Hæstiréttur íslands

Mál nr. 479/1998


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Frávísun frá héraðsdómi


                                                         

Fimmtudaginn 23. september 1999.

Nr. 479/1998.

Friðgeir Björgvinsson

(Sigurbjörn Magnússon hrl.)

gegn

Sigvalda Þorleifssyni hf.

(Gunnar Sólnes hrl.)

Skaðabætur. Frávísun máls frá héraðsdómi.

F taldi að búnaður sem hann lánaði H, þegar hann gerði út fiskiskip í eigu félagsins S, hefði verið seldur með skipinu, án heimildar F eða H. Höfðaði F mál gegn S til heimtu skaðabóta vegna þessa. Talið var að kröfur F væru ýmist ekki studdar neinum eða ófullnægjandi sönnunargögnum eða svo vanreifaðar að dómur yrði ekki felldur á þær. Var málinu í heild vísað frá héraðsdómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttarlögmennirnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. desember 1998. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 4.466.657 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. febrúar 1993 til 23. nóvember 1995, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess að krafa áfrýjanda verði lækkuð.

I.

Kröfur áfrýjanda er að rekja til þess að frá september 1991 til febrúar 1992 gerði Helgi sonur hans út fiskiskipið Frey ÓF-36, en skipið var þá í eigu stefnda. Kveðst áfrýjandi hafa lánað syni sínum ýmsan búnað á það, sem þurft hafi til veiðanna. Er útgerð Helga lauk hafi stefndi afhent skipið forráðamönnum Skipars hf. í Þorlákshöfn, en félagið hafi síðan keypt það í júlí 1992. Hafi stefndi í febrúar 1992 jafnframt sett búnað áfrýjanda í gám í Hafnarfjarðarhöfn og síðar afhent kaupanda skipsins búnaðinn án heimildar áfrýjanda eða sonar hans. Kveðst áfrýjandi ekki hafa fengið muni þessa aftur. Endanlegar kröfur hans af því tilefni voru í sex liðum, svo sem rakið er í héraðsdómi, samtals að fjárhæð 4.871.807 krónur. Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi breytt kröfum sínum þannig, að fallið er frá 3. lið kröfugerðarinnar um skaðabætur fyrir „beitutrog o.fl.“. Að öðru leyti eru kröfur hans óbreyttar.

Stefndi mótmælir því að nokkur búnaður í eigu áfrýjanda eða Helga hafi farið í áðurnefndan gám í Hafnarfirði. Í hann hafi eingöngu verið settir hlutir í eigu stefnda sjálfs, sem síðar voru afhentir nýjum eiganda skipsins. Búnaður, sem Helgi hafi komið með um borð í Frey, hafi verið settur á land í Reykjavíkurhöfn og afhentur honum þar áður en skipinu var siglt til Hafnarfjarðar. Meðal hluta, sem þar um ræðir, hafi verið beitutrog, sem seljandi þess, Sjóvélar hf., hafi tekið þar til sín vegna vanefnda kaupandans á greiðslu. Ekki er deilt um að það sé sama tækið og áfrýjandi hefur nú fallið frá að krefja stefnda um skaðabætur fyrir.

Nokkur vitni komu fyrir dóm og gáfu skýrslu um málsatvik. Er framburður þeirra rakinn í héraðsdómi. Þá hefur áfrýjandi lagt fyrir Hæstarétt endurrit skýrslu Arnar B. Magnússonar, sem tekin var eftir að héraðsdómur var kveðinn upp. Hann hefur jafnframt lagt fram nokkur ný skjöl.

II.

Samkvæmt hinum fyrsta af fimm kröfuliðum áfrýjanda krefst hann skaðabóta fyrir „upphengjur, vagna o.fl.“ að fjárhæð 150.000 krónur.

Í skýrslu Arnar B. Magnússonar er því lýst að hann hafi í árslok 1991 unnið um borð í Frey við að setja upp línubeitingarvél. Hafi hann meðal annars þurft að færa burðarsúlur til að koma henni fyrir. Vinnulaun sín hafi Helgi og stefndi greitt, en vitnið kvaðst ekki muna hve mikið hvor þeirra greiddi.

Ármann Sigurðsson var skipstjóri á Frey meðan Helgi gerði skipið út og ráðinn af þeim síðarnefnda til starfans. Bar hann fyrir dómi, að í vinnu Arnar um borð hafi meðal annars falist að koma fyrir upphengjum fyrir veiðarfærabúnað. Sama vitni skýrði jafnframt nánar hvaða einstakir hlutir voru settir í land í Reykjavíkurhöfn, en upphengjanna var þar ekki getið. Að virtum framburði vitnanna þykir áfrýjandi hafa skotið nokkrum stoðum undir að stefnda sé skylt að greiða skaðabætur fyrir nefndar upphengjur. Ekki hefur hins vegar verið skýrt hvað felist í þessum kröfulið að öðru leyti eða að tæki, sem undir hann geti fallið, hafi komið um borð fyrir tilstuðlan Helga og ekki verið skilað honum aftur. Kröfufjárhæðin styðst ekki við annað en áætlun áfrýjanda, en engin viðhlítandi gögn.

III.

