Hæstiréttur íslands

Mál nr. 536/2002


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Húsbrot
  • Skilorð


Fimmtudaginn 27

 

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003.

Nr. 536/2002.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari)

gegn

X

(Brynjar Níelsson hrl.)

 

Líkamsárás. Húsbrot. Skilorð.

X var ákærður fyrir líkamsárás með því að hafa veist að þáverandi eiginkonu sinni og fyrir húsbrot með því að hafa brotist inn á heimili hennar. Frásögnum X og konunnar um árásina bar ekki saman. Játaði X að hafa slegið konuna nokkrum sinnum, þar á meðal í andlitið. Var ekki sýnt fram á að atlaga X hafi verið jafn ofsafengin og konan hélt fram. Samkvæmt því var X sakfelldur fyrir minni háttar líkamsárás og húsbrot. Var refsing hans ákveðinn fangelsi í 9 mánuði, en fullnustu 6 mánaða af refsivistinni frestað skilorðsbundið í tvö ár.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 27. nóvember 2002 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og refsing hans þyngd.

Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð og skilorðsbundin.

I.

Í I. kafla ákæru er ákærða gefið að sök að hafa framið líkamsárás á þáverandi eiginkonu sína 28. apríl 2001, með þeim hætti sem þar er nánar rakið. Í lýsingu á brotinu kemur fram að hann hafi í umrætt sinn meðal annars þrýst kodda að vitum hennar, sem talið var ósannað í hinum áfrýjaða dómi. Af hálfu ákæruvalds var tekið fram við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti að ekki væri krafist endurskoðunar héraðsdóms að þessu leyti.

Ákæruvaldið krefst þess að líkamsárásarbrot ákærða verði heimfært til 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum, en ekki 1. mgr. sömu greinar, eins og héraðsdómur gerði í niðurstöðu sinni, og refsing þyngd í samræmi við það. Ákærði ber því hins vegar við að líkamsárásin og afleiðingar hennar hafi verið með þeim hætti að fella eigi brotið undir 217. gr. laganna. Þá beri að milda refsinguna auk þess sem hún verði skilorðsbundin að öllu leyti, sem sé í meira samræmi við marga dóma Hæstaréttar, sem hafi fallið í sambærilegum eða alvarlegri líkamsárásarmálum.

II.

Ákærði gaf stutta skýrslu fyrir lögreglu 29. apríl 2001, þar sem hann gekkst við því að hafa slegið konuna nokkrum sinnum, þar á meðal í andlitið. Í annarri lögregluskýrslu 7. desember sama árs kvaðst hann að auki hafa slegið hana með krepptum hnefa, en neitaði að hafa lokað fyrir öndun hennar. Ákærði vísaði einungis til þessara skýrslna þegar hann kom fyrir dóm og tjáði sig ekki frekar um sakargiftir. Í málsvörn ákærða var því hins vegar mótmælt að hann hafi tekið báðum höndum um háls konunnar og þrýst að eða að hann hafi haft ásetning til að hindra öndun og skaða hana þannig. Hann kunni þó að hafa tekið með annarri hendi um háls hennar. Telur ákærði lýsingu læknis á áverkum á hálsi konunnar ekki styðja staðhæfingu hennar um að hann hafi tekið hana þrívegis kverkataki og hert að svo henni hafi legið við köfnun.

Af hálfu ákærða liggur ekki fyrir full játning á þeirri háttsemi, sem honum er gefin að sök í I. kafla ákærunnar. Læknir á Landspítala-háskólasjúkrahúsi gaf út vottorð um þá áverka, sem fyrrum eiginkona ákærða bar eftir atlögu hans, og skýrði læknirinn það nánar fyrir dómi. Áverkarnir á hálsi hennar voru ekki miklir, svo sem nánar er lýst í héraðsdómi, og sýnir læknisvottorðið eða skýrsla læknisins ekki fram á að atlaga ákærða hafi verið jafn ofsafengin að þessu leyti og brotaþolinn heldur fram. Önnur atriði eru heldur ekki fram komin, sem stutt geti að framangreint brot ákærða verði heimfært til 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Afleiðingar árásarinnar urðu ekki slíkar að 1. mgr. sömu greinar laganna geti átt hér við. Verður brotið samkvæmt því fellt undir 217. gr. þeirra. Niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu samkvæmt II. kafla ákæru vegna húsbrots ákærða 30. október 2001 verður staðfest með vísan til forsendna hans.

Árás ákærða 28. apríl 2001 var hrottaleg og tilefnislaus. Hún var framin í herbergi, sem ákærði hafði læst, þannig að konan átti ekki undankomu auðið. Háttsemi ákærða var því sérstaklega vítaverð. Var hann þá í miklu ójafnvægi af ástæðum, sem nánar eru raktar í héraðsdómi. Það getur þó ekki afsakað háttsemi hans eða leitt til að taka beri tillit til þess sérstaklega við ákvörðun refsingar. Ákærði hefur ekki áður sætt refsingu, sem hér skiptir máli. Að gættum öllum atvikum málsins, sbr. einnig 77. gr. almennra hegningarlaga, er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í níu mánuði. Rétt er að fresta fullnustu sex mánaða af refsivistinni og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu þessa dóms ef ákærði heldur almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest, svo og ákvæði hans um skaðabætur, en hvorugur aðilanna krefst endurskoðunar á niðurstöðu héraðsdóms um þann þátt málsins.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins svo sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í 9 mánuði. Fresta skal fullnustu 6 mánaða af refsingunni og sá hluti hennar falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu þessa dóms ef ákærði heldur almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað og skaðabætur skulu vera óröskuð.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. október 2002.

   Mál þetta, sem dómtekið var 20. september sl., er höfðað samkvæmt ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík hinn 14. febrúar 2002 á hendur X fyrir eftirtalin brot framin í Reykjavík árið 2001:

I.

