Hæstiréttur íslands

Mál nr. 344/2002


Lykilorð

  • Sjúkrahús
  • Læknir
  • Skaðabætur
  • Örorka
  • Læknaráð
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 11

 

Fimmtudaginn 11. mars 2004.

Nr. 344/2002.

Íslenska ríkið

(Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.)

gegn

Söru Lind Eggertsdóttur

(Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.)

 

Sjúkrahús. Læknar. Skaðabætur. Örorka. Læknaráð. Gjafsókn.

S fæddist á kvennadeild L 5. mars 1998 og var fæðingunni lokið með bráðakeisaraskurði. Við skoðun kom í ljós íferð í lunga og var S því sett í hitakassa og gefið súrefni og sett á sýklalyf. Þræddir voru æðaleggir í naflabláæð og naflaslagæð til að fylgjast með sýrustigi, súrefnisinnihaldi og koltvísýringsinnihaldi slagæðablóðs og blóðþrýstingi. Í ljós kom að sá æðaleggur sem þræddur hafði verið í naflaslagæðina lá inn í meginslagæðina en til móts við 11. brjósthryggjarlið sveigði hann til baka í U-beygju, þannig að endi hans lá til móts við efri hluta 3. lendarhryggjarliðs. Ákvörðun var tekin um að um að láta æðalegginn liggja,  fyrst um sinn, þar sem í því væri fólgin minni áhætta en í því að færa hann. Fjögurra daga gömul veiktist S hastarlega með krömpum auk einkenna nýrnabilunar og sýndi merki um lélegt blóðflæði og hækkandi blóðþrýsting. Fór hún til meðferðar hjá nýrnasérfræðingi og var sett í öndunarvél í um það bil viku þar til henni fór að batna. Þriggja vikna gömul fékk hún gallblöðrubólgu og var gallblaðran fjarlægð með skurðaaðgerð. Rannsóknir sýndu að S hafði orðið fyrir umtalsverðum heilaskemmdum og var henni vegna þessa metin 100% varanleg örorka og miski. Var í málinu krafist bóta úr hendi Í þar sem líkamstjón S stafaði af mistökum starfsmanna L við fæðingu hennar og eftirfarandi læknismeðferð.  Talið var að skemmdir sem komið hafi fram á heila S samræmdust því að hún hefði orðið fyrir súrefnisskorti en stöfuðu ekki af blóðtappa þeim og háþrýstingi sem hún hefði fengið á fimmta degi eftir fæðingu. Sterkar líkur töldust leiddar að því að hún hefði orðið fyrir súrefnisskorti fyrir fæðingu. Var því ekki talið að orsakasamband væri á milli legu slagæðaleggsins og heilaskemmda S. Hafði því ekki verið sýnt fram á að tjón S mætti rekja til mistaka starfsfólks L og var Í sýknað af kröfu S í málinu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 23. júlí 2002. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti en til vara að dæmd fjárhæð verði lækkuð og málskostnaður fyrir báðum dómstigum látinn niður falla.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Ný gögn hafa verið lögð fyrir Hæstarétt.

I.

Eins og fram kemur í héraðsdómi fæddist stefnda á kvennadeild Landspítalans háskólasjúkrahúss aðfaranótt 5. mars 1998 kl. 04:58, en móðir hennar kom á deildina tæpum þremur tímum fyrr. Strax við komuna kl. 02:00 var móðirin tengd við sírita til að taka fósturhjartsláttarrit. Þar sem það sýndi sama og engin hröðunarviðbrögð við samdrætti í legi móður var ákveðið að skipta um sírita, en hjartsláttarritið sýndi áfram litla breytingu. Kallað var á vakthafandi fæðingarlækni kl. 03:40 og eru fyrstu afskipti hans af móður skráð kl. 03:45. Stuttu síðar voru belgir sprengdir og þykkt grænt legvatn kom í ljós. Um kl. 04:15 ákvað fæðingarlæknirinn að ljúka fæðingunni með keisaraskurði, það er svokölluðum bráðakeisaraskurði. Var móðirin komin á skurðstofuna um kl. 04:30 og stefnda var fædd kl. 04:58, eins og áður segir. Í ljós kom, að ekki einungis legvatnið var grænt heldur einnig legholið og fósturbelgirnir. Áður en skilið var á milli var sogið úr vitum stefndu og maga. Deildarlæknir á barnadeild tók þá við stefndu og gaf henni súrefni þar sem hún andaði ekki, en eftir að hún byrjaði að anda var hún flutt yfir á vökudeild Barnaspítala Hringsins.

Við skoðun á stefndu á vökudeildinni kom í ljós íferð í vinstra lunga. Hún var sett í hitakassa og gefið súrefni og sett á sýklalyf. Þá þræddi læknirinn, undir umsjá yfirlæknis vökudeildar, æðaleggi í naflabláæð og naflaslagæð til að fylgjast með sýrustigi, súrefnisinnihaldi og koltvísýringsinnihaldi slagæðablóðs og blóðþrýstingi, svo og til vökva- og lyfjagjafa. Ekki tókst að þræða í aðra naflaslagæðina og var æðaleggurinn þræddur í hina. Var því lokið milli kl. 7 og 8 um morguninn. Í röntgenmyndatöku kl. 09:10 kom í ljós, að sá æðaleggur, sem þræddur var í naflabláæð, hafði endað í lifur. Var hann því fjarlægður og nýr þræddur inn. Þar sem í ljós kom í röntgenmyndatöku kl. 11:00 að nýi æðaleggurinn lá einnig í lifur var hann líka fjarlægður. Í ljós kom, að sá æðaleggur, sem lagður hafði verið í naflaslagæðina, lá inn í meginslagæðina en til móts við 11. brjósthryggjarlið sveigði hann til baka í U-beygju, þannig að endi hans lá til móts við efri hluta 3. lendarhryggjarliðs. Sú ákvörðun var tekin á fundi sérfræðinga deildarinnar að láta æðalegginn liggja fyrst um sinn, þar sem það væri minni áhætta fólgin í því heldur en að færa hann. Var stefnda tengd við öndunarvél fram á kvöld þegar ástand hennar taldist stöðugt. Slagæðaleggurinn var síðan fjarlægður milli kl. 13:00 og 15:00 daginn eftir, eða um 32 klukkustundum eftir að honum hafði verið komið fyrir. Voru gildi blóðgasa þá eðlileg.

Þegar stefnda var tveggja daga gömul var byrjað að næra hana um munn en tveimur dögum síðar, eða 9. mars, var hún komin á fullt fæði. Þann sama dag veiktist hún hastarlega með krömpum auk einkenna nýrnabilunar og sýndi merki um lélegt blóðflæði og hækkandi blóðþrýsting. Í ljós kom, að stefnda var með blóðsegamyndun í aðalslagæðinni í kviðarholinu og í greinum út frá henni, lokun á hægri nýrnaslagæð og lokun til hálfs á þeirri vinstri og segamyndun í stóru grindarslagæðunum auk dreps í öðru nýranu. Fór stefnda þá í meðferð hjá nýrnasérfræðingi og var sett í öndunarvél í um viku eða þar til henni fór að batna. Hinn 27. mars veiktist hún aftur og kom í ljós, að hún var með gallblöðrubólgu, og var gallblaðran fjarlægð með skurðaðgerð.

Teknar voru myndir af ósæð stefndu 10. og 11. mars og gerðar ómskoðanir á höfði hennar 11. og 12. mars. Tölvusneiðmynd var tekin af höfði stefndu 19. apríl. Að áliti Péturs Lúðvígssonar heila- og taugasérfræðings á Barnaspítala Hringsins var um að ræða útbreiddar hvítefnisskemmdir með vefjatapi auk ákveðinna brottfallseinkenna við „neurologiska“ skoðun. Taldi hann þroskahorfur stefndu slæmar. Í kjölfarið hefur henni verið metin 100% varanleg örorka og miski.

Með bréfi 14. júlí 1998 óskaði faðir stefndu eftir áliti landlæknis á því „hvort ekki hafi eitthvað meira en óheppni orðið þess valdandi hve alvarlegum veikindum [stefnda] lenti í stuttu eftir fæðingu.“ Með hliðsjón af sérfræðiáliti Baldvins Jónssonar, sérfræðings í nýburalækningum í Svíþjóð, var það mat landlæknis, að ekki hefði verið staðið ótilhlýðilega að meðhöndlun stefndu. Foreldrar stefndu höfðuðu mál þetta fyrir hennar hönd á hendur íslenska ríkinu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 25. september 2001.

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 24. apríl 2002, sem skipaður var embættisdómara ásamt tveimur sérfróðum meðdómendum, var fallist á kröfu stefndu. Dómurinn taldi, að rekja mætti örorku hennar einkum til skertrar heilastarfsemi. Taldi dómurinn langlíklegast, að hún stafaði af útbreiddum skemmdum á hvítu efni heila, sem rekja mætti til súrefnisskorts. Afar erfitt væri hins vegar að slá því föstu hvenær hún varð fyrir þessum heilaskaða, en ýmsar vísbendingar væru um að stefnda hefði mátt þola súrefnisskort skömmu fyrir fæðingu. Hins vegar gæti það ekki talist líklegt, að skaði hafi orðið vegna bráðasúrefnisskorts í fæðingunni í ljósi þess að ekki sáust dýfur í fósturriti eða annað, sem benti til bráðasúrefnisskorts fyrir fæðingu, og þeirrar staðreyndar, að stefnda sýndi ekki merki um áhrif súrefnisskorts á heilastarfsemi skömmu eftir fæðingu. Ekki væri unnt að útiloka, að örorka stefndu væri til komin vegna samverkandi orsaka þar sem súrefnisskortur fyrir eða í fæðingu hafi a.m.k. verið meðorsök blóðsegamyndunar og auk þess gert heilavef viðkvæmari en ella fyrir frekari áföllum, sem hann hafi orðið fyrir við síðari veikindi stefndu. Taldi dómurinn ekki komna fram sönnun fyrir því, að örorku stefndu mætti eingöngu rekja til þeirra veikinda, sem hún varð fyrir í kjölfar blóðtappa í meginslagæð og nýrnaslagæðum. Hins vegar yrði að telja talsverðar líkur á því, að þau alvarlegu sjúkdómsáföll, sem stefnda varð fyrir í kjölfar fyrrnefnds blóðtappa, hafi a.m.k. verið meðvirkandi orsök þeirra alvarlegu heilaskemmda, sem hún varð fyrir, og ollu örorku hennar og miska. Taldi dómurinn að leggja bæri á áfrýjanda sönnunarbyrðina um, að heilaskaði stefndu hefði allt að einu orðið, þótt starfsmönnum áfrýjanda hefðu ekki orðið á þau mistök að láta æðalegginn liggja í lykkju í meginslagæðinni í allt að 32 klukkustundir, og þótti áfrýjanda ekki hafa tekist slík sönnun. Ekki þótti fært að fallast á með áfrýjanda, að einungis lítinn hluta örorku stefndu mætti rekja til áfalla af völdum blóðtappans. Þar sem ekki hefði verið sýnt fram á, hvort eða að hve miklu leyti önnur áföll ættu þátt í heilsutjóni stefndu, var litið svo á, að áfrýjandi bæri bótaábyrgð á öllu tjóni hennar. Starfsmönnum Landspítalans var ekki talið til mistaka að hafa ekki gripið til sérstakra ráðstafana vegna hættu á blóðsegamyndun, þar sem afar erfitt væri að sjá hana fyrir.

Eftir uppkvaðningu héraðsdóms aflaði áfrýjandi umsagnar Gísla H. Sigurðssonar, prófessors í svæfinga- og gjörgæslulækningum og yfirlæknis svæfinga- og gjörgæsludeildar Landspítalans, frá 26. ágúst 2002, svo og umsagnar Ólafs Thorarensen, sérfræðings í heila- og taugasjúkdómum barna, Barnadeild Landspítala Fossvogi, frá 30. ágúst 2002, og hafa þær verið lagðar fram í Hæstarétti.

Af hálfu áfrýjanda er því haldið fram, með vísan til umsagna þeirra sérfræðinga, sem komu að málinu, og einnig framangreindrar umsagnar Gísla H. Sigurðssonar prófessors og framburðar Baldvins Jónssonar, sérfræðings í nýburalækningum og barnalækningum við Karolinska sjúkrahúsið í Stokkhólmi, að það sé mikið vandaverk og áhættusöm aðgerð að leggja inn æðaleggi í smáar slagæðar í handlegg á nýbura og mistakist því oft. Er á þetta bent sem andsvar við þeirri staðhæfingu af hálfu stefndu að taka hefði átt æðalegginn úr naflastrengsæðinni og þræða nýjan í handlegg. Þá væri læknisfræðilega ekki unnt að útiloka að vera æðaleggsins í slagæðinni hefði verið samverkandi þáttur með súrefnisskorti á meðgöngu í því að blóðsegi myndaðist í ósæðinni, þótt ósennilegt væri að lykkja á æðaleggnum hefði skipt máli í því sambandi. Ljóst væri jafnframt, að hafi æðaleggurinn stungist inn í innsta lag æðarinnar og valdið skaða á henni, eins og héraðsdómur leiðir getum að og sem er þekkt orsök fyrir blóðsegamyndun, þá hefði slík skemmd áfram verið til staðar jafnvel þótt leggurinn hefði verið dreginn strax út. Ríki því læknisfræðileg óvissa um það, hvort æðalegg með lykkju fylgi aukin áhætta. Þá fylgi einnig óvissa og alvarlegir fylgikvillar öðrum úrræðum en að láta æðalegginn liggja. Væri þannig hvorki unnt að fallast á þá niðurstöðu héraðsdóms að það hafi falið í sér saknæm mistök að láta legginn liggja með lykkju í æðinni né á þau sjónarmið um sönnunarbyrði, sem þar væru lögð til grundvallar. Þá er vakin athygli á því, að hvítefnisskemmdir sáust strax á fyrstu ómmyndum, sem teknar voru af heila stefndu 11. og 12. mars, en samkvæmt framburði Péturs Lúðvígssonar fyrir héraðsdómi tekur það a.m.k. 2 - 4 vikur frá súrefnisskorti þar til hvítefnisskaði á heila kemur i ljós. Þá er því haldið fram, meðal annars með vísan til álits Ólafs Thorarensen, framburðar Péturs Lúðvígssonar og umsagnar Baldvins Jónssonar, að þar sem heilaskaði stefndu stafi fyrst og fremst af súrefnisskorti fái sú niðurstaða héraðsdóms ekki staðist að tengja legu æðaleggsins með lykkju í æð við þann heilaskaða, sem valdi þeirri 100% varanlegu örorku og 100% varanlegum miska, sem stefnda er metin.

II.

Eins og að framan greinir hafði stefnda orðið fyrir heilaskaða og var örorka hennar algjör. Erfitt var að gera sér grein fyrir því af framlögðum gögnum og vitnisburðum, hvað í raun orsakaði skaða stefndu, auk þess sem nokkur atriði voru ekki svo ljós sem skyldi. Þótti því rétt, áður en mál þetta yrði flutt fyrir Hæstarétti, að afla umsagnar læknaráðs, sbr. 1. og 2. mgr. 2. gr. laga nr. 14/1942 um læknaráð, og leita svara við ákveðnum atriðum, en samkvæmt tilvitnaðri lagaheimild er það hlutverk læknaráðs að láta dómstólum í té umsagnir um læknisfræðileg efni. Áður en málið var sent læknaráði var lögmönnum aðila gefinn kostur á að koma að spurningum varðandi álitaefni, sem þeir teldu rétt að beina til læknaráðs. Læknaráð svaraði umleitun Hæstaréttar 21. nóvember 2003. Þar kemur fram, að ráðið hafði óskað eftir umfjöllun réttarmáladeildar ráðsins um málið, en þar eiga sæti Gunnlaugur Geirsson prófessor í réttarlæknisfræði, Hannes Pétursson prófessor í geðlæknisfræði og Jónas B. Magnússon prófessor í handlæknisfræði. Réttarmáladeild fjallaði um málið á fundi sínum 16. maí 2003 og samþykkti að leita til Vilhjálms Andréssonar, sérfræðings í kvensjúkdómum og fæðingarhjálp og yfirlæknis við Sjúkrahús Akraness, til ráðgjafar um fæðingu stefndu og þau vandamál, sem upp komu í tengslum við hana. Var fjallað um málið á þremur öðrum fundum deildarinnar, 10. og 17. júlí og 23. september 2003. Læknaráð fjallaði síðan um niðurstöður réttarmáladeildar á fundi sínum 18. nóvember 2003. Sigurður Guðmundsson landlæknir, forseti læknaráðs, vék af fundi við umfjöllun málsins í læknaráði þar sem hann hafði komið að málinu á fyrri stigum, og var Gunnlaugi Geirssyni prófessor falið að taka við sæti forseta við afgreiðslu málsins. Læknaráð féllst á niðurstöður réttarmáladeildar og gerði þær að sínum. Að álitsgerð læknaráðs stóðu Gunnlaugur Geirsson, Hannes Pétursson, Sigurbjörn Sveinsson formaður Læknafélags Íslands, Sigurður Thorlacius tryggingayfirlæknir og Þórður Harðarson prófessor í lyflæknisfræði, en Jónas B. Magnússon, Magnús Jóhannsson prófessor í lyfjafræði og Vilhjálmur Rafnsson prófessor í heilbrigðisfræði boðuðu forföll.  Í svari læknaráðs eru spurningar Hæstaréttar raktar og svörin tilfærð. Spurningarnar og svörin eru:

„Spurning #1.

