Hæstiréttur íslands

Mál nr. 557/2002


Lykilorð

  • Kaupsamningur
  • Ógilding samnings
  • Brostnar forsendur
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 5

 

Fimmtudaginn 5. júní 2003.

Nr. 557/2002.

Sigurður Guðmundsson

(Sigurmar K. Albertsson hrl.)

gegn

Fannýju Jónmundsdóttur

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

 

Kaupsamningur. Ógilding samnings. Brostnar forsendur. Gjafsókn.

F, sem hafði um nokkurra ára skeið skipulagt hér á landi námskeið byggð á efni frá erlenda félaginu B Inc. seldi S umboð fyrir „Brian Tracy International sem er einkaleyfi fyrir samnefnt námskeiðahald samið af Brian Tracy.“ Var umsamið kaupverð 2.400.000 krónur. S greiddi F 500.000 krónur við undirritun samningsins auk fyrstu afborgunar að fjárhæð 500.000 krónur, en innti ekki frekari greiðslur af hendi. Var ástæðan sú, að B Inc. neitaði að undirrita samning við S, fyrr en F hefði gert upp skuld sína við félagið, sem var sögð 15.000 bandaríkjadalir. Óskaði B Inc. eftir því að S gæfi skriflega staðfestingu um að skuldir F yrðu greiddar. Greiddi F síðan hluta skuldarinnar. Svo fór að B Inc. sendi S bréf þar sem tekið var fram að í ljósi aðstæðna myndi félagið ekki skrifa undir leyfissamning við hann. Í framhaldi af því höfðaði F mál á hendur S til greiðslu eftirstöðva kaupverðsins. Í dómi Hæstaréttar segir að ekki hafi verið hnekkt fullyrðingu S um að F hafi aldrei sjálf beint til hans yfirlýsingu um að honum væri heimilt að greiða B Inc. eftirstöðvar kaupverðsins að því marki, sem næmi skuld hennar við félagið. Væri raunar að sjá sem nokkuð hafi borið á milli F og B Inc. um hversu skuldin væri há. Við þessar aðstæður hafi S verið fyllilega heimilt að hafna tilmælum B Inc. um greiðslu skuldar F og vísa á hana um efndir eigin skuldbindinga. Augljóst sé að meginforsenda S fyrir kaupunum hafi verið sú að með þeim yrði honum kleift að halda námskeið hér á landi í nafni B Inc., en til þess að svo mætti verða hafi verið óhjákvæmilegt að undirritaður yrði fyrrgreindur samningur hans við hið erlenda félag. Sú forsenda hafi brostið vegna atvika, sem vörðuðu F. Valdi það ógildingu samningsins og sé S því óskylt að greiða F eftirstöðvar kaupverðs samkvæmt samningnum. Samkvæmt því var S sýknaður af kröfu F.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 9. október 2002, en ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 20. nóvember sama árs. Með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 7. gr. laga nr. 38/1994, áfrýjaði hann héraðsdómi öðru sinni 17. desember 2002. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefndu, en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt hér fyrir dómi.

I.

Ágreiningur aðila á rót sína að rekja til kaupsamnings, sem þau gerðu með sér 17. október 1999, en með honum seldi stefnda áfrýjanda „umboð fyrir Brian Tracy International sem er einkaleyfi fyrir samnefnt námskeiðahald samið af Brian Tracy.“ Kaupverðið var 2.400.000 krónur. Skyldu 500.000 krónur greiðast við undirritun samningsins, 500.000 krónur 1. nóvember 1999, 500.000 krónur 1. desember sama árs, 500.000 krónur 1. febrúar 2000 og 400.000 krónur 1. apríl sama árs. Áfrýjandi greiddi umsamda fjárhæð við undirritun samningsins og 500.000 krónur 5. nóvember 1999, en innti ekki frekari greiðslur af hendi. Stefnda höfðaði mál þetta til innheimtu eftirstöðva kaupverðsins, 1.400.000 króna, með stefnu 15. júní 2001.

 Stefnda mun fyrir samningsgerðina hafa um nokkurra ára skeið skipulagt hér á landi námskeið byggð á efni frá Brian Tracy International Inc. Hafði áfrýjandi lokið slíku námskeiði til að geta sinnt starfi leiðbeinanda við þau. Eftir að til tals kom milli aðila að áfrýjandi tæki við námskeiðahaldinu hér á landi af stefndu kynnti hún forsvarsmönnum hins erlenda félags þá fyrirætlun. Áfrýjandi tók síðan upp bréfasamband við félagið og fékk 1. október 1999 send drög að samningi um markaðssetningu og dreifingu á námskeiðum og kennsluefni frá því. Gerði hann meðal annars tillögur til breytinga á tilteknum atriðum, sem félagið virðist hafa fallist á. Ekki verður betur séð af gögnum málsins en að þegar aðilar undirrituðu framangreindan kaupsamning 17. október 1999 hafi legið fyrir drög að samningi milli áfrýjanda og hins erlenda félags með texta, sem samkomulag var um. Virðist hafa verið vitnað til þessara samningsdraga þegar sagt var í kaupsamningnum að þegar liggi „fyrir samningur við höfuðstöðvar Brian Tracy International er greinir skuldbindingar sem umboðsmaður gengst undir við yfirtöku umboðsins.“

