Hæstiréttur íslands
Mál nr. 52/2023
Lykilorð
- Viðurkenningarkrafa
- Vinnutími
- Ráðgefandi álit
- EES-samningurinn
Reifun
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. nóvember 2023. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar á öllum dómstigum.
3. Stefndi krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur og áfrýjanda gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti.
Ágreiningsefni
4. Í málinu er deilt um hvort hluti af ferðatíma í tveimur ferðum sem stefndi fór á vegum Samgöngustofu til útlanda teljist vinnutími í skilningi 1. töluliðar 52. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Telur stefndi að um vinnutíma hafi verið að ræða en áfrýjandi heldur því fram að þetta hafi ekki verið virkur vinnutími og teljist hann því hvíldartími í skilningi 2. töluliðar sömu greinar laganna.
5. Með héraðsdómi 11. febrúar 2022 var krafa stefnda tekin til greina og viðurkennt að ferðatíminn hefði verið vinnutími með þeirri takmörkun þó að sá tími sem ella hefði farið í daglegar ferðir stefnda til og frá heimili hans að reglulegri starfsstöð kæmi til frádráttar. Þessi tími var ákveðinn að álitum 40 mínútur hvern ferðadag. Með hinum áfrýjaða dómi Landsréttar 15. september 2023 var krafa stefnda tekin til greina án frádráttar vegna áætlaðs tíma sem svaraði til ferða til og frá heimili að fastri starfsstöð stefnda.
6. Áfrýjunarleyfi var veitt 3. nóvember 2023, með ákvörðun Hæstaréttar nr. 2023-109, á þeim grunni að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi meðal annars um túlkun á hugtakinu vinnutími í skilningi 1. töluliðar 52. gr. laga nr. 46/1980 og þýðingu vinnutímahugtaks 2. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2003/88/EB frá 4. nóvember 2003 um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma.
Málsatvik
7. Stefndi er flugvirki og starfar hjá Samgöngustofu. Reglubundin starfsstöð hans er að Ármúla 2 í Reykjavík en þar eru höfuðstöðvar stofnunarinnar. Stefndi hefur starfsheitið eftirlitsmaður og starfar í lofthæfis- og skráningardeild á farsviði stofnunarinnar. Um laun og önnur starfskjör hans fer eftir kjarasamningi Flugvirkjafélags Íslands vegna félagsmanna þess í starfi hjá Samgöngustofu og fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs.
8. Almennur vinnutími stefnda er frá klukkan 8 til 16 á virkum dögum. Vegna vinnu sinnar þarf hann að fara í eftirlitsferðir til útlanda og ferðast þá einnig utan Evrópu. Í slíkum ferðum flugvirkja hjá Samgöngustofu eru línustöðvar íslenskra flugrekenda erlendis teknar út auk þess sem flugvirkjar þurfa að fara erlendis vegna nýskráningar loftfars eða til að gera lofthæfisskoðanir á því.
9. Um árabil hefur verið ágreiningur milli flugvirkja hjá Samgöngustofu og stofnunarinnar um hvort ferðatími flugvirkja vegna starfa erlendis teljist vinnutími. Stofnunin hefur miðað við að á ferðadögum sé skilað átta stunda vinnudegi þegar farið er á virkum dögum. Ef ferðast er um helgar eða á helgidögum hefur stofnunin veitt frídag á launum. Jafnframt hefur stofnunin greitt flugvirkjum ferðaálag í samræmi við kjarasamning. Til viðbótar þessu hafa flugvirkjar gert þá kröfu að til vinnutíma teljist tíminn allt frá brottför að heiman þar til komið er á hótel erlendis og það sama gildi þegar ferðast er aftur til Íslands. Ágreiningurinn lýtur því að ferðatíma fyrir og eftir átta stunda dagvinnu á virkum dögum en stofnunin hefur ekki talið tíma utan dagvinnu til vinnutíma.
10. Á grundvelli kjarasamningsins starfar samstarfsnefnd sem skipuð er tveimur fulltrúum starfsmanna og tveimur frá Samgöngustofu. Verkefni nefndarinnar er að koma á sáttum í ágreiningsmálum um efni samningsins. Að ósk trúnaðarmanns flugvirkja hélt nefndin fund 15. febrúar 2017 til að fjalla um vinnutíma flugvirkja í ferðum til útlanda. Þar fóru flugvirkjar fram á að fá greidda sem yfirvinnu ferðatíma sem væri umfram átta stunda dagvinnu. Af hálfu Samgöngustofu var þessu hafnað en gefið til kynna að aflað yrði álits Kjara- og mannauðsskrifstofu ríkisins um deiluefnið. Það álit fékk stofnunin með tölvubréfi 1. mars 2017 þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að greiðslur til flugvirkja væru í samræmi við kjarasamning. Í kjölfarið fóru fram bréfaskipti milli flugvirkja og stofnunarinnar og fundahöld sem skiluðu ekki árangri.
