Hæstiréttur íslands

Mál nr. 357/2009


Lykilorð

  • Verðbréfaviðskipti
  • Fjármálafyrirtæki
  • Þagnarskylda
  • Sekt


Fimmtudaginn10

 

Fimmtudaginn 10. desember 2009.

Nr. 357/2009.

Ákæruvaldið

(Helgi Magnús Gunnarsson saksóknari)

gegn

Jafeti Ólafssyni

(Ragnar H. Hall hrl.)

 

Verðbréfaviðskipti. Fjármálafyrirtæki. Þagnarskylda. Sektir.

J var gefið að sök að hafa brotið gegn þagnarskyldu í starfi hjá fjárfestingarbankanum V hf. með því að hafa gefið S, framkvæmdastjóra F hf., upplýsingar um ástæðu þess að G hefði horfið frá því að selja F hf. hlutabréf sín í T hf. fyrir milligöngu J og hverjum G hugðist í staðinn selja þau, svo og að hafa í framhaldi af því afhent S hljóðupptöku af símtali sínu við G, þar sem upplýsingar um þetta hefðu komið fram. Talið var að líta yrði svo á að G hefði verið viðskiptamaður V hf. í skilningi 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Þrátt fyrir að S hefði óskað eftir milligöngu um kaup á hlutabréfum hlytu báðir aðilar fyrirhugaðra viðskipta að teljast viðskiptamenn í skilningi laganna og breytti þar engu að ekki hefði orðið af þeim viðskiptum sem stefnt var að. Þá var talið að J hefði veitt S upplýsingar sem vörðuðu viðskipta- og einkamálefni G. Ótvírætt væri að J hefði látið þessar upplýsingar af hendi af ásetningi og mátti einu gilda í því sambandi hvort hann hefði gert sér ljóst að sú háttsemi gæti varðað við lög. Þótti J því hafa gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 58. gr. gr. laga nr. 161/2002. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að J hefði framið brot sitt í starfi hjá fjármálafyrirtæki, sem viðskiptamaður hans mátti lögum samkvæmt treysta fyrir upplýsingum um einkamálefni sín. J hefði ekki látið við það sitja að greina öðrum manni frá þeim upplýsingum, heldur afhent honum að auki hljóðupptöku af samtali, þar sem þær komu fram. Var J dæmdur til greiðslu sektar að fjárhæð 1.000.000 krónur

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 23. júní 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og að fengnu áfrýjunarleyfi. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð.

Í málinu er ákærða gefið að sök að hafa brotið gegn þagnarskyldu í starfi hjá VBS fjárfestingarbanka hf. með því að hafa gefið Sigurði G. Guðjónssyni, framkvæmdastjóra Fjárfestingafélagsins Grettis hf., upplýsingar um ástæðu þess að Geir Zoëga hafi horfið frá því að selja síðarnefnda félaginu hlutabréf sín í Tryggingamiðstöðinni hf. fyrir milligöngu ákærða og hverjum Geir hygðist í staðinn selja þau, svo og að hafa í framhaldi af því afhent Sigurði hljóðupptöku af símtali sínu við Geir, þar sem upplýsingar um þetta hafi komið fram. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður að líta svo á að Geir Zoëga hafi í þessu tilviki verið viðskiptamaður VBS fjárfestingarbanka hf. í skilningi 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og að upplýsingarnar, sem ákærði veitti Sigurði G. Guðjónssyni, hafi varðað viðskipta- og einkamálefni Geirs. Ótvírætt er að ákærði lét þessar upplýsingar af hendi af ásetningi og má einu gilda í því sambandi hvort hann hafi gert sér ljóst að sú háttsemi gæti varðað við lög. Samkvæmt því verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærða.