Voru að áliti læknaráðs viðbrögð starfsfólks fæðingardeildar eðlileg við þær aðstæður er uppi voru við komu móður á deildina kl. 02:00, að því er varðar túlkun hjartsláttarrits, tímasetningu á tilkvaðningu sérfræðings um kl. 03:40, ákvörðun um keisaraskurð kl. 04:15 og tímalengd frá þeirri ákvörðun til fæðingar kl. 04:58?

Svar #1.

Nei, ekki er varðar túlkun hjartsláttarrits og tilkvaðningu læknis. Svo sem fram kemur á bls. 88 í ágripi Hæstréttar segir að ljósmóðir á fæðingardeild skuli hafa samband við deildarlækni/sérfræðing vegna afbrigðilegra fósturhjartsláttarrita er ljóst að dræmt var brugðist við samkvæmt þeirri verklagsreglu. Að því er varðar ákvörðun um keisaraskurð eru ekki gerðar neinar athugasemdir.

Spurning #2.

Ef svo var ekki, telur læknaráð að viðbrögð starfsfólks deildarinnar hafi valdið stefndu heilaskemmdum og/eða líkamstjóni, sem komast hefði mátt hjá með öðrum og tímanlegri viðbrögðum?

Svar #2.

Nei, læknaráð telur ólíklegt að inngrip fyrr hefði breytt nokkru í þessu tilviki þannig að komist hefði verið hjá líkamstjóni með tímanlegra inngripi.

Spurning #3.

Ef svarið er jákvætt, hvaða líkamstjóni mátti forða og hvaða varanlegur miski og/eða varanleg örorka verða tengd við það líkamstjón, sem mátti forða?

Svar #3.

Sjá 1 og 2.

Skýring vegna spurninga #1 - #3.

Læknaráð álítur að skaði barnsins hafi orðið til a.m.k. að einhverju leyti í móðurkviði áður en fæðing hófst. Byggist sú ályktun á ummerkjum um gamalt barnabik, fósturhjartsláttarriti (CTG) sýndi ekki sannfærandi hraðanir og súrnun, sem staðfest var í naflastrengsblóði við fæðingu.

Spurning #4.

Telur læknaráð, að rétt hafi verið eða eðlilegt að dæla súrefni ofan í stefndu eftir fæðinguna, áður en sogað var upp grænt legvatn neðan raddbanda? Ef ekki, má ætla að líkamstjón hafi hlotist af því?

Svar #4.

Telja verður að læknar hafi brugðist rétt við með að dæla súrefni ofan í barnið þar eð mikið var í húfi að bæta úr súrefnisskorti þess og verður því að telja súrefnisgjöf forgangsmál. Ekki verður séð að neitt líkamstjón hafi hlotist af því.

Spurning #5.

Má ætla, að líkamstjón hafi leitt af því að skilja æðalegginn eftir í naflaslagæðinni í óbreyttri stöðu, eftir að í ljós var komið, að hann hafði tekið U-beygju?

Svar #5.

Nei. Það er ekki fyrirsjáanlegt að beygja á æðaleggnum leiði til storknunar í meginslagæð. Læknaráð telur, að sú ákvörðun hafi verið rétt miðað við þær aðstæður sem uppi voru er leggurinn var látinn liggja. Hún var tekin sameiginlega af sérfræðingum í nýburalæknisfræði og þeim var ljóst að legan var óvenjuleg. Hins vegar var ekki um annan slagæða aðgang að ræða hjá barninu á þeirri stundu og veikindin þannig að óvarlegt var að reyna að breyta legunni og taka áhættu á að hafa ekki neina slagæðalínu. Það er mjög vandasamt að leggja slagæðaleggi í handlegg hjá nýbura og reyndar geta fylgikvillar við slíka aðgerð orðið mjög alvarlegir. Hins vegar er það staðreynd að storknunin í meginslagæð barnsins olli umfangsmiklum varanlegum skaða á nýrum og er líklega orsök gallblöðrubólgunnar sem leiddi til þess að gallblaðran var fjarlægð.

Spurning #6.

Telur læknaráð eitthvað benda til þess, að leggurinn hafi beygt vegna storkufyrirstöðu í æðinni?

Svar #6.

Það er mögulegt að leggurinn hafi beygt vegna storkufyrirstöðu en ógjörningur er að fullyrða um það nú. Leggur getur beygt á þennan hátt vegna fyrirstöðu (td storku), vegna þess að endi hans stingst inn í æðavegg og beygir af leið þegar ýtt er á eftir honum eða einhver meðfædd afbrigði eru á legu slagæða. (Ómskoðanir á æðinni síðar hafa ekki leitt í ljós nein afbrigði á legu æðanna.)

Spurning #7.

Telur læknaráð, að lega leggsins hafi verið til þess fallin að auka hættu á blóðstorknun?

Svar #7.

Nei. Læknaráð telur engar haldbærar rannsóknir liggja fyrir um áhættu á legu leggja. Venjan er hins vegar að láta leggi sem þessa vera í beinni stöðu. Áhættan á storku þrátt fyrir beina stöðu er þekkt og storka kringum æðaleggi án einkenna er algeng.

Spurning #8.

Telji læknaráð, að mistök hafi átt sér stað varðandi legu naflaslagæðaleggsins, er líklegt að þau eigi sjálfstæðan þátt í heilaskaða stefndu?

Svar #8.

Nei. Læknaráð telur ekki líklegt að lega æðaleggjarins eigi sjálfstæðan þátt í heilaskaða stefndu. Heilaskaði stefndu er útbreiddur heilaskaði vegna súrefnisskorts. Vandséð er hvernig leggurinn og í framhaldi segamyndun sem veldur háþrýstingi vegna áhrifa á nýru gæti verið orsakavaldur að umfangsmiklum súrefnisskorti í heila. Það er ekki hægt að sýna fram á súrefnisskort eftir fæðingu. Heilaskaði af völdum háþrýstings í nýbura er jafnan afleiðing heilablæðingar.

Spurning #9.

Ef svo er, hve mikinn hluta af metnum varanlegum miska og/eða varanlegri örorku má rekja til þessa?

Svar #9.

Sjá 8.

Spurning #10.

Ef svar við 8. spurningu er neikvætt, telur læknaráð jafnframt unnt að útiloka, að lega æðaleggsins eigi þátt í að valda þeim veikindum, sem leitt hafa til örorku stefndu?

Svar #10.

Já. Það er útilokað að lega æðaleggjarins valdi heilaskaða eins og að ofan er lýst. Hins vegar geta leggir beinir eða bognir valdið storku í slagæðum eins og fram kemur í gögnum. Örorka stefndu er á grunni umfangsmikls heilaskaða en ekki afleiðinga storkunnar í meginslagæð. Það er einnig vel þekkt að börn sem verða fyrir súrefnisskorti, sem þessum, hafa aukna tíðni á blóðstorku víðs vegar í líkamanum í kjölfarið.

Spurning #11.

Telur læknaráð, að ástæða hafi verið til að gera sérstakar rannsóknir (flæðirannsóknir eða storkupróf) á fyrstu sólarhringum eftir fæðinguna?

Svar #11.

Nei. Læknaráð telur ekki neina sérstaka ástæðu vera fyrir slíkum rannsóknum á fyrstu sólarhringum eftir fæðinguna.

Spurning #12.

Hvenær telur læknaráð, að heilaskemmdir stefndu, sem raktar verða til súrefnisskorts, hafi átt sér stað? Hvert er í því sambandi mikilvægi þykks barnabiks, lítils breytileika í fósturriti, atenolol meðferðar móður (25 mgr.) og lágs sýrustigs í naflaslagæðablóði við fæðingu?

Svar #12.

Læknaráð telur sterk rök fyrir því að heilaskemmdir stefndu hafi átt sér stað fyrir fæðinguna. Þykkt og gamalt barnabik og litun á belgjum og legi bendir til fósturstreitu fyrir fæðingu. Lítill breytileiki á fósturriti og lágt sýrustig í naflastrengsblóði getur bent til súrefnisskorts fyrir fæðingu. Ekki er talið að atenolol meðferð móður komi til álita að hafa átt hlut að þeirri atburðarás, sem leiddi til núverandi ástands barnsins.

Spurning #13.

Telur læknaráð ástæðu hafa verið, miðað við fyrirliggjandi upplýsingar um súrefnisskort í fæðingunni og legu æðaleggsins, til að gera frekari ráðstafanir en gerðar voru á tímabilinu frá fæðingu og þar til stefnda veiktist hastarlega á fjórða degi, til að minnka hættuna á þeim alvarlegu veikindum, sem þá komu til?

Svar #13.

Nei. Læknaráð telur að meðferð stefndu sé í samræmi við bestu þekkingu. Jafnvel þótt vitað sé að barn hafi orðið fyrir súrefnisskorti fyrir eða í fæðingu þá er ekki um aðra meðferð að ræða en styðjandi meðferð og halda súrefnisþrýstingi eðlilegum. Eftir að barnið fæðist er því ekki um súrefnisskort að ræða.

Spurning #14.

Var ástæða til að senda fylgjuna til rannsóknar? Hefði sú rannsókn verið til þess fallin að upplýsa um orsök veikindanna?

Svar# 14.

Já. Í ljósi þess að um fósturstreitu var að ræða er vel mögulegt að vitneskja um ástand barnsins í móðurkviði hefði getað sést með því að rannsaka fylgjuna.

Spurning #15.

Telur læknaráð líklegt, að stefnda hafi orðið fyrir óafturkræfum heilaskaða fyrir komu móður á fæðingardeild?

Svar #15.

Já. Sjá 12.

Spurning #16.

Er líklegt, að atvik í og fyrir fæðingu séu ein orsakir þess mikla heilaskaða, sem stefnda hlaut?

Svar #16.

Sjá 12.

Spurning #17.

Hvenær tekur áhrifa heilaskemmda, sem stafa af hækkuðum blóðþrýstingi eftir fæðingu, almennt að gæta á líkamsstarfsemi og hvenær sjást þær í rannsóknum?

Svar #17.

Hækkaður blóðþrýstingur sem veldur stórri heilablæðingu leiðir strax til klínískra einkenna. Hækkaðan blóðþrýsting má greina með einfaldri mælingu. Afleiðingar hans ef ekki er um að ræða heilablæðingu koma síðan hægt fram allt eftir því hversu hár þrýstingurinn er. Líffæri bila hvert af öðru á löngum tíma.

Spurning #18.

Koma fram í heilarannsóknum skemmdir, sem raktar verða til háþrýstings, sbr. heilaómanir 11. mars, 12. mars og 27. mars 1998, heilarit 27. mars 1998 og tölvusneiðmynd 17. apríl 1998?

Svar #18.

Nei. Skemmdir þær sem koma fram í rannsóknum samrýmast ekki háþrýstingi heldur súrefnisskorti.

Spurning #19.

Ef svo er, hvenær telur læknaráð, að þær hafi orðið og hvað hafi orsakað þær? Höfðu þær í för með sér líkamstjón umfram það, sem leiddi af heilaskaða vegna súrefnisskorts?

Svar #19.

Sjá 18.“

III.

Stefnda gerir þær athugasemdir við niðurstöðu læknaráðs og réttarmáladeildar þess, að í afgreiðslu og meðferð málsins hafi tekið þátt læknar á Landspítalanum og séu þeir, sem starfsmenn áfrýjanda, vanhæfir til þessara verka og beri því að líta með öllu fram hjá áliti læknaráðs.

Eins og að framan getur er það hlutverk læknaráðs að láta dómstólum í té umsagnir um læknisfræðileg efni. Aðstaðan hér á landi er slík, að flestir sérfræðingar í læknavísindum starfa á Landspítalanum. Af níu læknaráðsmönnum starfa fjórir á spítalanum, en enginn þeirra sem stóð að afgreiðslu þessa máls, starfar á kvennadeild eða Barnaspítala Hringsins og kom enginn þeirra að sjúkdómsmeðferð stefndu og móður hennar. Þá á enginn þeirra setu í æðstu yfirstjórn spítalans, sem tekið hefur afstöðu í málinu í samræmi við álit lækna kvenna- og vökudeildar. Hefur ekki verið sýnt fram á, að afgreiðsla ráðsins hafi verið í andstöðu við lög um læknaráð og reglugerð nr. 192/1942 um starfsháttu læknaráðs eða að ómálefnaleg sjónarmið hafi haft áhrif á úrlausn ráðsins, en álit þess og aðrar álitsgerðir í málinu verður að meta í ljósi þeirrar stöðu, sem álitsgjafar gegna.

Eins og að framan greinir hefur áfrýjandi lagt fram í málinu umsagnir læknanna Gísla H. Sigurðssonar og Ólafs Thorarensen um héraðsdóm í máli þessu. Stefndi hefur mótmælt framlagningu þessara skjala. Ljóst er, að umsagnir þessar eru ekki sönnunargögn í málinu, þar sem læknar þessir geta ekki borið um málsatvik, heldur er hér um álitsgerðir að ræða skrifaðar fyrir yfirstjórn spítalans og verður litið á þær sem slíkar.

IV.

Stefnda reisir kröfu sína á því, að gerð hafi verið mistök við læknishjálp á Landspítalanum fyrir og eftir fæðingu stefndu, sem leitt hafi til hins alvarlega heilsutjóns hennar.

Í fyrsta lagi telur stefnda, að of langur tími hafi liðið miðað við ástand móður stefndu frá því að hún kom á sjúkrahúsið þar til sérfræðingur var kallaður til og þar til barnið náðist með keisaraskurði. Læknaráð telur, að dræmt hafi verið brugðist við þeirri verklagsreglu, sem gilti á fæðingardeildinni, að hafa samband við sérfræðing vegna afbrigðilegra fósturhjartsláttarrita, en telur ólíklegt, að inngrip fyrr hefði nokkru breytt í þessu tilviki. Héraðsdómur taldi, að starfsmönnum áfrýjanda hefðu ekki orðið á mistök við fæðingarhjálp í kjölfar komu móður stefndu á fæðingardeild, eða viðbrögðum í kjölfar fæðingar, ákvörðun um lagningu æðaleggja eða um rannsóknir á fyrstu ævidögum stefndu. Með vísan til rökstuðnings héraðsdóms og ályktunar læknaráðs um að ólíklegt sé að tjón hafi hlotist af þessu er fallist á með áfrýjanda, að bótaskylda verði ekki á þessu reist.

Fyrir Hæstarétti var af hálfu stefndu fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms, að ekki hefði verið um saknæm mistök að ræða hjá starfsmanni áfrýjanda að blása súrefni í stefndu, áður en sogað var úr henni grænt legvatn neðan raddbanda.

Stefnda telur einnig, að ekki hafi verið gerðar viðhlítandi ráðstafanir á spítalanum eftir fæðinguna og þar til hún veiktist hastarlega til að minnka hættu á hinum alvarlegu veikindum og gagnrýnir það, að ekki hafi verið gerðar svonefndar flæðirannsóknir á fyrstu sólarhringum eftir fæðinguna. Læknaráð telur, að meðferð stefndu hafi verið í samræmi við bestu þekkingu og enga sérstaka ástæðu hafa verið til flæðirannsókna á fyrstu sólarhringum eftir fæðinguna. Eins og fram kemur í héraðsdómi lá ekki fyrir grunur um blóðsegamyndun hjá stefndu, þegar æðaleggurinn var þræddur upp eða eftir að hann var fjarlægður og verður starfsfólki Landspítala ekki talið til mistaka að hafa ekki gripið til sérstakra ráðstafana vegna hættu á blóðsegamyndun. Var það niðurstaða héraðsdóms, að viðhlítandi rannsóknir hafi verið gerðar á fyrstu ævidögum stefndu til þess að minnka hættu á alvarlegum veikindum hennar og er fallist á þá niðurstöðu.

Þá telur stefnda það ekki hafa verið forsvaranlegt að skilja æðalegginn eftir í naflaslagæðinni jafn lengi og raun var á eftir að í ljós var komið, að hann hafði tekið U-beygju. Rétt hefði verið að reyna að rétta hann eða draga hann út og leggja hann í útlim.

Eins og fram kemur í héraðsdómi hafði stefnda greinileg einkenni súrefnisskorts við fæðingu. Ástand hennar bar þess skýr merki. Ummerki um þykkt og gamalt barnabik, súrnun í naflastrengsblóði og fósturhjartsláttarrit bentu til þess, að hún hefði orðið fyrir súrefnisskorti í móðurkviði.

Í umsögn Hildar Harðardóttur, fæðingar- og kvensjúkdómalæknis, sem var á vakt er móðir stefndu kom inn til fæðingar, kemur fram, að grænt legvatn hafi komið í ljós, er fósturbelgir voru rofnir, sem þýði að barnið hafi haft hægðir (barnabik) í móðurkviði og sé merki um, að streita hafi verið hjá fóstrinu. Við keisaraskurðinn hafi svo komið í ljós, að belgir voru grænir og einnig legholið, en það sé merki um, að langur tími hafi liðið frá því að barnabik kom í legvatnið. Fyrir dómi bar Hildur, að ljóst væri, þegar bæði belgir og legveggur séu grænlituð, að það hafi ekki gerst á síðustu klukkustundum fyrir fæðingu, það taki lengri tíma fyrir þetta græna vatn að lita allt umhverfið, það taki daga, jafnvel viku.

