Hæstiréttur íslands

Mál nr. 55/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Miðvikudaginn 31

 

Miðvikudaginn 31. janúar 2007.

Nr. 55/2007.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur en gæsluvarðhaldinu markaður skemmri tími.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. janúar 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 24. janúar 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 30. mars 2007 kl. 16, en þó ekki lengur en þar til dómur gengur í máli hans. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Skilja verður kæru varnaraðila svo að hann krefjist þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði gaf ákæruvaldið út ákæru 19. janúar 2007 þar sem varnaraðila er gefið að sök að hafa staðið að innflutningi á tæplega þremur kílóum af kókaíni ætluðu að verulegu leyti til söludreifingar í ágóðaskyni hér á landi. Fram er komið að málið var þingfest 24. janúar 2007 og óskaði varnaraðili þá eftir fresti til að taka afstöðu til ákærunnar. Fyrirhugað var að taka málið aftur fyrir 26. sama mánaðar en af því varð ekki. Liggur fyrir að héraðsdómari hafi boðað aðila til næstu fyrirtöku sem á að fara fram í dag.

Fallist er á með héraðsdómara að skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 séu uppfyllt til að varnaraðili sæti áfram gæsluvarðhaldi, sem verður markaður sá tími sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Varnaraðili, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi meðan mál hans er til meðferðar fyrir héraðsdómi, en þó ekki lengur en til mánudagsins 12. mars 2007 kl. 16.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 24. janúar 2007.

Ríkissaksóknari krefst þess að kærða, X, [kt. og heimilisfang], verði með úrskurði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur fellur í máli hans, en þó eigi lengur en til kl. 16:00 föstudagsins 30. mars 2007.

Kærði andmælir á framkominni gæsluvarðhaldskröfu og telur að beita megi vægari úrræðum eins og farbanni eða að sett verði trygging.

Í greinargerð saksóknara segir:

Með ákæru útgefinni 19. þ.m. höfðaði ríkissaksóknari opinbert mál á hendur X fyrir stórfellt fíkniefnabrot. Er ákærða gefið að sök að hafa staðið að ólögmætum innflutningi á 2.926,36 g af kókaíni, ætluðu að verulegu leyti til söludreifingar í ágóðaskyni hér á landi, en fíkniefnin fundu tollverðir, falin milli klæðninga í ferðatösku ákærða, er hann kom til Keflavíkurflugvallar frá Kaupmannahöfn, sem farþegi með flugi FI-205, þriðjudaginn 21. nóvember 2006.

Brot ákærða eru talin varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 64/1974 og nr. 32/2001, og geta varðar allt að 12 ára fangelsi. Með tilliti til hagsmuna almennings þykir þannig nauðsynlegt að ákærði sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar fyrir dómstólum, sbr. og 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/ 1991 um meðferð opinberra mála. Ákærði hefur sætt gæsluvarðhaldi í þágu málsins frá 22. nóvember 2006, sbr. úrskurði Héraðsdóms Reykjaness í málum nr. R-201/2006 og R-222/2006. Með vísan til framangreinds og framlagðra gagna er þess beiðst að ofangreind krafa nái fram að ganga.

Að mati dómsins hefur með útgáfu ákæru verið hafið yfir allan vafa að fyrir liggur sterkur grunur um brot ákærða sem samkvæmt 173. gr. a. alm. hegningarlaga getur varðað allt að 12  ára fangelsi. Þá liggur fyrir úrskurður Héraðsdóms Reykjaness nr. R-222/2006 frá 22. nóvember sl. sem byggður var á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 án andmæla varnaraðila. Þykir ekki ástæða til þess nú að breyta því mati.

Að þessu virtu og því sem fram kemur í greinargerð sóknaraðila þykir rétt að fallast á kröfu sóknaraðila eins og hún er fram sett enda þykir ekki ástæða til að marka gæsluvarðhaldi skemmri tíma en hann gerir kröfu um. Verður kærða því gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála þar til dómur fellur í máli hans, en þó eigi lengur en til kl. 16:00 föstudaginn 30. mars 2007.

Sveinn Sigurkarlsson kvað upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ

Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til kl. 16:00 föstudaginn 30. mars 2007, en þó eigi lengur en þar til dómur gengur í máli hans.