Hæstiréttur íslands
Mál nr. 89/2012
Lykilorð
- Rán
- Skjalafals
- Þjófnaður
- Gripdeild
- Nytjastuldur
|
|
Fimmtudaginn 25. október 2012. |
|
Nr. 89/2012.
|
Ákæruvaldið (Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari) gegn Köru Mist Ásgeirsdóttur (Kristján Stefánsson hrl.) |
Rán. Skjalafals. Þjófnaður. Gripdeild. Nytjastuldur.
K var sakfelld í héraði fyrir fjögur ránsbrot, fjögur þjófnaðarbrot, gripdeild, nytjastuld og skjalafals og dæmd til 18 mánaða óskilorðsbundinnar fangelsisvistar. K játaði sök að því er varðaði önnur brot en ránsbrot og hélt því fram að þá háttsemi bæri að heimfæra undir ákvæði hegningarlaga um gripdeild. Á það var ekki fallist. K hafi í þessum tilvikum beitt líkamlegu ofbeldi og brotin verið ófyrirleitin. Þá taldi Hæstiréttur að þegar virt væri eðli ránsbrotanna og hversu alvarleg þau voru væru ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna með tilliti til almennra varnaðaráhrifa. Var niðurstaða héraðsdóms um heimfærslu ránsbrotanna til refsiákvæða og refsingu K því staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 2. febrúar 2012 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur um sakfellingu ákærðu, en að refsing verði þyngd.
Ákærða krefst þess að refsing hennar verði milduð og bundin skilorði.
Frá því að héraðsdómur gekk hefur millinafni ákærðu verið breytt eins og ofangreint heiti málsins ber með sér.
Með hinum áfrýjaða dómi var ákærða sakfelld fyrir fjögur ránsbrot, fjögur þjófnaðarbrot, gripdeild, nytjastuld og skjalafals. Ákærða hefur játað sök að því er varðar önnur brot en þau ránsbrot, sem ákært er fyrir, og heldur hún því fram að þá háttsemi beri að heimfæra undir 245. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Tvö þeirra ránsbrota, sem ákært er fyrir, voru framin 6. október 2011 og hin tvö 14. og 21. sama mánaðar. Í öllum tilvikum beitti ákærða umtalsverðu afli til að ná töskum af konunum, sem hún veittist að, en þær brugðust við á þann hátt að halda fast í töskurnar. Beitti ákærða þannig líkamlegu ofbeldi gagnvart konunum og tók af þeim fjármuni og önnur verðmæti í þremur tilvikanna og reyndi að gera það í því fjórða. Með þeirri háttsemi braut hún gegn 252. gr. almennra hegningarlaga. Í öðru brotanna, sem framin voru 6. október 2011, urðu afleiðingarnar þær að árásarþoli féll í götuna og hlaut brot á miðhandarbeini og blóðnasir. Þá hlaut árásarþoli tvö rifbeinsbrot og eymsli á öxl vegna brotsins 21. sama mánaðar. Brotin voru ófyrirleitin og beindust gegn eldri konum, sem lítið viðnám gátu veitt, en um ástæðu þess að þær urðu fyrir valinu sem fórnarlömb bar ákærða fyrir héraðsdómi að þær hafi verið „auðveldur peningur“.
Samkvæmt framansögðu og með vísan til 1. og 6. töluliðar 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga og 2. mgr. sömu lagagreinar, svo og með hliðsjón af 77. gr. laganna, ber að staðfesta þá refsingu, sem ákærðu var gerð í hinum áfrýjaða dómi. Þegar virt er eðli ránsbrotanna og hversu alvarleg þau voru eru ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna með tilliti til almennra varnaraðaráhrifa refsinga.
Ákærða verður dæmd til að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðast að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærða greiði áfrýjunarkostnað málsins, 319.606 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. janúar 2011.
Ár 2012, miðvikudaginn 25. janúar, er á dómþingi héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Pétri Guðgeirssyni, héraðsdómara, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 1703/2011: Ákæruvaldið (Dagmar Ösp Vésteinsdóttir) gegn X (Stefán Karl Kristjánsson hdl.) og Köru Dröfn Ásgeirsdóttur (Kristján Stefánsson hrl.), sem tekið var til dóms hinn 23. janúar sl. að aflokinni framhalds-aðalmeðferð.
Málið er höfðað með tveimur ákæruskjölum á hendur ákærðu, X, kt. [...], [...],[...] og Köru Dröfn Ásgeirsdóttur, kt. [...] [...][...].
Í fyrsta lagi er málið höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 22. nóvember sl. „fyrir eftirtalin brot framin í Reykjavík á árinu 2011, nema annað sé tekið fram:
Gegn ákærða X:
I.
Gripdeildir:
1. Föstudaginn 6. maí, á bifreiðastæði á horni Vitastígs og Grettisgötu, opnað fremri farþegahurð á bifreið A, kt.[...], en A sat í bílstjórasæti bifreiðarinnar, og tekið handtösku hennar úr farþegasætinu að óþekktu verðmæti og hlaupið á brott.
(M 007-2011-26825)
2. Sunnudaginn 11. september, á bensínstöð Skeljungs, Grjóthálsi 8, dælt eldsneyti, að andvirði kr. 11.041, á bifreið með skráningarmerkjunum [...], og ekið henni á brott án þess að greiða fyrir eldsneytið.
(M 007-2010-59709)
3. Föstudaginn 16. september, á bensínstöð Skeljungs, Grjóthálsi 8, dælt eldsneyti, að andvirði kr. 8.549, á bifreið með skráningarmerkjunum [...], og ekið henni á brott án þess að greiða fyrir eldsneytið.
(M 007-2011-59701)
4. Laugardaginn 24. september, á bensínstöð Skeljungs, Grjóthálsi 8, dælt eldsneyti, að andvirði kr. 8.075, á bifreið með skráningarmerkjunum [...], og ekið henni á brott án þess að greiða fyrir eldsneytið.
(M 007-2011-60666)
Teljast brot þessi varða við 245. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
II.
Umferðarlagabrot:
1. Mánudaginn 3. október, ekið bifreiðinni [...], óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (MDMA í blóði mældist 65 ng/ml), suður Reykjanesbraut og þar á staur á móts við Setberg í Hafnarfirði, uns ákærði stöðvaði akstur bifreiðarinnar sunnar á Reykjanesbraut.
(M 007-2011-60111)
2. Aðfaranótt fimmtudagsins 27. október, ekið bifreiðinni [...], óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (Metýlfenídat í blóði mældist 60 ng/ml), og með röngum skráningarmerkjum, sem ákærði hafði áður stolið ásamt meðákærðu, sbr. VI. kafla ákæru, suður Hafnarfjarðarveg uns lögregla stöðvaði akstur bifreiðarinnar á Hafnarfjarðarvegi við Arnarnesvog í Garðabæ.
(M 007-2011-64086)
Teljast brot þessi varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 3. gr. laga nr. 57/1997, en brot skv. 2. tl. telst auk þess varða við 64. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
III.
Þjófnaði:
1. Miðvikudaginn 12. október, brotist inn í íbúð að [...], og stolið þaðan tveimur 42“ flatskjám af gerðunum Panasonic og Philips, tveimur stussy bolum og stussy derhúfu, allt að óþekktu verðmæti.
