggi fyrir að staða lánsins á endurfjármögnunardegi, þann 25. janúar 2011, hafi numið 138.774.632 krónum.

Samningurinn nr. 104053, dagsettur 11. júlí 2002, sé samsettur úr eftirfarandi lánsleggjum:

·                     303400-303404

·                     303637-303641

·                     304212-304216

Upphaflegur höfuðstóll lánsins hafi numið 422.999.999 krónum, en lánið hafi verið greitt upp með lánssamningi milli stefnanda og stefnda að fjárhæð 602.366.237 krónur, dagsettum 25. janúar 2011.  Aðferð PWC við útreikning á láninu frá lántökudegi taki mið af hæstaréttardómi í málinu nr. 464/2012, með sama hætti og gert hafi verið við lánssamning nr. 104054.  Á grundvelli þessa útreiknings liggi fyrir að staða lánsins á endurfjármögnunardegi þann 25. janúar 2011 hafi numið 295.976.856 krónum.

Samningur, dagsettur 15. febrúar 2005, sé samsettur úr eftirfarandi lánsleggjum:

·                     305960-305962

·                     307096-307098

·                     308403-308404

Upphaflegur höfuðstóll lánsins hafi numið samtals 280.000.000 króna, en lánið hafi verið greitt upp þann 20. janúar 2008.  Aðferð PWC við útreikning á láninu frá lántökudegi taki mið af hæstaréttardómi í málinu nr. 464/2012, með sama hætti og gert hafi verið við hina fyrri samninga.  Á grundvelli þessa útreiknings liggi fyrir að lánið hafi verið ofgreitt um 45.511.634 krónur á uppgreiðsludegi þann 20. janúar 2008.

Í því skyni að fækka ágreiningsatriðum hafi stefnandi sent stefnda minnisblað PWC og óskaði eftir því að stefndi kæmi á framfæri athugasemdum ef bankinn væri ósammála útreikningsaðferðum.  Með tölvuskeyti stefnda, dagsettu 19. janúar 2015, hafi verið fallist á útreikninga PWC, enda þótt stefndi sé ósammála stefnanda um að lánin séu gengistryggð.  Segi þannig í pósti stefnda, dagsettum 19. janúar 2015: „Með þeim fyrirvörum sem við höfum áður nefnt þá getum við verið sammála um útreikningana fram að uppgreiðslu- og endurfjármögnunardegi. Við erum hins vegar ekki sammála þeirri aðferð sem er beitt frá þeim tíma skv. minnisblaðinu.

Að því gefnu að fallist verði á það að lánin teljist ólöglega gengistryggð og talið verði að líta eigi til fullnaðarkvittana við endurútreikning, þá getum við verið sammála um að endurreiknuð staða lána 104053 og 104054 væri eftirfarandi á endurfjármögnunardegi, þann 11. janúar 2011.

104053 – Staðan 11. janúar 2011 – 295.976.856 kr.

104054 – Staðan 11. janúar 2011 – 138-774.632 kr.

Hvað varðar eldra lánið, það sem greitt var upp þann 20. janúar 2008, getum við verið sammála um að miðað við endurútreikning hefði lánið talist ofgreitt um 45.511.634 kr. m.v. uppgreiðsludag.

Það er með sömu fyrirvörum og áður hafa verið nefndir, þ.e. að lánið teljist ólöglega gengistryggt og miða eigi við fullnaðarkvittanir í endurútreikningi og fallist yrði á að Íslandsbanki sé réttur aðili að ágreiningi um þann samning.

Sem fyrr segir telur bankinn að ekki beri að reikna vexti frá þessum dagsetningum en að því gefnu að talið verði að vexti skuli reikna frá þeim tíma sýnist mér af minnisblaðinu að ágreiningur verði um hvaða vexti bæri að taka mið af frá þessum dagsetningum og með hvaða hætti.“

Í ljósi þess að kröfugerð stefnanda taki einungis mið af uppgreiðslu- og endurfjármögnunardögum lánanna þriggja megi vera ljóst af framangreindum pósti stefnda að aðilar séu sammála um fjárhæðir og forsendur að baki þeim enda þótt deilt sé um hvort lánssamningarnir þrír feli í sér gengistryggingu og að stefndi sé réttur aðili að ágreiningi vegna samnings frá 15. febrúar 2005.

Dómkröfur stefnanda skiptist í tvennt. Liður „I“ lúti að kröfum stefnanda vegna samninga nr. 104054 og 104053 en liður „II“ að kröfum stefnanda vegna samnings frá 15. febrúar 2005.  Undir báðum þessum liðum séu gerðar aðal- og varakröfur.

Aðal-, vara og þrautavarakrafa stefnanda vegna samninga nr. 104054 og 104053 eigi það sammerkt að þær geri ráð fyrir því að lánssamningarnir séu bundnir gengistryggingu í skilningi 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Eins og að framan greini séu aðilar sammála um að eftirstöðvar samnings nr. 104053 hafi verið 295.976.856 krónur á endurfjármögnunardegi þann 11. janúar 2011 og að eftirstöðvar samnings nr. 104054 hafi verið 138.774.632 krónur á sama degi, verði á annað borð fallist á að samningarnir hafi verið bundnir ólögmætri gengistryggingu.

Fyrir liggi að með lánssamningi aðila, dagsettum 25. janúar 2011, að fjárhæð 602.366.237 krónur, hafi lánssamningar nr. 104054 og 104053 verið greiddir upp en samkvæmt 3. gr. í samningnum hafi lánið borið vexti frá 11. janúar 2011.  Í ljósi þess að aðilar séu sammála um stöðu lánssamninga nr. 104054 og 104053 þann 11. janúar 2011 megi vera ljóst, ef fallist verður á að lánssamningarnir hafi verið bundnir ólögmætri gengistryggingu, að lánin hafi verið ofgreidd um 167.614.749 krónur (602.366.237 - 295.976.856 - 138.774.632).

Það sem greini því á milli aðal-, vara- og þrautavarakröfu stefnanda sé hvaða vexti ofgreiðslan hafi borið frá uppgreiðsludegi þann 11. janúar 2011.  Stefnandi telur ótækt, verði á annað borð fallist á að lánin séu gengistryggð, að ofgreiðsla stefnanda beri enga vexti.  Því sé nærtækast að styðjast við sömu vexti og lán, dagsett 25. janúar 2011, en það lán hafi, sem fyrr segi, verið nýtt til uppgreiðslu lána nr. 104054 og 104053 og því eðlilegast að ofgreiðslur beri sömu vexti og umrætt lán.  Samkvæmt 3. gr. í samningnum beri lánið „vexti sem óverðtryggður vaxtagrunnur lánveitanda, „kjörvextir“.  Krafa stefnanda um greiðslu þeirra vaxta af ofgreiðslunni byggi á reglum kröfuréttar og m.a. reglum skaðabótaréttar.  Stefnandi hafi greitt umsamda vexti af láni, dagsettu 25. janúar 2011, þ.e. af 602.614.749 krónum.  Eins og fyrr hafi verið rakið hafi það lán verið 167.614.749 krónum hærra en löglegt hafi verið og hafi stefnandi því greitt vexti af hærri fjárhæð en þeirri sem stefndi hafi átt lagalegan rétt á. Tjón stefnanda nemi því þeim vöxtum sem stefnandi hafi greitt af fyrrgreindu lán og af hærri höfuðstól en löglegt hafi verið.  Stefndi beri skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda vegna þeirrar ólögmætu kröfu enda hafi stefndi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi með ólögmætri kröfu á hendur stefnanda.  Orsakasamband sé milli háttsemi stefnda og tjóns stefnanda og sé tjón hans sennileg afleiðing af háttsemi stefnda.