Líkamsárás, laugardagskvöldið 28. apríl, með því að hafa veist að þáverandi eiginkonu sinni, Y, á heimili þeirra að [...], slegið hana margsinnis í höfuð og andlit, þrýst kodda að vitum hennar, tekið þrívegis um háls hennar og hert að og lokað þannig fyrir öndun, með þeim afleiðingum að hún bólgnaði og marðist í andliti, bólgnaði á höfði og hálsi, hlaut skurð á vinstra eyra og á höfði, blæðingu á hæra auga og tognaði á vinstri kjálkalið.

Þetta er talið varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 20/1981.

II.

Húsbrot með því að hafa, aðfaranótt þriðjudagsins 30. október, brotið svala­glugga íbúðar á efri hæð hússins [...], heimili Y, og ruðst heimildarlaust þar inn.

Þetta er talið varða við 231. gr. almennra hegningarlaga.

Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Verjandi ákærða krefst þess að ákærða verði einungis dæmd vægasta refsing sem lög framast leyfa og að bótakröfu verði vísað frá dómi. Loks krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins.

Y krefst skaðabóta að fjárhæð 533.300 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 28. apríl 2001 til 1. júlí 2001 og samkvæmt lögum nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Ákæruliður I

Málsatvik

Laugardagskvöldið 28. apríl 2001 kl. 21.10 barst tilkynning til lögreglu um heimilisófrið að [...], sem er lítið fjölbýlishús. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu voru útidyr á efri hæð til hægri opnar þegar að var komið og kom ákærði, X, til móts við lögreglumenn og bauð þeim inn. Brotaþoli Y var í svefnherbergi. Hún var illa útleikin í andliti, sprungin vör, rauð á hálsi og talsvert blóðug í andliti. Var rætt við þau bæði. Annar lögreglubíll kom á vettvang og var ákærði handtekinn grunaður um líkamsárás. Virtist hann ölvaður og í annarlegu ástandi, var hann með sár á hnúa baugfingurs hægri handar sem blæddi úr. Blóð var á gólfi og rúmi í svefnherbergi. Y var flutt á slysadeild. Hún skýrði svo frá að ákærði hefði orðið æstur og ráðist á sig. Hann væri á róandi lyfjum og hefði drukkið áfengi. Kvað hún hann aldrei áður hafa beitt hana ofbeldi þó að hann hefði orðið mjög æstur. Hún kvað son þeirra 17 ára hafa verið heima en vera farinn út.

Í handtökuskýrslu sem skráð er kl. 22.15 sama kvöld kemur fram að ákærði hafi verið handtekinn kl. 21.20 og hafi hann þá virst vera mjög ölvaður og í annarlegu ástandi. Tjáði hann lögreglumönnum að hann hefði byrjað að taka inn nýja tegund geðlyfja fyrir nokkrum dögum og að hann hefði drukkið svolítið áfengi þá um kvöldið. Kvaðst hann hafa setið með konu sinni inni í stofu þegar hann hefði allt í einu stokkið upp og barið hana nokkur högg í framhaldi af rifrildi þeirra.

Daginn eftir kærði Y ákærða fyrir líkamsárás og tilraun til að ráða sig af dögum. Ákærði viðurkenndi að hafa slegið hana og veitt henni áverka, en neitaði að hafa reynt eða haft í hyggju að bana henni.

Sönnunargögn

Morguninn eftir kl. 09.46 var ákærði yfirheyrður um atburðinn. Hann skýrði svo frá að kvöldið áður hefði Y óskað eftir skilnaði og hefði hann reiðst því mjög. Hann kvað sér ekki hafa liðið vel undanfarið og hefði þess vegna verið nýbyrjaður á geðlyfjum. Kvaðst hann hafa tekið tvær töflur á laugardagsmorguninn. Einnig hefði hann verið búinn að drekka um hálfa flösku af vodka. Kvaðst hann minnast þess að hafa slegið Y nokkrum sinnum í andlitið í bræði sinni. Meira kvaðst hann ekki hafa um málið að segja.

Hinn 7. desember sama ár var ákærði aftur yfirheyrður hjá lögreglu vegna málsins. Vildi hann lítið tjá sig og vísaði í skýrslu sína frá 29. apríl. Hann hafnaði ásökunum Y um að hafa ítrekað gripið um háls hennar og haldið kodda fyrir andliti hennar. Hann kvaðst ekki hafa reynt að loka fyrir öndun hjá henni, en kvaðst hafa slegið hana nokkrum sinnum í andlitið með krepptum hnefa. Hann neitaði að hafa ætlað að ráða henni bana eða að hafa sagt það við hana. Hann kvað þá áverka sem lýst er í áverkavottorði geta verið af sínum völdum og kannaðist við að hafa veitt henni þá áverka sem sjást á myndum af henni sem teknar voru á slysadeild. Hann kvaðst ekki getað svarað því hver ástæðan fyrir árásinni hefði verið. Hann kvaðst vera til meðferðar og greiningar á geðdeild Landspítala. Honum var kynnt framkomin bótakrafa Y, kvaðst hann ekki tilbúinn til að taka afstöðu til hennar.

Í lögregluskýrslu sem tekin var af kæranda sunnudaginn 29. apríl kl. 18.35 er þess getið að hún hafi þá greinilega verið bólgin í andliti, með glóðaraugu á báðum og sár á höfði og bak við eyra sem höfðu verið saumuð. Sakaði hún ákærða fyrir vísvitandi tilraun til manndráps og lýsti atvikum svo að hann hefði ítrekað gripið um háls hennar og lokað þannig fyrir öndum a.m.k. þrisvar sinnum á meðan á átökunum stóð og einu sinni hafi hann haldið kodda fyrir andliti hennar þannig að hún gat ekki andað. Hann hafi einnig slegið hana ítrekað með krepptum hnefa í andlit, höfuð og háls. Var hún ekki í vafa um að hann hefði ætlað að drepa hana og kvað hann hafa sagt það ítrekað. Hún kvaðst hafa sagt honum á föstudeginum að hún vildi skilja við hann. Hann hefði verið ölvaður allan laugardaginn og áður en hann réðst á hana hefði hann verið búinn að hóta því að svipta sjálfan sig lífi. Hann hefði læst þau inni í herberginu þar sem hann misþyrmdi henni. Hún taldi víst að sonur hennar Z, sem var 18 ára, hefði bjargað lífi hennar. Hann hefði reynt að sparka upp hurðinni og hefði öskrað á föður sinn og hann hefði einnig hringt á lögregluna. Kvað hún lögregluna hafa komið á meðan ákærði var enn að misþyrma henni í herberginu. Hún kvað ákærða hafa verið veilan á geði undanfarið, verið á þunglyndislyfjum og drukkið ofan í þau og þá oft fengið skapofsaköst. Sagði hún frá atviki sem átt hefði sér stað í júlí 1999, þegar hann hefði kveikt eld inni í íbúðinni og hótað að brenna hana inni. Hefði hún þá þurft að leita til bráðamóttöku Landspítalans.