11. Á árinu 2018 fór stefndi í þær vinnuferðir sem mál þetta tekur til en sú fyrri var farin í lok febrúar og byrjun mars til Tel Aviv í Ísrael og sú síðari í nóvember til Jedda í Sádi-Arabíu. Stefndi gaf upp vinnustundir vegna ferðanna og miðaði við að ferðatími umfram átta stundir á virkum ferðadögum væri vinnutími. Það var hins vegar ekki tekið til greina af Samgöngustofu og vinnutímum fækkað sem því nam við greiðslu launa til hans.
12. Lögmaður flugvirkjanna ritaði Samgöngustofu bréf 17. október 2018 og krafðist þess að sá tími sem færi í ferðir þeirra til útlanda yrði viðurkenndur sem vinnutími og greiðslur til þeirra samkvæmt kjarasamningi yrðu inntar af hendi í samræmi við það. Þessu hafnaði stofnunin með bréfi 30. sama mánaðar.
Ráðgefandi álit
13. Með úrskurði Landsréttar 12. júní 2020 í máli nr. 192/2020 var ákveðið að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins undir rekstri málsins í héraði. Lutu spurningar til dómstólsins að því hvernig skýra bæri 2. gr. tilskipunar 2003/88/EB með tilliti til ferða starfsmanna á vegum vinnuveitanda. Nánar tiltekið var spurt hvort ferðatími teldist vinnutími ef hann væri utan dagvinnutíma og ferðast væri til vinnustaðar sem ekki væri regluleg starfsstöð starfsmannsins. Jafnframt var spurt hvort máli skipti hvort ferð á vegum vinnuveitanda væri innanlands eða til útlanda og hvort vinnuframlagi væri skilað meðan á ferð stæði. EFTA-dómstóllinn lét í té ráðgefandi álit sitt með dómi 15. júlí 2021 í máli nr. E-11/20.
14. Í niðurstöðu EFTA-dómstólsins kom fram að samkvæmt viðtekinni dómaframkvæmd væri tilgangur tilskipunarinnar að setja lágmarkskröfur um hollustuhætti og öryggi við skipulag vinnutíma. Með henni væri mælt fyrir um samræmdar reglur, einkum um lengd vinnutíma. Tilgangur hennar væri að tryggja daglegan og vikulegan lágmarkshvíldartíma, hlé og vikulegan hámarksvinnutíma. Tilskipunin gilti hins vegar almennt ekki um launagreiðslur til starfsmanna nema um launað árlegt orlof samkvæmt 1. mgr. 7. gr. hennar. Hún kæmi þó ekki í veg fyrir að EES-ríkin beittu skilgreiningunni á „vinnutíma“ í málum sem vörðuðu launagreiðslur, en það réðist þó af ákvæðum landsréttar hvernig skilgreiningunni yrði beitt.
15. EFTA-dómstóllinn vísaði til þess að samkvæmt 1. tölulið 2. gr. tilskipunarinnar væri hugtakið „vinnutími“ skilgreint sem sá tími sem starfsmaður væri við störf, væri vinnuveitanda innan handar og innti af hendi störf sín eða skyldur í samræmi við innlend lög eða venju. Líta mætti á vinnutíma sem andstæðu hvíldartíma samkvæmt 2. tölulið 2. gr. tilskipunarinnar þar sem þessi hugtök útilokuðu hvort annað og tilskipunin mælti ekki fyrir um flokk milli vinnutíma og hvíldartíma.
16. EFTA-dómstóllinn benti á að hugtökin „vinnutími“ og „hvíldartími“ ætti að túlka sjálfstæðri skýringu til að tryggja fulla skilvirkni tilskipunarinnar og að henni yrði beitt með sama hætti á öllu Evrópska efnahagssvæðinu. Enn fremur væri aðildarríkjum EES-samningsins óheimilt að skilyrða einhliða eða skerða óskoraðan rétt starfsmanna til að tekið yrði tillit til vinnutíma og samsvarandi hvíldartíma. Önnur túlkun kæmi í veg fyrir skilvirkni tilskipunarinnar og græfi undan markmiðum hennar. Að þessu sögðu kannaði EFTA-dómstóllinn hvort fyrir hendi væru skilyrði hugtaksins „vinnutími“ í skilningi 1. töluliðar 2. gr. tilskipunarinnar í þessu máli.