Í fjórða kröfulið áfrýjanda er krafist skaðabóta fyrir „beitingavél af Mustad gerð“ með 2.997.312 krónum. Til stuðnings kröfunni vísar hann meðal annars til framburðar Arnar B. Magnússonar fyrir dómi, en í héraðsdómi er að öðru leyti rakinn framburður vitna, sem gefið hafa skýrslu um þennan þátt málsins.

Í málatilbúnaði áfrýjanda felst að tækið, sem skaðabóta er krafist fyrir samkvæmt þessum kröfulið, hafi verið það, sem í málsgögnum er stundum nefnt línubeitingarsamstæða eða línubeitingarkerfi. Eru þar tilgreindir fjölmargir einstakir hlutir, svo sem gerð er grein fyrir í héraðsdómi. Vitni, sem gefið hafa skýrslu fyrir dómi, hafa borið mjög hvert á sinn veg um hvaða hlutir það hafi verið, sem Helgi setti um borð í Frey og nefnt er beitingarvél í þessum kröfulið áfrýjanda. Ber að því leyti mikið á milli Ármanns Sigurðssonar annars vegar og Helga og Arnar B. Magnússonar hins vegar. Önnur vitni hafa ekki tjáð sig um þetta í einstökum atriðum. Ekki er stutt með framburði vitna að hlutir úr beitingarvélinni hafi verið settir í gám í Hafnarfirði og síðar afhentir nýjum eiganda Freys. Ármann Sigurðsson ber hins vegar að það hafi ekki verið gert.

Meðal málsskjala er skýrsla lögreglufulltrúa á Selfossi 21. júní 1993. Var hún gerð í tilefni húsleitar í Þorlákshöfn hjá kaupanda Freys að kröfu Helga. Segir þar að með samþykki stefnda og forráðamanns Skipars hf. séu Helga afhent tiltekin veiðarfæri, sem fundust í húsakynnum Skipars hf. Jafnframt kemur fram í skýrslunni að teknar hafi verið ljósmyndir af hlutum, sem Helgi taldi eign áfrýjanda og geymdir voru í húsnæðinu. Sé þar sérstakalega um að ræða „uppstokkara“ Mustad Autoline. Telur áfrýjandi þar um að ræða hluti úr beitingarvél þeirri, sem hann krefst skaðabóta fyrir.

Af framangreindri skýrslu lögreglu verður ráðið að kaupandi Freys hafi fengið umráð yfir tilteknum veiðarfærum í eigu áfrýjanda eða Helga. Ekkert liggur hins vegar fyrir um með hverjum hætti það gerðist. Ekki var heldur leitað eftir afstöðu Skipars hf. til þess hver væri eigandi þeirra muna, sem ljósmyndaðir voru og áfrýjandi telur sína eign. Þá hefur áfrýjandi ekki gefið skýringu á hvers vegna hann hafi  ekki krafist þess að fá þessa muni afhenta sér, en fram er komið að hann hefur ekki aðhafst frekar í þessu efni eftir að umrædd húsleit var gerð. Loks hefur áfrýjandi enga viðhlítandi skýringu gefið á þeirri aðferð að miða 4. kröfulið við gengi norskrar krónu 1. febrúar 1993.

Samkvæmt því, sem að framan greinir, eru kröfur áfrýjanda samkvæmt 1. og 4. lið svo vanreifaðar að dómur verður ekki á þær felldur. Réttur hans til skaðabóta úr hendi stefnda samkvæmt öðrum liðum kröfugerðarinnar styðst ýmist við engin sönnunargögn eða alls ófullnægjandi. Verður að þessu virtu ekki komist hjá að vísa málinu í heild frá héraðsdómi. Skal áfrýjandi jafnframt greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi eins og í dómsorði segir.

Dómsorð:

Málinu er vísað frá héraðsdómi.

Áfrýjandi, Friðgeir Björgvinsson, greiði stefnda, Sigvalda Þorleifssyni hf., samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 8. júlí 1998.

             Ár 1998, miðvikudaginn 8. júlí, er dómþing Héraðsdóms Norðurlands eystra sett í dómsal embættisins að Hafnarstræti 107, Akureyri, og haldið af Ólafi Ólafssyni, héraðsdómara. Fyrir er tekið: Mál nr. E-106/1997: Friðgeir Björgvinsson gegn Sigvalda Þorleifssyni h.f.

Er nú í málinu kveðinn upp svofelldur dómur:

Mál þetta, sem dómtekið var þann 22. maí s.l. hefur Friðgeir Björgvinsson, kt. 031222-2799, Orrahólum 7, Reykjavík, höfðað hér fyrir dómi með stefnu birtri 20. mars 1997, á hendur Sigvalda Þorleifssyni h.f., kt. 570269-7049, Aðalgötu 16, Ólafsfirði.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær, að stefnda verði gert að greiða honum skuld að fjárhæð kr. 4.871.807,- með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum frá 1. febrúar 1993 til greiðsludags. Þá er þess krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 1. febrúar 1994, í samræmi við 12. gr. vaxtalaga nr. 25/1987. Ennfremur er krafist málskostnaðar að mati dómsins og að tildæmdur málskostnaður beri dráttarvexti frá 15. degi eftir dómsuppsögu, samkvæmt 129. gr. laga nr. 91/1991. Loks er krafist virðisaukaskatts.