Lögð hafa verið fram í málinu þrjú áverka- og læknisvottorð. Í vottorði Theodórs Friðrikssonar, sérfræðings á slysadeild Landspítala Fossvogi, dagsettu 1. nóvember 2001, er lýst ástandi Y við komu á slysadeild að kvöldi 28. apríl sama ár. Þar er skráð að hún lýsi því að eiginmaður hennar hafi veitt henni þá áverka sem hún bar með því að slá hana ítrekað í andlit og að hann hafi reynt að kyrkja hana. Segi hún hann hafa slegið sig í gólfið, en hún hafi ekki rotast og að hún telji sig muna flest sem gerðist. Hafi hún kvartað yfir miklum eymslum í andliti og hálsi. Hún hafi ekki fundið til ógleði, svima eða sjóntruflana né haft önnur einkenni alvarlegra höfuðáverka.

Líkamsáverkum er þannig lýst að hún sé aum við þreifingu framanvert á hálsi yfir mjúkvefjum, nánast frá eyra til eyra. Hún hafi ekki sagst finna fyrir öndunar­erfiðleikum né eiga erfitt með kyngingu eða tal. Það hafi verið byrjandi bólga á hálsi en ekki mikil áverkamerki að sjá. Hreyfingar í hálsi hafi verið góðar, en sársauki þegar höfuðið var sveigt aftur og taki þá í þar sem sem hún sé með eymslin á hálsinum. Hún hafi verið blóðug í andliti þar sem blóð hafði runnið úr nefi og sprunginni vör. Talsverð bólga yfir báðum kinnbeinum, yfir nefi og vinstra megin á efri vör. Bólgin yfir neðri kjálka báðum megin, þó sýnu mest vinstra megin. Byrjandi mar hafi verið að sjá dreift um allt andlitið. Á innanverðu hægra auga hafi verið blæðing í augnhvítuna. Dreifð þreifieymsli yfir andlitsbeinum sérstaklega yfir nefbeini og vinstra kjálkabeini. Hún hafi lýst erfiðleikum við að opna munninn og átt erfitt með að meta hvort bit væri rétt. Engin áverkamerki hafi verið að sjá í munnholi. Í hársverði hafi verið bólgusvæði á tveimur stöðum og einn lítill skurður sem talsvert hafi blætt úr. Talsverð blóðstorka hafi verið í hári. Á vinstra eyra hafi verið 2 sm langur skurður. Talsverð bólga hafi verið yfir nefi en það ekki áberandi skakkt, skekkju á nefi hafi hins vegar verið erfitt að meta vegna bólgunnar. Ekki hafi verið að sjá blæðingu í miðsnesi.

Röntgenmyndir af andlitsbeinum og neðri kjálka hafi verið eðlilegar. Saumuð hafi verið sár á eyra og á höfði.

Greining slysadeildar á áverkum hennar hafi verið “mar og yfirborðsáverkar á andliti. Mar og yfirborðsáverkar umhverfis augu. Sár í hársverði. Sár á höfði, grunur um nefbrot. Árásráverki af hendi annars manns og mar og yfirborðsáverkar á hálsi.” Tekið er fram í læknisvottorðinu að áverkar hennar séu í fullu samræmi við þá lýsingu sem hún hafi gefið af árásinni.

Við nánari skoðun á háls-, nef- og eyrnadeild Landspítala Fossvogi (HNE) var staðfest að ekki væri grunur um nefbrot eða önnur brot á andlitsbeinum.

Hinn 10. maí sama ár leitaði Y aftur á slysadeild út af smellum í kjálka. Í áverkavottorði HNE, dagsettu 22. júní 2001 og rituðu af Einari Hjaltested deildar­lækni þar, kemur fram að hún hafi leitað aftur á HNE 14. maí vegna óþæginda og verkjaseiðings í vinstra kjálkalið. Er því þannig lýst að henni finnist hún ekki geta opnað munninn að fullu og finni fyrir bólguhnútum í mjúkvefjum á höku og neðan við vinstri nös. Við skoðun hafi hún ekki verið með alveg jafna hreyfingu í kjálkaliðum. Ennig finnist mjúkvefjaþykkildi á höku og neðan við vinstri nös. “Þessi þykkildi eru sennilega eftirstöðvar mjúkvefjaáverka og mun þetta væntanlega hverfa á nokkrum vikum eða mánuðum. Hefur sennilega tognað á vinstri kjálkalið,” segir í vottorðinu. Var hún sett á bólgueyðandi lyf og bent á að leita til Karls Arnar Karlssonar tannlæknis, ef lyfin bæru ekki tilætlaðan árangur.

Samkvæmt ódagsettu vottorði Karls Arnar Karlssonar tannlæknis kom Y til hans 31. maí 2001 og átti þá erfitt með að opna munn og fann fyrir því þegar hún tuggði. Kvaðst hún ekki hafa náð að bíta á jaxlana fyrst eftir höggið, vera nú heldur skárri en geta mistuggið sig og fá þá verkjaseiðing í vinstri kjálka í 6-9 tíma. Eftir skoðun taldi læknirinn að líklega væri áverkabólga í liðnum og tognum á liðpoka, hugsanlega framskrið á liðþófa. Ráðlagði hann æfingar og bólgueyðandi verkjalyf. Við eftirlit 15. júní 2001 var hún mun betri en æfingar voru ráðlagðar áfram. Hún kom ekki í áætlaða endurkomu mánuði síðar.

Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslu vitnin Y brotaþoli, Theódór Friðriksson læknir, Guðmundur Örn Antonsson fyrrverandi lögreglu­maður, Kristína Sigurðardóttir lögreglumaður, Marinó Már Magnússon lögreglu­maður og A tölvunarfræðingur.

Ákærði, X, mætti fyrir dóminum við þingfestingu málsins og vísaði til og staðfesti skýrslur sem hann hefur gefið hjá lögreglu. Neitaði hann sök samkvæmt I. ákærulið að því leyti sem færi í bága við það sem hann þar hafði sagt. Við aðalmeðferð málsins neitaði hann alfarið að tjáð sig.

Kærandi, Y, kvaðst hafa verið gift ákærða en þau væru nú skilin. Hafi skilnaður verið í umræðunni veturinn 2001 og umræða um hann verið tekin upp aftur um það leyti sem atburðir máls þessa urðu. Hún lýsti hugar­ástandi ákærða, lyfjatöku og drykkju þennan dag eins og rakið er hér að framan. Sjálf kvaðst hún hafa verið önnum kafin við að ljúka ritgerð vegna MBA fjarnáms sem hún hafi verið í. Kvað hún ákærða hafa verið ósáttan við skilnað og hafi hann talað um sjálfsvíg. Hafi henni fundist hann vera að hóta sér með þessu og að reyna að fá hana til að breyta ákvörðun sinni. Hafi hún reynt að tala við hann en án árangurs og þá ákveðið að halda sínu striki og fara og vinna á skrifstofunni. Hún hafi farið heim um kvöldmatarleytið og hafi ákærði þá verið orðinn verulega drukkinn. Eftir kvöldmatinn hafi hann tekið lyf og ætlað að fara að sofa og hafi hún, að hans beiðni, lagst hjá honum meðan hann væri að sofna. Henni hafi hins vegar frekar fundist hann verða æstari en róast og því ákveðið, eftir tæpan klukkutíma, að fara fram. Hún hafi farið á baðherbergið og þegar hún komi svo aftur inn í svefnherbergið til að sækja fötin sín þá hafi virst renna æði á ákærða og hafi hann sagt við hana að það væri annar möguleiki í stöðunni, að hann þyrfti ekki að drepa sig, hann gæti drepið hana. Í því hafi hann skellt svefnherbergishurðinni aftur og snúið lyklinum, hann hafi ýtt hressilega við henni svo hún kastaðist á gólfið. Síðan hafi hann látið höggin dynja á henni og reynt að komast að hálsinum á henni. Kvaðst hún hafa notað hægri höndina til þess að reyna að skýla andlitinu og þá vinstri til þess að reyna að hindra hann í að komast að hálsinum að sér. Svona hafi þetta gengið í einhvern tíma en þá hafi hann náð tökum á hálsinum á henni og stöðvað öndun, en eftir einhverja stund hafi hún náð að losa sig með því að beita höndum sínum á hans þannig að hann missti takið. Þá hafi eltingaleikurinn haldið áfram, eða barsmíðar hjá honum, og hafi hann reynt að komast að hálsinum á henni og hún reynt að verja sig. Í annað skiptið sem hann hafi náð tökum á hálsinum á henni og náð að stöðva öndun, þá hafi hann verið búinn að koma sér betur fyrir þannig að honum hafði tekist að skorða hendurnar á henni þannig að hún gat ekki losað sig og hann hafi kropið yfir henni, þá hafi henni tekist að ná spyrnu í brjóstkassann á honum þannig að hann dottið aftur fyrir sig og hún hafi fengið tækifæri til að standa upp og hlaupa fram að dyrum. Hún kvaðst hafa orðið mjög svekkt þegar lykillinn reyndist vera skakkur í skránni sem hafi munað því að henni tókst ekki að komast út og ákærði náði henni henni aftur. Þá hafi hann hrint henni ofan á hjónarúmið, sem sé vatnsrúm, og í hamaganginum þegar hann hafi verið að berja til hennar og hún að reyna að verja sig, hafi símtól á náttborðinu farið af og hafi hún þá heyrt einhvern tala í símann. Taldi hún sig þá vita að Z væri að kalla á lögregluna, því meðan á þessu hafði staðið hefði hann verið að berja á hurðina og kalla til pabba síns og biðja hann um að opna og hefði hún heyrt hann segja að hann myndi kalla á lögregluna ef ákærði opnaði ekki. Hafi hún orðið mjög fegin. Þá hafi ákærði náð tökum á hálsinum á henni í þriðja skipti og stöðvað öndun. Hafi hann nú setið ofan á henni þannig að hún hafi ekki getað hreyft sig og ekki náð að beita höndunum. Hafi hún hugsað að nú væri öllu lokið, en svo reiðst sjálfri sér og tekið á öllu sem hún átti. Ef til vill vegna þess að þetta var vatnsrúm hafi henni tekist að mjaka sér til þannig að ákærði missti takið á hálsinum og hún hafi náð andanum aftur. Þá hafi henni fundist hann verða dálítið pirraður og hafi hann tekið kodda og lagt yfir höfuðið á henni og haldið honum þar einhverja stund. Þetta hafi hins vegar ekki alveg stöðvað loftstreymið hjá henni.

Taldi hún Z hafa hlaupið út eftir að hann hringdi á lögregluna og þá skilið útihurðina eftir opna. Hún kvaðst hafa heyrt kallað frammi og eins og hendi væri veifað hafi ákærði þá “snappað til baka” yfir í annan gír og staðið rólegur upp, gengið að svefnherbergishurðinni, tekið hana úr lás, opnað og farið fram, og kvaðst hún hafa heyrt hann kasta kveðju á lögregluna og segja: “Þið eruð komnir að sækja mig. Ég var að berja konuna mína.”

