Hæstiréttur íslands
Nr. 2019-19
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Börn
- Forsjársvipting
- Meðdómsmaður
- Lögskýring
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Með beiðni 10. janúar 2019 leitar A leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 14. desember 2018 í málinu nr. 635/2018: A gegn B og C, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. B og C leggjast gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að gagnaðilar verði svipt forsjá tveggja barna sinna á grundvelli 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Héraðsdómur [...] taldi að skilyrði greinarinnar væru ekki uppfyllt og sýknaði gagnaðila af kröfu leyfisbeiðanda. Landsréttur staðfesti þá niðurstöðu með framangreindum dómi.
Leyfisbeiðandi rökstyður beiðni sína með vísan til þess að meðferð málsins á fyrri dómstigum hafi verið ábótavant. Telur leyfisbeiðandi að Landsrétti hafi borið að ómerkja héraðsdóm og vísa málinu heim í hérað til dómsálagningar á ný þar sem einungis einn sérfróður meðdómandi hafi verið kvaddur þar til setu í dómi. Hafi sú skipan héraðsdóms farið gegn dómi Landsréttar 21. september 2018 í máli nr. 442/2018 þar sem því hafi verið slegið föstu að við meðferð mála um forsjársviptingu fyrir héraðsdómi skyldu tveir sérfróðir meðdómendur sitja í dómi í samræmi við reglu 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga, þrátt fyrir ákvæði 1. málsliðar 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991. Leggur leyfisbeiðandi til grundvallar sama skilning á framangreindum lagaákvæðum hvað varðar skipan dóms fyrir Landsrétti. Leyfisbeiðandi vísar einnig til þess að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi og varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni barna gagnaðila. Loks telur hann að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til þar sem skilyrði 29. gr. barnaverndarlaga hafi verið uppfyllt.
Að virtum dómi Hæstaréttar 27. febrúar 2019 í máli nr. 26/2018 var meðferð málsins á fyrri dómstigum ekki ábótavant að framangreindu leyti, sbr. 3. málslið 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki talið að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi umfram dómsúrlausnir sem áður hafa gengið. Þótt málið varði mikilvæga hagsmuni er svo einnig ástatt endranær í málum sem varða forsjá barna og önnur skyld málefni þeirra, en ekki verður séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Er beiðninni því hafnað.