Stefnda krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða málskostnað ásamt virðisaukaskatti. Til vara krefst stefnda verulegrar lækkunar á stefnukröfum og að málskostnaður falli niður. Undir rekstri málsins vísaði stefnda einnig til 3. gr. fyrningarlaga nr.14/1905.

I.

Stefnandi kveður málavexti þá, að í septembermánuði 1991 hafi sonur hans, Helgi Friðgeirsson, haft uppi áform um að festa kaup á Frey ÓF-36, 185 rúmlesta fiskiskipi, er þá hafi verið í eigu stefnda, Sigvalda Þorleifssonar h.f., og hafi mál skipast þannig að Helgi hafi verið með bátinn frá septembermánuði 1991 til febrúarloka 1992. Skipinu hafi fylgt veiðibúnaður, þ.e. beitningavél og rekkar, en þar sem að búnaðurinn hafi reynst ónothæfur hafi stefnandi á nefndu tímabili lánað til útgerðar bátsins beitningavél, línu o.fl. Í lok febrúarmánaðar 1992 hafi sonur stefnanda fallið frá fyrirhuguðum kaupum og skipið þá verið selt til þriðja aðila. Þau tæki sem stefnandi hafði lánað til útgerðarinnar hefðu þá verið flutt til Hafnarfjarðar og komið fyrir í gámi á afgreiðslusvæði Eimskipafélags Íslands h.f., en reikningar vegna geymslukostnaðar sendir Skelli h.f., félagi sem stefnandi var aðili að. Í janúarmánuði 1993 hafi stefnandi ætlað að sækja veiðitæki sín í geymslugáminn, en þá komið í ljós að framkvæmdastjóri stefnda, Rúnar Sigvaldason, hafði gefið leyfi til að taka gáminn svo og öll þau veiðitæki sem þar höfðu verið, og látið þau fylgja með skipinu við söluna til þriðja aðilans. Vegna þessa hefði stefnandi ritað innheimtubréf þann 23. október 1995 til stefnda og Eimskipafélags Íslands h.f. og krafist bóta fyrir þau veiðitæki sem stefndi hafði lánað og farið höfðu í margnefndan gám. Athæfi stefnda hafi og verið kært til lögreglu, en lögreglurannsókn ekki leitt til ákærumáls. Í samræmi við framangreint sundurliðar stefnandi dómkröfur sínar og eru þær endanlegar svofelldar:

1. Upphengjur, vagnar o.fl.

kr. 150.000,00

2. Beitningarekkar

kr. 223.000,00

3. Beitutrog o.fl.

kr. 405.150,00

4. Línu- og bolfæraspil skv. verðmati f.hl. árs 1993, skv. tilboði

kr. 784.350,00

5 Beitningavél NOK 320.000,00 miðað við gengi 1. febr. 1993

kr. 2.977.312,00

6. Lína og fylgihlutir skv. nótum

kr. 331.995,00

kr. 4.871.807,00

Reisir stefnandi kröfur sínar á því, að stefnda hafi með athæfi sínu heimildarlaust tekið verðmæti í eigu stefnanda og ráðstafað þeim til þriðja manns, en viðskipti stefnda og Helga Friðgeirssonar hafi verið stefnanda óviðkomandi og stefnda auk þess vitað um eignarrétt stefnanda á mununum. Reisir stefnandi kröfur sínar á hendur stefnda á almennum skaðabótareglum. Um málskostnað er vísað til 130. gr. laga nr. 91/1991, um dráttarvexti til laga nr. 25/1987 með síðari breytingum. Þá er krafa um virðisaukaskatt reist á ákvæðum laga nr. 25/1988.

Stefnda kveður málsástæður og önnur atvik máls vera þau, að sonur stefnanda, Helgi Friðgeirsson, hafi falast eftir kaupum á bát stefnda, Frey ÓF-36, haustið 1991, en að ekki hafi orðið af kaupum vegna aðstæðna er vörðuðu kaupandann, og skipið því verið selt öðrum, Skipar h.f., hinn 15. mars 1992. Mál hefðu hins vegar skipast þannig að Helgi Friðgeirsson hefði haft umráð skipsins frá septembermánuði 1991 til febrúarmánaðar 1992.