Stefnda mun hafa rekið námskeiðin undir nafni fyrirtækis, sem nefndist Innsýn, og fylgdi nafn þess með í kaupunum. Hins vegar skyldu fyrirtækinu ekki fylgja „skuldbindingar sem seljandi hefur stofnað til fyrir söluna og er kaupanda óviðkomandi og skal seljandi skila hreinu og skuldlausu uppgjöri við erlenda sem innlenda birgja“. Áfrýjandi kvað í skýrslu, sem hann gaf fyrir héraðsdómi, sér hafa við samningsgerðina verið ókunnugt um að stefnda skuldaði hinu erlenda félagi umboðsþóknun. Níu dögum eftir gerð kaupsamningsins, 26. október 1999, undirrituðu aðilarnir bæði bréf til hins erlenda félags. Var texti fyrri hluta bréfsins orðaður svo sem hann stafaði frá stefndu einni, þrátt fyrir sameiginlega undirritun þess. Þakkaði hún þar fyrir samstarfið á liðnum níu árum, tilkynnti að hún hafi selt áfrýjanda starfsemi sína og kvaðst mundu senda ávísun í næstu viku til greiðslu á skuld sinni við hið erlenda félag. Daginn eftir, 27. október 1999, sendi félagið stefndu bréf, þar sem minnt var á að fallist hafi verið símleiðis af þess hálfu á tveggja vikna greiðslufrest á skuld hennar. Sá tími væri nú liðinn. Myndi félagið ekki undirrita samning við áfrýjanda fyrr en stefnda hefði greitt skuld sína að fullu. Í bréfi félagsins til stefndu 10. nóvember 1999 var vitnað til símtals við hana daginn áður. Var síðan gerð tillaga um að áfrýjandi greiddi félaginu skuld stefndu, sem sögð var 15.000 bandaríkjadalir, í þrennu lagi eða 5.000 bandaríkjadali 1. desember 1999 og eftirstöðvarnar í janúar og febrúar 2000. Var tekið fram að félagið vildi að áfrýjandi gæfi því skriflega skuldbindingu varðandi þessar greiðslur, en að fenginni henni myndi félagið íhuga að undirrita samningsdrögin við hann. Með bréfi félagsins 19. nóvember 1999 var áfrýjandi boðinn velkominn sem nýr leyfishafi þess á Íslandi. Síðan sagði að félaginu væri nauðsynlegt, svo unnt yrði að ganga frá viðskiptasamningi við áfrýjanda, að hann gæfi skriflega staðfestingu um að skuldir stefndu yrðu greiddar. Hafi stefnda lofað að fyrsta greiðslan, 7.000 bandaríkjadalir, yrði innt af hendi 1. desember 1999, en eftirstöðvarnar 1. febrúar 2000. Myndi félagið skrifa undir nýjan samning við áfrýjanda að fenginni þessari staðfestingu. Í bréfi félagsins til áfrýjanda 25. nóvember 1999 var vitnað til símtals starfsmanns félagsins við stefndu, þar sem fram hafi komið að áfrýjandi ætti eftir að inna af hendi til hennar þrjár greiðslur vegna kaupanna. Kvaðst starfsmaður félagsins ekki skilja í þessu ljósi hvers vegna áfrýjandi fengist ekki til að skuldbinda sig til að greiða skuld stefndu við félagið.

Stefnda sendi félaginu ávísun að fjárhæð 5.000 bandaríkjadalir 1. desember 1999. Taldi félagið að hún ætti eftir það ógreidda 10.000 bandaríkjadali. Skýrsla stefndu fyrir héraðsdómi er ekki allskostar skýr um þetta atriði, en þó er ljóst að hún taldi skuld sína við félagið ekki svo mikla og virðist helst að skilja að hún hafi talið sig skulda því 8.000 bandaríkjadali eftir greiðsluna. Félagið minnti stefndu á það með bréfi 7. janúar 2000 að samkvæmt samkomulagi hafi hún átt að inna næstu greiðslu af hendi 1. sama mánaðar.

Félagið sendi áfrýjanda bréf 21. janúar 2000, þar sem rakin voru samskipti þess við aðila málsins vegna skulda stefndu og síðan tekið fram að í ljósi þeirra aðstæðna myndi það ekki skrifa undir leyfissamning við hann. Var jafnframt farið fram á að hann hætti allri starfsemi, sem rekin væri í nafni Brian Tracy, og skilaði stefndu öllu efni varðandi félagið. Loks sendi félagið stefndu bréf 31. október 2000 og áfrýjanda annað bréf 21. nóvember sama árs. Voru bréfin að mestu efnislega samhljóða. Var þar farið fram á að þau hættu að auglýsa Brian Tracy námskeið og héldu ekki námskeið, sem tengist að einhverju leyti Brian Tracy. Þá var vísað til fyrrgreinds bréfs frá 21. janúar sama árs, þar sem sérhvert samkomulag félagsins við málsaðilana hafi verið lýst ógilt.

