Hæstiréttur íslands

Mál nr. 290/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjárnám
  • Áfrýjunarfjárhæð
  • Frávísun frá Hæstarétti


                                              

Þriðjudaginn 7. maí 2013.

Nr. 290/2013.

Guðmundur H. Jónsson

(Sjálfur)

gegn

sýslumanninum á Blönduósi

(enginn)

Kærumál. Fjárnám. Áfrýjunarfjárhæð. Frávísun frá Hæstarétti.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem felld var úr gildi ákvörðun sýslumanns um að stöðva framkvæmd fjárnáms hjá G fyrir kröfu S. Þar sem höfuðstóll kröfunnar var lægri en áfrýjunarfjárhæð samkvæmt 1. og 2. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála var málinu vísað frá Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Helgi I. Jónsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. apríl 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. apríl 2013, þar sem felld var úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Kópavogi 3. desember 2012 um að stöðva framkvæmd fjárnáms, sem varnaraðili hafði krafist hjá sóknaraðila fyrir kröfu að fjárhæð 435.750 krónur. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Hann krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt gögnum málsins er höfuðstóll þeirrar kröfu um greiðslu sakarkostnaðar samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júní 2005, sem varnaraðili leitar fullnustu á hjá sóknaraðila, 435.750 krónur. Skilyrði um áfrýjunarfjárhæð í 1. mgr. og 2. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður beitt um kæru sem þessa, sbr. 4. mgr. 150. gr. laganna og 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989, svo sem ítrekað hefur verið í dómaframkvæmd Hæstaréttar eftir að dómur gekk, sem birtur er í dómasafni réttarins 1994, bls. 1101. Krafan, sem mál þetta varðar, nær ekki áfrýjunarfjárhæð samkvæmt fyrstnefnda lagaákvæðinu. Verður málinu því vísað af sjálfsdáðum frá Hæstarétti.

Kærumálskostnaður dæmist ekki.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. apríl 2013.

                Með bréfi, sem móttekið var hjá Héraðsdómi Reykjaness 7. febrúar 2013, óskaði sóknaraðili þess með skírskotun til 92. gr. aðfararlaga nr. 90/1989 að ógilt verði með úrskurði ákvörðun sýslumannsins í Kópavogi um stöðvun aðfarargerðar   nr. 037-2012-03172 hjá varnaraðila við fyrirtöku gerðarinnar þann 3. desember 2012  fyrir kröfu að fjárhæð 435.750 krónur. Í greinargerð sinni fyrir héraðsdómi krafðist sóknaraðili þess jafnframt að heimilað yrði að gera fjárnám svo sem krafist var í aðfararbeiðni og við gerðina sjálfa 3. desember 2012.

                Af hálfu varnaraðila er þess krafist að málinu verði vísað frá dómi. Við aðalmeðferð mótmælti varnaraðili því að viðbótarkrafa sóknaraðila í greinargerð kæmist að í málinu, þess efnis að úrskurðað verði að heimilt sé að gera fjárnám hjá varnaraðila.

                Málið var tekið til úrskurðar 19. mars sl.

I.

                Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júní 2005 var varnaraðili dæmdur í sakamáli og jafnframt dæmdur til greiðslu málsvarnarlauna að fjárhæð 350.000 krónur. Sóknaraðili, sem fer með innheimtu sekta og sakarkostnaðar, krafðist fjárnáms með aðfararbeiðni 6. mars 2007 og var aðfarargerðin tekin fyrir hjá sýslumanni í Kópavogi 23. mars 2007. Varnaraðili mætti sjálfur við gerðina og var henni lokið án árangurs.

                Með beiðni 16. október 2012 óskaði sóknaraðili á ný eftir fjárnámi hjá varnaraðila og fór sú gerð fram 3. desember 2012. Af hálfu fulltrúa sýslumanns var bókað: „Fyrir gerðarbeiðanda mætir Ýr Vésteinsdóttir ftr. Gerðarþoli er sjálfur mættur. Gerðarþola er leiðbeint um réttarstöðu sína og kröfu gerðarbeiðanda. Gerðarþoli segist mótmæla gerðinni á þeim forsendum að árangurslaust fjárnám hafi verið gert áður vegna sömu kröfu og verði ekki endurupptekið nema að ákveðnum skilyrðum uppfylltum sem ekki séu til staðar. Krefst hann þess vegna að gerðin verði stöðvuð. Gerðarbeiðandi segir að um nýja beiðni sé að ræða sem heimilt sé að leggja fram en gerðarþoli mótmælir því að um nýja beiðni sé að ræða. Fyrir liggur og er óumdeilt að árangurslaus aðfarargerð fór fram að kröfu sama gerðarbeiðanda á hendur sama gerðarþola vegna sömu kröfu þann 23.03. 2007 Skv. 6. tl. 66. gr. laga nr. 90/1989 er endurupptaka aðfarargerðar sem lokið hefur áður án árangurs einungis heimil ef gerðarbeiðandi telur unnt að vísa á frekari eignir til fjárnáms. Í athugasemdum sem fylgdu lagaákvæðinu segir að slík aðgerð geti farið fram hvort sem er með endurupptöku eða nýju fjárnámi. Skilyrði til að ljúka megi að nýju gerð sem lokið hefur verið áður með árangurslausu fjárnámi er þó alltaf að gerðarbeiðandi geti bent á eignir gerðarþola sem gera má fjárnám í. Gerðarbeiðandi kveður svo ekki vera og gerðarþoli hefur lýst yfir eignaleysi sínu. Verður því að telja að lagaheimild skorti til að ljúka gerðinni aftur og er hún því stöðvuð. Mættum er kynnt efni þessarar bókunar, sem engar athugasemdir eru gerðar við.“