Stefnda styður sýknukröfu sína með því að engin beitningavél hafi verið í Frey ÓF-36 á þeim tíma er Helgi Friðgeirsson hafði með útgerð skipsins að gera. Í þess stað hafi verið í skipinu beitningatrekt og nýlegir rekkar, nánast fullir af línu. Þá er því andmælt að stefnandi hafi lánað til skipsins beitningavél og línu, en staðhæft að sonur stefnanda, Helgi Friðgeirsson, hafi komið með um borð beitningatrekt frá Sjóvélum h.f., og því haldið fram að nefnd tæki hafi verið sótt af starfsmönnum Sjóvéla h.f. er Helgi Friðgeirsson hætti útgerð skipsins í febrúarmánuði 1992. Af hálfu stefnda er því og haldið fyrir fram að fyrir afhendingu Freys ÓF-36 til Skipar h.f. í marsmánuði 1992 hafi forsvarsmaður stefnda, Rúnar Sigvaldason, tekið úr skipinu línu, rekka, palla af millidekki, baujur, belgi og færi og komið þessum eigum stefnda fyrir í leigugámi hjá Eimskipafélagi Íslands h.f. í Hafnarfirði. Því er og andmælt af hálfu stefnda að þau tæki og veiðarfæri sem talin eru upp í 1.-6. lið stefnu hafi farið í áðurgreindan leigugám Eimskipafélags Íslands h.f. eða verið um borð í Frey ÓF-36 við sölu skipsins til Skipar h.f. Hefur stefnda og ekki kannast við að um borð í Frey ÓF-36 hafi verið á vegum Helga Friðgeirssonar upphengjur, vagnar, beitningarekkar, beitningavél beitutrog eða línu- og bolfæraspil. Er og vísað til þess að tilboð til fyrirtækis stefnanda vegna línu- og bolfæraspils, sbr. dskj. nr. 12, hafi verið gert löngu eftir að skipið var afhent hinum nýju kaupendum. Jafnframt er því haldið fram að lína sú er vísað er til í 6. tl. í stefnu, og var í skipinu, hefði átt að fara til Landssambands íslenskra útvegsmanna, en línan horfið úr skipinu daginn eftir að það kom til Hafnarfjarðar. Er kröfum stefnanda í máli þessu því mótmælt svo og alfarið hafnað þeirri staðhæfingu stefnanda að stefndi hafi tekið í heimildarleysi verðmæti í eigu stefnanda og ráðstafað þeim til þriðja aðila. Þá er sérstaklega mótmælt vaxtakröfu stefnanda. Stefnda kveðst byggja kröfur sínar á reglum kröfuréttar og reglum samningaréttar um efndir loforða og samninga. Málskostnaðarkrafa er reist á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991.

II.

Af hálfu stefnanda var lagður fyrir dóminn reikningur frá O. MUSTAD og Sön A.S., dagsettur 1987-11-10, vegna kaupa Helga Friðgeirssonar á „MUSTAD autoline Modul system“ að fjárhæð NOK 320.000,-, en áritað er á reikninginn að gjaldeyrir hafi verið afgreiddur í Landsbanka Íslands þann 8. janúar 1988. Þá liggur fyrir afsal, dags. 21. apríl 1988, þar sem Helgi Friðgeirsson afsalar stefnanda línubeitningavél og er kaupverð hennar kr. 1.300.000,-. Af hálfu stefnanda hafa og verið lagðir fram sex reikningar frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna vegna kaupa á veiðarfærum, þ.á.m. á önglum og fiskilínu og eru þeir dagsettir frá 28.03.1989 - 08.05.1991, líkt og kröfugerð stefnanda var breytt undir rekstri málsins. Þá voru af hálfu stefnanda lagðir fram reikningar frá Eimskipafélagi Íslands h.f. til Skellis h.f., dags. 30.06.1992 vegna geymslugjalds fyrir veiðarfæri á tímabilinu frá mars til júní 1992. Þá var af hálfu stefnanda lagður fram úrskurður Héraðsdóms Suðurlands í máli nr. 3/1993, uppkveðinn 18. júní 1993, um húsleit í húsnæði Skipar h.f. í Þorlákshöfn, en tilefni úrskurðarins var kæra um meint hegningarlagabrot forsvarsmanna félagsins og framkvæmdastjóra stefnda, Þorleifs Rúnars Sigvaldasonar. Samkvæmt staðfestri lögregluskýrslu Hergeirs Kristgeirssonar, lögreglufulltrúa, dags. 21. júní 1993, fundust í nefndu húsnæði lúðulínubyssur ásamt fylgihlutum og lagningskar. Fram kemur í skýrslunni að í þágu rannsóknar málsins hafi m.a. verið lagt hald á plastbala með lúðulínu, plastbelgi, plastkör með færum og línu, öngla o.fl. og voru nokkur þessara veiðarfæra merkt einkennisstöfunum RE-400, fiskiskipi stefnanda. Í niðurlagi lögregluskýrslunnar er þess getið að í öðrum enda hússins hafi auk þessara tækja fundist veiðarfæri og segir um það m.a.: „Þar er sérstaklega um að ræða „uppstokkara“ MUSTAD autoline, type: Stark, ser.nr. 44, ár 1987 og nokkra „rekka“, sem Helgi taldi í eigu föður síns.“

Í málinu liggur fyrir bréf Skipavarahluta h.f., dags. 15.12.1992, til Skellis h.f., fyrirtækis stefnanda, þar sem krafist er greiðslu vegna rekka og vagna að fjárhæð kr. 223.000,-, sbr. 1. tl. í kröfugerð stefnanda. Tekið er fram í innheimtubréfinu að nefnd tæki hafi verið lánuð 20.12.1991 fyrir m/v Frey. Frá sama fyrirtæki er reikningur dags. 09.12.1991 vegna kaupa Skellis h.f. á beitutrogi, beituskurðarhníf og línuburstum, samtals að fjárhæð kr. 405.150,- sbr. 3. tl. í stefnu. Í bréfi frá fyrirtækinu, dags. 22.05.1998, er frá því greint að starfsmenn þess hafi þann 26. febrúar 1992 fjarlægt beituskurðarhníf og beitutrekt úr Frey ÓF-36 vegna vangoldinna skulda. Þá var af hálfu stefnanda lagt fram tilboð Sjóvéla h.f. til Helga Friðgeirssonar vegna Verksals h.f. fyrir línuspili og bolfæraspili, samtals að fjárhæð kr.784.350,-, sbr. 4. tl. í kröfugerð stefnanda. Tilboðið er dags. 29.04.1993. Loks hefur stefnandi lagt fram vinnulista Arnars Magnússonar vegna „uppsetningar á línuvél í Frey“ á tímabilinu frá 14.-28. nóvember 1991, samtals 80,5 klst.