17. Fyrsta skilyrði hugtaksins „vinnutími“ væri að starfsmaður innti af hendi störf sín eða skyldur samkvæmt ráðningarsamningi. Um það vísaði EFTA-dómstóllinn til þess að hann hefði áður í dómi 27. nóvember 2017 í máli E-19/16 talið að ferðir sem starfsmaður færi til að sinna verkefnum utan fastrar starfsstöðvar væru nauðsynlegur og óhjákvæmilegur þáttur þess að hann gæti sinnt verkefnum sínum samviskusamlega. Tók dómstóllinn fram að starfsmenn ættu í vafatilvikum að njóta verndar tilskipunarinnar þegar þeir væru sendir til annarra áfangastaða en fastrar starfsstöðvar. Annað myndi raska merkingu hugtaksins „vinnutími“ og grafa undan því markmiði tilskipunarinnar að stuðla að öryggi og heilsu starfsmanna. Í því tilliti var bent á að hugtakið „vinnutími“ næði yfir alla bakvaktartíma en á honum væru slíkar hömlur lagðar á starfsmann að þær hefðu veruleg áhrif á möguleika hans til að ráðstafa tíma sínum í samræmi við eigin hag og hugðarefni þegar ekki væri krafist þjónustu hans. Taldi EFTA-dómstóllinn að starfsmaður eins og stefndi væri að inna af hendi störf sín þegar hann færi í ferð til að sinna verkefnum fyrir vinnuveitanda í öðrum löndum fjarri fastri starfsstöð.
18. Annað skilyrði hugtaksins „vinnutími“ væri að starfsmaður væri vinnuveitanda innan handar á þeim tíma. Um það benti EFTA-dómstóllinn á að starfsmaður þyrfti að vera lagalega skuldbundinn til að hlíta fyrirmælum vinnuveitanda og sinna verkefnum hans. Það væri viðtekin dómaframkvæmd að hvorki umfang vinnuframlags starfsmanns né hve mikil vinna væri innt af hendi væri skilyrði hugtaksins „vinnutími“ í skilningi tilskipunarinnar. Því skipti ekki máli hvernig vinnulagi væri háttað meðan starfsmaður ferðaðist á vegum vinnuveitanda. Tók dómstóllinn fram að aðeins þegar starfsmaður gæti farið úr vinnuumhverfi og sinnt eigin hag og hugðarefnum án truflana gæti hvíldartími talist virkur og því ekki vinnutími. Þótt starfsmaður hefði á ferðatíma ákveðið svigrúm væri slíkur tími nauðsynlegur og meðan á honum stæði væri starfsmanni skylt að hlíta fyrirmælum vinnuveitanda og hann héldi rétti sínum til að hætta við verkefni, breyta þeim eða bæta við þau. Starfsmaður gæti því ekki ráðstafað tíma sínum í samræmi við eigin hag og hugðarefni meðan á ferð stæði. Þótt engin vinna færi fram þegar starfsmaður ferðaðist með flugi og ekki væri hægt að hafa samband við hann væri slíkur tími í eðli sínu hluti þess ferðamáta sem vinnuveitandi tæki ákvörðun um.
19. Þriðja skilyrði hugtaksins „vinnutími“ væri að starfsmanni bæri að vinna á þeim tíma. Um það tók EFTA-dómstóllinn fram að væri gerð sú krafa að starfsmaður væri á öðrum stað en fastri starfsstöð gæti hann ekki sjálfur ákveðið hve löng leið hans til og frá vinnu væri. Þannig bæri starfsmanni að verja tíma sínum í ferðalög á staði sem væru annaðhvort fjarri vinnustað hans eða heimili. Í þessu sambandi benti dómstóllinn einnig á að óhjákvæmilegt væri að telja nauðsynlegan ferðatíma til vinnutíma til að vernda öryggi og heilsu starfsmanna. Tekið væri fram í 4. lið aðfaraorða tilskipunarinnar að slík markmið mættu ekki víkja fyrir „hreinum efnahagssjónarmiðum“. Ef starfsmaður eins og stefndi þyrfti að sinna verkefnum fjarri starfsstöð yrði að telja ferðir hans til og frá þeim stað eiginlegan þátt í starfi hans. Nauðsynlegur ferðatími væri því „vinnutími“ í skilningi 1. töluliðar 2. gr. tilskipunarinnar og skipti engu máli hvort sá tími sem færi í ferðalög félli innan eða utan venjulegs vinnutíma.
