Hæstiréttur íslands
Mál nr. 824/2014
Lykilorð
- Málsástæða
- Veðréttindi
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Nauðungarsala
- Skuldabréf
|
|
Miðvikudaginn 7. janúar 2015. |
|
Nr. 824/2014. |
Íslandsbanki
hf. (Stefán BJ. Gunnlaugsson hrl.) gegn Gunnari
Árnasyni (Björn Jóhannesson hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Skuldabréf. Nauðungarsala.
Veðréttindi. Málsástæða.
Kærður var
úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu Í hf. um að bú G yrði tekið til
gjaldþrotaskipta. Í hf. reisti kröfu sína um gjaldþrotaskipti á því að hann
ætti fjárkröfu á hendur G á grundvelli skuldabréfs sem hafi verið tryggt með
veði í fasteign G, sem seld hefði verið við uppboð, án þess að hafa fengið
greitt upp í fjárkröfuna. Talið var að Í hf. hefði sýnt fram á að skilyrðum 1.
mgr. 57. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu væri fullnægt og því hefði hið
árangurslausa fjárnám, sem Í hf. hafði óskað eftir hjá G, fullt sönnunargildi
um ógjaldfærni G. Á hinn bóginn var fallist á andmæli G að fyrirmæli 1.
töluliðar 3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. stæði
kröfu Í hf. í vegi, enda væri fjárkrafa hans nægilega tryggð með veði í annarri
fasteign G. Fyrir Hæstarétti vísaði Í hf. til þess að fasteignin hefði eftir að
málið var tekið til úrskurðar í héraði verið seld nauðungarsölu þar sem Í hf.
hefði lýst fjárkröfu í skjóli tryggingarbréfs sem væri með öllu óviðkomandi
þeirri kröfu sem mál þetta snérist um. Taldi Hæstiréttur að um nýja málsástæðu
væri að ræða sem fullnægði ekki skilyrðum 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um
meðferð einkamála. Var niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.
Dómur
Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Helgi I. Jónsson og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar
með kæru 8. desember 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar.
Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. nóvember 2014, þar sem hafnað var
kröfu sóknaraðila um að bú varnaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Kæruheimild
er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að krafa sín um gjaldþrotaskipti
verði tekin til greina. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og
kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Samkvæmt gögnum málsins var varnaraðili eigandi íbúðar að Naustabryggju 38 í Reykjavík, sem var sett að veði með 1. veðrétti til Lífeyrissjóðs verslunarmanna til tryggingar skuld samkvæmt skuldabréfi útgefnu 28. janúar 2009 að upphaflegri fjárhæð 22.000.000 krónur, með 2. veðrétti til Glitnis banka hf. fyrir skuld samkvæmt skuldabréfi 7. nóvember 2007 upphaflega að fjárhæð 24.000.000 krónur og með 3. veðrétti til Byrs sparisjóðs vegna skuldar samkvæmt skuldabréfi frá 17. ágúst 2009 upphaflega að fjárhæð 10.000.000 krónur. Fasteign þessi var seld nauðungarsölu við uppboð 18. febrúar 2013 og mun Lífeyrissjóður verslunarmanna hafa keypt hana þar með boði að fjárhæð 28.000.000 krónur. Við nauðungarsöluna hafði lífeyrissjóðurinn lýst kröfu vegna fyrrnefnds veðskuldabréfs síns að fjárhæð samtals 32.194.499 krónur, en sóknaraðili, sem var orðinn eigandi veðskuldabréfanna til Glitnis banka hf. og Byrs sparisjóðs, lýsti kröfum að fjárhæð 16.683.017 krónur vegna skuldar á 2. veðrétti og 15.988.372 krónur vegna skuldarinnar á 3. veðrétti. Söluverði eignarinnar mun hafa verið úthlutað þannig að samtals 452.019 krónum var varið til greiðslu sölulauna og lögveðkrafna, en eftirstöðvum þess, 27.547.981 krónu, upp í kröfu Lífeyrissjóðs verslunarmanna samkvæmt skuldabréfinu, sem hvíldi á 1. veðrétti.
Sóknaraðili krafðist þess 26. ágúst 2013 að bú varnaraðila yrði
tekið til gjaldþrotaskipta. Kröfu þessa reisti sóknaraðili á því að hann ætti
fjárkröfu á hendur varnaraðila samkvæmt fyrrnefndu skuldabréfi frá 7. nóvember
2007, sem hvílt hafði á 2. veðrétti í fasteigninni að Naustabryggju 38, en við
nauðungarsölu hennar hafi ekkert fengist greitt upp í kröfuna. Jafnframt vísaði
sóknaraðili til þess að annar tilgreindur lánardrottinn hafi fengið gert
árangurslaust fjárnám hjá varnaraðila 14. júní 2013. Varnaraðili tók til varna
gegn kröfu sóknaraðila um gjaldþrotaskipti og var henni hafnað með úrskurði
Héraðsdóms Reykjavíkur 27. janúar 2014, sem var staðfestur með dómi Hæstaréttar
25. febrúar sama ár í máli nr. 117/2014. Var sú niðurstaða reist á því að
samkvæmt 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, sbr. 4. gr. laga
nr. 60/2010, hafi sóknaraðili aðeins getað haldið uppi á varnaraðila kröfu
samkvæmt skuldabréfinu frá 7. nóvember 2007 að því leyti, sem sóknaraðili sýndi
fram á að markaðsverð fasteignarinnar að Naustabryggju 38 á þeim degi sem hún
var seld nauðungarsölu hefði ekki getað nægt til fullnustu kröfunnar. Taldist
sóknaraðili ekki hafa sýnt fram á það í tæka tíð undir rekstri þess máls hvert
markaðsverð eignarinnar hafi verið á umræddum tíma.
