Hæstiréttur íslands
Mál nr. 222/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Vanlýsing
- Sjóveðréttur
|
|
Mánudaginn 20. ágúst 2001: |
|
Nr. 222/2001. |
Olíufélagið hf. (Kristinn Hallgrímsson hrl.) gegn Sabit Crnac og Jónasi Kristjánssyni (Ástráður Haraldsson hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Vanlýsing. Sjóveðréttur.
O hf. kærði úrskurð héraðsdóms þar sem felld var úr gildi ákvörðun skiptastjóra í þrotabúi S ehf. (Þ) um að hafna viðurkenningu á nánar tilteknum kröfum S og J og lagt fyrir hann að úthluta þeim tilteknum fjárhæðum í skjóli sjóðveðréttar í skipinu K fyrir þeim kröfum. Með því að kröfur S og J voru taldar hafa orðið til fyrir upphaf gjaldþrotaskipta gat 5. töluliður 118. gr. laga nr. 21/1991 ekki átt við um þær. Þar sem kröfum þeirra var ekki lýst innan kröfulýsingarfrests samkvæmt 2. mgr. 85. gr. laganna gátu S og J ekki komið ofangreindum kröfum sínum að við gjaldþrotaskiptin og voru þær þannig niður fallnar gagnvart Þ. Af þeirri niðurstöðu leiddi að sjóveðréttur, sem S og J kunnu að hafa notið, var jafnframt niður fallinn. Var því kröfum S og J hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. júní 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 28. maí 2001, þar sem felld var úr gildi ákvörðun skiptastjóra í þrotabúi Sæunnar Axels ehf. um að hafna viðurkenningu á nánar tilteknum kröfum varnaraðila og lagt fyrir hann að úthluta varnaraðilanum Sabit Crnac 166.635 krónum og varnaraðilanum Jónasi Kristjánssyni 274.575 krónum í skjóli sjóveðréttar fyrir þeim kröfum í fiskiskipinu Kristjáni ÓF 51. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að staðfest verði ákvörðun skiptastjórans um að hafna viðurkenningu á kröfum varnaraðila, svo og að hafnað verði kröfu varnaraðila um viðurkenningu á sjóveðrétti fyrir kröfum þeirra í áðurnefndu skipi, sem nú heiti Njarðvík GK 275. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Varnaraðilar krefjast þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðili dæmdur til að greiða þeim kærumálskostnað.
I.
Fiskiskipið Kristján ÓF 51 mun hafa verið í eigu Sæunnar Axels ehf. og gert út til veiða af því. Bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta 7. desember 1999. Varnaraðilinn Sabit Crnac var þá meðal tíu undirmanna á skipinu, en varnaraðilinn Jónas Kristjánsson einn af fimm yfirmönnum. Veðbönd munu hafa hvílt á skipinu umfram gangverð þess og leitaði því skiptastjóri í þrotabúinu tilboða í það eftir ákvæðum 129. gr. laga nr. 21/1991. Barst tilboð frá sóknaraðila, sem bar ábyrgð á einni af áhvílandi veðskuldum, og var það samþykkt á veðhafafundi 17. janúar 2000. Tók sóknaraðili við skipinu næsta dag, en samkvæmt gögnum, sem hann hefur lagt fyrir Hæstarétt, seldi hann skipið öðrum 22. janúar 2000.
Skipverjar á skipinu, þar á meðal varnaraðilar, munu allir hafa lýst kröfum í þrotabú Sæunnar Axels ehf. vegna vangoldinna launa og launa í uppsagnarfresti innan kröfulýsingarfrests, sem lauk 22. febrúar 2000. Innan þess frests var að auki hreyft athugasemdum af hálfu skipverja í bréfum til skiptastjóra 22. desember 1999 og 20. janúar 2000 um að uppgjör úr nánar tilgreindum veiðiferðum skipsins á árinu 1999 væru röng. Var þetta jafnframt ítrekað eftir lok frestsins í bréfi 3. mars 2000. Ekki fengust frekari gögn frá þrotabúinu til að staðreyna réttmæti uppgjöranna, sem skipverjar töldu athugaverð, og leituðu þeir því til Verðlagsstofu skiptaverðs 14. mars 2000 með ósk um að hún legði þeim til gögn um þetta efni. Munu þau gögn hafa síðan fengist 27. apríl sama árs. Í framhaldi af því rituðu lögmenn skipverjanna skiptastjóra bréf 18. maí 2000, þar sem greint var frá þeirri niðurstöðu af athugunum þeirra að aflahlutur skipverjanna hefði verið vanreiknaður um nánar tilteknar fjárhæðir. Sagði í bréfinu að kröfum væri lýst um greiðslu þeirra fjárhæða þótt kröfulýsingarfrestur væri þá liðinn. Þetta var síðan áréttað í kröfulýsingum, sem beint var til skiptastjóra af hálfu yfirmanna á skipinu 24. maí 2000 og af hálfu undirmanna 31. sama mánaðar. Krafa varnaraðilans Sabit Crnac var þar sögð að fjárhæð 248.839 krónur, en krafa varnaraðilans Jónasar Kristjánssonar 441.590 krónur. Þess var og krafist að viðurkenndur yrði forgangsréttur fyrir þessum kröfum samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 og sjóveðréttur í skipinu á grundvelli 1. töluliðar 1. mgr. 197. gr. siglingalaga nr. 34/1985.
Skiptastjóri í þrotabúi Sæunnar Axels ehf. hélt skiptafund 2. júní 2000 til að fjalla um áðurnefndar kröfur skipverja. Sóknaraðili mótmælti þar að kröfurnar yrðu teknar til greina. Skiptastjórinn lýsti á fundinum þeirri afstöðu sinni að hafnað væri bæði að kröfunum yrði komið að við gjaldþrotaskiptin og að þeim fylgdi sjóveðréttur í Kristjáni ÓF 51. Að kröfu skipverjanna, sem fram kom á skiptafundinum, beindi skiptastjóri ágreiningi um þessi efni til Héraðsdóms Norðurlands eystra 6. júní 2000. Hinn 24. júlí sama árs var þingfest þar fyrir dómi mál um ágreiningsefnin, þar sem allir skipverjarnir fimmtán töldust sóknaraðilar, en Olíufélagið hf. varnaraðili. Úrskurður gekk í málinu fyrir héraðsdómi 29. nóvember 2000 og var hann kærður til Hæstaréttar. Með dómi réttarins 9. febrúar 2001 var úrskurðurinn ómerktur ásamt meðferð málsins fyrir héraðsdómi frá þingfestingu þess og því vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar. Þegar málið var til meðferðar fyrir héraðsdómi öðru sinni varð að samkomulagi að reka það til að fá eingöngu leyst úr ágreiningi um kröfu eins undirmanns og eins yfirmanns á skipinu. Urðu varnaraðilar þar fyrir valinu, en við munnlegan flutning málsins fyrir héraðsdómi var fjárhæð upphaflegra krafna þeirra lækkuð, þannig að krafa varnaraðilans Sabit Crnac nam 166.635 krónum og varnaraðilans Jónasar Kristjánssonar 274.575 krónum. Var því þá lýst yfir af sóknaraðila að ekki væri lengur uppi tölulegur ágreiningur milli aðilanna.