Verði ekki fallist á að lánið beri kjörvexti stefnda krefjist stefnandi til vara vaxta á grundvelli 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001, frá uppgreiðsludegi til þingfestingardags, en stefnandi telur að rétt og sanngjarnt sé að ofgreiðsla gengistryggðra lána beri sömu vexti og lánin sjálf, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 471/2010.  Þá beri enn fremur að líta til þess að áður en 18. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, var breytt með lögum nr. 151/2010, hafi sagt í ákvæðinu að ef samningur um vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar eða dráttarvexti teldist ógildur og hafi endurgjald verið greitt ranglega bæri kröfuhafa að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hefði þannig ranglega af honum haft.  Við ákvörðun endurgreiðslu skyldi miða við vexti samkvæmt 4. gr. eftir því sem við gæti átt.  Þetta styðji enn frekar þá kröfugerð stefnanda að ofgreiðslukrafan beri vexti á grundvelli 4. gr. laga nr. 38/2001. 

Verði hvorki fallist á aðal- né varakröfu sé þess krafist til þrautavara að krafan beri skaðabótavexti frá uppgreiðsludegi til þingfestingardags á grundvelli 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 eða fyrir lögjöfnun frá því ákvæði, sbr. einnig til hliðsjónar 1. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, eins og síðastnefndu lögum hafi verið breytt með 1. gr. laga nr. 131/2002.  Til viðbótar því sé á því byggt af hálfu stefnanda að endurgreiðslukrafa stefnanda sé í reynd skaðabótakrafa sem megi rekja til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefnda og Glitnis banka hf. sem hafi falist í því að veita stefnanda ólögmæt gengistryggð lán í upphafi sem og að senda stefnanda of háa greiðsluseðla vegna þeirra lána.  Stefnandi byggi á því að tjón hans nemi þeirri ofgreiðslu sem hann hafi innt af hendi vegna hinna ólögmætu lána og því sé eðlilegt að endurgreiðslukrafa vegna umræddrar ofgreiðslu beri skaðabótavexti.  Þá byggir stefnandi á því að stefndi hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi við uppgjör á árinu 2011, enda hafi stefndi haft í frammi ólögmætar fjárkröfur og krafið stefnanda um greiðslu gengistryggingar í andstöðu við ákvæði laga nr. 38/2001.  Ólögmæt og saknæm háttsemi stefnda hafi valdið stefnanda fjártjóni og sé krafist vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 af þeim sökum.

Stefnandi kveður aðal- og varakröfur sínar eiga það sammerkt að þær geri ráð fyrir að lánssamningurinn frá 15. febrúar 2005 sé bundinn ólögmætri gengistryggingu í skilningi 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.  Eins og að framan greini séu aðilar sammála um að lánið hafi verið ofgreitt um 45.511.634 krónur á uppgreiðsludegi þann 20. janúar 2008 verði á annað borð fallist á að lánssamningurinn hafi verið bundinn ólögmætri gengistryggingu.

Í aðal- og varakröfu sé í báðum tilvikum krafist viðurkenningar á rétti stefnanda til að skuldajafna kröfu á hendur Glitni banka hf., vegna endurútreiknings lánssamningsins frá 15. febrúar 2005, á móti kröfum stefnda vegna lánssamnings, dagsettum 25. janúar 2011.  Sú krafa sé reist á 13. gr. ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins frá 14. október 2008, en með greininni hafi réttur skuldara til skuldajöfnunar, sem hann hafi átt gagnvart Glitni banka hf., verið tryggður.

Stefnandi kveður aðalkröfu sína í kröfulið II taka mið af að ofgreiðslan beri vexti á grundvelli 4. gr. laga nr. 38/2001, en varakrafan taki mið af vöxtum á grundvelli 1. mgr. 8. gr. sömu  laga. 

Í öllum kröfuliðum er krafist dráttarvaxta frá þingfestingardegi stefnu, þ.e. þann 31. mars 2015.

Um lagarök vísar stefnandi til laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, reglna samninga-, kröfu- og skaðabótaréttar og laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum.

Um heimild til öflunar viðurkenningardóms vísar stefnandi til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, sbr. einkum 129. gr. og 130. gr. laganna. 

IV

Stefndi mótmælir öllum málsástæðum stefnanda og krefst sýknu af öllum dómkröfum hans, en í því felist jafnframt krafa um lækkun dómkrafna verði ekki fallist á sýknukröfu. 

Stefndi byggir á því að hver og ein hinna umþrættu skuldbindinga teljist, með hliðsjón af efni og framkvæmd umþrættra samninga, lögmæt skuldbinding í hinum erlendu gjaldmiðlum hverju sinni.  Orðalag og uppbygging samninganna, athafnir samningsaðila á grundvelli þeirra, þ. á m. útborgunarbeiðnir stefnanda og staðfestingar stefnda á þeim í formi kaupnóta, og önnur atvik málsins taki af skarið um að skuldbindingarnar séu að sönnu í erlendum gjaldmiðlum.

Stefndi telur umrædda samninga bera með sér að vera um lán í erlendum gjaldmiðlum, samkvæmt auðkenningu á forsíðu þeirra.  Þá hafi í samningunum verið vísað til þess að lán samkvæmt þeim væru í erlendum gjaldmiðlum „að jafngildi“ tiltekinnar fjárhæðar í íslenskum krónum og að stefnanda hafi borið að endurgreiða lánin í þeim gjaldmiðlum sem það samanstóð af.  Þetta orðalag geti ekki bent til annars en að hér sé um að ræða skuldbindingar í erlendum gjaldmiðlum en ekki íslenskum krónum.  Engu geti breytt í þessu sambandi þótt stefnanda hafi jafnframt verið heimilt að stofna til skuldbindinga í íslenskum krónum samkvæmt samningnum frá 15. febrúar 2005. 