20. Í niðurstöðu sinni tók EFTA-dómstóllinn fram að með kjarasamningi yrði ekki breytt því sem fælist í hugtakinu „vinnutími“ eða umfangi hans eins og það væri skilgreint í tilskipuninni og ætti það einnig við um tíma vegna ferðalaga á borð við þau sem mál þetta tæki til. Þá taldi dómstóllinn ekki skipta máli hvort ferðast væri á Evrópska efnahagssvæðinu eða til þriðju ríkja ef ráðningarsamningur lyti landslögum ríkis sem ætti aðild að EES-samningnum.
21. Samkvæmt framansögðu voru svör EFTA-dómstólsins við þeim spurningum sem lagðar voru fyrir hann eftirfarandi:
1. Sá tími sem fer til ferðalaga starfsmanns, eins og stefnanda [stefnda fyrir Hæstarétti] í máli því sem er til meðferðar hjá landsdómstólnum, utan hefðbundins vinnutíma til áfangastaðar annars en fastrar eða hefðbundinnar starfsstöðvar, í því skyni að inna af hendi starf sitt eða skyldur á umræddum öðrum stað, að kröfu vinnuveitanda, telst „vinnutími“ í skilningi 1. töluliðar 2. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2003/88/EB frá 4. nóvember 2003 um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma. Það skiptir ekki máli hvort ferðast sé einvörðungu innan yfirráðasvæðis EES-ríkjanna eða til eða frá þriðju ríkjum lúti ráðningarsambandið landslögum EES-ríkis.
2. Ekki er nauðsynlegt að meta í hve miklum mæli vinna fer fram meðan á ferðunum stendur.
Málsástæður
Helstu málsástæður áfrýjanda
22. Áfrýjandi telur að málatilbúnaður stefnda sé óljós. Í öndverðu hafi ágreiningur áfrýjanda við flugvirkja í þjónustu hans lotið að kröfum þeirra um launagreiðslur og því ekki verið hreyft að hvíldartími þeirra væri ekki virtur. Þá hafi stefndi fengið greitt ferðaálag í samræmi við kjarasamning.
23. Áfrýjandi vísar til þess að ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins séu ekki bindandi fyrir dómstóla hér á landi og því ekki sjálfgefið að fylgja niðurstöðu hans. Í því sambandi bendir hann á að EFTA-dómstóllinn túlki ekki íslensk lög sem innleitt hafa reglur EES-samningsins. Jafnframt sé þess að gæta að ekki sé víst að staðreyndir málsins hafi legið fyrir þegar EFTA-dómstóllinn lét í té ráðgefandi álit sitt auk þess sem öll sönnunarfærsla í málinu og meðferð fari fram fyrir dómstólum hér á landi. Þannig hafi málið ekki legið fyrir EFTA-dómstólnum í endanlegum búningi. Þá telur áfrýjandi að EFTA-dómstóllinn hafi gengið mjög langt í túlkun sinni á inntaki tilskipunar 2003/88/EB og að hluta til á röngum grunni. Um það bendir áfrýjandi á ályktanir dómsins um að bakvaktir teljist til vinnutíma en það fari í bága við áralanga dómaframkvæmd Evrópudómstólsins. Enn fremur telur áfrýjandi að þetta mál sé ekki hliðstætt dómi í fyrrgreindu máli E-19/16 fyrir EFTA-dómstólnum og það sama eigi við um dóm Evrópudómstólsins 10. september 2015 í máli C-266/14 sem EFTA-dómstóllinn vísi til í áliti sínu.
24. Að því er varðar hugtakið „vinnutími“ í 2. gr. tilskipunar 2003/88/EB telur áfrýjandi öndvert við EFTA-dómstólinn að vinna stefnda hafi ekki hafist fyrr en hann kom á áfangastað. Stefndi hafi því ekki verið vinnuveitanda „innan handar“ í flugi þar sem hann hafi getað hagað tíma sínum að vild. Auk þess hafi stefndi ekki verið að „inna af hendi störf sín eða skyldur“ á ferðalagi heldur fyrst þegar komið var á áfangastað. Samkvæmt þessu sé ekki fullnægt öllum hugtaksskilyrðum 2. gr. tilskipunarinnar og því hafi ekki verið um að ræða vinnutíma heldur hvíldartíma.