Nánar spurð um atlöguna kvað hún ákærða alltaf hafa beint höggum sínum að andlitinu á henni. Hún kvaðst hafa reynt að skýla sér með olnboganum og reynt að snúa höfðinu til hliðar, þar sem hún taldi þar vera sterkasta hluta andlitsins. Kvaðst hún í upphafi hafa hugsað um að verja nefið og tennurnar og augun.

Hún staðfesti að lýsing á áverkum hennar væri rétt í þeim læknisvottorðum sem rakin hafa verið, að öðru leyti en því að hún hefði í upphafi átt erfitt með öndun en verið betri þegar hún kom á slysadeild. Í einhverja daga á eftir hafi hún verið eins og með særing í hálsi. Hún kvaðst hafa tekið Íbufen að ráði tannlæknisins í marga mánuði til þess að ástand hennar yrði ekki krónískt, en síðan hætt því og reynt heita bakstra og fleira. Hún kvaðst núna ekki vera með verki nema þegar hún þreyttist eða hefði talað mikið eða þegar hún geispi. Hún kvaðst enn finna fyrir áverkanum í andlitinu þar sem hún varð verst úti.

Aðspurð kvað hún sér hafa virst þetta vera skyndihugmynd hjá ákærða. Hann hefði hótað henni lífláti í þeim svifum sem hann réðist á hana og síðan ekki talað meira, hún kvaðst ekki minnast þess núna sem segir í lögregluskýrslunni að hann hafi marg hótað henni á meðan á átökunum stóð. Hún kvaðst hafa talið sig vera í bráðri lífshættu á meðan á árásinni stóð. Hún hefði fundið til vanlíðunar vegna súrefnisskorts og fundist hún missa mátt, en henni hefði ekki sortnað fyrir augum. Hún kvaðst ekki vera viss um hvort ákærði hefði sett báðar hendur á háls hennar.

Aðspurð kvað hún ákærða ekki fyrr hafa lagt á hana hendur, en hann hefði fengið ofsaköst og skeytt skapi sínu á hlutum. Hún kvaðst hafa hvatt hann til að leita sér hjálpar, upphaflega eftir atvikið árið 1999, sem rakið er hér að framan, og þar sem vanlíðan hans hefði verið augljós. Taldi hún að hann hefði þó ekki farið til læknis fyrr en nokkrum dögum fyrir þennan atburð og síðan aftur eftir atvikið sem II. ákæruliður snýst um. Hún kvaðst ekki vita hvort hann hefði lokið þessum meðferðum.

Spurð um andlega líðan sína eftir árásina kvaðst hún vera mjög hrædd við ákærða. Hún kvað það hafa tekið sig hátt í ár að ná aftur tökum á sínu daglega lífi, og henni væri sagt að það myndi taka hana annað ár að ná sér að öðru leyti. Hún kvaðst vera í krefjandi starfi og hefði engan vegin verið fær um að sinna því fyrst á eftir. Hún hefði misst hæfileikann til að hugsa fyrir hlutunum. Hún hafi engar varnir og bresti í grát ef hastað sé á hana, vera slæm á taugum og fá magakrampa ef henni finnist eitthvað vera óþægilegt. Hún hafi ekki verið svona fyrir atburðinn og kvaðst vilja endurheimta fyrri styrk. Hún kvaðst hafa hætt námi sem hún var í við árásina. Hún hafi verið frá vinnu í einhvern tíma á eftir, hún hafi gert mistök og staðið sig illa og verið tekin úr einhverjum verkefnum, en hún þó mætt miklum skilningi á vinnustað. Hún hafi farið að ná aftur tökum á vinnunni upp úr síðustu áramótum.

Sonur ákærða og brotaþola, Z, kom fyrir dóminn en neytti réttar síns til að tjá sig ekki.

Vitnið, Theódór Friðriksson, læknir staðfesti áverkavottorð sem unnið er úr sjúkraskýrslu brotaþola. Hann kvaðst ekki hafa skoðað kæranda sjálfur þegar hún kom á slysadeild. Hann staðfesti að frásögn hennar af atburðinum gæti samrýmst þeim áverkum sem þar er lýst. Sérstaklega spurður kvað hann ekkert í vottorðinu vera ósamrýmanlegt þeirri lýsingu brotaþola, að tekið hafi verið um hálsinn á henni þannig að hún hafi ekki náð andanum en samt ekki sortnað fyrir augum eða misst meðvitund. Ekki þurfi að finnast önnur ummerki en eymsli og bólga. Spurður um marbletti kvað hann misjafn hversu fljótt og hvort þeir kæmu út.

Þeir lögreglumenn sem fyrstir komu á vettvang komu fyrir dóminn.

Vitnið, Guðmundur Örn Antonsson, sem á þessum tíma starfaði í lögreglunni, kvaðst muna eftir að hafa komið á vettvang ásamt vitninu Kristínu Sigurðardóttur, þau hafi farið inn og hann minnti að aðilinn, karlmaður, hefði komið og gefið sig á tal við þau. Nánar spurður taldi hann að maðurinn hefði opnað fyrir þeim eða jafnvel komið út. Hann kvaðst ekki muna hvar konan var, en það hefði verið blóð í svefnherbergi. Hann kvaðst hafa rætt við manninn í stofunni, en ekki muna orðaskipti þeirra. Síðan hafi tveir aðrir lögreglumenn komið á vettvang og maðurinn hafi verið handtekinn. Þeir hafi farið með hann á lögreglustöð, en sjálfur hafi hann, ásamt Kristínu, farið með konuna á slysadeild. Hann kvaðst ekki muna frekar eftir konunni, áverkum hennar eða ástandi.