II.
Fallist verður á með héraðsdómara að kröfur varnaraðila hafi orðið til fyrir upphaf gjaldþrotaskipta á búi Sæunnar Axels ehf., þannig að 5. töluliður 118. gr. laga nr. 21/1991 geti ekki átt við um þær. Hvorki í þeirri lagagrein né öðrum ákvæðum laganna er að finna undanþágu handa þeim, sem kann að hafa verið ókunnugt um rétt efni kröfu sinnar á meðan fresti var ekki lokið til að lýsa henni, frá þeirri meginreglu, sem greinir í upphafi 118. gr. laga nr. 21/1991, að krafa á hendur þrotabúi falli niður ef henni er ekki lýst fyrir skiptastjóra innan kröfulýsingarfrests samkvæmt 2. mgr. 85. gr. laganna. Í því efni stoðar varnaraðilum ekki að vísa til þess að kröfum þeirra hafi í reynd verið lýst innan kröfulýsingarfrests með upphaflegri kröfugerð þeirra, sem hafi tekið mið af fyrirliggjandi upplýsingum á þeim tíma, enda var fjárhæð upphaflegu krafnanna önnur og lægri. Samkvæmt þessu geta varnaraðilar ekki komið að við gjaldþrotaskiptin þeim kröfum, sem þeir hafa nú uppi í máli þessu, og eru þær þannig fallnar niður gagnvart þrotabúinu.
Þótt kröfur varnaraðila, sem um ræðir í málinu, kunni að hafa verið þess efnis að þær gætu hafa notið sjóveðréttar í fiskiskipinu Kristjáni ÓF 51 samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 197. gr. siglingalaga, verður ekki horft fram hjá því að slíkur veðréttur gæti aðeins staðið til tryggingar kröfum, sem varnaraðilarnir ættu á hendur þrotabúi fyrrum vinnuveitanda síns og eiganda skipsins, Sæunnar Axels ehf. Samkvæmt áðursögðu eru kröfur, sem varnaraðilar kunna að hafa átt á hendur þrotabúinu og þeir rekja til áðurgreindra atvika, fallnar niður vegna vanlýsingar. Er þá sjálfgefið að sjóveðréttur, sem varnaraðilar kunna að hafa notið, sé jafnframt fallinn niður.
Vegna þess, sem að framan greinir, verður öllum kröfum varnaraðila í málinu hafnað. Verða þeir í sameiningu dæmdir til að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem er ákveðinn í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hafnað er að viðurkenna kröfu varnaraðila, Sabit Crnac, að fjárhæð 166.635 krónur og kröfu varnaraðila, Jónasar Kristjánssonar, að fjárhæð 274.575 krónur við skipti á þrotabúi Sæunnar Axels ehf. og að þær kröfur njóti sjóveðréttar í fiskiskipinu Kristjáni ÓF 51.
Varnaraðilar greiði í sameiningu sóknaraðila, Olíufélaginu hf., samtals 250.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 28. maí 2001.
Mál þetta barst dóminum með bréfi Ólafs Birgis Árnasonar hrl., þáverandi skiptastjóra þrotabús Sæunnar Axels ehf., dagsettu 6. júní 2000 og móteknu 7. júní s.á. Í bréfi sínu vísaði skiptastjóri um heimild til málskots til 2. mgr. 120. gr., sbr. 171. gr. laga nr. 21, 1991. Málið var þingfest þann 24. júlí 2000, en munnlega flutt og tekið til úrskurðar 1. nóvember 2000. Úrskurður var kveðinn upp þann 29. nóvember 2000. Sóknaraðili skaut úrskurði héraðsdóms til Hæstaréttar með kæru dags. 10. desember 2000 og kvað rétturinn upp dóm sinn þann 9. febrúar 2001, þar sem hinn kærði úrskurður var ómerktur, svo og meðferð málsins fyrir héraðsdómi frá þingfestingu. Var málinu vísað heim í hérað til „löglegrar meðferðar“. Málið var síðan tekið fyrir í dóminum að nýju 23. febrúar 2001, en munnlega flutt og tekið til úrskurðar 2. maí s.l.
Sóknaraðilar málsins voru upphaflega: Bjarni Vernharðsson, kt. 030549-4579, Dvergabakka 2, Reykjavík, Jónas Kristjánsson, kt. 151259-3839, Seljabraut 72, Reykjavík, Einar D. Hálfdánarson, kt. 110446-4389, Melbæ 35, Reykjavík, Páll Stefánsson, kt. 051061-4119, Byggðaholti 3c, Mofellsbæ, Stefán Ólafsson, kt. 091053-2419, Miklubraut 86, Reykjavík, Árni Breiðfjörð Pálsson, kt. 180157-2479, Ránargötu 6, Reykjavík, Bergvin Bessason, kt. 050883-3029, Ólafsvegi 30, Ólafsfirði, Davíð Fannar Stefánsson, kt. 070876-3029, Esjugrund 23, Reykjavík, Robert O. Stefánsson, kt. 100680-4089, Aðallandi 6, Reykjavík, Tryggvi D. Thorsteinsson, kt. 201245-2309, Skipholti 36, Reykjavík, Ólafur Vilhjálmsson, kt. 070981-2039, Njarðvíkurbraut 56, Njarðvík, Sabit Crnac, kt. 280874-2489, Kirkjuvegi 16, Ólafsfirði, Sakib Crnac, kt. 011272-2589, Kirkjuvegi 9, Ólafsfirði, Guðmundur B. Kristjánsson, kt. 270281-5169, Réttarvegi 10, Hafnir, Nikolay Vakunov, kt. 271065-2139, Hjallalundi 20, Akureyri. Hinir fimm fyrstnefndu sóknaraðilar voru yfirmenn á skipinu Kristjáni ÓF-51, en hinir tíu sóknaraðilarnir voru undirmenn.