(M 007-2011-61678)
2. Fimmtudaginn 13. október, í verslun 11-11, Laugavegi 116, stolið súrmjólk að verðmæti kr. 218.
(M 007-2011-63565)
Teljast brot þessi varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Gegn ákærðu Köru Dröfn:
IV.
Þjófnaði:
1. Sunnudaginn 9. október, í verslun 11-11, Laugavegi 116, stolið ullarhúfu að verðmæti kr. 2.998.
(M 007-2011-63620)
2. Mánudaginn 10. október, í Austurbæjarskóla við Barónsstíg 32, stolið heilsusafa að verðmæti kr. 109.
(M 007-2011-63565)
3. Fimmtudaginn 13. október, í verslun 11-11, Laugavegi 116, stolið adidas íþróttaskóm að verðmæti kr. 15.393.
(M 007-2011-61239)
Teljast brot þessi varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
V.
Gripdeild, með því að hafa föstudaginn 14. október, á bifreiðastæði við verslunina Víði, Skeifunni 11d, opnað fremri farþegahurð á bifreiðinni [...] en ökumaður hennar sat í bílstjórasæti bifreiðarinnar og tekið handtösku ökumanns úr farþegasætinu að óþekktu verðmæti og hlaupið á brott.
(M 007-2011-61942)
Telst brot þetta varða við 245. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Gegn ákærðu báðum:
VI.
Þjófnað í félagi, með því að hafa á ótilgreindum tíma í október, á bifreiðastæði við bílasöluna Bílaborg, Stórhöfða 26, stolið skráningarmerkjunum[...].
(M 007-2011-63560)
Telst brot þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
VII.
Fjársvik í félagi, með því að hafa laugardaginn 8. október, í verslun Intersport, Bíldshöfða 20, blekkt starfsfólk í staðgreiðsluviðskiptum, með framvísun á debetkorti B, og svikið út vörur, samtals að fjárhæð kr. 89.920.
(M 007-2011-61990)
Telst brot þetta varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
VIII.
Nytjastuld og skjalafals í félagi, með því að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 27. október, í heimildarleysi notað bifreiðina [...], sem ákærðu vissu bæði að væri stolin og ákærði X ekið henni um götur Reykjavíkur, með skráningarmerkjunum [...], sem ákærðu höfðu áður stolið eins og greinir í VI. kafla ákæru og sett á bifreiðina í blekkingarskyni, uns lögregla hafði afskipti af þeim á Hafnarfjarðarvegi við Arnarnesvog í Garðabæ.
(M 007-2011-63066)
Teljast brot þessi varða við 1. mgr. 157. gr. og 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr., 1. gr. laga nr. 20/1956.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar, og að ákærði X verði jafnframt dæmdur til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
Einkaréttarkröfur:
1. Vegna ákæruliðar I.- 2, gerir C, kt. [...], f.h. Skeljungs hf., kt. [...], kröfu um að ákærði, X, verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 11.041, auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 11. september 2011 en síðan dráttarvaxta skv. 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.
2. Vegna ákæruliðar I.- 3, gerir C, kt. [...], f.h. Skeljungs hf., kt. [...], kröfu um að ákærði, X verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 8.549, auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 16. september 2011 en síðan dráttarvaxta skv. 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.
3. Vegna ákæruliðar I.- 4, gerir C, kt[...], f.h. Skeljungs hf., kt.[...], kröfu um að ákærði, X verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 8.075, auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 24. september 2011 en síðan dráttarvaxta skv. 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.
4. Vegna ákæruliðar IV.- 1, gerir D kt.[...], f.h. Kaupáss hf., kt. [...], kröfu um að ákærða, Kara Dröfn Ásgeirsdóttir, verði dæmd til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 2.998, auk vaxta skv. 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 9. október 2011 til 17. október 2011 og skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá 17. október 2011 til greiðsludags.
5. Vegna ákæruliðar IV.- 2, gerir D kt. [...], f.h. Kaupáss hf., kt. [...], kröfu um að ákærða, Kara Dröfn Ásgeirsdóttir, verði dæmd til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 109, auk vaxta skv. 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 13. október 2011 til 17. október 2011 og skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá 17. október 2011 til greiðsludags.
6. Vegna ákæruliðar III.- 2, gerir D kt.[...], f.h. Kaupáss hf., kt. [...], kröfu um að ákærði, X, verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 218, auk vaxta skv. 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 13. október 2011 til 17. október 2011 og skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá 17. október 2011 til greiðsludags.
7. Vegna ákæruliðar VII., gerir E, kt.[...], f.h. ISP Ísland, kt. [...], kröfu um að ákærðu, X og Kara Dröfn Ásgeirsdóttir, verði dæmd til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 89.920, auk vaxta skv. 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 8. október 2011 til 10. október 2011 og skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá 10. október 2011 til greiðsludags.
Í öðru lagi er málið höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 30. nóvember sl. „fyrir eftirfarandi ránsbrot framin á árinu 2011 svo sem hér greinir:
Með því að hafa í öll neðangreind skipti sammælst um að ráðast á brotaþola í því skyni að komast yfir verðmæti og deila síðar ránsfengnum:
I.
Fimmtudaginn 6. október á [...] í Reykjavík, gengu ákærðu aftan að F, kt.[...] og ákærða Kara Dröfn veittist að henni, hrinti henni og hrifsaði af henni handtösku hennar sem innihélt kr. 15.000 í reiðufé, bankakort og lykla að óþekktu verðmæti, með þeim afleiðingum að F féll í götuna og hlaut brot á miðhandarbeini og blóðnasir.
Telst háttsemi ákærðu varða við 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
M. 007-2011-60662
II.
Fimmtudaginn 6. október í undirgöngum við [...] í Kópavogi veittist ákærða Kara Dröfn að G, kt. [...], sparkaði í sköflung hægri fótar og hrifsaði af henni handtösku sem innihélt kr. 4.000 í reiðufé, bankakort, lykla og ilmvatn, allt að óþekktu verðmæti, en ákærði X stóð álengdar á meðan.
Telst háttsemi ákærðu varða við 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
M. 007-2011-60685
III.
Föstudaginn 14. október á [...] við [...] gengu ákærðu aftan að H, kt.[...] og ákærða Kara Dröfn veittist að henni, greip um tösku hennar og hrifsaði hana af henni, með þeim afleiðingum að H féll fram fyrir sig og hlaut mar á hægri handlegg. Ákærðu höfðu töskuna á brott með sér en hún innihélt sundföt, skójárn og lykla að óþekktu verðmæti.
Telst háttsemi ákærðu varða við 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
M. 007-2011-61916
IV.
Fyrir tilraun til ráns, föstudaginn 21. október við [...] í Reykjavík með því að ákærða Kara Dröfn veittist að I, kt.[...] og reyndi að hrifsa handtösku hennar til sín, með þeim afleiðingum að I féll á jörðina og braut tvö rifbein og hlaut eymsli á öxl. Ákærði X ók ákærðu Köru Dröfn á vettvang og beið átekta í bifreiðinni [...] og ók meðákærðu svo á brott af vettvangi.
Telst háttsemi ákærðu varða við 252. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
M. 007-2011-63096
Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Ákæruvaldið hefur fellt niður VII. kafla fyrri ákærunnar og telst bótakrafan, sem á honum byggir, því einnig vera niður fallin.
