Hæstiréttur íslands

Mál nr. 119/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Læknaráð


Fimmtudaginn 10

 

Fimmtudaginn 10. apríl 2003.

Nr. 119/2003.

Vátryggingafélag Íslands hf.

(Hákon Árnason hrl.)

gegn

Laufeyju Snorradóttur

(Jóhannes Karl Sveinsson hrl.)

 

Kærumál. Læknaráð.

Kærður var úrskurður héraðsdóms, þar sem hafnað var kröfu L um að héraðsdómari leitaði álits læknaráðs um nánar tiltekin atriði, sem vörðuðu kröfu L í máli hennar á hendur V til heimtu skaðabóta vegna líkamstjóns. Í dómi Hæstaréttar er vísað til þess að samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 14/1942 um læknaráð sé það hlutverk þess að láta meðal annars dómstólum í té sérfræðilegar álitsgerðir varðandi læknisfræðileg efni. Láti læknaráð meðal annars í té umsagnir um hvers konar læknisvottorð, sem lögð eru fyrir dómstóla, sé eftir því leitað með úrskurði dómara. Samkvæmt þessu eigi það undir ákvörðun dómstóla án tillits til almennra reglna 46. gr. laga nr. 91/1991 hvort efni séu til að leita álitsgerðar af þessum toga í dómsmáli. Með hinum kærða úrskurði hafi héraðsdómari hafnað því að slíkt tilefni sé fyrir hendi og sé engin ástæða til að hnekkja því mati. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. apríl 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. mars 2003, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að héraðsdómari leitaði álits læknaráðs um nánar tiltekin atriði, sem varða kröfu varnaraðila í máli hennar á hendur sóknaraðila til heimtu skaðabóta vegna líkamstjóns. Kæruheimild felst í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að fallist verði á beiðni hans um að héraðsdómari afli álits læknaráðs á því hvort annars vegar vefjagigt og hins vegar þunglyndi, sem varnaraðili sé haldin, sé að einhverju leyti afleiðing umferðarslyss 10. nóvember 1994 og þá í hvaða mæli. Sóknaraðili krefst einnig kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 14/1942 um læknaráð er það hlutverk þess að láta meðal annars dómstólum í té sérfræðilegar álitsgerðir varðandi læknisfræðileg efni. Lætur læknaráð meðal annars í té umsagnir um hvers konar læknisvottorð, sem lögð eru fyrir dómstóla, ef eftir því er leitað með úrskurði dómara, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Samkvæmt þessu á það undir ákvörðun dómstóla án tillits til almennra reglna 46. gr. laga nr. 91/1991 hvort efni séu til að leita álitsgerðar af þessum toga í dómsmáli. Með hinum kærða úrskurði hefur héraðsdómari hafnað því að slíkt tilefni sé fyrir hendi og er engin ástæða til að hnekkja því mati. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði varnaraðila, Laufeyju Snorradóttur, 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur  26. mars 2003.

         Mál þetta er höfðað 12. september 2002 af Laufeyju Snorradóttur, Holtsgötu 25, Sandgerði, gegn Vátryggingafélagi Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík, til greiðslu skaðabóta vegna líkamstjóns stefnanda vegna umferðarslyss 10. nóvember 1994. Af hálfu stefnda var lögð fram greinargerð 31. október sama ár ásamt beiðni um yfirmat, sem dagsett er 17. september s.á. Yfirmatsgerð var lögð fram í þinghaldi 7. mars sl., en hún er dagsett 18. febrúar sl. Í sama þinghaldi var lögð fram beiðni um að málið yrði lagt fyrir læknaráð og að leitað yrði álits ráðsins um tilgreindar spurningar stefnda. Af stefnanda hálfu var því mótmælt að beiðnin næði fram að ganga. Úrskurðurinn er kveðinn upp af þessu tilefni en ágreiningurinn var tekinn til úrskurðar 17. mars síðastliðinn.

I.