                Í málinu er ekki deilt um lögmæti kröfunnar og að hún nemi með virðisaukaskatti 435.750 krónum. Krafan er til innheimtu hjá innheimtumiðstöð sekta og sakarkostnaðar sem er á forræði sóknaraðila. 

II.

                Sóknaraðili telur heimild sína til aðfarar á grundvelli 1. tl. 1. mgr. 1. gr. laga um aðför nr. 90/1989 vera skýra. Sóknaraðili sé lögmætur innheimtuaðili og styður innheimtukröfur sínar við gilda aðfararheimild. Orðalag ákvæðisins svo og 1. þáttar aðfararlaga um almenn skilyrði fyrir aðför gefi ekkert tilefni til að álykta að aðför megi einungis fara fram einu sinni vegna sömu kröfu. Fjárnámsbeiðni verði ekki sjálfkrafa að endurupptökubeiðni, er lúti ákvæðum 9. kafla aðfararlaga, fyrir það eitt að áður hafi verið gert fjárnám vegna sömu kröfu.

                Telur sóknaraðili þær endurupptökuheimildir, sem finna megi í 9. kafla laganna, fyrst og fremst vera ætlaðar aðilum til hagræðis séu skilyrði til endurupptöku uppfyllt. Hins vegar skjóti þessi ákvæði ekki loku fyrir að beiðst sé nýrrar aðfarargerðar kjósi gerðarbeiðandi að hafa þann háttinn á. Athugasemdir með frumvarpi til 6. tl. 67. gr. laga um aðför nr. 98/1989 renni stoðum undir þetta en þar komi fram að slík aðför geti hvort heldur sem er átt sér stað með endurupptöku hins árangurslausa fjárnáms eða með nýju fjárnámi. Af greinargerðinni megi ráða að gert hafi verið ráð fyrir því við setningu laganna að gera mætti fjárnám að nýju og hafi það verið raunin í framkvæmd. Sóknaraðili hafi aldrei fallist á að um endurupptöku á fyrra fjárnámi væri að ræða og hafi aðfararbeiðni hans ekki borið þess merki. Sóknaraðili hafi kosið að freista þess að gera nýtt fjárnám á grundvelli 1. tl. 1. mgr. 1. gr. aðfararlaga með því að senda nýja aðfararbeiðni til sýslumanns. Hafi þess og verið getið við gerðina þann 3. desember 2012.

                Sóknaraðili telur ákvörðun sýslumanns ekki byggða á traustum lagagrunni. Í bókun sinni taki sýslumaður þá efnislegu afstöðu að beiðst hafi verið endurupptöku á eldra fjárnámi þrátt fyrir að sóknaraðili hafi lýst því yfir við gerðina að um nýja fjárnámsbeiðni væri að ræða. Með þessu hafi sýslumaður komist að þeirri efnislegu niðurstöðu að aðfararlögin heimili ekki nýtt fjárnám vegna sömu kröfu nema skilyrði til endurupptöku séu uppfyllt. Sóknaraðili telur þetta ekki samrýmast skyldum sýslumanns samkvæmt aðfararlögum sem snúi fyrst og fremst að formhlið máls svo sem getið sé um í 17. kafla laganna en þar segi að sýslumaður kanni hvort beiðni og aðfararheimild sé í lögmætu formi, hvort beiðni sé framkomin í réttu umdæmi og hvort fullnægt sé skilyrðum 8. gr. laganna um almenna greiðsluáskorun þegar það á við. Sóknaraðili lítur svo á að réttara hefði verið af sýslumanni að ljúka gerðinni eftir því sem sóknaraðili krafðist, enda hafi ekki komið fram nein mótmæli af hálfu varnaraðila við gerðina sem sýslumanni hafi borið að gæta af sjálfsdáðum.