Í máli þessu eru sex aðrar bótakröfur í málinu sem stafa frá starfsmönnum Skeljungs hf. og Kaupáss hf. þeim C og D. Um skaðabótakröfur í sakamáli fer eftir XXVI. kafla laga um meðferð sakamála og jafnframt eftir lögum um meðferð einkamála nr. 91, 1991, eftir því sem við á. Samkvæmt 4. mgr. 17. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91, 1991 koma stjórnendur félaga, stofnana eða samtaka fram einir eða fleiri í sameiningu sem fyrirsvarsmenn slíkra aðila eftir því sem leiðir af almennum reglum. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga um lögmenn nr. 77, 1998 segir að ef aðili fer ekki sjálfur með mál sitt fyrir dómi eða sá sem að lögum getur verið fyrirsvarsmaður hans í dómsmáli verði ekki öðrum en lögmanni falið að gæta þar hagsmuna hans. Gerð skaðabótakröfu er málssókn af hálfu þess sem hana setur fram og hluti af meðferð málsins fyrir dómi. Umrædda starfsmenn brast bæði fyrirsvars- og málflutningshæfi til þess að setja fram bótakröfurnar í málinu. Ber því að vísa þeim frá dómi.
Málavextir
Fyrri ákæran.
Ákærði X hefur neitað sök að því er varðar innbrotsþjófnað á [...], sbr. kafla III,1 í fyrri ákærunni. Vitni að þessu broti hafa ekki fengist fyrir dóm önnur en bróðir ákærða sem hefur það eftir öðrum að ákærði hafi verið að verki. Öðrum sönnunargögnum er ekki til að dreifa sem máli geta skipt og er ósannað, gegn neitun ákærða, að hann hafi verið hér að verki. Ber því að sýkna hann af þessum ákærulið.
Ákærðu hafa að öðru leyti skýlaust játað þau brot sem þau eru saksóttur fyrir með þessu ákæruskjali. Hafa þau orðið sek um þá verknaði sem þar er lýst og réttilega eru þar færð til refsiákvæða.
Síðari ákæran.
I.
Samkvæmt staðfestri lögregluskýrslu J var tilkynnt um það til lögreglu klukkan rúmlega eitt fimmtudaginn 6. október 2011 að roskin kona hefði verið rænd á [...]. Þegar þangað kom var þar fyrir F, fædd 1927, sem sagðist hafa gengið suður [...] þegar tveir einstaklingar komu skyndilega aftan að henni, hrintu henni og hrifsuðu af henni veski sem hún hélt á í hægri hendi. Kvaðst hún hafa fallið í götuna og því ekki hafa séð þá sem þarna komu við sögu. Þá segir í skýrslunni að F hafi verið með blóðnasir og sést hafi á öðru hnénu á buxum hennar, eins hún hefði dottið á það. Þá hefði hún sagst finna til í hendi og skolfið mikið. Hún sagði bankakort, lykla og skilríki hafa verið í veskinu, 5 10 þúsund krónur í peningum og ýmislegt dót. Ákærðu voru handtekin síðar um daginn og sett í fangageymslu.
Í staðfestu læknisvottorði K segir að F hafi verið marin og bólgin á vinstri hendi og kvartað um eymsli þar. Á röntgenmynd hafi einnig sést að ótilfært brot hafi verið í miðhandarbeini.
Í skýrslu sem F gaf hjá lögreglunni síðar þennan dag sagði hún að hún hefði verið felld eða fótunum verið skellt undan henni og í fallinu hefði taskan verið hrifsuð úr vinstri hendi hennar. Hefði hún haldið um staf og innkaupapoka með þeirri hægri. Þá sagði hún að við þetta hefði hún misst skóna af fótum sér.
Daginn eftir gaf ákærða Kara Dröfn skýrslu um þetta atvik og sagði hún þau meðákærða hafa verið saman á [...] og þau þá séð þar roskna konu á gangi. Hefði hún gengið að konunni og reynt að taka af henni tösku sem hún var með í annarri hendi. Konan hefði streist á móti en hún hefði ekki látið sig og náð að taka töskuna af konunni. Þau hefðu svo farið á brott, hún og meðákærði. Hefðu þau fleygt töskunni án þess að taka nokkuð úr henni. Aðspurð kvaðst hún halda að hún hefði ekki hrint konunni. Hún vissi það þó ekki því hún myndi ekki allt sem gerðist vegna fráhvarfa eftir fíkniefnaneyslu.
Ákærði X var einnig yfirheyrður daginn eftir atvikið. Hann sagði þau tvö hafa verið í fráhvörfum eftir fíkniefnaneyslu þegar þetta gerðist. Hefðu þau séð roskna konu á gangi á [...] og hefðu þau gengið að henni og meðákærða hrifsað af henni töskuna. Hefðu þau svo forðað sér á brott og tekið peninga úr töskunni en annað ekki. Hefðu þau fleygt töskunni í húsagarð. Peningana hefðu þau notað til þess að kaupa fíkniefni.
Aðalmeðferð málsins
Ákærði X hefur skýrt svo frá að þau meðákærða hafi verið á gangi á [...] og Kara Dröfn þá skyndilega hlaupið að konu sem þarna var og hrifsað af henni veskið. Við það hafi konan fallið. Kveðst hann hafa hlaupið á eftir Köru Dröfn og farið með henni í húsasund þar sem þau tóku úr veskinu. Hann segir Köru Dröfn ekki hafa hrint konunni. Hann segir það vera rangt sem haft er eftir honum í lögregluskýrslunni að þau hefðu gengið að konunni. Hafi hann sagt þetta þegar hann var að ranka við sér eftir fíkniefnaneyslu. Síðan hafi atvikið rifjast mun betur upp fyrir honum. Undir ákærða er það borið að orðalag skýrslunnar beri með sér að um samverknað þeirra Köru Drafnar hafi verið að ræða. Segir hann framburð sinn hjá lögreglunni vera rangan að þessu leyti. Hann segist hafa tekið svona til orða vegna þess að hann hafi notið góðs af brotinu og hann því ekki gert greinarmun á sér og henni. Hún hafi á sama hátt notið góðs af brotum hans. Hafi hann ekki gert greinarmun á „okkur, mér eða henni“ á þessum tíma. Hafi þau verið eitt í öllum hlutum.
Ákærða Kara Dröfn hefur skýrt frá því þau hafi verið á gangi um [...]. Hafi hún þá séð gamla konu með veski þar á gangi. Hafi hún verið í fráhvörfum og séð að þarna myndi vera auðtekinn peningur, en þau meðákærði hafi ekki talað um það áður að ræna konuna. Hafi hún hlaupið að henni og tekið í veskið og reynt að taka það. Konan hafi haldið fast í veskið og hún þurft að rífa það af henni. Hún hafi svo hlaupið með það á brott. Hafi meðákærði svo komið hlaupandi á eftir henni. Hún kveðst ekki hafa orðið vör við það að konan hafi dottið þótt hún efist ekki um að það hafi gerst. Hún neitar að hafa ýtt við konunni. Þau hafi svo tekið peninga úr veskinu í húsasundi og fleygt veskinu. Þau hafi notað peningana saman eins og allt annað sem þau komu höndum yfir á þessum tíma. Hún segir að þau hafi bæði notið ávinnings af þessu broti.
Aðspurð um þetta tilvik, sem önnur, segir ákærða að þau X hafi ekki verið sérstaklega að leita að rosknum konum til þess að ræna heldur hafi hún gert þetta þegar tækifærið gafst, enda sé þetta auðveld leið til þess að afla sér fjár.