II.

Því er ekki haldið fram af hálfu stefndu að hún hafi framselt hinu erlenda félagi kröfu sína á hendur áfrýjanda samkvæmt kaupsamningi þeirra frá 17. október 1999. Þeirri fullyrðingu áfrýjanda í skýrslu fyrir héraðsdómi, að stefnda hafi aldrei sjálf beint til hans yfirlýsingu um að honum væri heimilt að greiða félaginu eftirstöðvar umsamins kaupverðs að því marki, sem næmi skuld hennar við félagið, hefur ekki verið hnekkt. Er raunar að sjá sem nokkuð hafi borið á milli stefndu og félagsins um hversu há skuldin væri. Við þær aðstæður var áfrýjandi fyllilega heimilt að hafna tilmælum hins erlenda félags um greiðslu skuldar stefndu og vísa á hana um efndir eigin skuldbindinga.

Sú afstaða hins erlenda félags að ljúka ekki samningi við áfrýjanda án þess að skuld stefndu við það væri áður greidd eða tryggð varð strax ljós með bréfi þess til hennar 27. október 1999, tíu dögum eftir að aðilarnir undirrituðu kaupsamning sinn. Hvikaði félagið aldrei frá þeirri afstöðu í þeim fjölmörgu orðsendingum, sem gengu milli þess og málsaðilanna næstu vikurnar þar á eftir. Augljóst er að meginforsenda áfrýjanda fyrir kaupunum var sú að með þeim yrði honum kleift að halda námskeið hér á landi í nafni Brian Tracy, en til þess að svo mætti verða var óhjákvæmilegt að undirritaður yrði fyrrgreindur samningur hans við hið erlenda félag. Sú forsenda brast eins og að framan er rakið vegna atvika, sem vörðuðu stefndu. Veldur það ógildingu samningsins og er áfrýjanda því óskylt að greiða stefndu þær eftirstöðvar kaupverðs samkvæmt samningnum, sem hann er krafinn um í málinu. Samkvæmt því verður hann sýknaður af kröfu stefndu.

Með vísan til 3. mgr. 130. gr laga nr. 91/1991 verður hvort aðilanna látið bera sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað verður staðfest. Um gjafsóknarkostnað stefndu fyrir Hæstarétti fer eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Sigurður Guðmundsson, er sýkn af kröfu stefndu, Fannýjar Jónmundsdóttur.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað skal vera óraskað. Allur gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 300.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðdóms Reykjavíkur 10. júlí 2002.

I

                Mál þetta, sem dómtekið var hinn 12. júní sl., var höfðað með stefnu birtri 19. júní 2001, þingfestri 28. júní 2001 og gagnstefnu birtri og þingfestri 18. október 2001.  Aðalstefnandi og gagnstefnda er Fanný Jónmundsdóttir,  kt. 210445-2269, Reynimel 58, Reykjavík.  Aðalstefndi og gagnstefnandi er Sigurður Guðmundsson, kt. 040547-7469, Starrahólum 3, Reykjavík.

                Stefnandi í aðalsök krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða henni 1.400.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 500.000 krónum frá 1. desember 1999 til 1. febrúar 2000, en af kr. 1.000.000 krónum frá þeim degi til 1. apríl 2000, en af stefnufjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu.

                Stefndi í aðalsök gerir þá kröfu aðallega, að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda en til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.  Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar auk virðisaukaskatts.

                Í gagnsök gerir stefnandi þá kröfu aðallega, að kaupsamningur aðila frá 17. október 1999 verði dæmdur ógildur, en til vara að riftun stefnanda á kaupsamningnum verði dæmd lögmæt og stefnda í gagnsök verði dæmd til að þola slíka riftun.  Í báðum tilvikum krefst stefnandi þess að stefnda í gagnsök verði dæmd til endurgreiðslu þess kaupverðs sem stefnandi í gagnsök hefur greitt samkvæmt samningnum, alls að fjárhæð 1.000.000 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt gildandi vaxtalögum frá 22. janúar 2000 til greiðsludags.  Þá krefst hann málskostnaðar.

                Í gagnsök gerir stefnda þær kröfur að hún verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda í gagnsök auk málskostnaðar.

                Aðalstefnandi fékk gjalfsókn með bréfi dómsmálaráðuneytisins dagsettu 12. apríl 2002.

II

                Málsatvik eru þau að með samningi aðila, sem dagsettur er 17. október 1999, seldi aðalstefnandi aðalstefnda umboð fyrir Brian Tracy International.  Í samningum segir: “Kaupandi lofar að kaupa og seljandi að selja umboð fyrir Brian Tracy International sem er einkaleyfi fyrir samnefnt námskeiðahald samið af Brian Tracy.”

                Aðdragandi samningsins mun hafa verið sá að aðalstefndi hafði sótt leiðbeinendanámskeið hjá aðalstefnanda og í framhaldi af því bauð aðalstefnandi honum umboð þetta og fyrirtæki sitt Innsýn sf. til kaups.

