Hæstiréttur íslands
Mál nr. 388/2001
Lykilorð
- Samningur
- Ábyrgð
|
|
Fimmtudaginn 2. maí 2002. |
|
Nr. 388/2001. |
Fógetinn ehf. og Þórður Pálmason (Páll Arnór Pálsson hrl.) gegn Gústav Björgvin Helgasyni (Jakob R. Möller hrl.) |
Samningur. Ábyrgð.
ÞA, sem gert hafði kaupsamning við F ehf. um kaup á veitingahúsi og var kominn í vanda með veitingareksturinn, bauð G að ganga inn í hann. Í kjölfarið undirrituðu G og ÞA, ásamt F ehf. og ÞP, svokallaðan viðauka við þann samning. Á grundvelli viðaukans kröfðust F ehf. og ÞP greiðslu úr hendi G. Ekki var talið að þeim hefði getað dulist af hljóðan viðaukans að G tók þar ekki að sér skuldbindingu, heldur lýsti aðeins yfir þeirri fyrirætlan sinni að hann myndi gangast í ábyrgð fyrir greiðslu skuldar ÞA að tilteknum skilyrðum fullnægðum. Með því að tilgreind skilyrði höfðu ekki verið uppfyllt var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu G.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 10. október 2001. Þeir krefjast þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 8.886.119 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 5. mars 1999 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Í hinum áfrýjaða dómi er greint frá efni samkomulags, sem aðilar málsins gerðu ásamt Þórði Erni Arnarsyni 25. febrúar 1999. Af hljóðan þess gat áfrýjendum ekki dulist að stefndi tók þar ekki að sér skuldbindingu, heldur lýsti aðeins þeirri fyrirætlan sinni að hann myndi gangast í ábyrgð fyrir greiðslu skuldar Þórðar Arnar við áfrýjendur ef þeim skilyrðum yrði meðal annars fullnægt að nánar tiltekið félag yrði stofnað um rekstur veitingahúss að Aðalstræti 10 í Reykjavík og það gæfi út veðskuldabréf fyrir skuldinni með tryggingu í þargreindum munum. Aldrei kom til þess að umrætt félag yrði stofnað og því síður að það gæfi út veðskuldabréf. Með þessum athugasemdum verður héraðsdómur staðfestur með vísan til forsendna hans.
Áfrýjendur verða í sameiningu dæmdir til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjendur, Fógetinn ehf. og Þórður Pálmason, greiði í sameiningu stefnda, Gústav Björgvin Helgasyni, 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júlí 2001.
I
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 12. júní sl., að loknum munnlegum málflutningi, var höfðað fyrir dómþinginu af Fógetanum ehf., kt. 621188-2169, Aðalstræti 10, Reykjavík og Þórði Pálmasyni, kt. 111156-7519, Flyðrugranda 14, Reykjavík, á hendur Gústavi Björgvini Helgasyni, kt. 090665-4729, Barónsstíg 43, Reykjavík, með stefnu birtri hinn 3. nóvember 2000 og þingfestri 14. nóvember 2000.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnendum óskipt, 8.886.119 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 5. mars 1999 til greiðsludags. Þá krefjast stefnendur málskostnaðar úr hendi stefnda, að mati dómsins, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af kröfum stefnenda og honum tildæmdur málskostnaður úr þeirra hendi, samkvæmt mati dómsins, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
II
Hinn 26. júní 1998 gerðu stefnandi, Fógetinn ehf., og Þórður Örn Arnarson með sér kaupsamning um kaup Þórðar Arnar á veitingahúsi Fógetans ehf. við Aðalstræti 10, Reykjavík. Í samræmi við kaupsamning þennan gaf Þórður Örn út níu skuldabréf samtals að fjárhæð 9.500.000 krónur. Var lánstími bréfanna 7 ár, sex afborganir á ári og var fyrsta afborgun ákveðin 5. september 1998. Til tryggingar greiðslu átti, samkvæmt skuldabréfinu, að veðsetja lausafé veitingahússins. Þá var sjálfskuldarábyrgðarmaður á bréfunum, faðir Þórðar Arnar, Örn Ingólfsson. Skömmu eftir útgáfu bréfanna lést Örn Ingólfsson, að sögn stefnenda. Að sögn stefnenda skyldi Þórður Örn útvega nýjan ábyrgðarmann á bréfin, en honum hafi ekki tekist það. Ekki varð af þinglýsingu bréfanna.