Að fenginni framangreindri niðurstöðu leitaði sóknaraðili fjárnáms hjá varnaraðila fyrir kröfu samkvæmt áðurnefndu skuldabréfi frá 17. ágúst 2009, sem hafði hvílt á 3. veðrétti í fasteigninni að Naustabryggju 38. Sóknaraðili kvað fjárhæð þeirrar kröfu nema orðið 17.239.705 krónum, en í skuldabréfinu var meðal annars að finna ákvæði um heimild til aðfarar á grundvelli þess án undangenginnar dómsúrlausnar eða sáttar, sbr. 7. tölulið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Við fjárnámsgerðina lagði sóknaraðili meðal annars fram verðmat á fasteigninni frá fasteignasölunni Stakfelli, sem taldi gangverð hennar hafa numið 29.500.000 krónum þann dag sem hún var seld nauðungarsölu. Við gerðina þótti sóknaraðili hafa með þessu sýnt nægilega fram á að markaðsverð eignarinnar hefði ekki getað nægt til fullnustu kröfu hans samkvæmt þessu skuldabréfi, sbr. 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/1991, og var því hrundið andmælum varnaraðila gegn framgangi fjárnámsgerðarinnar, sem lutu að þessu. Fjárnáminu var lokið án árangurs 4. apríl 2014.
Sóknaraðili krafðist 22. apríl 2014 gjaldþrotaskipta á búi varnaraðila á grundvelli þessa árangurslausa fjárnáms vegna skuldar þess síðarnefnda samkvæmt skuldabréfinu 17. ágúst 2009, sem sóknaraðili taldi orðna að fjárhæð 18.572.822 krónur. Varnaraðili mótmælti þeirri kröfu fyrir dómi og var mál þetta þingfest af því tilefni 28. maí 2014.
II
Samkvæmt 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/1991 getur sá, sem hefur notið réttinda yfir eign sem seld hefur verið nauðungarsölu og ekki fengið þeim fullnægt með öllu af söluverði eignarinnar, aðeins krafist á síðari stigum greiðslu þess, sem stendur eftir af skuldbindingu við sig, að því leyti sem hann sýnir fram á að markaðsverð eignarinnar við samþykki boðs hefði ekki nægt til fullnustu kröfunnar. Eins og áður greinir lagði sóknaraðili fram við fjárnámsgerðina hjá varnaraðila, sem lokið var 4. apríl 2014, verðmat frá fasteignasölu, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að markaðsverð íbúðar varnaraðila að Naustabryggju 38 hafi numið 29.500.000 krónum þegar hún var seld nauðungarsölu. Í málinu liggur einnig fyrir að Lífeyrissjóður verslunarmanna seldi íbúðina 30. september 2013 fyrir 27.800.000 krónur. Samkvæmt fyrrnefndri kröfulýsingu lífeyrissjóðsins við nauðungarsöluna nam krafa hans, sem hvíldi á 1. veðrétti í íbúðinni, 32.194.499 krónum, en samkvæmt kröfulýsingu sóknaraðila var fjárhæð kröfu hans á 2. veðrétti 16.683.017 krónur. Að auki munu hafa hvílt á íbúðinni með lögveðrétti kröfur að fjárhæð samtals 172.019 krónur, sem gengu framar kröfum með samningsveði. Því hefur á engan hátt verið hnekkt í málinu að fjárhæð þessara krafna hafi verið rétt. Því til samræmis hefði ekkert fengist upp í fjárkröfu sóknaraðila, sem hann styður kröfu sína um gjaldþrotaskipti við í máli þessu, fyrr en fjárhæð samþykkts boðs við nauðungarsölu íbúðarinnar hefði farið upp fyrir 49.049.535 krónur. Með framangreindu verðmati og að teknu tilliti til gagna um sölu íbúðarinnar að Naustabryggju 38 á árinu 2013 hefur sóknaraðili sýnt nægilega fram á að markaðsverð hennar við nauðungarsöluna hafi ekki náð síðastnefndri fjárhæð. Krafa hans á hendur varnaraðila á grundvelli skuldabréfsins 17. ágúst 2009 getur því engri skerðingu sætt vegna ákvæðis 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/1991. Að öðru leyti hafa engar haldbærar varnir verið færðar fram í málinu gegn þessari fjárkröfu sóknaraðila og hefur fjárnámið, sem gert var 4. apríl 2014, fullt sönnunargildi um ógjaldfærni varnaraðila.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði reisir varnaraðili að auki andmæli sín gegn kröfu sóknaraðila um gjaldþrotaskipti á því að fyrirmæli 1. töluliðar 3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 standi henni í vegi, enda sé fjárkrafa hans nægilega tryggð með veði í fasteign að Naustabryggju 55 í Reykjavík. Í málinu liggur fyrir að varnaraðili setti Byr sparisjóði þá fasteign að veði eftir heimild þinglýsts eiganda hennar með tryggingarbréfi 8. maí 2007, þar sem mælt var svo fyrir að það væri gert til tryggingar hvers konar skuldum varnaraðila við sparisjóðinn eða þann, sem síðar kynni að „eignast bréf þetta á löglegan hátt“, að fjárhæð allt að 30.850.000 krónur, sem bundnar væru vísitölu neysluverðs með grunntölu 268,7. Samkvæmt gögnum málsins verður að leggja til grundvallar að sóknaraðili hafi nú eignast réttindin, sem þetta tryggingarbréf veitti áður Byr sparisjóði, sbr. og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð. Eftir hljóðan tryggingarbréfsins voru veðréttindi samkvæmt því ekki bundin við nokkra sérstaka kröfu upphaflega veðhafans eða þess, sem síðar kynni að taka við réttindum hans. Sóknaraðili getur því ekki borið fyrir sig að þessi tryggingarréttindi hafi ekki í skilningi 1. töluliðar 3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 getað náð til fjárkröfunnar, sem hann reisir kröfu sína um gjaldþrotaskipti á.
Fyrir Hæstarétti hefur sóknaraðili vísað til þess að fasteignin að Naustabryggju 55 hafi eftir að mál þetta var tekið til úrskurðar í héraði verið seld nauðungarsölu 17. nóvember 2014. Við þá nauðungarsölu hafi hann lýst fjárkröfu í skjóli tryggingarbréfsins frá 8. maí 2007 og sé hún með öllu óviðkomandi þeirri kröfu, sem mál þetta snýst um. Um þennan málatilbúnað sóknaraðila verður að gæta að því að um nýja málsástæðu er að tefla, sem raska myndi grundvelli málsins eins og hann var lagður í héraði ef hún fengi komist að. Að því gættu er ekki fullnægt skilyrðum 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til að taka þessa málsástæðu frekar til úrlausnar. Niðurstaða hins kærða úrskurðar verður því staðfest.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Íslandsbanki hf., greiði varnaraðila, Gunnari Árnasyni,
350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25.
nóvember 2014.
