Hæstiréttur íslands
Mál nr. 58/2009
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Börn
- Skaðabætur
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 28. maí 2009. |
|
Nr. 58/2009. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir, vararíkissaksóknari) gegn X (Sveinn Andri Sveinsson hrl. Magnús Baldursson hdl. Steinunn Guðbjartsdóttir hrl. réttargæslumaður) |
Kynferðisbrot. Börn. Skaðabætur. Sératkvæði.
X var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn stjúpdóttur sinni, A, sbr. 1. mgr. 201. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa á árunum 2004 til 2007, er hún var 11 til 14 ára, tvisvar til þrisvar sinnum í viku haft samræði við hana. Fullsannað þótti með trúverðugum framburði A, vitnisburði og vottorði læknis um líkamlegt ástand hennar og forstöðumanns Barnahúss um andlegt ástand hennar, auk vitnisburðar móður hennar um andlegt ástand hennar og samskipti hennar við X, að X hafi framið þann verknað sem lýst var í ákæru, þó þannig að talið var að hann hafi haft samfarir nokkuð reglulega við A á umræddu tímabili. Tók Hæstiréttur fram að við mat á sönnun sakargifta samkvæmt ákæru hafi ekki skipt máli að systir X hafi borið um kynferðislega tilburði hans gagnvart sér þegar hún hafi verið barn að aldri og X hafi viðurkennt það að vissu marki. Talið var að X ætti sér ekki málsbætur. Hann hafi með háttsemi sinni brotið mjög alvarlega gegn barni sem honum hafi verið treyst og trúað fyrir í mörg ár með þeim afleiðingum að hann hafi rúið barnið æsku sinni og þeim möguleika að lifa eðlilegu lífi í sátt við sjálfa sig, aðra og umhverfi. Hann hafi misnotað gróflega þann trúnað sem A hafi sýnt honum og þá virðingu sem hún hafi borið fyrir honum sem uppalanda. Þá hafi brotin átt sér stað á heimili A þar sem hún hafi átt að eiga öruggt skjól og vernd fyrir slíkri misnotkun. Hafi brotin verið til þess fallin að valda henni verulegum skaða og hafi X átt að vera það fyllilega ljóst. Þá var við ákvörðun refsingar litið til nýrrar 3. mgr. sem bætt var við 70. gr. almennra hegningarlaga á tímabilinu og þess að brot X voru að hluta framin eftir gildistöku laga sem breyttu 1. mgr. 201. gr. og 1. mgr. 202. gr. laganna. Var refsing X ákveðin fangelsi í átta ár. Þá þótti hann með háttsemi sinni hafa bakað sér skyldu til greiðslu miskabóta til A sem ákveðnar voru 2.500.000 krónur
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 12. janúar 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um sakfellingu ákærða, en refsing hans þyngd.
A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 5.000.000 krónur með vöxtum og dráttarvöxtum eins og dæmdir voru í héraði.
Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að bótakröfu verði vísað frá dómi, en til vara að hún verði lækkuð.
Við mat á sönnun sakargifta samkvæmt ákæru skiptir ekki máli að systir ákærða hafi borið um kynferðislega tilburði hans gagnvart sér þegar hún var barn að aldri og að ákærði hafi viðurkennt það að vissu marki. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða og heimfærslu brota til refsiákvæða, en skilja verður niðurstöðu héraðsdóms svo að sannað hafi verið talið að ákærði hafi haft samfarir nokkuð reglulega við A frá árinu 2004 til októbermánaðar 2007 og að hann sé sakfelldur fyrir þá háttsemi.
Með 1. gr. laga nr. 27/2006, sem öðlaðist gildi 3. maí 2006, var bætt 3. mgr. við 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Verður tekið mið af þeirri breytingu við ákvörðun refsingar ákærða fyrir háttsemi hans eftir gildistöku laganna. Þá verður varðandi refsingu ákærða að líta til þess að brot hans voru að hluta framin eftir 4. apríl 2007, en þá öðluðust gildi lög nr. 61/2007, sem meðal annars breyttu ákvæðum 1. mgr. 201. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður niðurstaða hans um refsingu ákærða staðfest.
Með vísan til þeirra forsendna sem raktar eru í héraðsdómi og að teknu tilliti til dómaframkvæmdar Hæstaréttar eru miskabætur til A hæfilega ákveðnar 2.500.000 krónur með vöxtum eins og í héraðsdómi greinir.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákvæði héraðsdóms um refsingu ákærða, X, og sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði A 2.500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. apríl 2004 til 13. desember 2008, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 544.814 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 373.500 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Steinunnar Guðbjartsdóttur hæstaréttarlögmanns, 124.500 krónur.
Sératkvæði
Ingibjargar Benediktsdóttur
og Ólafs Barkar Þorvaldssonar
Við erum samþykk atkvæði meirihluta dómenda um annað en miskabætur. Eins og í atkvæðinu greinir er ákærði fundinn sekur um að hafa haft reglulega samræði við A um þriggja ára skeið meðan hún var á aldrinum 11 til 14 ára gömul. Þegar litið er til þessa teljum við ekki ástæðu til að breyta niðurstöðu héraðsdóms um fjárhæð miskabóta.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 29. desember 2008.
Mál þetta, sem þingfest var þann 13. nóvember 2008 og dómtekið þann 12. desember sl., var höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 21. október 2008, á hendur X, kt. [...],[...],
„fyrir kynferðisbrot gegn stjúpdóttur sinni, A eins og hér greinir:
1. 1. Með því að hafa frá árinu 1998, þegar A var 5 ára gömul, og fram til ársins 2004, í tugi skipta á heimili þeirra káfað á brjóstum telpunnar og kysst, hana, meðal annars á brjóstin.
Telst þetta varða við 2. mgr. 201. gr. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum.
2. 2. Með því að hafa, frá árinu 2004 til októbermánaðar 2007, tvisvar til þrisvar sinnum í viku, haft samræði við A sem þá var 11 til 14 ára gömul. Kynferðismökin áttu sér oftast stað í svefnherbergi ákærða á heimili þeirra en einnig í fóðurbætisgeymslu og skógrækt á jörðinni Y.