Af hálfu stefndu hafa verið lagðir fram reikningar vegna kaupa félagsins á veiðarfærum, þ.á.m. á nælontaum, uppsettum bjóðum, fiskilínu, líflínu, önglum, línurekkum, Abot Mustad taumum, beitusmokk vegna m/b Freys ÓF-36, borðstokkarúllu, línuspili og dælustöð vegna m/b Freys ÓF-36. Af hálfu stefnda var einnig lögð fram yfirlýsing Jónasar Guðmundssonar, starfsmanns Eimskipafélags Íslands h.f., dags. 02.06.1997, en þar er staðhæft að Rúnar Sigvaldason hafi, f.h. stefnda, geymt gám með veiðarfærum á starfssvæði félagsins. Þar segir ennfremur: „Í gáminum var fiskilína, baujur, belgir og pallar á millidekki ásamt rekkum.“ Vegna áðurnefnds innheimtubréfs stefnanda til Eimskipafélags Íslands var af hálfu innra eftirlits félagsins sent bréf til stefnanda, sbr. dskj. nr. 6, og er niðurlag þess svofellt: „Ljóst er að vara þessi var afhent að fyrirsögn þess aðila, sem kom henni í geymslu hjá Eimskip í Hafnarfirði. Ágreiningur þinn við þann aðila um eignarrétt á vörunni er Eimskip óviðkomandi. Að því marki, sem um mistök af hálfu afgreiðslustjóra okkar í Hafnarfirði er að ræða, varða þau að hann skyldi taka trúanlega þá fullyrðingu forráðamanna Skellis h.f., hvort sem þú varst í sambandi við hann eða aðrir, án þess að bera það undir þann aðila, sem kom vörunni í okkar vörslu.“

Samkvæmt fyrirliggjandi yfirlýsingu fyrirsvarsmanns stefnda var geymslugámur fyrirtækisins tekinn úr vörslum Eimskipafélagsins í Hafnarfirði þann 8. ágúst 1992.

Stefnda hefur lagt fram kaupsamning vegna sölu Freys ÓF-36 til Skipar h.f. Kaupsamningurinn er dagsettur 2. júlí 1992, og er þar m.a. vikið að veiðarfærum skipsins þannig: „Með í kaupunum skal fylgja útbúnaður á dragnótaveiðar, þ.e. spil og 2 vindur með tógum. Þá skal fylgja með í kaupunum auk venjulegs fylgifjár, allur veiðarfæraútbúnaður að öðru leyti, sem skipið á og tilheyrir því. Engin veiðarfæri fylgja með í kaupunum.“

Í kaupsamningnum er tekið fram að skipið hafi verið afhent kaupanda í Hafnarfjarðarhöfn þann 15. mars 1992, en í niðurlagi hans segir eftirfarandi: „Seljandi lofar að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð, fasteignaveði, bankaábyrgð eða með öðrum hætti, sem Glitnir h.f. samþykkir, kaupleigu kaupanda á línubeitningavél að upphæð kr. 4.500.000,-, en lánstími verður allt að 5 árum. Ábyrgð þessi er meðal forsendna kaupanda fyrir kaupunum vegna línuveiða á tvöföldunartímabili, sem nánar greinir í samningi aðila um upplegg á afla, dags. 11. mars 1992.“

III.

Fyrir dómi hafa gefið skýrslur vitnin Magnús Helgi Friðgeirsson, Jón Haukur Bjarnason, Valdimar Sigurðsson og Arnar Sigurðsson svo og áður nefndur Hergeir Kristgeirsson, lögreglufulltrúi. Þá gaf og skýrslu fyrirsvarsmaður stefnda Þorleifur Rúnar Sigvaldason, framkvæmdastjóri.

Magnús Helgi Friðgeirsson, framkvæmdastjóri, fæddur 1944, staðfesti fyrir dómi að hann hefði haustið 1991 haft í hyggju að kaupa skipið Frey ÓF-36 af stefnda, en að mál hefðu skipast þannig að hann hefði verið „viðriðinn útgerð þess“ frá því í september 1991 til febrúarloka 1992, er stefnda óskaði eftir að skipið hætti veiðum og kæmi til Reykjavíkur vegna fyrirhugaðrar sölu þess til Skipar h.f. Kvaðst vitnið þannig hafa verið með skipið til reynslu, og til þess að hann gæti sannað sig sem útgerðaraðila og traustan borgunarmann fyrir kaupverði skipsins. Vitnið kvaðst hins vegar ekki hafa verið með skipstjórnarréttindi og því hefði Ármann Sigurðsson verið ráðinn til að annast skipstjórn nefnt tímabil. Vitnið kvaðst og ekki hafa verið eiginlegur leigutaki skipsins, en staðfesti að aflinn hefði allur farið í fiskverkunarstöð stefnda.