Við fæðingu var stefnda í andnauð og þurfti á öndunaraðstoð að halda. Voru því lagðir æðaleggir í naflastrengsbláæð og naflastrengsslagæð. Slagæðar í naflastreng eru tvær. Ekki tókst að þræða í aðra slagæðina en það tókst að þræða legginn í hina. Samkvæmt röntgenmynd, sem tekin var um kl. 9:10 5. mars 1998 var ljóst að bláæðaleggurinn lá í lifrina og þurfti að fjarlægja hann, en slagæðaleggurinn hafði tekið U-beygju en var með endann á góðum stað. Ástand stefndu var versnandi og súrefnisþörf hennar komin upp í 90%. Hún var þá tengd við öndunarvél og ákveðið var að leggja nýjan æðalegg í naflabláæð, en við röntgenmyndatöku kl. 11:10 kom í ljós að sá æðaleggur lá einnig inn í lifur og var fjarlægður. Sérfræðingar á deildinni töldu ástand stefndu vera á þann veg, að nauðsynlegt væri að þeir hefðu stöðugan aðgang að slagæðalegg áfram og væri ekki ráðlegt að breyta legu leggsins, sem virkaði vel. Nauðsynlegt væri að fylgjast vel með súrefni og sýrustigi í blóði, þegar öndunarvél væri notuð og meðan barnið væri að komast yfir mikinn súrefnisskort fyrir fæðinguna.

Í áliti Hákonar Hákonarsonar, barnalungnalæknis og sérfræðings í barnagjörgæslu, segir að sú ákvörðun að skilja æðalegginn eftir í naflaslagæðinni í U-beygju, án þess að kanna frekar orsakir þess og/eða reyna að þræða annan æðalegg inn í hina naflaslagæðina eða í útlimaæð, verði að teljast áhættusöm og samræmist ekki þeim vinnubrögðum, sem flestir læknar myndu tileinka sér við slíkar aðstæður. Hann bendir á, að afar erfitt sé að sanna að æðaleggurinn hafi valdið blóðtappanum í æðinni með þeim afleiðingum, sem fylgdu í kjölfarið, þótt líklegt megi telja, að hann hafi átt þátt í tilurð blóðtappans. Fyrir dómi bar Hákon, að hann hefði mikla reynslu af því að leggja svona æðaleggi, en hjá þeirri stofnun sem hann vann í Bandaríkjunum hefði verið farið að leggja þessa leggi meira í útlimi heldur en í naflaslagæð. Ef brátt þyrfti að bregðast við væru þeir þó yfirleitt alltaf settir í naflaæð. Hvort tveggja séu viðurkenndar aðferðir við að leggja inn leggi og sé ekkert athugavert við það að hafa legg inni í 24 tíma. Hann telji þó ekki skynsamlegt að skilja legginn eftir í æð, ef hann þræðist ekki rétt upp. Þá ætti að fjarlægja hann „þegar sem sagt búið væri að stabilisera barn og þá að koma inn öðrum æðalegg ef æðaleggur þyrfti að vera til staðar.“

Baldvin Jónsson, sérfræðingur í nýburalækningum við Karolinska sjúkrahúsið í Stokkhólmi, segir í álitsgerð sinni, að þræðing æðaleggs í naflaslagæð sé með tíðast framkvæmdu aðgerðum á nýburagjörgæsludeildum. Þessi leggur sé nánast alltaf valinn, þegar þörf sé að fylgjast með blóðþrýstingi og blóðgösum hjá veikum nýbura. Æðastífla (thrombus) sé næst algengasta aukaverkunin. Það hafi komið fram í rannsóknum, að storkumyndun sé algengari hjá börnum, sem hafa orðið fyrir súrefnisskorti í fæðingu (Hypoxic Ischemic Encephalopathy, HIE).  Það sé ævinlega matsatriði hversu lengi leggurinn sé látinn liggja, en í þessu tilviki hafi hann greinilega verið hafður inni í stuttan tíma. Það hafi verið mat sérfræðinga deildarinnar að láta legginn liggja óhreyfðan meðan barnið var mjög óstöðugt og fjarlægja hann eftir rúman sólarhring. Sú spurning vakni, hvort ekki hefði mátt „bakka“ og rétta úr leggnum, og sé það regla á hans vinnustað. Ekki sé unnt að staðfesta, að leggurinn sjálfur sé valdur að storkunni. Börn með HIE fái oft einkenni bilana í fleiri líffærum en miðtaugakerfi. Súrefnisskorturinn einn geti valdið storku og storkutruflunum. Seinni einkenni stefndu bendi til þess, að hún hafi orðið fyrir alvarlegum súrefnisskorti. Að hans mati sé mun líklegra, að núverandi heilaskaða hennar megi rekja til súrefnisskorts fyrir og/eða í fæðingu. Það, sem meðal annars styðji þetta sé „að hún fær mest einkenni frá miðtaugakerfi á klassiskum tíma (ca. 3 degi), þegar almennt er álitið að bjúgur í heila sé mestur eftir súrefnisskort hjá nýfæddu barni. Að storkan og nýrnabilunin sé orsakavaldur að miðtaugakerfiseinkennum hennar tel ég afar ósennilegt. Bráð hækkun á blóðþrýsting samræmist ekki breytingum þeim sem sjást í heila hennar. Þær breytingar sem maður ætti von á væru annarsvegar blæðing í heilavef og/eða drep frá blóðtappa. Mér virðist sem tölvusneiðmyndir sýni fyrst og fremst útbreiðslu skaða sem stafar af súrefnisskorti.“ Fyrir dómi bar Baldvin, að vissar áhættur fylgdu því að leggja æðaleggi í útlimi, og að hans fyrsta val væri alltaf naflinn hjá nýfæddu barni. Hann taldi, að ekkert hefði verið í gögnum þeim, sem hann skoðaði, sem benti til þess, að hætta væri á blóðtappa.

Pétur Lúðvígsson, sérfræðingur í heila- og taugasjúkdómum barna, gerði „neurologiska“ skoðun á stefndu 21. apríl 1998. Niðurstaða hans var: „Útbreiddar hvítefnisskemmdir á tölvusneiðmynd sem benda til global hvítefnisskemmda með vefjatapi en einnig eru fyrir hendi afmarkaðar laesionir eins og lýst er.“ Pétur bar fyrir dómi, að við ómskoðanir, sem gerðar voru á heila stefndu 11. og 12. mars 1998 hefðu verið komnar hvítefnisbreytingar, sem bentu til súrefnisskorts. Venjulega þurfi nokkrar vikur, í það minnsta tvær til fjórar vikur, fyrir rýrnun að koma í ljós.  Taldi hann, að breytingarnar, sem sjást á tölvusneiðmyndinni, sem tekin var 17. apríl, væru útbreiddar og bentu til víðtæks skaða á hvítuefni, en algengast sé, að súrefnisskortur valdi hvítefnisskaða. Dæmigerðar breytingar vegna heilablæðinga séu afmarkaðri heldur en þessar breytingar. Á tölvusneiðmyndinni hafi sést tvær aðrar breytingar, sem séu afmarkaðar, og gætu hafa stafað af öðrum ástæðum en súrefnisskorti, til dæmis háum blóðþrýstingi. Þær breytingar, sem sést hafi, séu fyrst og fremst breytingar, sem sjást við súrefnisskort og séu líklegri til að valda þeim skaða sem varð. Rannsóknir sýni, að svona heilaskaða megi langoftast rekja til súrefnisskorts fyrir fæðingu frekar en í eða eftir fæðingu.

Læknaráð telur, að það hafi verið rétt ákvörðun miðað við þær aðstæður, sem uppi voru, að láta legginn liggja áfram í naflaslagæðinni. Það hafi ekki verið um annan aðgang að slagæð að ræða á þeirri stundu, óvarlegt hefði verið að reyna að breyta legu leggsins og taka áhættu á að hafa ekki neina slagæðalínu. Mjög vandasamt sé að leggja slagæðaleggi í handlegg nýbura. Engar haldbærar rannsóknir liggi fyrir um áhættu á legu leggja, þótt venja sé að láta þá vera í beinni stöðu. Ekki sé líklegt, að lega leggsins eigi sjálfstæðan þátt í heilaskaða stefndu. Skaðinn sé útbreiddur heilaskaði vegna súrefnisskorts og sé útilokað, að lega leggsins valdi heilaskaða þeim, sem fram kom. 

          Það er almennt viðurkennt, að notkun slagæðaleggja getur falið í sér hættu á blóðtappa. Stefnda var lífshættulega veik og komin í öndunarvél, sem krafðist þess að fylgst væri með súrefni og sýrustigi í blóði, blóðþrýstingi og vökva- og lyfjagjöf. Líta verður til þeirra aðstæðna, sem læknarnir voru í, er þeir ákváðu að láta legginn liggja, en eins og að framan greinir var ekki um annan aðgang að slagæð að ræða, er hér var komið. Ósannað er að aukin áhætta sé á blóðtappa vegna lykkju á leggnum.

Sérfræðingar telja, eins og að framan greinir, að heilaskaði stefndu stafi fyrst og fremst af súrefnisskorti. Skemmdir þær, sem fram koma í rannsóknum á heila stefndu, samræmast því, að um súrefnisskort hafi verið að ræða og verður að telja, að yfirgnæfandi líkur séu á því, að tjón stefndu stafi af því. Heilaskemmdir, sem gátu fylgt blóðtappa á fimmta degi eftir fæðingu stefndu, hefðu hins vegar komið fram sem blæðingar af völdum háþrýstings, en slíkar heilaskemmdir voru óverulegar. Verður því ekki séð, að orsakasamband sé á milli legu leggsins og heilaskemmda stefndu. Hefur ekki verið sýnt fram á, að tjón stefndu megi rekja til mistaka starfsfólks áfrýjanda.

Samkvæmt framansögðu verður áfrýjandi sýknaður af kröfu stefndu í máli þessu.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað stefndu er staðfest.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, svo sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Áfrýjandi, íslenska ríkið, skal vera sýkn af kröfu stefndu, Söru Lindar Eggertsdóttur.

Gjafsóknarákvæði héraðsdóms er staðfest.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 800.000 krónur.

 


Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. apríl 2002.

Mál þetta var höfðað 25. september 2001 og dómtekið 22. mars 2002.

Stefnendur eru Eggert Ísólfsson, kt. 020161-­3299 og Sigurmunda Skarphéðinsdóttir, kt. 280460-5409, vegna ólögráða dóttur þeirra, Söru Lindar Eggertsdóttur kt. 050398-2269, öll að Mosarima 37 í Reykjavík.

Stefndi er íslenska ríkið.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til að greiða henni skaða- og miskabætur að fjárhæð 28.522.474 krónur með 2% ársvöxtum frá 5. mars 1998 til 27. september 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál.

Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda en til vara lækkunar dómkrafna. Þá krefst stefndi málskostnaðar.

Málsatvik og helstu ágreiningsefni

Sara Lind Eggertsdóttir er stefnandi máls þessa en samkvæmt 3. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991 fara foreldrar hennar, þau Eggert Ísólfsson og Sigurmunda Skarphéðinsdóttir, með forræði málsins sökum skorts hennar á málflutningshæfi fyrir æsku sakir.

Stefnandi fæddist 5. mars 1998 klukkan 4.58. Móðir hennar var þá 37 ára gömul og gengin tæplega 41 viku. Meðgangan gekk eðlilega fyrir sig. Móðirin tók 25 mg á dag af lyfinu Atenolol vegna hjartsláttaróreglu. Hún kom síðast til mæðraskoðunar á heilsugæslustöðina í Grafarvogi um hádegisbil 4. mars og var þá skráð í mæðraskrá að hreyfingar væru góðar.

Aðdragandi að fæðingu stefnanda var með þeim hætti að móðir hennar kom inn á kvennadeild Landspítalans, nú Landspítala háskólasjúkrahúss, til fæðingar um kl. 2 aðfaranótt 5. mars 1998 en fæðingarsótt hafði hafist um klukkustund áður. Í fæðingarskrá er ritað að móðir lýsi minnkandi hreyfingum síðustu daga.

Við komu móður stefnanda á fæðingardeildina tóku á móti henni Guðlaug Pálsdóttir ljósmóðir og Lilja Guðnadóttir, þá ljósmæðranemi. Ljósmóðirin fól ljósmæðranemanum umsjón hennar og var hún tengd við sírita kl. 2.07 til að taka fæðingarhjartsláttarrit. Um 20 mínútum síðar kallaði ljósmæðraneminn á ljósmóðurina. Fyrir dómi bar ljósmóðirin að hún hafi skipt um sírita þegar hún hafi séð að ritið var flatt. Á nýja ritinu hafi mátt sjá örlítil viðbrögð. Hafi hún talið að um væri að ræða svefnkafla hjá barninu. Hún hafi gefið móður að drekka og látið hana færa sig af hlið og á bakið. Hjartsláttarhraði fósturs hafi verið innan eðlilegra marka.

Samkvæmt gögnum var grunnlína ritsins 150 slög á mínútu en engar hraðanir. Breytileiki í ritinu var um 5-10 slög á mínútu. Óreglulegir samdrættir voru til staðar hjá móður en engin breyting varð á fósturhjartsláttarriti þegar samdrættir urðu í legi., Hildur Harðardóttir fæðingarlæknir var kölluð til um kl. 3.30 og kl. 3.45 er skráð á fósturritastrimil að hún hafi framkvæmt skoðun sem fólst í vaginalþreifingu og var þá kollur barnsins örvaður til að freista þess að framkalla hröðun í hjartslætti. Við það kom fram stutt hröðun úr grunnlínu í 160 slög á mínútu. Ekki kom fram hraður hjartsláttur eða dýfur í fósturriti. Belgir voru sprengdir um 10 mínútum síðar og kom þá barnabikslitað legvatn niður. Rafskaut var sett á koll fóstursins og fylgst með hjartsláttarriti næstu mínúturnar.

Þar sem ekki fengust viðunandi viðbrögð fósturs var ákveðið að ljúka fæðingu með keisaraskurði og tók fæðingarlæknirinn þá ákvörðun um kl. 4.15. Móðir stefnanda var komin á skurðstofu kl. 4.30 og fæðing afstaðin kl. 4.58. Kom þá í ljós þykkt grænt legvatn og reyndist legholið og fósturbelgir vera grænt. Sogið var úr vitum barnsins og maga áður en skilið var á milli. Sýrustig í naflastrengsslagæð var mælt og reyndist vera 7.168 og HCO3 13.8 og base deficit 14.5.

Ragnheiður Elísdóttir, þá reyndur deildarlæknir, tók við stefnanda af skurðarborðinu og færði hana á barnaborð á skurðstofunni. Stefnandi andaði ekki og var súrefni haldið að vitum hennar. Ragnheiður bar fyrir dómi að þar sem stefnandi andaði ekki og hjartsláttur orðinn hægur hafi hún ákveðið að dæla lofti í hana til að framkalla öndun og hafi það tekist.

Eftir það var stefnandi flutt af skurðstofu yfir á vökudeild Barnaspítala Hringsins. Var þá skráð að sogið hafi verið meira úr vitum hennar og að barnabik hafi verið fyrir neðan raddbönd. APGAR-skor var 4 einni mínútu eftir fæðingu og 6 fimm mínútum eftir fæðingu.

Skoðun á vökudeild leiddi í ljós að stúlkan var eðlilega sköpuð. Fæðingarþyngd hennar var 2924 g, lengd 51 sm og höfuðummál 34,7 sm.

Við lungnahlustun heyrðist brak í lungun. Við röntgenmynd af lungum sást íferð neðst í vinstra lunga. Stúlkan hafði súrefnisskort og var því sett í hitakassa og gefið súrefni. Eftir það voru þræddir æðaleggir í naflabláæð og aðra naflaslagæðina en áður hafði mistekist að þræða í hina. Samkvæmt framburði vitna framkvæmdi Ragnheiður Elísdóttir þræðinguna undir umsjá Atla Dagbjartssonar yfirlæknis vökudeildar. Tók þræðingin um hálfa klukkustund og var lokið milli kl. 7 og 8 um morguninn. Í gögnum málsins kemur fram að æðaleggir þessir séu notaðir til að fylgjast með sýrustigi, súrefnisinnihaldi og koltvísýringsinnihaldi slagæðablóðs og blóðþrýstingi mjög veikra nýbura, svo og til vökva- og lyfjagjafa.

Röntgenmynd var tekin af stefnanda kl. 9.20 til að kanna staðsetningu æðaleggjanna. Kom þá í ljós að leggurinn sem lagður var um naflabláæðina hafði endað í lifur og var dreginn út í kjölfarið. Leggurinn sem lagður hafði verið í naflaslagæðina lá hins vegar inn í meginslagæðina eins og gert hafði verið ráð fyrir en á móts við 11. brjósthryggjarlið sveigði hann til baka í U-beygju, þannig að endi hans lá á móts við efri hluta 3. lendarhryggjarliðs.

Barnalæknarnir Atli Dagbjartsson og Sveinn Kjartansson báru báðir fyrir dómi að rætt hafi verið um legu æðaleggjarins á fundi meðal sérfræðinga deildarinnar og hafi niðurstaðan verið sú að láta hann liggja fyrst um sinn þar sem endi hans hafi verið í ákjósanlegri stöðu.

Nýr æðaleggur var lagður í naflabláæðina en við röntgenmyndatöku kl. 11.00 kom í ljós að hann lá einnig inn í lifur og var hann fjarlægður.