Telst þetta varða við 1. mgr. 201. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Af hálfu A, kennitala [...] er krafist miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð kr. 5.000.000 auk vaxta skv. 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. janúar 1999 til þess dags er mánuður er liðinn frá því að bótakrafan var kynnt fyrir ákærða en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.“
Við aðalmeðferð málsins krafðist verjandi ákærða að ákærði yrði sýknaður en til vara að hann yrði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krafðist hann þess að bótakröfunni yrði vísað frá dómi en til vara að hún yrði lækkuð. Þá krafðist verjandi ákærða þess að honum yrðu dæmd málsvarnarlaun á rannsóknarstigi og fyrir dómi samkvæmt framlögðum reikningi.
I
Þann 29. október 2007 kom C, skólastjóri [...]skóla, á lögreglustöðina á [...] og tilkynnti um að A hefði komið til hans og trúað honum fyrir því að hún væri misnotuð kynferðislega af fósturföður sínum. Hefði það staðið yfir í langan tíma og færst í aukana. Í fyrstu hefði það verið kossar og þukl en hafi þróast út í samfarir. Hefði það gerst síðast mánudagsmorguninn 22. október áður en hún hefði farið í skólann. Þetta hefði gerst í herbergi hans og væri það yfirleitt vettvangurinn. Kvað C stúlkuna hafa trúað sér fyrir þessu miðvikudaginn áður og hafi hann þá hringt í lögreglu, en honum þá verið tjáð að lögreglumaður á [...] og starfsmaður félagsmálayfirvalda væru í fríi fram á mánudag. Þann 30. október 2007 fór rannsóknarlögreglumaður ásamt fulltrúa félagsmálayfirvalda í [...]skóla sem hitti A hjá skólastjóranum. Rætt var við A á staðnum og kvað hún þá að fósturfaðir hennar hafi í fyrstu þuklað hana og kysst og hafi það byrjað fyrir mörgum árum eða á þeim tíma sem hún muni fyrst eftir sér. Hafi verið mikið um þetta frá því hún var sjö til átta ára gömul. Þetta hefði síðan breyst í samfarir sem fósturfaðir hennar hefði haft við hana. Kvað hún að samfarirnar hefðu byrjað líklegast þegar hún hafi verið ellefu ára gömul og kvaðst hún ekki hafa tölu á þeim fjölda samfara sem hún hefði haft með fósturföður sínum. Síðasta skiptið hefði verið fyrir um tveimur vikum, að morgni áður en hún fór í skólann. Hefði ákærði alltaf notað smokk og hefði smokkurinn verið rauður á litinn sem hann hefði notað í síðasta skiptið. Kvað hún móður sína sofa í öðru herbergi með tveimur yngri systrum sínum en hún sjálf svæfi stundum í hjónarúminu með fósturföður sínum. Hefði móðir hennar sofið í öðru herbergi en ákærði í mörg ár. Í framhaldi var rætt við móður A og ákærði síðan færður á lögreglustöð til skýrslutöku. Farið var með A á Neyðarmóttöku vegna kynferðislegs ofbeldis í Fossvogi. Í skýrslu um réttarlæknisfræðilega skoðun kemur fram að A segi fósturföður sinn hafa misnotað sig og minnist hún þess frá fimm ára aldri en til að byrja með hafi verið um kossa og gælur að ræða. Þegar hún hafi verið ellefu ára gömul hefði hann farið að hafa samfarir við hana gegnum leggöng. Eftir það hafi hann haft reglulega við hana samfarir og hafi það verið oft í viku, síðast mánudagsmorguninn 22. október 2007. Eigi samfarirnar sér mest stað í hjónarúminu þar sem hún sofi, en móðir hennar hafi sofið inni hjá litlu systrum hennar í öðru herbergi. Hafi þetta fyrirkomulag verið til staðar frá því að systurnar fengu sérherbergi fyrir einhverjum tíma. Hafi samfarirnar líka átt sér stað ýmist í herbergi hennar eða í stofunni þegar hún hafi verið ein heima með honum. Þá hefði hún sagst alltaf vera hrædd við að sofa ein í herbergi en áður hefði hún verið í herbergi með bróður sínum, sem svo hafi fengið sérherbergi um sama leyti og systurnar fengu eigið herbergi og hún þá farið að sofa meira í hjónarúminu. Ákærði hafi sagt við hana að hún mætti ekki segja neinum frá og að þetta væri leyndarmál. Segi hún frá muni mamma hennar fara. Þá kemur fram að A hafi byrjað á blæðingum á tólf ára afmælisdaginn sinn og þegar hún hafi blæðingar reyni hún að gista hjá vinkonum sínum eða þá að fá aðrar systur sínar til að sofa hjá sér í hjónarúminu til að þurfa ekki að hafa samfarir þegar hún er með blæðingar. Þá kemur fram að hún skrái alltaf hjá sér hvenær blæðingar séu í gsm-síma sinn.
II.
Lögregla rannsakaði og ljósmyndaði vettvang. Var sængurfatnaður ákærða og brotaþola haldlagður og rannsakaður af tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Var notast við Acid Phosphatase (AP) sæðispróf frá SERI. Áður en rannsókn fór fram var prófið staðlað með jákvæðu og neikvæðu prófi. Sængurver ákærða var rannsakað og fundust þrjátíu og sjö blettir á því og gáfu þrjátíu og tvö sýnanna jákvæða svörun við staðfestingarprófinu. Við frekari rannsóknir kom fram að sæðisfrumur voru sjáanlegar í níu sýnum. Í sængurveri brotaþola voru sjáanlegir sautján blettir en enginn þeirra gaf jákvæða svörun við sæðisprófi. Lak úr rúmi ákærða var rannsakað og með sömu rannsóknaraðferðum komu í ljós sæðisfrumur í átta blettum í lakinu. Þann 7. desember 2007 var Tómas Zoëga geðlæknir dómkvaddur til að framkvæma geðrannsókn á ákærða. Í niðurstöðum geðrannsóknarinnar, sem dagsett er 21. janúar 2008, kemur fram að engin merki séu um að ákærði hafi nokkurn tíma verið haldinn þeim einkennum sem talin eru upp í 15. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem gætu hafa orðið til þess að hann gæti ekki stjórnað gerðum sínum, og með vísan til 16. gr. sé ekkert læknisfræðilegt sem komi í veg fyrir að refsing gæti borið árangur ef hann yrði fundinn sekur við rannsókn þessa máls. Þá gerði Eiríkur Líndal sálfræðingur prófun á ákærða. Kemur þar fram í niðurstöðum að ákærði mælist ekki sérlega þunglyndur eða kvíðinn. Hann telji sig þó vera undir miklu álagi og að staða hans sé a.m.k. tímabundið orðin gjörbreytt frá því sem hún var áður en málið kom upp. Hann mælist núna vonlaus og neikvæður út í marga þætti samfélagsins og sé með greinileg einkenni andfélagslegrar hegðunar.