Við viðtöku skipsins úr hendi stefnda í septembermánuði 1991 bar vitnið að ekkert af línu eða öðrum veiðarfærum hefði verið um borð og hann af þeim sökum fengið allan veiðibúnað til lúðuveiða lánaðan hjá föður sínum, stefnanda málsins. Vitnið staðfesti hins vegar að stefnda hefði sett línurekka um borð í skipið er það fór á svonefnda línutvöföldun í janúarmánuði 1992. Þá hefði stefndi greitt reikninga vegna viðgerða á vél skipsins. Vegna línuveiðanna kvaðst vitnið og hafa fengið lánuð veiðitæki og veiðarfæri hjá stefnanda, þ.á.m. beitningavél ásamt fylgihlutum og þeir hlutir verð settir í Frey ÓF-36. Þá kvaðst hann hafa keypt viðbótartæki og þannig sett upp „mun stærra kerfi en sem fyrir var í bátnum“. Áður nefndir línurekkar stefnda hafi og ekki passað við beitningavél stefnanda, en auk þess kvað vitnið línu þá er stefnda sendi um borð hafa verið það lélega að ekki hefði verið hægt að notast við hana. Þá staðhæfði vitnið að lína sú, er forsvarsmenn stefnda sendu um borð hafi farið með skipinu er það var selt til Skipar h.f.

Fyrir dómi staðhæfði vitnið að beitningasamstæða sú er stefnandi lánaði til skipsins hefði staðið saman af nokkrum tækjum, þ.á.m. spilum, burstasettum, afspilara, uppstokkara, rekkum, trekt og beituskurðarvél. Sérfróður aðili, Örn Magnússon, hefði og verið fenginn til að vinna við niðursetningu vélarinnar, en einnig kvaðst vitnið sjálft hafa unnið við það verk í nóvember 1991.

Vegna fyrirhugaðrar sölu stefnda á skipinu kvaðst vitnið hafa siglt því til Reykjavíkur þann 26. febrúar 1992, og þá litið svo á að forsvarsmaður stefnda, Rúnar Sigvaldason, hefði tekið við skipinu svo og mannaforráðum. Þrátt fyrir ágreining við stefnda um úthald skipsins á nefndu tímabili bar vitnið að gagnkvæmur vilji hefði verið fyrir því að vitnið starfaði áfram fyrir stefnda, eftir atvikum á öðru skipi, og jafnframt að beitningavél stefnanda yrði notuð við þær veiðar. Vitnið kvaðst hins vegar hafa frétt af því daginn eftir að skipið kom til hafnar í Reykjavík að það hefði verið fært til Hafnarfjarðar og er hann gætti að því þar hefði hann séð að verið var að taka beitningavél stefnanda niður og gera skipið að öðru leyti klárt fyrir hinn nýja kaupanda. Vegna þessa kvaðst vitnið hafa rætt frekar við forsvarsmann stefnda, Rúnar Sigvaldason, er boðist hefði til að útvega gám hjá Eimskipafélagi Íslands h.f. fyrir beitningavélina og í framhaldi af því hefði vélin ásamt fylgihlutum verið tekin niður og sett í vörslur Eimskips. Vitnið staðfesti hins vegar að hluti beitningavélasamstæðunnar, þ.e. beitningatrektin og beitningaskurðarhnífurinn hefðu farið til starfsmanna Sjóvéla h.f.

Fyrir dómi bar vitnið að frumreikningar vegna geymslugjalds Eimskips fyrir gáminn hefðu verið gefnir út til Skellis h.f., fyrirtækis stefnanda, en síðar kvaðst vitnið að eigin frumkvæði hafa fengið því breytt og reikningar Eimskips þá verið gefnir út á nafn stefnanda. Um áramótin 1992 kvaðst vitnið hafa frétt af því að fyrirsvarsmaður stefnda hefði afhent öll veiðarfæri stefnanda í gáminum til hins nýja kaupanda Freys ÓF-36, og ennfremur frétt að aðilar á vegum stefnda hefðu komið í veiðarfærahús stefnanda og tekið veiðarfæri í eigu hans með þeim orðum að þau væru fylgihlutir skipsins. Kvaðst vitnið og hafa fengið þetta staðfest við húsleitarrannsókn lögreglu þann 21. júní 1993, sbr. dskj. nr. 44, og þá jafnframt þekkt hluta af beitninga-samstæðunni í húsnæði hins nýja eiganda skipsins. Fyrir dómi staðfesti vitnið hins vegar að það væri ekki skýrlega skráð á norskum frumreikningum vélasamstæðunnar, eða á afsali millum þeirra feðga fyrir vélinni, sérstakt serial númer sambærilegt því og getið er um í áður greindri lögregluskýrslu. Engu að síður kvaðst vitnið hafa verið sannfært um að fyrirsvarsmaður stefnda hefði afhent hinum nýju eigendum skipsins þau veiðarfæri og veiðitæki stefnanda, sem lýst er í 1.-6. tl. í dómkröfum stefnanda.