Vitnið, Kristína Sigurðardóttir, lögreglumaður kvaðst muna eftir að hafa komið á vettvang. Kvað hún ákærða hafa komið út á móti þeim og verið rólegur. Nánar spurð kvað hún hann eiginlega hafa verið úti þegar þau komu og hafa boðið þeim inn og vísað á konuna í svefnherberginu, sem hefði legið þar illa haldin. Minntist vitnið þess að hafa verið hissa á því að þetta væri aðilinn sem hefði verið að berja konuna sína. Það hefði ekki verið eins og hann væri að fela eitthvað. Hún kvaðst hafa farið inn og talað við konuna, sem ekki hefði litið vel út. Talin hafi verið ástæða til að flytja hana strax á slysadeild. Hún kvaðst ekki muna hvað konan sagði um atburðinn.

Vitnið, A, sem er núverandi sambýlismaður brotaþola Y, kom fyrir dóminn vegna II. ákæruliðar og var hann þá einnig spurður um líðan hennar eftir árásina. Hann kvað þau hafa verið samstarfsmenn frá 1998. Hann kvað hana hafa átt dapurt ár eftir atburðinn. Hún hefði verið óvinnufær um tíma, niðurbrotin og taugatrekkt fyrir utan líkamlega áverka, einkum á kjálka. Kvað hann hana halda andliti en brynjan sé þunn, hún væri þó mikið að lagast.

Vitnið, Y, kom nú aftur fyrir dóminn að eigin ósk og upplýsti í tilefni af fyrri spurningu dómsins, að ákærði hefði hótað sér að þæfa skilnaðinn ef hún kærði málið eða drægi kæruna ekki til baka. Spurð nánar um aðstæður þegar lögregla kom á vettvang kvaðst hún hafa heyrt í eða skynjað þegar þau komu. Hún kvaðst muna að þá hafi ákærði farið fram á móti þeim. Aðspurð kvað hún Z taka aðstæður föður síns mjög nærri sér.

Niðurstaða ákæruliðar I

Ákærði hefur játað að hafa ráðist á þáverandi eiginkonu sína, Y, og veitt henni þá áverka sem í ákæru er lýst. Hann neitar hins vegar að hafa þrívegis tekið um háls hennar og þannig lokað fyrir öndun og að hafa þrýst kodda að vitum hennar. Þar sem ákærði neitar að skýra frá atburðarás og tjá sig fyrir dóminum verður ekki lagt mat á trúverðugleika framburðar hans. Þó má líta til þess að eftir honum er haft í handtökuskýrslu lögreglu “að hann hefði setið með konunni sinni inni í stofu þegar hann hefði allt í einu stokkið upp og barið konuna sína nokkrum höggum” í framhaldi af rifrildi þeirra. Það þykir hafið yfir allan vafa að þessi lýsing ákærða er röng þar sem ummerki voru um það að árásin hafði átt sér stað í svefnherberginu, og áverkar Y voru mun meiri en af þessari lýsingu mætti ætla.

Verjandi ákærða kvað ákærða telja að Y hefði upplifað árásina eins og hún lýsir vegna þess að hún sé dramatísk í eðli sínu, væri ákærði sár og reiður vegna ásakananna og vildi því ekki tjá sig. Benti verjandinn einnig á að hér stæði orð gegn orði og líklegt væri að líkamleg áverkamerki myndu hafa verið skýrari, ef ákærði hefði raunverulega tekið jafn oft og fast um háls Y og hún lýsir. Hélt verjandi því fram að heimfæra ætti brotið undir 217. gr. almennra hegningarlaga.

Í málinu liggur fyrir vottorð slysadeildar þar sem lýst er áverkum brotaþola Y. Samkvæmt vætti læknis, sem hér að framan er rakið, geta áverkarnir samræmst lýsingu hennar á atburðarás og verknaðarlýsingu í ákæru. Við komu á slysadeild kvartaði hún yfir miklum eymslum í andliti og hálsi, hún var aum við þreifingu framanvert á hálsi yfir mjúkverjum, nánast frá eyra til eyra, og það var merkjanleg byrjandi bólga á hálsi. Dómurinn telur að þeir áverkar sem Y var með á hálsi sýni ótvírætt að ákærði hafi tekið þar þéttingsfast á henni. Ljóst er af læknisfræðilegum gögnum málsins og ljósmyndum að árás ákærða var mjög harkaleg og upplýst þykir að hún hafi alfarið beinst að höfði og hálsi brotaþola.

Frásögn Y af atburðinum var skýr og trúverðug. Hún hefur frá upphafi, á slysadeild, í kæruskýrslu og fyrir dóminum, haldið því fram að ákærði hafi lúbarið sig í andlitið og þrisvar stöðvað öndun með því að taka um háls hennar og einu sinni þrýst kodda að vitum hennar, þá hafi hann sagst ætla að ráða henni bana. Lögregla var kvödd á staðinn af syni ákærðu og árásarþola og var Y illa haldin þegar komið var á vettvang. Þótti ástæða til að fara með hana á sjúkrahús þegar í stað. Þykir mega leggja frásögn Y til grundvallar, þó þannig að ósannað er gegn neitun ákærða að hann hafi þrýst kodda að vitum hennar.

Það er niðurstaða dómsins þegar allt þetta er metið sem hér hefur verið rakið, framburður Y, læknisfræðileg gögn, vætti læknis, lýsing lögreglumanna á aðkomu og viðbrögð ákærða, að sannað sé að ákærði hafi í greint sinn af ásetningi staðið að hættulegri atlögu að Y, m.a. ítrekað tekið á hálsi hennar og þannig lokað fyrir öndun og veitt henni þá fjöláverka sem þar eru tilgreindir. Samkvæmt framan­greindu er það niðurstaða dómsins að ákærði sé sekur um þá háttsemi sem í ákæru er lýst, að því undanskildu að hann er sýknaður af ákæru um að hafa þrýst kodda að vitum Y.

