Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-112
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Kynferðisbrot
- Nauðgun
- Refsiákvörðun
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
2. Með beiðni 12. júlí 2022 leitar ákæruvaldið leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 24. júní 2022 í máli nr. 310/2021: Ákæruvaldið gegn X á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Gagnaðili var ákærður fyrir nauðgun í tveimur ákæruliðum. Samkvæmt fyrri ákærulið var gagnaðila gefið að sök að hafa vorið 2013 haft önnur kynferðismök við þáverandi sambýliskonu sína og barnsmóður, án hennar samþykkis, með því að beita hana ofbeldi og ólögmætri nauðung í íbúð þeirra. Þar að auki var gagnaðila gefið að sök að hafa beitt brotaþola ofbeldi og haft önnur kynferðismök við hana stuttu síðar. Í síðari ákærulið var gagnaðila gefið að sök að hafa í maí 2015 gert tilraun til að hafa samræði við brotaþola og haft önnur kynferðismök við hana án hennar samþykkis og með því að beita hana ofbeldi og ólögmætri nauðung. Brot ákærða samkvæmt báðum ákæruliðum voru talin varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
4. Með dómi héraðsdóms var ákærði sakfelldur samkvæmt fyrri ákærulið. Hann var sýknaður af þeirri háttsemi sem samkvæmt síðari lið ákærunnar fólst í því að neyða brotaþola til að hafa við hann munnmök en sakfelldur að öðru leyti fyrir þá háttsemi sem þar var lýst. Var hann dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi og til að greiða brotaþola 3.000.000 króna í miskabætur. Með dómi Landsréttar var gagnaðili sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum var gefin að sök í fyrri ákærulið, eins og honum var breytt undir rekstri máls, en sýknaður að öllu leyti af þeirri háttsemi sem honum var gefin að sök í þeim síðari. Refsing hans var ákveðin fangelsi í tvö og hálft ár en frestað var fullnustu hennar og skyldi hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dómsins héldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að áfrýjun lúti að atriði sem hafi verulega almenna þýðingu. Þannig hafi verulega almenna þýðingu að fá úrlausn Hæstaréttar um það hvenær efni séu til að skilorðsbinda refsingar í nauðgunarmálum þegar langt er liðið frá broti og einkum hvaða áhrif það eigi að hafa í því sambandi að brotaþoli hafi lagt fram kæru einhverjum árafjölda eftir að brot átti sér stað. Leyfisbeiðandi telur að refsing sú sem ákærða var gerð með dómi Landsréttar hafi verið ákveðin að mun of væg, sbr. 1. mgr. 216. gr. laga nr. 88/2008, og að ekki hafi verið efni til að skilorðsbinda hana.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðninni er því hafnað.