25. Í ljósi lögskýringargagna heldur áfrýjandi því fram að virkur vinnutími geti aðeins talist til vinnutíma í skilningi 1. töluliðar 52. gr. laga nr. 46/1980. Undir það hugtak falli því ekki ferðatími eins og lagt sé til grundvallar í málatilbúnaði stefnda. Telur áfrýjandi að umrætt ákvæði verði ekki skýrt á annan veg í ljósi tilskipunar 2003/88/EB og því þyrfti að breyta lögum ef fara ætti eftir niðurstöðu EFTA-dómstólsins. Hér sé lögskýringu til samræmis við EES-samninginn takmörk sett eins og Hæstiréttur hafi ítrekað lagt til grundvallar, sbr. meðal annars dóm réttarins 2. október 2014 í máli nr. 92/2013.
26. Loks heldur áfrýjandi því fram að ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eigi ekki við í málinu enda sé um að ræða túlkun á kjara- og ráðningarsamningi af einkaréttarlegum toga. Af þeim sökum reyni ekki á meginreglur stjórnsýsluréttar. Verði þær hins vegar taldar eiga við sé því andmælt að þær hafi verið brotnar í lögskiptum við stefnda. Jafnframt er því mótmælt að áfrýjandi hafi á einhverju stigi málsins fallist á málatilbúnað stefnda.
Helstu málsástæður stefnda
27. Stefndi reisir kröfu sína á því að hann hafi verið að sinna vinnu sinni í þágu Samgöngustofu á ferðalögum til Ísraels og Sádi-Arabíu og til baka. Ferðatími utan dagvinnu hafi ekki tengst fastri starfsstöð hans og teljist því vinnutími í skilningi 1. töluliðar 52. gr. laga nr. 46/1980.
28. Stefndi andmælir því að virða beri að vettugi ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins í málinu. Í því sambandi bendir hann á að álitið sé í fullu samræmi við fyrrgreinda niðurstöðu dómstólsins í máli E-19/16 og dóm Evrópudómstólsins í máli C-266/14.
29. Stefndi bendir á að hugtakið „vinnutími“ í tilskipun 2003/88/EB hafi verið innleitt í íslenskan rétt með því að taka það óbreytt upp í 1. tölulið 1. mgr. 52. gr. laga nr. 46/1980. Því sé fráleit sú staðhæfing áfrýjanda að breyta þurfi lögum til að farið verði eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins. Hér gegni því allt öðru máli en í dómum þar sem komist hafi verið að þeirri niðurstöðu að ósamræmi hafi verið milli íslenskra laga og EES-samningsins eins og til dæmis í fyrrgreindu máli nr. 92/2013.
30. Stefndi heldur því fram að öllum skilyrðum hugtaksins „vinnutími“ í skilningi 1. töluliðar 52. gr. laga nr. 46/1980 og tilskipunar 2003/88/EB sé fullnægt enda hafi verið um að ræða ferðir farnar á vegum vinnuveitanda og stefndi hafi verið undir boðvaldi hans meðan á þeim stóð. Í því sambandi tekur stefndi fram að ekki skipti máli hvort um sé að ræða óvirkan vinnutíma enda verði aðeins greint á milli vinnutíma og hvíldartíma, svo sem lagt hafi verið til grundvallar í ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins og í dómaframkvæmd Evrópudómstólsins.
31. Stefndi telur gæta þversagna í málatilbúnaði áfrýjanda að því leyti að Samgöngustofa hafi í framkvæmd annars vegar viðurkennt að dagvinna á ferðalögum teljist til vinnutíma en hafni því hins vegar að ferðatími utan dagvinnu sé vinnutími. Einnig hafi Samgöngustofa fallist á að ferðatími innan Sádi-Arabíu meðan stefndi hafi dvalið þar í umrætt sinn á vegum stofnunarinnar hafi talist vinnutími. Telur stefndi að fleiri tilvik af þessum toga megi finna í starfsemi stofnunarinnar auk þess sem flugvirkjum sem komi til landsins úr ferðum á vegum hennar sé ekki gert að mæta til vinnu þann dag.
32. Þá vísar stefndi til þess að áfrýjandi hafi í málatilbúnaði sínum fyrir Hæstarétti ekki andmælt þeirri niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að hafna því að draga frá tíma sem svari til ferða til og frá fastri starfsstöð stefnda. Telur hann að áfrýjandi sé bundinn af þessu en þess utan hafi hann aldrei haldið þessu fram í málinu.