Hér skipti og sérstöku máli, til viðbótar því sem fyrr greini, að samkvæmt efni og eðli hinna umþrættu samninga hafi með þeim verið afmarkaður rammi heildarlánsloforðs lánveitanda gagnvart stefnanda.  Í samningunum hafi verið settur rammi um lánsviðskipti þessara aðila, meðal annars með ákvæðum um útborgun hugsanlegra einstakra lánshluta á grundvelli samninganna, endurgreiðslu þeirra og vexti af þeim, ef til þess kæmi að stefnandi léti reyna á rétt sinn til að fá lán á grundvelli samninganna.  Samningarnir hafi hins vegar ekki kveðið á um kröfurétt tiltekinnar fjárhæðar sem stefnandi skuldaði stefnda.  Í þessu ljósi, og með hliðsjón af dómaframkvæmd, geti það eitt út af fyrir sig ekki skipt máli þótt heildarumfang lánsviðskiptanna hverju sinni hafi verið afmarkað í hverjum samningi með tilgreiningu á jafngildi fjárhæðar í íslenskum krónum.

Til samræmis við uppbyggingu samninganna hafi stefnandi síðan óskað eftir því með framangreindum útborgunarbeiðnum að lánshlutar yrðu í erlendum gjaldmiðlum, að undanskildum einum lánshluta samkvæmt samningnum frá 15. febrúar 2005.  Í útborgunarbeiðnum stefnanda hafi höfuðstólsfjárhæð hvers lánshluta verið í erlendum gjaldmiðli, og um leið hverrar skuldbindingar skýrlega getið hverju sinni.  Stefnandi hafi þannig skýrlega, og til samræmis við efni og eðli samninganna og önnur gögn málsins, stofnað til skuldbindinga í tilgreindum erlendum gjaldmiðlum tilgreindra fjárhæða, þegar dregið hafi verið á lánsloforðin.  Lánin hafi verið afgreidd þessu til samræmis, sbr. fyrirliggjandi kaupnótur.  Framangreint hafi þannig falið í sér frekari útfærslu á skyldum aðila samkvæmt hverjum samningi.  Í Því ljósi skipti ekki máli þótt stefnandi hafi fengið íslenskar krónur í hendur, þ.e. inn á reikning, enda hafi skuldbindingarnar sem slíkar, sem stofnað hafi verið til hverju sinni, verið skýrlega tilgreindar í erlendum gjaldmiðlum.  Þess utan sé að því að gæta að ástæða þess að stefnandi hafi að endingu fengið í hendur íslenskar krónur hafi verið sú að hann hafi óskað þess sjálfur.  Hafi verið gripið til sérstakra ráðstafana því til samræmis, sem stefnandi hafi þannig veitt heimild til.  Þá geti engu breytt þótt efndir aðalskyldu stefnanda, hvað greiðslu reglulegra afborgana og vaxta áhrærir, hafi farið fram í íslenskum krónum, þar sem skýrlega hafi verið stofnað til skuldbindinga í erlendum gjaldmiðlum.  Þess utan séu slíkar greiðslur, í kerfis- og bókhaldslegu tilliti, meðhöndlaðar eins og um greiðslur í hinum erlendu gjaldmiðlum sé að ræða.  Þá sé og að því að gæta að skuldbindingarnar samkvæmt samningnum frá 15. febrúar 2005 hafi verið gerðar upp í janúar 2008 í hinum erlendu gjaldmiðlum.  Við skýringuna beri og að hafa í huga meginreglu íslensks réttar um frelsi manna til að bindast skuldbindingum með samningum við aðra þannig að samningar teljist gildir nema sýnt sé fram á að þeir fari í bága við ófrávíkjanlegar reglur í settum lögum.  Jafnframt byggi stefndi á því að stefnandi hafi, hvað sem öðru líður, með athafnaleysi sínu, samþykkt að líta skyldi svo á að umþrættar skuldbindingar hafi verið í hinum umsömdu erlendu gjaldmiðlum.

Yrði þó allt að einu talið að skuldbindingarnar hafi falið í sér lán í íslenskum krónum, bundin ólögmætri gengistryggingu, þegar til þeirra var stofnað í öndverðu, verði að telja, hvað samning nr. 104054 áhræri, að honum hafi þá a.m.k. verið myntbreytt í lögmætar skuldbindingar, fyrst að hluta í erlenda gjaldmiðla, sænskar krónur og svissneska franka, síðar að öllu leyti í íslenskar krónur og loks aftur að öllu leyti í erlenda gjaldmiðla.  Byggir stefndi á því að hver og ein þessara myntbreytinga hafi, svo gilt sé, falið slíkt í sér, en svo sem framlögð skjöl beri með sér sé höfuðstóls lánsfjárhæðanna skýrlega getið hverju sinni.  Þá sé og ljóst að það eitt að ein þessara myntbreytinga væri lögmæt myndi leiða til þess að málatilbúnaður og kröfufjárhæð stefnanda gengi ekki upp.

Stefndi byggir loks á því, hvað samninginn frá 15. febrúar 2005 áhræri, hvað sem líði lögmæti hans, sé stefndi ekki réttur aðili til varnar eins og kröfugerð og málatilbúnaði stefnanda sé háttað, sbr. og 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.  Það sé til þess að líta að skuldbindingar stefnanda samkvæmt þeim samningi hafi verið greiddar upp hjá öðrum lögaðila og fyrir stofnun stefnda.  Því verði hvorki fundin stoð í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins né málsástæðum stefnanda, að skuldbindingar þess lögaðila til endurgreiðslu ofgreiddra lána hafi verið meðal þeirra sem fluttust til stefnda, enda hafi svo ekki verið í raun.