F hefur komið fyrir dóm og skýrt frá því að hún hafi verið að ganga yfir götuna að húsi sínu í umrætt sinn. Hafi hún haldið á veski sínu í annarri hendi og pakka í hinni. Hafi hún þá ekki vitað fyrr en hún var slegin niður og hún lá í götunni. Hafi hún heyrt einhverja vera að tala saman, líklega eftir að hún féll og þau voru að athafna sig hjá henni, en ekki hafi hún greint hvað fólkið sagði. Þetta hafi verið tvær persónur sem höfðu komið aftan að henni og virtust vera saman. Ekki viti hún þó hvort þær komu samtímis að henni. Hún kveðst ekki geta áttað sig á því hvort henni var hrint eða hvort hún datt við það að kippt væri í veski hennar eða hvað varð til þess að hún datt. Hún segist þó nánar aðspurð álíta að hún hafi ekki dottið við það að kippt var í veski hennar. Segist hún hafa fallið við það að brugðið var fyrir hana fæti. Kveðst hún hafa rekið andlitið í jörðina við fallið.
L rannsóknarlögreglumaður hefur skýrt frá því að hann hafi tekið skýrslur af ákærðu. Minnir hann að þau hafi ekki verið í góðu ástandi. Minnir vitnið að X hafi sagt Köru Dröfn hafa ráðist að konunni en hann aðeins verið með. Ekki muni hann hvort hann hafi lýst þessu sem samverknaði þeirra tveggja.
J lögreglumaður hefur komið fyrir dóm og staðfest skýrslu sína. Hún segir að F hafi verið mjög skelkuð eftir atvikið. Hafi hún sagt þeim að tveir einstaklingar hefðu átt í hlut en sagt að hún hefði ekki séð þá. Hefðu þeir komið aftan að henni og henni verið hrint.
M lögreglumaður hefur skýrt frá því að F hafi sagt þeim að einhverjir tveir einstaklingar hefðu komið aftan að henni, þar sem hún gekk yfir götuna, hrint henni og tekið af henni tösku sem hún hafði verið með. Konan hafi verið miður sín eftir þetta.
K læknir hefur komið fyrir dóm og staðfest vottorð sitt. Hann segir brotið hafa verið án tilfærslu og ekki hafi þurft aðra meðferð við því en verkjastillingu og gipsspelku. Hjá konu á þessum aldri grói þetta á 4 6 vikum. Hann segir áverka af þessu tagi geta hlotist af falli. Læknirinn kveðst ekki hafa skoðað konuna en hafa gert vottorðið eftir sjúkraskrá.
Niðurstaða
Ákærðu hafa frá upphafi verið samsaga um það að það hafi verið Kara Dröfn sem gekk að konunni og reif af henni veskið. X hefur borið á þann veg fyrir dómi að hann hafi ekki átt þátt í brotinu en hins vegar hafi hann notið ávinnings af því. Kara Dröfn hefur sagt að þau hafi bæði notið góðs af brotinu. Framburður hennar verður hins vegar ekki skilinn á þann veg að meðákærði hafi lagt henni liðsinni eða hvatt hana til verksins. Orðalag í skýrslu sem ákærði gaf hjá lögreglu bendir þó til annars. Þess er þó að gæta að skýrsla þessi var ekki tekin upp og því óvíst hvernig ákærði nákvæmlega hagaði orðum sínum. Þá er ekki að sjá af henni að ákærði hafi verið spurður sérstaklega út í þetta atriði. Verður því, gegn neitun ákærða fyrir dómi, að telja að þetta sé ósannað í málinu.
F og ákærði X bera það bæði að F hafi fallið við það að ákærða veittist að henni. Hefur F jafnframt sagt að hún hafi fallið við það að fæti var brugðið fyrir hana. Framburður hennar er annars fremur óljós um þetta. Kara Dröfn neitar því að hafa gert annað en að rífa af henni töskuna og meðákærði ber að hún hafi ekki hrint konunni. Verður að telja það atriði ósannað en jafnframt að hitt sé sannað með framburði þeirra þriggja og læknisvottorðinu í málinu að F hafi fallið og meiðst við það að ákærða hrifsaði af henni handtöskuna. Þá telur dómurinn ósannað, gegn framburði ákærðu beggja að X hafi tekið þátt í því að hrifsa töskuna af F. Ljóst er af framburði ákærðu Köru Drafnar og F að ákærða beitti umtalsverðu afli við að ná af henni töskunni og álítur dómurinn það vera ofbeldi í skilningi 252. gr. almennra hegningarlaga. Með því að taka af henni töskuna á þann hátt hefur ákærða Kara Dröfn gerst sek um rán en sýkna ber meðákærða af því broti.
Ákærði X naut góðs af þessu broti meðákærðu. Löng dómvenja er fyrir því að telja minna brot felast í hinu meira, þótt því sé ekki sérstaklega lýst í ákæru. Ber að sakfella ákærða fyrir hylmingu, sbr. 254. gr. almennra hegningarlaga, enda hefur málið verið reifað að því leyti, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88, 2008.
II.
Samkvæmt staðfestri lögregluskýrslu N var það síðdegis fimmtudaginn 6. október 2011 að tilkynnt var til lögreglu um árás á konu skammt frá [...]. Fóru lögreglumenn að sinna þessu og hittu árásarþolann, G, fædda 1940, á eldsneytisstöð Select. Sagði hún stúlku og karlmann hafa rænt hana handtösku sem í voru peningaveski, greiðslukort, peningar, lyklar, farsími og fleira. Var konan miður sín, hélt um höfuð sér og kvartaði um eymsli í sköflungi. Að öðru leyti kvaðst hún vera ómeidd. Hún kvaðst hafa gengið um undirgöng og tvennt gengið á eftir henni. Hefði fólkið kallað og beðið um eld en hún ekki sinnt því. Stúlkan hefði svo ráðist á hana og rifið af henni töskuna en karlinn staðið hjá álengdar og fylgst með.
Meðal gagna í málinu er vottorð P sérfræðilæknis á slysadeild Fossvogsspítala um áverka á G. Segir þar að marblettir hafi verið á upphandlegg konunnar vinstra megin framan til. Þá segir að vöðvabólgur hafi verið efst í bakvöðvunum við háls og þeir verið aumir við þreifingu. Þá hafi konan kvartað um eymsli framan á sköflungunum en ekki hafi sést áverkar þar.
Ákærði X var yfirheyrður um málið hjá lögreglu daginn eftir atburðinn. Kvaðst hann hafa verið á gangi með meðákærðu í undirgöngunum rétt hjá Select. Hefðu þau meðákærða verið félaus og vantað fyrir fíkniefnum. Hefðu þau verið á leið í mikil fráhvörf og orðið einhvern veginn að „redda“ sér. Þau hafi þá séð konu með veski um öxlina í göngunum. Hefðu þau þá tekið þá skyndiákvörðun að ná veskinu af henni. Hefði málið þróast með þeim hætti að Kara Dröfn gekk uppi konuna og þegar hún náði henni hefði hún reynt að hrifsa af henni veskið en gengið illa. Loks hefði henni þó tekist þetta og þau hlaupið á brott. Hann kvaðst ekki hafa tekið beinan þátt í þessari árás en fylgst með. Þau hefðu svo fénýtt sér innihald töskunnar. Hann tók fram að þetta hefði ekki verið fyrirfram skipulagt og algjör skyndiákvörðun af þeirra hálfu. Þau ættu þetta bara saman og væri ekki meira um það að segja. Kara Dröfn hefði ekki beitt neinu ofbeldi og hefðu þetta verið ryskingar um tösku.