III.
Skýrsla var tekin af brotaþola í Barnahúsi þann 5. nóvember 2007. Aðspurð segir hún að í síðasta sinn hafi misnotkunin átt sér stað áður en hún sagði skólastjóra sínum frá málinu, sem hafi verið 22. eða 23. október 2007. Kvaðst hún hafa vaknað til að fara í skólann og þá hefði fósturfaðir hennar beðið sig um að hafa samfarir við sig. Hefði hann spurt sig „eigum við að koma og gera´ða“. Aðspurð um upphafið kvaðst hún halda að hún hafi verið um fimm ára eða svo. Ákærði hefði vakið hana um nótt og beðið sig um að koma inn í stofu „þar bara kyssti hann mig og svona“. Þetta hefði oft gerst og alveg frá því að hún myndi eftir sér, sem væri frá því hún var um fimm ára gömul. Ákærði hefði aðallega kysst á henni brjóstin og þuklað hana innanklæða. Breyting hefði orðið á þegar hún var ellefu ára. Þá hefði orðið minna af kossum og snertingu og þetta aðallega farið út í samfarir. Kvaðst hún ekki muna eftir fyrstu samförunum, hún haldi að hún hafi algjörlega reynt að gleyma þeim. Kvað hún fósturföður sinn sofa einan í hjónaherberginu, móður sína og tvær yngri systur í öðru herbergi, eldri bróður og fósturbróður sofa saman í herbergi og hún hafi sitt eigið herbergi. Aðspurð um tímasetningu fyrstu samfaranna kvaðst hún tengja þær við upphaf blæðinga hjá sér en hún hefði byrjað á blæðingum á tólf ára afmælisdegi sínum. Aðspurð hversu oft þetta hefði gerst kvaðst hún ekki geta talið það, það hafi verið mjög, mjög oft, tvisvar til þrisvar í viku. Hefðu samfarirnar oftast átt sér stað í hjónarúminu en einnig úti í „buskanum“ eða í skógræktinni og í fóðurgeymslunni í fjósinu þeirra. Það hefði verið í byrjun en langt síðan það gerðist þar síðast. Aðspurð um hvað hafi gerst þegar hún var fimm ára kvað hún það hafa verið kossa, snertingar og þukl. Þuklið hafi aðallega verið innanklæða. Aðspurð um líðan sína þegar þessi háttsemi byrjaði kvaðst hún ekki hafa áttað sig á því hversu alvarlegt þetta hafi verið en hún hefði vitað alveg frá byrjun að þetta væri ekki eðlilegt. Hún kvaðst bara hafa vanist þessu en henni hefði liðið verr eftir að samfarirnar hófust. Aðspurð hvort hún hafi fengið verðlaun fyrir kvað hún svo ekki vera en hún hafi alltaf litið svo á að hún væri í sérstöku uppáhaldi og þyrfti ekki að gera eins mikið og aðrir en það hafi í raun ekki verið, hún hefði þurft að taka til hendinni eins og aðrir. Einu sinni hefði ákærði þó lofað að gefa henni og fósturbróður hennar ís og hamborgara, þegar þau voru ein heima með honum, ef hún myndi sofa hjá honum. Hún hefði hins vegar lagst til svefns inni hjá bróður sínum þar sem hún vildi ekki sofa hjá ákærða en hann hefði sótt hana um nóttina. Það hefði þó ekki verið annað en þukl og kossar og ákærði síðan leyft henni að fara aftur inn í herbergi til bróður síns. Brotaþoli kvaðst ekki vera vön að sofa ein í herbergi og fari því oftast að sofa í herbergi ákærða og þá oft með litlu systur sína hjá sér til að forðast að eitthvað gerðist. Það tækist þó ekki alltaf. Kvað hún litlu systur sína þá vera sofandi og ekki hafa verið vitni að því. Aðspurð hvort ákærði notaði verjur, kvað brotaþoli svo vera í flestum tilvikum eftir að hún sagði honum frá því að hún væri farin að hafa blæðingar. Aðspurð hvað ákærði hefði gert við verjurnar kvað hún hann hafa sett þær eftir notkun í buxnavasa sína, en buxur hans hefðu yfirleitt legið á gólfinu á nóttunni. Síðast þegar hún hefði séð pakkningu undan verju hjá honum hefði hún verið rauð en stundum væru þær bláar líka. Kvað hún ákærða yfirleitt spyrja sig hvort þau ættu að gera það en hún yfirleitt ekki svarað neinu og hann þá sagt ókei og klætt hana úr náttbuxunum. Enginn aðdragandi sé að samförunum. Síðasta skiptið sem hann hafði samfarir við hana hefði verið í hjónarúminu. Ákærði hefði vakið sig og spurt hvort þau ættu að koma að gera það og hún svarað ókei. Ákærði hefði þá klætt hana úr að neðan og lokið sér af. Hefðu þau bæði legið á hliðinni þannig að hún sneri baki í ákærða. Kvað brotaþoli samfarirnar oftast hafa átt sér stað á kvöldin en einnig á morgnana. Aðspurð um háttatíma hjá fjölskyldunni kvað brotaþoli D systur sína fara snemma í rúmið, síðan færi mamma hennar með E systur hennar um klukkan hálftíu til tíu og brotaþoli síðan á eftir þeim. Bræður hennar færu einnig yfirleitt í rúmið um svipað leyti og hún. Fósturfaðir hennar fari alltaf síðastur í rúmið, yfirleitt eftir miðnætti. Fjölskyldan vakni síðan á bilinu milli klukkan sjö og átta á morgnana. Kvaðst brotaþoli oftast fara að sofa í hjónaherberginu en hún sofi þó nokkuð oft inni í sínu herbergi. Oftast sofni brotaþoli á undan ákærða og ákærði ýti þá við henni og veki hana til að hafa við hana samfarir. Aðspurð kvað brotaþoli stundum braka í hjónarúminu þegar farið væri upp í það en það heyrðist ekkert á meðan á samförunum stæði. Ákærði gæfi heldur ekki frá sér hljóð á meðan. Stundum væri hurðin inn í herbergið lokuð og stundum væri henni einungis hallað aftur. Aðspurð kvað hún móður sína hafa flutt inn í annað svefnherbergi með yngri systur sínar þegar hún var um ellefu til tólf ára gömul. Brotaþoli kvaðst alltaf hafa fundið fyrir sársauka við samfarirnar en þær hafi yfirleitt tekið um þrjár mínútur. Aðspurð um ástæðu þess að hafa sagt frá misnotkuninni, kvaðst brotaþoli hafa fengið ferð til Skotlands í fermingargjöf og hún boðið bestu vinkonu sinni með. Hefði hún haft þörf fyrir að segja frá háttseminni og því sagt henni í byrjun frá því að hún hefði orðið fyrir kynferðislegri áreitni þegar hún var lítil. Vinkona hennar hefði ýtt á sig með að segja skólastjóranum frá og hefði hún látið verða af því í lokin þar sem hún treysti honum hundrað prósent.