Við ákvörðun refsingar verður að líta til þess að ákærði framdi brot sitt í starfi hjá fjármálafyrirtæki, sem viðskiptamaður hans mátti lögum samkvæmt treysta fyrir upplýsingum um einkamálefni sín. Ákærði lét ekki við það sitja að greina öðrum manni frá þeim upplýsingum, heldur afhenti honum að auki hljóðupptöku af samtali, þar sem þær komu fram. Aðspurður fyrir héraðsdómi um ástæður þess að þetta hafi verið gert sagði ákærði að „ég leit svona út eins og illa gerður hlutur um það að vera kominn þetta langt með þetta ... þannig að trúverðugleiki minn gagnvart Sigurði beið ákveðinn hnekki við það að af þessum viðskiptum varð ekki. Þannig að ég er, með því að sýna honum þessa upptöku, að sýna honum fram á hvað Geir sagði í samtalinu“. Að þessu virtu ásamt því, sem greinir í hinum áfrýjaða dómi varðandi refsingu ákærða, er hæfilegt að dæma hann til greiðslu sektar að fjárhæð 1.000.000 krónur, en um vararefsingu fer samkvæmt því, sem segir í dómsorði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest, en ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákærði, Jafet Ólafsson, greiði 1.000.000 krónur í sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppsögu þessa dóms, en sæti ella fangelsi í 40 daga.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 387.843 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ragnars Halldórs Hall hæstaréttarlögmanns, 373.500 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. mars 2009.

                Árið 2009, þriðjudaginn 10. mars, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Ragnheiði Harðardóttur, settum héraðsdómara, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 1776/2008: Ákæruvaldið gegn Jafet Ólafssyni, sem tekið var til dóms í þinghaldi hinn 20. febrúar sl.

Málið er höfðað samkvæmt ákæru útgefinni af Ríkislögreglustjóra 1. desember 2008 á hendur Jafet Ólafssyni, kt. 000000-0000, Langagerði 26, Reykjavík, „fyrir brot gegn lögum um fjármálafyrirtæki, með því að hafa í nóvember 2006, brotið gegn þagnarskyldu í starfi sínu sem stjórnarmaður og starfsmaður hjá VBS fjárfestingabanka hf., Borgartúni 26, Reykjavík, með því hafa, án heimildar, gefið Sigurði G. Guðjónssyni, kt. 000000-0000, framkvæmdastjóra Fjárfestingafélagsins Grettis hf., sem hann annaðist milligöngu fyrir um kaup á hlutabréfum í Tryggingamiðstöðinni hf., upplýsingar um ástæður þess að Geir Zoëga, kt. 000000-0000, sem hafði hugleitt sölu á hlutabréfum sínum í Tryggingamiðstöðinni hf. til Fjárfestingafélagsins Grettis hf. með milligöngu ákærða, hætti við að eiga þau viðskipti og upplýsingar um hvaða aðila hann hefði selt hlutabréfin og í kjölfarið látið Sigurði G. Guðjónssyni í té hljóðupptöku af símtali ákærða við Geir Zoëga, þar sem umræddar trúnaðarupplýsingar komu fram.

Telst þetta varða við 1. mgr. 58. gr., sbr. 1. mgr. 112. gr. b. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, sbr. áður 111. gr. laganna, sbr. lög 55/2007.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

            Af hálfu ákærða er aðallega krafist sýknu, en til vara að ákærða verði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa og að allur sakarkostnaður málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, verði felldur á ríkissjóð.