Mál
þetta var þingfest 28. maí sl. Sóknaraðili er Íslandsbanki hf., kt. [...],
Kirkjusandi 2, Reykjavík. Varnaraðili er Gunnar Árnason, kt. [...],
Naustabryggju 55, Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess að bú varnaraðila
verði tekið til gjaldþrotaskipta og að varnaraðila verði gert að greiða honum
málskostnað að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Varnaraðili krefst þess að kröfum
sóknaraðila verði hafnað og að sóknaraðila verði gert að greiða honum
málskostnað að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Með úrskurði dómsins 26. júní sl. var
hafnað kröfu sóknaraðila um niðurfellingu máls þessa. Málið var tekið til
úrskurðar um efnislegan ágreining aðila 29. október sl. að loknum munnlegum
málflutningi.
I
Málsatvik
Árangurslaust
fjárnám var gert að kröfu sóknaraðila hjá varnaraðila 4. apríl sl. og krefst
sóknaraðili þess í málinu að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta
samkvæmt, 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., á
grundvelli þess, sbr. 1. tölulið ákvæðisins. Fjárnám var gert hjá varnaraðila
4. apríl 2014. Mótmælti varnaraðili skuldinni og bar fyrir sig að ekki væri
fullnægt skilyrðum 57. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sýslumaður ákvað
þrátt fyrir mótmæli varnaraðila að uppboðinu skyldi fram haldið. Varnaraðili
kvaðst við gerðina ekki geta greitt skuldina né gat hann bent á eignir til
tryggingar kröfu sóknaraðila. Aðfarargerðinni lauk sem árangurslausri með vísan
til 8. kafla laga nr. 90/1989.
Um forsögu málsins kemur nánar fram í
beiðni og greinargerð sóknaraðila að 18. febrúar 2013 hafi farið fram
nauðungarsala á fasteigninni Naustabryggju 38, Reykjavík, þinglýstri eign
varnaraðila, fastanúmer 227-2463. Sóknaraðili hafi verið með veðskuld á 3.
veðrétti á grundvelli veðskuldabréfs, upphaflega að fjárhæð 10.000.000 króna,
útgefið 17. ágúst 2009 af varnaraðila til Byrs sparisjóðs, nú sóknaraðila. Á
uppboðsdegi hafi krafa sóknaraðila vegna skuldabréfsins staðið í 15.988.372
krónum. Hæstbjóðandi í eignina hafi verið Lífeyrissjóður Verslunarmanna sem
hafi boðið 28.000.000 króna. Tilboði lífeyrissjóðsins hafi verið tekið og fékk
hann úthlutað 27.547.981 krónu upp í kröfu sína á 1. veðrétti, sbr. frumvarp
sýslumanns til úthlutunar á söluverði 18. apríl 2013. Krafa Lífeyrissjóðsins
hafi á uppboðsdegi numið 32.194.499 krónum. Lífeyrissjóðurinn seldi síðan
þriðja aðila fasteignina á 27.800.000 krónur með kaupsamningi 30. september
2013.
Sóknaraðili fékk ekkert greitt upp í
skuld sína á 3. veðrétti. Hann lét fasteignasöluna Stakfell verðmeta fasteignina
miðað við verðmat á uppboðsdegi. Var það mat hennar að söluverð eignarinnar á
uppboðsdegi hafi verið 29.500.000 krónur miðað við kjör á almennum
fasteignamarkaði.
Í
kröfu um gjaldþrotaskipti á grundvelli hins árangurslausa fjárnáms lýsir sóknaraðili jafnframt
kröfu á hendur varnaraðila að höfuðstólsfjárhæð 10.069.666 krónur en samtals að
fjárhæð 18.572.882 krónur sem er sú krafa sem hið árangurslausa fjárnám byggði
á. Krafa hans er sundurliðuð á eftirfarandi hátt:
|
Höfuðstóll,
gjaldfelldur |
10.069.666
krónur |
|
Samningsvextir
til 1.október 2009 |
84.641
króna |
|
Dráttarvextir
til 14. apríl 2014 |
7.746.065
krónur |
|
Banka-
og stimpilkostnaður |
15.823
krónur |
|
Innheimtuþóknun |
348.705
krónur |
|
Greiðsluáskorun |
14.300
krónur |
|
Birting
greiðsluáskorunar |
4.500
krónur |
|
Fjárnámsbeiðni |
7.500
krónur |
|
Kostnaður
vegna fjárnáms |
59.170
krónur |
|
Uppboðsbeiðni |
6.800
krónur |
|
Kostnaður
vegna fjárnáms |
47.195
krónur |
|
Kröfulýsing |
6.800
krónur |
|
Gjaldþrotaskiptabeiðni |
22.500
krónur |
|
Annar
kostnaður |
1.900
krónur |
|
Vextir
af kostnaði |
28.264
krónur |
|
Virðisaukaskattur
|
108.993
krónur |
|
Samtals |
18.572.822
krónur |
Þá segir í kröfu um gjaldþrotaskipti
að sóknaraðili ábyrgist greiðslu alls kostnaðar af meðferð kröfunnar og
gjaldþrotaskiptum ef til komi. Krafa sóknaraðila var móttekin í héraðsdómi 22.
apríl sl.
II
Málsástæður
og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili kveðst byggja beiðni sína um
gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila á árangurslausu fjárnámi sem fram hafi farið
hjá varnaraðila 4. apríl 2014. Um gilda aðfarargerð sé að ræða. Varnaraðili hafi
mótmælt framgangi gerðarinnar með vísan til dóms Hæstaréttar frá 25. febrúar
2014 í máli nr. 117/2014 milli sömu aðila þar sem sóknaraðili var ekki talinn
hafa sýnt fram á að skilyrðum 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu
væri fullnægt til þess að hann gæti krafið varnaraðila um það sem eftir stæði
af skuld hans við bankann og ekki stoðaði fyrir sóknaraðila að bæta úr þessu
undir rekstri málsins fyrir Hæstarétti. Sýslumaður hafi ákveðið að gerðinni
yrði fram haldið og taldi sóknaraðila hafa sýnt með fullnægjandi hætti fram á
að markaðsverð eignarinnar að Naustabryggju 38, Reykjavík, hafi ekki dugað til
að fullnusta kröfu sóknaraðila að öllu leyti. Sýslumaður hafi því talið 57. gr.
laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu hafa verið fullnægt og sóknaraðila væri
heimil aðför fyrir kröfu sinni á grundvelli aðfararbeiðninnar.
