Hæstiréttur íslands

Mál nr. 602/2006


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Umferðarlagabrot
  • Skaðabætur


Fimmtudaginn 31

 

Fimmtudaginn 31.maí 2007.

Nr. 602/2006.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir

vararíkissaksóknari)

gegn

Lofti Jens Magnússyni

(Björn Ólafur Hallgrímsson hrl.)

 

Líkamsárás. Umferðarlagabrot. Skaðabætur.

L var sakfelldur fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa á veitingahúsi í Mosfellsbæ slegið A hnefahögg í hálsinn með þeim afleiðingum að hann lést. Hann var jafnframt sakfelldur fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið sviptur ökurétti. Við ákvörðun refsingar L varð ekki litið fram hjá því hversu alvarlegar afleiðingar hlutust af broti hans og að árásin var algjörlega tilefnislaus. Á hinn bóginn var ekki talið að L hefði verið ljóst að afleiðingar hnefahöggs hans gætu orðið svo alvarlegar sem raun bar vitni. Hann hafði ekki áður hlotið dóm fyrir ofbeldisbrot, en frá 18 ára aldri sætt refsingu tíu sinnum fyrir umferðarlagabrot. Ekkert í gögnum málsins benti til þess að L hefði eftir brotið leitað sér aðstoðar vegna óreglu sinnar eða reynt á einhvern hátt að bæta fyrir brotið, auk þess sem málið hafði tafist af hans völdum. Þótti ekki sýnt að L ætti sér nokkrar málsbætur. Að framangreindu virtu og þegar litið var til sviptingarakstursbrots hans þótti ekki hjá því komist að þyngja refsingu hans og var hún ákveðin fangelsi í 3 ár. Honum var jafnframt gert að greiða eiginkonu og börnum A bætur.

 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 14. nóvember 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu og þyngingar á refsingu. Jafnframt er krafist að ákærði greiði Y 9.306.386 krónur, Z 3.357.534 krónur og Þ og Æ 3.000.000 krónur hvorum, allt með vöxtum og dráttarvöxtum svo sem í ákæru greinir.

Ákærði krefst þess aðallega vegna ákæru 10. júní 2005 að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til nýrrar málsmeðferðar. Til vara krefst hann sýknu, en komi til sakfellingar verði refsing milduð og skilorðsbundin. Þá krefst hann aðallega að bótakröfum verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að þær verði lækkaðar og vextir aðeins dæmdir frá dómsuppsögu í héraði. Vegna ákæru 10. október 2005 krefst hann vægustu refsingar sem lög leyfa og að hún verði skilorðsbundin, en komi til áfellis samkvæmt fyrri ákæru krefst hann þess að honum verði ekki gerð sérstök refsing vegna síðara brotsins.

Af hálfu ákærða hafa nokkur ný gögn verið lögð fyrir Hæstarétt. Hafa þau ekki þýðingu fyrir úrlausn málsins og er fallist á það með ákæruvaldinu að ekki sé þörf á frekari skýrslutökum fyrir dómi þeirra vegna. Krafa ákærða um ómerkingu héraðsdóms er einkum reist á því að dómurinn hafi átt að vera fjölskipaður samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Ákvæðið felur í sér heimild fyrir héraðsdómara til að kveðja sérfróða meðdómendur til dómstarfa með sér og ræðst nauðsyn þessa úrræðis af aðstæðum hverju sinni. Læknisfræðigögn málsins bera öll að sama brunni og veita ekki ástæðu til þess að mati héraðsdóms verði haggað að þessu leyti. Að þessu athuguðu eru ekki efni til að taka til greina ómerkingarkröfu ákærða, sem önnur haldbær rök hafa heldur ekki verið færð fyrir.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða og heimfærslu brota hans til refsiákvæða samkvæmt báðum ákærum. Ákærði er því sekur um að hafa aðfaranótt 12. desember 2004 framið stórfellda líkamsárás sem leiddi til dauða og einnig sakfelldur fyrir umferðarlagabrot með því að hafa 10. september 2005 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti.

Við ákvörðun refsingar verður ekki litið fram hjá því hversu alvarlegar afleiðingar hlutust af líkamsárás ákærða. Af framburði vitna að árásinni verður ráðið að hún hafi verið óvænt og algjörlega tilefnislaus. Hafi hinum látna ekkert ráðrúm gefist til að verjast henni. Á hinn bóginn verður ekki talið að ákærða hafi verið ljóst að afleiðingarnar af hnefahöggi hans gætu orðið svo alvarlegar sem raun ber vitni. Ákærði hefur ekki áður hlotið dóm fyrir ofbeldisbrot. Í héraðsdómi er hins vegar rakið að hann hefur frá 18 ára aldri sætt refsingu tíu sinnum fyrir umferðarlagabrot og skipta þar mestu svokölluð ölvunar- og sviptingarakstursbrot. Þegar hann framdi fyrra brot sitt, sem hér er til meðferðar, var hann að sögn vitna ofurölvi, hafði lent í útistöðum við kunningja sinn og verið til vandræða á veitingastaðnum. Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að hann hafi eftir brotið leitað sér aðstoðar vegna óreglu sinnar eða reynt á einhvern hátt að bæta fyrir brot sitt. Þess í stað hefur hann svo sem síðara brotið, sem mál þetta lýtur að, ber vitni um ekið sviptur ökuréttindum. Þá hefur málið tafist af hans völdum þar sem hann hefur að ástæðulausu borið brigður á niðurstöður krufningarskýrslu um dánarorsök hins látna. Hefur ekki verið sýnt fram á að ákærði eigi sér nokkrar málsbætur. Þegar framanritað er virt og jafnframt litið til sviptingarakstursbrots hans verður ekki hjá því komist að þyngja refsingu hans frá því er ákveðið var í héraðsdómi. Er hún hæfilega ákveðin fangelsi í 3 ár, en til frádráttar henni skal koma níu daga gæsluvarðhald sem ákærði sætti vegna málsins. Í ljósi alvarleika brots ákærða eru ekki efni til að skilorðsbinda refsingu hans.

Ákvæði héraðsdóms um skaða- og miskabætur svo og sakarkostnað eru staðfest með skírskotun til forsendna dómsins.

Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, allt eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákærði, Loftur Jens Magnússon, sæti fangelsi í þrjú ár, en til frádráttar komi gæsluvarðhaldsvist hans frá 12. desember 2004 til 20. sama mánaðar.

Ákvæði héraðsdóms um bætur og sakarkostnaðar skulu vera óröskuð.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 466.556 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björns Ólafs Hallgrímssonar hæstaréttarlögmanns, 373.500 krónur.

                                                                                                                 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. september 2006.

Málið er höfðað með ákæru Ríkissaksóknara, útgefinni 10. júní 2005 og ákæru Lögreglustjórans í Reykjavík, útgefinni 10. október 2005, á hendur ákærða, Lofti Jens Magnússyni, kt. 150879-5239, Reykja­­vegi 54, Mosfellsbæ.

Með fyrri ákærunni er krafist refsingar á hendur ákærða samkvæmt 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 20/1981 og lög nr. 82/1998, „fyrir stór­­fellda líkamsárás sem leiddi til dauða með því að hafa, aðfara­­nótt sunnudagsins 12. desember 2004, á veitingahúsinu Ásláki, Mosfells­bæ, slegið A, kenni­­­­tala [...], hnefahögg efst í háls vinstra megin, með þeim afleiðingum að brot kom í hliðartind fyrsta hálshryggjarliðar og slagæð við háls­hrygg rofnaði. Við þetta varð mikil blæðing inn í höfuðkúpu, sem leiddi til þess að A lést af völdum blæðingar á milli heila og innri heilahimna.“

Í málinu gera ekkja A og eftirgreind börn þeirra svohljóðandi skaðabóta­­kröfur á hendur ákærða, í öllum tilvikum með vöxtum og dráttarvöxtum samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu: Y, kt. [...], krefst 9.306.386 króna. Z, kt. [...], krefst 3.357.634 króna. Þ, kt. [...], krefst 3.000.000 króna. Æ, kt. [...], krefst 3.000.000 króna.

