Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-194

VBS eignasafn hf. (Hróbjartur Jónatansson lögmaður)
gegn
LBI ehf. (Kristinn Bjarnason lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
  • Skaðabætur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Með beiðni 28. maí 2019 leitar VBS eignasafn hf. leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 15. sama mánaðar í málinu nr. 122/2019: VBS eignasafn hf. gegn LBI ehf., á grundvelli 2. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. LBI ehf. leggst gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að krafa hans, aðallega að fjárhæð 305.950.798 krónur, til vara 243.605.871 króna en að því frágengnu annarrar lægri fjárhæðar, verði viðurkennd við slit á gagnaðila, sem áður bar heitið Landsbanki Íslands hf. Reisir leyfisbeiðandi kröfu sína á því að honum hafi sem handhafa hlutdeildarskírteina í peningamarkaðssjóði Landsvaka hf., dótturfélags Landsbanka Íslands hf., verið mismunað í aðdraganda þess að sjóðnum hafi verið lokað 6. október 2008. Vísar leyfisbeiðandi til þess að þeir sem hafi innleyst hlutdeild sína á tímabilinu frá 10. september 2008 þar til sjóðnum var lokað hafi fengið of hátt verð fyrir hana og hafi það leitt til þess að verðgildi hlutdeildar hans hafi rýrnað. Telur leyfisbeiðandi að með þessu hafi gagnaðili sem vörslufélag, innri endurskoðandi og móðurfélag Landsvaka hf. valdið sér tjóni og beri á því skaðabótaskyldu. Í úrskurði héraðsdóms var kröfu leyfisbeiðanda hafnað með þeim rökum að þótt hann hafi verið handhafi hlutdeildarskírteina á grundvelli eignastýringar fyrir viðskiptavini samkvæmt lögum nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, hafi hann ekki verið eigandi þeirra. Var því fallist á með gagnaðila að aðild leyfisbeiðanda að málinu væri vanreifuð. Þá taldi héraðsdómur að í málatilbúnaði leyfisbeiðanda hafi ekki verið afmarkað með fullnægjandi hætti hvaða tjón yrði rakið til þeirra atvika sem málsástæður hans tækju til. Leyfisbeiðandi kærði úrskurð héraðsdóms til Landsréttar en féll þar frá aðalkröfu sinni. Með fyrrnefndum úrskurði Landsréttar var niðurstaða héraðsdóms staðfest.

Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til þar sem ekki hafi verið tekin rökstudd afstaða til varakrafna hans fyrir héraðsdómi. Þá vísar hann til þess að málsástæða gagnaðila sem laut að aðildarskorti hafi ekki verið tilgreind í bréfi gagnaðila til héraðsdóms sem hluti af þeim ágreiningsefnum sem leitað væri úrlausnar um samkvæmt 120. gr., sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991. Telur leyfisbeiðandi að með því að málsástæðan hafi fyrst komið fram í greinargerð gagnaðila í héraði hafi hún ekki átt að komast að í málinu, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991. Að þessu leyti hafi málið jafnframt fordæmisgildi. Loks byggir leyfisbeiðandi á því að kæruefnið varði mikla fjárhagslega hagsmuni sína.

Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að niðurstaða Landsréttar sé bersýnilega röng að formi til eða efni. Þá er hvorki unnt að líta svo á að kæruefnið hafi fordæmisgildi umfram dómsúrlausnir sem áður hafa gengið né að það hafi grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins í skilningi 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Er beiðninni því hafnað.