Þess skuli sérstaklega getið að ekki sé fyrir hendi ágreiningur um að skuldbindingar stefnanda samkvæmt samningum nr. 104054 og nr. 104053 í janúar 2011 hafi farið fram með þeim fyrirvara sem sérstaklega greini í „Umsókn um höfuðstólslækkun og myntbreytingu láns/lána í erlendri mynt“ og lýtur að „mögulegum betri rétti ... komist Hæstiréttur Íslands að þeirri niðurstöðu að skilmálar í erlendum lánum bankans, samkvæmt samskonar skuldaskjölum, uppfylli ekki þau skilyrði er rétturinn setur fram fyrir því að lán geti talist erlent“.  Sá fyrirvari hafi hins vegar ekki gilt „um þau skuldaskjöl sem gefin verða út í samræmi við umsókn þessa og koma í stað hinna erlendu lána“, þ.e. um samninginn, dagsettan 25. janúar 2011. Fyrirvari stefnanda hafi þannig einungis lotið að því að hann fyrirgerði ekki rétti til lækkunar á skuldbindingu sinni samkvæmt þeim samningi.  Byggir stefndi á því að stefnandi hafi hins vegar glatað hvers konar rétti til að hafa uppi fjárkröfu, í formi hreinnar endurgreiðslukröfu, svo sem hann leiti hér eftir, enda hafi ekki verið gerður fyrirvari um slíkt og réttur stefnanda þess utan fallinn niður sökum tómlætis, m.a. í ljósi þess langa tíma sem liðinn sé og stefndi hafi með réttu mátt vænta þess að ekki yrði höfð uppi hrein endurgreiðslukrafa.  Fyrirvarinn hafi auk þess verið háður því skilyrði að Hæstiréttur Íslands kæmist að þeirri niðurstöðu að skilmálar samkvæmt „sams konar skuldaskjölum“ teldust ólögmætir, en sú hafi ekki orðið raunin.  Þegar af ofangreindum ástæðum verði að sýkna stefnda af kröfum stefnanda, hvað þessa tvo samninga áhræri.  Að því er samninginn frá 15. febrúar 2005 varði verði ekki annað ráðið en að uppgreiðsla skuldbindinga stefnanda samkvæmt honum, í janúar 2008, hafi farið fram án nokkurs fyrirvara af hálfu stefnanda gagnvart Glitni banka hf.  Þegar af þeirri ástæðu sé engum endurheimturétti til að dreifa að því er þann samning varði.  En auk þess teljist önnur skilyrði um endurheimtu ofgreidds fjár trauðla uppfyllt og stefnanda, sem kröfuhafa, sé að sanna slíkt verði á annað borð fallist á að kröfum vegna þess samnings verði beint að stefnda.  Til þess sé meðal annars að líta að afsakanlegt hljóti að teljast, hvað sem öðru líði, að stefnandi og Glitnir banki hf. hafi gengið út frá því að um lögmætar erlendar skuldbindingar hafi verið að ræða, sem mæli gegn endurheimturétti.  Þótt kröfur stefnanda séu að stofni til eldri en fjögurra ára sé þó ljóst, verði á annað borð á þær fallist, að þær teljist ekki fyrndar, sbr. lög nr. 151/2010, með síðari breytingum, sem mælt hafi fyrir um sérstakan fyrningarfrest uppgjörskrafna vegna gengisbundinna skuldbindinga, sem enn sé ekki liðinn.

Verði ekki fallist á framangreindar málsástæður stefnda hafnar stefndi því að útreikningar stefnanda verði lagðir til grundvallar.  Í útreikningum og málatilbúnaði stefnanda felist enda sú afstaða hans að ekki sé tekið tillit til réttra vaxtaviðmiðana. Stefndi byggi nánar tiltekið á því að við þær aðstæður sem hér um ræði, beri skuldbindingar samkvæmt samningum nr. 104054 og nr. 104053 vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001 frá öndverðu og fram til 15. febrúar 2005, sbr. einnig lög nr. 151/2010, en frá þeim degi og til uppgreiðsludags umsamda REIBOR-vexti. Skuldbindingar samkvæmt samningnum frá 15. febrúar 2005 beri hins vegar umsamda REIBOR-vexti frá öndverðu, þ.e. 15. febrúar 2005 til uppgreiðsludags.  Sérstaklega hafi verið samið um REIBOR-vexti af skuldbindingu í íslenskum krónum frá og með 15. febrúar 2005, hvað alla samningana varði.  Því séu þeir eðlileg vaxtaviðmiðun, sbr. einnig dóm Hæstaréttar 20. nóvember 2011 í máli nr. 120/2011 og til hliðsjónar dóm réttarins 27. mars 2014 í máli nr. 734/2013.  Verði ekki fallist á að skuldbindingarnar beri REIBOR-vexti samkvæmt framangreindu þá skuli þær allar bera vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001 frá öndverðu til uppgreiðsludags, sbr. einnig lög nr. 151/2010.  Byggir stefndi annars vegar á því að af almennum reglum um endurheimt ofgreidds fjár leiði, hvað sem öðru líði, að fjárhæð hvers konar endurgreiðslukröfu hljóti alltaf að takmarkast við þá fjárhæð sem stefnandi innti af hendi umfram það sem hann hefði að réttu lagi átt að greiða með tilliti til réttra vaxtaviðmiðana.  Fari ekki um úrlausnarefnið eftir almennum reglum um endurheimt ofgreidds fjár eigi stefndi hins vegar kröfu á hendur stefnanda um það sem vangreitt hafi verið, í samræmi við meginreglu kröfuréttar um að kröfuhafi, sem fengið hefur minna greitt en hann á rétt til, eigi kröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt er.  Kvittanir sem lánveitandi hafi gert stefnanda, leiði ekki til þess að kröfuhafi, þ.e. stefndi, hafi glatað viðbótarkröfu sinni, eins og hér standi á.

Kröfuréttur stefnanda sé reistur á ætlaðri ofgreiðslu fjárkrafna sem hann hafi verið krafinn um.  Stefndi vísar til þess að skuldarsambandi aðila vegna samninga nr. 104054 og nr. 104053 hafi í skilningi almennra reglna kröfuréttar lokið með því að skuldbindingarnar hafi að fullu verið greiddar í janúar 2011.  Þá hafi skuldbindingar stefnanda gagnvart Glitni hf., samkvæmt samningnum frá 15. febrúar 2005, verið greiddar upp í janúar 2008.  Skuldasamböndin hafi þá liðið undir lok og við þeim hafi ekki verið hreyft af hálfu stefnda eða af hálfu Glitnis banka hf., að því er best verði séð.  Ágreiningur aðila snúist því í eðli sínu ekki um hvort stefnda sé eftir almennum reglum kröfuréttar heimilt að krefja stefnanda um viðbótargreiðslu vegna vangreiddra vaxta, heldur fari um úrlausnarefnið eftir reglum um endurheimt ofgreidds fjár.

Stefndi kveður að fjárhæð hvers konar endurgreiðslukröfu stefnanda, eftir reglum um endurheimt ofgreidds fjár, hljóti alltaf að takmarkast við þá fjárhæð sem stefnandi innti af hendi umfram það sem hann hefði að réttu lagi átt að greiða með tilliti til réttra vaxtaviðmiðana.  Þannig beri að líta með öllu fram hjá ákvæðum umþrættra samninga um svokallaða LIBOR- og EURIBOR-vexti og leggja til grundvallar að skuldbindingarnar beri REIBOR-vexti og/eða vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001.  Í málinu sé að finna útreikninga stefnda miðað við þessar forsendur er sýni að stefnandi hafi í reynd vangreitt, en ekki ofgreitt, skuldbindingar sínar.  Ef miðað er við að skuldbindingar stefnanda, samkvæmt samningum nr. 104054 og nr. 104053, beri vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001 frá stofndegi til 15. febrúar 2005, en umsamda REIBOR-vexti frá þeim degi til uppgreiðsludags, nemi vangreiðsla stefnanda 183.207.245 krónum og 162.855.948 krónum, samtals 346.063.193 krónum.  Endurútreikningur sé þá miðaður við 11. janúar 2011, þ.e. uppgreiðsludag, og tekið tillit til innborgunar að fjárhæð 602.366.237 krónur, sbr. lán samkvæmt samningnum frá 25. janúar 2011.  Ef miðað er við að skuldbindingar stefnanda samkvæmt samningnum frá 15. febrúar 2005 beri umsamda REIBOR-vexti frá stofndegi til uppgreiðsludags hafi stefnandi að sama skapi vangreitt skuldbindingar sínar samkvæmt þeim samningi um 12.904.012 krónur miðað við uppgreiðsludaginn 20. janúar 2008.  Sé miðað við sömu forsendur að öðru leyti en því að skuldbindingarnar allar beri eingöngu vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001 frá stofndegi til uppgreiðsludags, hafi stefnandi að sama skapi vangreitt samninga nr. 104054 og nr. 104053 um 210.594.383 krónur og 170.641.520 krónur, samtals 381.235.903 krónur, en samninginn frá 15. febrúar 2005 um 26.358.556 krónur.