Með seinni ákærunni er krafist refsingar á hendur ákærða fyrir brot á 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með því að hafa, að morgni laugar­dagsins 10. september 2005, ekið bifreiðinni [...], sviptur ökurétti, um Jónsgeisla í Reykjavík.

Ákærði krefst sýknu af refsikröfu samkvæmt ákærunni 10. júní 2005, en ellegar verði hann dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa. Komi til sakaráfellis er þess jafn­framt krafist að ákærða verði ekki gerð sérstök refsing fyrir umferðarlagabrot samkvæmt ákærunni 10. október 2005, en ella verði hann dæmdur í vægustu refsingu sem lög leyfa fyrir þá háttsemi. Þá er þess krafist að nefndum skaða­bóta­­kröfum verði vísað frá dómi, til vara er krafist sýknu, en að því frágengnu verði bætur lækkaðar verulega og upphaf vaxta miðað við dómsuppsögu.

Ákæra útgefin 10. október 2005.

Ákærði hefur viðurkennt fyrir dómi að hafa ekið bifreiðinni [...] laugardaginn 10. september 2005, svo sem rakið er í nefndri ákæru, þrátt fyrir að hann væri sviptur ökurétti. Með hliðsjón af þeirri játningu, sem samrýmist rannsóknargögnum málsins, er umrædd háttsemi sönnuð og þykir hún rétt færð til refsiákvæða í ákæru.

Ákæra útgefin 10. júní 2005.

I.

Aðfaranótt sunnudagsins 12. desember 2004 kl. 02:51 barst lögreglu tilkynning um að maður hefði verið sleginn niður og lægi meðvitundarlaus á veitinga­staðnum Ásláki í Mosfellsbæ. Sæmundur Örn Sveinsson og Magnús Vignir Guðmundsson lög­reglu­­menn héldu á vettvang og voru komnir þangað kl. 03, um það leyti sem verið var að loka staðnum. Sjúkralið var þá að störfum innandyra, en fyrir utan húsið stóð hópur fólks, þar á meðal ákærði, B sambýlis­kona hans og C. Ákærði var ölvaður og íklæddur jólasveinabúningi.

Í frumskýrslu Sæmundar Arnar, sem hann staðfesti fyrir dómi, segir að C hafi tjáð lögreglu að ákærði hefði kýlt A inni á veitingastaðnum og hlaupið út, en C farið og sótt hann. Í viðræðum við ákærða hafi hann kannast við að hafa lent í átökum og sagt að hann hefði verið „skallaður“. B hafi borið að hún hefði ekki orðið vitni að átökunum. Í skýrslunni er einnig lýst aðkomu lögreglu­mannanna innan­dyra, en þar hafi sjúkralið verið að gera lífgunar­tilraunir á A, sem legið hefði á gólfi í anddyri hússins. Hjá honum hafi verið eiginkona hans, Y og sonurinn Æ. Skömmu síðar hafi A verið fluttur á slysa­­­deild Land­­­spítala Háskólasjúkrahúss (LSH), en í kjölfar þess hafi vett­­­vangur verið afgirtur og lögreglumennirnir rætt við sjónarvotta. D eigandi veitinga­­staðarins hafi tjáð Sæmundi Erni að hann hefði staðið fyrir innan barinn og séð ákærða greiða A hnefahögg í anddyrinu. Augnabliki síðar hefði A legið á gólfinu. D hefði rokið fram, séð að A andaði ekki og því veitt honum skyndi­hjálp á meðan beðið hefði verið eftir sjúkra­bíl. Í viðtali Magnúsar Vignis við E dyravörð hafi komið fram að hún hefði haldið að A og eigin­kona hans væru að dansa í anddyrinu þegar ákærði hefði troðið sér framhjá þeim, fellt glas á gólfið og það brotnað við fætur A. A hefði „hellt sér yfir“ ákærða og hann svarað með því að gefa manninum fast hnefahögg ofarlega á bringu eða háls, þannig að A hefði dottið og skollið með höfuðið á gólfið. Fyrir dómi stað­festi Magnús efni viðtalsins og bar að ummælin innan gæsa­lappa hefðu verið höfð orðrétt eftir E.

II.

Ákærði var handtekinn og færður á lögreglustöð, þangað sem Sveinn Magnússon læknir kom um kl. 04:30 og framkvæmdi líkamsskoðun og -rannsókn á honum. Mun ákærði hafa verið rólegur og samvinnufús á meðan. Í læknisvottorði er haft eftir ákærða að hann fyndi lítillega til eymsla yfir nefi, en væri að öðru leyti verkja­­laus. Hann hafi sagst vera rétthentur. Ákærði hafi mælst 174 sm og vegið 79,3 kg, verið vöðvastæltur og vel á sig kominn líkamlega. Við skoðun hafi komið í ljós áberandi þroti yfir miðju nefi, þrútin efri vör og brotin framtönn í efri gómi. Einnig um 2,5 sm roða­blettur yfir vinstra kinnbeini, roðasvæði með grunnum húðafrifum við hægri oln­boga og lítill skurður á vinstri hendi, sem hafi ekki virst alveg nýr. Fram kemur í vott­orðinu að allir áverkar hafi verið ljósmyndaðir og eru þær myndir meðal framlagðra gagna. Ákærði lét lækninum í té blóð- og þvagsýni kl. 05 um nóttina. Samkvæmt niðurstöðum rannsókna á nefndum sýnum mældist alkóhól 2,19‰ í blóði ákærða og 2,92 ‰ í þvagi.

III.

Víkur þá sögunni að A, en gögn málsins bera með sér að hann hafi komið meðvitundarlaus á slysadeild kl. 03:44 sömu nótt. Í ljós hafi komið útbreidd blæðing milli heila og heilahimna með bjúgmyndun. A hafi hrakað þegar leið á daginn og hann verið úrskurðaður látinn kl. 14:20.

Þóra Steffensen réttarmeina­fræðingur framkvæmdi réttarkrufningu á líki A 14. desember. Í krufningarskýrslu hennar 12. maí 1005 er því lýst að engir ytri áverkar hafi greinst á hálsi eða höfði A. Innri skoðun hafi leitt í ljós 5x4 sm blæðingu í höfuðleðri á miðjum hnakka, örlítinn blóðsega milli heilahimna yfir fremri pól vinstra ennisblaðs og 11x7 sm blæðingu í mjúkvefjum háls og vöðva, neðan við vinstra kjálka­barð og eyra og á ská niður eftir hálsinum fram á við. Einnig hafi sést 3x1 sm blæðing í vöðva, hliðlægt á hálsinum vinstra megin og um 3,5x2 sm blæðing á aftan­verðum hálsi, aðlægt og umhverfis vinstri þver­tind (hliðartind) efsta háls­­hryggjar­­liðar. Rönt­gen­skoðun á nefndum hálslið og smásjárskoðun nær­liggjandi æða hafi leitt í ljós brot í þvertindinum og rifu á aftari hálsslagæð. Við skoðun á heila hafi greinst mikil blæðing undir innri heilahimnur yfir heilastofni, efri hluta litla heila og undir- og hliðar­fleti hjarna, heilabjúgur og haulmyndun. Alkóhól hafi mælst 1,14‰, miðað við sýni tekið kl. 03:50 aðfara­nótt 12. desember, sem bendi til þess að A hafi þá verið undir áhrifum áfengis.