                Varnaraðili telur að krafa sóknaraðila beinist að ógildingu á ákvörðun sýslumanns í Kópavogi og því sé hann ekki aðili að málinu. Krafist sé ógildingar ákvörðunar sem hann hafi ekki tekið heldur sýslumaðurinn. Varnaraðili geti því ekki verið aðili málsins í skilningi aðfararlaga og því beri að vísa málinu frá.

                Þá sé ranglega vísað til 92. gr. laga nr. 98/1989 um kæruheimild. Ágreiningur milli tveggja sýslumannsembætta eigi undir kæruheimild 14. kafla aðfararlaga, sbr. 5. kafla, einkum 26. og 27. gr.

                Þá beri einnig að vísa málinu frá þar sem sóknaraðili hafi ekki gert athugasemd við stöðvun gerðarinnar áður en henni lauk.

                Loks telur varnaraðili að skilyrði til endurupptöku séu tæmandi talin í 9. kafla laga nr. 90/1989. Ekki sé unnt að komast hjá þeim skilyrðum með sjónarmiðum um  hagræði. Þá sé ekki gert ráð fyrir í þeim kafla að unnt sé að endurupptaka fjárnámsgerð vegna fjárnáms sem lokið hefur verið án árangurs að óbreyttum aðstæðum gerðarþola.

III.

                Sóknaraðili leitar úrlausnar framangreinds ágreinings eftir 15. kafla laga nr. 90/1989 og vísar réttilega til 92. gr. laganna í því sambandi.

                Ekki er hald í þeirri viðbáru varnaraðila að hann sé ekki aðili málsins þar sem hann mótmælti við gerðina að hún næði fram að ganga á þeim grunni að árangurslaust fjárnám hefði áður verið gert vegna sömu kröfu og að fjárnámið yrði ekki endurupptekið. Málinu verði því ekki vísað frá dómi af þessum sökum.

                Eins og að framan er rakið stöðvaði sýslumaður fjárnámsgerðina 3. desember 2012 með þeim rökum að endurupptaka á fjárnámi því, sem fram fór án árangurs hjá varnaraðila vegna sömu kröfu þann 23. mars 2007, væri óheimil samkvæmt ákvæðum 6. tl. 66. gr. laga nr. 90/1989 um aðför en þar segir að fjárnámsgerð verði endurupptekin að kröfu gerðarbeiðanda ef gerð hefur verið lokið án árangurs að einhverju leyti eða öllu og gerðarbeiðandi telur unnt að vísa á frekari eignir til fjárnáms. Sýslumaður taldi skorta þessi skilyrði 6. tl. 66. gr. til þess að gerðin næði fram að ganga þar sem sóknaraðili gat ekki bent á frekari eignir til fjárnáms.

                Þessi ákvæði aðfararlaga og önnur ákvæði 9. kafla laganna um endurupptöku fjárnámsgerðar girða þó ekki fyrir að fram fari nýtt fjárnám hjá gerðarþola vegna sömu kröfu að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum. Í málinu er aðfararheimildin dómur sem kveðinn var upp 2. júní 2005. Samkvæmt 4. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda fyrnist dómur á 10 árum en samkvæmt 28. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda gilda eldri lög í þessu tilviki. Krafa sóknaraðila er því ekki fallin niður fyrir fyrningu, sbr. 9. gr. aðfararlaga, og er því aðfararhæf.

                Samkvæmt framansögðu verður fallist á með sóknaraðila að heimilt sé að gera nýtt fjárnám fyrir kröfunni, enda var þess óskað í aðfararbeiðni 16. október 2012 en ekki að eldra fjárnám yrði endurupptekið. Ákvörðun sýslumannsins í Kópavogi um stöðvun aðfarargerðarinnar 3. desember 2012 verður því ógilt og úrskurðað að sóknaraðila sé heimilt að gera fjárnám hjá varnaraðila, enda verður ekki fallist á með varnaraðila að sú krafa sé ný í málinu heldur leiðir hún af ógildingakröfunni.

                Málskostnaðar hefur ekki verið krafist.

                Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð

                Ógilt er ákvörðun sýslumannsins í Kópavogi um stöðvun aðfarargerðar nr. 037-2012-03172 við fyrirtöku gerðarinnar þann 3. desember 2012 hjá varnaraðila, Guðmundi H. Jónssyni.

                Sóknaraðila, sýslumanninum á Blönduósi, er heimilt að gera fjárnám hjá varnaraðila samkvæmt aðfararbeiðni fyrir kröfu að fjárhæð 435.750 krónur.