Ákærða Kara Dröfn var einnig yfirheyrð daginn eftir atburðinn. Skýrði hún svo frá að þau meðákærði hefðu verið stödd í undirgöngunum og séð konu gangandi þar. Kvaðst hún hafa séð að konan var með veski um öxlina og hefði hún ákveðið að ganga á eftir henni og reyna að kippa af henni veskinu og hlaupa með það á brott. Hefði hún gripið í veski konunnar en konan haldið í það á móti. Kvaðst hún þá hafa rifið fastar í það uns konan sleppti takinu, og þau hlupu á brott. Í töskunni hefðu verið farsími og kort. Hún sagði þetta hafa verið sína skyndiákvörðun og ekki verið skipulagt. Hún kvaðst aðspurð ekki muna til þess að hafa sparkað í sköflung konunnar en muna til að hafa ýtt við henni og jafnvel hrint henni. Hún myndi óljóst eftir þessum spörkum.
Aðalmeðferð málsins
Ákærði X hefur sagt fyrir dómi um þetta sakarefni að eftir atvikið á [...] hafi þau Kara Dröfn haldið suður í Kópavog þar sem þau sáu aðra konu í undirgöngum hjá Select í Smáralind. Þar hafi þau séð konu á gangi og þau kallað á eftir henni og beðið hana um eld. Konunni hafi virst bregða við það og gengið áfram en Kara Dröfn hlaupið á eftir henni, hrifsað í veski konunnar og þær togast á um það. Kara Dröfn hafi svo náð veskinu af konunni og kveðst hann hafa hlaupið á eftir Köru Dröfn. Hann segir Köru Dröfn ekki hafa beitt konuna neinu ofbeldi. Þannig hafi hann ekki séð Köru Dröfn sparka í konuna en hann hafi fylgst með henni allan tímann. Hann segir þau ekki hafa rætt um að ræna konuna áður en þetta gerðist en hann kannast við að hafa notið góðs af ávinningnum. Þau hafi svo haldið upp í Breiðholt þar sem þau voru handtekin. Undir ákærða er það borið að orðalag skýrslunnar beri með sér að um samverknað þeirra Köru Drafnar hafi verið að ræða. Segir hann framburð sinn hjá lögreglunni vera rangan að þessu leyti. Hann segist hafa tekið svona til orða vegna þess að hann hafi notið góðs af brotinu og hann því ekki gert greinarmun á sér og henni. Hún hafi á sama hátt notið góðs af brotum hans. Hafi hann ekki gert greinarmun á „okkur, mér eða henni“ á þessum tíma. Hafi þau verið eitt í öllum hlutum.
Ákærða Kara Dröfn segir þau X hafa farið í Select að kaupa sígarettur en svo farið í undirgöng þar hjá. Þar hafi verið kona og þar sem þau höfðu ekki eld til þess að kveikja í sígarettunum hafi þau beðið konuna um eld. Konan hafi orðið hrædd við þetta að því er virtist. Kveðst hún hafa hlaupið á eftir konunni og tekið í veski sem konan hafði í ól um öxlina. Konan hafi streist á móti og hafi hún orðið að rífa fast í veskið og náð af henni veskinu. Hafi þau þá hlaupið á brott og upp í Breiðholt þar sem þau voru handtekin. Hún neitar því að hafa sparkað í konuna eða að hafa ýtt við henni. Þá segir hún konuna ekki hafa fallið við þetta. Þá segir ákærða að þau meðákærði hafi ekki rætt það áður að taka veskið af konunni. Hún segir að þau hafi bæði notið ávinnings af þessu broti.
Aðspurð um þetta tilvik, sem önnur, segir ákærða að þau X hafi ekki verið sérstaklega að leita að rosknum konum til þess að ræna og hafi hún gert þetta þegar tækifærið gafst, enda sé þetta auðveld leið til þess að afla sér fjár.
G hefur skýrt frá því að hún hafi gengið um undirgöngin á leið í Smáralind. Hafi hún orðið vör við það í miðjum göngunum að einhverjir voru fyrir aftan hana, karl og kona. Hafi hún greikkað sporið en pilturinn kallað á eftir henni hvort hún ætti eld. Hafi hún engu svarað og reynt að hraða sér sem mest. Hafi hann kallað það sama aftur og hún þá enn hert á sér. Þegar hún var komin nokkur skref út úr göngunum hafi hann numið staðar í gangnamunnanum en stúlkan komið hlaupandi að henni. Hafi hún strax rifið í töskuna sem hún bar á vinstri öxl en hún ekki sleppt takinu. Hafi stúlkan þá barið hana í vinstri handlegginn og sparkað í sköflungana á henni. Hún kveðst hafa marist á handleggnum en ekki hafi séð á fótum hennar sem vitnið þakkar að hafi verið vegna þess að stúlkan var á mjúkum skóm. Kveðst hún svo hafa séð að hún yrði undan að láta og sleppt töskunni. Hafi þau tvö þá snúið til baka inn í göngin en hún haldið áfram inn í Select, óttaslegin mjög. Hafi fólk sem þar var hringt á lögregluna.
N, lögreglumaður hefur skýrt frá því að hún hafi hitt G á eldsneytisstöð Select skömmu eftir atvikið. Hafi hún verið miður sín eftir atvikið. Hafi hún haldið um höfuð sér og sagst finna til í sköflungi. Hún hafi lýst fólkinu sem hlut átti að árásinni. Hún hafi sagst hafa verið á ferð um undirgöngin og þá heyrt í fólki sem gekk á eftir henni. Hefði verið kallað til hennar hvort hún vildi gefa þeim eld en hún ekki sinnt því. Stúlkan hefði svo ráðist á hana og þær tekist á. Hafi hún svo látið undan og gefið henni eftir veskið og hún hlaupið með það. Strákurinn hafi staðið álengdar og fylgst með en ekki aðhafst neitt. Skömmu seinna hafi fólkið verið handtekið.
O læknir hefur komið fyrir dóm og svarað spurningum um vottorð sitt í málinu. Hann segir marblettina hafa verið nýlega að sjá. Hann segir þá ekki hafa getað orsakast af því að rykkt hafi verið í tösku sem konan hélt á, nema ef bandið hefði verið vafið um upphandlegginn.
Niðurstaða
Ekki verður annað ráðið af framburði ákærðu beggja hjá lögreglu að þau hafi bæði verið á höttunum eftir einhverjum til þess að ræna. Þá er ekki unnt að skilja skýrslur þeirra hjá lögreglu á annan hátt en að þau hafi kallað til konunnar að hún gæfi þeim eld í því skyni að komast í færi við hana. Loks eru þessar skýrslur ótvíræðar um það að ákærða Kara Dröfn veittist að konunni og tókst að rífa af henni töskuna eftir nokkrar stympingar. Kara Dröfn játaði þá ennfremur að hafa ýtt við konunni og jafnvel hrint henni, sem að vísu er ekki ákæruatriði, og kvaðst óljóst muna eftir að hafa sparkað í hana. Frásögn þeirra fyrir dómi er með nokkuð öðrum blæ en þó segja þau bæði að „þau“ hafi beðið konuna um eld. Kara Dröfn neitar að hafa stjakað við konunni eða sparkað í hana og X ber með henni að þessu leyti. Þeim ber hins vegar saman um það að Kara Dröfn og konan hafi togast á um veskið og Kara Dröfn segir jafnframt að hún hafi þurfta að rífa fast í það til þess að ná því af henni. G hefur sagt að karlmaðurinn hafi kallað á eftir henni hvort hún ætti eld. Þá segir hún að þær ákærða hafi togast á um veskið og að ákærða hafi sparkað í sig og barið í handlegginn, sem að vísu er ekki tilgreint í ákæru, þar til hún varð að sleppa veskinu.