                Aðalstefnandi greinir svo frá að hún hafi kynnt námskeið Brian Tracy innan Stjórnunarfélagsins, sem hún starfaði þá hjá, og verið boðið af Þráni Kristjánssyni, þáverandi umboðsmanns Brian Tracy á Íslandi, í framhaldi af því, að taka yfir umboð til námskeiðahalds.  Annaðist hún námskeiðahald á þeirra vegum ásamt útgáfu ýmis konar námskeiðsefnis í tengslum við það og rak starfsemi sína í nafni fyrirtækisins Innsýnar sf.

                Í umræddum kaupsamningi segir jafnframt að seljandi selji  Spilvirkjanum ehf. öll gögn er umboðinu fylgja.  Eru þau gögn tilgreind sem myndbandsspólur, segulbandsspólur, möppur, blöð og bækur, bæklingur og glærur og annað er umboðinu viðkomi.  Textaþýðingar á námskeiðum fylgi með, án tilgreinds endurgjalds, þar með talin textasetning á myndbandsspólum, þýðing og innlestur á segulbandsspólur, prentaður texti með námskeiðum og á glærum.  Þá sé slökunarspóla sem dreift sé á Phoenix-námskeiðum innifalin.  Jafnframt fylgi uppsetningar á bæklingum og merkjum sem til séu á auglýsingastofum og greitt hafi verið fyrir og seljandi tilgreinir nánar.  Það með sé talin nýgerð heimasíða og öll gögn er varði leiðbeinendur vegna þjálfunar fyrir námskeiðahald og innifalið sé í umsömdu kaupverði.  Þá er tilgreint myndband til textasetningar (orginal) ásamt stafrænum diskum fyrir Phoenix seminar og auk þess upphafstökur (master) af segulbandsspólum (segulbandsspólur í textanum) er fylgja Phoenix seminar.  Allar möppur, milliblöð og vinnublöð bæði á ensku og íslensku sem seljandi hafi í fórum sínum af öllum námskeiðum.

                Þá segir í samningnum að strax og kaup séu frágengin hefjist afhending gagna er umboðinu fylgi og það sem til sé af þátttakendalistum frá fyrri námskeiðum auk lista yfir fyrirtæki sem notið hafi þjónustu seljanda.

                                Þá segir í samningnum að aðalstefndi yfirtaki tiltekin væntanleg námskeið sem framundan séu en seljandi þjálfi kaupanda til námskeiðahalds og leiðbeinendastarfa ásamt tveimur til fjórum öðrum sem hann tilnefnir með sér.  Námskeiðin fari fram í október, nóvember og desember 1999.  Undanskilið var í samningi Phoenix - námskeið sem fyrirhugað var á Brekkubæ, Hellnum, 22., 23. og 24. október 1999 á vegum Snæfellsbæjar.

                Þá fylgdi með í kaupunum samkvæmt samningnum nafn og viðskiptavild fyrirtækisins Innsýnar, ásamt síma, faxnúmerum þess, nýgerðri heimasíða og netfangi Innsýnar.

                Samkvæmt samningnum voru undanskilin í kaupunum útgáfuréttur en að seljandi muni mæla með því við Ib Moller svæðisstjóra Brian Tracy International og styðja með ráðum og dáð að útgáfuréttur verði settur undir umboðið þar með talin útgáfa á bókinni “Hámarks- árangur”.

                Kaupverð er tilgreint 2.400.000 krónur og skyldu 500.000 krónur greiðast við undirritun samnings.  Eftirstöðvarnar skyldu greiðast þannig, 500.000 krónur 1. nóvember 1999, 1. desember 1999 og 1. febrúar 2000 og 400.000 krónur 1. apríl 2000.  Aðalstefndi greiddi fyrstu tvær samningsgreiðslurnar.

                                Aðalstefnandi tilkynnti um væntanlega sölu umboðsins til hins erlenda aðila og voru aðalstefnda send drög að samningi að utan.  Með tölvuskeyti sem dagsett er 19. nóvember 1999 og undirritað er af Ib Moller, er aðalstefnandi boðinn velkominn sem nýr leyfishafi (licensee) fyrir Ísland. Aldrei kom þó til þess að endanlegur samningur milli aðalstefnda og Brian Tracy International yrði undirritaður.

                Þegar samningur aðalstefnanda og aðalstefnda var undirritaður var aðalstefnandi í skuld við hið erlenda félag m.a. vegna umboðslauna.  Aðalstefnandi greinir svo frá að skuldin gæti hafa verið nálægt 8.000 - 10.000 dollurum á þeim tíma.  Fór hinn erlendi aðili þess á leit við aðalstefnda að hann greiddi þá skuld beint til sín.

                Í tölvuskeyti 25. nóvember 1999 frá fyrrnefndum Ib Moller, kemur fram að hinn erlendi aðili undrist að aðalstefndi vilji ekki standa skil á þeirri skuld með kaupsamningsgsreiðslunum í desember og febrúar svo hægt verði að ganga endanlega frá samningi hins erlenda aðila og aðalstefnda.