Þórður Örn vanefndi kaupsamninginn við stefnanda og var kominn í vanda með rekstur veitingahússins í febrúar 1999. Á þeim tíma hafði Þórður Örn samband við stefnda og bauð honum að ganga inn í rekstur veitingahússins.
Hinn 25. febrúar 1999 hittust á fundi hjá lögmanni Þórðar Arnar, Þórður Örn, stefnandi, ásamt lögmanni sínum og stefndi. Á þeim fundi skrifuðu undir svokallaðan viðauka við kaupsamning, stefnandi, Þórður, stefndi, Gústav, og Þórður Örn. Er samningurinn svohljóðandi: „ Við undirritaðir aðiljar kaupsamningsins, dags. 26. júní 1998 um veitingahúsið Fógetann, Aðalstræti, Reykjavík, gerum með okkur svofelldan viðauka við þann samning:
|
1. |
Seljandi skilaði aftur skilti því sem hann tók uppí kaupin sbr. 2. lið kaupsamningsins hinn 1. des. sl. Hirðir seljandi arð af því til þess tíma en kaupandi frá þeim tíma. |
|
2. |
Vegna 1. þá greiðir kaupandi eftirfarandi: |
|
|
b. kr. 1.800.000 með inneign hjá Viðskiptanetinu afhent 1. mars n.k. c. Með skuldabréfi kr. 2.200.000 eins og í gr. 3 nema til 4 ára og ber kaup. kostn. af þingl. |
|
3. |
|
|
4. |
|
|
5. |
Ekki varð af stofnun ofangreinds rekstrarfélags eða af útgáfu bréfanna. Eldri skuldabréfin eru í vanskilum og hefur Þórður Örn alls greitt inn á kröfu samkvæmt eldri bréfum, eftir að þau fóru í innheimtu hjá lögmanni, 370.000 krónur. Þórður Örn var lýstur gjaldþrota með úrskurði 15. nóvember 2000 og hefur stefnandi, Fógetinn ehf., lýst kröfu í búið vegna eldri skuldabréfa, samtals 12.380.030 krónur.
III
Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að þar sem ekki hafi verið gefin út skuldabréf samkvæmt samkomulagi frá 25. febrúar, beri stefnda að efna samkomulagið, með því að greiða stefnendum, sem nemi uppgreiðsluverði bréfanna. Stefnandi hefur sundurliðað kröfu sína með eftirgreindum hætti í stefnu: „Gjaldfelldar eftirstöðvar skuldabréfanna á gjalddaga þeirra hinn 5. mars 1999 voru kr. 8.821.429, auk kr. 131.586 í samningsvexti til og með þess gjalddaga. Samtals kr. 8.953.015. Kr. 200.000 innborgun hinn 5.5.1999, kr. 115.000 hinn 10.5.1999 og kr. 55.000 hinn 27.5.1999, samtals kr. 370.000 var ráðstafað inn á kr. 303.104 innheimtuþóknun, og kr. 66.896 inn á samningsvextina. Þannig voru eftir þessar innborganir staða kröfunnar svo: Hinn gjaldfelldi höfuðstóll bréfanna nam kr. 8.821.429 og est. samningsvaxtanna kr. 64.690 eða samtals skuld að fjárhæð kr. 8.886.119 pr. 5.3.1999, sem er höfuðstóll kröfu í máli þessu.”
Um lagarök fyrir kröfu sinni vísa stefnendur til samkomulags aðila og almennra reglna kröfuréttar og samningaréttar um efndir loforða og samninga, og greiðslu fjárskuldbindinga.
Kröfu um dráttarvexti og vaxtavexti byggja stefnendur á III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, með síðari breytingum.
Kröfu um málskostnað byggja stefnendur á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggja stefnendur á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Þar sem stefnandi, Þórður, reki ekki virðisaukaskattskylda starfsemi, beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skattinum, fyrir sitt leyti, úr hendi stefnda.