Vitnið Jón Haukur Bjarnason, fæddur 1957, bar fyrir dómi að það hefði að beiðni forsvarsmanns stefnda afhent Helga Friðgeirssyni skipið Frey ÓF-36, án beitningarvélar eða annarra veiðitækja, fyrir utan línu, í Hafnarfjarðarhöfn haustið 1991, en vitnið kvaðst þá hafa gegnt stöðu skipstjóra. Vitnið kvaðst eftir þetta hafa hætt öllum afskiptum af skipinu, en staðhæfði að það hefði á því tímabili sem Helgi hafði með útgerðina að gera séð um borð beitningavél.

Vitnið Valdimar Sigurðsson, fæddur 1945, kvaðst hafa starfað sem matsveinn á Frey ÓF-36 frá haustmánuðum 1991, og allan þann tíma sem Helgi Friðgeirsson var með skipið. Vitnið bar að engin veiðitæki hefðu verið um borð í skipinu er Helgi tók við útgerð þess, en staðhæfði að Helgi hefði komið með um borð beitningavél, sem áður hefði verið í skipi stefnanda, Friðgeiri Björgvinssyni RE-400. Fyrir dómi kvaðst vitnið ekkert hafa þekkt til viðskipta Helga Friðgeirssonar og stefnda. Þá kvaðst vitnið ekkert hafa komið að skipinu eftir að það kom í Reykjavíkurhöfn í lok febrúarmánaðar 1992, enda litið svo á að Helgi Friðgeirsson væri hættur útgerð.

Vitnið, Ármann Sigurðsson, fæddur 1965, kvaðst hafa verið ráðinn skipstjóri á Frey ÓF-36 í septembermánuði 1991 af væntanlegum kaupanda og útgerðaraðila skipsins, Helga Friðgeirssyni. Vitnið greindi frá því að síðar hefði það komið fram að ætlun útgerðaraðilans hefði verið að hafa skipið á leigu til loka „línutvöföldunar“ í febrúarmánuði 1992. Vitnið kvaðst hafa fengið laun sín greidd hjá fyrirtækinu Skelli h.f. Vitnið bar að Helgi Friðgeirsson hefði verið um borð í Frey ÓF-36, við veiðarnar, sem eins konar fiskilóðs. Vitnið skýrði frá því að allt úthald skipsins vegna lúðuveiða, þ.e. baujur, færi og ker með lúðulínu, hefði verið í eigu stefnda. Þá bar vitnið að önnur tæki og tól í eigu stefnda hefði einnig verið um borð í skipinu, þ.á.m. mikið af línum og fylgihlutum ásamt rekkum, línu og bólfæraspili, en auk þess lína í eigu Landssambands íslenskra útvegsmanna. Vitnið kvað útgerðaraðilann, Helga Friðgeirsson, ekkert hafa lagt til af veiðitækjum á meðan skipið var á lúðuveiðum. Eftir að lúðuvertíðinni lauk bar vitnið að skipið hefði verið útbúið til línuveiða, í nóvembermánuði 1991, og stefnda þá sent um borð beiturekka svo og mest af þeim tilbúnaði sem til þurfti. Vitnið bar að Helgi Friðgeirsson hefði lagt til beitutrog eða beitutrekt, lítið spil, svonefndan uppstokkara og beituskurðarhníf. Fyrir dómi staðhæfði vitnið hins vegar að eiginleg beitningavél eða kerfi hefði ekki verið um borð í skipinu, líkt og var í öðrum sambærilegum skipum. Jafnframt kannaðist vitnið ekki við að um borð hefðu verið vagnar. Vitnið staðfesti að Örn Magnússon hefði komið um borð fyrir línuvertíðina og sett upp rekka svo og sérstakan fót undir beitutrogið/beitutrektina, en vitnið kvaðst hafa fylgst með verki Arnars, en auk þess kvaðst það að beiðni Helga Friðgeirssonar hafa farið til Sjóvéla h.f. og náð í áðurnefnda beitutrekt og beituskurðarhníf. Vitnið greindi frá því að í lok febrúarmánaðar 1992 hefði borist tilkynning frá stefnda þess efnis að til stæði að selja skipið. Kvaðst vitnið því hafa siglt skipinu til Reykjavíkur, en vegna vangreiddra launa útgerðaraðilans, Helga Friðgeirssonar, samið, ásamt vélstjórum skipsins og stýrimanni, við fyrirsvarsmann stefnda, Rúnar Sigvaldason, og í framhaldi af því hefðu þeir landað aflanum úr skipinu. Þá kvaðst vitnið hafa fært skipið lítillega til í Reykjavíkurhöfn, þar sem þeim tækjum og veiðarfærum, sem tilheyrðu Helga Friðgeirssyni, hefði verið skipað upp á bryggju þ.á.m. uppstokkara, beitutrogi og ýmsum smáhlutum, og bar vitnið að Helgi hefði lítillega komið að því verki. Vitnið kvaðst og hafa heyrt af því síðar að aðilar á vegum Sjóvéla hefðu komið á bryggjuna og tekið sínar eigur, beitutrektina og beituskurðarhnífinn. Að beiðni fyrirsvarsmanns stefnda kvaðst vitnið hafa siglt skipinu til Hafnarfjarðar og bar að þar hefði allt það úthald sem tilheyrði stefnda verið híft frá borði og í gám sem stefndi hafði tekið á leigu hjá Eimskipafélagi Íslands h.f., þ.á.m. hefðu verið pallar af millidekki, þvottakar, línur, rekkar, baujur, færi o.fl. Vitnið staðhæfði að Helgi Friðgeirsson og hinn nýi eigandi skipsins hefðu ekkert komið að tilflutningi veiðarfæranna í gáminn. Við verklok kvaðst vitnið hafa hætt störfum fyrir stefnda, Sigvalda Þorleifsson h.f.