                Hinn 21. september 2007 barst Ríkislögreglustjóra bréf Fjármálaeftirlitsins þar sem tilkynnt var um mögulegt brot ákærða á þagnarskyldu samkvæmt 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Í bréfinu kemur fram að í tengslum við athugun Fjármálaeftirlitsins á tilteknum viðskiptum með hlutafé í Tryggingamiðstöðinni hf., hafi eftirlitinu borist hljóðupptaka af samtali milli ákærða, þáverandi stjórnarmanns í VBS fjárfestingarbanka hf., og Geirs Zoëga, viðskiptamanns VBS fjárfestingarbanka hf. Samtalið hafi átt sér stað þann 13. nóvember 2006, en hljóðupptakan borist Fjármálaeftirlitinu með tölvupósti frá utanaðkomandi aðila þann 13. febrúar 2007. Forsaga samtalsins sem um ræðir hefði verið sú að Sigurður G. Guðjónsson, framkvæmdastjóri Grettis ehf., hefði haft samband við ákærða í lok september 2006 og óskaði eftir því að VBS fjárfestingarbanki hf. kannaði möguleika á kaupum á allt að 7% hlut í Tryggingamiðstöðinni hf. Í tengslum við athugun VBS fjárfestingarbanka hf. á slíkum möguleikum hafi ákærði haft samband við Geir Zoëga um möguleg kaup á hlutum fjölskyldu Geirs í félaginu. Þegar umræður hafi átt sér stað í nokkurn tíma hafi legið fyrir að af viðskiptunum yrði. Sama dag og ganga átti frá viðskiptum hafi Geir hringt í ákærða og tilkynnt honum að ekkert yrði af viðskiptunum. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum hafi ákærði sent hljóðupptöku af samtali þeirra Geirs til Sigurðar G. Guðjónssonar með tölvupósti þann 15. nóvember 2006. Var það niðurstaða Fjármálaeftirlitsins að þær upplýsingar sem fram komu í umræddri hljóðupptöku af símtali milli ákærða og Geirs væru upplýsingar sem varða viðskiptamálefni viðskiptamannsins Geirs Zoëga og aðila honum tengdum. Ekki yrði annað séð en að með því að senda hljóðupptöku af símtalinu til utanaðkomandi aðila hafi verið brotið gegn 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki og því óhjákvæmilegt að greina Ríkislögreglustjóra frá málinu samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi nr. 87/1998. 

                Meðal gagna málsins er útprentun tölvupósts, dagsetts 13. febrúar 2007, frá Sigurði G. Guðjónssyni til starfsmanns Fjármálaeftirlitsins, þar sem kemur fram að meðfylgjandi sé hljóðupptaka sem sanni að Geir Zoëga hafi selt hluti sína í Tryggingamiðstöðinni þann 13. nóvember til aðila sem stjórnuðu félaginu. Krafist sé rannsóknar á yfirtökuskyldu í Tryggingamiðstöðinni hf. Útprentunin ber með sér að hljóðskrá með samtalinu hafi verið send á netfang Sigurðar G. Guðjónssonar þann 15. nóvember 2006 frá netfangi ákærða hjá VBS fjárfestingarbanka hf.

                Með kæru Fjármálaeftirlitsins til lögreglu fylgdi geisladiskur með hljóðupptökunni sem um ræðir. Sá hluti samtalsins sem skiptir máli er svohljóðandi:

„ Geir Zoëga:  Já Geir.

Ákærði:  Komdu blessaður, Jafet heiti ég.

Geir Zoëga:  Já blessaður. Heyrðu nú held ég að það þýði ekkert að við séum að koma í heimsókn.

Ákærði:  Nú.

Geir Zoëga:  Því félagar mínir í Tryggingarmiðstöðinni fengu pata af þessum ... uppákomum hjá mér eða okkur.

Ákærði:  Nú.

Geir Zoëga:  Og þeir vilja ganga inn í að kaupa þetta.

Ákærði:  Já.

Geir Zoëga:  Já, já og ég mun auðvitað frekar eiga skipti við þá heldur en hina félagana.

(...) Já eins og þú skilur. Ég var að enda við að tala við þá, ég get sagt þér það alveg eins og það er, núna rétt áðan.

Ákærði:  Já.