Skömmu eftir að lega naflaslagæðarleggjarins var ljós þurfti stefnandi á öndunaraðstoð að halda og var hún tengd við öndunarvél. Slagæðaleggurinn var látinn liggja í fyrrgreindri legu þar til hann var fjarlægður milli kl. 13 og 15 daginn eftir eða eftir um 29-32 klst. Gildi blóðgasa voru þá eðlileg. Hún hafði þá verið tekin úr öndunarvél og barkaslanga fjarlægð kvöldinu áður þar sem ástand hennar taldist þá stöðugt. Blóðþrýstingur hélst eðlilegur, þvagútskilnaður góður og ástand batnandi.

Stefnandi hafði ekki fengið fæðu í maga og var höfð fastandi áfram í sólarhring til viðbótar. Þegar hún var tveggja sólarhringa gömul 7. mars var byrjað að næra hana um munn og að morgni fjórða dags var hún komin á fullt fæði. Hún fékk sýklalyf strax frá fæðingu.

Hinn 9. mars er skráð í skýrslu hjúkrunarfræðings á næturvakt að stúlkan drekki illa og æli talsvert eftir hverja gjöf. Í skýrslu hjúkrunarfræðings á dagvakt kemur fram að stúlkan hafi drukkið þokkalega, hún væri þó slöpp og virtist líða illa. Eftir morgunstofugang Sveins Kjartanssonar barnalæknis þennan dag, sem var mánudagur, skráði hann í sjúkraskrá að stúlkan væri með nokkuð þaninn kvið og liti ekki hressilega út. Klukkan 16.00 var skráð í skýrslu hjúkrunarfræðings að stúlkan væri föl og “marmoreruð”. Súrefnismettun væri 85-90% og hún mjög óvær og stynjandi.

Á þessum sólarhring veiktist stefnandi hastarlega með krömpum auk einkenna nýrnabilunar. Hún fór að sýna merki um lélegt blóðflæði og blóðþrýstingur mældist verulega hækkaður. Stúlkan var meðhöndluð með lyfjunum Dopamin og Dobutamin vegna hins lélega blóðflæðis og með Nitroprusid til að lækka blóðþrýsting.

Við rannsóknir kom í ljós að stefnandi var með blóðsegamyndun í aðalslagæðinni í kviðarholinu og í greinum út frá henni. Lokun var á hægri nýrnaslagæð og hálfgildings lokun á vinstri nýrnaslagæðinni. Ennfremur var um að ræða segamyndun í stóru grindarslagæðunum. Þá kom í ljós að drep var í öðru nýranu.

Nýrnasérfræðingur, Viðar Örn Viðarsson, var fenginn til að taka að sér þann þátt meðferðar stefnanda sem laut að nýrnabiluninni. Lyf var gefið til að leysa upp blóðsegann. Hún var sett í öndunarvél og var tengd henni í vikutíma eða þar til henni fór aftur að batna. Næstu tvær til þrjár vikurnar naut hún meðferðar vegna háþrýstings, hjartabilunar- og nýrnabilunareinkenna og skilaði hún árangri.

Þegar stefnandi var þriggja vikna gömul, 27. mars, var hún komin á lyf um munn en veiktist þá aftur og fékk merki um sýkingu. Í ljós kom að hún var með gallblöðrubólgu og var gallblaðran tekin með skurðaðgerð.

Tekin var mynd af ósæð (aortografia) 10. mars kl. 11.30 og liggur fyrir í málinu umsögn Einars H. Jónmundssonar læknis um hana. Önnur æðamyndataka var framkvæmd 11. mars kl. 19.00 og liggur fyrir umsögn sama læknis um hana, dags. 12. mars. Verður vitnað til þessara umsagna í niðurstöðukafla.

Ómskoðun var framkvæmd á höfði stefnanda 11. mars kl. 14.00. Í umsögn læknis um þá skoðun kom fram að heilahólf væru eðlilega víð, heili samhverfur við miðlínu og ekki sæjust með vissu nein teikn um fyrirferðir, blæðingu eða annað athugavert. Önnur ómskoðun á höfði var framkvæmd 12. mars kl. 15.10. Í umsögn sama læknis og hafði annast ómskoðun deginum áður kom fram að heilahólf væru eðlilega víð. Dreifðar, svolítið flekkóttar, ómríkar breytingar sæjust og væru þær fyrst og fremst dreifðar um hvíta heilavefinn en einnig basalt svarandi til thalamostriata svæðisins. Breytingarnar væru nokkuð samhverfar um miðlínu. Í umsögninni kom einnig fram að breytingarnar væru sennilega svipaðar og þær sem sést hafi við ómskoðun 11. mars með "Risafurunni".

Tölvusneiðmynd af höfði stúlkunnar sem tekin var 19. apríl 1998 sýndi útbreiddar lágþéttnibreytingar í hvíta efni heilans og að heilahólf voru víð. Álit Péturs Lúðvígssonar heila- og taugasérfræðings var að um væri að ræða útbreiddar hvítefnisskemmdir með vefjatapi. Einnig greindi hann ákveðin brottfallseinkenni við “neurologiska” skoðun. Þroskahorfur telpunnar taldi hann slæmar.

Með bréfi 14. júlí 1998 óskaði faðir stefnanda eftir áliti Landlæknis á því "…hvort ekki hafi eitthvað meira en óheppni orðið þess valdandi hve alvarlegum veikindum Sara Lind lenti í stuttu eftir fæðingu". Embætti landlæknis leitaði eftir áliti sérfræðings í barnalækningum og er umsögnin dagsett 10. júní 1999 en óundirrituð. Landlæknir hefur upplýst að hún stafi frá Hákoni Hákonarsyni barnalækni. Eftir það leitaði landlæknir eftir sjónarmiðum Atla Dagbjartssonar yfirlæknis vökudeildar Barnaspítala Hringsins. Í kjölfarið leitaði landlæknir annars sérfræðiálits sem dagsett er 26. september 1999 en óundirritað. Landlæknir hefur síðar upplýst að hún stafi frá Baldvini Jónssyni, sérfræðingi í nýburalækningum. Landlæknir skilaði álitsgerð 15. október 1999, sem byggð var á síðarnefndu álitsgerðinni.

Í tilefni af því ritaði lögmaður stefnanda embættinu bréf, sem dagsett er 21. janúar 2000, og óskaði eftir því að hann fengi afrit af álitsgerð fyrrnefnds sérfræðings í barnalækningum. Í svarbréfi embættisins frá 3. febrúar 2000 kemur fram að í umræddu máli hafi verið erfiðleikum bundið að afla greinargerðar frá sérfræðingi hérlendis í þeirri undirsérgrein sem um ræddi vegna fámennis í greininni. Því hafi verið leitað álits barnalæknis sem ekki hefði sérfræðiréttindi í nýburalækningum og starfaði ekki við þá grein. Áliti hans hafi verið mótmælt af hálfu forsvarsmanna Barnaspítala Hringsins þar sem ekki væri um að ræða sérfræðiálit nýburalæknis. Hafi þessar athugasemdir verið teknar til greina og fenginn sérfræðingur í nýburalækningum sem starfaði erlendis til þess að yfirfara málið.

Í áliti landlæknisembættisins frá 15. október 1999, er rakið fyrrgreint álit sérfræðings í nýburalækningum frá 26. september 1999. Með hliðsjón af sérfræðiáliti þessu var það mat embættisins að ekki hafi verið staðið ótilhlýðilega að meðhöndlun Söru Lindar. Í niðurstöðukafla dómsins er vitnað til þessa álits Baldvins Jónssonar og einnig álits Hákonar Hákonarsonar. 

Í málinu liggur frammi umsögn Atla Dagbjartssonar, yfirlæknis vökudeildar Barnaspítala Hringsins, dagsett 30. ágúst 1999, sem gefin var í tilefni af áliti Hákonar Hákonarsonar. Þar kom meðal annars fram að þar sem um flókna aðgerð og sérhæft vandamál hafi verið að ræða verði að gera kröfu um að leitað sé álits nýburalæknis en ekki læknis sem ekki vinni við nýburagjörgæslu. Taldi hann álitsgerðina ómarktæka. Í umsögninni kemur fram að í tilviki stefnanda hafi ekki tekist að þræða í fyrri slagæðina sem reynd var heldur hafi það tekist með þá síðari. Það sé algengt og sjaldnast tekið fram í sjúkraskrá þegar svo fari. Þá hafi ekki verið vart fyrirstöðu þegar leggurinn hafi verið þræddur inn og ekki ljóst að hann hafði tekið U-beygju fyrr en við röntgenmyndatöku að þræðingu lokinni. Miklar umræður hafi átt sér stað meðal sérfræðinga deildarinnar um hvernig á því hafi staðið að leggurinn hafi tekið slíka beygju. Þótti þeim líklegast að einhvers konar vanskapnaður væri á kviðarholsslagæðinni, endi leggsins rekist í og svignað enda leggurinn úr mjúku efni og grannur miðað við holrúm slagæðarinnar. Mat þeirra hafi verið að barnið nyti svo mikils hagræðis af því að hafa legginn þar sem hann var að ákveðið var að láta hann liggja meðan barnið væri að komast yfir erfiðustu veikindi sín eftir mikinn súrefnisskort fyrir fæðinguna. Leggurinn hafi verið fjarlægður þegar hann hafði legið í æðinni í um það bil 32 klukkustundir en þá hafi barnið verið úr lífshættu. Blóðþrýstingur hafi haldist eðlilegur allan tímann sem leggurinn hafi legið.

Þann 18. apríl 2000 var af hálfu lögmanns stefnanda óskað eftir afstöðu embættis ríkislögmanns til bótaskyldu ríkisins. Þá var jafnfram óskað eftir samþykki af hálfu ríkisins við því að lagt yrði til grundvallar að hvort tveggja örorku- og miskastig barnsins teldist 100%.

Ríkislögmaður óskaði 22. maí 2000 eftir ítarlegri umsögn Landspítala-háskólasjúkrahúss um málið auk frekari gagna og upplýsinga er kynnu að hafa þýðingu. Umsögn sjúkrahússins er dagsett 17. október 2000 og byggir á samantekt Atla Dagbjartssonar, dagsettri 13. október 2000, um sjúkdómsferil stefnanda.

Í umsögninni kemur fram að öll einkenni barnsins fyrir og strax eftir fæðingu hafi bent til heilaskemmda vegna súrefnisskorts fyrir fæðinguna. Þekkt sé að slíkt ástand geti valdið stíflu í meginslagæð og sé stífla af þeirri gerð næst algengasta aukaverkun eða afleiðing súrefnisskorts í móðurkviði. U-beygja æðaleggsins geti sterklega bent til þess að stíflan hafi þegar verið til staðar þegar hann var lagður inn. Jafnvel þó æðastíflan hafi orsakast af legu æðaleggjarins sé afar ólíklegt að heilaskemmdirnar stafi af háþrýstingnum sem verið hafi afleiðing æðastíflunar. Loks er á það bent að kringumstæður hafi verið svo alvarlegar og að um líf og dauða hafi verið að tefla hjá barninu, að útilokað hafi verið á þeim tíma að rannsaka frekar legu á æðaleggnum á þeirri stundu. Með vísan til þessa var ekki fallist á að mistök hefðu verið gerð þegar æðaleggurinn var látinn liggja óhreyfður í þeirri stöðu sem hann lagðist í né að heilsutjón barnsins verði til þess rakið.

Bótaskyldu var hafnað með bréfi 30. október 2000 og með bréfi 6. desember 2000 var tekið fram, að staðreyna bæri örorku og miskastig með matsgerð samkvæmt 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Óskað var eftir vottorði frá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins 11. desember 2001 um ástand og horfur stefnanda og lágu niðurstöður stofnunarinnar fyrir 13. desember 2000. Þar kemur fram að stefnandi sé með alvarlega þroskaröskun og þroskaframvinda hafi verið mjög hæg. Einnig sé mikil frávik í hreyfiþroska.

Mats var óskað hjá örorkunefnd 8. janúar 2001 og er álitsgerð hennar dagsett 3. júlí 2001. Í niðurstöðum kemur fram að ljóst sé að stefnandi búi við mjög alvarlega fötlun og batavonir séu engar. Nefndin taldi tímabært að meta afleiðingar fötlunar stefnanda og mat varanlegan miska hennar 100%. Einsýnt þótti að hún gæti ekki aflað neinna vinnutekna í framtíðinni og varanleg örorka hennar metin 100%. Tekið var fram að örorkunefnd tæki ekki afstöðu til þess hvort orsök hinnar alvarlegu fötlunar væri súrefnisskortur fyrir fæðingu, læknismeðferð eftir fæðingu eða sambland af hvoru tveggja.

Málsástæður og lagarök málsaðila

Dómkröfur stefnanda eru á því byggðar að gerð hafi verið mistök við læknishjálp á Landspítalanum við og eftir fæðingu Söru Lindar sem leitt hafi til hins alvarlega heilsutjóns hennar. Leiði þetta til skaðabótaábyrgðar stefnda, sem beri ábyrgð á rekstri spítalans. Yrði ekki talið sannað, að mistök starfsmanna spítalans hafi valdið heilsutjóninu, beri að leggja sönnunarbyrðina á stefnda fyrir því að tjónið hefði orðið, þó að engin mistök hefðu verið gerð.

Stefnendur telja annmarka hafa verið á læknisþjónustu spítalans. Í fyrsta lagi hafi of langur tími liðið, miðað við ástand móður stefnanda, frá því hún kom inn á sjúkrahúsið, þar til sérfræðingur var kallaður til og þar til barnið náðist með keisaraskurði. Skjótari viðbrögð í þessum efnum hefðu verið til þess fallin að minnka líkur á heilsutjóni Söru Lindar.

Í öðru lagi komi fram í sjúkraskrá spítalans að blásið hafi verið súrefni í stúlkuna, áður en sogað hafi verið úr henni grænt legvatn neðan raddbanda. Þetta hafi verið til þess fallið að auka áhættu á þeim skaða sem legvatnið geti valdið.

Í þriðja lagi hafi ekki verið forsvaranlegt, að skilja æðalegginn eftir í naflaslagæðinni svo lengi eftir að í ljós hafi verið komið, að hann hafði tekið U-beygju. Þessi lega leggsins hafi verið til þess fallin að framkalla blóðstorknun. Telur stefnandi það hafa átt sér stað í raun og veru og hafi það valdið hinum alvarlega skaða. Í sjúkraskrá spítalans sé að finna ýmsar upplýsingar sem bendi til þess að blóðtappinn hafi ekki verið kominn til fyrst eftir fæðinguna. Þess vegna hafi leggurinn ekki bognað vegna storkufyrirstöðu í æðinni. Telja stefnendur hér vera komna líklegustu skýringuna á skaðanum.

Í fjórða lagi hafi ekki verið gerðar viðhlítandi ráðstafanir á spítalanum, eftir fæðinguna og allt þar til barnið veiktist svo hastarlega á fjórða sólarhring, til að minnka hættu á hinum alvarlegu veikindum þrátt fyrir að því sé nú haldið fram af stefnda, að sjá hafi mátt merki um að blóðtappinn eigi rót sína að rekja til atvika fyrir og við fæðinguna sjálfa.

Í fimmta lagi hafi ekki verið gerðar svonefndar flæðirannsóknir á fyrstu sólarhringum eftir fæðinguna, en þær hefðu getað upplýst um orsakir blóðstorknunar hjá stúlkunni. Af hálfu stefnanda er því haldið fram að framangreind atriði styðji það sjónarmið að sönnunarbyrðin fyrir því að skaðinn hefði orðið, þó að leggurinn hefði ekki verið skilinn eftir í umræddri stöðu, verði lögð á stefnda.

Stefnandi kveður dómkröfur sínar vera byggðar á skaðabótalögum nr. 50/1993 og sundurliðist þær þannig:

1.   Bætur vegna varanlegar örorku samkvæmt 8. gr. skaðabótalaga:

 

      4.000.000 krónur x 4243/3282 = 5.171.237 krónur x 400%     

20.684.948 krónur

2.   Bætur vegna varanlegs miska samkvæmt

 

      4. gr. skaðabótalaga:                                 5.171.237 krónur ­

 

     Viðauki samkvæmt 1. mgr. 4. gr. i.f.      2.585.619 krónur

7.756.856 krónur­

3.   Þjáningabætur samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga, tímabilið

 

       5/3-21/4'98 (48 daga) 1.300 x 4243/3282 x 48

      80.671 krónur

      Samtals

28.522.475 krónur

 

Bætur vegna varanlegrar örorku reiknist eftir 8. gr. skaðabótalaga. Samkvæmt 15. gr. laganna hafi viðmiðunarfjárhæð 4. gr. numið 5.171.237 krónum í september 2001, en lánskjaravísitala júlímánaðar 1993, við gildistöku skaðabótalaga, hafi verið 3282 stig en 4243 stig í september 2001. Þessi viðmiðunarfjárhæð reiknist fjórföld í tilviki 100% örorku, samkvæmt 4. mgr. 8. gr.

Bætur vegna varanlegs miska reiknist eftir 4. gr. laganna og samkvæmt fyrrgreindum verðlagsforsendum. Krafist sé 50% álags á miskabætur samkvæmt heimild í 1. mgr. 4. gr. Ekki sé nokkur vafi á að ástæða sé til að beita því ákvæði í tilviki stefnanda, þar sem vart sé unnt að hugsa sér alvarlegra miskatjón en hennar. Hún sé fjölfötluð, með einkenni spastískrar heilalömunar og algerlega ósjálfbjarga. Engin von sé um bata.