Ákærði kom fyrir dóminn og neitaði sök. Kvaðst hann vera fyrrverandi stjúpfaðir brotaþola en hún hafi verið tveggja ára þegar hann og móðir hennar skráðu sig í sambúð. Hafi brotaþoli verið mjög hænd að ákærða og haft meiri áhuga á bústörfum en önnur börn þeirra. Aðspurður kvaðst ákærði vita til þess að brotaþoli hafi átt einn kærasta en hann hafi ekki vitað til þess að þau hafi átt kynlíf saman. Brotaþoli hefði rætt flest einkamál sín við ákærða og hefði hún aldrei nefnt að hún hefði lifað kynlífi. Kvað ákærði að strákarnir tveir hefðu haft svefnherbergi saman, B og tvær yngstu dæturnar hefðu deilt herbergi, A hefði haft sérherbergi og hann sjálfur einnig. A hefði stundum sofið inni hjá móður sinni, stundum inni hjá sér og stundum inni í hennar herbergi. Engin regla hefði verið á þessu, bara þegar A vildi sjálf og hann hafi verið heima. Ákærði hefði oft verið að heiman vegna fundarstarfa á kvöldin og stundum ekki verið tilbúinn til að fara að sofa þegar aðrir fóru í rúmið. Brotaþoli hefði yfirleitt ekki viljað sofa ein í herbergi og kunni hann enga skýringu á því. Kvað hann það rangt hjá brotaþola að hún hafi fengið systur sína Etil að sofa inni hjá sér, brotaþoli hefði oft hent E grátandi út úr herberginu. Ákærði kvaðst sofa í timburrúmi sem brakaði mikið í og þannig gólffjalir væru í eldri hluta hússins að það hefði brakað mikið í þeim og hljóðbært hefði verið á milli herbergja. Þá kvaðst hann hafa farið um þrisvar til fjórum sinnum á ári út í skógræktina og væri þessi frásögn brotaþola fáránleg. Ákærði kvað brotaþola hafa eitt sinn verið inni á baðherbergi hjá sér og hefði B, móðir brotaþola, sakað hann um óeðlilega hegðun. Brotaþoli gæti þá hafa verið tíu ára gömul en ákærði kvaðst ekki vera viss. Sér hefði ekki þótt það óeðlilegt þar sem hann hafi verið alinn upp við það að þvo móður sinni um bakið þegar hún var í baði. Þá hefði ákærði eitt sinn tekið þátt í því að stríða B þegar brotaþoli læsti þau inni á baðherbergi og hefði B þá sakað hann um óeðlilega hegðun gagnvart brotaþola. Ákærði kvaðst ekki hafa staðið brotaþola að því að ljúga hlutum sem skiptu máli, frekar að hún hefði strítt bræðrum sínum. Aðspurður um framburð systur ákærða, F, um að hann hefði káfað á kynfærum hennar í nokkur ár frá því að hún var ellefu ára gömul, kvað ákærði það vera rétt en það hefði aldrei verið innanklæða. Hefði systir hans yfirleitt náð að sparka sér fram úr rúminu áður en káfið náði lengra. Kvaðst ákærði hafa farið að búa sjálfur þegar hann var um tuttugu til tuttugu og eins árs gamall. Aðspurður um umbúðir utan af smokkum sem fundust á heimili hans, kvaðst ákærði hafa haft samfarir við konu sína í tvígang fyrripart ársins 2007 eftir að hún flutti út úr svefnherberginu og hefði hann þá notað tvo smokka. Aðspurður um hina sex smokkana sem vantaði í kassana, kvaðst ákærði hafa notað smokkana sjálfur við sjálfsfróun auk þess að hafa gefið syni sínum smokka. Kvaðst ákærði yfirleitt hafa gengið með smokka í vasanum í þeirri von að „eitthvað gæti gerst“ en svo hafi ekki verið og þá hefði hann notað smokkana sjálfur við að fróa sér, þegar þeir voru orðnir snjáðir. Hann hefði aldrei haldið fram hjá konu sinni, en maðurinn væri einu sinni þannig gerður að hann þyrfti að lifa kynlífi. Hann hefði líklega haldið fram hjá konu sinni ef tækifæri hefði gefist. Aðspurður um sæðisbletti sem fundust í rúmfötum hans, kvað hann þá skýrast af því að hann hefði fróað sér sjálfur í rúminu. Ákærði kvaðst hafa sent brotaþola sms fyrir jólin í fyrra og eftir það hefði brotaþoli haft reglulegt samband við sig fram í janúar. Þá hefði hann sent brotaþola sms þar sem hann óskaði henni til hamingju með daginn og aftur í ágúst og eftir það hefði hún haft samband við sig að fyrra bragði í nokkur skipti. Ákærði kvað þau sms-samskipti sem lágu fyrir í málinu vera rétt og frá sér komin. Kvaðst hann segja við öll börnin sín að hann elskaði þau og átti það einnig við um brotaþola. Væru þessi orð hans eingöngu af föðurlegum toga. Aðspurður um herbergjaskipan í íbúðarhúsinu kvað hann timburgólffjalir liggja langsum eftir húsinu og væri mjög hljóðbært á milli herbergja. Því hefðu hljóð frá hjónaherberginu borist inn í herbergið þar sem B svaf. Hefði B því átt að heyra torkennileg hljóð frá hjónaherberginu ef einhver voru. Aðspurður um fóðurbætisgeymsluna, kvað hann notkunina hafa breyst fyrir nokkrum árum en þar væri nú frystikista og kæmi B mjög oft út í þá geymslu. Aðspurður kvaðst ákærði hafa rætt kynferðismál við brotaþola alveg eins og eldri syni sína þar sem hann taldi að kynlífsmál ættu ekki að vera feimnismál. Brotaþoli hafi hins vegar verið frekar gróf í tali og ef eitthvað væri þá væri það hún sem fengi foreldrana til að roðna með tali sínu.