IV
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að umrætt skjal hafi einungis falið í sér viljayfirlýsingu um fyrirhuguð viðskipti hans. Öllum aðilum hafi verið ljóst, að fyrirhuguð viðskipti stefnda og Þórðar Arnar hafi verið á algjöru byrjunarstigi og ekkert hafi verið frágengið þeirra í millum. Með skjalinu hafi einungis verið lýst yfir því hvernig staðið yrði að ábyrgðum gagnvart stefnendum ef hugmyndir um inngöngu stefnda í reksturinn yrðu að veruleika. Báðir viðsemjendur stefnda hafi notið aðstoðar lögmanna, og hafi þeim mátt vera ljóst, að eðlilegur framgangsmáti í fyrirhuguðum viðskiptum væri sá, að fyrst yrði gengið frá viðræðum milli stefnda og Þórðar Arnar um þátttöku stefnda í rekstrinum og rekstrarfélag síðan stofnað í kjölfarið. Þar á eftir yrði gengið frá ábyrgð á skuldabréfunum. Aldrei hafi staðið til að stefndi gæfi út einhliða, skilyrðislausa ábyrgð. Stefnendum hafi verið ljóst að stefndi hafi ekki verið að skrifa undir skuldbindingu á annan tug milljóna, án þess að hljóta nokkuð í staðinn. Því hafi augljóslega þurft að ganga frá samningum um þátttöku stefnda í rekstrinum og gengju þeir ekki eftir yrði ekki um ábyrgð hans að ræða.
Skjalið hafi verið samið af stefnendum, sem notið hafi aðstoðar lögmanna, og því beri að túlka allan vafa um efni þess stefnendum í óhag.
Verði ekki fallist á, að um viljayfirlýsingu stefnda hafi verið að ræða byggir stefndi á því, að forsendur fyrir skuldbindingum samkvæmt skjalinu hafi brostið. Forsendur hafi verið þær, að rekstur veitingastaðarins væri traustur og hann stæði undir skuldbindingunni. Þá hafi það verið forsenda, að samkomulag næðist milli stefnda og Þórðar Arnar um inngöngu stefnda í reksturinn og stofnað yrði hlutafélag um reksturinn, sem yrði aðalskuldari að endurútgefnum skuldabréfum. Ef þessar forsendur hefðu staðist hefði hlutafélagið orðið aðalskuldari bréfanna en ábyrgð stefnda til vara. Enn fremur hefði skuldin verið tryggð með veði í lausafé rekstrarins, eins og átt hafi að vera samkvæmt upprunalegu bréfunum. Kaupverð veitingahússins hafi verið 18 milljónir og samkvæmt kaupsamningi hafi lausafé rekstrarins verið þær eignir sem seldar hafi verið. Verðmæti lausafjárins hefði því getað staðið undir stærstum hluta skuldarinnar. Ef þessar forsendur hefðu gengið eftir hefði fyrirhuguð ábyrgð stefnda orðið mun léttvægari. Hins vegar hafi allar þessar forsendur brostið, er í ljós hafi komið að uppgefnar veltutölur um reksturinn stóðust ekki og ekkert hafi orðið úr stofnun rekstrarfélags og endurútgáfu veðskuldabréfanna.
Stefndi byggir á því, að hann hefði alltaf mátt treysta því, að veð stæðu til tryggingar skuldinni, samkvæmt hinum upphaflegu skuldabréfum, enda hefði honum verið kynnt efni þeirra. Honum hafi hins vegar ekki verið gert ljóst, að þeim hefði ekki verið þinglýst til tryggingar veðinu. Aðilum hefði átt að vera ljóst að ábyrgð hans miðaðist við að veð stæðu til tryggingar kröfunni. Það væri forsendubrestur fyrir skuldbindingu hans að svo hafi ekki verið gert.
Þá byggir stefndi á því, að ósanngjarnt sé af stefnanda að bera fyrir sig fyrrgreint samkomulag og því rétt að víkja því til hliðar á grundvelli 36. gr. samningalaga. Aðstaða við samningsgerðina hafi verið afar ójöfn. Stefnda hafi ekki verið gefið tóm til að kynna sér umræddan veitingarekstur, en hann beittur þrýstingi til að takast á hendur ábyrgð á upphaflegu skuldabréfunum. Er stefndi hafi neitað að gangast í ábyrgð hafi honum verið settir úrslitakostir, að rita undir yfirlýsinguna ella yrði ekkert af frekari viðræðum. Stefndi kveðst hafa litið á undirskrift sína, sem viljayfirlýsingu og ekki talið skuldbindingu felast í henni, enda yfirlýsingin mjög óljóst orðuð. Líta beri til þess, að fyrst eftir undirritun hafi komið í ljós, að tölur varðandi reksturinn stæðust ekki. Ekkert hafi orðið af stofnun rekstrarfélags, sem átt hafi að verða aðalskuldari samkvæmt bréfunum og engin veðtrygging hafi staðið að baki skuldabréfunum. Ábyrgð stefnda hafi því orðið mun meiri, en hann hafi mátt gera ráð fyrir. Einnig beri að horfa til efnis skuldbindingarinnar, en ef fallist verði á skilning stefnenda, hafi stefndi tekið á sig tug milljóna ábyrgð, án nokkurs endurgjalds. Stefndi kveðst þegar hafa greitt rúmlega þrjár milljónir vegna víxils, sem gefinn hafi verið út samtímis því er yfirlýsingin hafi verið undirrituð. Það væri því bersýnilega ósanngjarnt að hann yrði dæmdur til að greiða stefnendum meira fé.