         Rök stefnda fyrir beiðninni eru þau að sex matsgerðir liggi fyrir í málinu. Gengið hafi verið frá fyrirvaralausu uppgjöri á tjóni stefnanda 6. febrúar 1998 á grundvelli mats dómkvaddra matsmanna frá 15. desember 1997 og matsgerðar Ragnars Jóns­sonar læknis, dagsettri 3. febrúar 1998. Tæpum fjórum árum eftir uppgjörið hafi lögmaður stefnanda leitað dómkvaðningar matsmanna, en mat þeirra hafi legið fyrir 19. febrúar 2002. Í matinu komi fram að stefnandi hafi þjáðst af mikilli og langvinnri þreytu, hún hafi greinst með gigtarsjúkdóminn vefjagigt og hún taki þunglyndislyf. Einnig sé þar tekið fram að stefnandi hafi fundið fyrir vaxandi almennum stoðkerfiseinkennum af vefjagigtargerð svo og þung­lyndi. Hvorki sé minnst á vefja­gigt né þunglyndi sem afleiðingu slyssins í eldri matsgerðum. Í yfirmatsgerðinni frá 18. febrúar sl. segi að í umsókn um vistun stefnanda á Reykja­lundi, dagsettri 13. október 1997, hafi hún verið talin hafa einkenni vefjagigtar sem að minnsta kosti að einhverju leyti hafi verið rakin til slyssins 1994. Á matsfundi hafi ekki verið til staðar einkenni er bentu til útbreiddra stoðkerfiseinkenna og vefjagigtar. Þá segi í yfirmatinu um afleiðingar slyssins að afleiðing tognunar sé einungis einn þáttur ferils, og kannski sá sem velti hlassinu, þar sem um sé að ræða hægfara upphleðslu óþæginda og erfiðleika með einkennum síþreytu og síðan uppgjafar. Stefndi telji að af þessum orðum megi ráða að bág staða stefnanda megi að langmestu leyti rekja til einhverra annarra þátta en bílslyssins, læknisfræði­legra, sálrænna og félagslegra. Með ólík­indum verði að telja hve heilsu stefnanda hafi hrakað frá uppgjörinu 10. febrúar 1998 vegna afleiðinga tognunaráverka. Því sé veruleg spurning hvort aðrir þættir en bíl­slysið valdi bágu ástandi stefnanda. Stefndi telji vefjagigt og þunglyndi stefnanda ekki vera afleiðingar slyssins en í matsgerðum, sem fyrir liggi í málinu, sé ekki að finna nákvæm svör við því. Ágreiningur sé um læknisfræðileg atriði í málinu. Verði niður­staða læknaráðs á þann veg að hvorki þunglyndi né vefjagigt sé afleiðing slyssins megi færa sterkar líkur að því að hið bága ástand stefnanda hafi lítið með bílslysið að gera og að tvö síðustu mötin sem liggi fyrir í málinu séu beinlínis röng.

II.

                Af hálfu stefnanda er því mótmælt að málinu verði vísað til læknaráðs og þess krafist að aðalmeðferð verði ákveðin án frekari tafa. Í 1. mgr. 2. gr. laga um læknaráð nr. 14/1942 segi að hlutverk ráðsins sé meðal annars að láta dómstólum í té “sérfræðilegar umsagnir varðandi læknisfræðileg efni.” Verksvið ráðsins sé nánar skilgreint í 2. mgr. sömu lagagreinar en þar segi að ráðið veiti “umsagnir um hvers konar læknisvottorð” samkvæmt úrskurði dómara. Þannig geti dómari fengið álit læknaráðs á vottorðum lækna um læknisfræðileg álitamál, endi telji dómari vera fyrir hendi læknisfræðilegan ágreining sem skipti máli varðandi niðurstöðu máls. Í málinu sé enginn sjáanlegur ágreiningur um læknisfræðileg álitaefni. Stefndi hafi ekki óskað eftir áliti á niðurstöðum matsmanna með spurningunum sem hann óski að beint verði til læknaráðs eða áliti læknaráðs á því hvaða niðurstaða önnur gæti verið réttari. Stefndi bendi ekki einu sinni á hver sé hinn læknisfræðilegi vafi eða ágreiningur milli læknanna sem hafi fjallað um ástand stefnanda. Svör læknaráðs um orsakir þung­lyndis og vefjagigt muni í engu breyta niðurstöðum í málinu, enda verði með þeim hvorki bornar brigður á varanlega örorku stefnanda né verði álit læknaráðs á varan­legum miska hennar látið í ljós. Mat á varanlegri örorku sé í eðli sínu lögfræði­legt mat. Álit læknaráðs á einhverjum þáttum í örorku stefnanda geti því ekki skipt máli því ráðið hafi hvorki valdsvið né kunnáttu til að láta í té mat á varanlegri örorku. Spurningar stefnda til læknaráðs séu því þýðingarlausar og beiðni stefnda því þarflaus.