33. Enn fremur heldur stefndi því fram að Samgöngustofa hafi ekki tryggt lágmarksréttindi hans í þeim ferðum sem málið taki til með því að viðurkenna ekki ferðatíma sem vinnutíma. Sá réttur feli meðal annars í sér hvíldartíma, hámarksvinnutíma og orlof. Á þeim grunni sé málið rekið með kröfu um viðurkenningu á því að ferðatími teljist til vinnutíma án þess að höfð sé uppi fjárkrafa á hendur áfrýjanda. Jafnframt tekur stefndi fram að málið lúti ekki að túlkun kjarasamnings
34. Loks telur stefndi ákvörðun Samgöngustofu um að hafna viðurkenningu á því að ferðatími teljist til vinnutíma brjóta gegn ákvæðum stjórnsýslulaga og meginreglum stjórnsýsluréttar.
Löggjöf og kjarasamningur
35. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum er með lögunum meðal annars leitast við að tryggja öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi. Í IX. kafla þeirra er fjallað um hvíldartíma, frídaga og hámarksvinnutíma. Í þeim kafla laganna hafa eftirfarandi hugtök þessa merkingu, sbr. 52. gr., svo sem þeim var breytt með lögum nr. 68/2003:
1. Vinnutími: Sá tími sem starfsmaður er við störf, til taks fyrir atvinnurekandann og innir af hendi störf sín eða skyldur.
2. Hvíldartími: Sá tími sem ekki telst til vinnutíma.
36. Í skýringum við 1. tölulið 52. gr. laga nr. 46/1980 í athugasemdum með frumvarpi sem varð að fyrrgreindum lögum nr. 68/2003 sagði svo um ákvæðið:
Með hugtakinu vinnutími, sbr. 1. tölul., er átt við virkan vinnutíma, þ.e. sá tími sem starfsmaður er við störf, er til taks fyrir atvinnurekandann og innir af hendi störf sín eða skyldur. Vinnuhlé þar sem ekki er krafist vinnuframlags, neysluhlé, launaður biðtími, ferðir til og frá vinnustað eða reglubundinni starfsstöð og sérstakir frídagar falla ekki undir þessa skilgreiningu á vinnutíma þótt greiðslur komi fyrir, enda er miðað við virkan vinnutíma en ekki greiddan. Sem dæmi um tíma sem ekki telst til virks vinnutíma eru kaffi- og matartímar, jafnvel þótt sá tími sé greiddur, bakvaktir, kallvaktir, gæsluvaktir og þess háttar, svo lengi sem starfsmaður er ekki kallaður til starfa. Sé starfsmaður hins vegar kallaður til starfa skal telja þann tíma sem hann er við vinnu til virks vinnutíma.
37. Með lögum nr. 68/2003 voru gerðar viðeigandi breytingar á lögum nr. 46/1980 vegna innleiðingar á tilskipun ráðsins 93/104/EB frá 23. nóvember 1993 um ákveðna þætti sem varða skipulag vinnutíma, svo sem henni hafði verið breytt með tilskipun 2000/34/EB. Sú tilskipun var leyst af hólmi með fyrrgreindri tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/88/EB frá 4. nóvember 2003 um sama efni. Með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 45/2004 frá 23. apríl 2004 var síðargreinda tilskipunin tekin upp í EES-samninginn.
38. Í tilskipun 2003/88/EB eru ákvæði um markmið og gildissvið hennar í 1. gr. Þar segir í 1. mgr. að í henni sé mælt fyrir um lágmarkskröfur um öryggi og heilsuvernd sem hafa beri í huga við skipulag vinnutíma. Þá kemur fram í 2. mgr. að tilskipunin gildi um daglegan og vikulegan lágmarkshvíldartíma og árlegt orlof, um hlé og hámarksvinnutíma á viku og tiltekna þætti í tengslum við næturvinnu, vaktavinnu og vinnumynstur. Í 1. gr. eldri tilskipunar 93/104/EB voru orðrétt samhljóða ákvæði.
39. Í 1. og 2. tölulið 2. gr. tilskipunar 2003/88/EB er að finna svohljóðandi ákvæði sem eru efnislega samhljóða ákvæðum í sömu grein eldri tilskipunar 93/104/EB:
1. „vinnutími“: sá tími sem starfsmaður er við störf eða er vinnuveitanda innan handar og innir af hendi störf sín eða skyldur í samræmi við innlend lög og/eða venju,
2. „hvíldartími“: sá tími sem telst ekki til vinnutíma,
40. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamning opinberra starfsmanna skal í kjarasamningi kveðið á um föst laun, vinnutíma, þar með talið vinnuvökur, laun fyrir yfirvinnu, orlof, ferðakostnað, fæðisaðstöðu, fæðiskostnað, tryggingar, starfsmenntun og önnur atriði sem aðilar verða sammála um.