Þjáningarbætur samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga reiknist í 48 daga. Sé krafan studd við bréf Péturs Lúðvígssonar læknis á Barnaspítala Hringsins 5. september 2001, þar sem hann láti í ljós það álit, að helst sé hægt að miða við það tímabil, er stefnandi hafi dvalið á sjúkrahúsi fyrst eftir fæðingu.

Af hálfu stefnda er hafnað sjónarmiðum um að mistök hafi orðið af hálfu starfsmanna stefnda fyrir eða eftir fæðingu stefnanda og er öllum kröfum þar að lútandi vísað á bug. Þá er sjónarmiðum stefnanda um sönnunarbyrði alfarið hafnað.

Af hálfu stefnda er því haldið fram að ljósmóðir hafi brugðist við á viðunandi hátt þegar móðir stefnanda kom inn til fæðingar og ekkert hafi gefið henni tilefni til að álíta að kalla þyrfti til sérfræðing strax. Sé hvorki unnt að fallast á að of langur tími hafi liðið þar til sérfræðingur hafi verið kallaður til og þar til barnið fæddist með keisaraskurði né að gangur mála hefði verið frábrugðinn því sem síðar varð jafnvel þó læknir hefði verið kallaður til strax við komu móður á sjúkrahúsið. Þá sé ekki unnt að fallast á að mistök hafi átt sér stað við læknishjálp eftir fæðingu hennar er varðað gætu stefnda bótaábyrgð að lögum.

Þegar móðir stefnanda hafi komið kom á fæðingardeildina hafi fæðingarsótt verið hafin um einni klukkustund áður og hún lýst minnkandi hreyfingum síðustu daga. Hún hafi verið sett í fósturhjartsláttarrit.

Kallað hafi verið á vakthafandi sérfræðing, Hildi Harðardóttur fæðingalækni, hálfri annarri klukkustund eftir að móðir kom á fæðingardeildina en á þeim tíma hafi ljósmóðir haft fósturhjart­sláttarsíritun í gangi. Besta leiðin til að meta heilbrigði fósturs sé að fá fram hraðanir í fósturhjartsláttarriti. Margar skýringar geti legið að baki ef hjartsláttarhraðanir eru ekki til staðar og fóstrið geti engu að síður verið fullkomlega heilbrigt. Algengast sé að fóstrið sé í hvíldarfasa (svefnrit) en aðrar skýringar geti verið lyfjagjafir, reykingar móður, fóstur­gallar og skaði á taugakerfi sem orðið hafi fyrr í með­göngu. Áður en fæðing hefst geti slíkur hvíldarfasi staðið í allt að 40 mínútur en að þeim tíma liðnum sé oft reynt að örva fóstrið, t.d. með ytri eða innri þreifingu eða láta móður drekka kaldan og/eða sykurríkan drykk.

Stefndi telur ljósmóður hafa brugðist rétt við með því að örva fóstrið með því að gefa móður djús og kalla síðan á vakthafandi lækni þegar ástand var óbreytt. Samkvæmt samantekt Hildar Harðardóttur hafi ákveðinn breytileiki verið til staðar í ritinu og smá hraðanir komið fram. Engin streitumerki hafi verið sjáanleg, svo sem síðbúnar dýfur og ekki hraður fósturhjartsláttur. Óreglulegir samdrættir hafi verið til staðar en engin breyting orðið á fósturhjartsláttarriti þegar samdrættir í legi komu. Skráð hafi verið að móðirin hafi tekið lyfið Atenolol vegna hjartsláttaróreglu en slíkt lyf geti haft áhrif á fósturhjartslátt, þannig að minni breytileiki sé til staðar og hraðanir minni. Eftir að sérfræðingur hafi komið á vettvang hafi verið gerð vaginal þreifing og fengist smávegis hröðun í fósturhjartsláttarriti við kitl á kollinn eða upp í 160 slög á mínútu en það hafi strax farið aftur niður í 150. Þá hafi fósturbelgir verið sprengdir og grænt legvatn þá komið niður sem merki um að barnið hefði haft hægðir í móðurkviði. Slíkt sé merki um að streita hafi átt sér stað hjá fóstri en ekki sé unnt að vita á hvaða tímapunkti það hafi orðið. Rafskaut hafi verið sett á koll fóstursins og fylgst með hjart­sláttarriti næstu mínúturnar. Þar sem enn hafi ekki fengist viðunandi viðbrögð fósturs, sem merki um heilbrigði þess, hafi verið ákveðið að ljúka við fæðingu með keisaraskurði. Við keisaraskurðinn hafi komið í ljós að belgir voru grænir sem og legholið, sem stefndi kveður merki um að langur tími hafði liðið frá því barnabik kom í legvatnið.

Á skurðborðinu hafi verið sogið úr vitum barnsins og einnig neðan úr maga. Barninu hafi ekki verið gefið tækifæri til að anda að sér grænu legvatni. Þá hafi verið skilið á milli og barnið fært barnalækni.

Af hálfu stefnda er því haldið fram að af mæðraskrá verði ekki annað séð en að við fæðinguna hafi verið brugðist við aðstæðum á viðeigandi hátt. Brýn nauðsyn hafi verið á tafarlausri súrefnisgjöf til að bjarga stefnanda þar sem hún hafi ekki andað og hjartsláttur verið orðinn of hægur.

Ólíklegt sé að gangur mála hefði verið frábrugðinn því sem síðar varð jafnvel þótt læknir hefði verið kallaður til strax við komu móður á sjúkrahúsið. Ummerki um gamalt barnabik í legholi og sú staðreynd að fósturhjartsláttarrit hafi aldrei sýnt sann­færandi hraðanir ásamt súrnun í naflastrengsblóði við fæðingu, bendi til að stefnandi hafi orðið fyrir heilaskaða áður en fæðing hófst. Klíniskur ferill og rannsóknir á stefnanda, meðal annars talning á normoblöstum í blóði, bendi til þess að hún hafi orðið fyrir verulegum súrefnisskorti og streitu fyrir fæðingu. Slíkur súrefnis­skortur geti valdið fjölmörgum vandamálum, þ.á m. heilaskaða og storku­myndun í æðum.

Stefndi telur að það ástand sem að framan er lýst geti valdið stíflu í meginslagæð og sé stífla af þeirri gerð næst algengasta aukaverkun eða afleiðing súrefnisskorts í móðurkviði. Líklegt sé að vegna súrefnisskorts og þar af leiðandi truflaðrar blóðrásar, hafi blóðsegamyndun verið komin af stað þegar slagæðaleggurinn hafi verið lagður inn í æðina. Hann hafi því beygt vegna blóðsegans og tekið U-sveig. Síðan hafi blóðseginn haldið áfram að vaxa smám saman þar til hann hafi verið búinn að loka nýrnaslagæðunum að mestu. Jafnvel þótt æðastíflan hefði orsakast af legu æðaleggsins sé afar ólíklegt að heilaskemmdir stefnanda stafi af blóðþrýstingshækkun þeirri, sem orðið hafi í kjölfar blóðsegamyndunar í nýrnaslagæðunum, samkvæmt álitsgerð sérfræðings frá 26. september 1999. Samkvæmt mati hans sýni tölvusneiðmyndir fyrst og fremst útbreiðslu skaða sem stafi af súrefnisskorti. Öll rök hnígi þannig gegn því að æðaleggurinn sé orsök skaðans. Kringumstæður hafi verið svo alvarlegar að um líf eða dauða hafi verið að tefla. Því hafi verið útilokað að gera flæðismælingar í meginslagæð.

Af hálfu stefnda er því mótmælt, að ekki hafi verið gerðar viðhlítandi ráðstafanir til þess að minnka hættu á alvarlegum veikindum. Erfitt sé að segja fyrir um hvað sé að gerast og hvað hafi gerst hjá nýburum sem orðið hafi fyrir heilaskaða fyrir fæðingu. Einkenni nýrnabilunar geti komið mjög snögglega, sjúklingum hraðversni og þeir geti fengið krampa þegar einkenni heilabjúgs geri vart við sig. Oft sé ekki unnt að grípa inn fyrr en einkennin séu orðin alvarleg. Tilhlýðilega hafi verið staðið að meðhöndlun stefnanda samkvæmt fyrrnefndri umsögn sérfræðings og áliti landlæknis.

Samkvæmt framangreindu fái ekki staðist að heilsutjón stefnanda verði rakið til mistaka við læknishjálp á Landspítalanum við og eftir fæðingu hennar er varðað geti stefnda bótaábyrgð að lögum. Beri þegar af þeirri ástæðu að sýkna af öllum kröfum stefnanda í málinu.

Stefndi telur jafnframt ljóst að stefnandi hafi orðið fyrir óbætanlegu alvarlegu heilsutjóni vegna langvarandi súrefnisskorts áður en móðir hennar kom á kvennadeild Landspítalans, sem leitt hafi til þess miska og örorku sem hún búi nú við. Ekkert viðbótartjón verði þannig tengt við hugsanleg mistök og leiði það til sýknu.

Varakrafa um lækkun krafna er byggð á því að stefndi verði ekki gerður bótaábyrgur að lögum fyrir öðru heilsutjóni en því sem rakið verði til saknæmra mistaka við meðferð eftir komu á sjúkrahúsið og þeim varanlega miska og varanlegu örorku sem við það verði tengd. Samkvæmt 4. gr. og 8. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 sbr. 2. gr. laga nr. 42/1996 greiðast engar miskabætur ef varanlegur miski er minni en 5% og engar bætur vegna varanlegrar örorku ef miskastig er minna en 10% nema af hljótist fjárhagslegt tjón vegna skerts aflahæfis. Samkvæmt því sé aðallega krafist sýknu af kröfum um bætur vegna varanlegs miska og vegna varanlegrar örorku en til vara stórkostlegrar lækkunar þeirra í samræmi við ákvæði 4. og 8. gr. skaðabótalaga.

Ekki eru gerðar athugasemdir við tölulega útreikninga stefnanda né þjáninga­bótatímabil. Kröfum stefnanda um 50% álag á bætur vegna varanlegs miska er þó mótmælt.

Niðurstaða

Samkvæmt álitsgerð örorkunefndar frá 3. júlí 2001 býr stefnandi, Sara Lind Eggertsdóttir, við mjög alvarlega fötlun og eru batavonir engar. Hún er að öllu leyti ósjálfbjarga. Í niðurstöðum athugunar Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins frá 2. desember 1999 segir að stefnandi sé með alvarlega þroskaröskun sem rekja megi til súrefnisskorts í og eftir fæðingu. Hún hafi veikst heiftarlega þriggja eða fjögurra daga gömul og þá komið í ljós að myndast hafði blóðtappi í ósæð. Í kjölfar þess hafi hún fengið hjartabilun og nýrnabilun. Engin starfsemi sé í hægra nýra og starfsemi þess vinstra einnig skert. Hún hafi átt í verulegum næringarvandamálum og enga fæðu tekið um munn. Þroskaframvinda hafi verið mjög hæg. Örorkunefnd mat varanlegan miska stefnanda 100% og varanlega örorku 100% eða algera.

Verður nú tekin afstaða til þess hvort starfsmönnum á kvennadeild og vökudeild Landspítalans hafi orðið á mistök í starfi sínu við og eftir fæðingu stefnanda.

Þegar móðir stefnanda kom á fæðingardeildina um kl. 2.00 aðfaranótt 5. mars tók Guðlaug Pálsdóttir ljósmóðir við henni og fól hana í umsjá Lilju Guðnadóttur, þá ljósmæðranema.

Í svokölluðu framhaldsblaði mæðraskrár, vegna meðgöngu og fæðingar, hefur Hildur Harðardóttir vakthafandi fæðingarlæknir ritað að móðir stefnanda hafi notað lyfið Atenolol vegna hjartsláttaróreglu og að hún hafi lýst minnkandi hreyfingum síðustu daga. Þegar hún var spurð um þetta atriði fyrir dómi virtist hún ekki minnast þessa sérstaklega. Framangreind ljósmóðir og ljósmæðranemi könnuðust ekki við það fyrir dómi að móðir hefði við komu lýst minnkandi hreyfingum fósturs síðustu daga fyrir fæðingu. Þá kannaðist móðir stefnanda ekki við að hafa veitt slíkar upplýsingar. Við mæðraskoðun á heilsugæslustöðinni í Grafarvogi í hádeginu 4. mars, eða hálfum sólarhring áður en fæðing hófst, var skráð að hreyfingar væru góðar. Samkvæmt framangreindu verður að líta svo á að athugasemdir um minnkaðar hreyfingar síðustu daga hafi ranglega verið skráðar í fæðingarlýsingu og verður að byggja á því í málinu að hreyfingar fósturs hafi verið eðlilegar a.m.k. fram yfir hádegi 4. mars.

Af hálfu stefnda hefur meðal annars verið á því byggt að ljósmóðir og fæðingarlæknir hafi mátt gera ráð fyrir að lyfið Atenolol kynni að hafa áhrif á hjartslátt fóstursins. Upplýst er að sá skammtur sem móðirin tók var 25 mg á dag og máttu þessir starfsmenn stefnda ekki gera ráð fyrir að svo lítill skammtur hefði áhrif á hjartslátt fóstursins.

Eftir að móðir stefnanda var komin í umsjá ljósmæðranema var hún kl. 2.07 tengd við sírita til þess að fylgjast mætti með fósturhjartslætti. Eins og fram er komið kom sýndi hjartsláttarritið grunnlínu með 150 slög á mínútu og var breytileikinn í ritinu 5-10 slög á mínútu.

Eðlilegt hjartsláttarrit fósturs á þessu aldursskeiði, í byrjun fæðingar, er með grunnlínu 110-150 slög á mínútu, grunnbreytileika 5-25 slög á mínútu. Góð  vísbending um heilbrigði fósturs eru tímabundnar hraðanir í hjartslætti en eðlilegt er að hjartsláttur aukist um meira en 15 sekúndur tvisvar sinnum á 20 mínútna tímabili. Fósturrit er talið grunsamlegt, þ.e. möguleg vísbending til staðar um að fóstur sé undir álagi, ef ekki koma fram hraðanir í ritinu (non-reactive), grunnlína er utan fyrrnefndra marka eða ef dýfur koma fram í ritinu, sérstaklega ef þær sjást skömmu eftir samdrætti í legi. Almennt má segja að eftir því sem fleiri óeðlilegir þættir sjást í ritinu, þeim mun líklegra er að fóstrið sé undir álagi. Eins og haldið er fram af hálfu stefnda getur slíkt rit bent til þess að barnið sé sofandi og geta slíkir svefnkaflar staðið í allt að 40 mínútur. Ef ekki verða breytingar á ritinu að þeim tíma liðnum getur það verið vísbending um að ástand barns sé ekki eins og best verði á kosið.

Ljósmæðranemi kallaði fljótlega til ljósmóðurina og ákvað hún að skipta um sírita þar sem hinn kynni að vera í ólagi. Var skipt um sírita eftir að móðirin hafði verið tengd við upphaflegan sírita í um 20 mínútur eða um kl. 2.30. Hjartsláttarritið sýndi áfram fremur lítinn breytileika. Ljósmóðirin gerði réttilega tilraun til að kalla fram hröðun í hjartslætti fóstursins með því að gefa móðurinni kaldan ávaxtasafa en hjartsláttarritið sýndi áfram fremur lítinn breytileika og var án hraðana.

Samkvæmt þeim gögnum sem fyrir liggja og framburði vitna taldi ljósmóðir ástæðu til að kalla á vakthafandi fæðingarlækni vegna lítils breytileika í hjartsláttarriti fóstursins. Hjartsláttarritið gefur til kynna að Hildur Harðardóttir fæðingarlæknir hafi verið komin á fæðingarstofu um kl. 3.30 eða um 1 klst. og 20 mínútum eftir að fyrri síritinn var tengdur. Fyrstu afskipti hennar af móður eru skráð kl. 3.45 en þá framkvæmdi hún innri þreifingu. Útvíkkun var þá orðin um 3 sm. Örvaði hún koll fóstursins og fékkst þá hröðun á hjartslætti upp í 160 slög á mínútu en féll strax aftur niður í 150. Nokkrum mínútum síðar voru belgir sprengdir og þykkt grænt legvatn kom í ljós. Sett var elektróða á höfuð fóstursins til að fylgjast betur með hjartslætti en engar hraðanir fengust en heldur engar dýfur.

Fæðingarlæknirinn ákvað þá að ljúka fæðingunni með keisaraskurði og var sú ákvörðun tekin um kl. 4.15. Um var að ræða svokallaðan bráðakeisaraskurð og var móðir komin inn á skurðstofu kl. 4.30, deyfing hófst kl. 4.47 og barnið fætt kl. 4.58. Í framburði Hildar Harðardóttur fyrir dómi kom fram að greinarmunur væri gerður á bráðakeisaraskurði og neyðarkeisaraskurði. Neyðarkeisaraskurður væri ákveðinn þegar um alvarlegar blæðingar væri að ræða eða alvarlega hægðist á hjartslætti fósturs. Þegar slíkur keisaraskurður væri framkvæmdur væri starfsfólk skurðstofu kallað út með neyðarhnappi og gæti barnið verið komið í heiminn 10 mínútum eftir að ákvörðun væri tekin. Fæðingarlæknirinn taldi ekki hafa verið ástæðu til að ákveða neyðarkeisaraskurð í umræddu tilviki. Ástandið hafi verið metið þannig að ekki væri ástæða til að nota neyðarhnapp og framkvæma keisaraskurðinn á örfáum mínútum þar sem öruggara væri fyrir móður og barn að taka hæg og örugg skref fremur en að rjúka til. Fæðingarlæknirinn taldi það fara talsvert eftir því á hvaða tíma sólarhrings væri hvaða tíma bráðakeisaraskurður tæki.  Ef slíkt tilfelli kæmi upp að nóttu væri tíminn nokkru lengri þar sem svæfingarhjúkrunarfræðingur og skurðstofuhjúkrunar-fræðingur þyrftu að koma að heiman frá sér.