Dómurinn álítur sannað með framburði ákærðu og G að ákærði X hafi kallað til konunnar og að það hafi hann gert til þess að færi fengist á að rífa af henni veskið og þá með ofbeldi ef þess þyrfti. Þá álítur dómurinn sannað með framburði ákærðu beggja og vætti G svo og með læknisvottorðinu að ákærða hafi beitt umtalsverðu afli þegar hún veittist að konunni og reif af henni töskuna. Álítur dómurinn það vera ofbeldi í skilningi 252. gr. almennra hegningarlaga. Með þessu athæfi hefur ákærða Kara Dröfn gerst sek um rán og meðákærði X hefur með atbeina sínum orðið sekur um samverknað í ránsbroti Köru Drafnar.
III.
Samkvæmt staðfestri lögregluskýrslu P var óskað eftir aðstoð lögreglu föstudaginn 14. október sl. að Sundhöllinni við [...] vegna þess að tösku hefði verið stolið af konu þar fyrir utan. Þar hittu lögreglumenn fyrir H, fædda 1929, sem skýrði þeim frá því að par hefði komið að henni og hrifsað af henni töskuna. Hefði hún haldið fast í töskuna og því dottið fram fyrir sig við þetta. Í töskunni hefðu verið sundföt, skójárn og húslyklar.
H mun ekki hafa leitað sér læknishjálpar vegna þessa atburðar en í símtali við lögreglu kvaðst hún hafa marist talsvert á hægri handlegg.
Ákærða Kara Dröfn var yfirheyrð hjá lögreglu um sakarefnið 27. október sl. Kvaðst hún muna eftir atvikinu við Sundhöllina. Kvaðst hún hafa séð að auðvelt myndi að taka töskuna af konunni og látið verða af því. Hafi hún komið aftan að konunni og þrifið í töskuna. Hún kvaðst ekki hafa séð að konan félli við þetta. Minnti hana að aðeins hefði verið sunddót í töskunni og hún fleygt henni. Hefði þetta verið skyndileg hugdetta hennar og meðákærði, sem með henni var, hefði engan þátt átt í þessu. Hún sagði konuna ekki hafa reynt að verjast.
Ákærði X var yfirheyrður um atvikið hjá lögreglu 4. nóvember sl. Kvaðst hann ekki muna eftir því enda verið undir miklu fíkniefnaáhrifum á þessum tíma.
Aðalmeðferð málsins
Ákærði X segir þau Köru Dröfn hafa verið á gangi hjá Sundhöllinni í umrætt sinn og þá verið í fráhvörfum. Hafi Kara Dröfn hlaupið á eftir einhverri konu og hrifsað af henni veskið. Konan hafi fallið við þetta og kveðst ákærði hafa hlaupið á eftir Köru Dröfn. Ekki hafi þau verið búin að ræða um það áður að ræna konuna. Hafi þetta verið „skyndiákvörðun hjá tveimur fíklum á götunni að redda sér næsta skammti“. Hann segir svo þegar hann er spurður út í þetta nánar að þetta hafi verið skyndiákvörðun Köru Drafnar. Hann segir að engu ofbeldi hafi verið beitt við konuna.
Ákærða Kara Dröfn segir þau meðákærða hafa verið á gangi við Sundhöllina og hafi hún þá tekið eftir konu fyrir framan þau og hún ákveðið að hlaupa að henni. Hafi hún gripið veskið sem konan var með og hlaupið áfram. Hafi konan haldið fast í veskið og dottið við það að ákærða tók það af henni. Ákærða segir það vera rangt að tveir hafi komið hlaupandi að henni. Hafi hún ein hlaupið að konunni en meðákærði komið hlaupandi ekki langt á eftir. Hún segir að þau hafi bæði notið ávinnings af þessu broti.
Aðspurð um þetta tilvik, sem önnur, segir ákærða að þau X hafi ekki verið sérstaklega að leita að rosknum konum til þess að ræna og hafi hún gert þetta þegar tækifærið gafst, enda sé þetta auðveld leið til þess að afla sér fjár.
H hefur komið fyrir dóm og skýrt frá því að hún hafi verið á leið heim til sín á [...] frá sundhöllinni. Hafi þá skyndilega einhver sprottið fram og kippt af henni sundtöskunni. Virtist henni að þar ættu í hlut strákur og stelpa. Kveðst hún hafa fallið fram yfir sig og ekki getað horft á eftir þeim en segir þó að fólkið hafi hlaupið niður [...]. Ekki hafi annað verið í töskunni en sundföt, húslyklar og sundspjaldið en það hafi dottið úr töskunni við árásina. Aðspurð segir hún að henni hafi hvorki verið hrint né hún verið slegin.
Q lögreglumaður hefur skýrt frá því að kona sem hafði verið rænd hafi sagt þeim lögreglumönnunum sem komu á vettvang að stúlka hefði tekið af henni veski og hlaupið á brott með það. Þá hafi komið fram hjá henni að tvennt hefði komið þarna við sögu og karlmaðurinn haldið sig til hlés. Konan hafi verið hrufluð og virtist slegin yfir því sem gerst hafði. Hún hafi þó verið í góðu jafnvægi.
P, lögreglumaður segist hafa hitt konuna eftir atvikið. Hafi hún verið skelkuð og sagt að einhver hefði hrifsað tösku af henni en lítil verðmæti hefðu verið í henni. Þarna hefði verið um tvo einstaklinga að ræða. Þá hafi hún sagst hafa dottið. Ekki muni hann að segja meira frá þessu en vísar til skýrslu sinnar sem hann les og staðfestir. Minnir hann að konan hafi sagt að hún hefði dottið við það að togað var í töskuna.
Niðurstaða
Ákærða Kara Dröfn sagði við yfirheyrslu hjá lögreglu að hún hefði komið aftan að konunni og þrifið í veskið og ekki hafa séð að konan félli við þetta. Þá hefði þetta verið skyndileg hugdetta hennar einnar. Fyrir dómi hefur hún borið á sama veg en jafnframt sagt að konan hefði haldið fast á móti og því dottið þegar hún reif af henni töskuna. Þá segir hún þau X bæði hafa notið ávinnings af þessu. Fyrir dómi hefur ákærði X annars vegar sagt að um skyndiákvörðun tveggja fíkla hafi verið að ræða en hins vegar að þetta hafi verið ákvörðun Köru Drafnar einnar og þau ekki haft samráð um þennan verknað áður. H segir einhvern hafa komið og kippt af henni töskunni og að í hlut ættu strákur og stelpa. Hún kveðst þó ekki hafa séð fólkið. Þrátt fyrir þennan framburð vitnisins telur dómurinn það ósannað gegn framburði beggja ákærðu að þau hafi saman veist að H og tekið af henni töskuna. Þá telur dómurinn það einnig ósannað gegn framburðum þeirra beggja að X hafi verið í ráðum um það að Kara Dröfn veittist að H til þess að taka af henni töskuna. Aftur á móti er sannað með framburðum þeirra að það verk vann Kara Dröfn ein.