Að krufningu lokinni var það niðurstaða réttarmeinafræðingsins að A hafi hlotið högg efst á háls vinstra megin við kjálkabarð, sem hafi valdið broti í þvertindi efsta hálshryggjarliðarins og rifu á aftari háls­slag­æðinni, fyrir sakir togs og snúnings og sú ákoma leitt til ban­vænnar blæðingar upp eftir slagæðinni og inn í höfuðkúpu, milli heila og innri heila­­himna. Fyrir dómi stað­festi Þóra þetta álit. Hún kvað örlitla „fyrir­ferð“, sem hefði greinst utan á hálsi, neðan við vinstra eyra, styðja ályktun sína um að A hafi hlotið þungt eða meðal­þungt högg á þann stað. Aðspurð sagði Þóra að engin blæðing hefði fundist í mjúk­vefjum á enni A, að blæðingin í hnakka­stað samrýmdist því að hann hefði fallið á hnakkann og það högg valdið lítilsháttar blæðingu við fremri pól vinstra ennis­blaðs. Hún kvað því ekkert í niður­stöðum krufningar benda til þess að A hefði skallað einhvern skömmu fyrir andlát. Þá kom fram í vitnis­burði Þóru að við krufningu hafi ekki fundist nein merki um undir­liggjandi sjúk­dóma eða hrörnun í æða- og stoð­­kerfi A, sem hafi gert hann óvenju viðkvæman fyrir umræddu höggi.

Aron Björnsson sérfræðingur í heila- og taugaskurðlækningum og Elías Ólafsson prófessor í taugasjúkdómafræði voru dómkvaddir til að skoða og endurmeta greindar niður­­stöður um dánarorsök As. Í matsgerð læknanna 14. júní 2006, sem þeir stað­­festu fyrir dómi, er tekið undir niðurstöður réttarmeinafræðingsins í öllum megin­atriðum, það er að segja, að dánarorsök A hafi verið kröftug slagæðablæðing á milli heila og heilahimna, sem hafi klárlega orsakast af höggi vinstra megin á háls og kjálka­barð mannsins, valdið broti í þvertindi efsta hálshryggjarliðar og meðfylgjandi rifu á aftari háls­slagæð milli hálsliðarins og höfuðkúpubotns. Ennfremur, að ekkert bendi til þess að aðrir samverkandi þættir, svo sem beinþynning eða önnur heilsufars­vanda­mál, hafi stuðlað að andlátinu. Aðspurðir kváðu matsmenn hina smá­vægi­legu blæðingu í hnakka og ennisblaði A alls óskylda umræddu höggi á háls, sögðu ólíklegt að þær blæðingar hafi hlotist af því að hinn látni hefði stangað eða skallað einhvern, en töldu það þó ekki útilokað. Hins vegar útilokuðu matsmenn að hið ban­væna högg hafi lent annars staðar en á hálsi A, svo sem á andliti eða höfði.

IV.

Meðal gagna málsins er vettvangsskýrsla tæknideildar lögreglu, ásamt afstöðu­teikningum og ljósmyndum af veitingastaðnum Ásláki. Samkvæmt þeim er gengið inn á staðinn um and­dyri í viðbyggingu á suðurhlið hússins, en þar muni ætlað brot hafa verið framið. Anddyrið sé um 9m² á stærð, með flísalögðu gólfi. Í suðausturhorni þess hafi verið sófastóll og borð fyrir miðjum austurvegg. Í norðvesturhorni anddyrisins hafi verið glerbrot á gólfinu og þar einnig legið sópur. Á norðurhlið viðbyggingarinnar eru tvær vængjahurðir, sem opnast inn í anddyrið, en þaðan er gengið inn í veitinga­sal. Samkvæmt frásögn lögreglumannanna tveggja, sem fyrstir komu á vettvang umrædda nótt, hafi A heitinn legið á bakinu í anddyrinu, fætur hans snúið í norður og þeir verið upp við hurðarnar tvær. Þaðan munu hafa mælst um þrír metrar að barborði í veitinga­salnum. Af nefndum rannsóknargögnum er ljóst að frá barnum að gættinni inn í and­dyri er nánast bein sjónlína.

V.

Víkur þá enn sögunni að ákærða, sem var yfirheyrður af lögreglu laust fyrir hádegi sunnudaginn 12. desember. Hann kvaðst hafa verið að ræða við einhvern í anddyri veitingahússins þáliðna nótt og verið mjög ölvaður þegar hann hefði fengið óvænt högg á nefið og hann svarað með því að slá eitt högg til baka. Að sögn ákærða hefði hann ekki þekkt viðkomandi aðila og minntist ekki orðaskipta þeirra í milli. Ákærði var sama dag leiddur fyrir dómara og úrskurðaður í gæsluvarðhald til 16. desember. Þann dag var gæsluvarðhald framlengt til 27. janúar 2005 á grundvelli almanna­­hagsmuna, en fyrir lá bráðabirgðaskýrsla áðurnefnds réttarmeinafræðings um dánar­­orsök A. Með dómi Hæstaréttar 20. desember í máli nr. 502/2004 var úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi og ákærði látinn laus sama dag.

Ákærði sætti tveimur öðrum yfirheyrslum hjá lögreglu, 15. desember 2004 og 19. maí 2005. Í þeirri fyrri kom ekkert nýtt fram af hálfu ákærða um atburði í anddyrinu umrædda nótt, en hann sagðist lítið muna eftir atvikum sökum ölvunar. Í hinni seinni voru ákærða birtar bótakröfur ekkju og barna As.

VI.

Í þágu rannsóknar málsins voru í desember 2004 teknar skýrslur af eftirgreindum vitnum, en tölustafir innan sviga sýna dagsetningu skýrslna hvers og eins: D eiganda Ásláks (12.), E dyra­verði (13.), F (14.) og G (15.) vinafólki ákærða og B, sem skoraðist undan að bera vitni (15.), H (12.), ekkjunni Y (14.), syni hennar Æ (14.) og unnustu hans I (14.), en þrjú síðasttöldu höfðu verið að skemmta sér með A heitnum og J frænku Y (13.), K (12.), C (13.) og L (14.), sem voru mál­kunnug hinum látna og loks M (12.), N (12.), O (15.) og P (17.), sem kunnu hvorki deili á ákærða né A.

Verður nú vikið að því helsta, sem fram kom við skýrslugjöf vitnanna og varpað getur ljósi á aðdraganda þess atburðar, sem ákæran er sprottin af. 