Ólöf Ásta Farestveit, forstöðumaður Barnahúss, uppeldis- og afbrotafræðingur, auk þess að hafa numið barna- og unglingasálfræði, skrifaði greinargerð um afskipti hennar af brotaþola og meðferð sem hún hefur verið með hana í frá því í nóvember 2007 og var hún lögð fram í málinu. Ólöf gaf símaskýrslu fyrir dóminum og staðfesti skýrslu sína. Kvaðst hún hafa haft brotaþola til meðferðar frá því mál þetta kom upp og hitt brotaþola í þrettán skipti undanfarið ár. Í byrjun hefði brotaþoli fundið fyrir geysilegum létti í kjölfar þess að málið kom upp. Hún hefði hins vegar í framhaldi brotnað niður og á tímabili ekki treyst sér til að lifa lengur. Hefði Ólöf óttast um líf hennar á tímabili og haft samband við barnaverndarnefnd til að koma henni til hjálpar. Hefði brotaþoli fengið lyf til að hjálpa henni yfir erfiðasta tímabilið. Í dag nái hún að lifa nokkuð sæmilegu lífi frá degi til dags en hún sé ekki enn komin á það stig í meðferðinni að geta farið að tala um kynferðisbrotin gagnvart henni. Brotaþoli forðist að fara á þá staði sem minni hana á meint brot og því hefði hún ásamt móður sinni og systkinum flutt af heimilinu. Þá muni brotaþoli lítið frá æsku sinni og geti ekki rætt um æskuárin nema leikskólatímabilið. Hún muni ekki geta lifað eðlilegu lífi á unglingsárunum, eins og að verða skotin og fleira sem tengist eðlilegu lífi hjá unglingum. Hún hafi allt aðra reynslu en jafnaldrar hennar og hún muni eiga í miklum erfiðleikum í framtíðinni. Bara barneignir geti valdið henni gríðarlegum erfiðleikum. Í haust hefði brotaþoli fengið bakslag í meðferðinni eftir að hún fékk sms-skilaboð frá ákærða, en Ólöf kvaðst ekki hafa komist að þeim samskiptum fyrr en eftir síðasta samtal þeirra sem var í september sl. Brotaþoli hefði í kjölfarið fengið ýmis streitueinkenni eins og magaverki o.fl. og hefði læknis verið leitað þess vegna. Aðspurð um samband ákærða og brotaþola, kvað Ólöf brotaþola hafa fengið ýmislegt til baka frá ákærða sem hin börnin fengu ekki, í staðinn fyrir þátttöku hennar. Brotaþoli hefði ætlað að láta sig hafa þetta þar til hún færi í menntaskóla eða í tvö ár til viðbótar þar til hún flytti að heiman en ekki treyst sér síðan til þess. Aðspurð hvort Ólöf hafi vitað um að brotaþoli hafi átt kærasta, kvaðst hún ekki hafa neinar slíkar upplýsingar frá brotaþola nema að hún hafi verið skotin í strák. Aðspurð um það hvort hún vissi að hvers frumkvæði sms-samskipti ákærða og brotaþola hafi verið, kvaðst Ólöf hafa vitneskju um að þau hafi öll verið að frumkvæði ákærða.
C, kennari kom fyrir dóminn og kvaðst hafa starfað sem skólastjóri við [...]skóla veturinn 2007 til 2008. Brotaþoli hafi þá verið nemandi í skólanum. Kvað hann brotaþola og vinkonu hennar hafa verið á vappi fyrir utan skrifstofu sína í um viku. Á þriðjudegi hefðu þær staðið í dyraopinu að skrifstofu hans og hefði vinkonan sagt brotaþola þurfa að ræða við sig. Brotaþoli hefði þá sagt sér frá því að frændur hennar hefðu fengið hana til að fletta sig klæðum þegar hún var barn og ákærði séð þetta og skammað strákana. Brotaþoli hefði hrósað ákærða og talað um hversu gott væri að eiga vin eins og hann. Taldi C að málinu væri þar með lokið. Daginn eftir hefði brotaþoli komið aftur til sín á skrifstofuna og sagst þurfa að ræða við hann. Hún hefði sest niður og síðan lokast alveg og helst ekkert viljað segja. Hann hefði þá spurt hana hvort hún væri hamingjusöm og hún svarað neitandi. Í framhaldi hefði hann fengið hana til að skrifa á miða vandamál hennar og hún þá skrifað „kynferðisleg misnotkun“. C kvaðst hafa spurt hana hver þetta væri, hvort það hafi verið frændi hennar og hún neitað því. Þá hefði hann spurt hvort það væri ákærði og hún þá svarað játandi. Kvaðst hann hafa hringt til lögreglunnar og fengið þær upplýsingar að lögreglumaður á staðnum væri í fríi fram á mánudag. Brotaþoli hefði komið á skrifstofuna til sín á hverjum degi frá því. Brotaþoli hafi sagt sér að um samfarir væri að ræða og þetta hefði byrjað þegar móðir hennar var á fæðingardeildinni. Hefði þetta átt sér stað úti í fjósi og á fleiri stöðum sem brotaþoli hefði talið upp. Þennan mánudag hefði lögreglumaður komið að [...] og hann þá gefið skýrslu um málið. Kvað hann brotaþola hafa verið góðan nemanda, námfúsan og boðið af sér góðan þokka. Ákærði hefði verið hvetjandi varðandi nám hennar og önnur börn ákærða verið metnaðarfull í námi. Brotaþoli hafi átt eina trúnaðarvinkonu en vináttutengsl þennan vetur hafi verið aðeins fljótandi. C kvaðst hafa vitað um sms-samskipti ákærða og brotaþola. Í nóvember og desember 2007 hefði brotaþoli verið mjög niðurdregin. Í janúar hefði brotaþoli orðið miklu glaðari og sagt sér að ákærði hefði fengið að vera í sambandi við hana og þau systkinin og brotaþoli hefði sýnt sér smáskilaboð sem voru í síma hennar. Hefði hann skrifað öll smáskilaboðin orðrétt upp úr síma hennar. Kvað hann brotaþola greinilega hafa verið ánægða með að vera í sambandi við ákærða. Brotaþoli hafi verið mjög brothætt þennan vetur, hún hafi átt það til að setjast einhvers staðar ein og starfsmenn þá reynt að sinna henni. Henni hafi liðið mjög illa þennan vetur, sagst eiga erfitt með svefn og greinilega verið undirförul gagnvart móður sinni en á tíma hefðu samskipti þeirra verið mjög erfið. Brotaþoli hafi borið mikla virðingu fyrir ákærða og greinilega verið mikil togstreita hjá henni gagnvart móður sinni.