Geir Zoëga:  Átti fundi og þá gengum við til handsals yfir þessu (...).“

                Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

                Ákærði Jafet kvaðst hafa verið framkvæmdastjóri VBS fjárfestingarbanka hf. þegar hann hóf að vinna að umræddu máli. Hann hefði hins vegar látið af störfum sem framkvæmdastjóri þegar hið meinta brot átti sér stað, en verið þar við störf til að ljúka ákveðnum verkefnum, jafnframt sem hann hefði setið í stjórn félagsins. Hann kannaðist við að hafa látið Sigurði G. Guðjónssyni í té þær upplýsingar sem um ræðir. Þannig hefði háttað til að Sigurður sem væntanlegur kaupandi bréfanna og Geir Zoëga sem væntanlegur seljandi hefðu vitað hvor af öðrum. Slíkt væri óvenjulegt í viðskiptum sem þessum, en Geir hefði krafist þess að vita hver kaupandinn væri og hefði hann sagt það forsendu fyrir kaupunum. Ákærði kvaðst hafa sagt Sigurði þetta og hefði Sigurður sagst sjálfur myndu hafa samband við Geir vegna þessa.

Samið hefði verið um sölugengi bréfanna og þóknanir og hefði Geir afhent skjal með nöfnum hluthafa sem hygðust selja og nákvæma hlutafjáreign, en þar hefði verið um að ræða Geir og börn hans, ásamt félögum þeim tengdum. Fjármunir fyrir greiðslunni hefðu verið til reiðu, en í viðskiptum sem þessum tryggi verðbréfafyrirtækið að næg innistæða sé á reikningi í Seðlabankanum.

Síðan hefði það gerst að ekkert hefði orðið af þessum viðskiptum. Ákærði kvaðst hafa tilkynnt Sigurði það og hefðu þetta orðið gríðarleg vonbrigði. Ákærði kvaðst hafa sagt Sigurði að hann gæti ekkert gert frekar í málinu, Geir hefði hringt í hann og sagt honum að hann ætlaði að selja vinum sínum í Tryggingamiðstöðinni bréfin. Ákærði tók fram að Geir hefði ekkert beðið hann fyrir þessar upplýsingar. Í framhaldinu hefði Sigurður ritað Fjármálaeftirlitinu og bent á að hugsanlega hefði myndast yfirtökuskylda ef þessir „vinir“ Geirs ætluðu að kaupa hlutina og væru þeir þá skyldugir að kaupa aðra hluti. Fjármálaeftirlitið hefði hins vegar ekkert gert í málinu. Sigurður hefði beðið ákærða um upptökuna og kvaðst ákærði hafa afhent hana gegn því skilyrði að hún yrði ekki notuð nema til að afhenda Fjármálaeftirlitinu. Fram kom hjá ákærða að síðan hefði aldrei orðið af þessum viðskiptum við „vini“ Geirs og hefði málinu lyktað þannig að hlutirnir hefðu verið seldir til FL Group.

                Ákærði kvaðst ekki telja að þagnarskylda tæki til þeirra upplýsinga sem hann hefði veitt Sigurði í umrætt sinn. Hann hefði verið að upplýsa viðskiptamann sinn um af hverju viðskiptin fóru úrskeiðis. Hann kvaðst ekki telja Geir hafa verið viðskiptamann sinn. Sigurður hefði leitað til hans um kaup á bréfum í félaginu og hefði hann í kjölfar þess haft símasamband við 20 stærstu hluthafa þess. Einn þeirra hefði verið Geir sem hefði sagst geta hugsað sér að selja. Ákærði kvaðst hafa talið sig fyrst og fremst koma fram fyrir hönd kaupanda. Þó hefði verið umsamið að Geir og Sigurður greiddu VBS þóknun fyrir viðskiptin. Til þess hefði hins vegar aldrei komið þar sem ekki varð af viðskiptunum.