F og G báru að þau hefðu verið í samkvæmi á heimili ákærða og B í Mosfellsbæ að kvöldi laugardagsins 11. desember og hópur fólks farið þaðan á veitingastaðinn Áslák um miðnætti. Sumir hefðu verið í grímu­búningum, þeirra á meðal ákærði, sem hefði brugðið sér í gervi jólasveins, B, sem hefði verið engill, G, sem hefði verið „gulur kjúklingur“ og bróðir hans, sem hefði verið í bangsa­búningi. Er þessi frásögn í samræmi við framburð ákærða. F og G bar einnig saman um að ákærði hefði lent í útistöðum við G um kl. 02 og sagði G að bróðir sinn hefði blandast inn í þær stimpingar. Ákærði hefði verið áberandi drukkinn og æstur að mati F, sem kvað E dyravörð hafa tvívegis þurft að stilla til friðar og róa ákærða. E staðfesti þetta í vitnisburði sínum og bar að ákærði hefði látið ófrið­lega og verið mjög ör. D tók í sama streng og kvað ákærða hafa verið æstan þegar vitnið hefði séð hann rífast og stimpast við „gula kjúklinginn“. Ákærði hefði skömmu síðar komið á barinn og keypt sér bjór, rætt þar við mann í kanínubúningi og verið heitt í hamsi. H og M báru að þau hefðu veitt jóla­sveininum athygli um kl. 02:30, þar sem hann hefði látið ófriðlega við barinn og sparkað í stóla. Vitnin kváðust hafa verið nánast allsgáð. J bar að hún hefði veitt jóla­sveininum athygli milli kl. 02 og 02:30 og þá fyrir mikla ölvun og óspektir. Að sögn J hefði hún verið undir lítilsháttar áhrifum áfengis. Y bar á svipaðan veg og sagði að „sláttur“ hefði verið á jólasveininum og hann virst vera afar drukkinn. Ekkert kom fram í máli nefndra vitna eða annarra, sem bendir til þess að atburðarás hafi verið á annan veg eða að lýsingu einstakra atburða skeiki, svo nokkru nemi. Af framansögðu má og ráða að ekki hafi liðið langur tími frá því að vitni sáu ákærða við barinn og þar til hringt var í lögreglu kl. 02:51.

Vitnin voru öll kvödd fyrir dóm við aðalmeðferð málsins, að frá­töldum I og M, sem sáu ekki atburði í anddyri veitinga­hússins. Í vitnisburði G kom fram að hann hefði farið heim um kl. 02:40, eða áður en dró til tíðinda í anddyrinu. Verður nú rakinn framburður annarra vitna. Sum þeirra mundu ekki nákvæmlega eftir atvikum, en í þeim tilvikum var lesinn vitnisburður þeirra hjá lögreglu um sömu atburði, frá orði til orðs og staðfestu þau hvert og eitt réttmæti fyrri frásagnar.

VII.

D bar með líkum hætti og hjá lögreglu um að hann hefði séð ákærða í útistöðum við félaga sinn inni á veitingastaðnum og E dyra­vörður tekið hann afsíðis og veitt honum aðvörun. D hefði einhverju síðar verið í eldhúsi fyrir aftan barinn þegar hann hefði heyrt glas brotna frammi í anddyri. Hann hefði náð í sóp og fægiskóflu og verið á leið fram til að þrífa þegar hann hefði hitt E og afhent henni áhöldin. Að sögn D hefði hann því næst farið inn fyrir barinn og verið að afgreiða þegar hann hefði, augnabliki síðar, heyrt hávaða og læti berast frá anddyrinu. Hann hefði litið upp og séð A kunningja sinn standa í gættinni milli anddyris og veitinga­salarins og vera að rífast við ákærða. A hefði snúið í átt að D með útrétta hönd, eins og hann væri að stöðva einhvern frá því að koma nær, og ákærði staðið við hlið hans. Á meðan hefði E verið krjúpandi á milli þeira og verið að sópa upp glerbrotum af gólfinu. Í þeirri andrá kvaðst D hafa séð ákærða greiða A „þungt“ hnefa­högg með hægri hendi, sem hefði lent neðst við vinstri kjálka og háls. A hefði riðað við höggið, skjögrað til hliðar og því næst hnigið niður á gólfið í anddyrinu. Í kjöl­far þessa hefði ákærði ruðst framhjá A og hlaupið rakleitt út af veitinga­staðnum. D bar að hann hefði ekki séð ákærða lenda í úti­stöðum við annað fólk í anddyrinu.

E bar einnig með líkum hætti og hjá lögreglu um fyrri afskipti sín af ákærða inni í veitingasal Ásláks. Hún kvaðst síðan hafa verið að ræða við A vin sinn frammi í anddyri þegar eiginkona hans hefði komið og boðið honum upp í dans. Í fram­haldi hefðu hjónin stigið nokkur spor í anddyrinu. Ákærði hefði svo komið inn á veitingastaðinn „í miklu kasti“, rekið sig utan í glas á nálægu borði og það splundrast á gólfi í anddyrinu. Við þetta hefði A hætt að dansa og rétt út hendur, eins og hann væri að varna því að fólk stigi á glerbrotin. Jafnframt hefði hann skammað ákærða fyrir að brjóta glasið. Að sögn E hefðu fylgt einhver orða­­skipti milli mannanna, en sjálf hefði hún flýtt sér að ná í sóp, tekið við honum úr hendi D og því næst byrjað að hreinsa upp af gólfinu. Á meðan hefði hún orðið vör við stimpingar milli mannanna, hún litið upp og séð hönd ákærða á lofti. E tók fram að atburðarás hefði verið afar hröð og að hún hefði næst séð A liggjandi á gólfinu og ákærða standa við hlið hans. Hún kvaðst strax hafa gripið í ákærða og sett hann með valdi út fyrir dyr. Aðspurð kvaðst hún ekki hafa séð áverka í andliti ákærða á þeim tímapunkti og sagðist ekki minnast þess að A hefði áður sýnt minnstu tilburði til að leggja hendur á manninn. Ákærði hefði síðan verið sóttur á ný og færður inn í anddyri og bar E að eftir það hefði honum og syni A lent saman.

N bar að hann hefði setið á barnum og snúið baki í anddyri veitingastaðarins þegar hann hefði heyrt brothljóð og meðfylgjandi háreysti berast frá anddyrinu. Hann hefði því litið þangað og séð gráhærðan mann standa í gættinni milli and­dyris og veitingasalar, snúa í átt að barnum og baða út höndum, eins og hann væri að banda manni í jóla­sveinabúningi frá sér. Sá hefði virst taka þessu handapati illa. Lýsti N þessu nánar á þann veg, að sér hefði fundist sem gráhærði maðurinn væri að koma í veg fyrir að fólk færi inn í anddyrið. Honum hefði hins vegar ekki fundist maðurinn vera ógnandi í fram­komu og kvaðst ekki hafa séð nein átök milli hans og jólasveinsins fyrr en sá síðarnefndi hefði slegið gráhærða manninn eitt högg, að því er virtist á vanga. Sá hefði fallið niður á stól og hrotið þaðan á gólfið í anddyrinu, en jólasveinninn farið út af staðnum. 

J bar að hún hefði setið við borð, á milli barsins og and­dyrisins, þegar hávær orðaskipti frá anddyrinu hefðu dregið athygli hennar þangað. Hún hefði séð mann í jólasveinabúningi hreyta einhverju til A og hann svara á móti, en upp úr því hefðu mennirnir farið að rífast. Því næst hefði jólasveinninn, án nokkurs fyrirvara, greitt A „mjög fast“ högg með krepptum hnefa hægri handar, sem komið hefði vinstra megin í andlit A. Að sögn J hefði A riðað við höggið, stigið nokkur skref aftur á bak, inn í anddyrið og því næst hnigið niður. Aðspurð kvaðst J geta fullyrt að A hefði ekki slegið til jólasveinsins á meðan hún hefði verið að fylgjast með þeim. Sá hefði farið út af veitingastaðnum í kjölfar höggsins, en komið aftur inn í anddyri þegar J hefði staðið við hlið A á gólfinu. Á þeim tímapunkti hefði sonur ákærða misst stjórn á sér, ráðist á jólasveininn og bæði kýlt hann og skallað í andlit.