Sóknaraðili
kveðst hafna þeirri mótbáru varnaraðila, sem hann hafi haldið uppi við fjánámið
og nú fyrir dóminum, að ekki verði byggt á verðmati fasteignasölunnar Stakfells
á fasteigninni að Naustabryggju 36 þar sem vinna fasteignasölunnar byggi á
sérstökum samningi við sóknaraðila. Sóknaraðili kveður ekkert benda til annars
en að verðmatið sé unnið af faglegum og hlutlausum aðila, niðurstaða hans liggi
fyrir og engum vafa sé undirorpið að markaðsverð eignarinnar á uppboðsdegi
dugði ekki til fullnustu kröfu sóknaraðila. Hann sé því ófullnægður veðhafi og
eigi þess vegna rétt á því að krefja varnaraðila um eftirstöðvar skuldar hans
og fara fram á gjaldþrotaskipti á búi hans samkvæmt ákvæðum laga nr. 21/1991.
Ítrekar sóknaraðili að sýslumaður hafi talið að gætt væri ákvæða 57. gr. laga
nr. 90/1991 við umrætt fjárnám. Þá telur sóknaraðili tilvísun varnaraðila til
dóms Hæstaréttar í máli nr. 117/2014 ekki eiga við í málinu. Það hafi vissulega
verið á milli sömu aðila og vegna sömu eignar en vegna skuldar á 2. veðrétti. Í
því máli hafi Hæstiréttur talið að ekki hafi verið gætt ákvæða 57. gr. laga nr.
90/1991 enda hafi í því máli ekki verið lögð fram verðmöt á fasteigninni
Naustabryggju 38 í héraði. Mat sem sóknaraðili hafi aflað í því máli milli
dómstiga hafi verið talið of seint fram komið enda hafði varnaraðili í því máli
ekki átt þess kost að mótmæla því eða færa fram sín sjónarmið þegar málið var
rekið fyrir héraðsdómi.
Atvik í því
máli sem hér sé til umfjöllunar séu ekki sambærileg hvað þetta varðar.
Sóknaraðili hafi nú lagt verðmat fasteignasölu og kaupsamning um raunverulega
sölu fasteignarinnar á markaði er sýni fram á með óyggjandi hætti að umrædd
veðskuld hafi með engu móti fengist greidd af söluandvirði eignarinnar. Ekki sé
hægt að skilja mótmæli varnaraðila með öðrum hætti en að sóknaraðila hafi borið
að láta dómkveðja matsmenn til að meta verðmæti fasteignarinnar. Umrædd
lagagrein leggi ekki slíka skyldu á sóknaraðila. Þar sé einungis kveðið á um að
sá sem krefji gerðarþola um eftirstöðvar af veðskuld verði að sýna fram á að
markaðsverð eignarinnar við samþykki boðs hefði ekki nægt til fullnustu
kröfunnar. Hefði það verið ætlun löggjafans að setja slíka íþyngjandi kröfu á
ófullnægðan veðhafa hefði það þurft að koma skýrt fram í texta ákvæðisins.
Sóknaraðili hafi nú lagt fram verðmat fyrir eignina þar sem markaðsverð hennar
á uppboðsdegi sé talið vera 29.500.000 krónur og hefur varnaraðili ekki sýnt
fram á að það sé rangt. Fasteignamat Naustabryggju 38 hafi við samþykki boðs
verið 23.550.000 krónur. Sóknaraðili telji ljóst að hann hefði ekki fengið
fullnustu krafna sinna sem veðhafi á 3. veðrétti. Til þess að svo hefði mátt
vera hefði eignin þurft að seljast fyrir meira en 49.329.535 krónur.
Sóknaraðili telur því að öllum skilyrðum laga sé fullnægt, þ. á m. 57. gr. laga
nr. 90/1991.
Varnaraðili
hafi mótmælt verðmatinu en hafi ekki á nokkurn hátt sýnt fram á að verðmatið sé
rangt. Fullyrðingum um tengsl fasteignasölunnar og sóknaraðila sé mótmælt. Þá
eigi tilvísun til dóms Hæstaréttar frá 23. janúar 2014 í máli nr. 771/2013
engan veginn við í málinu því þar hafi fasteign verið metin á öðru
byggingarstigi en hún var í raun og fasteignasalan hafi verið í eigu bankans í
því máli. Fasteignasalan Stakfell sé sjálfstæð fasteignasala og ekki í eigu
sóknaraðila.
Bendir
sóknaraðili að lokum á að fasteignin að Naustabryggju 38 hafi verið seld 30.
september 2013 á 27.800.000 krónur. Það sé lægra verð en sóknaraðili notaði sem
markaðsverð eignarinnar við uppgjör við varnaraðila. Þá byggir sóknaraðili á
því að ef litið verði fram hjá mati fasteignasölunnar Stakfells og einnig fram
hjá söluverði eignarinnar beri að miða við skráð fasteignamat eignarinnar sem
hafi verið 23.550.000 krónur á uppboðsdegi 18. febrúar 2013. Því til stuðnings
vísar hann til 27. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna þar sem
kveðið sé á um að skráð matsverð fasteignar skuli vera gangverð umreiknað til
staðgreiðslu, miðað við heimila og mögulega nýtingu á hverjum tíma, sem ætla
megi að eignin hefði í kaupum og sölum. Sé miðað við fasteignamat sem
staðgreiðsluverð sé ljóst að við nauðungarsöluna hafi ekkert komið upp í skuld
varnaraðila við sóknaraðila.