F, gaf símaskýrslu fyrir dóminum. Kvað hún rétt að hún hefði upplýst lögregluna um að ákærði hefði áreitt sig kynferðislega frá því að hún var um ellefu til tólf ára gömul í nokkur ár. Staðfesti hún þann framburð sinn fyrir lögreglu að ákærði hefði leitað á sig í nokkur ár en hann væri sex árum eldri en hún. Hefði hann alltaf gert það á kvöldin eftir að hún var sofnuð og hann þá káfað á kynfærum hennar bæði innan og utan klæða.
Jóhanna Jónasdóttir, heimilislæknir, ásamt því að vinna hjá Neyðarmóttöku um kynferðisbrot, gaf símaskýrslu fyrir dóminum. Kvaðst hún muna mjög vel eftir skoðun sinni á brotaþola í umrætt sinn þótt ár væri liðið. Staðfesti hún skýrslu sem hún hafði ritað um komu og skoðun brotaþola á Neyðarmóttöku þann 31. október 2007, sem var í samræmi við framburð hennar fyrir dóminum. Jóhanna sagði að við kvenskoðun hefðu leggöng stúlkunnar verið mjög vel opin og hefði hún notað sömu áhöld til að skoða leggöng hennar og hún notaði við skoðun á konum sem væru búnar að eiga nokkur börn. Venjuleg leggöng væru teygjanleg og eftirgefanleg og legðust venjulega saman en hjá þessari stúlku hefðu leggöngin verið galopin og mætti sjá örvef hjá henni sem gæti verið afleiðing þvingunar. Útilokað væri að leggöng hjá ungri stúlku væru svo opin nema að þau hafi verið notuð lengi.
Í vottorði Jóhönnu kemur fram að við skoðun hafi leggangaop verið mjúkt og opnast vel og auðveldlega. Eðlilegar vefjaleifar hafi sést af meyjarhaftinu í leggangaopinu, líkt og við skoðun hjá konu sem lifir reglulegu kynlífi. Leggangaskoðunin hafi verið auðveldari en gera mátti ráð fyrir hjá fjórtán ára stúlku. Kvað hún stúlkuna hafa sagt sér að ef hún þýddist ekki stjúpföður sinn myndi móðir hennar fara að heiman og hefði stúlkan alist upp við það að vera misnotuð og hún nánast tekið því sem eðlilegum hlut. Þá kvað Jóhanna það mjög óvanalegt að svo ung stúlka skuli skrá niður hjá sér hvenær blæðingar eigi sér stað en það hefði brotaþoli gert reglulega. Það gerðu konur sem lifðu reglulegu kynlífi. Þessi stúlka hefði ekki einu sinni átt kærasta.
B, móðir brotaþola, kom fyrir dóminn. Kvaðst hún hafa verið gift ákærða en þau væru nú skilin. Hafi hún átt tvö börn fyrir en ákærði einn son auk þess að þau hafi átt tvær dætur saman. Hafi ákærði og brotaþoli verið náin og hefði hún treyst því að það hefði verið föðurleg ást sem ákærði hefði sýnt brotaþola. Kvaðst hún hafa gert athugasemdir áður fyrr við ákærða um samband hans og brotaþola en ákærði talið henni trú um að það væri afbrýðisemi í henni, þar sem hún næði ekki að tengjast syni hans eins náið og hann dóttur hennar. Hefði henni fundist óeðlilegt að ákærði hefði leyft brotaþola að sofa hjá sér, en drengirnir hefðu ekki fengið það og yngstu dæturnar alls ekki á meðan þær voru litlar. Kvað hún ákærða vera mjög sannfærandi einstakling og hún hefði trúað því sem ákærði sagði um athugasemdir hennar. Brotaþoli hefði átt sérherbergi en ýmist sofið uppi í hjá ákærða eða þá inni hjá sér. Kvaðst hún telja að það gætu verið um fimm ár síðan brotaþoli fór að sofa uppi í hjá ákærða en stundum hefði yngri dóttir þeirra einnig sofið hjá ákærða og brotaþola. Taldi hún að frásögn brotaþola um það hversu oft hún hefði sofið í rúmi ákærða vel geta staðist. Þá hefði brotaþoli einnig farið oft með ákærða út í „buskann“, eða út í skógræktina sem ákærði annaðist. Aðspurð kvaðst hún ekki vita til þess að brotaþoli hefði átt kærasta né vera farin að lifa kynlífi. Skýrði hún frá því að hún hefði borið á ákærða að samband hans og brotaþola væri óeðlilegt og í framhaldi af því hefðu hún og ákærði ekki deilt rúmi saman. Ekkert sérstakt hefði komið til svo að henni hafi fundist samband þeirra óeðlilegt, en sem dæmi hefði brotaþoli verið læst inni á baðherbergi á meðan ákærði var í baði. Hefði ákærði sagt henni að þetta væri eðlilegur hlutur og viðgengist víða. Taldi hún þetta tilvik hafa verið þegar brotaþoli var um tíu til ellefu ára gömul. Eftir þann atburð hefðu þau hætt að deila herbergi. Taldi hún að brotaþoli hefði síðast sofið inni hjá ákærða um viku áður en hún gaf skýrslu hjá lögreglu. Aðspurð um smokkaeign ákærða, kvaðst hún hafa komist að því í byrjun árs 2007 að hann ætti smokka en þá hefðu þau haft samfarir í tvö skipti. Ákærði hefði þá notað smokka. Aðspurð um það hvort hún hafi orðið vör við einhverjar breytingar hjá brotaþola, kvaðst hún hafa orðið vör við breytingar þegar hún var sex ára en þá hefði hún farið á fæðingardeildina og hefði kennari þá sagt sér að hátterni brotaþola hefði breyst og kvartað hefði verið undan henni. Hefði hún lagast þegar B kom aftur heim. Um níu ára aldur hefðu unglingastælar byrjað hjá brotaþola, hún hefði viljað gista hjá vinkonum og einhvers konar gelgjuástand byrjað. Kvað hún brotaþola hafa átt það til að búa til alls konar sögur í gegnum tíðina en ekki skrökvað upp á fólk. Aðspurð um líðan brotaþola kvað B síðasta hálfa mánuðinn hafa verið skelfilegan. Brotaþoli hefði þá fengið sms frá ákærða þar sem hann segðist sakna hennar og elska. Síðastliðið ár væri búið að vera mjög erfitt, brotaþoli væri búin að vera mjög hrædd, hún hafi fengið martraðir og átt mjög erfitt. Aðspurð um húsaskipan og gólfefni að Y, kvað B marra í gólffjölum þegar gengið væri um en það væri ekkert sérstaklega hljóðbært á milli herbergja. Það færi hins vegar eftir aðstæðum, veðri, umgangi o.fl. Aðspurð um fóðurgeymsluna kvað hún kálfafóður vera geymt þar auk þess sem hún væri með frystikistu þar. Hún færi ekki oft þangað. Aðspurð kvaðst hún hafa flutt frá Y í desember 2007 og búi nú í skólanum að [...]. Aðspurð um heilsufar brotaþola á árum áður, kvað hún hana oft hafa kvartað en aldrei svo að þurft hafi að leita læknis. Hún hafi alltaf sótt skólann vel. Brotaþoli hafi verið fullmikið klæmin miðað við aldur við heimilisfólk, fannst B.