Við fyrirtöku málsins þann 16. mars s.l. lýstu lögmenn aðila því yfir, að samkomulag væri um að reka málið einungis vegna eins yfirmanns, Jónasar Kristjánssonar, og eins undirmanns, Árna Breiðfjörð Pálssonar. Við upphaf aðalmeðferðar var aðildinni hins vegar enn breytt á þann hátt, að Sabit Crnac kom í stað Árna Breiðfjörð Pálssonar, sem annar sóknaraðila. Sóknaraðilar í málinu eru því nú einungis tveir, Jónas Kristjánsson og Sabit Crnac, en varnaraðili er sem fyrr Olíufélagið hf., kt. 500269-4649, Suðurlandsbraut 18, Reykjavík.
Endanlegar kröfur sóknaraðila Jónasar eru, að hnekkt verði með dómi þeirri ákvörðun skiptastjóra í þrotabúi Sæunnar Axels ehf., Ólafsfirði, að hafna viðurkenningu á kröfu sóknaraðila um leiðréttingu vangreiddra launa vegna tímabilsins september til desember 1999, þ.m.t. orlofi, dráttarvöxtum, innheimtuþóknun, virðisaukaskatti og kröfulýsingarkostnaði.
Þá krefst sóknaraðili Jónas þess, að krafa hans um leiðréttingu vegna vangoldinna launa verði viðurkennd sem forgangskrafa í þrotabú Sæunnar Axels ehf. við gjaldþrotaskiptin skv. 112. gr. laga nr. 21, 1991 og að ákvörðun skiptastjóra í þrotabúinu verði breytt á þann veg, að í hluta sóknaraðila Jónasar komi kr. 274.575,-.
Jafnframt er krafist viðurkenningar á sjóveðrétti í m.s. Kristjáni ÓF-51, skipaskrárnúmer 0076, nú m.s. Njarðvík GK-275, fyrir gerðum kröfum.
Er þess krafist að ofangreind krafa beri dráttarvexti skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 frá úrskurðardegi til greiðsludags.
Þá er að endingu krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi varnaraðila vegna dómsmáls þessa og að tekið verði tillit til þess, að sóknaraðili er ekki virðisaukaskattskyldur.
Endanlegar kröfur sóknaraðila Sabit eru, að viðurkennt verði með dómi að ákvörðun skiptastjóra í þrotabúi Sæunnar Axels ehf. þess efnis, að hafna beri viðurkenningu á kröfu sóknaraðila um leiðréttingu vangreiddra launa vegna tímabilsins september til desember 1999, þ.m.t. orlofi, dráttarvöxtum, innheimtuþóknun, virðisaukaskatti og kröfulýsingarkostnaði, verði hnekkt.
Þá krefst sóknaraðili Sabit þess, að krafa hans um leiðréttingu vegna vangoldinna launa auk 10,17 % orlofs að fjárhæð kr. 136.635,- verði viðurkennd sem forgangskrafa í þrotabú Sæunnar Axels ehf. við gjaldþrotaskiptin skv. 112. gr. laga nr. 21, 1991, auk innheimtuþóknunar kr. 30.000,-.
Auk ofangreinds krefst sóknaraðili Sabit þess, að viðurkennt verði að krafan ásamt öllum kostnaði sé tryggð með sjóveðrétti í m.s. Kristjáni ÓF-51, nú m.s. Njarðvík GK-275, skv. 1. mgr. 197. gr. siglingalaga nr. 34, 1985.
Þá er þess krafist að krafan beri dráttarvexti skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 frá úrskurðardegi til greiðsludags.
Að endingu er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi varnaraðila.
Kröfur varnaraðila samkvæmt greinargerð eru, að dómurinn staðfesti þá niðurstöðu skiptastjóra í þrotabúi Sæunnar Axels ehf., að hafna viðurkenningu á kröfum sóknaraðila um leiðréttingu vangreiddra launa vegna tímabilsins september til desember 1999, þ.m.t. orlofi, dráttarvöxtum, innheimtuþóknun, virðisaukaskatti á málflutningslaun og kröfulýsingarkostnaði.
Varnaraðili krefst þess einnig, að hafnað verði kröfu sóknaraðila um að kröfur þeirra um leiðréttingu vegna vangoldinna launa verði viðurkenndar sem forgangskröfur.
Er þess og krafist, að hafnað verði kröfu sóknaraðila um viðurkenningu á því, að kröfur þeirra ásamt öllum kostnaði séu tryggðar með sjóveðrétti í m.s. Kristjáni ÓF-51.
Þá krefst varnaraðili þess, að sóknaraðilar verði dæmdir til að greiða varnaraðila málskostnað að mati dómsins.
Bú Sæunnar Axels ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Norðurlands eystra, þann 7. desember 1999. Kröfulýsingarfresti lauk þann 22. febrúar 2000. Sóknaraðilar lýstu fyrir þann tíma kröfum í búið vegna ógreiddra launa. Á kröfulýsingarfresti komu fram athugasemdir vegna launauppgjörs í tengslum við síðustu veiðiferðir Kristjáns ÓF-51, en ekki komu fram sérstakar kröfur vegna þess á freststímanum.
Með bréfi hinn 18. maí 2000, eða rúmum þremur mánuðum eftir að kröfulýsingarfresti lauk, lýstu lögmenn sóknaraðila kröfum í búið vegna skipverja á Kristjáni ÓF-51. Með bréfi dags. 1. júní s.l. mótmælti lögmaður varnaraðila kröfulýsingum þessum, sem of seint fram komnum.
Á skiptafundi, sem haldinn var í þrotabúi Sæunnar Axels ehf. þann 2. júní 2000, ákvað skiptastjóri að hafna viðurkenningu krafnanna og einnig að þeim fylgdi sjóveðréttur í skipinu. Rökstuddi skiptastjóri afstöðu sína á þann hátt, að túlka yrði undantekningarákvæði 118. gr. laga um gjaldþrotaskipti ofl. nr. 21, 1991, þröngt. Ætti greinin aðeins við um þau undantekningartilfelli þegar krafa yrði fyrst til eftir uppkvaðningu gjaldþrotaúrskurðar. Kröfur sóknaraðila væru launakröfur vegna veiðiferða sem farnar hefðu verið á tímabilinu september til desember 1999 og væru því fyrir tímabilið fyrir uppkvaðningu gjaldþrotaúrskurðar.