                Í tölvuskeyti frá 21. janúar 2000 kemur fram að hinn erlendi aðili telji aðalstefnanda hafa selt aðalstefnda réttindi sem hún hafi ekki haft rétt til.  Einu réttindin sem hún hafi haft hafi verið svokallað Phoenix - námskeið og námskeiðið Árangursrík sala.  Er þess farið á leit við aðalstefnda að hann hætti allri starfsemi er lúti að Brian Tracy (operation) námskeiðum og skili öllu efni til aðalstefnanda.

                Munu mál síðar hafa þróast með þeim hætti að þriðji aðili fékk síðar umboð fyrir Brian Tracy námskeið. Vegna þeirrar stöðu sem kom upp í kjölfar þess gerði Hróbjartur Jónatansson hrl. uppkast að samkomulagi, sem dagsett er 5. febrúar 2001.  Þar segir m.a. að aðalstefnandi og aðalstefndi feli sameiginlega Hróbjarti Jónatanssyni hrl., að kanna réttarstöðu þeirra gagnvart núverandi umboðsaðilum Brian Tracy International á Íslandi vegna notkunar þeirra á þýddu efni (skriflegum námskeiðsgögnum og hljóðsnældum) sem tilheyri þeim tíma er aðalstefnandi hafi haft umboðið á sinni hendi og varðaði samning aðila frá 17. október 1999.  Væri lögmanninum falið að grípa til viðeigandi aðgerða gegn þeim til þess að varna frekari óheimilli notkun og til heimtu skaðabóta ef því væri að skipta.  Samkomulag þetta var ekki undirritað.

                Aðalstefndi innti ekki eftirstöðvarnar af hendi og sendi lögmaður aðalstefnanda honum bréf, þann 12. mars 2001, þar sem skorað var á hann persónulega og f.h. Spilvirkjans ehf. að inna af hendi greiðslu innan tiltekins tíma.  Var það ítrekað bréflega þann 29. maí 2001.  Þar sem ekki kom til þess að greiðslur væru inntar af hendi þingfesti aðalstefnandi mál þetta á hendur aðalstefnda 28. júní 2001.

                Lögmaður aðalstefnda sendi lögmanni aðalstefnanda bréf 16. október 2001, þar sem fram kemur að með bréfinu sé formlega áréttuð riftun aðalstefnda á kaupsamningi hans við aðalstefnanda frá 17. október 1999.  Í bréfinu segir jafnframt að kaupsamningnum hafi verið rift í janúar 2000.  Skort hafi á að bréfleg staðfesting riftunar kæmi fram og af þeim sökum sé riftunin áréttuð með sannanlegum hætti.  Var og boðað að mál yrði höfðað til staðfestingar á riftuninni og til endurheimtu þess hluta kaupverðs sem þegar hafði verið greitt með gagnstefnu í því máli sem aðalstefnandi hafði þá þegar höfðað til heimtu eftirstöðva greiðslna samkvæmt kaupsamningi.            

III

Málsástæður í aðalsök

                Aðalstefnandi byggir kröfu sína á því að aðalstefnda beri samkvæmt kaupsamningi aðila frá 17. október 1999 skylda til að greiða henni eftirstöðvar kaupverðsins.  Með vísan til almennra reglna kröfuréttarins hafi aðalstefnda borið að efna skyldu sína til greiðslu á tilgreindum gjalddögum en þá skyldu hafi hann vanefnt og ógreiddar eftirstöðvar séu 1.400.000 krónur.  Aðalstefnandi hafi að öllu leyti staðið við sinn hluta kaupsamningsins.  Aðalstefndi hafi fengið þau réttindi afhent sem kaupsamningurinn hafi kveðið á um og aðalstefnandi látið af hendi það námskeiðsefni, gögn, eignir fyrirtækisins Innsýnar og annað það sem aðalstefnandi hafi haft réttindi yfir.

Einu mótmælin sem aðalstefndi hafi haft uppi varðandi greiðsluskyldu sína virðist þau að í upphafi árs 2000 hafi annar aðili leitað eftir samstarfi við Brian Tracy International.  Svo virðist sem fyrirtækið Vegsauki hafi gert samning við Brian Tracy International og Peak Performance Systems Ltd. um að annast námskeiðahald og hafa með höndum umboð fyrir Brian Tracy International á Íslandi.  Aðalstefnanda sé alls ókunnugt um rétt Vegsauka í því sambandi enda sé það aðalstefnanda alls óviðkomandi.  Þá telur aðalstefnandi að fyrirtækið Vegsauki hafi hagnýtt sér námskeiðsefni á íslensku sem aðalstefnandi hafi átt höfundarréttindi yfir og sem aðalstefnandi telur sig hafa selt aðalstefnda með áðurgreindum kaupsamningi. Vísaði aðalstefnandi á bug sem ósönnuðum öllum hugsanlegum staðhæfingum aðalstefnda þess efnis að aðalstefnandi hafi ekki haft heimild til að framselja ofangreint umboð.  Aðalstefnda hafi verið fullljóst á þeim tíma þegar kaupsamningurinn var gerður og þar á eftir að aðalstefnandi væri umboðsmaður fyrir Brian Tracy International á Íslandi, greiddi umboðslaun til Peak Performance Systems fyrir þau réttindi, seldi námskeiðsefni og hafði með höndum námskeiðahald á vegum Brian Tracy International, eins og fram komi í kaupsamningi aðila.