Fallast má á með stefnda að hjartsláttarlínurit barnsins og aðrar tiltækar upplýsingar um heilsufar móður og barns hafi ekki gefið tilefni til að ætla að heilbrigði barnsins væri bráð hætta búin. Full lítill breytileiki var þó í hjartsláttarlínuritinu og fyllsta ástæða til aðgæslu og nákvæms eftirlits. Líta verður svo á að ljósmæðranemi og ljósmóðir hafi brugðist rétt við með því að gefa móður kaldan, sykurríkan drykk í því skyni að framkalla breytileika í hjartslætti fósturs. Eftir að skipt hafði verið um sírita leið um ein klukkustund þar til vakthafandi fæðingarlæknir var kallaður til. Með tilliti til þess að hjartsláttarlínuritið hafði sýnt nokkurn breytileika verður það ekki talið til mistaka af hálfu ljósmóður að kalla fæðingarlækni ekki fyrr til. Fæðingarlæknirinn hófst þegar handa við að framkalla hröðun í hjartslætti, þ.e. að reyna að vekja barnið ef það væri í svefnfasa, með því að örva koll þess. Fremur lítil hröðun fékkst við það eða um 10 slög á mínútu og um skamman tíma.

Þegar ákvarðanir fæðingarlæknisins eru virtar verður að líta til þess að algengast er að fóstur með hjartalínurit eins og það sem mældist hjá stefnanda fæðist heilbrigð. Flatt hjartsláttarrit getur gefið vísbendingu um að eitthvað ami að fóstri. Þar sem hjartsláttarrit stefnanda sýndi ekki glögg streitueinkenni, eins og síðbúnar dýfur eftir samdrætti í legi eða hraðaðan hjartslátt, lágu ekki fyrir sértækar vísbendingar um að heilsa barnsins kallaði á neyðarkeisaraskurð. Hafa verður í huga að slíkur keisaraskurður er mun hættulegri heilsu móður en keisaraskurður sem framkvæmdur er á þeim hraða sem gert var í umrætt sinn.

Við úrlausn þess hvort brugðist hafi verið rétt við eftir komu móður stefnanda til fæðingar á kvennadeild Landspítalans verður að hafa í huga að þær aðferðir sem notast er við til að meta ástand barns í fæðingu eru í eðli sínu fremur ófullkomnar. Einkenni um að fóstur eigi í erfiðleikum, svo sem breytingar á hjartsláttarriti og barnabikslitað legvatn, eru hvorki nákvæm eða sérgreind merki um einhverjar tilteknar orsakir og aðeins í einstaka tilvikum vísbending um skaðlegan súrefnisskort.

Þegar litið er til allra þeirra gagna og framburða sem fyrir liggja í málinu verða það ekki talin mistök af hálfu fyrrnefnds fæðingarlæknis að bíða með ákvörðun um að framkvæma keisaraskurð í um 30 mínútur eftir að hún var kölluð á fæðingarstofu eða að ákveða bráðakeisaraskurð fremur en neyðarkeisaraskarðs. Ekki verður heldur talið að nein óeðlileg töf hafi orðið við undirbúning eða framkvæmd keisaraskurðsins miðað við það að um bráðakeisaraskurð var að ræða en ekki neyðarkeisaraskurð.

Samkvæmt framansögðu verður ekki fallist á með stefnanda að óeðlilega langur tími hafi liðið frá því að móðir stefnanda kom inn á kvennadeildina til fæðingar og þar til stefnandi fæddist með keisaraskurði.

Upplýst er í málinu að Ragnheiður Elísdóttir tók við stefnanda á skurðarborðinu og bar hana á svokallað barnaborð í sama herbergi. Ragnheiður starfaði þá sem reyndur deildarlæknir á Barnaspítala Hringsins. Ragnheiður bar fyrir dómi að hún hafi strax sogið mikið, þykkt og grænt legvatn úr vitum barnsins. Á meðan hafi ljósmóðir haldið súrefni að barni. Barnið hafi ekki andað og hjartsláttur verið orðinn hægur. Vitnið kvaðst hafa metið aðstæður svo að ekki gæfist að svo stöddu tími til að soga legvatn úr öndunarfærum neðan raddbanda áður en reynt yrði að koma upp öndun og betra hjartslætti. Hafi hún því blásið lofti í barnið og það byrjað að anda sjálft innan fárra mínútna. Eftir það hafi verið sogið upp grænlitað þykkt slím neðan raddbanda en það sé talsvert vandaverk og taki lengri tíma.

Upplýst er að APGAR-skor, sem er merki um lífsmörk barns, hafi verið 4 einni mínútu eftir fæðingu og 6 fimm mínútum eftir fæðingu. Sýrustig í naflastrengsslagæð var mælt og reyndist vera 7,168 og HCO3 13,8 og base deficit 14,5. Sýrustig í blóði bendir til þess að barnið hafi verið undir álagi fyrir eða í fæðingu. Engin leið er að segja fyrir um hve lengi blóðsúrinn hafi varað. Algengt er að börn fæðist með jafn mikinn eða meiri blóðsúr en stefnandi og hjá miklum meirihluta þeirra hefur það engar skaðlegar afleiðingar í för með sér.

Fyrir liggur að stefnandi var í lífshættu þegar hún fæddist og ljóst að skjótra viðbragða var þörf til að koma af stað öndun og bæta hjartslátt. Á það verður að fallast með stefnanda að það hafi verið til þess fallið að auka líkur á sýkingu eða öðrum vandamálum í öndunarfærum að soga ekki legvatn neðan raddbanda áður en öndun væri komið af stað. Fram komin gögn og vitnaskýrslur bera hins vegar með sér að ástand stefnanda hafi verið orðið svo tvísýnt að ekki verður fallist á með stefnanda að Ragnheiði Elísdóttur hafi orðið á mistök þegar hún ákvað að koma af stað öndun áður en hún hreinsaði legvatn úr öndunarfærum neðan raddbanda.

 Eftir komu stefnanda á vökudeild var hún skoðuð og var þá ljóst að hún þyrfti öndunaraðstoð. Ákveðið var að þræða æðaleggi í naflastrengsæðar. Tilgangurinn með því að koma slíkum æðaleggjum fyrir er, eins og fram kemur í samantekt Atla Dagbjartssonar frá 13. október 2000, sá að fylgjast með sýrustigi, súrefnisinnihaldi og koltvísýringsinnihaldi slagæðablóðs, blóðþrýstingi sjúklings svo og til vökva- og lyfjagjafa. Veikum nýburum er oft gefið mikið af lyfjum og miklu skiptir að það sé gert í réttu magni og að hægt sé að fylgjast með styrkleika þeirra og öðrum þáttum sem mælanleg eru í blóði og haft geta áhrif á líðan og heilsu veikra nýbura. Slíkur æðaleggur er þá þræddur inn um naflaslagæð barnsins, út í grindarslagæð og þaðan inn í meginslagæðina meðfram hryggnum.

Óumdeilt er að æðaleggjum fylgir aukin hætta á blóðsegamyndun í meginslagæð. Æskilegt er talið að leggurinn sé annað hvort í hárri stöðu í meginslagæðinni ofan við þind við 6.-9. brjósthryggjarlið eða í lágri stöðu, neðan við nýrnaslagæðar, á móts við 3. eða 4. lendahryggjarlið. Óheppilegt er hins vegar talið að hann liggi nálægt nýrnaslagæðum eða öðrum æðum sem greinast frá ósæðinni. Blóðsegamyndun hjá nýburum sem ekki eru með æðaleggi er afar sjaldgæf, jafnvel hjá börnum sem orðið hafa fyrir súrefnisskorti. Enda þótt hætta af blóðsegamyndun sé talin aukast nokkuð vegna æðaleggja er nytsemi þeirra talin mun meiri en áhætta á fylgikvillum þegar um mjög veika nýbura er að ræða. Blóðþynningarlyfið heparín er venjulega látið drjúpa um æðalegginn og var það gert í þessu tilviki. Er það einkum gert til að koma í veg fyrir að leggurinn stíflist en um svo lítið magn er að ræða að afar ólíklegt er að það geti unnið gegn blóðsegamyndun.

Ragnheiður Elísdóttir þræddi æðalegg í naflabláæð og annan í naflaslagæð, með aðstoð og undir umsjá Atla Dagbjartssonar, yfirlæknis vökudeildar. Var verkinu lokið milli kl. 7 og 8. Ragnheiður bar fyrir dómi að þræðingin hefði tekið um hálfa klukkustund og hafi hún ekki fundið fyrir neinni fyrirstöðu. Í bréfi Atla Dagbjartssonar til landlæknis frá 30. ágúst 1999  kemur  fram að reynt hafi verið að þræða í hina naflaslagæðina en það hafði mistekist og verður að leggja til grundvallar að svo hafi verið enda talsvert algengt að ekki takist að þræða æðalegg í fyrstu tilraun.

Röntgenmynd var tekin kl. 9.20 til að athuga staðsetningu leggjanna. Kom þá í ljós að naflabláæðarleggurinn lá til lifrar og var hann fjarlægður í kjölfarið. Naflaslagæðarleggurinn lá hins vegar í meginslagæð en móts við 11. brjósthryggjarlið tók hann beygju niður á við. Samkvæmt fyrirliggjandi lýsingu röntgenlæknis og fram lögðum röntgenmyndum lá endi leggjarins í hæð við efri brún 3. lendahryggjarliðs.

Barnalæknarnir Atli Dagbjartsson og Sveinn Kjartansson báru fyrir dómi að þeir og fleiri sérfræðingar hafi fundað um staðsetningu æðaleggjarins. Þeir gátu þó ekki nafngreint þá sérfræðinga sem þátt tóku í þeim umræðum. Niðurstaðan var sú að þar sem endi æðaleggjarins væri á æskilegum stað og stefnandi í afar viðkvæmu ástandi væru kostir þess að láta hann liggja áfram meiri en ókostir þess að fjarlægja hann.

Atli Dagbjartsson bar fyrir dómi að hann og aðrir sérfræðingar deildarinnar hafi ekki talið að þessi lega æðaleggjarins myndi auka líkur á vandræðum. Mun betra væri að láta hann liggja svona fyrst um sinn en að hafa ekki aðgang að slagæð. Slíkur æðaleggur væri oft látinn liggja allt að vikutíma en í þessu tilviki hafi hann verið fjarlægður eftir tiltölulega stuttan tíma eða milli kl. 13 og 15 daginn eftir. Leggurinn var því í umræddri legu í 29-32 klst.

Sem fyrr segir ákváðu sérfræðingar stefnda að láta æðalegginn liggja áfram fyrst um sinn. Af hálfu stefnanda er því haldið fram að þessi ákvörðun hafi valdið henni tjóni. Leitað var álits landlæknis á þessu og fleiri álitaefnum. Aflaði hann álits barnalæknisins Hákonar Hákonarsonar. Fyrir dómi gerði Hákon lagfæringar á orðalagi í álitsgerðinni. Álit hans var, að með hliðsjón af því að stefnandi hafi þurft á öndunaraðstoð að halda hafi verið rétt ákvörðun að setja æðalegg í naflaslagæð. Hins vegar verði sú aðferð að skilja æðalegginn eftir í U-beygju í naflaslagæð sjúklings, sem liðið hafði súrefnisskort fyrir fæðingu og hætt hafi verið við blóðsegamyndun, án þess að kanna frekar undirliggjandi orsakir eða að reyna að þræða annan æðalegg, að teljast áhættusöm og ekki í samræmi við þau vinnubrögð sem flestir læknar myndu tileinka sér við slíkar aðstæður.

Hákon bar að sérfræðimenntun hans væri á sviði lungnasjúkdóma og barnagjörgæslu. Kvaðst hann á árinu 1995 hafa unnið 120 klst. á mánuði við nýburagjörgæslu á sjúkrahúsi í Bandaríkjunum þar sem 3000 innlagnir væru á ári. Hafi hann sjálfur lagt um 50-100 slíka leggi. Hákon verður því að teljast sérfróður um það ágreiningsefni sem hér er til umfjöllunar. Fyrir dómi kvað hann þróunina hafa verið þá að slíkir leggir væru oftar lagðir í útlimi en sú aðferð að leggja þá í naflaslagæð væri einnig viðurkennd. Hann kvað legginn vera látinn liggja í 12-24 klst. í naflaslagæð en skipt um og sett í útlim ef augljóst væri að notast þyrfti lengur við æðalegg. Hann kvað ekkert athugavert við að láta slíkan legg vera í 24 klst. Hann taldi ekki skynsamlegt að skilja eftir slíkan legg sem hefði bognað. Hann kvaðst hafa borið þetta álitaefni undir virta sérfræðinga sem hann þekkti í Philadelphia í Bandaríkjunum og hafi þeir sagt honum að fylgikvillar slíkra leggja væru vel þekktir. Fram kom að Hákon hefði ekki haft röntgenmyndir við höndina þegar hann ritaði álitsgerðina og ekki blóðþrýstingsmælingar en taldi sig þó hafa haft næg gögn til að geta gefið álit.

Landlæknir gaf Atla Dagbjartssyni barnalækni kost á lesa yfir álitsgerð Hákonar og mótmælti hann ýmsum atriðum í henni auk þess sem hann taldi Hákon ekki sérfræðing á sviði nýburagjörgæslu. Leitaði landlæknir þá til Baldvins Jónssonar barnalæknis um álitsgerð. Baldvin starfar sem sérfræðingur í barna- og nýburalækningum við Astrid Lindgrens sjúkrahúsið sem er deild við Karolinska sjúkrahúsið í Stokkhólmi.

Í álitsgerð Baldvins kom meðal annars fram að ein af algengustu aðgerðum á nýburagjörgæsludeildum væri að leggja æðalegg í naflaslagæð og þessi leggur væri nánast alltaf valinn þegar þörf væri á að fylgjast með blóðþrýstingi og blóðgösum hjá veikum nýburum. Leggurinn gæti verið nothæfur í um vikutíma. Ef slíkur leggur gengi ekki væri hægt að setja inn legg í slagæð á hendi. Taldi hann að fyrrgreinda aðferðin væri oftast valin á nýburagjörgæsludeildum beggja megin Atlandshafs en einstaka deildir veldu heldur slagæð í útlimum. Tíðni aukaverkana væri ekki marktæk hvort sem valin væri há eða lág lega á leggnum. Lega leggsins væri valin á annan hvorn veginn til að forðast storkumyndun á þeim svæðum þar sem stóru slagæðarnar til kviðarholslíffæranna færu út úr meginslagæðinni. Æðastífla væri næst algengasta aukaverkun æðaleggs í naflaslagæð. Til að fyrirbyggja aukaverkanir væri talið mikilvægast að fylgja leiðbeiningum um staðsetningu leggjarins, nota storkulyfið Heparín, í vökva sem færi um legginn og fjarlægja legginn um leið og vart yrði breytinga á blóðflæði til neðri útlima. Talið væri að ef storka myndaðist af völdum leggjar, þá yrði það mjög fljótlega eftir að hann væri settur. Í rannsóknum hefði komið fram að strokumyndun væri algengari hjá börnum sem hefðu orðið fyrir súrefnisskorti í fæðingu.

Baldvin taldi matsatriði hversu lengi væri rétt að láta leggurinn liggja, en í þessu tilviki hefði hann greinilega hafður inni í stuttan tíma. Því yrði ekki svarað nú hvort leggurinn hefði tekið beygju vegna storkufyrirstöðu sem verið hafi til staðar í byrjun. Til að fá þau svör hefði þurft að gera flæðisrannsóknir þegar á fyrsta sólarhring. Blóðflögufæð stúlkunnar hafi verið af þeirri stærðargráðu sem oft sæist þegar um heilaskaða af völdum súrefnisskorts (HIE) væri að ræða. Eftirá að hyggja hefði verið gott að hafa storkupróf frá byrjun. Álitsgjafi velti því fyrir sér hvort ekki hefði mátt bakka og rétta úr leggnum þannig að hann hefði legið beinn á sama stað í meginslagæðinni við 2. lendahryggjarlið. Álitsgjafi taldi það einstaka sinnum gerast að leggur tæki U-beygju í meginslagæð og á hans vinnustað væri það regla að slíkum legg væri bakkað þar til hann lægi rétt annað hvort í hárri eða lágri legu eða hann dreginn út.