Ef fallist verður á með stefnda að fjárhæð hvers konar endurgreiðslukröfu stefnanda takmarkist við þá fjárhæð sem stefnandi innti af hendi umfram það sem hann hefði að réttu lagi átt að greiða með tilliti til réttra vaxtaviðmiðana sé því ljóst, að mati stefnda, að stefnandi eigi enga endurgreiðslukröfu á hendur stefnda og standi þvert á móti í talsverðri skuld við stefnda vegna þeirra, séu skuldbindingarnar á annað borð gengistryggðar líkt og stefnandi byggi á.

Stefndi telur og að sanngirnisrök mæli auk þess ekki með endurheimturétti stefnanda, enda takmarkist fjárhæð þeirra ekki við fjárhæðir sem stefnandi innti af hendi umfram það sem hann hefði að réttu lagi átt að greiða með tilliti til réttra vaxtaviðmiðana.  Þá sé ljóst í þessu sambandi að engan veginn geti átt við það grunnskilyrði endurheimturéttar almennt að stefndi myndi „auðgast“ á kostnað stefnanda við endurútreikning, þar sem tekið sé tillit til réttra vaxtaviðmiðana.  Þvert á móti verði að líta svo á að endurheimtukrafa stefnanda, sem miðist við að skuldbindingarnar meðhöndlist sem íslenskar óverðtryggðar lánsfjárhæðir en sem beri aðeins lága erlenda vexti, í stað réttra vaxtaviðmiðana, teljist frekar fela í sér auðgun stefnanda á kostnað stefnda, eins og hér stendur á.

Stefndi byggir hins vegar á því að hann eigi kröfu á hendur stefnanda um vangreidda vexti, fari um úrlausnarefnið eftir reglum kröfuréttar um rétt til viðbótargreiðslu fyrir liðna tíð, sbr. framlagða útreikninga stefnda.  Þar sem stefndi telji skuldbindingarnar ekki haldnar ólögmætri gengisviðmiðun hafi hann eðli máls samkvæmt ekki beint sérstakri kröfu að stefnanda.  Fari hins vegar svo að skuldbindingarnar verði taldar haldnar ólögmætri gengistryggingu hljóti það, eðli máls samkvæmt, að leiða til þess við útreikning, og þegar tekin sé afstaða til lögmætis hvers konar fjárkröfu stefnanda af því tilefni, að líta beri til þess hvort slíkri viðbótarkröfu verði að réttu lagi við komið samkvæmt almennum reglum kröfuréttar.  Fari enda ekki um úrlausnarefnið eftir almennum reglum um endurheimt ofgreidds fjár. Málatilbúnaður stefnanda feli og þetta jafnframt í sér, þ.e. krafa hans sé grundvölluð á því að stefndi eigi ekki viðbótarkröfurétt.  Séu skilyrði viðbótarkröfuréttar talin uppfyllt leiðir af framangreindu, sbr. og útreikningar stefnda, að stefnandi eigi enga fjárkröfu á hendur stefnda, heldur standi þvert á móti í skuld við hann.

Líkt og ítrekað hafi komið fram í dómum Hæstaréttar sé meginreglan sú að kröfuhafi, sem hefur fengið minna greitt en hann átti rétt til, eigi kröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt er.  Frá meginreglunni séu þó undantekningar, meðal annars að fullnaðarkvittun geti, að vissum skilyrðum fullnægðum, valdið því að kröfuhafi glati frekari kröfu.  Tilkalli kröfuhafa til viðbótargreiðslu verði þó einungis hafnað af þeim sökum við sérstakar aðstæður.  Þau atriði sem litið hafi verið til við mat á því hvort efni séu til að víkja frá meginreglunni séu hvort skuldari hafi verið í góðri trú, það er hvorki vitað né mátt vita að greiðsla hans hafi verið ófullnægjandi þegar hann innti hana af hendi.  Þá hafi í annan stað verið litið til þess hvort sá aðstöðumunur hafi verið á aðilum að það réttlæti að hafna viðbótarkröfu og í framhaldi af því hvorum þeirra standi nær að bera áhættu af þeim mistökum sem leitt hafi til þess að vangreitt var.  Í þeim efnum hafi einkum verið litið til þess hvort festa hafi verið komin á framkvæmd samnings, hversu langur tími hafi liðið frá því að mistök komu fram þar til krafa var höfð uppi, hvorum samningsaðila megi fremur kenna um að mistök hafi orðið, hvort samningssamband sé í eðli sínu einfalt eða flókið og hvert sé umfang viðbótarkröfu.  Öll séu þessi atriði ásamt öðrum til viðmiðunar og ekkert eitt þeirra geti ráðið úrslitum um hvort vikið verði frá meginreglunni.  Þar ráði heildarmat á aðstæðum öllum, en því verulegra sem óhagræði skuldarans yrði af viðbótargreiðslu því sterkari séu rökin til að víkja frá meginreglunni.

Stefnandi beri fyrir sig undantekningu frá meginreglu kröfuréttar.  Á stefnanda hvíli því sú byrði að sanna, gegn andmælum stefnda, að viðbótarkröfuréttur feli í sér umtalsvert óhagræði fyrir stefnanda.  Það sé ósannað og í öllu falli vanreifað af hálfu stefnanda.  Í málinu liggi ekkert fyrir um að viðbótarkröfuréttur valdi slíkri röskun á fjárhagslegri stöðu stefnanda að skilyrði séu til að víkja frá þeim rétti.  Mat á þessu ráðist væntanlega, meðal annarra atriða, af fjárhagslegum upplýsingum er snúa að stefnanda sjálfum, en stefnandi hafi ekki reifað neinar málsástæður þar um.  Telur stefndi þetta leiða til sýknu af kröfum stefnanda.

Hvað sem líði skorti stefnanda á sönnun telur stefndi lagaskilyrði viðbótarkröfuréttar uppfyllt.  Hafnar stefndi því, að þær sérstöku aðstæður séu fyrir hendi sem réttlæti frávik frá viðbótarkröfurétti, og slíkt sé að minnsta kosti ósannað.