Árás eins og sú sem ákærði hefur hér verið sakfelldur fyrir, og beinist að höfði og hálsi, getur verið hættuleg lífi og heilsu brotaþola. Það er þó mat dómsins að ekki séu alveg næg efni til að fella verknaðinn undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningar­laga nr. 19/1940. Samkvæmt langri dómvenju hafa líkamsárásir verið felldar undir 217. gr. eða 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga eftir því hvort beinbrot hlýst af árás eða ekki. Ljóst má vera að alvarleiki líkamsárásar þarf ekki að ráðast einvörðungu af þessu. Beinbrot geta verið tiltölulega lítilfjörleg og árás getur verið alvarleg þó að beinbrot hafi ekki hlotist af henni. Verknaður sá sem hér um ræðir var hættulegur og árásin alvarlegri en svo að varði við 217. gr. almennra hegingarlaga. Telur dómurinn að þegar ofsafengin árás ákærða á Y er virt í heild og sérstaklega er haft í huga að atlagan að hálsi hennar gat haft mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér verði háttsemi ákærða heimfærð undir 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.

Ákæruliður II

Málsatvik og sönnun

Aðfaranótt þriðjudagsins 30. október 2001 kl. 05.27 var lögregla kvödd að [...], en þar hafði maður brotið sér leið inn í íbúð um svalahurð þar sem heimilisfólk var í svefni. Húsráðandi, A, skýrði lögreglu svo frá að hann hefði vaknað við þrusk á svölunum og farið fram úr rúminu, hann hefði heyrt brothljóð frá svalahurðinni og séð stóra manneskju sem hann bar ekki kennsl á, en dimmt hefði verið. Hann hefði þá gripið haglabyssu, sem þar var í herberginu, og yfirbugað mannveruna með því að slá hana í gólfið með byssuskeftinu og síðan taka hana hálstaki og snúa upp á hendurnar. Reyndist þar ákærði vera á ferð. Þegar lögregla kom á vettvang lá ákærði á gólfinu með skurð á enni og hnakka og blæddi úr. Hann var með meðvitund. Í íbúðinni voru einnig Y fyrrverandi eiginkona ákærða og sonur þeirra Z. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu skýrði Y frá því að hún hefði kvöldið áður rætt við ákærða í síma um fjármál þeirra sem voru óuppgerð vegna skilnaðarmáls og þá sagt honum að hún væri komin í sambúð með A, og hefði ákærði brugðist illa við þessu. Z skýrði lögreglu svo frá að hann hefði vaknað við brothljóð og læti og þegar hann kom fram hefði hann séð A halda föður hans fastataki á gólfinu. Ákærði var fluttur á slysadeild þar sem skurðir á hnakka og enni voru saumaðir og hann rannsakaður frekar. Er skráð í lögregluskýrslu að hann hafi greinilega verið mjög ölvaður og ekki talinn í ástandi til að gefa skýrslu. Að rannsókn lokinn var hann handtekinn. Síðar sama dag var ákærði tekinn til yfirheyrslu vegna málsins, en hann neitaði alfarið að tjá sig um atburðinn. Hinn 27. nóvember 2001 kærði Y ákærða fyrir húsbrot og eignaspjöll í umrætt sinn. Hinn 7. desember var ákærði aftur kallaður fyrir lögreglu vegna málsins en neitaði þá einnig að tjá sig um það. Hinn 12. desember var A yfirheyrður. Lýsti hann atburðarásinni eins og greinir í frumskýrslu og skýrði frá því að þegar hann var kominn með manninn í gólfið hafi Y og Z komið að kveikt ljósið og hafi hann þá fyrst séð hver þarna var á ferð.

Ákærði játaði skýlaust sök í þessum ákærulið fyrir dómi við þingfestingu málsins, en hefur ekki tjáð sig um hann að öðru leyti.

Vitnið Y kvaðst hafa talað við ákærða kvöldið áður vegna eignaskipta þeirra, hefði hún verið nýflutt til A, núverandi sambýlismanns síns. Hún kvaðst sofa mjög fast, en hafa vaknað við slagsmál á ganginum fyrir framan svefnherbergishurðina. Þetta hafi staðið stutt, ljósin hafi verið kveikt og Z sonur hennar hafi komið fram og kallað “pabbi” og hafi hún þá áttað sig á að þarna var ákærði á ferð. Hún kvaðst hafa hringt í lögregluna, en ekki komið nálægt ákærða. Hún kvað ástæðu þess að svo langur tími leið frá atburðinum og þar til hún kærði hann formlega vera að einhver misskilningur hefði komið upp er hún kom á lögreglustöð sama dag til þess að kæra, hefði hún skilið það svo að málið færi sjálfkrafa í kæru.

Vitnið A kvaðst yfirleitt sofa mjög laust. Einhvern tímann snemma um morguninn hafi hann heyrt eitthvert þrusk á svölunum fyrir utan svefnherbergið, hann hefði farið fram úr rúminu og séð að það var einhver að pukrast á svölunum. Hurð sé af svölunum inn í svefnherbergið og önnur inn á gang. Hann kvaðst hafa farið fram á ganginn og staðið þar, þá hafi þessi, sem var þarna að pukrast, brotist inn í gegnum hurðina sem sé meira og minna bara gler. Hann kvaðst ekki hafa vitað hvað var að gerast þarna. Það hefði verið dimmt og maðurinn verið með ljósið í bakið og hann hefði ekkert vitað hver þetta var. Hann hefði því stokkið inn í svefnherbergið og náð í það fyrsta og eina sem að hann hafði haldbært sem barefli til þess að verja sig og það hefði verið byssa, sem hann hafi verið að þurrka þarna eftir veiðiferð. Hann kvaðst hafa rokið með hana fram á ganginn og lamið þennan, sem þarna stóð fyrir framan hann, í höfuðið með henni og síðan gripið í höndina á honum og snúið hann niður, þá hafi Y komið fram úr og kveikt ljós. Hann kvaðst ekki hafa áttaði sig á því hver þetta var fyrr en að Z sonur Y og ákærða hafi komið fram á ganginn líka og kallað upp yfir sig “pabbi”.

Hann kvað þau Y hafa verið ný byrjuð sambúð þarna. Hann kvaðst hafa kannast við ákærða fyrir. Hann kvað hann ekki hafa ónáðað þau aftur utan að af og til hafi hann sent Y miður falleg SMS skeyti.