Aðspurður hvort hann teldi þær upplýsingar sem voru gefnar um hverjir væru hugsanlegir kaupendur hefðu getað skipt Sigurð máli sagðist ákærði telja samtalið léttvægt. Það væri kannski þetta eina sem komið hefði fram að Geir hefði ætlað að selja vinum sínum, það er hverjum hann hugðist selja og af hverju hann hætti við söluna til Sigurðar. Ákærði kvaðst hafa vegið þetta mjög hvort hann ætti að afhenda upptökuna, en talið grundvallaratriði að Geir var ekki viðskiptamaður og að Geir og Sigurður vissu hvor af öðrum og höfðu rætt þetta mál.

Ákærði kvaðst ekki hafa sagt Geir að símtal þeirra væri hljóðritað. Hann kvaðst hafa hringt í Sigurð um 10 mínútum eftir samtal þeirra Geirs og sent honum hljóðupptökuna tveimur dögum síðar, þann 15. nóvember. Ákærði kvaðst hafa talið trúverðugleika sinn gagnvart Sigurði hafa beðið hnekki með því að ekki varð af viðskiptunum. Með því að senda honum upptökuna hefði hann verið að upplýsa Sigurð um hvað Geir hefði sagt og hvað hefði farið á milli þeirra, að hann hefði gert Geir hærra tilboð, en hann ekki fallist á það – viðskiptunum hefði verið lokið af hans hálfu.

Vitnið Geir Zoëga kvaðst hafa átt símtal við ákærða þar sem hann hefði tjáð honum að ekkert yrði úr kaupum á umræddum hlutabréfum. Hefði komið fram í símtalinu að „félagar“ hans úr Tryggingamiðstöðinni hefðu heyrt af kaupunum og ætluðu að ganga inn í þau. Vitnið kvaðst ekki hafa gefið ákærða heimild til að upplýsa Sigurð G. Guðjónsson um þetta. Hann kvaðst ekki myndu hafa gefið heimild til þess ef leitað hefði verið eftir því. Vitnið kvaðst ekki hafa átt í viðskiptum við VBS fjárfestingarbanka og taldi sig ekki vera viðskiptamann þar.

Vitnið kvaðst ekki hafa vitað að símtal þeirra ákærða hefði verið hljóðritað og hefði hann orðað hlutina öðruvísi hefði hann vitað af því.  Honum fyndist óheillvænlegt að upplýsingum hefði verið miðlað til Sigurðar. Hann staðfesti það sem haft var eftir honum í lögregluskýrslu að hann hefði óskað eftir því við ákærða að fá að vita hver væri kaupandi bréfanna og að fram hefði komið að það væri Grettir fjárfestingarfélag. Vitnið kvaðst ekki hafa kært athæfi ákærða og kvaðst ekki hafa uppi refsikröfu á hendur honum vegna málsins. 