H kveðst hafa fallið fram fyrir sig þegar taskan var hrifsuð af henni og Kara Dröfn segir konuna hafa haldið fast í hana og dottið við það að hún hrifsaði töskuna til sín. X segir einnig konuna hafa dottið við það að Kara Dröfn reif af henni töskuna. Álítur dómurinn sannað með framburði ákærðu beggja svo og vætti H að ákærða hafi beitt umtalsverðu afli við að rífa af henni töskuna og álítur dómurinn það vera ofbeldi í skilningi 252. gr. almennra hegningarlaga. Með þessu athæfi hefur ákærða gerst sek um rán en sýkna ber meðákærða af því broti.
Eftir H var haft í símtali við lögreglu að hún hefði marist talsvert á handlegg. Hún mun þó ekki hafa leitað til læknis eftir atburðinn og ekki var hún spurð út í áverka sem hún kynni að hafa fengið við árásina við meðferð málsins fyrir dómi. Verður því engu slegið föstu um það í málinu.
Fram er komið í málinu að í töskunni voru einungis sundföt og lyklar og að Kara Dröfn fleygði henni eftir að hafa skoðað innihaldið. Ekki er neitt komið fram í málinu sem bendir til þess að meðákærði hafi haft töskuna með höndum eða notið ávinnings af brotinu. Kemur því ekki til álita að sakfella hann fyrir hylmingu.
IV.
Samkvæmt staðfestri lögregluskýrslu R barst tilkynning um það til lögreglu kl. 15:54 föstudaginn 21. október sl. að reynt hefði verið að ræna konu við [...]. Þegar þangað kom hittu lögreglumenn I fædda 1935, sem sagði þeim að hún hefði verið á gangi eftir gangstétt sunnan við Íslandsbanka við Kirkjusand ásamt 6 ára barnabarni sínu. Hefði stúlka komið upp að þeim og hrifsað í tösku sem hún hélt á. Hefði hún ekki viljað sleppa taki á veskinu og stúlkan þá togað í veskið svo að hún féll við og lenti á vinstri öxl. Karlmaður og kona sem voru þarna nærstödd hefðu komið hlaupandi henni til aðstoðar. Hefði stúlkan þá sleppt takinu og hlaupið í bíl sem hefði ekið með hana á brott.
Meðal gagna málsins er staðfest vottorð K læknis á slysadeild Fossvogsspítala. Kemur þar fram að I hafi verið brotin á tveimur rifjum vinstra megin og hafi hún jafnframt kvartað um eymsli í vinstri öxlinni.
Ákærða Kara Dröfn var yfirheyrð um þetta atvik hjá lögreglu 1. nóvember sl. og kvaðst hún ekki muna eftir því. Hún segist hafa verið í mikilli neyslu á þessum tíma.
Ákærði var yfirheyrður um þetta atvik 27. október sl. Kvaðst hann hafa farið á bíl í bankann til þess að reyna að fá yfirdrátt. Hefði meðákærða verið með honum í bílnum og þegar þangað var komið hefði hún farið úr bílnum og horfið. Hefði hún svo komið aftur í bílinn þegar hann hafði lokið erindi sín í bankanum og var byrjaður að aka. Hefði hún sagt að hún hefði ekki getað náð veskinu. Sjálfur kvaðst hann ekki hafa séð það sem gerðist. Hefði hann ekki átt neinn þátt í þessu.
Aðalmeðferð málsins
Ákærði X segir að þau Köru Dröfn hafi vantað fíkniefni og hann ákveðið að fara í bankann á Kirkjusandi til þess að fá yfirdráttarheimild á reikning sinn. Hafi Kara Dröfn farið með honum og þau farið bæði inn í bankann í þessum erindum. Honum hafi verið synjað og hann rokið í fússi út í bíl sem þau höfðu komið á. Kara Dröfn hafi orðið eftir inni í bankanum en svo komið út og gengið í aðra átt. Stuttu seinna hafi hún komið hlaupandi að bílnum og sagt honum að aka á brott sem hann hafi gert. Hafi hún sagst hafa reynt að hrifsa veski af gamalli konu en ekki náð því. Hann segir það vera rangt sem hann sagði hjá lögreglu að Kara Dröfn hefði setið í bílnum og farið úr honum. Hann segist hafa verið búinn að gleyma þessu atriði þegar hann gaf skýrsluna vegna fíkniefnaneyslu. Hafi Kara Dröfn ekki farið inn í bílinn í millitíðinni. Hann kveðst ekki hafa áttað sig á því hvað Kara Dröfn ætlaði að gera þegar hann sá á eftir henni og hafi hann ekki séð til konunnar. Hann segir framburð sinn um þetta hjá lögreglu ekki vera réttan. Hann hafi hinsvegar þóst vita hvað gerst hefði þegar hann sá Köru Dröfn koma hlaupandi að bílnum. Hafi hún sest inn í bílinn og sagt að skyldi aka á brott. Hafi hún aðspurð sagst hafa reynt að hrifsa veski af konu. Hann kannast við að hafa ekið bílnum til móts við Köru Dröfn þegar hún kom hlaupandi. Hann hafi svo ekið með hana á brott. Hann segir þau ekki hafa verið undir áhrifum fíkniefna þegar þetta gerðist.
Ákærða Kara Dröfn kveðst hafa farið í bankann með X sem hafi reynt að fá þar yfirdráttarheimild. Hafi honum verið synjað og hún reynt það einnig og verið synjað. Hafi X farið út í bíl meðan hún reyndi þetta en þegar hún kom út úr bankanum hafi hún séð konu í fjarska og hlaupið á eftir konunni. Hafi hún komið aftan að konunni og kippt í veskið. Hafi konunni brugðið mjög og hún dottið. Hafi hún ekki náð veskinu af konunni og hlaupið á brott og í bílinn hjá meðákærða sem hafi komið akandi á móti henni. Hún segist hafa verið búin að sjá að drengur var hjá konunni.
Aðspurð um þetta tilvik, sem önnur, segir ákærða að þau X hafi ekki verið sérstaklega að leita að rosknum konum til þess að ræna og hafi hún gert þetta þegar tækifærið gafst, enda sé þetta auðveld leið til þess að afla sér fjár.
I hefur komið fyrir dóm og skýrt frá því að hún hafi verið á gangi með 6 ára barnabarni sínu í umrætt sinn rétt hjá bankanum. Hafi hún þá séð stúlku sem virtist vera að svipast um eftir húsi og virtist ætla að spyrja vitnið til vegar. Skyndilega hafi hún ráðist að henni og reynt að ná veskinu sem hún var með. Hafi orðið úr þessu stympingar þannig að þær toguðust á um veskið en handfangið á því hafi verið vafið um hönd hennar. Sérstaklega aðspurð kveðst hún ekki gera sér grein fyrir því hvort henni var hrint eða fæti brugðið fyrir hana en hún hafi skollið til jarðar í þessum stympingum um veskið og beinbrotnað. Barnið hafi orðið hrætt og farið að hágráta en stúlkan hafi hlaupið á brott.
S starfsmaður Íslandsbanka á Kirkjusandi kveðst hafa verið á leið úr vinnu og þá heyrt óp og séð að þar skammt frá hafi einhver verið að toga í tösku gamallar konu sem lá í götunni. Hafi sá sem í hlut átti hlaupið yfir á bílastæðið og sest þar inn í bíl sem hafi ekið á brott. Hún hafi náð að taka mynd af bílnum. Hjá gömlu konunni hafi verið grátandi barn.