Aðalstefnandi vísar til stuðnings kröfum sínum til meginreglna samningaréttar og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga, vanefndir og vanefndaúrræði, sbr. lög nr. 39 frá 1922 um lausafjárkaup, einkum 5. gr., 6. gr. og 12. gr. sbr. og 28. gr. þeirra laga.  Kröfur um málskostnað styður stefnandi við 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

                Aðalstefndi byggir sýknukröfu sína á því, að aðalstefnandi hafi vanefnt kaupsamning aðila verulega í fjölmörgum atriðum og ljóst sé að aðalstefnandi hafi beitt svikum að einhverju leyti við samningsgerðina.  Telur aðalstefndi athafnir aðalstefnanda í samningssambandinu með þeim hætti að samningur aðila sé í raun fallinn niður fyrir ógildingu samkvæmt ákvæðum samningalaga nr. 7/1936.  Að öðrum kosti sé samningurinn fallinn niður vegna lögmætrar riftunar hans, sbr. 42. og 43. gr. kaupalaga nr. 39/1922, svo og önnur ákvæði þeirra laga eftir því sem við eigi.

Aðalstefndi telur ljóst að aðalstefnandi hafi ekki eingöngu selt verðmæti sem hún hafði engan rétt til heldur að auki vanefnt ýmsar grundvallarskyldur sínar samkvæmt samningnum og samkvæmt ákvæðum laga og annarra réttarheimilda á þessu sviði.  Athafnir og afstaða aðalstefnanda í samningssambandinu helgist þannig af vanheimild annars vegar og vanefndum hins vegar. Vanefndir aðalstefnanda séu svo verulegar að það réttlæti riftun af hálfu aðalstefnda ef ógilding samningsins nái ekki fram að ganga á grundvelli svika aðalstefnanda.

Þá telur aðalstefndi að auki að allar réttmætar forsendur hans fyrir samningnum og gildi hans séu brostnar, enda sé ljóst að meginforsenda hafi verið einkaumboð fyrir hið erlenda félag á Íslandi, áframhaldandi starfsemi þess og allir aðrir þættir sem sérstaklega hafi verið umsamið af hálfu aðila.  Fyrirliggjandi sé að nær allar forsendur brustu mjög fljótlega eftir að kaupsamningur var gerður og byggir aðalstefndi á því að ekki sé við hann að sakast vegna þessa.  Telur aðalstefndi að samningur aðila hafi fallið er umboð það sem samningurinn varðaði var afturkallað og þeir hagsmunir sem aðalstefndi hugðist tryggja sér með samningnum voru ekki lengur fyrir hendi. Hagsmunir aðalstefnda af samningssambandinu sjálfu hafa því beðið algert skipbrot.

Aðalstefndi telur að hagsmunir hans af riftun séu mun meiri en hagsmunir aðalstefnanda af því að fá fram viðurkenningu á gildi samningsins og greiðsluskyldu aðalstefnda. Telur aðalstefndi að taka beri tillit til þess við mat á kröfugerð hans í málinu, hvort heldur sem er kröfur aðalstefnda í aðalsök eða gagnsök. Eigi þetta einkum við þar sem fyrirliggjandi er að aðalstefnandi vanrækti verulega upplýsingaskyldu sína við samningsgerðina, svo sem nánar hefur verið vikið að.

Þá telur aðalstefndi það leiða af tegund þess samnings sem aðilar deila um, að riftun af hans hálfu sé í raun eina raunhæfa vanefndaúrræðið sem honum bjóðist í því skyni að tryggja hagsmuni sína.  Þannig sé vart hægt að tala um aðra valkosti fyrir aðalstefnda en riftun og þó að skaðabætur eða afsláttur kynni að draga úr tjóni aðalstefnda af völdum vanefnda aðalstefnanda sé ljóst að þeir kostir ganga allt of skammt í þágu hagsmuna aðalstefnda.

Aðalstefndi telur nokkuð úr því gert í stefnu að aðalstefndi hafi ekki viljað greiða afgang kaupsamningsgreiðslna beint til hins erlenda félags í því skyni að gera upp skuld aðalstefnanda við félagið. Telur aðalstefndi rétt að benda á, í þessu sambandi, að hinar umfangsmiklu vanefndir, raunar rangfærslur; sem fram komi í samningnum af hálfu aðalstefnanda, höfðu að engu gert traust aðalstefnda á samningnum.  Strax í nóvember 1999 hafi verið ljóst að stærstur hluti forsendna aðalstefnda fyrir samningsgerðinni væri brostinn, enda hafi þá verið komnar fram verulegar vanefndir á fjölmörgum liðum samningsins af hálfu aðalstefnanda.  Aðalstefnda hafi því verið rétt að beita stöðvunarrétti á frekari greiðslur til að gæta hagsmuna sinna.  Þá bendir aðalstefndi á að hann hafði þegar greitt næga fjármuni til aðalstefnanda til að hægt væri að gera upp skuld stefnanda við hið erlenda félag. Í ljósi þess og fyrrnefndra vanefnda aðalstefnanda telur aðalstefndi brottfall umboðsins sé ekki á hans ábyrgð.