Þannig sé ekki unnt, að mati stefnda, að líta svo á, að stefnandi hafi verið í sérstaklega góðri trú um, er hann greiddi afborganir sínar, að vextir væru endanlega greiddir þó að sá þáttur skuldarinnar hverju sinni, þ.e. lánsmyntin, sem ótvírætt hafi verið forsenda vaxtanna, ætti eftir að sæta endurskoðun.  Stefnanda hafi þannig, meðal annars með tilliti til þeirrar sérfræðiaðstoðar sem hann hafi notið, vart getað dulist samhengi milli mynttilgreiningar og vaxtaviðmiðunar, en slíkt hljóti, eins og annað, að skipta máli við heildarmatið.  Í þessu sambandi bendir stefndi m.a. á að viðaukarnir, þar sem myntbreytingar- og vaxtaákvæðum samninga nr. 104054 og nr. 104053 hafi verið breytt, hafi verið gerðir að beiðni stefnanda, og stefnanda hafi því sýnilega verið ljóst samhengi mynttilgreiningar og vaxtaviðmiðunar. 

Ekki verði heldur séð, meðal annars með tilliti til þeirrar sérfræðiaðstoðar sem stefnandi hafi notið, að sá aðstöðumunur sé með aðilum sem Hæstiréttur hafi lagt til grundvallar í sumum dóma sinna, og verði stefnanda þannig engan veginn jafnað við einstakling, lítið fyrirtæki eða dreifbýlissveitarfélag.  Þá hafi stefnandi einnig af þessum sökum verið í samningsstöðu til að hafa áhrif á einstök atriði í skilmálum samninganna.

Stefndi mótmælir því einnig að slík festa hafi verið komin á framkvæmd samninganna að réttlæti að vikið sé frá meginreglunni.  Við uppgreiðslu skuldbindinga stefnanda samkvæmt samningum nr. 104054 og nr. 104053 í janúar 2011 hafi stefnandi enda einungis átt að hafa greitt 35/120 og 30/120 hluta höfuðstóls, en langstærsta hluta höfuðstólsins, 62/120 og 63/120, hafi átt að greiða á upphaflegum lokagjalddaga á árunum 2016 og 2020.  Að því er samninginn frá 15. febrúar 2005 varði þá hafi stefnandi einungis átt að hafa greitt 15/120 hluta höfuðstólsins þegar kom að uppgreiðslu í janúar 2008, en langstærsta hluta höfuðstólsins, 61/120, hafi átt að greiða á upphaflegum lokagjalddaga á árinu 2020.  Eðli þeirra samningssambanda, sem um ræði, geti heldur ekki talist einfalt þannig að við blasi að það sé haldið ólögmætri gengistryggingu, teljist hún á annað borð hafa verið til staðar.

Stefndi mótmælir því sérstaklega að tilgreining stefnanda, að því er varðar umfang viðbótarkröfu, verði lögð til grundvallar.  Telur stefndi umfang viðbótarkröfu ekki vera slíkt að það standi viðbótarkröfurétti í vegi, að teknu tilliti til atvika allra og aðstæðna.  Í þessu sambandi vísar stefndi sérstaklega til þess að upphaflegar höfuðstólsfjárhæðir séu frá árinu 2001, 2002 og 2005 og því í reynd aðrar og um leið umtalsvert hærri á því tímamarki sem hér skipti máli að teknu tilliti til verðlagsþróunar.  Þannig sé höfuðstólsfjárhæð samnings nr. 104054 321.094.482 krónur og samnings nr. 104053 689.527.147 krónur, framreiknaðar frá september 2001 og júlí 2002 fram til janúar 2011, miðað við vísitölu neysluverðs. Höfuðstólsfjárhæð samningsins frá 15. febrúar 2005 sé svo 327.341.568 krónur, framreiknuð með sama hætti frá febrúar 2005 fram til janúar 2008.  Hið sama eigi einnig við um vaxtagreiðslur stefnanda sem séu umtalsvert hærri á því tímamarki sem hér skipti máli en þegar þær hafi átt sér stað.  Telur stefndi að taka verði tillit til þessa við mat á umfangi viðbótakrafna stefnda.

Með vísan til framangreinds telur stefndi að ekki séu uppfyllt lagaskilyrði til að víkja megi frá meginreglu kröfuréttar um rétt kröfuhafa, sem fengið hefur minna greitt en hann átti rétt til, til að fá það sem vangreitt er, svo sem málatilbúnaður stefnanda byggi á.  Stefnandi, sem beri fyrir sig undantekningu frá meginreglu kröfuréttar, verði í öllu falli að bera halla af hvers konar vafa í því tilliti.

Stefndi mótmælir því og sérstaklega að skilyrði skaðabótaábyrgðar séu fyrir hendi, þ. á m. skilyrði um saknæmi og ólögmæta háttsemi.  Eins sé ljóst, að yrði háttsemi stefnda metin honum til sakar, ætti það sama við um stefnanda og hljóti hann að hafa firrt sig skaðabótarétti að öllu leyti eða að hluta vegna eigin sakar.  Auk þess teldust skaðabótakröfur alltaf fyrndar, og skaðabótakröfur hafi aldrei verið fluttar yfir með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, sbr. II. hluta dómkrafna stefnanda.

Stefndi byggir einnig á því, fari svo að viðurkenndur verði réttur stefnanda til endurgreiðslu (og/eða skaðabóta) vegna sumra, en ekki allra, skuldbindinganna, að vangreidd fjárhæð vegna annarra skuldbindinga komi til skuldajöfnunar slíkri kröfu.

Stefndi kveður ekki vera fyrir hendi ágreining um endurútreiknaða stöðu skuldbindinga stefnanda, samkvæmt umþrættum samningum, á uppgreiðslu- og endurfjármögnunardögum, miðað við forsendur málatilbúnaðar stefnanda.  Þannig sé ágreiningslaust, verði fallist á forsendur stefnanda í málinu, að endurútreiknuð staða skuldbindinga stefnanda hafi þann 11. janúar 2011 verið 138.774.632 krónur vegna samnings nr. 104054 og 295.976.856 krónur vegna samnings nr. 104053.  Hafi uppgreiðsla þessara skuldbindinga með láni samkvæmt samningnum frá 25. janúar 2011 því verið of há um 167.614.749 krónur (602.366.237 – 138.774.632 – 295.976.856), sbr. I. hluta í kröfugerð stefnanda.  Með sama fyrirvara, hafi ofgreiðsla stefnanda vegna samningsins frá 15. febrúar 2005 numið 45.511.634 krónum í janúar 2008.  Þannig sé ekki rétt, eða a.m.k. misvísandi, sem segi í stefnu, að aðilar séu sammála um tilgreindar eftirstöðvar, enda slíkt háð því að fallist verði á að kröfurnar eigi á annað borð að bera samningsvexti, þ.e. að miða eigi við fullnaðarkvittanir.

Stefndi kveðst ekki fallast á að meintar kröfur stefnanda geti borið vexti frá uppgreiðslu- og endurfjármögnunardögum, eins og stefnandi geri kröfu um í bæði I. og II. hluta kröfugerðar sinnar, og mótmælir sérstaklega vaxtafæti, upphafstíma og málsástæðum þeim til grundvallar, bæði vegna I. og II. hluta í dómkröfum stefnanda.