Einnig byggir stefndi á því, að upplýsingar um veltu Fógetans hafi verið rangar, en þær upplýsingar hafi verið komnar frá stefnendum. Stefnendum hafi og verið ljóst að stefndi hefði ekki talið yfirlýsinguna skuldbindandi og hafi þeir nýtt sér grandleysi hans og vankunnáttu í viðskiptum. Því væri óheiðarlegt af stefnendum, að bera fyrir sig yfirlýsinguna, sbr. 33. gr. samningalaga nr. 7/1936.
Stefndi mótmælir sérstaklega kröfu um dráttarvexti. Samkvæmt viðauka við 4. gr., sé gert ráð fyrir að stefnda skuli tilkynnt, með minnst mánaðar fyrirvara, um gjaldfellingu bréfanna. Engin slík tilkynning hafi borist stefnda. Einnig sé kveðið á um að ábyrgð bréfanna verði fyrst virk þegar bréfin hafi verið í vanskilum í þrjá mánuði og því sé ekki hægt að krefja um dráttarvexti fyrr en að þeim tíma liðnum. Stefnendur krefjist dráttarvaxta átta dögum eftir gerð yfirlýsingarinnar og tíu dögum áður en ráðgert hafi verið að þinglýsa skuldabréfunum, samkvæmt yfirlýsingunni. Stefnda hafi fyrst verið tilkynnt um svokallaða gjaldfellingu hinn 5. júlí 2000 og sé óeðlilegt að miða við fyrra tímamark, auk þess sem ekki hafi verið gerð krafa á hendur stefnda um greiðslu skuldar fyrir þann tíma.
Um lagarök vísar stefndi til 33. gr. og 36. gr. samningalaga nr. 7/1936, 68. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og meginreglna kröfuréttarins um brostnar forsendur.
Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 1. mgr. og 3. mgr. 129. gr. og 1. mgr. 140. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
V
Stefnendur byggja kröfur sínar á áðurgreindu skjali, svokölluðu viðauka við kaupsamning, dagsettu 25. febrúar 1999.
Fyrir liggur að kaupandi Fógetans ehf. Þórður Örn Arnarson stóð ekki við skuldbindingar sínar gagnvart stefnanda að greiða kaupverð og að sögn stefnenda féll ábyrgðarmaður upphaflegu skuldabréfanna, vegna kaupanna, frá skömmu eftir útgáfu þeirra. Stefnendur voru því að leita eftir ábyrgð á greiðslu kaupverðsins. Umdeilt skjal var samið og undirritað á fundi með lögmanni kaupandans, Þórðar Arnar, lögmanni stefnenda og stefnda. Samkvæmt samkomulaginu átti nýtt rekstarfélag að gefa út veðskuldabréf, tryggðum í eigum veitingahússins og skyldi stefndi taka á sig sjálfskuldarábyrgð á þeim bréfum. Rekstrarfélag þetta var aldrei stofnað og því ekki gefin út ný skuldabréf.
Samkvæmt orðalagi samkomulagsins var það forsenda ábyrgðar stefnda, að rekstarfélag um veitingareksturinn gæfi út veðskuldabréfin, sem áttu samkvæmt framansögðu að vera tryggð í eigum félagsins. Verður og að telja eðlilegt og nægilega skýrt í samkomulaginu að ábyrgð stefnda var einungis bundin við framangreind veðskuldabréf, sem aldrei voru gefin út. Þar sem veðskuldabréf voru ekki gefin út er því ekki fyrir að fara ábyrgð stefnda gagnvart stefnendum á greiðslu veðskuldabréfa. Ber því þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af kröfum stefnenda.
Samkvæmt þessari niðurstöðu ber að sæma stefnendur in solidum til þess að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 475.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskattskyldu stefnda.
Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari, kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð.
Stefndi, Gústav Björgvin Helgason, er sýkn af kröfum stefnenda, Fógetans ehf. og Þórðar Pálmasonar.
Stefnendur greiði in solidum stefnda 475.000 krónur í málskostnað, þ.m.t. virðisaukaskatt.