Vitnið Marinó Már Magnússon lögreglumaður kom á vettvang og skrifaði ítarlega frumskýrslu sem hann staðfesti fyrir dómi. Hann kvaðst ekki muna mikið frá þessu útkalli nú, en muna það að ákærði hafi legið þarna mjög ölvaður, eitthvað vankaður og í slæmu ástandi. Þarna hefðu verið fjórar manneskjur með ákærða og hurð eða gluggi á svölum við svefnherbergi hefði verið brotin. Hann kvað hafa verið tréstiga í garðinum sem ákærði hefði notað til að komast upp á svalirnar.

Niðurstaða ákæruliðar II

Ákærði hefur skýlaust játað sök samkvæmt þessum ákærulið og er sú játning í fullu samræmi við lögregluskýrslur og vitnaframburði fyrir dómi. Er hann fundinn sekur um þá háttsemi sem hann er þar ákærður fyrir og er fallist á heimfærslu brotsins til refsiákvæðis í ákæru.

Refsiákvörðun

Ákærði er fæddur árið 1960, hann hefur ekki hlotið refsingu utan að á árunum 1986 og 1987 gekkst hann tvisvar undir sátt, vegna umferðarlagabrots og áfengislaga­brots. Af gögnum málsins virðist ljóst að ákærði var ekki í góðu jafnvægi þegar brot þau sem hér er sakfellt fyrir áttu sér stað. Staðfest er að hann hafði í fyrra skiptið drukkið áfengi ofan í geðlyf og að hann var mjög drukkinn í síðara skiptið. Einnig er ljóst að hann hefur í bæði skiptin verið í uppnámi vegna hjónaskilnaðar ákærða og Y. Ekkert af þessu afsakar þó háttsemi ákærða og ber hann sjálfur ábyrgð á neyslu sinni og skapofsa. Verður því ekki séð að ákærði eigi sér neinar málsbætur. Hann hefur verið ósamvinnuþýður við meðferð málsins fyrir dómi og ekki reynt að skýra hegðun sína. Samkvæmt framkomu hans við aðalmeðferð málsins hefur hann ekki tekist á við vanda sem hann augljóslega á við að stríða.

Ákærði er sakfelldur fyrir alvarlega líkamsárás, með því að berja ítrekað í höfuð og með því að taka ítrekað um háls eiginkonu sinnar. Vakti hann þannig með henni ótta um líf sitt og heilsu. Hann er einnig sakfelldur fyrir að ryðjast síðar um nótt inn á heimili sömu konu, þá fyrrverandi eiginkonu sinnar, með því að brjóta sér leið um svalahurð. Refsing ákærða er ákveðin fyrir bæði brotin í einu lagi í samræmi við 77. gr. almennra hegningarlaga og þykir hæfilegt að ákærði sæti fangelsi í 12 mánuði. Í ljósi þess að hann hefur ekki gerst brotlegur frá árinu 1987 þykir þó mega fresta 9 mánuðum af refsingunni í 2 ár og skal refsingin falla niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Sakarkostnaður

Ákærði skal greiða allan sakarkostnað af máli þessu þar með talin málsvarnar­laun skipaðs verjanda hans Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns 100.000 krónur.

Skaðabótakrafa

Af hálfu Y er krafist skaðabóta að fjárhæð 533.300 krónur auk dráttarvaxta. Hefur hún sjálf sett fram kröfuna án lögfræðiaðstoðar. Krafan er rökstudd með vísan til þeirrar háttsemi sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir og er af kröfugerðinni sjálfri sem fylgir málinu ljóst að hún er gerð á hendur ákærða. Hann hefur hafnað bótakröfunni.

Krafan er þannig sundurliðuð:

Miskabætur                                                                                                                                    kr. 500.000

Þjáningabætur í 8 daga @ kr. 1.710 á dag                                                                                     “ 13.680

Útlagður læknis- og lyfjakostnaður                                                                                               “ 19.620

                                                                                                                                             Samtals “ 533.300

Kveðst hún hafa verið rúmliggjandi og frá vinnu frá og með 29. apríl til og með 6. maí 2001 eða í 8 daga. Vinnuvikuna 7. til 11. maí hafi hún aðeins getað mætt hluta úr degi til vinnu. Hún vísar til þeirra læknisvottorða sem gerð hefur verið grein fyrir hér að framan og ljósmynda sem teknar voru á slysadeild og einnig fylgja málinu. Þá er lögð fram staðfesting á viðveru á vinnustað og reikningar vegna útlagðs kostnaðar.

Um lagarök er vísað til 26. gr. skaðbótalaga nr. 50/1993 og varðandi þjáningabætur til 3. gr., sbr. 1. gr. og 15. gr. sömu laga. Um útlagðan kostnað er vísað til 1. gr. sömu laga.

Miskabætur þykja í samræmi við dómvenju hæfilegar 400.000 krónur, en að öðru leyti þykir mega taka kröfuna til greina eins og hún er fram sett með vöxtum svo sem nánar greinir í dómsorði. Dráttarvextir verða dæmdir frá 7. janúar 2002 en þá var liðinn mánuður frá því að ákærða var kynnt bótakrafan.

Af hálfu ákæruvaldsins var málið flutt af Elínu Vigdísi Hallvarðsdóttur fulltrúa lögreglustjóra.

Dóm þennan kveða upp héraðsdómararnir Hjördís Hákonardóttir, dóms­formaður og Eggert Óskarsson og Helgi I. Jónsson meðdómendur.

D Ó M S O R Ð :

Ákærði, X, skal sæta fangelsi í 12 mánuði. Fresta skal fullnustu 9 mánaða af refsingunni í 2 ár frá uppsögu dómsins að telja og skal hún falla niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningar­laga.

Ákærði skal greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.

Ákærði skal greiða Y, 433.300 krónur auk almennra vaxta samkvæmt vaxtalögum nr. 25/1987 frá 28. apríl 2001 til 1. júlí sama ár, en samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðbætur frá þeim degi til 7. janúar 2002, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.