Álitsgjafinn taldi ekki hægt að staðfesta að leggurinn sjálfur væri orsakavaldur að storkunni. Börn með HIE fengju oft einkenni bilana í fleiri líffærum en miðtaugakerfi, oftast nýrum og lifur. Storka og storkutruflanir gætu orsakast af súrefnisskortinum einum og sér. Hann taldi líklegast að í tilviki stefnanda hefði verið um að ræða HIE með blóðstorku sem fylgikvilla. Það sem flækti málið væri naflaslagæðaleggur sem ekki hefði legið ákjósanlega. Vitað væri að lág tíðni storkuvandamála væri fylgikvilli slíkra leggja, en einnig fylgikvilli HIE. Ekki væru fyrir hendi upplýsingar sem staðfestu að leggurinn hefði orsakað storkuna. Hvort átt hefði að fjarlægja legginn strax væri matsatriði og hafi sú leið verið valin af meðhöndlandi læknum að láta hann liggja óbreyttan meðan stúlkan hafi verið mjög óstöðug. Verði að álíta að sú ákvörðun hafi verið tekin með farsæld sjúklingsins í huga.

Telja verður óvenjulegt en þó ekki óþekkt að æðaleggur sem þræddur er í meginslagæð taki slíka U-beygju. Möguleg skýring á því að lykkja kom á legginn er að um missmíði hafi verið að ræða á æðum stefnanda en ekkert liggur fyrir í málinu um slíkt. Í samantekt á sjúkdómsferli stefnanda sem Atli Dagbjartsson ritaði 13. október 2000 kom fram að þessi lega hefði komið mjög á óvart og þótt mjög sérkennileg. Hann taldi mögulegt, að vegna súrefnisskorts, og þar af leiðandi truflaðrar blóðrásar, hafi blóðsegamyndunin verið komin af stað, þegar slagæðaleggurinn hafi verið lagður í æðina. Hann hafi því beygt vegna blóðsegans og tekið U-sveig. Baldvin Jónsson læknir sem ritaði landlækni álitsgerð taldi þetta mögulegt og að úr því hefði mátt fá skorið með flæðirannsóknum þegar á fyrsta sólarhring og gott hefði verið að hafa storkupróf frá byrjun. Hákon Hákonarson útilokar ekki að blóðsegamyndun í meginslagæð hafi verið byrjuð þegar leggurinn var þræddur.

Fyrir liggur að blóðsegamyndun í ósæð og nýrnaslagæðum hjá nýburum sem ekki eru með æðaleggi er afar sjaldgæf en kemur þó einstaka sinnum fyrir, einkum hjá þeim sem hafa meðfædda storkutilhneigingu, sem ekki var í tilfelli stefnanda. Engar rannsóknir sem gerðar voru á stefnanda eða annað benti til þess að blóðsegi hafi verið til staðar þegar leggurinn var þræddur. Ekki er heldur skráð neitt um hugleiðingar af þessu tagi í sjúkraskrá og það sem gert var í framhaldinu tók augljóslega ekki mið af því að blóðsegamyndun væri byrjuð. Með hliðsjón af framangreindu verður því að telja afar ólíklegt að slík blóðsegamyndun hafi verið til staðar áður en leggurinn var þræddur.

Eins og fyrr segir kom fram í lýsingu röntgenlæknis á æðamyndum sem teknar voru 12. mars 1998 að ennþá sæjust sömu "veggdefectarnir" í ósæð og um það svæði í ósæð sem nýrnaæðarnar ættu upptök sín á. Ekki sé ljóst hvaða "veggdefectum" í ósæð eru thrombar en þetta hyrnda útlit á tveimur stöðum gefi sterkan grun um "intímalos". Meðdómendur telja þessa lýsingu koma vel heim og saman við þá skýringu að leggurinn hafi, þegar hann var þræddur í æðina, stungist inn í innra lag hennar og við það hafi komið lykkja á legginn. Umræddir æðaleggir eru grannir og mjúkir og bogna auðveldlega ef þeir lenda á fyrirstöðu. Meginslagæð á barni sem vegur um 3 kg við fæðingu er um 6 mm í þvermál en æðaleggur eins og sá sem notaður var er um 1,2 mm í þvermál. Æðin er því talsvert víð í samanburði við æðalegginn og ólíklegt að sá sem leggur hann verði þess var þótt lykkja komi á hann. Telja verður að það geti ekki talist mistök af hálfu læknanna Ragnheiðar Elísdóttur og Atla Dagbjartssonar að ákveða að leggja æðalegg í naflaslagæð stefnanda og að það verði heldur ekki talið til mistaka þótt svo óheppilega hafi tekist til að lykkja kom á legginn.

Eins og fram kemur í áliti lækna sem áður hefur verið vísað til er blóðsegamyndun algengur fylgikvilli þess að æðaleggur er þræddur í meginslagæð nýbura. Óumdeilt er að lega leggsins er talin geta skipt máli með tilliti til hættu á blóðsegamyndun. Er það í samræmi við viðurkenndar rannsóknir og verður lagt til grundvallar í málinu. Færð hafa verið fram þau rök fyrir áhættu af æðaleggjum að þeir séu aðskotahlutir í æð og trufli eðlilegt blóðflæði. Orsakir þess geti verið iðustraumar í kringum leggina, blóð geti hlaðist upp og storknað á yfirborði leggjanna eða þeir geti rekist í æðaveggina og blóðsegi myndast. Eins og haldið er fram af hálfu stefnda og fram kemur í fram lögðum álitsgerðum þeirra Baldvins og Hákonar er súrefnisskortur fyrir og í fæðingu þó einnig til þess fallinn að auka líkur á blóðsegamyndun.

Augljóst er að röntgenmyndir eru teknar til að staðreyna hvar æðaleggir liggja svo hægt sé að leiðrétta stöðu þeirra eða draga til baka eins og gert var við venuæðalegginn í umrætt sinn. Þeir óháðu sérfræðingar sem gáfu landlækni álit sitt og báru vitni fyrir dómi hafa báðir lýst því áliti sínu að þar sem þeir þekktu til væru leggir sem ekki lægju rétt dregnir til baka í rétta stöðu eða fjarlægðir. Fallast má á það sem fram hefur komið hjá Atla Dagbjartssyni að þegar æðaleggur hefur verið dreginn út sé ekki mögulegt að þræða annan legg í sömu æð þar sem æðin herpist saman.

Fyrir liggur að Atli Dagbjartsson hafði ekki áður látið boginn æðalegg liggja áfram í æð og aðrir þeir sem vitni báru þekkja ekki dæmi slíks. Telja verður því að ákvörðun hans og annarra sérfræðinga sem voru með honum í ráðum hafi verið óvenjuleg.

Samkvæmt framansögðu voru ýmsir kostir mögulegir til freista þess að tryggja áfram aðgang að slagæð. Mögulegt var að reyna að draga legginn til baka í þeirri von að úr honum réttist og í framhaldinu að koma honum fyrir á réttum stað. Ef það hefði mistekist var einnig mögulegt að draga legginn út og leggja nýjan æðalegg í slagæð í útlimum. Með vísan til framburða þeirra Baldvins og Hákonar verður að telja það tiltölulega einfalda og áhættulitla aðgerð sem starfsmenn stefnda höfðu kunnáttu og reynslu í að framkvæma. Í ljósi þess að röntgenmynd sem tekin var um kl. 11.20 daginn sem stefnandi fæddist sýnir að tilraun var gerð til að þræða nýjan legg í naflabláæð, sýnist sem heilsa stefnanda hafi leyft að tilraunir væru gerðar til að leiðrétta stöðu leggjarins eða leggja nýjan æðalegg í slagæð í hendi.

Sérfróðum meðdómendum í máli þessu hefur ekki tekist að afla læknisfræðilegra gagna, upplýsinga um rannsóknir eða lýsinga á tilvikum þar sem gerð er grein fyrir afleiðingum þess að æðaleggir með afbrigðilega legu séu látnir standa áfram í æð. Kann það að stafa af því viðurkennd aðferð sé að fjarlægja slíka leggi. Aðeins er vitað um eina grein í viðurkenndu læknisfræðitímariti þar sem gerð er grein fyrir fimm tilvikum þar sem lykkja myndaðist á æðalegg í ósæð nýbura. Talið var að æðaleggirnir hefðu stungist í innsta lag æðanna og þannig myndað lykkju. Í þessum tilvikum voru æðaleggirnir fjarlægðir um leið og óeðlileg lega þeirra kom í ljós þar sem álitið var að þeim fylgdi aukin hætta á storkumyndun.

Með tilliti til læknisfræðilegra gagna sem liggja frammi í málinu og þeirra raka sem færð hafa verið fram fyrir áhættu af blóðsegamyndun vegna æðaleggja, verður að draga þá ályktun að leggur sem liggur tvöfaldur í æð á því svæði sem helstu slagæðar til kviðarholslíffæra liggja úr meginslagæð sé til þess fallinn að auka líkur á að blóðsegamyndun sem truflað geti blóðrennsli til þessara líffæra og valdið blóðtappa. Ætla má að tvöfaldur leggur liggi frekar út við æðaveggi og blóðsegamyndun geti byrjað í kringum legginn eða í skemmdum á æðavegg af hans völdum.

Líklegasta orsök þess að lykkja kemur á æðalegg er að hann hafi rekist í en við það verður óhjákvæmilega áverki eða skemmd á innra lagi æðarinnar. Ætla má að þessir áverkar séu meiri en þegar þræðing gengur án erfiðleika og því fullt tilefni til að fjarlægja slíka leggi til að auka ekki enn áhættu á blóðtappamyndun. Framlagðar æðamyndir veita því stuðning að skemmdir hafi orðið á innsta lagi meginslagæðar af völdum umrædds æðaleggs.

Fyrir liggur að sérfræðingar stefnanda mátu hagræðið af því að hafa legginn áfram í æðinni í þeirri stöðu sem hann var meira en óhagræðið af því að draga legginn til baka í aðra stöðu með óvissum árangri, draga legginn út og leggja annan í slagæð í útlimum eða hreinlega að vera án aðgangs að slagæð. Verður ekki dregið í efa að þeir hafi framkvæmt þetta mat með ástand stefnanda í huga og hagsmuni hennar að leiðarljósi.

Við það erfiða mat hvort færustu sérfræðingum landsins á sviði nýburalækninga hafi orðið á mistök er þeir ákváðu að láta æðalegginn liggja óhreyfðan í meginslagæð stefnanda í allt að 32 klst. verður að hafa í huga að stefnandi hafði að öllum líkindum orðið fyrir súrefnisskorti fyrir eða í fæðingu og áhætta á blóðsegamyndun því aukin. Þar sem staða æðaleggs er talin skipta máli með tilliti til blóðsegamyndunar máttu starfsmenn stefnda ætla að tvöfaldur æðaleggur og þær skemmdir sem hann hafði valdið á innsta lagi meginslagæðarinnar væri til þess fallinn að auka verulega líkur á blóðsegamyndun. Með tilliti til þess sem fram er komið í málinu að blóðsegamyndun geti hafist tiltölulega fljótt eftir að æðalegg er komið fyrir var ekki heppilegt að láta hann liggja í æðinni í allt að 32 klst.

Með vísan til þeirra sérfræðiálita sem fyrir liggja og annarra gagna verður því að telja að óvissan af því hvaða afleiðingar slík lykkja á æðalegg kynni að hafa með tilliti til aukinnar hættu á blóðsegamyndum hafi verið talsvert meiri en það óhagræði sem var af því að freista þess að rétta úr leggnum eða draga hann út og leggja nýjan legg í slagæð í útlim. Verður því ekki hjá því komist að telja að starfsmönnum stefnanda hafi orðið á mistök við þessa ákvörðun.

Af hálfu stefnanda er því aðallega haldið fram að sannað sé að framangreind mistök hafi valdið tjóni hennar en til vara að á stefnda hvíli sönnunarbyrði um það að stefnandi hefði orðið fyrir umræddu heilsutjóni þótt engin mistök hefðu verið gerð.

Í gögnum málsins er að finna umsagnir nokkurra starfsmanna Landspítala háskólasjúkrahúss á orsökum örorku stefnanda og verður nú gerð grein fyrir þeim

Í umsögn Hildar Harðardóttur yfirlæknis meðgöngu- og fæðingardeildar, sem dagsett er 4. nóvember 2001 og aflað var í tilefni af málshöfðun þessari, segir meðal annars að ógerlegt sé að fullyrði hvort heilaskaði stefnanda hafi að einhverju eða öllu leyti orðið fyrir fæðingu. Hins vegar megi leiða að því líkum að hann hafi orðið, að minnsta kosti að einhverju leyti í móðurkviði, áður en fæðing hófst. Það byggist á ummerkjum um gamalt barnabik og þeirri staðreynd að fósturhjartsláttarrit hafi aldrei sýnt sannfærandi hraðanir ásamt súrnun sem hafi verið staðfest í naflastrengsblóði við fæðingu. Þá segir “Í ljósi þess að áfallið hefur líklega orðið áður en fæðing hófst þá má leiða líkum að því að ekki skipti öllu máli þótt liðið hafi á aðra klukkustund þangað til ljósmóðir kallaði á lækni enda voru viðbrögð þá með viðeigandi hætti. Hér virðist líklegast að um samverkandi þætti hafi verið að ræða þar sem saman fór áfall fósturs í móðurkviði sem átt sér stað fyrir fæðingu og síðar áföll á Vökudeild.”

Í umsögn Atla Dagbjartssonar yfirlæknis vökudeildar, frá 13. október 2000, segir meðal annars að þau klínísku einkenni sem telpan hafi vegna heilaskemmdanna svo og útlit skemmdanna, eins og þær komi fram við segulómun, séu eins og þær sem komi fram við heilaskemmdir vegna súrefnisskorts. Því séu miklar líkur til þess að heilaskemmdir telpunnar megi rekja til þess súrefnisskorts sem hún hafi orðið fyrir áður en hún fæddist. Telja verði mjög ólíklegt, að heilaskemmdir telpunnar stafi af blóðþrýstingshækkun þeirri, sem orðið hafi í kjölfar blóðsegamyndunar í nýrnaslagæðunum.

Í fyrrnefndri umsögn Baldvins Jónssonar sérfræðings í nýburalækningum til landlæknis segir meðal annars um þetta atriði að þar sem hann starfi hafi verið meðhöndluð börn sem fengið hafi lifrarbilun, blæðingar í nýrnahettu, bláæðastorku og slagæðastorku í nýrnaæðar sem fylgikvilla án þess að hægt hafi verið að rekja það til annars en áverkans við fæðingu, þ.e. súrefnisskorts. Það sé almennt álit hjá læknum sem rannsakað hafi súrefnisskort hjá fóstri að APGAR- og pH-mælingar séu ekki sérstaklega góðar mælistikur á hversu alvarlegur súrefnisskortur hafi orðið. Seinni einkenni stefnanda bendi til að hún hafi orðið fyrir alvarlegum súrefnisskorti. Mun líklegra væri að núverandi heilaskaða hennar mætti rekja til súrefnisskorts fyrir og/eða í fæðingu. Það sem styðji það mat sé að stefnandi fái mest einkenni frá miðtaugakerfi á þeim tíma þegar almennt sé álitið að bjúgur í heila sé mestur eftir súrefnisskort hjá nýfæddu barni. Afar ósennilegt sé að storkan og nýrnabilunin sé orskavaldur að miðtaugakerfiseinkennum stefnanda. Bráð hækkun á blóðþrýstingi samræmist ekki breytingum þeim sem sjáist í heila hennar. Breytingar sem mætti eiga von á vegna hækkaðs blóðþrýstings væru annars vegar blæðing í heilavef og/eða drep frá blóðtappa. Tölvusneiðmyndir sýni fyrst og fremst útbreiðslu skaða sem stafi af súrefnisskorti.

Pétur Lúðvígsson barnalæknir og sérfræðingur í heila- og taugasjúkdómum barna framkvæmdi skoðun á taugakerfi stefnanda 21. apríl 1998, þegar stefnandi var 6 vikna gömul. Að hans mati bentu útbreiddar hvítefnisskemmdir á tölvusneiðmynd af heila til víðtæks skaða á hvítu efni með vefjatapi en einnig væru fyrir hendi afmarkaðir lágþéttni blettir. Taldi hann neurologiskar horfur stefnanda slæmar. Í framburði Péturs Lúðvígssonar, fyrir dómi kom fram að horfur stefnanda væru enn jafn slæmar og engra breytinga væri að vænta á ástandi hennar. Hann kvað algengast að heilaskemmdir eins og hjá stefnanda orsökuðust af súrefnisskorti. Dæmigerðar breytingar vegna blæðinga væru afmarkaðri. Í heila stefnanda hefðu sést tvær slíkar afmarkaðar breytingar sem gætu hafa stafað af öðrum ástæðum svo sem háum blóðþrýstingi. Hann taldi að þessar afmörkuðu breytingar myndu geta haft þau áhrif sem kæmu fram hjá stefnanda en í samhengi væru hinar breytingarnar mun meira afgerandi og líklegri til að valda þeim skaða sem síðar hafi sést. Vitnið kvað þær breytingar á heilavef sem lýst hefði verið eftir ómskoðanir 11. og 12. mars 1998 samrýmast því að um minnkað blóðflæði til heila hafi verið að ræða. Í umsögn læknis sem framkvæmt hafi báðar ómskoðanirnar hafi komið fram að breytingar sem sáust við skoðunina 12. mars væru svipaðar þeim sem sést hafi við fyrri skoðun. Af þeirri umsögn væri hægt að draga þá ályktun að breytingarnar hafi verið komnar fram 11. mars.