                Varnir stefnda í málinu séu þær að ekki séu skilyrði til að taka upp fyrra uppgjör á tjóni stefnanda sem hafi verið miðað við 15% örorku. Ágreiningur málsaðila sé því af lögfræðilegum toga og snúist um skýringu á 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga auk almennra reglna um brostnar forsendur. Álit læknaráðs um atriðin, sem stefndi hafi farið fram á að beint verði til ráðsins, breyti engu um þetta eða túlkun á tilvitnuðum lagareglum.

                Stefnandi byggi kröfur í málinu á niðurstöðum dómkvaddra matsmanna, þar með talið á yfirmati á varanlegum miska, sem þeir hafi metið 15%, og muni stefnandi laga kröfugerð sína í málinu að því. Ágreiningur í málinu sé eingöngu lögfræðilegur sem dómurinn leysi úr. 

III.

                Stefnandi hefur þegar fengið greiddar bætur úr hendi stefnda vegna 15% varanlegs miska eins og fram kemur í uppgjöri frá 6. febrúar 1998. Af stefnanda hálfu hefur því verið lýst yfir að endanleg kröfugerð hennar í málinu verði miðuð við 15 stiga mat á varanlegum miska samkvæmt yfirmati frá 18. febrúar sl. Verður að líta svo á að ekki sé ágreiningur í málinu um bætur fyrir varan­legan miska stefnanda vegna slyssins.

                Kröfur stefnanda um bætur vegna varanlegrar örorku eru byggðar á matsgerð frá 19. febrúar 2002 og yfirmati frá 18. febrúar 2003 þar sem staðfest er niðurstaða undir­mats um 75% varanlega örorku stefnanda vegna slyssins. Fyrra mat dómkvaddra matsmanna er dagsett 15. desember 1997. Þar er varanleg örorka stefnanda metin 15% og telur stefndi að miða beri við það.

                Í beiðni stefnda um álit læknaráðs felst að hann vefengi forsendur matsmanna sem metið hafi varanlega örorku stefnanda 75%. Stefndi telur að til að hnekkja niður­stöðum matsmanna þurfi að fá úr því skorið hvort vefjagigt og þunglyndi, sem vísað sé til í matsgerðum sem stefnandi byggi kröfur í málinu á en ekki í fyrri matsgerðum, sé að einhverju leyti afleiðing bílslyssins, og ef svo er hversu mikil. Stefndi telur aðrar ástæður fyrir hinu háa mati á varanlegri örorku stefnanda en hálstognunina, sem hún hlaut í umferðar­slysinu.