41. Þegar stefndi fór í þær ferðir á vegum Samgöngustofu á árinu 2018 sem málið tekur til fór um kjör hans eftir kjarasamningi Flugvirkjafélags Íslands vegna félagsmanna þeirra í starfi hjá Samgöngustofu og fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs með gildistíma 1. febrúar 2018 til 29. febrúar 2020. Þar sagði í grein 2.3.1 að yfirvinna teldist sú vinna sem fram færi utan tilskilins daglegs vinnutíma eða vaktar starfsmanns svo og vinna sem innt væri af hendi umfram vikulega vinnutímaskyldu þótt á dagvinnutímabili væri. Þá sagði svo í grein 5.5 um ferðatíma erlendis:
Þegar starfsmaður fer utan að frumkvæði vinnuveitanda og á vegum hans skulu greiðslur vegna slíks óhagræðis vera með eftirfarandi hætti:
Sé brottför flugs á virkum degi fyrir kl. 10:00 og/eða heimkoma eftir kl. 15:00 skal starfsmaður fá greiðslu sem nemur þremur álagsstundum á 33,33% álagi skv. gr. 1.6.1 fyrir hvort tilvik.
Á almennum og sérstökum frídögum skal samsvarandi greiðsla nema sex álagsstundum á 55% álagi skv. gr. 1.6.1, án tillits til þess hvenær dags flugið er.
Heimilt er að semja um frítíma í stað greiðslu ferðatíma þannig að 33,33% álag jafngildir 20 mínútna fríi og 55% álag jafngildir 33 mínútna fríi.
Niðurstaða
Aðild og sakarefni málsins
42. Stefndi starfar hjá Samgöngustofu og lýtur mál þetta að réttindum hans í því starfi. Samgöngustofa er sérstök ríkisstofnun sem heyrir undir yfirstjórn ráðherra, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 119/2012 um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála. Ráðherra skipar forstjóra stofnunarinnar og ber hann ábyrgð á starfsemi og rekstri hennar og ræður annað starfsfólk, sbr. 1. til 3. mgr. 2. gr. laganna. Að þessu gættu og í samræmi við það sem rakið er í 48. lið í dómi réttarins 28. febrúar 2024 í máli nr. 24/2023 hefði að réttu lagi átt að höfða málið á hendur Samgöngustofu samhliða íslenska ríkinu. Eins og lagt var til grundvallar í þeim dómi veldur þetta þó ekki því að málinu verði af sjálfsdáðum vísað frá héraðsdómi.
43. Stefndi höfðaði málið til viðurkenningar á því að ferðatími utan dagvinnu í tveimur ferðum til Austurlanda nær á árinu 2018, sem hann fór til að starfa á vegum Samgöngustofu, hafi verið vinnutími í skilningi 1. töluliðar 52. gr. laga nr. 46/1980. Úrlausn um það hefur áhrif fyrir stefnda með tilliti til réttinda hans sem tengjast hvíld og frítöku og hámarksvinnutíma, sbr. 53. til 55. gr. laganna, svo sem þeim var breytt með lögum nr. 68/2003. Að þessu gættu hefur stefndi lögvarða hagsmuni af kröfu sinni og getur leitað viðurkenningardóms um hana á grundvelli heimildar 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
44. Með því að binda kröfugerðina við úrlausn um hvort ferðatíminn teljist til vinnutíma verður ekki leyst úr því hvort í vinnuréttarsambandinu beri að leggja til grundvallar að ferðatíminn teljist til yfirvinnu í skilningi kjarasamnings, en um það er undirliggjandi ágreiningur milli Samgöngustofu og flugvirkja hjá stofnuninni. Ekki er heldur úrlausnarefni málsins hvaða greiðslur eigi að koma fyrir ferðatímann eftir kjarasamningi en stefnda hefði verið kleift að hafa uppi fjárkröfu á hendur áfrýjanda á þeim grundvelli. Á slíka kröfugerð reyndi í dómi Hæstaréttar 2. nóvember 2000 í máli nr. 99/2000.
Telst ferðatími til vinnutíma í skilningi 1. töluliðar 52. gr. laga nr. 46/1980?
45. Eins og áður er rakið segir í 1. tölulið 52. gr. laga nr. 46/1980 að með vinnutíma sé átt við tíma sem starfsmaður er við störf, til taks fyrir atvinnurekandann og inni af hendi störf sín eða skyldur. Með þessu var leidd í lög hliðstæð skilgreining á hugtakinu og í tilskipun 93/104/EB sem leyst var af hólmi með gildandi tilskipun 2003/88/EB.
46. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið skal skýra lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja. Eðli máls samkvæmt tekur slík lögskýring til þess að orðum íslenskra laga verði svo sem framast er unnt gefin merking sem rúmast innan þeirra og næst kemst því að svara til sameiginlegra reglna sem gilda eiga á Evrópska efnahagssvæðinu. Þegar lög eru orðuð á sama veg og í EES-reglum, eins og hér á við, verður að ganga út frá því að þau hafi sama efnisinntak og þær reglur sem þau eiga að innleiða. Því eiga hér ekki við dómar sem áfrýjandi hefur vísað til þar sem ósamræmi er milli laga og EES-reglna en þá ber að fara eftir lögum eins og þau verða réttilega skýrð án tillits til EES-reglna. Þessu hefur Hæstiréttur ítrekað slegið föstu svo sem nánar er rakið í 39. lið í fyrrgreindum dómi réttarins í máli nr. 24/2023.
47. Áfrýjandi heldur því fram að í ljósi lögskýringargagna geti einungis „virkur“ vinnutími talist til vinnutíma í skilningi 1. töluliðar 52. gr. laga nr. 46/1980. Á þetta verður ekki fallist þar sem ummæli í lögskýringargögnum geta ekki haft þau áhrif að lög sem innleiða samhljóða EES-reglu verði skýrð á annan veg en á Evrópska efnahagssvæðinu, enda færi það í bága við 3. gr. laga nr. 2/1993 sem ætlað er að stuðla að því að sömu reglur gildi á svæðinu. Verður að gera ráð fyrir að það verði að leiða beint af lögum ef löggjafinn vill mæla á annan veg en leiðir af skuldbindingum Íslands samkvæmt EES-samningnum.
48. Þótt ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins séu óbindandi að íslenskum rétti hafa þau í réttarframkvæmd verið lögð til grundvallar við skýringu á efni EES-reglna. Að baki því býr sú grundvallarregla EES-samningsins og laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samningsins að stuðla beri að samkvæmni í skýringu á honum. Markmiðið með því er að mynda öflugt og einsleitt Evrópskt efnahagssvæði sem grundvallast á sameiginlegum reglum og sömu samkeppnisskilyrðum eins og fram kemur í aðfaraorðum EES-samningsins.
49. Áfrýjandi hefur ekki teflt fram neinum þeim rökum sem haft geta þau áhrif að ekki verði byggt á ráðgefandi áliti í málinu. Þvert á móti er álitið í samræmi við bæði fyrra ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins, með fyrrgreindum dómi í máli E-19/16, og áðurnefndan dóm Evrópudómstólsins í máli C-266/14. Í þeim málum var ferðatími starfsmanns til vinnu utan fastrar starfsstöðvar talinn vinnutími í skilningi 1. töluliðar 2. gr. tilskipunar 2003/88/EB og hafa þessar úrlausnir þýðingu við skýringu þeirrar EES-reglu sem reynir á í málinu. Samkvæmt þessu verður með hliðsjón af ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins lagt til grundvallar dómi í málinu annars vegar að ferðatími til vinnu utan venjulegs vinnutíma til annars áfangastaðar en fastrar starfsstöðvar teljist vinnutími í skilningi tilskipunarinnar og hins vegar að ekki skipti máli hvort ferðast er innan eða utan EES-svæðisins lúti ráðningarsambandið landslögum EES-ríkis.
50. Samkvæmt framansögðu verður í samræmi við 3. gr. laga nr. 2/1993 að skýra hugtakið „vinnutími“ í skilningi 1. töluliðar 52. gr. laga nr. 46/1980 í samræmi við samhljóða ákvæði í 1. tölulið 2. gr. tilskipunar 2003/88/EB eins og það hefur verið túlkað af EFTA-dómstólnum. Af því leiðir að ferðatími stefnda í umræddum vinnuferðum á vegum Samgöngustofu telst vinnutími í skilningi ákvæðisins. Jafnframt verður fallist á með Landsrétti að ekki beri að draga frá kröfu stefnda áætlaðan tíma sem það tekur hann að fara til og frá fastri starfsstöð sinni enda hefur áfrýjandi á engu stigi málsins hreyft þeirri málsástæðu. Að þessu leyti fór því héraðsdómur út fyrir málatilbúnað áfrýjanda í andstöðu við 2. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt þessu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.
51. Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, íslenska ríkið, greiði stefnda, Eyjólfi Orra Sverrissyni, 1.000.000 króna í málskostnað fyrir Hæstarétti.