Vitnið kvað breytingar á heilavef stefnanda geta samrýmst minnkuðu blóðflæði til heila. Vitnið kvað nokkuð langt ástand eða ferli hafa verið um að ræða hjá stefnanda þar sem hún hafi verið mjög veik. Hvítefnisskaðinn væri að líkindum niðurstaða þessara veikinda allra fremur en að eitt afmarkað atvik væri orsökin. Skaðinn hafi verið kominn í ljós 21. apríl en að minnsta kosti 2-4 vikur liðu frá súrefnisskorti og þar til hvítefnisskaðinn kæmi í ljós. Hann kvað fósturrit hafa sýnt merki um fósturstreitu sem óvíst væri hvað staðið hafi lengi. Þá hafi blóðköggull valdið stíflu í meginslagæð og nýrnaslagæðum. Allur veikindaferill stefnanda hefði verið hættulegur fyrir heilann og getað valdið skaða á honum. Ferillinn hafi hafist þegar fósturritið sýndi streitueinkenni á fóstri sem óvíst sé hvað hafi staðið lengi. Hann kvað krampa geta komið fram skömmu eftir skyndilegt áfall og eins nokkuð löngum tíma eftir hæggengt ferli eða jafnvel mánuðum eða ári síðar. Hann kvað rannsóknir hafa sýnt að varanlegan heilaskaða hjá börnum vegna súrefnisskorts mætti í 20-30% tilvika eingöngu rekja til fæðingar en mun oftar mætti rekja hann til atvika á meðgöngu sem ekki yrði endilega vart við.

Eins og fyrr er lýst má einkum rekja örorku stefnanda til skertrar heilastarfsemi. Með vísan til framburðar þeirra lækna sem veitt hafa umsagnir og álit og gefið skýrslu fyrir dómi, sérstaklega Péturs Lúðvígssonar heila- og taugasérfræðings, sem einkum verður byggt á í máli þessu, er lang líklegast að örorka stefnanda stafi af útbreiddum skemmdum á hvítu efni heila sem megi rekja til súrefnisskorts. Einnig hafa þó sést afmarkaðir blettir sem gætu stafað af öðrum orsökum svo sem háum blóðþrýstingi. Afar erfitt er að slá því föstu hvenær stefnandi hafi orðið fyrir þeim heilaskaða sem olli fötlun hennar

Ýmsar vísbendingar eru um að stefnandi hafi mátt þola súrefnisskort skömmu fyrir fæðingu. Má þar nefna að hægðir í legvatni höfðu litað fylgju græna en það bendir til þess að fóstrið hafi orðið fyrir streitu. Þá sýndi fósturrit sem tekið var síðustu 3 klst. fyrir fæðingu fremur lítinn breytileika í grunnlínu hjartsláttar og engar hraðanir. Blóðsýni sem tekið var við fæðingu sýndi að um metabólíska súrnun var að ræða en sýrustigið var þó ekki svo lágt að líklegt hafi verið að barnið hefði orðið fyrir bráðasúrefnisskorti í sjálfri fæðingunni. Samkvæmt framansögðu er ekki útilokað að stefnandi hafi orðið fyrir streitu af völdum súrefnisskorts nokkru fyrir fæðingu. Þar sem algengt er að legvatn sé orðið litað þegar meðganga stendur í 41 viku án þess að nokkuð ami að barni eftir fæðingu eru framangreind atriði aðeins vísbendingar en ekki sönnun þess að stefnandi hafi þegar fyrir fæðingu orðið fyrir súrefnisskorti sem haft hafi í för með sér þær heilaskemmdir sem valda örorku stefnanda.

Samkvæmt því sem skráð er í sjúkraskýrslur fór líðan stefnanda batnandi fyrstu dagana eftir fæðingu. Í dagnótu 5. mars skráði Sveinn Kjartansson barnalæknir að horfur væru góðar. Í dagnótu 6. mars skráði Atli Dagbjartson barnalæknir, að stefnandi stæði sig vel og að hún fengi fæðu um munn þann dag. Í dagnótu 9. mars skráði Sveinn Kjartansson að gengið hefði allvel með stefnanda um helgina og hún hafi verið komin á fulla gjöf í gær. Síðar sagði að hún hefði verið að æla svolítið, með nokkuð þaninn kvið og liti ekki alveg hressilega út. Ákveðið var að hafa hana fastandi þar til niðurstöður rannsókna lægju fyrir. Í dagnótu Sveins 10. mars kom hins vegar fram að stefnanda hefði snarversnað eftir hádegið og eftir það var stefnandi mjög veik í langan tíma eins og áður hefur verið rakið. Í framburðum barnalæknanna Atla Dagbjartssonar, Sveins Kjartanssonar og Gests Pálssonar, sem allir störfuðu á nýburadeildinni á þessum tíma og höfðu þar afskipti af stefnanda, kom fram að heilsa hennar hafi farið batnandi nokkrum stundum eftir að hún fæddist 5. mars og fram til 9. mars. Á þessum tíma höfðu ekki komið fram sannfærandi merki um að stefnandi hefði beðið varanlegt tjón á heila vegna súrefnisskorts.

Þótt ekki sé loku fyrir það skotið að skaði hafi orðið vegna bráðasúrefnisskorts í fæðingunni getur það ekki talist líklegt í ljósi þess að ekki sáust dýfur í fósturriti eða annað sem benti til bráðasúrefnisskorts fyrir fæðingu og þeirrar staðreyndar að stefnandi sýndi ekki merki um áhrif súrefnisskorts á heilastarfsemi (HIE) skömmu eftir fæðingu.

Leggja verður til grundvallar það sem fram hefur komið í málinu og styðst við viðurkenndar rannsóknir að blóðsegamyndanir eru oft til staðar í nýburum án þess að þeirra verði vart og að segamyndun í nýrnaslagæðum vegna ísetningar æðaleggs í ósæð sé ein algengasta orsök háþrýstings á nýburaskeiði. Háþrýstingur getur komið í ljós á mismunandi tímapunktum, fljótlega eftir ísetningu leggs, þegar leggurinn sé enn til staðar eða eftir að hann hafi verið fjarlægður. Einkennin eru oft lúmsk og ósértæk eins og verið hafi í tilviki stefnanda. Einkenni frá taugakerfi geti verði meðal annars slappleiki og krampar.

Ekki er hægt að útiloka að örorka stefnanda sé til komin vegna samverkandi orsaka, þar sem súrefnisskortur fyrir eða í fæðingu hafi a.m.k. verið meðorsök blóðsegamyndunar og auk þess gert heilavef viðkvæmari en ella fyrir frekari áföllum sem hann hafi orðið fyrir við síðari veikindi stefnanda. Er þá sérstaklega hafður í huga það álit Péturs Lúðvígssonar heila- og taugasérfræðings að heilaskemmdir vegna súrefnisskorts megi rekja til veikindaferils stefnanda í heild sinni.

Eins og fyrr segir var það skoðun Hildar Harðardóttur læknis að líklegast væri að örorku stefnanda mætti rekja til samverkandi þátta þar sem saman hafi fari áfall fósturs í móðurkviði sem átt hafi sér stað fyrir fæðingu og síðar áföll á vökudeild. Atli Dagbjartsson er hins vegar á þeirri skoðun að miklar líkur væru til þess að heilaskemmdir telpunnar megi rekja til þess súrefnisskorts sem hún hafi orðið fyrir áður en hún fæddist en mjög ólíklegt að þær stafi af blóðþrýstingshækkun í kjölfar blóðsegamyndunar í nýrnaslagæðunum. Baldvin Jónsson komst að svipaðri niðurstöðu í álitsgerð sinni til landlæknis.

Við mat á framburði einstaka lækna sem báru vitni fyrir dómi verður óhjákvæmilega að taka tillit til sérfræðimenntunar hvers og eins og stöðu þeirra gagnvart stefnda og því sakarefni sem til úrlausnar er í málinu.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða dómsins að ekki sé fram komin sönnun fyrir því að örorku stefnanda megi eingöngu rekja þeirra veikinda sem hún varð fyrir í kjölfar blóðtappa í meginslagæð og nýrnaslagæðum. Hins vegar verður að telja að talsverðar líkur séu á því að þau alvarlegu sjúkdómsáföll sem stefnandi varð fyrir í kjölfar blóðtappa í meginslagæð og nýrnaslagæðum hafi að minnsta kosti verið meðvirkandi orsök þeirra alvarlegu heilaskemmda sem hún varð fyrir og orsakað hafa örorku hennar og miska. Hvort eða hversu alvarlegum heilaskaða stefnandi hafði áður orðið fyrir og hversu mikið þessi veikindi juku við þann skaða er útilokað að sýna fram á með óyggjandi hætti.

Með tilliti til erfiðrar sönnunaraðstöðu stefnanda og með hliðsjón af þeim sönnunarreglum sem leggja verður til grundvallar að hafi mótast á þessu sviði skaðabótaréttar ber að leggja á stefnda sönnunarbyrði þess að heilaskaði sá sem stefnandi býr nú við hefði allt að einu orðið þótt starfsmönnum stefnanda hefðu ekki orðið á þau mistök að láta æðalegginn liggja í lykkju í meginslagæðinni í allt að 32 klst. Þar sem stefnda þykir samkvæmt framansögðu ekki hafa lánast slík sönnun verður að fallast á með stefnanda að uppfyllt séu skilyrði fyrir því að leggja á stefnda bótaskyldu vegna örorku og miska stefnanda.

Á grundvelli þeirra sönnunargagna sem fyrir liggja og framangreindrar sönnunarreglu er ekki unnt að fallast á með stefnda að einungis lítinn hluta örorku stefnanda megi rekja til áfalla af völdum blóðtappa í meginslagæð og nýrnaslagæðum. Þar sem ekki hefur verið sýnt fram á hvort eða að hve miklu leyti önnur áföll eiga þátt í heilsutjóni stefnanda ber að líta svo á að stefndi beri bótaábyrgð á öllu tjóni stefnanda.

Enda þótt þau læknisverk sem að framan eru nefnd séu ein og sér talin baka stefnda bótaábyrgð þykir einnig rétt að fjalla um aðrar þær málsástæður sem stefnandi færir fram fyrir bótaábyrgð stefnda.

Eins og að framan er rakið hefur dómurinn talið ólíklegt að blóðsegamyndun hafi verið hafin þegar æðaleggurinn var þræddur í naflaslagæð skömmu eftir að stefnandi fæddist og að það sé skýringin á að lykkja kom á æðalegginn. Ekki var ástæða til að gera ráð fyrir að um blóðsegamyndun hafi verið að ræða á þessum tímapunkti. Eins og fram er komið í læknisfræðilegum gögnum er afar erfitt að sjá blóðsegamyndun fyrir þótt tilteknar aðstæður geti samkvæmt framansögðu aukið líkur á henni. Starfsmönnum Landspítala verður samkvæmt framansögðu ekki talið til mistaka að hafa ekki gripið til sérstakra ráðstafana vegna hættu á blóðsegamyndun.

Með vísan til framburðar álitsgjafans Baldvins Jónsson fyrir dómi verður sú ályktun dregin af ummælum hans um þörf fyrir flæðirannsóknir í umsögn hans til landlæknis, að slíkar rannsóknir hefðu verið eðlilegar ef grunur var uppi um blóðsegamyndun á fyrsta sólarhring. Hann greindi frá því að þar sem hann þekkti til væri ekki farið út í ómun, dopplerrannsókn eða í að kanna blóðsegamyndun eftir að leggur er kominn inn, þótt hætta væri á blóðsegamyndun í einhverjum prósenta tilvika. Eftir að búið væri að fjarlægja slíkan legg væri ekki venjan að fylgjast með þessum áhættuþætti nema barn hefði einhver einkenni, svo sem fækkun á blóðflögum eða létta blæðingu. Ef rannsóknir sýndu að blóðflögum væri farið að fækka væri rétt að framkvæma rannsókn á storkuþáttum. Hann taldi ekkert annað að sjá í gögnum, sem hann hefði séð, sem benti til þess að blóðsegamyndun væri á ferðinni.

Eins og áður er fram komið liggur ekki fyrir að grunur hafi verið til staðar um blóðsegamyndun hjá stefnanda þegar æðaleggur var þræddur í gegnum naflastrengsslagæð inn í ósæð eða eftir að hann var fjarlægður. Rannsóknarniðurstöður um fjölda blóðkorna og fleira bentu ekki til þess að sérstök ástæða væri til að ætla að blóðsegamyndun væri hafin. Samkvæmt því verður ekki fallist á með stefnanda að ekki hafi verið gerðar viðhlítandi rannsóknir á Landspítala háskólasjúkrahúsi á fyrstu ævidögum stefnanda til þess að minnka hættu á alvarlegum veikindum stefnanda.

Dómkröfur stefnanda eru byggðar á skaðabótalögum nr. 50/1993. Ekki eru gerðar athugasemdir við útreikning á kröfu um bætur vegna varanlegrar örorku á grundvelli 8. gr. skaðabótalaga og verður þessi kröfuliður stefnanda að fjárhæð 20.684.948 krónur tekinn til greina.

Af hálfu stefnanda er gerð krafa um bætur vegna varanlegs miska samkvæmt 1. mgr. 4. gr. skaðabótalaga og um 50% viðauka samkvæmt niðurlagi ákvæðisins. Af hálfu stefnda er kröfu um viðauka mótmælt. Á þeim tíma sem umræddur tjónsatburður varð í 1. mgr. 4. gr. skaðabótalaga kveðið á um að þegar miski væri metinn alger eða 100% skyldu bætur vera 4.000.000 króna en við lægra miskastig lækkaði fjárhæðin í réttu hlutfalli. Þegar sérstaklega stæði á væri heimilt að ákveða hærri bætur, þó ekki meira en 6.000.000 krónur. Þessar fjárhæðir hafa tekið breytingum samkvæmt hækkun á lánskjaravísitölu í samræmi við 15. gr. laganna og nema nú 5.171.237 krónum og 7.756.856 krónum.

Stefnandi býr við 100% eða algera örorku og 100% varanlegan miska. Hún er ósjálfbjarga og upp á aðra komin um alla hluti. Í 1. mgr. 4. gr. segir að þegar fjárhæð bóta fyrir varanlegan miska er ákveðin skuli litið til þess hvers eðlis og hversu miklar afleiðingar tjóns séu frá læknisfræðilegu sjónarmiði, svo og til erfiðleika sem það veldur í lífi tjónþola. Um undantekningarákvæðið segir í athugasemdum við 4. gr. frumvarps til skaðabótalaga að hámark miskabóta kunni að þykja ófullnægjandi þegar tjónþoli hefur orðið fyrir margvíslegum líkamsspjöllum, t.d. bæði orðið fyrir mikilli sköddun á útlimum og misst sjón á báðum augum. Í almennum athugasemdum í frumvarpinu segir meðal annars að norrænu lagaákvæðin um varanlegan miska séu meðal annars sett til þess að unnt sé að veita bætur fyrir skerðingu á getu tjónþola til þess að njóta lífsins eins og heilbrigðir menn.

Stefnandi er fjölfötluð og er vart hægt að hugsa sér meiri skerðingu á getu til að njóta lífsins eins og heilbrigðir menn. Með vísan til framangreinds þykir rétt að beita heimildarákvæðinu í 1. mgr. 4. gr. skaðabótalaga að fullu og ákveða stefnanda miskabætur að fjárhæð 7.756.856 krónur í samræmi við kröfugerð.

Af hálfu stefnda er ekki gerð athugasemd við útreikning kröfu um þjáningabætur að fjárhæð 80.671 króna og verður sá kröfuliður tekinn til greina.

Samkvæmt framansögðu verða allar kröfur stefnanda í máli þessu teknar til greina og stefndi dæmdur til að greiða samtals 28.522.475 krónur. Ekki eru af hálfu stefnda gerðar athugasemdir við kröfu um vexti og dráttarvexti og verður krafan tekin til greina eins og í dómsorði greinir.

Dómsmálaráðherra veitti stefnanda gjafsókn 9. október 2001 til að reka málið fyrir héraðsdómi. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, samtals 1.653.500 krónur greiðist úr ríkissjóði, en hann er málflutningsþóknun lögmanns hennar, Jóns Steinars Gunnlaugssonar hrl., sem telst hæfilega ákveðin 1.600.000 krónur, kostnaður við öflun álitsgerðar örorkunefndar 50.000 krónur og þingfestingargjald 3.500 krónur. Það athugast að virðisaukaskattur er ekki innifalinn í ákvarðaðri þóknun lögmanns.

Með hliðsjón af niðurstöðu málsins bæri að öðru jöfnu að dæma stefnda til greiðslu málskostaðar en þar sem sá málskostnaður ætti að renna til stefnda sjálfs vegna veittrar gjafsóknar verður málskostnaður ekki dæmdur.

Af hálfu stefnda flutti málið Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.

Dóm þennan kveður upp Sigurður Tómas Magnússon héraðsdómari, ásamt sérfróðum meðdómendum, þeim Alexander Smárasyni sérfræðingi í fæðingarlækningum og Birni Gunnarssyni sérfræðingi í barnalækningum.

 

D ó m s o r ð:

Stefndi, íslenska ríkið, greiði þeim Eggerti Ísólfssyni og Sigurmundu Skarphéðinsdóttur, vegna ófjárráða dóttur þeirra, stefnanda Söru Lindu Eggertsdóttur, 28.522.474 krónur með 2% ársvöxtum frá 5. mars 1998 til 27. september 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 1.653.500 krónur, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Jóns Steinars Gunnlaugssonar hrl. 1.600.000 krónur.