Y bar að hún hefði farið fram í anddyri veitingastaðarins laust fyrir kl. 03 og beðið A eiginmann sinn um að dansa. Hann hefði sagst vera of þreyttur til þess og viljað fara heim. Y hefði því snúið aftur að borði J frænku sinnar og verið að ná í veski og yfirhöfn þegar henni hefði verið litið í átt að anddyrinu og hún séð mann í jólasveinabúningi greiða A hnefahögg í andlitið. A hefði horft til hennar með undrunarsvip, skjögrað lítillega og því næst hnigið niður á gólf. Y kvaðst ekki hafa orðið vör við neinn aðdraganda að þeirri árás. Aðspurð sagðist hún ekki minnast þess að hafa skömmu áður stigið dans við A í anddyrinu, þótt hún þrætti ekki fyrir það.

K bar að hún hefði setið við borð nálægt anddyrinu og verið að ræða við Y og fleira fólk þegar hún hefði séð mann í jólasveinabúningi kýla A eitt högg og hann falla niður á gólf. Að sögn K hefði hún ekki séð hvar höggið lenti, en Y hefði sprottið samstundis á fætur og rokið fram í anddyri. Aðspurð kvaðst K ekki minnast þess að hafa séð mennina rífast eða takast á fyrir umrætt högg og tók fram að fyrir þann atburð hefði hún verið í samræðum við sessu­nauta sína og því ekki verið að fylgjast með öðru fólki. K gat þess að hún hefði verið undir áhrifum áfengis um nóttina.

H bar að hann hefði setið við borð við hlið anddyrisins og snúið að barnum þegar hann hefði séð mann í jólasveinabúningi ganga að barnum og ræða við mann í smYnd. Í framhaldi hefði jólasveinninn farið fram að anddyri. Næst hefði H séð hvar jólasveinninn hefði sveiflað hægri hendi og látið hana vaða í átt að A, sem staðið hefði fyrir framan hann við anddyrið. H kvaðst ekki hafa orðið var við orðaskipti eða stimpingar milli mannanna áður en hönd jóla­sveinsins hefði farið á loft og tók fram að hann hefði ekki séð hvort og þá hvar ætlað högg hefði komið í A. Hann hefði hins vegar heyrt öskur frá öðrum hvorum mannanna. Örskömmu síðar hefði A legið á gólfinu og jólasveinninn horfið út af veitingastaðnum.

C bar að hann hefði verið í veitingasalnum, í gættinni rétt fyrir innan anddyri, og A vinur hans staðið við hlið hans í um eins metra fjarlægð. Þeir hefðu báðir snúið í átt að barnum og ekki verið að talast við þegar C hefði heyrt dynk eða smell, líkt og einhver hefði verið sleginn. Í sömu andrá hefði C verið litið í átt til A og séð hann hníga niður á gólf. Að sögn C hefði hann verið nokkuð ölvaður þegar þetta gerðist. Hann kvaðst ekki hafa orðið var við neinn aðdraganda að falli A og ekki hafa veitt ákærða athygli í margnefndum jóla­sveina­búningi fyrr en einhver hefði kallað: „Náið jólasveininum.“ Í framhaldi hefði C séð ákærða fyrir utan húsið, hlaupið á eftir honum og haldið, uns L félagi C hefði komið að. Þeir hefðu síðan leitt ákærða inn í anddyri. Aðspurður sagðist C muna eftir syni A í anddyrinu á þeim tímapunkti, en kvaðst ekki minnast þess að til átaka hefði komið milli hans og ákærða. Þó hefði komið til einhverra ryskinga í anddyrinu, C fallið á gólfið og dyravörður skakkað leikinn.

L bar að hann hefði staðið við barinn, allsgáður, þegar hann hefði heyrt smell og verið litið í átt að anddyrinu. A hefði þá legið á gólfinu og hópur fólks safnast í kringum hann. Í framhaldi hefðu hann og C hlaupið út á eftir manni í jólasveinabúningi og fært hann inn í anddyrið. Þar hefði Æ sonur A komið til þeirra, öskrað á jólasveininn eitthvað á þá leið: „Hvað varstu að gera, hvað varstu að spá?“ og því næst skallað manninn í ennið. Í kjölfar þessa hefðu orðið einhver læti og L, C og ákærði fallið í eina kös á gólfinu.

F bar að hún hefði ekki séð átök eða önnur samskipti milli ákærða og A í anddyrinu, en verið þar stödd þegar A lá á gólfinu og í fram­haldi séð son hans, öskureiðan, skalla ákærða í andlitið. Hefði mikil þvaga þá verið búin að myndast í anddyrinu og ákærði, B sambýliskona hans og fleiri fallið í gólfið af þeim sökum. F kvaðst ekki hafa séð áverka í andliti ákærða fyrir atlögu sonarins, en í kjölfar hennar hefði ákærði verið með stóra kúlu á nefinu, sem hún taldi vera afleiðingu af umræddu höggi.

Æ Ingi, sonur A heitins, bar að hann hefði komið á veitingastaðinn um kl. 02 ásamt unnustu sinni og þau hitt foreldra hans. Kvaðst Björn hafa verið fremur drukkinn. Hann hefði ekki orðið var við samskipti A og mannsins í jóla­sveina­­búningum, en frétt að faðir hans hefði verið sleginn og því farið fram í anddyri. A hefði þá legið á gólfinu og nærstaddir verið að reyna að lífga hann við. Að sögn Æ hefði hann heyrt að jólasveinninn hefði slegið A, hann litið í kringum sig og hvergi séð manninn. Skömmu síðar hefði jólasveinninn gengið inn um útidyrnar, komið aftan að Æ og sagt eitthvað við hann. Kvaðst Æ hafa snúið sér við um leið, spurt „hvað gerðirðu“ og því næst skallað hann fyrirvaralaust í andlitið. Aðspurður bar Æ að allt hefði orðið „svart“ í huga hans eftir þetta og því myndi hann óljóst eftir öðrum atburðum. Hann kvaðst ekki minnast þess að hafa kýlt jóla­sveininn, kvað einnig ólíklegt að sá hefði kýlt hann og sagðist telja að hann myndi muna eftir slíku hefði það gerst á annað borð.

P bar að hann myndi eftir manni í jólasveinabúningi, sem hefði verið æstur inni á veitingastaðnum umrædda nótt. Seinna hefði P setið á barnum og snúið baki í anddyrið þegar hann hefði heyrt eitthvað gerast fyrir aftan sig. Hann hefði þá farið fram í anddyrið, séð A á gólfinu og fólk þyrpast í kringum hann. Að sögn P hefði hann ekki orðið var við nein átök í anddyrinu.

O var í bifreið á leið til Akraness umrædda nótt ásamt vinkonu sinni, en kom við fyrir utan veitingastaðinn svo að hún kæmist á salerni. O bar að hann hefði lagt þétt upp við útidyr staðarins og setið í bifreiðinni á meðan frúin hefði skroppið inn. Að sögn O hefði hann síðan fylgst með dyraverði eða öðrum álíka henda út manni í jólasveinabúningi, sem hefði streist á móti. Á hæla hans hefði fylgt stúlka í englabúningi, sem hefði spurt jólasveininn eitthvað á þá leið: „Af hverju gerðir þú þetta?“ og hann svarað í þá veru: „Af því að hann skallaði mig og þá sló ég hann.“ Skömmu síðar hefði frúin komið út og O ekið á brott.