Ekki reyndist unnt að jafna ágreining aðila á skiptafundi og var málinu því vísað til Héraðsdóms Norðurlands eystra. Dómurinn kvað upp úrskurð sinn 29. nóvember 2000 og voru ályktarorð úrskurðarins eftirfarandi: „Staðfestur er sjóveðréttur sóknaraðila í Kristjáni ÓF-51 til tryggingar kröfum er þeir kunna að eiga vegna veiðiferða skipsins á tímabilinu september til desember 1999. - Staðfest er sú niðurstaða skiptastjóra í þrotabúi Sæunnar Axels ehf., að hafna viðurkenningu á kröfum sóknaraðila í þrotabúið um leiðréttingu vangreiddra launa vegna tímabilsins september til desember 1999, þ.m.t. orlofi, dráttarvöxtum, innheimtuþóknun, virðisaukaskatti á málflutningslaun og kröfulýsingarkostnaði, að öðru leyti en leiðir af ofangreindum sjóveðrétti þeirra. - Málskostnaður fellur niður.“
Eins og áður hefur verið rakið skaut sóknaraðili úrskurði héraðsdóms til Hæstaréttar með kæru 10. desember 2000. Kvað rétturinn upp dóm í málinu þann 9. febrúar 2001, þar sem hinn kærði úrskurður var ómerktur, svo og meðferð málsins fyrir héraðsdómi frá þingfestingu. Var málinu vísað heim í hérað til „löglegrar meðferðar“.
Sóknaraðili Jónas kveður lögmann sinn hafa skrifað skiptastjóra bréf dags. 22. desember 1999, þar sem m.a. hafi verið gerðar athugasemdir við launauppgjör til sóknaraðila vegna 26., 28., 29. og 30. veiðiferðar Kristjáns ÓF-51. Lögmaðurinn hafi einnig gert athugasemdir með bréfi dags. 20. janúar 2000 og 3. mars s.á.
Sóknaraðili Jónas kveður rök skiptastjóra fyrir því, að viðkenna ekki kröfur sóknaraðila, séu byggð á því að krafa sóknaraðila sé ný krafa og hafi komið fram að liðnum kröfulýsingarfresti. Þar sem túlka verði undantekningarákvæði 118. gr. laga um gjaldþrotaskipti ofl. nr. 21, 1991, þröngt, komist nefndar kröfur ekki að.
Kveðst sóknaraðili Jónas telja afstöðu skiptastjórans byggjast á þeim misskilningi, að um nýja kröfu sé að ræða, en sá skilningur fái ekki staðist. Þvert á móti sé um að ræða þegar fram komna kröfu, þ.e. leiðréttingu á þegar lýstri kröfu vegna innunninna gjaldfallinna launa, sem greidd hafi verið að hluta. Krafa sóknaraðila Jónasar um að fá laun greidd í samræmi við rétt uppgjör hafi alltaf legið fyrir frá lögmanni hans. Stöðugt hafi verið kvartað við skiptastjóra og skrifstofustjóra hans yfir því, að upplýsingar vantaði yfir gámasölur ofl. vegna síðustu veiðiferðar skipsins, en þær upplýsingar hafi verið nauðsynlegar til að hægt væri að gera rétt og endanlega upp við skipverjana. Allan tímann hafi legið fyrir, að töluvert skorti á að gert hefði verið upp við skipverjana að fullu. Skiptastjóri hafi leitað til fyrrum starfsmanns þrotabúsins og leitað eftir greindum upplýsingum og það hafi lögmaður sóknaraðila Jónasar einnig gert. Ekki hafi tekist að fá réttar upplýsingar frá þrotabúinu eða skiptastjóra, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Allan tímann hafi lögmaður sóknaraðila Jónasar gert athugasemdir þess efnis, að upplýsingar skorti til að hægt væri að krefjast rétts launauppgjörs. Það hafi síðan verið þrautalendingin að leita til Verðlagsstofu skiptaverðs, sbr. bréf dags. 14. mars 2000, varðandi upplýsingarnar þegar legið hafi fyrir, að þrotabúið gæti ekki aflað þeirra.
Strax og Verðlagsstofa skiptaverðs hafði aflað nefndra upplýsinga og reiknað nákvæmlega út hver vangreiddur hásetahlutur væri, með samanburði uppgjörs útgerðarinnar við gögn þau, sem Verðlagsstofan hafði aflað, sbr. bréf dags. 27. apríl 2000, hafi verið hægt að leggja fram sundurliðaða kröfu um endanlegt uppgjör.
Sóknaðaraðili Jónas kveður, að þar sem skiptastjóra hafi frá upphafi skiptanna verið ljóst, að þess yrði krafist að sóknaraðila Jónasi yrði greitt í samræmi við rétt vinnulaun þegar tækist að fá fullnægjandi gögn, hafi skiptastjóra borið að leggja til hliðar fé fyrir áætluðum viðbótarlaunakröfum hans. Búið hafi fram að þeim tíma þegar gert ýmsar leiðréttingar á launakröfum sóknaraðila Jónasar, jafnóðum og tekist hafi að staðreyna hverjar þær ættu að vera. Kröfur hans nú séu sama eðlis, kröfurnar séu gamlar þó svo réttu fjárhæðirnar séu nú loksins komnar í ljós.
Bendir sóknaraðili Jónas á, að samkvæmt 2. mgr. 117. gr. laga um gjaldþrotaskipti ofl. skuli kröfur tilteknar svo skýrt sem verða megi. Það hafi sóknaraðili Jónas gert, þegar hann hafi byggt kröfur sínar á upplýsingum frá þrotabúinu, sem síðar hafi reynst rangar. Strax og réttar upplýsingar hafi legið fyrir hafi leiðrétt kröfugerð verið send til þrotabúsins, sem allan tímann hafi haft vitneskju um tilraunir sóknaraðila Jónasar til að fá upplýsingar er hann gæti byggt kröfur sínar á.