Aðalstefndi byggir varakröfu sína í grundvallaratriðum á sömu sjónarmiðum og aðalkröfu utan þess að ef litið verði svo á að samningur aðila skuli hafa gildi í viðskiptum aðila, þ.e. að hvorki riftun né ógilding samningsins eigi við, sé ljóst að efndir hans og efni í heild hafi verið haldið verulegum göllum.  Gallar þeir sem orðið hafi á samningssambandinu eru, að mati aðalstefnda, á ábyrgð aðalstefnanda og beri því að taka tillit ti1 þess við ákvörðun um kröfugerð aðalstefnanda.  Því beri að lækka dómkröfur aðalstefnanda á grundvelli skaðabótaréttar aðalstefnda vegna stórfelldra galla og vanefnda af hálfu aðalstefnanda, en ella beri að dæma aðalstefnda afslátt af samningsverðinu á sömu forsendum.

Aðalstefndi byggir kröfur sínar einkum á meginreglum kröfu- og samningaréttar, dómvenjum og öðrum réttarheimildum sem varða vanefndaúrræði í lausafjárkaupum og ógildingarástæður samninga. Um málskostnað byggir aðalstefndi á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 91/1991.  Krafa um virðisaukaskatt á málskostnað er byggð á ákvæðum laga nr. 50/1988.

IV

Málsástæður í gagnsök

                Gagnstefnandi byggir á því að samningar aðila sé úr gildi fallinn á grundvelli ákvæða laga nr. 7/1936 vegna svika og annarra verulegra vanefnda gagnstefndu. Verði ekki á það fallist sé riftun hans á samningnum þann 22. janúar 2000 og sem áréttuð hafi verið með bréflegum hætti þann 16. október 2001 talin gild og lögmæt. Um nánari upptalningu á vanefndum stefndu í gagnsök, málsástæður stefnanda í gagnsök samkvæmt því og málatilbúnað stefnanda í gagnsök vísar hann að öðru leyti til greinargerðar stefnda í aðalsök. Höfðun gagnsakar byggir gagnstefnandi á ákvæðum 2. mgr. sbr. 3. mgr. 28. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Þótt sá tímafrestur sem veittur sé í fyrrnefndri 2. mgr. ákvæðisins sé liðinn byggir gagnstefnandi á því að gagnstefna þessi komist engu að síður að á grundvelli undanþáguákvæðis 3. mgr. Stefnandi í gagnsök byggir kröfur sínar einkum á meginreglum kröfu- og samningaréttar, dómvenjum og öðrum réttarheimildum sem varða vanefndaúrræði í lausafjárkaupum og ógildingarástæður samninga.  Um höfðun gagnsakar byggir stefnandi á ákvæðum laga nr. 91/1991, einkum 28. gr. þeirra laga auk ákvæða 4. mgr. 83. gr. um stefnubirtingu.  Um málskostnað í málinu byggir stefndi á ákvæðum XXI. kafla sömu laga einkum 129., 130. og 131. gr. þeirra laga.  Krafa um virðisaukaskatt á málskostnað er byggð á ákvæðum laga nr. 50/1988.

                Gagnstefnda hafnar því að hafa beitt gagnstefnanda svikum við samningsgerðina.  Gagnstefnanda hafi verið fullljóst hvaða réttindi hann væri að taka yfir og hvaða réttindi honum hafi borið að semja sérstaklega við Brian Tracy International og gagnstefnda hafði ekki heimild til að framselja.  Gagnstefnandi hafi tekið þátt í námskeiðahaldi með gagnstefndu á þessum tíma og þekkti því til þess námskeiðsefnis sem kaupsamningur aðila fjallaði um.  Honum hafi því ávallt verið ljóst hvaða réttindi það voru sem látin voru af hendi af hálfu gagnstefndu.  Þá hafi það staðið gagnstefnanda nær að komast að endanlegu samkomulagi Brian Tracy International um útgáfurétt og leyfi til sölu á myndböndum og hljóðsnældum fyrirækisins.

                Þá kveður gagnstefnda að heimild sín til sölu á námskeiðsefni því sem samningurinn fjalli um, þ.e. Phoenix - námskeiðsins og önnur námskeið sem gagnstefnda hafi þýtt, talsett textað og staðfært á íslensku, hafi hvergi verið dregin í efa af Brian Tracy International samkvæmt gögnum málsins.  Þá hafi höfundarréttur gagnstefndu heldur ekki verið dregin í efa af hálfu Brian Tracy International og í raun viðurkenndur af hálfu gagnstefnanda, sbr. bréf hans til Ib Moller, dagsett 26. janúar 2000.  Gagnstefnandi hafi fengið þau gögn afhent sem kaupsamningurinn kveði á um, og ekki stoði fyrir gagnstefnanda að bera það fyrir sig að honum hafi ekki verið afhentar upphafstökur af Phoenix-námskeiðinu þegar honum hafi verið um það fullkunnugt að þær voru í vörslu annars aðila til geymslu. Ósannaðar séu því með öllu staðhæfingar gagnstefnanda að stefnda hafi ekki haft heimild til að framselja þau réttindi sem hún hafði yfir námskeiðsefni frá Brian Tracy International með kaupsamningi við gagnstefnanda.