Sóknaraðili
telur að hann hafi, eins og sýslumaður komst að, fullnægt öllum lagaákvæðum og
sýnt fram á að hann sé ófullnægður veðhafi. Varnaraðili hafi fullyrt við
gerðina að hann gæti ekki greitt kröfuna og fjárnáminu lauk sem árangurslausu
sem sé grundvöllur gjaldþrotaskipta sbr. 1. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991.
Sóknaraðili
kveðst mótmæla ábendingu varnaraðila um að krafa hans sé nægilega tryggð með
tryggingarbréfi nr. 335029 sem hvíli á 1. veðrétti í Naustabryggju 55,
fastanúmer 225-1555. Sóknaraðili kveðst vísa til þess að ábending þessi sé of
seint fram komin en rétt hefði verið hjá varnaraðila að benda á þetta við
fjárnámið. Þá sé tryggingarbréfið nýtt og eyrnamerkt lánssamningi milli
sóknaraðila og varnaraðila frá 31. janúar 2008 sem varnaraðila hafi átt að vera
full kunnugt um. Uppreiknuð staða þess lánssamnings sé samkvæmt gögnum málsins
eftir endurútreikning 41.523.090 krónur. Því megi ljóst vera að
tryggingarbréfið sé að fullu nýtt.
Hvað varðar
mótmæli varnaraðila um grundvöll kröfunnar séu þau ekkert rökstudd, um sömu
fjárhæðir sé að ræða og í fjárnámsbeiðninni og varnaraðili hafi ekki mótmælti
þeim þá. Ekki sé því unnt að taka tillit til þessara mótmæla nú.
Um lagarök
vísar sóknaraðili til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., einkum 65.
gr. þeirra laga. Þá vísar hann til nauðungarsölulaga nr. 90/1991, sérstaklega
57. gr. þeirra laga. Þá er og vísað til 27. gr. laga nr.6/2001 um skráningu og
mat fasteigna. Um málskostnað vísar hann til 130. gr. laga nr. 91/1991 um
meðferð einkamála.
III
Málsástæður
og lagarök varnaraðila
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði
hafnað þar sem lagaskilyrðum fyrir töku bús hans til gjaldþrotaskipta sé ekki
fullnægt. Af hálfu varnaraðila er því haldið fram að 1. töluliður 3. mgr. 65.
gr. standi því í vegi að krafa sóknaraðila nái fram að ganga þar sem krafa hans
sé nægilega tryggð í öðrum eignum varnaraðila eða þriðja manns. Auk þess telji
varnaraðili að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að markaðsverð eignarinnar á
þeim tíma sem hún var seld hafi verið lægra en krafa hans, að teknu tilliti til
þeirra veðkrafna sem gengu framar kröfunni að rétthæð, hafi verið um fremri
veðkröfur að ræða. Skilyrðum 57. gr. laga nr. 90/1991 sé því ekki fullnægt.
Varnaraðili
kveður meinta kröfu sóknaraðila styðjast við skuldabréf að fjárhæð 10.000.000
króna, útgefið 17. ágúst 2009, tryggt með veði í Naustabryggju 38. Fasteignin
hafi verið seld nauðungarsölu 18. febrúar 2013. Sóknaraðili hafi ekki sýnt fram
á að markaðsverð eignarinnar við samþykki boðs hafi ekki nægt til fullnustu
kröfunnar sbr. 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Lögveðskröfur
hafi fengist að fullu greiddar auk þess sem rúmar 27.500.000 krónur fengust
greiddar upp í veðskuld Lífeyrissjóðs Verslunarmanna á fyrsta veðrétti.
Sóknaraðili hafi lýst tveimur kröfum við uppboðið, annars vegar á 2. veðrétti
og hins vegar á 3. veðrétti sem sé vegna sömu kröfu og mál þetta snúist um.
Verðmat
fasteignasala sem sé samstarfsaðili bankans samkvæmt sérstökum samningi þar um
sé ekki tækt til sönnunar í máli þessu vegna tengsla aðila, sbr. dóm
Hæstaréttar frá 23. janúar sl. í máli nr. 771/2013. Gögn sem bankinn afli
einhliða séu ekki tæk til sönnunar í máli þessu sbr. dóm réttarins frá 25.
febrúar sl. í máli nr. 117/2014. Fasteignasalan Stakfell starfi náið með
fasteignafélögunum Miðengi og Fastengi samkvæmt sérstökum samstarfssamningi þar
um en sóknaraðili sé móðurfélag þeirra. Þá sé söluyfirlit fasteignasala ekki
tækt til sönnunar á marksverði fasteignar og sama gildi um einstaka
kaupsamninga sem gerðir séu löngu eftir að samþykki boðs eigi sér stað.
Eftir breytingu
þá sem gerð hafi verið á 57. gr. laga nr. 90/1991 með 4. gr. laga nr. 60/2010
hvíli sú skylda á þeim sem naut veðréttar í eign og telur sig ekki hafa fengið
þeim rétti fullnægt við nauðungarsölu eignarinnar að færa sönnur á að sú hafi
verið raunin. Sá hinn sami þurfi því að sýna fram á með fullnægjandi hætti
hvert hafi verið markaðsverð eignarinnar á þeim tíma sem hún var seld þannig að
ljóst sé að það hafi verið lægra en krafa hans að teknu tilliti til þeirra
veðkrafna sem gengu framar kröfunni að rétthæð, hafi verið um fremri veðkröfur
að ræða. Takist það ekki verði að líta svo á að hann hafi fengið veðrétti sínum
fullnægt við sölu eignarinnar og þar með eigi hann ekki lengur lögvarða kröfu á
hendur skuldara kröfunnar, sbr. dóm Hæstaréttar frá 10. maí 2012 í máli nr.
487/2011. Þegar svo hátti til geti lánardrottinn ekki krafist gjaldþrotaskipta
á búi skuldarans eftir 65. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili hafi ekki lagt
fram viðhlítandi gögn um mismun á eftirstöðvum hinna umkröfðu skuldar samkvæmt
skuldabréfi bankans og markaðsverð Naustabryggju 38. fastanúmer 227-2463, við
samþykki boðs 18. febrúar 2013. Tilvist kröfunnar sé því ósönnuð.