Þá kveðst sóknaraðili Jónas leggja áherslu á það, að með því að skjóta undan andvirði heilu gámanna vegna síðustu veiðiferðanna, þegar gert hafi verið upp við sóknaraðila Jónas, hafi útgerðin brotið lög og kjarasamninga á honum. Verði með engu móti séð, að það geti talist eðlilegt eða sanngjarnt að aðrir kröfuhafar í þrotabúið eigi að geta haft af því fjárhagslegan ábata, að vinnulaun voru ekki gerð upp með réttum og lögmætum hætti við sóknaraðila Jónas.
Til vara kveðst sóknaraðili Jónas hafa uppi þær málsástæður til stuðnings kröfum sínum, sem fram komi í 5. tl. 118. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21, 1991, og í sameiginlegu bréfi lögmanna beggja sóknaraðila, dags. 18. maí 2000 og vísist til þess bréfs. Þá sé og vísað til raka í greinargerð lögmanns sóknaraðila Sabit.
Sóknaraðili Jónas kveður kröfu og veðrétt oft tengjast þannig saman, að krafan sé forsenda fyrir gildi veðréttarins. Brottfall kröfunnar leiði þá til þess, að veðrétturinn falli niður. Þetta sé hins vegar ekki algild regla.
Launakröfu skipverja fylgi sjóveðréttur í skipi samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 197. gr. siglingalaga nr. 34, 1985. Samkvæmt 1. mgr. 202. gr. laganna falli sá réttur niður, fari nauðungarsala fram á skipi. Fiskiskipið m.s. Kristján ÓF-51 hafi hins vegar verið selt frjálsri sölu. Kveður sóknaraðili Jónas það berum orðum tekið fram í 199. gr. siglingalaga, að sjóveðréttur haldist áfram í skipi, þótt eignarrétturinn færist til annarra, eða breyting verði á skráningu skips. Grandsemi eða grandleysi kaupanda skipti ekki máli í þessu sambandi svo framarlega sem sjóveðréttur sé ekki fyrndur.
Sóknaraðili Jónas kveður Kristján ÓF-51 hafa verið seldan frjálsri sölu innanlands. Krafa hans í málinu hafi ekki út af fyrir sig verið véfengd, sem lögmæt launakrafa, ágreiningur sé hins vegar um það hvort krafan sé ný eða leiðrétting á þegar gerðri kröfu. Kveður sóknaraðili Jónas, að regla sú, sem fram komi í 199. gr. siglingalaga nr. 34, 1985, verði ekki skert nema með fyrirmælum í lögum. Slíkum lagaákvæðum sé hins vegar ekki til að dreifa.
Sóknaraðili Jónas kveðst varðandi varakröfu vísa m.a. til 2. mgr. 117. gr. laga um gjaldþrotaskipti ofl. nr. 21, 1991. Um dráttarvexti vísist til vaxtalaga nr. 25, 1987. Um málskostnað vísist til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91, 1991 og um virðisaukaskatt til laga um virðisaukaskatt nr. 50, 1988.
Sóknaraðili Sabit kveðst aðallega byggja á því, að krafa hans um leiðréttingu eigi að komast að sem forgangskrafa í þrotabúið, þar sem um sé að ræða kröfu, sem sóknaraðila hafi ekki verið kunnugt um á kröfulýsingarfresti og því hafi ekki stofnast til kröfunnar fyrr en með bréfi Verðlagsstofu skiptaverðs, dags. 27. apríl 2000. Því sé um nýja kröfu að ræða, sem falli undir ákvæði 5. tl. 118. gr. laga nr. 21, 1991, þar sem krafan hafi fyrst orðið til eftir uppkvaðningu úrskurðar um gjaldþrotaskipti. Þá uppfylli krafan önnur skilyrði 5. tl. 118. gr. laga nr. 21, 1991, þar sem henni hafi verið lýst án ástæðulauss dráttar og áður en boðað hafi verið til skiptafundar til úthlutunar úr þrotabúinu.
Til vara kveðst sóknaraðili Sabit byggja á því, að um þegar framkomna kröfu sé að ræða, þ.e. leiðréttingu á áðurlýstri kröfu, þar sem skiptastjóra hafi verið fullkunnugt um, fyrir lok kröfulýsingarfrests, að launauppgjörin sem kröfulýsingarnar studdust alfarið við, hafi verið ranglega framsett af hálfu þrotabúsins og að kröfulýsingarnar þyrftu því leiðréttingar við. Vísist þar um til fjölda fyrirspurna og bréfa lögmanns sóknaraðila Jónasar á kröfulýsingarfresti, sem sóknaraðila Sabit hafi ekki verið kunnugt um fyrr en með áðurnefndu bréfi Verðlagsstofu skiptaverðs. Kveður sóknaraðili Sabit, að á skiptastjóra hafi hvílt rík upplýsingaskylda gagnvart þeim, sem lýstu kröfum í búið, og hafi honum því verið skylt að leiðrétta kröfurnar og upplýsa um meinbugi á þeim og gera allt, sem honum var unnt, til að fyrra kröfuhafa tjóni.
Varðandi kröfu um viðurkenningu sjóveðréttar kveðst sóknaraðili Sabit vísa til 1. tl. 1. gr. 197. gr. laga nr. 34, 1985, en samkvæmt ákvæðinu séu laun og önnur þóknun skipverja, sem á skip séu ráðnir, tryggð með sjóveðrétti í viðkomandi skipi. Kveðst sóknaraðili Sabit benda á, að í kröfulýsingu til skiptastjóra vegna sóknaraðila sé krafist staðfestingar á sjóveðrétti í Kristjáni ÓF-51, vegna launakrafna sóknaraðila, enda sé sjóveðréttur lögmæltur forgangsréttur skipverja og falli sá réttur ekki niður þó veðkröfum sé ekki lýst í þrotabú.
Þá hafi Kristján ÓF-51 ekki verið seldur nauðungarsölu, sbr. 1. mgr. 202. gr. laga nr. 34, 1985, heldur hafi skiptastjóri selt skipið frjálsri sölu, sem eigi ekki að leiða til þess, að sjóveðréttur vegna launakrafna skipverja falli niður líkt og við nauðungarsölu, sbr. 199. gr. laga nr. 34, 1985. Sjóveðrétturinn haldi því að fullu gildi sínu þó svo kröfulýsingarfrestur hafi verið liðinn, þegar krafa um launaleiðréttingu var gerð.