B óskaði eftir að bera vitni fyrir dómi. Hún kvað ákærða hafa verið mjög ölvaðan umrædda nótt og bar að hann hefði lent í smávægi­legum útistöðum við G vin sinn. B kvaðst ekkert geta borið um samskipti ákærða og A, en sagðist hafa farið fram í anddyri veitinga­hússins, eftir að þvaga hefði myndast, og séð son A skalla ákærða. Í fram­haldi hefði dyravörður reynt að henda ákærða út af staðnum, hann streist á móti og B veitt konunni aðstoð við að koma honum út. Þá fyrst hefði hún séð A á gólfinu. B hefði síðan farið út á eftir ákærða og spurt hann af hverju hann hefði verið að „þessu“. Tók B fram í þessu sam­bandi að hún hefði ekki vitað til þess að ákærði hefði gert annað af sér en að streitast á móti dyra­verðinum. Ákærði hefði svarað: „Af því hann skallaði mig, þá kýldi ég hann.“ Að sögn B hefði hún ekki skilið umrætt svar, því ákærði hefði aldrei lyft hönd á móti þeim, sem hún hefði séð skalla hann.

VIII.

Í þinghaldi 21. júní 2006 var bókað eftir ákærða að hann viðurkenndi að hafa slegið ókunnan mann inni á veitingastaðnum Ásláki umrædda nótt, en greint sinn hefði hann upplifað árás af hálfu þess manns og brugðist til varnar með því að slá frá sér einu sinni. Ákærði sagðist muna óljóst eftir nefndum atburðum og gaf þá skýringu að hann hefði verið talsvert ölvaður um nóttina.

Við aðalmeðferð málsins kvaðst ákærði ekki treysta sér til að staðfesta ofan­greinda bókun og sagðist ekki muna lengur hvort atvik hefðu verið með þeim hætti. Ákærði skýrði annars frá því að hann hefði verið búinn að drekka áfengi frá því um miðjan dag á laugardegi 11. desember 2004 og verið ölvaður þegar farið hefði verið á Áslák um miðnætti. Þar hefði hann drukkið bæði bjór og romm og verið mjög ölvaður þegar leið á nóttina. Sökum þessa myndi hann afar takmarkað eftir samneyti við annað fólk á veitingastaðnum. Hann sagðist þó minnast deilna við félaga sinn, en varla muna eftir að hafa átt samskipti við A eða aðra í anddyri staðarins. Ákærði lýsti þessu nánar þannig að það væri „eins og allt detti út þarna í anddyrinu“ og hann myndi næst eftir sér fyrir utan húsið. Aðspurður kvaðst ákærði ekki muna eftir að hafa slegið A, en sagðist ekki draga í efa fram­burð vitna þar að lútandi. Hann hefði sjálfur borið áverka eftir atburði næturinnar, en kvaðst ekki muna hvernig hann hefði hlotið þá. Ákærði kvaðst muna eftir sér á göngu­­stíg nálægt veitingastaðnum, að einhver hefði komið til hans, þeir talast við og orðið samferða að Ásláki, þar sem ákærði hefði verið færður inn í lögreglu­bifreið. Hins vegar myndi hann ekki eftir að hafa farið aftur inn í anddyri veitingastaðarins. Borinn var undir ákærða sá framburður hans hjá lögreglu 12. desember 2004 að hann hefði verið að ræða við einhvern í and­dyrinu þegar hann hefði skyndilega fengið högg á nefið frá ókunnum aðila og hann svarað með því að slá eitt högg til baka. Aðspurður sagðist ákærði ekki minnast þeirra orða og ekki vera með þetta atriði á hreinu, enda hefði hann reynt eftir megni að þurrka út minningar um atburði næturinnar.

IX.

Samkvæmt 1. mgr. 135. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála skulu röksemdir dómara lúta að því hvað teljist sannað og með hverjum hætti. Um sönnun fer annars eftir reglum 45.-48. gr. laganna. Í því sam­bandi ber að meta skynsamlegan vafa til hagsbóta fyrir ákærða, bæði um atriði er varða sekt hans og önnur, sem telja má honum í óhag. Sönnunarbyrði hvílir á ákæruvaldinu, sbr. 45. gr., en sönnunar­­mat dómara er frjálst, þó þannig að dómur skal fyrst og fremst reistur á sönnunar­­­gögnum, sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 48. gr.

Þegar framburður ákærða er virtur heildstætt virðist helst mega ráða að hann muni ekki lengur hvort og þá hver samskipti hann hafi átt við A inni á veitinga­staðnum Ásláki umrædda nótt. Hefur ákærði einkum borið fyrir sig mikla ölvun til skýringar á minnis­leysi og getur það samrýmst frásögn vitna um ölvunarástand hans og niður­stöðum alkóhólrannsókna á blóð- og þvagsýnum, sem ákærði lét í té um tveimur klukku­stundum eftir handtöku. Óháð ætluðu minnisleysi er lítið hald í frá­sögn ákærða, enda hefur lýsing hans á atburðum, sem hér máli skipta, verið ærið takmörkuð og hann ekki verið stöðugur í þeim framburði fyrir dómi. Við úrlausn málsins verður því að líta til frásagnar sjónarvotta, skýrslna sérfræðinga um dánar­orsök A og vitnis­burðar þeirra fyrir dómi.

Vitnunum D, N, J, Y og K bar saman um fyrir dómi að þau hefðu verið stödd nálægt anddyri veitingastaðarins og séð ákærða slá A eitt hnefa­högg með þeim afleiðingum að A hefði hnigið niður á gólf í anddyrinu. Fær þetta stoð í vætti E og H, sem báru fyrir dómi að þau hefðu séð hönd ákærða á lofti, þeim virst sem hann hefði slegið til A og hann örskömmu síðar fallið á gólfið. Er ekkert fram komið í málinu, sem hnekkir frásögn nefndra vitna eða veikir, svo nokkru nemi. Samkvæmt því er hafið yfir allan skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi að greiða A heitnum hnefahögg með fyrrgreindum afleiðingum.

D bar fyrir dómi að umrætt högg hefði komið á vinstri kjálka og háls A, J nefndi vinstri hlið andlits í þessu sambandi, N gat um vanga og Y um andlit eigin­manns síns. Hvað sem líður þessum vitnisburði er sannað, með hliðsjón af krufningarskýrslu Þóru Steffensen réttarmeinafræðings, mats­gerð Arons Björns­sonar sérfræðings í heila- og taugaskurðlækningum og Elíasar Ólafs­sonar sér­fræðings í taugasjúkdómafræði og samhljóða vitnisburði sérfræðinganna þriggja fyrir dómi, að dánarorsök A hafi verið högg efst á háls, vinstra megin við kjálkabarð, sem valdið hafi broti í þvertindi (hliðartindi) efsta (fyrsta) hálshryggjarliðarins og rifu á aftari háls­slag­æð og sú ákoma leitt til banvænnar blæðingar á milli heila og heila­himna. Ber í þessu sambandi að hafa í huga það samdóma álit sér­fræðinganna að ekkert hafi komið fram við skoðun þeirra, sem bendi til þess að aðrir samverkandi þættir, svo sem beinþynning, æðakölkun eða önnur heilsufars­vanda­mál, hafi stuðlað að andlátinu. Að þessu virtu er fullsannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi, sem honum er gefin að sök í ákæru og þar þykir rétt færð til refsiákvæða.

Refsing og önnur viðurlög.

I.