IV.
Ákærða er gefið að sök kynferðisbrot gagnvart stjúpdóttur sinni, með því að hafa á árinu 1998, þegar brotaþoli var fimm ára gömul, og fram til ársins 2004, í tugi skipta á heimili þeirra káfað á brjóstum telpunnar og kysst hana, meðal annars á brjóstin. Þá er ákærða einnig gefið að sök að hafa, frá árinu 2004 til októbermánaðar 2007, tvisvar til þrisvar sinnum í viku, haft samræði við brotaþola, sem þá var ellefu til fjórtán ára gömul. Hafi kynferðismökin oftast átt sér stað í svefnherbergi ákærða á heimili þeirra en einnig í fóðurbætisgeymslu og skógrækt á jörðinni Y. Ákærði neitaði sök fyrir lögreglu og dómi. Kvað hann brotaþola oft hafa sofið í rúmi sínu en það hefði yngri dóttir hans einnig oft gert. Þá væri svo hljóðbært í húsinu að útilokað væri að lifa kynlífi í hjónaherberginu öðruvísi en það heyrðist á milli herbergja. Þá væri fráleitt að hann hefði stundað kynlíf í fóðurgeymslunni þar sem móðir brotaþola kæmi oft þangað þar sem þau væru með frystikistu þar í geymslu. Ákærði kvaðst ekki þekkja brotaþola af lygi en hún hafi átt til að stríða bræðrum sínum. Framburður brotaþola, sem tekinn var upp í Barnahúsi, var trúverðugur. Var framburður hennar eins og hún væri að lýsa eðlilegri háttsemi sem hún hefði alist upp við frá því hún myndi eftir sér. Þó kvaðst hún hafa vitað frá upphafi að háttsemi stjúpföður hennar væri ekki eðlileg en hann hefði strax í upphafi sagt henni að þetta væri leyndarmál þeirra.
Með hliðsjón af vottorði Jóhönnu Jónasdóttur læknis og vitnisburði hennar fyrir dóminum, svo og greinargerð og vitnisburði Ólafar Ástu Farestveit, telur dómurinn útilokað að fjórtán ára barn hafi getað skáldað slíka frásögn sem stúlkan lýsti í Barnahúsi. Hvernig líkamlegt ástand brotaþola var við læknisskoðun, svo og heilsufar síðastliðið ár, verður ekki skrifað á neitt annað en mikla kynferðislega misnotkun og andlega erfiðleika í kjölfari. Ekkert kom fram fyrir dóminum sem rýrir frásögn brotaþola, þrátt fyrir að hún gæti ekki lýst einstaka samförum, enda hafi hvert tilvik verið öðru líkt. Þá rennir sú staðreynd frekari stoðum undir frásögn brotaþola að bæði ákærði og móðir brotaþola staðfestu fyrir dóminum að brotaþoli hafi sofið í hjónarúminu hjá ákærða allt eins og inni í sínu herbergi eða hjá móður sinni. Sú staðreynd að móðir brotaþola deildi ekki herbergi með ákærða frá því að brotaþoli var um tíu eða ellefu ára gömul eykur enn á líkurnar fyrir því að ákærði hafi átt möguleika á að misnota brotaþola þó svo að það eitt og sér sé ekki næg sönnun.
Ákærði er sakaður um að hafa frá árinu 1998, allt til ársins 2004, í tugi skipta á heimili þeirra káfað á brjóstum telpunnar og kysst hana, meðal annars á brjóstin. Er háttsemi þessi talin varða við 2. mgr. 201. gr. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þrátt fyrir að frásögn brotaþola um þessa háttsemi ákærða sé trúverðug, þá er ekkert frekar fram komið í málinu sem styður þennan framburð utan skýringar móður hennar á breyttri hegðun hennar við sex ára aldur þegar móðirin lá á fæðingardeildinni. Gegn neitun ákærða og þar sem ekkert er fram komið í málinu sem styður óljósan framburð brotaþola, verður ekki talið að lögfull sönnun sé fram komin um þennan ákærulið. Verður af þeim sökum að sýkna ákærða af þeirri háttsemi.