Sóknaraðili Sabit kveður einu eiga að gilda, hvort krafa sóknaraðila sé viðurkennd sem forgangskrafa í þrotabúið, eða henni hafnað þar sem hún sé of seint fram komin. Sjóveðrétturinn haldi alltaf gildi sínu og geti ekki undir neinum kringumstæðum fallið niður við það, að eigandi skips verði gjaldþrota. Einu undantekningarnar frá þessu séu fyrningarákvæði 201. gr. laga nr. 34, 1985 og er skip sé selt nauðungarsölu, en hvorugt eigi við í máli þessu.
Varnaraðili kveður að meðal eigna þrotabús Sæunnar Axels ehf. hafi verið skipið Kristján ÓF-51. Skipið hafi verið yfirveðsett og hafi því verið nauðsynlegt að selja það á nauðungaruppboði eða leita tilboða í það á grundvelli 129. gr. laga nr. 21, 1991, um gjaldþrotaskipti ofl. Varnaraðili, sem hafi verið sjálfskuldarábyrgðaraðili veðskuldabréfs á 2. veðrétti, hafi gert tilboð í skipið sem hafi verið samþykkt á veðhafafundi 17. janúar s.l. og hafi varnaraðili leyst skipið til sín þann 18. janúar. Varnaraðili kveðst því hafa verulegra hagsmuna að gæta í málinu, þar sem sóknaraðilar krefjist viðurkenningar á kröfum sínum með sjóveðrétti í skipinu.
Kveðst varnaraðili byggja á því, að krafa sóknaraðila sé of seint fram komin og beri því að hafna henni sem forgangskröfu í þrotabú Sæunnar Axels hf. Það sé meginregla við gjaldþrotaskipti, að vanlýsingaráhrifa gæti eftir að kröfulýsingarfrestur renni út, sbr. 1. mgr. 118. gr. laga um gjaldþrotaskipti ofl. nr. 21, 1991. Kröfur, sem lýst sé eftir að kröfulýsingarfrestur er útrunninn, falli því niður gagnvart þrotabúinu sökum vanlýsingar.
Varnaraðili kveðst hafna þeim rökum sóknaraðila, að hér sé um nýja kröfu að ræða í skilningi 5. tl. 118. gr. laga um gjaldþrotaskipti. Krafa um vinnulaun stofnist á þeim tíma er vinna sé unnin, í þeim tilvikum sem hér um ræði í veiðiferðum sem farnar hafi verið á árinu 1999, áður en bú Sæunnar Axels hf. hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. Sú staðreynd, að skipverjar hafi síðar fengið upplýsingar um að vinnulaun hefðu verið ranglega reiknuð út, breyti því ekki, að til krafnanna hafi stofnast áður en félagið var tekið til gjaldþrotaskipta. Kröfulýsingar þær sem um ræði í málinu hafi borist skiptastjóra í lok maí s.l. Með vísan til 118. gr. laga um gjaldþrotaskipti beri því að hafna þeirri kröfu, að þær komist að við gjaldþrotaskiptin, þar sem þær hafi borist löngu eftir að kröfulýsingarfrestur rann út og eftir að skiptafundur var haldinn þann 3. mars s.l., þar sem fjallað hafi verið um afstöðu skiptastjóra til lýstra krafna í þrotabúið.
Varnaraðili kveður að sóknaraðili Sabit haldi því fram, að engin ástæða sé til að ætla að túlka þurfi undantekningarákvæði 5. tl. 118. gr. laga um gjaldþrotaskipti þröngt. Kveðst varnaraðili mótmæla þessari fullyrðingu, skýra verði nefnda undantekningarreglu þröngt og eftir orðanna hljóðan. Þá verði við mat á því hvort krafa komist að samkvæmt ákvæðinu að líta til þess hvenær krafan hafi orðið til, en ekki hvenær hún hafi orðið gjaldkræf.
Hvað varði þá málsástæðu sóknaraðila, að um nýja kröfu sé að ræða, kveður varnaraðili að benda megi á það ósamræmi sem gæti í kröfulýsingu þeirri, sem fram komi í bréfi dags. 18. maí 2000. Þar sé m.a. gerð krafa um að kröfur skipverjanna verði samþykktar sem forgangskröfur með vísan til 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti ofl. Til þess að krafa geti fallið undir 112. gr. sem forgangskrafa verði að vera um að ræða laun eða annað endurgjald fyrir vinnu í þjónustu þrotamannsins, sem fallið hafi í gjalddaga á síðustu átján mánuðum fyrir frestdag. Sóknaraðilar fari fram á að litið verði svo á, að krafan sé ný, sbr. 5. tl. 118. gr., en jafnframt að hún verði tekin til greina sem forgangskrafa, skv. 112. gr., og þar með að litið sé svo á, að hún hafi fallið í gjalddaga fyrir frestdag. Hér gæti því ekki samræmis í kröfum sóknaraðila.
Kveður varnaraðili að aðalmálsástæða sóknaraðila Jónasar og varamálsástæða sóknaraðila Sabit sé sú, að um leiðréttingu á þegar fram komnum kröfum sé að ræða. Slík leiðrétting feli í reynd í sér viðbót við fyrri kröfur og þannig nýja kröfu, sem beri að lýsa innan kröfulýsingarfrests, eins og öðrum kröfum. Einnig sé rétt að benda á þá staðreynd, að grunur sóknaraðila um ranga útreikninga á launum vegna veiðiferða Kristjáns ÓF-51 hafi vaknað löngu áður en kröfulýsingarfrestur rann út. Megi þessu til sönnunar vísa til bréfs lögmanns yfirmanna dags. 22. desember 1999. Megi jafnframt ætla, að yfirmönnum og öðrum skipverjum á Kristjáni ÓF hafi verið um þetta kunnugt í lengri tíma, þar sem þeim hljóti að hafa verið ljóst strax eftir hverja ferð, hversu mikið veiddist. Kröfulýsingarfrestur hafi runnið út 22. febrúar 2000 og hafi sóknaraðilum því gefist nægur tími til að lýsa kröfum sínum í þrotabúið innan þess tíma. Skv. 1. gr. laga nr. 13, 1998, um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, sé það hlutverk Verðlagsstofu skiptaverðs að fylgjast með fiskverði og uppgjöri á aflahlut sjómanna og stuðla að réttu og eðlilegu uppgjöri á aflahlut sjómanna eins og nánar sé kveðið á um í lögunum. Í ljósi þess hlutverks Verðlagsstofu hafi verið eðlilegast að afla strax umræddra upplýsinga þar, til að unnt yrði að lýsa kröfum skipverjanna innan lögmæts kröfulýsingarfrests. Sóknaraðilum hafi einnig verið í lófa lagið að lýsa hærri kröfum en gert hafi verið í upphafi, vegna gruns síns um rangt uppgjör. Ef skiptastjóri hefði hafnað þeim að hluta, hefðu sóknaraðilar getað haldið kröfunum til streitu, þar til frekari upplýsingar um þær lægju fyrir. Hafi því verið um tómlæti sóknaraðila að ræða, sem ósanngjarnt sé að aðrir kröfuhafar beri hallan af. Að krefjast þess að leiðréttar verði þegar fram komnar kröfur, sem eins og áður segi feli í raun í sér nýja kröfu, löngu eftir að frestur til að lýsa kröfu í bú sé liðinn og skiptafundur haldinn um lýstar kröfur, gangi gegn meginreglum gjaldþrotaskipta og eigi sér enga stoð í lögum eða venju.