Vitnið Sigurður G. Guðjónsson kvaðst hafa óskað eftir því við ákærða í september 2006 að VBS fjárfestingarbanki kannaði möguleika á kaupum á allt að 7% hlut í Tryggingamiðstöðinni. Vitnið kvaðst hafa setið í stjórn Tryggingamiðstöðvarinnar á þessum tíma ásamt Geir Zoëga og fleirum. Þrjár hluthafablokkir hefðu verið í félaginu, sú stærsta með tæp 50%, skjólstæðingar vitnisins með um 32% og fjölskylda Geirs Zoëga með 5-7%. Komið fram í viðræðum þeirra Geirs í tengslum við stjórnarfundi að Geir vildi hugsanlega selja sinn hlut. Vitnið kvaðst hafa fyrir hönd fjárfestingarfélagsins Grettis rætt það við ákærða hvort hann gæti haft milligöngu um kaup á hlutum í Tryggingamiðstöðinni upp á um 2-2,5 milljarða króna, en ekki var búið að ákveða nákvæmt kaupverð. Seljandi hlutanna yrði væntanlega Geir, fjölskylda hans og félög þeim tengd. Hann hefði síðan hitt Geir og þeir rætt málið ítarlega. Hefði vitnið tjáð Geir að hans umbjóðendur vildu kaupa hann út og að ákærði myndi annast þau viðskipti. Geir hefði verið þessu samþykkur og hefði hann gefið ákærða upplýsingar um stærð hluta hvers fjölskyldumeðlims. Ákærði hefði hringt í vitnið á föstudegi og sagt honum að gengið yrði frá þessum viðskiptum næstkomandi mánudag. Síðan hefði það gerst á mánudeginum að ákærði hefði hringt og sagt honum að ekkert yrði af kaupunum, þar sem Geir hefði hringt og sagt ákærða að hann væri að koma af fundi þar sem hann hefði handsalað sölu á hlutunum til „félaga sinna“ í Tryggingamiðstöðinni. Vitnið sagði þetta hafa komið sér á óvart þar sem viðkomandi aðilar hefðu verið við hámark á eignarhlut sínum og hefðu orðið yfirtökuskyldir ef þeir keyptu hlut Geirs í félaginu. Hann hefði beint erindi til Fjármálaeftirlitsins vegna þessa og þegar ekkert hefði gengið hefði hann hringt í ákærða og spurt hvort hann ætti upptökur af samtalinu við Geir. Ákærði hefði sagst myndu athuga það og hefði hann í kjölfarið sent vitninu hljóðskrá með símtalinu. Vitnið kvaðst hafa reynt að reka á eftir erindinu hjá Fjármálaeftirlitinu, en ekki fengið nein svör. Það næsta sem hann hefði heyrt var að ákærði hefði verið kærður vegna brots á trúnaðarskyldu.

Vitnið sagðist hafa spurt ákærða að því hvort Geir hefði sagt til um það hvort hann væri búinn að selja öðrum eða hvort hann væri hættur við að selja. Ef Geir hefði hætt við að selja væri það hans ákvörðun, en ef hann hygðist selja öðrum vildi vitnið vita hverjir það væru. Ef ákveðinn hópur hluthafa væri að kaupa hlutabréfin væri þeirra hlutur í félaginu orðinn 50% og innlausnarskylda hefði myndast. Vitnið kvað það hafa skipt hann viðskiptalega miklu máli að fá upplýst hverjum Geir hefði sagst ætla að selja. Vitnið kvað ákærða ekki hafa tilgreint nein nöfn í þessu sambandi, heldur sagt að félagar Geirs í Tryggingamiðstöðinni yrðu kaupendur.

Vitnið staðfesti að hafa fengi umrædda hljóðupptöku senda frá ákærða 15. nóvember 2006 og taldi sig hafa sent hana um mánuði síðar áfram til Fjármálaeftirlitsins.

Vitnið Björn Ólafsson kvaðst hafa borið ábyrgð á tölvumálum hjá VBS fjárfestingarbanka á þeim tíma sem um ræðir. Hann hefði verið annar tveggja starfsmanna sem hafði aðgang að upptökum símtala úr tölvukerfum og hefði hann látið ákærða í té upptöku af umræddu símtali. Hann hefði verið annar þeirra sem höfðu aðgang að upptökum úr tölvukerfunum. Alvanalegt hefði verið að starfsmenn fengju aðgang að eigin upptökum til að átta sig betur á samtölum. Vitnið kvaðst ekki hafa vitað hvað ákærði ætlaði að gera við upptökuna, en það hefði ekki tíðkast að senda upptökur til utanaðkomandi aðila. Vitnið kvaðst ekki þekkja til þess að það hefði gerst í öðrum tilvikum en þessu. Þá kvaðst vitnið ekki þekkja til þess hvort Geir Zoëga hefði verið viðskiptamaður VBS fjárfestingabanka.