Samkvæmt
frumvarpi til úthlutunar á söluverði Naustabryggju 38, fastanúmer 227-2463, í
kjölfar nauðungarsölu eignarinnar 18. febrúar 2013, hafi Lífeyrissjóður
Verslunarmanna fengið úthlutað 27.547.981 krónu upp í kröfu sína á 1. veðrétti
umræddrar eignar. Nú liggi fyrir að kröfulýsing lífeyrissjóðsins að fjárhæð
32.194.499 krónur hafi verið of há. Hann hafi selt eignina í september 2013
fyrir 27.800.000 krónur sem sé 252.019 krónum hærra en úthlutað var til
sjóðsins. Lífeyrissjóðurinn hafi á hinn bóginn ekki krafið varnaraðila um
greiðslu eftirstöðva. Kveðst varnaraðili enda líta svo á að söluverð
eignarinnar, 27.800.000 krónur, hafi nægt til greiðslu skuldarinnar. Lýst krafa
lífeyrissjóðsins hafi einfaldlega verið alltof há. Það segi á hinn bóginn
ekkert um markaðsverð eignarinnar og sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að
27.800.000 krónur jafngildi marksvirði eignarinnar á uppboðsdegi.
Varnaraðili
kveður sóknaraðila ekki hafa lagt fram viðhlítandi gögn um það hver hafi verið
mismunur á eftirstöðvum hinnar umkröfðu skuldar samkvæmt skuldabréfi bankans og
markaðsverð eignarinnar. Tilvist kröfunnar sé ósönnuð og sóknaraðili hafi því
ekki sýnt fram á að hann sé lánardrottinn varnaraðila samkvæmt skuldabréfinu.
Því beri að hafna kröfu sóknaraðila.
Varnaraðili
vísar einnig til þess að samkvæmt 1. tölulið 3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991
geti lánardrottinn ekki krafist gjaldþrotaskipta á búi skuldara samkvæmt 1. og
2. mgr. 65. gr. laganna ef krafa hans er nægilega tryggð með veði eða öðrum
sambærilegum réttindum í eignum skuldarans eða þriðja manns eða vegna ábyrgðar
þriðja manns. Byggir varnaraðili á því að krafa sóknaraðila sé nægilega tryggð
með allsherjarveði í formi tryggingarbréfs sem hvíli á 1. veðrétti í
Naustabryggju 55 í Reykjavík, fastanúmer 225-1555 til tryggingar öllum skuldum
varnaraðila við sóknaraðila, hverju nafni sem nefnist, í hvaða formi sem er,
eins og segi í bréfinu. Sóknaraðili sé eini veðhafinn í þessari fasteign.
Uppreiknuð fjárhæð þessa tryggingarbréfs sé nálægt 47 milljónum króna í dag og
ljóst að það nái yfir allt verðmæti þeirrar eignar.
Sóknaraðili
haldi því fram að tryggingarbréfið sé „fullnýtt“ og „eyrnamerkt“ ákveðinni
skuld, þ.e. lánssamningi aðila frá 31. janúar 2008. Þetta komi ekki fram í
bréfinu sjálfu. Um allsherjarveð sé að ræða sem taki til allra skulda
viðkomandi en ekki einhverra ákveðinna skulda. Það sé á hinn bóginn rétt að í
lánssamningnum sé vísað til þess að tryggingarbréfið sé til staðar og það
standi til tryggingar skuld samkvæmt lánssamningnum. Auk þess liggi ekki fyrir
hver raunveruleg skuld samkvæmt lánssamningnum sé enda sé hún ekki til
umfjöllunar í málinu. Skuldin sé að fullu tryggð með veði í Naustabryggju 55 og
því beri að hafna kröfu á grundvelli 1. töluliðar 3. mgr.
Með vísan til
27. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna byggir varnaraðili á því
að söluverð Naustabryggju 55, sé ekki lægra en fasteignamat eignarinnar, sem sé
28.500.000 krónur. Því beri að líta svo á að krafa bankans sé nægilega tryggð
með veði sbr. 3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 og með vísan til dóms
Hæstaréttar frá 17. ágúst 2012 í máli nr. 471/2012.
Varnaraðili
kveður því samkvæmt öllu framansögðu að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að
hann eigi kröfu á hendur varnaraðila samkvæmt umræddu skuldabréfi. Verði talið
að sóknaraðila hafi lánast slík sönnun sé krafa hans nægilega tryggð með veði í
fasteign varnaraðila að Naustabryggju 55 og því beri að hafna kröfu sóknaraðila
um gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila. Þá mótmælir varnaraðili fjárhæð meintrar
kröfu bankans og útreikningi á einstökum liðum hennar eins og hún sé fram sett
í kröfu um gjaldþrotaskipti. Þá vísar varnaraðili til þess að hann hafi sótt um
leiðréttingu láns á grundvelli laga frá 16. maí sl. Meint umkrafin skuld
sóknaraðila eigi uppruna sinn í slíku láni og falli undir umrædda lagasetningu
Alþingis. Þá hafi sóknaraðili ekki framkvæmt og birt fyrir varnaraðila
endurútreikning ólögmætra lána.
Um lagarök
vísar sóknaraðili til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., einkum 65.
gr. þeirra laga. Þá vísar hann til nauðungarsölulaga nr. 90/1991, sérstaklega
57. gr. þeirra laga. Þá er og vísað til 27. gr. laga nr.6/2001 um skráningu og
mat fasteigna. Um málskostnað vísar hann til 130. gr. laga nr. 91/1991 um
meðferð einkamála.