Hvað varði bæði aðal- og varamálsástæður sóknaraðila beri að líta til þeirra meginreglna sem gildi á sviði skiptaréttar og megi þar fyrsta nefna regluna um jafnræði kröfuhafa. Sú staðreynd, að settur sé ákveðinn frestur fyrir kröfuhafa til að lýsa kröfum sínum í þrotabú og þeim takmörkuðu undantekningum sem gerðar séu þar á, byggi fyrst og fremst á þeirri meginreglu að allir kröfuhafar séu jafnt settir í samskiptum sínum við þrotabú. Önnur meginregla, sem gangi sem rauður þráður í gegnum lögin um gjaldþrotaskipti, varði málshraða. Komi þessi meginregla skýrast fram í 2. mgr. 122. gr., þar sem sú skylda sé lögð á skiptastjóra að gæta þess í störfum sínum, að skiptum sé lokið án ástæðulauss dráttar. Ef skiptastjóri ætti að taka tillit til krafna þeirra er um ræði í málinu, myndi það ganga þvert gegn nefndum meginreglum.
Varnaraðili kveður, að ef dómurinn staðfesti þá niðurstöðu skiptastjóra, að hafna kröfum sóknaraðila, beri einnig að hafna kröfu þeirra um viðurkenningu á sjóveðrétti í Kristjáni ÓF-51. Sjóveð geti ekki staðið eitt og sér, heldur verði krafan að baki veðinu að vera viðurkennd. Ef niðurstaða skiptastjóra yrði staðfest stæði sjóveðið eitt og sér, en það leiði óhjákvæmilega til, að hafna verði kröfu sóknaraðila um viðurkenningu sjóveðréttar.
Kveður varnaraðili skipið Kristján ÓF-51 hafa verið selt með stoð í 129. gr. laga um gjaldþrotaskipti. Leitað hafi verið heimildar veðhafa til að ráðstafa skipinu með þeim áhrifum, að þeir veðhafar, sem kynnu að fara á mis við fullnustu af söluverði þess, glötuðu þeim tryggingarréttindum sem þeir kynnu að njóta. Eigi lagagrein þessi skírskotun í lögum um nauðungarsölu, n.t.t. í 2. mgr. 56. gr., þar sem komi fram, að öll veðbönd, umráðaréttindi, kvaðir, höft og önnur réttindi yfir eigninni féllu niður við útgáfu afsals. Þá sé í 202. gr. siglingalaga nr. 34, 1985 sambærilegt ákvæði, sem kveði á um að sjóveðréttindi og annars konar veðréttindi og önnur eignarhöft falli niður við nauðungarsölu á skipi. Ef hið sama ætti ekki við um þau tilfelli þegar eignir þrotabúa séu seldar skv. 129. gr. laga um gjaldþrotaskipti, hefði greinin lítið raunhæft gildi, þar sem réttarstaða kaupanda gagnvart veðhöfum væri engan vegin eins trygg og ef eign væri seld nauðungarsölu. Kröfur þær, sem tryggðar voru með sjóveðrétti í skipinu, hafi því fallið niður við sölu á skipinu til varnaraðila. Beri því að hafna kröfu sóknaraðila um viðurkenningu á því, að kröfur þeirra njóti sjóveðréttar í Kristjáni ÓF-51.
Dómkröfur sínar um staðfestingu á ákvörðun skiptastjóra kveðst varnaraðili byggja á 118. gr. laga nr. 21, 1991, um gjaldþrotaskipti ofl., auk meginreglna um gjaldþrotaskipti. Varðandi sjóveðrétt byggi varnaraðili á 129. gr. laga um gjaldþrotaskipti ofl., 56. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90, 1991, auk 202. gr. siglingalaga nr. 34, 1985.
Kröfu um að sóknaraðilar verði dæmdir til að greiða varnaraðila málskostnað kveðst varnaraðili byggja á XXI. kafla laga nr. 91, 1991, um meðferð einkamála, aðallega 130. gr.
Kröfur sóknaraðila byggja á því, að ranglega hafi verið gert upp við þá vegna veiðiferða Kristjáns ÓF-51 á tímabilinu september desember 1999. Kröfur sóknaraðila styðjast m.a. við upplýsingar frá Verðlagsstofu skiptaverðs, sbr. bréf stofnunarinnar, dags. 27. apríl 2000, og gögn er fylgdu því bréfi.
Við munnlegan flutning málsins lækkuðu sóknaraðilar kröfur sínar líkt og að framan hefur verið rakið, sóknaraðili Sabit í kr. 136.635,- auk kr. 30.000,- innheimtukostnaðar, og sóknaraðili Jónas í kr. 274.575,-. Í kjölfarið lýsti lögmaður varnaraðila því yfir, að hann gerði ekki tölulegan ágreining um kröfur sóknaraðila eftir þessar breytingar. Með vísan til 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21, 1991 um gjaldþrotaskipti ofl., og að teknu tilliti til málsforræðisreglu einkamálaréttarfars, þykir því verða að miða við framangreindar fjárhæðir í málinu.
Samkvæmt 118. gr. laga nr. 21, 1991 um gjaldþrotaskipti ofl., fellur krafa á hendur þrotabúi niður, ef henni er ekki lýst fyrir skiptastjóra áður en fresti skv. 2. mgr. 85. gr. lýkur og ekki er unnt að fylgja henni fram gagnvart búinu skv. 116. gr., nema ákvæði 1.-6. tl. 118. gr. eigi við um kröfuna.