Vitnið Jón Guðmann Þórisson kvaðst hafa tekið við sem framkvæmdastjóri VBS fjárfestingarbanka þann 1. nóvember 2006, en ákærði hefði látið af störfum sem framkvæmdastjóri daginn áður. Vitnið sagðist ekki hafa vitað af þreifingum með bréfin í Tryggingamiðstöðinni. Hann hefði ekki haft vitneskju um að ákærði hefði látið Sigurði í té upptökuna sem um ræðir. Hann sagðist ekki þekkja fordæmi þess að slíkt væri gert. Vitnið sagðist vera kunnugt um efni símtalsins, eftir að hafa verið kynnt það hjá lögreglu. Hann kvaðst telja fráleitt að ákærði skyldi senda þetta símtal áfram og taldi það hafa verið óheimilt. Aðspurt sagðist vitnið ekki telja að sér hefði verið heimilt að veita þær upplýsingar sem þarna fóru á milli, það er þann hluta símtalsins þar sem kæmi fram hvað Geir Zoëga ætlaði að gera við hlut sinn – að hann hefði sagt hverjum hann ætlaði að selja hlutinn.

Vitnið Valdimar Svavarsson kom fyrir dóminn. Vitnið, sem starfaði sem verðbréfamiðlari á verðbréfasviði VBS fjárfestingarbanka þegar atvikið átti sér stað, gerði meðal annars grein fyrir því hvernig staðið var að hljóðritunum símtala á þessum tíma og reglum um aðgang starfsmanna að hljóðritunum. Ekki eru efni til að rekja framburð vitnisins.

Niðurstaða:

Krafa ákærða um sýknu í máli þessu byggist á því annars vegar að Geir Zoëga hafi ekki verið viðskiptamaður VBS fjárfestingarbanka í skilningi 1. mgr. 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki og hins vegar að upplýsingar þær sem ákærði miðlaði falli ekki undir þagnarskyldu sem þar er kveðið á um.

Ákærði kveður Sigurð G. Guðjónsson hafa verið viðskiptamann VBS fjárfestingarbanka í umrætt sinn, en ekki Geir Zoëga. Í lögum um fjármálafyrirtæki er ekki að finna skilgreiningu hugtaksins viðskiptamaður. Fyrir liggur að Sigurður G. Guðjónsson leitaði eftir því við ákærða sem starfsmann VBS fjárfestingarbanka að hann hefði milligöngu um kaup fjárfestingarfélagsins Grettis á hlutabréfum í Tryggingamiðstöðinni. Hafði ákærði samband við Geir Zoëga og áttu þeir nokkur samskipti vegna fyrirhugaðrar sölu Geirs og fjölskyldu hans á hlutabréfum. Hefur ákærði borið að meðal annars hafi verið samið um sölugengi bréfanna og þóknanir. Hefðu viðskiptin verið nánast frágengin og staðið til að ganga frá kaupunum daginn sem þeir Geir áttu umrætt símtal. Umsamið hefði verið að Geir og Sigurður greiddu hvor um sig VBS fjárfestingarbanka þóknun fyrir viðskiptin. Með hliðsjón af þessu verður að telja ótvírætt að Geir Zoëga hafi verið viðskiptamaður VBS fjárfestingarbanka í skilningi laga um fjármálafyrirtæki. Þótt óskað hafi verið eftir milligöngu um kaup á hlutabréfum af hálfu Sigurðar G. Guðjónssonar hljóta báðir aðilar fyrirhugaðra viðskipta að teljast viðskiptamenn í skilningi laganna og breytir þar engu að ekki hafi orðið af þeim viðskiptum sem stefnt var að.

Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki nær þagnarskylda starfsmanna fjármálafyrirtækja til alls þess sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfa síns og varðar viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna. Í samtali sínu við ákærða lýsti Geir Zoëga því að ekkert yrði af fyrirhuguðum viðskiptum við Sigurð G. Guðjónsson. Jafnframt kom fram hjá Geir að „félagar“ hans í Tryggingamiðstöðinni hefðu fengið pata af hinum fyrirhuguðu viðskiptum, að þeir vildu „ganga inn í“ kaup á hlutunum og hefði hann „handsalað“ kaupin við þá. Fram er komið að ákærða og Sigurði var fullljóst hverjir „félagar“ Geirs voru, þótt engin nöfn hefðu verið nefnd í því sambandi.