IV
Niðurstaða
Í máli þessu krefst sóknaraðili gjaldþrotaskipta á búi
varnaraðila á grundvelli árangurslauss fjárnáms sbr. 1. tölulið 2. mgr. 65. gr.
laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. sbr. beiðni hans til dómsins sem
móttekin var 22. apríl sl. Lýtur ágreiningur aðila að því hvort skilyrði
gjaldþrotaskipta séu fyrir hendi. Byggir sóknaraðili á því að hið árangurslausa
fjárnám sem fram fór hjá varnaraðila 4. apríl 2014 feli í sér líkindi fyrir
ógjaldfærni hans. Varnaraðili hafi ekki getað bent á aðrar eignir við fjárnámið
og fjárnámið hafi farið fram með lögmætum hætti. Varnaraðili byggir á því að
sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að markaðsverð eignarinnar að Naustabryggju
38 hafi á uppboðsdegi ekki nægt til að fullnusta kröfu sóknaraðila að öllu
leyti. Ekki verði byggt á verðmati fasteignasölunnar Stakfells vegna tengsla
hennar við sóknaraðila. Ósannað sé því að sóknaraðili sé ófullnægður veðhafi og
lánardrottinn varnaraðila í skilningi 2. mgr. 65. gr. laga nr. 20/1991. Þá
byggir varnaraðili kröfu sína á því að kröfur varnaraðila séu nægilega tryggðar
með veði í fasteigninni Naustabryggju 55 í skilningi 1. töluliðar 3. mgr. 65.
gr. laga nr. 21/1991 og standi það í vegi fyrir gjaldþrotaskiptum á búi hans.
Sóknaraðili mótmælir því að varnaraðili geti því nú haldið því fram fyrir dómi
og byggt á því að krafa hans sé nægilega tryggð með veði í annarri eign á
grundvelli tryggingarbréfs um allsherjarveð þar sem slík mótmæli hafi ekki
komið fram við gerðina sjálfa.
Varnaraðili
hefur í málinu teflt fram málsástæðum er lúta að því að er eign hans að
Naustabryggju 38 hafi verið seld nauðungarsölu hafi sýslumaður ekki gætt að
ákvæðum 57. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu og hann hefði því með réttu
ekki átt að heimila sóknaraðila aðför fyrir kröfu sinni. Hann hafi mótmælt
gerðinni og farið fram á það við sýslumann að gerðin næði ekki fram að ganga en
sýslumaður hafi ákveðið þrátt fyrir mótmæli hans að gerðinni yrði fram haldið.
Mál þetta er
rekið á grundvelli laga nr. 21/1991 og fer sóknaraðili fram á gjaldþrotaskipti
á búi varnaraðila á grundvelli árangurslauss fjárnáms sem gert var hjá
varnaraðila 4. apríl sl. Líta verður svo á að hið árangurslausa fjárnám sé
sönnunargagn um ógjaldfærni varnaraðila og er gildi þess sem slíks ekki til
umfjöllunar eða úrlausnar í máli þessu. Skiptir þá í raun ekki máli þótt
einhverjir annmarkar kunni að hafa verið á framkvæmd þess, enda nýtti
varnaraðili sér ekki úrræði 14. kafla laga nr. 90/1989 um að bera undir
dómstóla ágreining er reis við framkvæmd gerðarinnar. Má um þessi sjónarmið
vísa til hliðsjónar til dóma Hæstaréttar frá 8. október 2013 í máli nr.
620/2013 og frá 22. maí 2014 í máli nr. 339/2014.
Á hinn bóginn
verður að líta svo á að við mat á því hvort sóknaraðili eigi lögvarða kröfu á
hendur varnaraðila, sem er frumskilyrði þess að fallist verði á kröfu
lánardrottins um að bú skuldara verði tekið til gjaldþrotaskipta, komi til
skoðunar sjónarmið varnaraðila, um að sóknaraðili hafi ekki fært sönnur á að
markaðsverð eignarinnar hafi verið lægra en nam kröfu hans á hendur varnaraðila
á þeim tíma er eignin var seld. Varnaraðili hefur haldið því fram í málinu að
markaðsverð eignarinnar hafi á uppboðsdegi verið mun hærra en nam þeirri fjárhæð
sem hún var seld fyrir. Þó hefur hann ekki lagt fram nein gögn í málinu til
stuðnings þeirri staðhæfingu.
Sóknaraðili
hefur í málinu lagt fram verðmat fasteignasölunnar Stakfells ehf. sem mótmælt
hefur verið af hálfu varnaraðila að gildi geti haft í málinu. Dómurinn telur að
ekki hafi á nokkurn hátt verið í ljós leitt að tengsl fasteignasölunnar séu með
þeim hætti að dregið verði í efa hlutleysi hennar við mat á markaðsverði
fasteignarinnar að Naustabryggju 38. Því verður ekki fallist á sjónarmið varnaraðila
um ekki sé unnt að leggja matið til grundvallar í málinu vegna tengsla
fasteignasölunnar við sóknaraðila. Verður litið svo á að um faglegt og
hlutlaust mat sjálfstæðs aðila sé að ræða.
Með breytingu
á 57. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu var sú skylda lögð á þann sem naut
veðréttar í eign og telur sig ekki hafa fengið þeim rétti fullnægt við
nauðungarsölu eignarinnar að færa sönnur á að sú hafi verið raunin. Sá hinn
sami verður því að sýna fram á með fullnægjandi hætti hvert hafi verið markaðsverð
eignarinnar á þeim tíma þegar hún var seld þannig að ljóst sé að það hafi verið
lægra en krafa hans að teknu tilliti til þeirra veðkrafna sem gengu framar
kröfunni að rétthæð. Ekki er unnt að fallast á þau sjónarmið varnaraðila að
breyting þessi feli í sér að sönnunarfærsla af þessu tagi verði einungis
framkvæmd með dómkvaðningu matmanns, en málatilbúnaður varnaraðila verður
skilinn á þann hátt. Ljóst má vera að hefði löggjafinn ætlast til þess að slíkt
mat færi fram hefði hann þurft að orða slíka skyldu með skýrum hætti. Því
verður verðmat fasteignarsölunnar Stakfells lagt til grundvallar við niðurstöðu
máls þessa og hefur því ekki verið hnekkt af hálfu varnaraðila.
Samkvæmt
umræddu verðmati fasteignasölunnar Stakfells var markaðsverð eignarinnar
Naustabryggju 38 29.500.000 krónur við nauðungarsölu hennar 18. febrúar 2013.