Gögn málsins bera skýrlega með sér, að kröfur sóknaraðila eru til komnar vegna starfa þeirra í þágu Sæunnar Axels ehf., áður en félagið var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði réttarins, þann 7. desember 1999. Liggur því fyrir, að kröfur sóknaraðila urðu til fyrir uppkvaðningu úrskurðarins og getur vitneskja eða ókunnugleiki sóknaraðila um tilvist krafnanna, engu breytt um þá niðurstöðu.
Ákvæði 5. tl. 118. gr. laga um gjaldþrotaskipti ofl. er undantekningarákvæði, sem samkvæmt almennum túlkunarreglum sætir ekki rýmkandi skýringu. Samkvæmt orðanna hljóðan tekur ákvæðið, að slepptum þeim hluta er vísar til 1.-3. tl. 110. gr. laganna, einungis til krafna, sem fyrst hafa orðið til eftir uppkvaðningu úrskurðar um gjaldþrotaskipti. Með vísan til framangreinds verður því ekki fallist á þá röksemd sóknaraðila, að kröfur þeirra falli undir 5. tl. 118. gr. laga nr. 21, 1991, um gjaldþrotaskipti ofl.
Sóknaraðilar hafa einnig byggt á því í málinu, að kröfum þeirra, sem hér eru til umfjöllunar, hafi í reynd verið lýst í þrotabú Sæunnar Axels ehf. fyrir tímamark það sem um getur í 2. mgr. 85. gr. laga nr. 21, 1991 um gjaldþrotaskipti, í þessu tilfelli 22. febrúar 2000. Launakröfum sóknaraðila hafi þannig verið lýst í búið samkvæmt fyrirmælum 2. mgr. 117. gr. laga um gjaldþrotaskipti, þ.e. þær hafi verið tilteknar svo skýrt sem verða mátti miðað við þær upplýsingar, sem sóknaraðilum hafi verið aðgengilegar á freststímanum.
Í lögum nr. 21, 1991 um gjaldþrotaskipti ofl., er ekki að finna fyrirmæli um að vitneskja, eða eftir atvikum ókunnugleiki kröfuhafa, hafi áhrif á gildi meginreglu 118. gr. laganna. Er það álit dómsins, að kröfur sóknaraðila, sem fyrst var lýst í þrotabú Sæunnar Axels ehf. þann 18. maí 2000 og mál þetta fjallar um, verði ekki metnar á annan hátt en sem viðbót við fyrri kröfur sóknaraðila, en ekki sem leiðrétting á áðurlýstum kröfum, enda er í lögum nr. 21, 1991 ekki að finna heimild til handa kröfuhöfum til að leiðrétta lýstar kröfur til hækkunar eftir lok kröfulýsingarfrests. Þvert á móti er í 117. gr. laganna skýrt kveðið á um, að tilgreina skuli fjáhæð kröfu í krónum þegar henni er lýst í búið. Kröfur sóknaraðila njóta því ekki þeirrar réttarverndar, sem um getur í 1. tl. 1. mgr. 112. gr., þar sem þeim var lýst eftir lok kröfulýsingarfrests, sbr. 2. mgr. 85. gr. og 118. gr. laga nr. 21, 1991 um gjaldþrotaskipti.
Samkvæmt 1. mgr. 197. gr. siglingalaga nr. 34, 1985, eru laun og önnur þóknun sem skipstjóri, skipverjar og aðrir þeir, sem á skip eru ráðnir, eiga rétt á fyrir störf um borð, tryggð með sjóveðrétti í viðkomandi skipi. Kröfur sóknaraðila vegna veiðiferða skipsins Kristjáns ÓF-51 á tímabilinu september til desember 1999 voru því tryggðar með sjóveðrétti í skipinu.
Þar sem veðréttur fellur ekki niður þó svo veðkröfum sé ekki lýst í þrotabú og frestur samkvæmt 201. gr. siglingalaga var í síðasta lagi rofinn við þingfestingu máls þessa, hefur ekkert fram komið í málinu um að umræddur sjóðveðréttur sóknaraðila sé fallinn niður. Í ljósi þess, að varnaraðili leysti skipið til sín á grundvelli 129. gr. laga nr. 21, 1991 um gjaldþrotaskipti ofl., og að teknu tilliti til ákvæðis 1. mgr. 199. gr. siglingalaga nr. 34, 1985, þykja hins vegar ekki, eins og hér stendur á, vera efni til að staðfesta umræddan sjóveðrétt sóknaraðila í skipinu Kristjáni ÓF-51, heldur þykir verða að láta við það sitja, að fella niður þá ákvörðun skiptatjóra í þrotabúi Sæunnar Axels ehf., að hafna viðurkenningu á kröfum sóknaraðila í þrotabúið um leiðréttingu vangreiddra launa vegna tímabilsins september til desember 1999, þ.m.t. orlofi, dráttarvöxtum, innheimtuþóknun, virðisaukaskatti á málflutningslaun og kröfulýsingarkostnaði og leggja fyrir skiptastjóra, að úthluta til sóknaraðila í samræmi við sjóveðrétt krafna þeirra skv. 111. gr. laga nr. 21, 1991 um gjaldþrotaskipti ofl.
Kröfur sóknaraðila um dráttarvexti frá úrskurðardegi eru með öllu órökstuddar og ber því að vísa þeim ex offico frá dómi.
Með vísan til úrslita málsins þykir rétt, að varnaraðili greiði hvorum sóknaraðila um sig kr. 150.000,- í málskostnað, að meðtöldum virðisaukaskatti.
Úrskurð þennan kveður upp Freyr Ófeigsson dómstjóri.
Á L Y K T A R O R Ð :
Ákvörðun skiptastjóra í þrotabúi Sæunnar Axels ehf. þess efnis, að hafna viðurkenningu á kröfum sóknaraðila í þrotabúið um leiðréttingu vangreiddra launa vegna tímabilsins september til desember 1999, þ.m.t. orlofi, dráttarvöxtum, innheimtuþóknun, virðisaukaskatti á málflutningslaun og kröfulýsingarkostnaði, er felld úr gildi. Lagt er fyrir skiptastjóra að úthluta til sóknaraðila, Jónasar Kristjánssonar kr. 274.575,- og Sabit Crnac kr. 166.635,- í samræmi við sjóveðrétt krafnanna skv. 111. gr. laga nr. 21, 1991 um gjaldþrotaskipti ofl.
Varnaraðili, Olíufélagið hf., greiði hvorum sóknaraðila um sig kr. 150.000,- í málskostnað.