Mótmælir stefndi sérstaklega aðalkröfu stefnanda í I. hluta dómkrafna hans, að það sé „nærtækast“ eða „eðlilegast“ að kröfurnar beri vexti samkvæmt samningnum, dagsettum 25. janúar 2011, eða að slík vaxtaviðmiðun eigi sér stoð í reglum kröfuréttar eða skaðabótaréttar eða öðrum réttarreglum.  Þá sé einnig óútskýrt með hvaða hætti og á hvaða grunni vextirnir breytist og sé málatilbúnaðurinn að því leyti vanreifaður.

Stefndi mótmælir einnig, sbr. varakröfu I. hluta og aðalkröfu II. hluta í dómkröfum stefnanda, að meintar kröfur stefnanda geti borið vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001 enda leiði slík vaxtaviðmiðun ekki af „samningi, venju eða lögum“ og því sé raunar ekki borið við af hálfu stefnanda.  Engu geti skipt í þessu sambandi þótt stefnandi telji „að rétt og sanngjarnt sé að ofgreiðsla gengistryggðra lána beri sömu vexti og lánin sjálf“.  Þá eigi 18. gr. laga nr. 38/2001, eins og ákvæðið hafi hljóðað áður en því var breytt með lögum nr. 151/2010, sýnilega ekki við í þessu tilviki, að mati stefnda, og mótmælir stefndi lögskýringu stefnanda, auk þess sem ákvæðinu hefði þegar verið breytt við uppgreiðslu lána nr. 104054 og nr. 104053.

Stefndi telur að ekki séu uppfyllt skilyrði fyrir því að meintar kröfur stefnanda geti borið vexti samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, eins og krafist sé af stefnanda í þrautavarakröfu hans í I. hluta og varakröfu í II. hluta, enda sé ekki um skaðabótaskyld tilvik að ræða, eða að skilyrði séu til að lögjafna frá því ákvæði eða lögum nr. 29/1995, um endurgreiðslur oftekinna skatta og gjalda.  Þá sé og að því að gæta, ef stefnandi yrði talinn eiga skaðabótakröfu á þeim grunni að stefndi hefði sýnt af sér saknæma háttsemi, að stefnandi hljóti að hafa firrt sig skaðabótarétti að öllu leyti eða að hluta vegna eigin sakar.  Auk þess væri skaðabótakrafan alltaf fyrnd, en þær fyrnist á fjórum árum, sbr. lög nr. 150/2007.

Stefndi mótmælir og sérstaklega dráttarvaxtakröfu stefnanda, bæði í I. og II. hluta kröfugerðar hans.  Verði fallist á dráttarvaxtakröfu stefnanda sé þess krafist að dráttarvextir reiknist fyrst frá dómsuppkvaðningu.

Þá hljóti vextir, eldri en fjögurra ára, alltaf að teljast fyrndir, enda taki uppgjörsregla laga nr. 151/2010 ekki til vaxta af endurgreiðslukröfum og/eða skaðabótakröfum.

Með II. hluta kröfugerðar sinnar krefjist stefnandi þess að viðurkennt verði með dómi að honum sé rétt að skuldajafna meintri „kröfu á hendur Glitni banka hf.“ á móti upphaflegri höfuðstólsfjárhæð kröfu stefnda samkvæmt samningnum frá 25. janúar 2011.  Stefndi mótmæli þessari kröfugerð stefnanda og telur hana ekki geta staðist, þ. á m. vegna aðildarskorts.  Stefnandi byggi kröfuna á 13. tölul. fyrrnefndrar ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins, en samkvæmt nefndum tölulið skyldi framsal kröfuréttinda samkvæmt ákvörðuninni ekki svipta skuldara rétti til skuldajöfnuðar sem hann hafi átt gagnvart fyrri kröfuhafa.

Stefndi byggir á því að stefnandi hafi, hvað sem öðru líður, ekki átt neinn skuldajafnaðarrétt gagnvart Glitni hf. vegna umþrætts láns, enda hafi hann ekki átt kröfurétt, annars vegar þar sem lánið hafi verið lögmætt, og hins vegar, jafnvel þótt lánið hafi verið ólögmætt, þá hafi lánið í raun verið vangreitt, en ekki ofgreitt.  Eins séu almenn skilyrði reglna um endurheimt ofgreidds fjár ekki uppfyllt.  Þá hljóti stefnandi að þurfa að fá gagnkröfu, sem koma eigi til skuldajafnaðar, viðurkennda við slit Glitnis hf., en slíkt hafi hann ekki gert.

Í annan stað sé vandséð hvernig skilyrði skuldajöfnunar hafi talist uppfyllt, þ.e. ef stefnandi hefur á annað borð átt kröfurétt á hendur Glitni hf. á grundvelli samningsins frá 15. febrúar 2005.  Nánar tiltekið þá liggi hvorki fyrir hver aðalkrafan hafi verið, sem sá kröfuréttur gæti þá komið til skuldajöfnunar gagnvart, þannig að sá réttur flyttist yfir, né að almennum skilyrðum skuldajöfnunar, þ. á m. að greiðslur væru hæfar til að mætast hvað greiðslutíma snerti, væri fullnægt.  Stefnandi verði að sýna fram á þetta.  Mótmælir stefndi því sérstaklega að það leiði af ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, eða almennum reglum, að stefnandi geti látið ætlaða kröfu koma til skuldajöfnunar við kröfurétt sem stofnað sé til, af hálfu nýs lögaðila, hér stefnda, löngu eftir ákvörðun Fjármáleftirlitsins.

Þá verði heldur ekki ráðið að lagaskilyrði geti staðið til þess að meint krafa stefnanda geti komið til skuldajafnaðar við kröfurétt stefnda á grundvelli samnings aðila, samkvæmt almennum reglum fjármunaréttar, meðal annars vegna skilyrða skuldajafnaðar um greiðslutíma.

Um lagarök vísar stefndi meðal annars til laga nr. 38/2001, sbr. lög nr. 151/2010, svo og meginreglna fjármunaréttar um réttar efndir fjárskuldbindinga og takmörk endurheimturéttar.  Jafnframt vísar stefndi til meginreglu kröfuréttar um rétt kröfuhafa til viðbótargreiðslu fyrir liðna tíð vegna þess sem vangreitt, telst sem og almennra reglna um skuldajöfnuð.

Kröfu um málskostnað byggir stefndi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

                                                                                           V          

                Í máli þessu greinir aðila á um hvort framangreindir lánssamningar, dagsettir 20. september 2001 og 11. júlí 2002, sem upphaflega voru gerðir milli stefnanda og Íslandsbanka hf., sem og lánssamningur, dagsettur 15. febrúar 2005, upphaflega milli stefnanda og Íslandsbanka-FBA hf., séu um skuld í erlendum myntum eða hvort um sé að ræða skuld í íslenskum krónum sem bundin sé með ólögmætum hætti við gengi erlendra gjaldmiðla, í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.  Þá lýtur ágreiningur aðila einnig að því hvort stefnandi eigi kröfu á hendur stefnda og hverrar fjárhæðar sú krafa er, ef talið yrði að samningarnir væru um lán í íslenskum krónum sem bundið hafi verið með ólögmætum hætti við gengi erlendra gjaldmiðla. 