 Þær upplýsingar sem komu fram í samtalinu vörðuðu viðskiptamálefni viðskiptamannsins Geirs Zoëga sem ákærði var bundinn þagnarskyldu um. Ágreiningslaust er að ákærði hlaut að upplýsa Sigurð um að ekki yrði af hinum fyrirhugðu viðskiptum. Að mati dómsins gekk sú upplýsingagjöf hins vegar of langt þegar ákærði lýsti því við Sigurð að Geir hygðist selja öðrum aðilum bréfin, hverjir þeir aðilar væru og lét í kjölfarið Sigurði í té hljóðupptöku af símtali þeirra Geirs. Fram kom hjá Geir að hann hefði ekki gefið ákærða heimild til að upplýsa Sigurð um þessu atriði og kvaðst hann ekki myndu hafa gefið heimild til þess ef leitað hefði verið eftir því. Lá því ekki fyrir samþykki Geirs til að trúnaðarupplýsingunum yrði miðlað til utanaðkomandi aðila, sbr. 60. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Vafalaust er að ásetningur ákærða stóð til þess að miðla þeim upplýsingum sem um ræðir til Sigurðar, enda upplýsti hann fyrst um þau atriði í símtali við Sigurð, en lét ekki þar við sitja heldur sendi honum hljóðupptöku af símtali þeirra Geirs tveimur dögum síðar. Kom fram í skýrslu ákærða fyrir dómi að hann hefði vegið það mjög hvort hann ætti að senda Sigurði hljóðupptökuna, en það hefði verið niðurstaðan.

Í ákæru er því lýst að ákærði hafi án heimildar gefið Sigurði G. Guðjónssyni upplýsingar um ástæður þess að Geir hætti við að eiga hin fyrirhuguðu viðskipti og upplýsingar um hvaða aðila hann „hefði selt“ hlutabréfin. Af gögnum málsins verður hins vegar ráðið að aldrei varð af þeirri sölu. Þessi ágalli þykir ekki standa því í vegi að dæmt verði um sakarefnið, sbr. 2. málslið 1. mgr. 180. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, enda var vörn ákærða ekki áfátt að þessu leyti. Að því gættu þykir ákærði hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og er þar réttilega færð til refsiákvæða.

Ákærði hefur ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi svo vitað sé. Með broti sínu rauf ákærði trúnað við Geir Zoëga. Um ástæður þess að hann miðlaði þeim trúnaðarupplýsingum sem um ræðir til Sigurðar G. Guðjónssonar hefur ákærði borið að hann hefði talið trúverðugleika sinn gagnvart Sigurði hafa beðið hnekki með því að ekki varð af viðskiptunum. Með því að senda Sigurði hljóðupptökuna hefði hann viljað upplýsa um hvað þeim Geir hefði farið á milli og að hann hefði gert það sem í hans valdi stóð til að af viðskiptunum yrði. Fram er komið að ákærði sendi hljóðupptökuna að kröfu Sigurðar. Þótt um trúnaðarbrot sé að ræða er til þess að líta að upplýsingar þær sem ákærði miðlaði til Sigurðar voru afar takmarkaðar. Í símtali þeirra Geirs voru ekki nafngreindir þeir aðilar sem hann hugðist ganga til viðskipta við og það sem þar kom fram reyndist ekki fastara í hendi en svo að ekkert varð af þeim viðskiptum. Þegar framangreint er virt þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin 250.000 króna sekt til ríkissjóðs og komi 18 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna.

Dæma ber ákærða til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ragnars H. Hall hæstaréttarlögmanns, 250.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ragnheiður Harðardóttir settur héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð:

Ákærði, Jafet Ólafsson, greiði 250.000 krónur í sekt til ríkissjóðs og komi 18 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ragnars H. Hall hæstaréttarlögmanns, 250.000 krónur.