Ákærði er 27 ára. Samkvæmt sakavottorði hefur hann, frá því hann náði 18 ára aldri, hlotið tíu refsingar fyrir umferðarlagabrot. Skipta hér einkum máli svokölluð sviptingar­akstursbrot samkvæmt 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga. Þannig var ákærði sektaður 18. maí 1998 fyrir sviptingarakstur, enn 23. febrúar 1999 og hlaut þriggja mánaða fangelsisdóm fyrir ölvunar- og sviptingarakstur 17. október 2000, en hann átti þá að baki fjórar refsingar fyrir ölvunarakstur. Næst var ákærði dæmdur í tveggja mánaða fangelsi 26. mars 2001 fyrir sviptingarakstur og loks í þriggja mánaða fangelsi fyrir sams konar brot með dómi 4. desember 2002. Að virtum þessum saka­ferli ætti refsing ákærða fyrir sviptingarakstur 10. september 2005, sem hann hefur verið sakfelldur fyrir samkvæmt ákæru lögreglustjóra 10. október sama ár, ein sér að varða sex mánaða óskilorðsbundnu fangelsi samkvæmt dómvenju.

Við ákvörðun refsingar ber annars að taka mið af þeim hagsmunum, ákærða til refsi­þyngingar, sem hann braut gegn og því tjóni, sem hann olli með hinni banvænu líkams­árás, sbr. 1. og 2. töluliður 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem og þeirri hegðun hans að aka bifreið sviptur ökurétti á meðan líkamsárásarmálinu er ólokið, sbr. 5. töluliður 1. mgr. Á hinn bóginn þykir mega horfa til þess að ákærði var, að því er telja verður, ofurölvi þegar hann veittist að A heitnum með fyrr­greindum afleiðingum, að fráleitt verður að telja að hann hafi haft vilja til að valda A meiri háttar líkamstjóni og því síður að bana honum og ósannað er að hann hafi borið ásetning til að slá í háls A fremur en andlit, sbr. 3., 6. og 7. töluliður 1. mgr. 70. gr. nefndra laga. Að þessu sögðu er óhjákvæmilegt að taka skýrt fram að ölvun ákærða getur aldrei réttlætt framferði hans, en hún gæti horft til skýringar á verknaðinum, sem beindist að manni, sem hann vissi engin deili á og átti ekkert sökótt við þegar þeir mættust fyrsta sinni.

Kemur þá til álita hvort ákærði eigi sér einhverjar málsbætur í því að líkamsárásin hafi verið unnin í áflogum eða átökum milli hans og A eða hinn látni hafi átt upp­tök að árásinni með ertingum eða líku, þannig að lækka megi refsingu ákærða af þeim sökum, sbr. 3. mgr. 218. gr. b. almennra hegningar­laga með áorðnum breytingum. Sem fyrr verður hér lítt stuðst við framburð ákærða, en hann sagði í sinni fyrstu skýrslu um málið, 12. desember 2004, að hann hefði verið að tala við einhvern í anddyri veitingahússins þegar hann hefði skyndilega fengið högg á nefið frá ókunnum þriðja aðila og hann svarað með því að slá eitt högg til baka. Ákærði stað­festi þann framburð fyrir dómara við fyrirtöku gæsluvarðhaldskröfu sama dag, en treysti sér ekki til hins sama við aðalmeðferð málsins. Sú lýsing atburða, ef rétt væri, samrýmist engan veginn frásögn vitna af samskiptum ákærða og A heitins í eða við anddyrið. Á hinn bóginn ber vitnunum D, E, N og J saman um að ekkert í fari A fyrir árásina hafi bent til þess að hann hefði átt upptök að árásinni. Fær sú frásögn stoð í vætti K, H og C fyrir dómi. Meta verður vitnisburð B sambýliskonu ákærða og O í þessu ljósi, en fyrir liggur að þau urðu ekki vör við nein samskipti milli ákærða og A. Breytir engu í þessu sambandi samhljóða frásögn þeirra um orðaskipti B og ákærða fyrir utan veitingahúsið, enda óvíst hvenær í atburðarásinni þau orð féllu, þótt ráða megi af vætti B að hún hefði skömmu áður séð A liggja á gólfi í anddyrinu og í kjölfarið séð son hans skalla ákærða. Vitnisburður E, J, H, C og L styður eindregið þá ályktun, en vitnunum ber saman um að ákærði hafi horfið út af staðnum í kjölfar árásarinnar á A, en síðan komið aftur inn í anddyrið, þá lent saman við soninn og í kjölfar þess verið hent út af staðnum. 

Samkvæmt framansögðu er það álit dómsins að ekkert það hafi komið fram í málinu, sem réttlætt geti árás ákærða á A heitinn í skilningi 3. mgr. 218. gr. b. almennra hegningar­laga. Að því virtu, öðru framansögðu, sem og því hve langt er liðið frá árásinni, því hve óvægna umfjöllun ákærði hefur sannanlega hlotið fyrir atlöguna hjá einstökum fjölmiðlum, þrátt fyrir að sök hans teljist ósönnuð til þessa dags og loks með hliðsjón af 77. gr. hegningarlaganna og dómi Hæstaréttar 23. mars 2006 í máli nr. 508/2005, þykir refsing hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár. Eru engin þau rök fyrir hendi, sem réttlætt geta skilorðsbindingu refsingarinnar að hluta eða í heild, en til frádráttar henni skal koma níu daga gæsluvarðhald, sem ákærði sætti frá 12.-20. desember 2004, sbr. 76. gr. títtnefndra laga.

II.

Ákærða hefur verið dæmt refsiáfall í málinu. Ber því að dæma um framlagðar bótakröfur, sbr. 1., 2. og 4. mgr. 172 gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Kröfuhafar eru Y, ekkja A og synir þeirra Þ, fæddur 1973, Æ, fæddur 1976 og Z, fæddur 1988. Þau krefjast hvert um sig 3.000.000 króna miskabóta samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999, en samkvæmt téðri lagagrein má dæma þann, sem af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi veldur dauða annars manns, til að greiða maka, börnum eða foreldrum miskabætur. Með hliðsjón af hinni alvarlegu og tilefnis­lausu árás á A heitinn er skilyrðum laganna fullnægt í máli þessu og telst ákærði samkvæmt því bóta­skyldur gagnvart eftirlifandi ekkju og sonum. Engin efni eru til að verða við kröfu ákærða um lækkun miskabóta með vísan til ákvæðis 1. mgr. 24. gr. skaðabótalaganna. Að því virtu og með hliðsjón af aldri sonanna þriggja, sem allir eru fullveðja þykja bætur til Þ og Æ hvors um sig hæfilega ákveðnar 1.000.000 krónur og bætur til Z 1.500.000 krónur, en hann er nýlega orðinn 18 ára. Bætur til ekkjunnar þykja hæfilega metnar 2.000.000 króna.

Af hálfu ekkjunnar er einnig krafist 5.107.936 króna í bætur fyrir missi fram­færanda og 1.148.650 króna í útfararkostnað, eða samtals 6.256.586 króna. Þá krefst sonurinn Z 315.134 króna í bætur fyrir missi framfæranda. Eru kröfur ekkjunnar reistar á 12. gr. skaðabótalaga, en samkvæmt henni skal sá, sem skaðabótaábyrgð ber á dauða annars manns, greiða hæfilegan útfararkostnað. Auk þess skal hann greiða þeim sem misst hefur framfæranda bætur fyrir það tjón, sem ætla má að af því leiði fyrir hann, en um frádrátt af slíkum kröfum er vísað til 4. mgr. 5. gr. laganna. Krafa sonarins styðst á hinn bóginn við 14. gr. sömu laga, en samkvæmt því ákvæði skulu bætur til eftirlifandi barns, sem hinum látna var skylt að framfæra, vera jafnháar heildarfjárhæð þeirra barna­lífeyrisgreiðslna, sem barnið á rétt á eftir lögum um almannatryggingar frá tjónsdegi til 18 ára aldurs.

