Hæstiréttur íslands
Mál nr. 95/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Hæfi dómara
|
|
Föstudaginn 11. mars 2005. |
|
Nr. 95/2005. |
B.G.S. trésmiðja ehf. (Jóhannes Rúnar Jóhannsson hrl.) gegn Fasteignaleigunni ehf. (Jón Magnússon hrl.) |
Kærumál. Hæfi dómara.
B kærði úrskurð héraðsdómara um að hann viki ekki sæti í útburðarmáli sem F hafði höfðað á hendur B. Talið var, að ekki hafi verið sýnt fram á nein atvik eða aðstæður, sem hafi getað valdið því að héraðsdómarinn yrði talinn vanhæfur til að fara með málið vegna ákvæðis g. liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Var úrskurðurinn staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. febrúar 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. mars sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. febrúar 2005, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, viki sæti í máli sem varnaraðili hefur höfðað gegn sóknaraðila. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að dómaranum verði gert að víkja sæti í málinu og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Ekki hefur verið sýnt fram á nein atvik eða aðstæður, sem valdið geta því að héraðsdómarinn verði talinn vanhæfur til að fara með málið vegna ákvæðis g. liðar 5. gr. laga nr. 91/1991. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili greiði kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, B.G.S. trésmiðja ehf., greiði varnaraðila, Fasteignaleigunni ehf., 100.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. febrúar 2005.
Með aðfararbeiðni, sem barst héraðsdómi 21. janúar sl., hefur sóknaraðili, Fasteignasalan ehf., Sævangi 42, Hafnarfirði, krafist dómsúrskurðar um að varnaraðili, B.G.S. trésmiðja ehf., verði ásamt öllu sem honum tilheyrir borinn út úr atvinnuhúsnæði sóknaraðila á efri hæð fasteignarinnar nr. 6 við Smiðjuveg í Kópavogi með beinni aðfarargerð. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Málið var þingfest 8. febrúar sl. Þá krafðist varnaraðili að dómari málsins viki sæti. Fyrir kröfu sinni færði hann fram þau rök að dómarinn hefði þegar tekið efnislega afstöðu í máli þar sem sóknaraðili var annar en varnaraðili hinn sami. Í því máli hefði það verið niðurstaða dómarans að ekki hefði komist á skriflegur leigusamningur við varnaraðila. Þar sem dómarinn hafi tekið efnislega afstöðu til þess álitaefnis sem það mál, sem nú sé til meðferðar fyrir dóminum, snúist um sé augljóslega á brattann að sækja fyrir varnaraðila. Til stuðnings kröfu sinni vísaði varnaraðili til g liðar 5. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Ennfremur vitnaði varnaraðili til dóma Hæstaréttar frá 9. janúar 2004 í málum nr. 491/2003 og 492/2003, svo og dóms frá 17. desember 1998 í málinu 488/1998.
Sóknaraðili mótmælti framkominni kröfu þar sem hann taldi dómarann ekki vanhæfan til að fara með málið.
I.
Þann 28. desember sl. kvað undirritaður dómari upp úrskurð í máli sem höfðað var á hendur varnaraðila í þessu máli. Í því máli stóð ágreiningur málsaðila um tvennt; hvort sóknaraðili þess máls væri réttur aðili að málinu svo og hvort varnaraðili hefði gert skriflegan leigusamning um húsnæði þar sem hann hafði atvinnurekstur sinn. Dómari féllst á að sóknaraðili málsins væri réttur aðili að útburðarkröfunni og ennfremur taldi hann, á grundvelli þeirra gagna sem þá höfðu verið lögð fyrir dóminn, að ekki hefði komist á skriflegur leigusamningur um húsnæðið. Útburður á varnaraðila var því heimilaður. Varnaraðili kærði þessa niðurstöðu til Hæstaréttar sem þann 14. janúar sl. hnekkti niðurstöðu héraðsdóms varðandi álitaefnið um aðildina og hafnaði því að bera mætti varnaraðila út með beinni aðfarargerð. Hinn æðri dómur tók því ekki afstöðu til þess álitaefnis hvort leigusamningur um húsnæðið hefði verið munnlegur eða skriflegur.
Nú hefur á ný verið krafist útburðar varnaraðila úr sama leiguhúsnæði og fyrr, en sóknaraðili er annar en sá sem höfðaði fyrra málið. Hann virðist byggja útburðarkröfu sína á sömu málsástæðu og gert var í fyrra málinu, það er að ekki hafi komist á skriflegur leigusamningur um það húsnæði þar sem varnaraðili hefur atvinnurekstur sinn.
II.
Að mati dómara hefur hann hvorki gert eða sagt nokkuð, sem gefur tilefni til að ætla að hann hafi fyrirfram tekið afstöðu til röksemda varnaraðila í því máli sem nú hefur verið höfðað á hendur honum. Varnaraðili hefur ekki enn lagt fram greinargerð sína í málinu. Dómara er þó kunnugt um, þar sem það kom fram við þingfestingu málsins, og má lesa úr bókun varnaraðila í þingbók, að varnaraðili hafi í huga að vísa til þess að komist hafi á skriflegur leigusamningur um húsnæðið.
Verði málatilbúnaður varnaraðila á allan hátt sá sami, og í fyrra málinu gegn honum, mun málið verða í stöðu sem um margt má jafna til þeirrar aðstöðu sem uppi er þegar Hæstiréttur ómerkir meðferð héraðsdómara á máli og vísar því heim í hérað, því krafa sóknaraðila nú er sú sama og krafa sóknaraðila hins fyrra máls og röksemdir fyrir henni virðast sambærilegar rökum sem sóknaraðili þess máls bar fyrir sig. Við slíkar aðstæður er til þess að líta að sú dómvenja hefur skapast, að telja héraðsdómara ekki vanhæfan til að fara með mál að nýju hafi Hæstiréttur ómerkt meðferð hans á máli og vísað því heim í hérað til löglegrar meðferðar.
Í þeim lagaákvæðum sem varnaraðili vísar til er við það miðað að dómari sé vanhæfur til að fara með mál ef fyrir hendi eru atvik eða aðstæður sem eru til þess fallnar að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa. Dómari telur að hann hafi, hvorki við meðferð hins fyrra máls á hendur varnaraðila, né heldur þess sem nú er til meðferðar, gert eða sagt nokkuð það sem gefur tilefni til að ætla að hann dragi taum sóknaraðila og því séu skilyrði tilvísaðra lagaákvæða ekki uppfyllt.
Með vísan til þess sem að framan er greint er hafnað kröfu varnaraðila um að dómari málsins víki sæti í því.
Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Hafnað er kröfu varnaraðila, B.G.S. trésmiðju, um að dómari málsins, Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, víki sæti í því.