Sóknaraðili var með veðskuld á þriðja veðrétti á grundvelli veðskuldabréfs, upphaflega að fjárhæð
10.000.000 króna, útgefið 17. ágúst 2009 af varnaraðila til Byrs hf., en
óumdeilt er að bréfið er nú í eigu sóknaraðila eftir samruna Byrs hf. og
sóknaraðila 29. október 2011 en þá tók sóknaraðili við öllum réttindum og
skyldum Byrs hf. Sóknaraðili lýsti kröfu við nauðungarsölu eignarinnar á
grundvelli skuldabréfsins og nam krafa hans þá 15.988.372 krónum. Hæstbjóðandi
var Lífeyrissjóður Verslunarmanna sem bauð 28.000.000 króna í eignina. Tilboð
Lífeyrissjóðsins var samþykkt og fékk hann úthlutað 27.547.981 krónu upp í
kröfu sína á 1. veðrétti, sem þá nam 32.194.499 sbr. frumvarp til úthlutunar á
söluverði 18. apríl 2013. Samkvæmt því er að framan greinir verður að telja
ljóst að sóknaraðili hafi með framlögðu verðmati fært viðhlítandi sönnur á að
markaðsverð eignarinnar hafi verið lægra en nam upphæð veðkröfu hans við
nauðungarsölu hennar, að viðbættum þeim veðkröfum sem gengu framar kröfunni að
rétthæð, sbr. 57. gr. laga nr. 90/1991. Því verður að telja ljóst að
sóknaraðili hefur ekki fengið fullnægt kröfu sinni á hendur varnaraðila og hafi
sannað með fullnægjandi hætti að hann eigi lögvarða kröfu á hendur varnaraðila.
Getur hann því farið fram á gjaldþrotaskipti á búi hans sem lánardrottinn að
öðrum skilyrðum uppfylltum.
Samkvæmt 2.
mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 getur lánardrottinn krafist þess að bú skuldara
verði tekið til gjaldþrotaskipta að fullnægðum skilyrðum sem fram koma í
einhverjum þeirra fimm töluliða sem ákvæðið hefur að geyma, enda sýni
skuldarinn ekki fram á að hann sé allt að einu fær um að standa full skil á
skuldbindingum sínum þegar þær koma í gjalddaga eða verði það innan skamms
tíma. Eins og fram er
komið styður sóknaraðili kröfu sína um gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila við
ákvæði 1. töluliðar 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 þar sem gert hafi verið
árangurslaust fjárnám hjá varnaraðila 4. apríl 2014. Hefur hann krafist gjaldþrotaskipta
innan þess tíma sem lög nr. 21/1991 áskilja. Það girðir aftur á móti fyrir að
bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta ef hann færir sönnur á að krafa
sóknaraðila sé nægilega tryggð með veði eða öðrum sambærilegum réttindum í
eignum sínum eða þriðja manns eða vegna ábyrgðar þriðja manns, sbr. 1. tölulið
3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991.
Í málinu
heldur varnaraðili því fram að skilyrði áðurnefnds ákvæðis sé fullnægt þar sem
krafa sóknaraðila sé nægilega tryggð með allsherjarveði í formi tryggingarbréfs
sem hvíli á 1. veðrétti í Naustabryggju 55 í Reykjavík, fastanúmer 225-1555 til
tryggingar öllum skuldum varnaraðila við sóknaraðila, hverju nafni sem nefnist,
í hvaða formi sem er, eins og segi í bréfinu. Eign þessi er samkvæmt gögnum málsins
þinglýst eign Dragon eignarhaldsfélags ehf. og mun sóknaraðili vera eini
veðhafinn.
Sóknaraðili
hefur haldið því fram að þar sem varnaraðili hafi ekki haft uppi þessi
sjónarmið við fjárnámsgerðina heldur lýst yfir eignaleysi og ekki getað bent á
aðrar eignir til tryggingar kröfu sóknaraðila, beri að virða þessa mótbáru
varnaraðila að vettugi. Ekki er með nokkru móti unnt að fallast á þessi
sjónarmið sóknaraðila. Ljóst er að lög nr. 21/1991 gera ráð fyrir því að
skuldari hafi tiltekin úrræði til að verjast kröfu um gjaldþrotaskipti, m.a.
með því að færa sönnur á að krafa lánardrottins sé nægilega tryggð í öðrum
eignum hans eða þriðja manns eins og áður er fram komið.
Sóknaraðili
hefur einnig haldið því fram að tryggingarbréfið sé „eyrnamerkt“ lánssamningi
aðila frá 31. janúar 2008 og uppreiknuð staða hans sé um 40 milljónir króna og
þannig sé tryggingarbréfið „fullnýtt“. Dómurinn telur að hafna verði þessum
sjónarmiðum sóknaraðila. Ljóst er að í umræddum lánssamningi er vísað til
tilvistar tryggingarbréfsins og að það standi til tryggingar skuld samkvæmt
lánssamningnum. Á hinn bóginn ber bréfið sjálft þetta ekki með sér. Hefur það
hvorki verið áritað um slíka ráðstöfun né breytt með viðauka í þessa veru.
Verður sóknaraðili, sem er fjármálastofnun, að bera hallann af því að hafa ekki
tryggt réttindi sín með ótvíræðum hætti hvað þetta varðar. Eins og bréfið
sjálft ber með sér stendur það til tryggingar öllum skuldum varnaraðila við
sóknaraðila, hverjar sem þær eru og á hvaða tíma sem er. Verður því þegar af þeirri
ástæðu að fallast á það með varnaraðila að uppfyllt séu skilyrði 1. töluliðar
3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um að krafa sóknaraðila sé nægilega tryggð með
veði í fasteigninni að Naustabryggju 55 í Reykjavík, fastanúmer 225-1555 og
hafna kröfu sóknaraðila um gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila. Skiptir þá ekki
meginmáli hver uppreiknuð fjárhæð þessa tryggingarbréfs er nákvæmlega enda
ljóst að trygging samkvæmt bréfinu nemur allt að 30.850.000 krónum og að
fasteignamat eignarinnar er samkvæmt skjölum málsins 28.500.000 krónur sem hvoru
tveggja er langt umfram heildarfjárhæð þeirrar skuldar er greinir í gjaldþrotaskiptabeiðni
sóknaraðila.
Með vísan til
úrslita málsins verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila 300.000 krónur í
málskostnað að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Hólmfríður
Grímsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kröfu sóknaraðila, Íslandsbanka hf.,
um gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila, Gunnars Árnasonar, er hafnað.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 300.000
krónur í málskostnað að teknu tilliti til virðisaukaskatts.