                Óumdeilt er að stefnanda endurgreiddi umþrætt lán frá 20. september 2001 og 11. júlí 2002 með nýju láni hjá stefnda, dagsettu 20. janúar 2011.  Byggir stefnandi á því að hann hafi ofgreitt stefnda og þar með hafi lán það, sem hann tók til að greiða upp umþrætt lán, verið hærra sem því nemi.  Þá byggir stefnandi á því að hann hafi ofgreitt forvera stefnda vegna lánssamnings frá 15. febrúar 2005, sem gerður var upp 20. janúar 2008.  Byggir stefnandi á því að þar sem hann hafi þá staðið í skuld við forvera stefnda vegna þeirra samninga sem yfirteknir voru af stefnda á grundvelli ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins, eigi hann með vísan til 13. töluliðar þeirrar ákvörðunar rétt til að skuldajafna kröfu sinni, vegna ólögmætrar gengistryggingar samningsins frá 2005, við kröfur stefnda á grundvelli lánssamnings, dagsetts 25. janúar 2011.

                Eins og greinir í forsendum dóma Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010 fer skuldbinding í erlendum gjaldmiðlum ekki gegn ákvæðum 13. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001.  Samkvæmt þeim er hins vegar óheimilt að verðtryggja lánsfé í íslenskum krónum á þann hátt að það sé bundið við gengi erlendra gjaldmiðla.  Af orðalagi ákvæðanna og lögskýringargögnum verður ráðið að við úrlausn á því, hvort um sé að ræða skuldbindingu í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðli eða gjaldmiðlum, verði fyrst og fremst að líta til forms og meginefnis þeirra gerninga sem liggja til grundvallar skuldbindingunni.  Í því sambandi skiptir einkum máli hvernig sjálf skuldbindingin er tilgreind í þeim.

                Í dómum sínum um hvort lán sé í erlendri mynt eða íslenskum krónum bundið við gengi erlendra gjaldmiðla hefur Hæstiréttur fyrst og fremst lagt til grundvallar skýringu á texta þeirrar skuldbindingar sem lántaki hefur gengist undir.  Sé lánið tilgreint með fjárhæð í erlendum gjaldmiðlum hefur verið lagt til grundvallar að orðalag skuldbindingarinnar nægi ein og sér til að ráða úrslitum og þurfi þá hvorki að líta til þess hvernig ráðgert hafi verið í samningi að skyldur aðilanna yrðu efndar né hvernig efndir þeirra hafi orðið í raun, sbr. meðal annars dóm réttarins í máli nr. 187/2014.  Þá er þess og að gæta að þótt upphafleg skuldbinding í lánssamningi sé óskýr að þessu leyti hefur verið gengið út frá því að ótvíræð tilgreining skuldar samkvæmt lánssamningi í erlendum gjaldmiðli í viðauka við hann um skilmálabreytingar eða skuldskeytingu nægi ein út af fyrir sig til að ráða niðurstöðu og skiptir þá ekki máli hvernig staðið hafi verið að efndum samningsins, sbr. m.a. dóm Hæstaréttar í máli nr. 369/2014.

Umdeildum lánssamningum hefur verið lýst hér að framan og eins og þar greinir bar fyrirsögn þeirra með sér að um væri að ræða skuldbindingu í erlendum gjaldmiðlum, en hvort tveggja í erlendum gjaldmiðlum og íslenskum krónum í samningnum frá 15. febrúar 2005.  Í umdeildum samningi, dagsettum 20. september 2001, eru tilgreindir þeir erlendu gjaldmiðlar sem lán gat samanstaðið af og í samningnum, dagsettum í júlí 2002, er prósenta þeirra gjaldmiðla sem lánið gat samanstaðið af einnig tilgreind.  Hins vegar var einungis tilgreind hámarksfjárhæð láns í íslenskum krónum samkvæmt samningi, dagsettum 15. febrúar 2005.

Líta ber til þess að í samningunum sjálfum var hvorki að finna yfirlýsingu stefnanda um að hann stæði í skuld við bankann né að þeir mynduðu kröfuréttindi bankans á hendur stefnanda, heldur settu samningarnir aðeins ramma um lánsviðskipti milli þeirra með ákvæðum um beiðni um lán, útborgun þess, vexti af því og endurgreiðslu.  Fólust því lánssamningar í beiðnum stefnanda, sem bankinn samþykkti í verki með útborgun lánsins.  Í þessu ljósi getur það eitt út af fyrir sig ekki skipt máli að heildarumfang lánsviðskiptanna hafi verið afmarkað í samningunum með tilgreiningu á jafngildi fjárhæðar í íslenskum krónum.  Verður því að líta svo á að í raun hafi stofnast til skuldbindinga um greiðslu lánsfjár og endurgreiðslu með undirritun stefnanda á beiðni um útborgun og útborgun þess.  Í þeim beiðnum er fjárhæð skuldarinnar skýrlega tilgreind í erlendum myntum og einn lánshluti í íslenskum krónum á grundvelli samningsins frá 15. febrúar 2005.  Þá voru þeir gjaldmiðlar og fjárhæð þeirra sundurliðaðir á kaupnótum bankans vegna lánveitinganna.  Ákvæði samninganna um vexti og dráttarvexti samræmast því að um hafi verið að ræða lán í erlendum myntum.  Í sömu átt hníga ákvæði lánssamninganna um heimild lántaka til myntbreytinga, sem hann nýtti sér, að um lán í erlendum gjaldmiðlum hafi verið að ræða, sem og skjöl málsins um gjaldeyrisviðskipti bankans af því tilefni um myntbreytingu lánanna í kerfum bankans.  Verður ekki fallist á að önnur ákvæði lánssamninganna séu í ósamræmi við það að lánin hafi verið veitt í erlendum gjaldmiðlum, en sú niðurstaða verður ekki ráðin af því að stefnandi óskaði eftir því að lánshlutarnir yrðu greiddir út í íslenskum krónum og greiddi af lánunum í íslenskum krónum.  Þegar framangreint er virt verður lagt til grundvallar að stefnanda hafi verið veitt gild lán í hinum tilgreindu erlendu gjaldmiðlum, en ekki er ágreiningur um að einn lánshluti samkvæmt lánssamningi, dagsettum 15. febrúar 2008, var í íslenskum krónum.  Ber því þegar af þeim sökum að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

                Eftir þessari niðurstöðu þykir rétt, samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 800.000 krónur.

                Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R;Ð :

                Stefndi, Íslandsbanki hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs.

                Stefnandi greiði stefnda 800.000 krónur í málskostnað.