Fyrirsvarsmaður stefnda Þorleifur Rúnar Sigvaldason, framkvæmdastjóri, hefur gefið skýrslu hér fyrir dómi, svo og vitnið Hergeir Kristgeirsson, lögreglufulltrúi og staðfesti hann áðurgreinda lögregluskýrslu

IV.

Í greinargerð hefur stefnda aðallega krafist sýknu af kröfum stefnanda. Undir rekstri málsins var því hreyft af hálfu stefnda að krafa stefnanda væri fallin niður fyrir fyrningu. Að virtum andmælum stefnanda þykir þessi málsástæða of seint fram komin og kemur hún því ekki til álita hér fyrir dómi.

Eftir því sem fram hefur komið í málinu tók Helgi Friðgeirsson, sonur stefnanda, við fiskiskipi stefnda, Frey ÓF-36, haustið 1991, og var hann „viðriðinn útgerð þess“ allt til febrúarloka 1992. Skriflegur samningur um útgerð eða úthalds skipsins var ekki gerður, en Helgi hefur við meðferð málsins staðhæft að hann hafi fengið að láni til útgerðarinnar þau veiðarfæri og veiðitæki sem lýst er 1.-6. tl. í stefnu. Hefur hann og staðhæft að með beitningavél stefnanda og fylgihlutum hennar hafi hann sett upp „mun stærra kerfi en sem fyrir var í bátnum“. Samkvæmt vætti Helga Friðgeirssonar fyrir dómi lagði stefnda hins vegar aðeins til línu og línurekka til útgerðarinnar.

Í vitnaskýrslu fyrir dómi greindi Ármann Sigurðsson frá því að hann hefði tekið við skipstjórn Freys ÓF-36 á haustmánuðum 1991, eftir auglýsingu Helga Friðgeirssonar. Vitnið kvaðst hins vegar hafa þegið laun sín frá Skelli h.f., fyrirtæki stefnanda. Samkvæmt vætti Ármanns lagði eigandi skipsins, stefnda í máli þessu, nær allt úthald til útgerðar Helga Friðgeirssonar, þ.á.m. baujur, færi, ker, línu, rekka ásamt fylgihlutum svo og línu og bólfæraspil, og er línuveiðar skipsins hófust kvað vitnið stefnda einnig hafa lagt til þann búnað sem þurfti, þ.á.m. beiturekka. Fyrir dómi kannaðist vitnið hins vegar ekki við að um borð í skipinu hefðu verið vagnar eða beitningavél, líkt og var í sambærilegum skipum. Þá staðhæfði vitnið að við lok útgerðar Helga Friðgeirssonar hefði allur sá búnaður sem hann kom með um borð í Frey ÓF-36 verið settur í land í Reykjavíkurhöfn, þ.á.m. beitutrog, uppstokkari og beituskurðarhnífur.

Samkvæmt gögnum málsins tóku starfsmenn Sjóvéla hf. beituskurðarhníf og beitutrekt (trog) úr Frey ÓF-36 í sínar vörslur þann 26. febrúar 1992, og samkvæmt fyrirliggjandi yfirlýsingu og símbréfi frá starfsmönnum Eimskipafélags Íslands hf. færði fyrirsvarsmaður stefnda veiðarfæri í leigugám félagsins í Hafnarfirði og eru tiltekin; fiskilína, baujur, belgir og pallar af millidekki ásamt rekkum. Er þetta í samræmi við vætti Ármanns Sigurðssonar, skipstjóra , fyrir dómi. Þá er til þess að líta að samkvæmt gögnum málsins er ekki að finna í frumskjölum þeim sem stefnandi lagði fram um beitningsvélasamstæðu, sem haldið er fram að Helgi Friðgeirsson hafi sett um borð í Frey ÓF-36, verksmiðjunúmer líkt og „uppstokkari“ í lögregluskýrslu vitnisins Hergeirs Kristgeirssonar, er tilgreindur.

Að áliti dómsins er frásögn vitnisins Ármanns Sigurðssonar trúverðug, en við mat á framburði Helga Friðgeirssonar þykir verða að líta til tengsla hans við stefnanda málsins.

Að öllu framangreindu virtu og gegn andmælum stefnda þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á, hvorki með framlögðum gögnum né framburði vitna fyrir dómi, að stefnda hafi ráðstafað eignum hans til þriðja manns. Ber því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn kr. 150.000,-, ásamt vöxtum samkvæmt 4. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991.

Dómsuppkvaðning í máli þessu hefur dregist vegna starfsanna dómara.

Dóm þennan kvað upp Ólafur Ólafsson, héraðsdómari.

Dómsorð:

Stefnda, Sigvaldi Þorleifsson hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Friðgeirs Björgvinssonar, í máli þessu.

Stefnandi, Friðgeir Björgvinsson, greiði stefnda kr. 150.000,- í málskostnað ásamt vöxtum samkvæmt 4. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991.