Ákærði er sakaður um að hafa, allt frá árinu 2004 til októbermánaðar 2007, tvisvar til þrisvar sinnum í viku, haft samræði við brotaþola, sem þá var 11 til 14 ára gömul. Í framburði brotaþola kemur fram að hana minnti að fyrstu samfarirnar hafi verið í febrúar eða mars þegar hún var ellefu ára gömul. Brotaþoli er fædd [...] 1993 og var því ellefu ára 2004. Brotaþoli kvað ákærða hafa fyrst haft samfarir við sig þegar hún var ellefu ára gömul, í febrúar eða mars, og ekki notað smokka fyrr en eftir að hún var byrjuð á blæðingum en hún hefði byrjað á þeim á tólf ára afmælisdaginn sinn. Ekkert liggur fyrir í málinu sem sannar að samfarirnar hafi verið tvisvar til þrisvar í viku þau ár sem misnotkunin átti sér stað, en það breytir engu um háttsemina, hvort þetta gerðist oftar eða sjaldnar, frásögn brotaþola um að þetta hafi gerst mjög oft eða tvisvar til þrisvar í viku, bendir fastlega til að ákærði hafi haft við hana samfarir nokkuð reglulega þessi ár. Staðfestir framburður Jóhönnu Jónasdóttur, um að leggöng stúlkunnar hafi verið eins og hjá konu sem hafi lifað reglulegu kynlífi í mörg ár, þá frásögn hennar. Sú frásögn ákærða að hann hafi fróað sér í rúminu og notað við það smokka til að auka á fjölbreytnina er afar ótrúverðug. Sæðisblettirnir í rúmfötum ákærða styður þann framburð brotaþola að ákærði hafi yfirleitt fengið sáðlát fyrir utan líkama hennar. Þá bendir vitnisburður F, systur ákærða, til að ákærði hafi kynferðislegar hvatir til barna.
Að þessum niðurstöðum fengnum þykir fullsannað, með trúverðugum framburði brotaþola, vitnisburði og vottorði Jóhönnu Jónasdóttur læknis um líkamlegt ástand brotaþola, vitnisburði og vottorði Ólafar Ástu Farestveit og B móður brotaþola um andlegt ástand stúlkunnar auk vitnisburðar B um samskipti stúlkunnar og ákærða, að ákærði hafi framið þann verknað sem lýst er í ákærulið II og verður hann sakfelldur fyrir þá háttsemi. Er háttsemin réttilega heimfærð til refsiákvæða. Ákærði, sem er fæddur 1970, á sér ekki nokkrar málsbætur. Hefur hann með háttsemi sinni brotið mjög alvarlega gegn ungu barni sem honum var treyst og trúað fyrir í mörg ár og með þeim afleiðingum að hann hefur rúið barnið æsku sinni og þeim möguleika að lifa eðlilegu lífi í sátt við sjálfa sig, aðra og umhverfi. Misnotaði ákærði gróflega þann trúnað sem brotaþoli sýndi honum og þá virðingu sem hún bar einnig fyrir honum sem uppalanda. Þá braut ákærði á brotaþola á heimili hennar þar sem hún átti að eiga öruggt skjól og vernd fyrir slíkri misnotkun. Voru brotin fallin til þess að valda brotaþola verulegum skaða og átti ákærða að vera það fyllilega ljóst. Á það verður að líta að hluti háttseminnar var framinn fyrir breytingu á hegningarlögum, sem samþykkt voru með lögum nr. 61/2007 þann 17. mars 2007, en samkvæmt 1. mgr. 202. gr. laga nr. 19/1940 er refsing við brotinu nú að lágmarki eins árs fangelsi og að hámarki sextán ára fangelsi. Með vísan til alls þessa, sbr. og 1., 2., 6. og 7. tl. 1. mgr. 70. gr. og 3. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940, er refsing ákærða ákveðin fangelsi í átta ár.
V.
Í málinu gerir brotaþoli kröfu um miskabætur að fjárhæð 5.000.000 króna úr hendi ákærða auk vaxta. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir að hafa, gróflega og á mjög ófyrirleitinn hátt, brotið gegn brotaþola með þeim afleiðingum sem lýst er hér að framan. Samkvæmt vætti Ólafar Farestveit, sem hafði fram að aðalmeðferð málsins, hitt brotaþola þrettán sinnum, hefur háttsemin valdið brotaþola gríðarlegri andlegri vanlíðan. Hafi hún á tímabili verið með sjálfsvígshugmyndir og hefði Ólöf verið hrædd um hana á tímabili. Segir Ólöf að brotaþoli geti nú þegar alls ekki horft um öxl og rifjað upp æskuárin utan leikskólatímabilið. Þá sé enn ekki hægt að vinna úr né ræða brotin sem framin voru gegn henni. Eingöngu náist að vinna með hennar brotnu sjálfsmynd og að finna fótfestu fyrir hana í lífinu. Kvaðst Ólöf munu halda áfram að hitta brotaþola um ókomna tíð þar sem hún eigi langt í land með afleiðingar misnotkunarinnar. Þá sé mjög algengt að stúlkur, sem hafi svipaða reynslu og brotaþoli, eigi í miklum erfiðleikum með kynferðislegt samband á unglings- og fullorðinsárum og þá geti einnig komið upp erfiðleikar í tengslum við barnsfæðingar hjá konum sem hafa sætt kynferðislegri misnotkun. Um lagarök er vísað til 4. og 26. gr. laga nr. 50/1993. Engin gögn hafa verið lögð fram sem sýna fram á varanlegan miska skv. 4. gr. Með vísan til þeirra afleiðinga sem brotið hefur nú þegar haft á brotaþola og þess að hún mun í ókominni framtíð eiga í erfiðleikum með að vinna úr afleiðingum brotsins, eru bætur til hennar samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga taldar hæfilega ákveðnar 3.000.000 króna. Ber sú fjárhæð vexti eins og í dómsorði greinir en ekki er að sjá að bótakrafan hafi verið kynnt ákærða fyrr en við þingfestingu málsins.
VI.
Með vísan til 165. gr. laga nr. 19/1991, skal ákærða gert að greiða þrjá fjórðu hluta sakarkostnað, en einn fjórði hluti hans skal greiddur úr ríkissjóði. Samkvæmt yfirliti er sakarkostnaður 747.352 krónur. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns eru ákveðin 477.582 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og ferðakostnaður 40.500 krónur. Þóknun réttargæslumanns brotaþola, Feldísar L. Óskarsdóttur héraðsdómslögmanns er ákveðin 269.364 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Sigríður Friðjónsdóttir saksóknari sótti málið af hálfu ákæruvaldsins.
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan, ásamt Ásgeiri Magnússyni héraðsdómara og Hirti O. Aðalsteinssyni dómstjóra.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í átta ár.
Ákærði greiði þrjá fjórðu hluta sakarkostnað sem er samtals 1.534.798 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 477.582 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti auk ferðakostnaðar 40.500 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Feldísar L. Óskarsdóttur héraðsdómslögmanns, 269.364 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti en einn fjórði hluti sakarkostnaðar skal greiddur úr ríkissjóði.
Ákærði greiði A 3.000.000 króna í skaðabætur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. apríl 2004 til 13. desember 2008 en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.