                Stefnandi var á Reykjalundi til endurhæfingar og mats frá 16. nóvember 1997 en í mati Ragnars Jónssonar læknis frá 3. febrúar 1998 kemur fram að þá hafi verið fyrirhugað að hún yrði þar fram að miðjum febrúar það ár. Stefnandi hafði þá mikla verki og gat ekki unnið. Í vottorði Sverris Bergmanns læknis á taugalækningadeild Landspítalans til Kára Sigurbergs­sonar yfirlæknis á Reykjalundi, dagsettu 13. október 1997, kemur fram að stefnandi hafi orðið að hætta vinnu vegna einkenna og sé hún í þörf fyrir bráðameðferð eigi hún að fá vinnu sína að nýju og komast aftur út í lífið. Í bréfinu er ástandi stefnanda nánar lýst og tilgreindar eru rannsóknir sem þurfi að gera. Við mat dómkvaddra matsmanna frá 15. desember 1997 og framangreint mat Ragnars Jónssonar hefur verið óljóst hvort stefnandi yrði fær um að stunda vinnu eftir dvölina á Reykjalundi. Í fyrra matinu kemur fram að stefnandi hafi á þeim tíma verið í mikilli meðferð vegna stoðkerfiseinkenna. Hún telji óvíst að hún geti byrjað aftur að vinna fyrri störf en á það hafi ekki reynt. Í mati Ragnars segir að alls óljóst sé hvort stefnandi muni framvegis geta stundað þau störf sem hún hafi áður unnið við og verði að telja það fremur ólíklegt. Líklega geti hún lokið námi á viðskiptabraut Fjölbrauta­skóla Suðurnesja, og síðan unnið störf tengdu því námi þótt búast megi við skertu úthaldi.

                Í mati dómkvaddra matsmanna frá 19. febrúar 2002 kemur fram að stefnandi hafi hlotið ýmiss konar meðferð og verið í endurhæfingu á Reykjalundi án varanlegs árangurs. Fyrir slysið hafi hún verið almennt hraust. Matsmenn telji mjög ólíklegt að stefnandi komi í framtíðinni til með að geta stundað nokkur störf. Slík störf yrðu þá að vera mjög létt líkamlega og einnig þyrfti stefnandi að geta ráðið vinnustellingum og vinnutíma sínum sjálf. Hæpið sé að hún geti aflað sér slíkrar vinnu að teknu tilliti til ástands hennar og aldurs, en þó ekki útlokað. Í yfirmatinu frá 18. febrúar sl. segir að stefnandi hafi haft fulla atvinnuþátttöku fyrir slysið og gott betur, að minnsta kosti síðustu árin fyrir slysið. Við mat á varanlegri örorku er tekið tillit til þess að heilsu stefnanda hafi á vissan hátt verið ábótavant fyrir slysið. Stefnandi hafi hætt vinnu réttum þremur árum eftir slysið sem gefi vísbendingu um að fleira komi til en einkenni um tognun á hálsi. Yfirmatsmenn telji að afleiðingar tognunar séu eingöngu einn þáttur ferils þar sem hægfara hafi hlaðist upp óþægindi og erfiðleikar með einkennum síþreytu og síðan uppgjafar. Vafasamt þætti að líta svo á að varanlega örorku stefnanda mætti alfarið rekja til slyssins en þar sé þó um þungan meðvirkandi þátt að ræða sem að öllum líkindum hafi verið afgerandi orsök þess að stefnandi hafi hætt að vinna. Af mats­gerðum þessum verður hvorki ráðið að matsmenn telji vefjagigt né þunglyndi afleiðingar umferðar­slyssins sem hér um ræðir. Stefndi telur að af yfir­mats­gerðinni megi ráða að aðrir þættir ráði slæmu heilsufari stefnanda en slysið, svo sem læknisfræðilegir, sálrænir og félagslegir, en hlutverk læknaráðs er eingöngu að veita umsagnir um læknisfræðileg efni og um læknisvottorð. Að þessu virtu verður að telja óljóst hvers vegna stefndi telur nauðsynlegt að afla álits læknaráðs á því hvort framan­greindir sjúkdómar væru afleiðing slyssins eða hver tilgangur hans er með því að beina umræddum spurningum til ráðsins. Þótt deilt sé um það í málinu að hve miklu leyti ástæða þess að stefnandi þurfti að hætta að vinna verði rakin til slyssins er ekki unnt að líta svo á að umsögn læknaráðs geti skipt máli við úrlausn á því. Með vísan til þessa verður að hafna beiðni stefnda um að leitað verði álits læknaráðs um þær spurningar sem stefndi hefur óskað eftir að lagðar verði fyrir ráðið.

Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

                Hafnað er beiðni stefnda um að leitað verði álits læknaráðs á framangreindum spurningum sem stefndi óskar að lagðar verði fyrir ráðið.