T kveðst hafa verið á leið úr vinnu og þá séð útundan sér hreyfingu og svo þrjá einstaklinga, gamla konu, ungan dreng og þann þriðja. Hafi eitthvað verið á seyði þar og hann hlaupið til og séð að þriðji einstaklingurinn var að rífa veski af konunni, sem hafi fallið í götuna, eins og hún hefði verið toguð niður. Viðkomandi hafi haldið áfram að toga í veskið en konan ekki sleppt og árásarmaðurinn hafi gefist upp við þetta og hlaupið á brott. Bíll hafi ekið framhjá og horfið sjónum en mynd hafi náðst af honum. Hann segir drenginn hafa verið grátandi.
R, lögreglumaður hefur skýrt frá því að þeir lögreglumennirnir hafi farið heim til konunnar og rætt við hana. Hafi hún sagst hafa fallið í götuna við það að reynt hefði verið að rífa veskið úr hendi hennar. Minnir hana að konan hafi sagt að hún hefði haldið svo fast í töskuna að þegar rifið var í hana hefði hún dottið.
K læknir hefur staðfest vottorð sitt. Hann segir konuna hafa leitað til slysadeildar þremur dögum eftir atvikið. Hafi tölvusneiðmynd sýnt ótilfært brot á tveimur rifjum vinstra megin. Taki það 4 8 vikur fyrir slíkan áverka að gróa. Læknirinn kveðst ekki hafa skoðað konuna en hafa gert vottorðið eftir sjúkraskrá.
Niðurstaða
Ákærða Kara Dröfn játar að hafa hlaupið að I og reynt að rífa af henni veski hennar. Þá kannast hún við að konan hafi fallið við þetta. Jafnframt kveðst hún hafa hætt við að reyna að taka veskið og hafa hraðað sér í bílinn hjá meðákærða. I og T ber saman um það einnig að I hafi fallið við það að rifið var í veski hennar og S kveðst hafa séð þar sem konan lá og stúlka var að toga í tösku hennar. Þessar skýrslur hafa ennfremur stoð af áverkavottorðinu í málinu. Með vísan til alls þess er óhætt að slá því föstu að ákærða hafi beitt umtalsverðu afli við að rífa af veskið af I og álítur dómurinn það vera ofbeldi í skilningi 252. gr. almennra hegningarlaga. Með þessu athæfi hefur ákærða gerst sek um ránstilraun.
Fram er komið að ákærði X var ekki nærstaddur þegar ráðist var á konuna. Ber ákærðu saman um það að þau hafi átt það erindi í bankann að sækja um yfirdrátt en verið synjað um hann. Hafi þau farið þaðan út hvort í sínu lagi, X sest út í bílinn sem þau höfðu komið á en Kara Dröfn gengið í aðra átt og fengið þá hugmynd að ræna konuna þegar hún sá hana. Þessum framburði ákærðu hefur ekki verið hnekkt og því ekki heldur, að X hafi ekki vitað um ránstilraunina fyrr en hann sá meðákærðu koma hlaupandi að bílnum og þá þóst vita hvað gerst hefði. Þeim ber saman um það að þau hafi svo ekið á brott í bílnum sem þau höfðu komið á. Telst vera ósannað að ákærði hafi átt beinan þátt í broti meðákærðu eða hlutdeild í því. Ber að sýkna hann af ákæru fyrir ránstilraun. Fyrir liggur að Kara Dröfn hafði ekkert upp úr krafsinu og getur ákærði því hvorki talist hafa haldið ólöglega hlut eða öðru verðmæti úr brotinu, tekið þátt í ávinningnum af því, aðstoðað meðákærðu til þess að halda honum né stuðlað að því á annan hátt, að halda við ólöglegum afleiðingum brotsins. Kemur því ekki til álita að sakfella hann fyrir brot gegn 254. gr. almennra hegningarlaga.
Viðurlög og sakarkostnaður
Ákærði X, sem nú sætir gæsluvarðhaldi, segist sækja AA-fundi reglulega í varðhaldsvistinni og hitta auk þess ráðgjafa sinn í vímumálum vikulega. Ætli hann að reyna að halda sig frá óreglu, eins og honum hefði tekist að gera í tvö og hálft ár áður en hann féll og lagðist aftur í afbrot. Þá kveðst hann iðrast mjög brota sinna. Ákærði á að baki langan brotaferil. Hann hlaut 12 refsidóma á tímabilinu 1997 til 2007 fyrir margvísleg brot, einkum hegningar- og ávana- og fíkniefnalög. Þar á meðal eru tveir dómar fyrir rán (annar þeirra fyrir 18 ára aldur), þrír fyrir líkamsárás, (tveir þeirra fyrir 18 ára aldur) og sex dómar fyrir önnur auðgunarbrot. Ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir ránsbrot og mörg önnur auðgunarbrot, auk annars. Ber að dæma hann til þess að sæta fangelsi í 18 mánuði. Frá refsingu ákærða ber að draga gæsluvarðhald sem hann gefur sætt frá 27. október 2011, samtals 90 daga.
Ákærða Kara Dröfn segist hafa lagst inn á geðdeild eftir þessa brotahrinu og hafi hún síðan haldið sig frá fíkniefnum. Þá sæki hún reglulega bindindisfundi hjá AA. Ákærðu hefur ekki verið refsað áður og hún hefur skýlaust játað brot sín. Þá er til þess að líta að fengurinn úr ránsbrotunum var ýmist lítill eða enginn. Ákærða hefur nú verið sakfelld fyrir tíu hegningarlagabrot. Ránsbrotin voru ófyrirleitin og beindust að rosknum konum sem lítið viðnám gátu veitt. Þá var þeim auk þess hætt við meiðslum, eins og raunin varð á. Þykir refsing hennar hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði.
Dæma ber ákærða X til þess að sæta sviptingu ökuréttar í 3 ár frá dómsbirtingu að telja.
Dæma ber ákærða X til þess að greiða verjanda sínum, Stefáni Karli Kristjánssyni hdl., 740.450 krónur í málsvarnarlaun, sem dæmast með virðisaukaskatti. Þá ber að dæma ákærðu Köru Dröfn til þess að greiða verjanda sínum, Kristjáni Stefánssyni hrl., 376.500 krónur í málsvarnarlaun, sem einnig dæmast með virðisaukaskatti
Dæma ber að annar sakarkostnaður skiptist sem hér segir: Ákærða Kara Dröfn greiði 31.050 krónur, ákærðu bæði óskipt 31.050 krónur og loks greiði ákærði X 220.895 krónur.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 18 mánuði. Frá refsingu ákærða dregst 90 daga gæsluvarðhaldsvist.
Ákærða, Kara Dröfn Ásgeirsdóttir, sæti fangelsi í 18 mánuði.
Ákærði X sæti sviptingu ökuréttar í 3 ár frá dómsbirtingu að telja.
Ákærði X greiði verjanda sínum, Stefáni Karli Kristjánssyni hdl., 740.450 krónur í málsvarnarlaun og ákærða Kara Dröfn greiði verjanda sínum, Kristjáni Stefánssyni hrl., 376.500 krónur í málsvarnarlaun.
Ákærða Kara Dröfn greiði 31.050 krónur í annan sakarkostnað, ákærðu óskipt 31.050 krónur og loks greiði ákærði X 220.895 krónur.