Krafan um útfararkostnað er studd viðhlítandi gögnum og hefur fjárhæð hennar verið samþykkt af hálfu ákærða. Verður hann því dæmdur til að greiða ekkjunni þá kröfu með 1.148.650 krónum, enda engin efni til að lækka þá fjárhæð á grundvelli 1. mgr. 24. gr. skaðabótalaganna

Ákærði hefur einnig fallist á fjárhæð bóta vegna missis framfæranda, þó þannig að hann telur að við ákvörðun slíkra bóta til ekkjunnar beri að nota 4,05% ávöxtunarkröfu í stað þeirra 4,5%, sem mælt er fyrir um í 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaganna. Þá beri að beita sömu viðmiðun við ákvörðun bótanna til sonarins. Ekki eru fyrir hendi lagarök til að fallast á nefnd sjónarmið ákærða. Ber því samkvæmt framansögðu og með vísan til útreiknings Helga Bjarnasonar tryggingastærðfræðings að dæma ákærða til að greiða ekkjunni 5.107.936 krónur vegna missis fram­færanda. Þá bera syninum 315.134 krónur úr hendi ákærða (19 x 16.586 krónur), sbr. 14. gr. skaðabótalaganna. Sem fyrr eru engin efni til lækkunar téðra krafna vegna sjónarmiða 24. gr. sömu laga.

Ekkjan hefur einnig krafist 49.800 króna vegna öflunar útreiknings tryggingastærð­fræðingsins og sonurinn Z 42.500 króna vegna öflunar sálfræðilegrar greinar­­gerðar til stuðnings fyrrnefndri miskabótakröfu sinni. Styðjast þær kröfur við 4. mgr. 172. gr. laga um meðferð einkamála. Krafnanna er ekki getið sérstak­lega í fram­lögðum bótakröfum og því síður tilgreindar með ótvíræðum hætti í ákæru, svo sem áskilið er 171. gr. sömu laga. Ákærði hefur engu síður sam­þykkt að kröfurnar komist að í málinu og hefur ekki mótmælt fjárhæð þeirra. Verður hann því einnig dæmdur til greiðslu þeirra.

Í ákæru er ekki tekin upp krafa ekkjunnar og sona hennar um bætur vegna lög­manns­kostnaðar, sbr. 4. mgr. 172. gr. títtnefndra laga, en samkvæmt framlögðum kröfum er farið fram á málskostnað samkvæmt reikningi, en ellegar að mati dómsins. Engin gögn liggja fyrir um fjárhæð lögmannskostnaðar, að frátöldum 150.645 króna reikningi vegna réttargæslu, sem ákæruvaldið telur til sakarkostnaðar. Þá hefur ákærði ekki samþykkt að krafa vegna lögmannsaðstoðar komist að í málinu. Í ljósi þessa og fyrrnefnds áskilnaðar 171. gr. laganna um að bótakröfu skuli tilgreina ótvírætt í ákæru þykir óhjákvæmilegt að vísa nefndri kröfu frá dómi.  

Af hálfu ekkju A og sonarins Z er í framlögðum bótakröfum krafist vaxta samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga af kröfum um missi framfæranda frá 12. desember 2004 til þess dags er mánuður er liðinn frá birtingu krafnanna, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verð­tryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst ekkjan vaxta af kröfu sinni um útfararkostnað og hún og aðrir bótakrefjendur vaxta af miskabótakröfum samkvæmt 8. gr. laganna um vexti og verðtryggingu frá dánar­dægri A til þess dags er mánuður er liðinn frá birtingu krafnanna, en dráttar­vaxta samkvæmt framansögðu frá þeim degi til greiðslu­dags.  

Fyrir liggur í málinu að bótakröfurnar voru birtar ákærða 19. maí 2005. Með réttu ættu þær því allar að bera dráttarvexti frá og með 19. júní sama ár, en fyrir þann tíma aðra og lægri vexti í samræmi við kröfugerð fjölskyldunnar. Í ákæru er hins vegar ekki tilgreint hver upphafsdagur vaxtakrafna skuli vera og ekki vísað til vaxta samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga, heldur aðeins gerð krafa um vexti og dráttarvexti samkvæmt lögunum um vexti og verðtryggingu. Hefur ákærði mótmælt þessum annmarka á ákærunni og krafist þess að upphafstími dráttarvaxta verði miðaður við dómsuppsögudag. Í ljósi þeirra mótmæla og enn með vísan til áskilnaðar 171. gr. laganna um meðferð einkamála þykir eigi hjá því komist að fallast á sjónarmið ákærða. Samkvæmt því og með skírskotun til niðurlagsákvæðis 9. gr. vaxtalaganna skulu dæmdar bætur til ekkju A heitins og sona bera dráttarvexti frá og með dómsuppsögudegi, svo sem nánar greinir í dómsorði.

III.

Samkvæmt greindum málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga um með­ferð opinberra mála ber að dæma ákærða til greiðslu sakarkostnaðar, en til hans teljast óhjákvæmileg útgjöld vegna rannsóknar máls og meðferðar fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 164. gr. laganna. Samkvæmt sundurliðuðu sakarkostnaðaryfirliti nemur áfallinn kostnaður vegna rann­sóknar málsins 623.289 krónum, sem telja verður óhjákvæmilegan kostnað í skilningi 1. mgr. 164. gr. Þá telst útlagður matskotnaður að fjárhæð 520.000 krónur óhjá­kvæmilegur, enda krafðist ákærði sjálfur dómkvaðningar matsmanna. Loks liggur fyrir að búið er að greiða Birni Ólafi Hallgrímssyni hæstaréttarlögmanni, verjanda ákærða á rannsóknarstigi málsins, 512.880 krónur í þóknun ásamt 125.656 króna virðisaukaskatti, eða samtals 638.536 krónur. Telst sá kostnaður einnig til sakarkostnaðar og verður ákærði því dæmdur til að greiða hann. Samkvæmt þessu ber ákærði að greiða 1.781.825 krónur í áfallinn sakarkostnað. Við þá fjárhæð bætast málsvarnarlaun nefnds lögmanns, sem skipaðs verjanda ákærða hér fyrir dómi. Með hliðsjón af eðli og umfangi máls og að teknu tilliti til fjölda þinghalda og tímaskýrslu verjandans þykja máls­varnarlaunin hæfi­lega ákveðin 1.095.600 krónur, sem tiltekin eru í dómsorði að með­­töldum virðisauka­skatti.

F Harðardóttir vararíkissaksóknari sótti málið af hálfu ákæruvaldsins.

Jónas Jóhannsson héraðsdómari kvað upp dóminn. Dómari tók við málinu 1. febrúar 2006, en fyrir þann tíma hafði hann engin afskipti af meðferð þess. Óhóflegur dráttur hefur orðið á málsmeðferð fyrir dómi, sem rekja má til öflunar matsgerðar og ekki hefur fengist viðhlítandi skýring á.

DÓMSORÐ:

Ákærði, Loftur Jens Magnússon, sæti fangelsi í tvö ár. Til frádráttar refsingunni komi níu daga gæsluvarðhald, sem ákærði sætti frá 12.-20. desember 2004.

Ákærði greiði eftirtöldum neðangreindar bætur með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá dómsuppsögu til greiðsludags:

Y, 8.306.386 krónur,

Z, 1.857.634 krónur,

Æ, 1.000.000 krónur,

og Þ, 1.000.000 krónur.

Ákærði greiði 2.877.425 krónur í sakarkostnað, þar með talin 1.095.600 króna máls­­­varnarlaun skipaðs verjanda síns, Björns Ólafs Hallgrímssonar hæstaréttar­lög­manns, vegna verjanda­starfa hér fyrir dómi.