                Gagnstefnda telur engin skilyrði vera fyrir hendi til að ógilda samning aðila á grundvelli svika.  Gagnstefnandi hafi sjálfur haft nægan tíma, frá því samningarviðræður hófust í september 1999 og þar til samningur var undirritaður í október sama ár, til að kynna sér hið selda, og bar að sinna skoðunarskyldu sinni þar að lútandi.  Beri gagnstefnandi einn áhættuna hafi hann ekki gert það.  Þá hafi Brian Tracy International verið kynnt strax í október að sala væri að fara fram.   Gagnstefnandi hafi sjálfur haft samband beint við Brian Tracy International og fengið sent uppkast nýs leyfissamnings um hæl.  Gagnstefnanda hafi því verið í lófa lagið að afla þeirra upplýsinga sem hann taldi á þeim tíma að hann skorti til að geta gengið frá kaupunum, en hann hafi afráðið að skrifa undir kaupsamninginn.  Ósannað sé með öllu að gagnstefnda hafi á þeim tíma veitt gagnstefnanda rangar upplýsingar eða beitt blekkingu með þeim ásetningi að fá gagnstefnanda til að undirgangast skuldbindingar samningsins.

Þá hafnar gagnstefnda því að forsendur fyrir gildi samnings aðila séu brostnar og þeirri röksemdafærslu gagnstefnanda að meginforsendan hafi verið einkaumboð fyrir hið erlenda félag á Íslandi, áframhaldandi starfsemi þess og „allir aðrir þættir sem sérstaklega var umsamið af hálfu aðila“.  Þá staðhæfi gagnstefnandi að „allar forsendur hafi brostið mjög fljótlega eftir að kaupsamningur var gerður“ og ekki sé við hann að sakast í því efni. Þessu hafnar gagnstefnda.

Gagnstefnanda hafi verið afhent öll námskeiðsgögn þegar við undirritun samnings og áður hafi hann hafið viðræður við Brian Tracy International um undirritun leyfissamnings eins og gert hafi verið ráð fyrir í samningi aðila.  Það hafi verið undir gagnstefnanda komið hvort unnt yrði að koma á þeim samningi við Brian Tracy International, ekki gagnstefndu.  Gagnstefnanda hafi verið fullljóst að gagnstefnda skuldaði eftirstöðvar umboðslauna til Brian Tracy International og honum hafi beinlínis verið boðið að ganga inn í þá samninga svo unnt yrði að ljúka við gerð leyfissamnings við hann.  Þessu hafi gagnstefnandi hafnað og því hafi honum og gagnstefndu verið send svonefnd „Cease and Desist“ bréf þar sem Brian Tracy International hafi áskilið sér rétt til að snúa sér annað nema gagnstefnandi samþykkti að láta greiðslur sínar til gagnstefndu ganga beint til lúkningar á eftirstöðvum umboðslauna til Brian Tracy International.   Þessi skilningur sé staðfestur í bréfum Brian Tracy International til gagnstefnanda, sbr. tölvuskeyti frá 19. nóvember 1999 og 25. nóvember 1999.  Kveður gagnstefnda þetta hafa verið meginástæðu þess að ekki hafi orðið úr frekara samstarfi gagnstefnanda við Brian Tracy International.  Ekki sé unnt fyrir gagnstefnanda að sakast við gagnstefndu og bera fyrir sig brostnar forsendur sem henni verði kennt um.  Þá sé hvergi dregið í efa af hálfu Brian Tracy International í gögnum málsins að gagnstefnda hafi ekki verið réttur umboðsmaður þeirra á Íslandi.  Það sé enn fremur alls óljóst hvaða forsendur hafi verið ákvörðunarástæða gagnstefnanda fyrir kaupunum og ósannað að gagnstefndu hafi verið kunnugt um þær forsendur gagnstefnanda.  Telur gagnstefnda því að forsendur fyrir samningi aðila hafi ekki brostið fyrir tilverknað hennar og ef eitthvað sé, sé það gagnstefnandi sjálfur sem hafi átt sök á því með því atferli sínu að Brian Tracy International hafi tilkynnt gagnstefnanda í bréfi þann 21. janúar 2000, að þeir hyggðust ekki skrifa undir leyfissamnings við gagnstefnanda fyrr en umboðslaun væru greidd og óskað eftir því sérstaklega að hann skilaði öllum gögnum sínum þá þegar til gagnstefndu.  Af því sé ljóst að á þeim tíma hafi Brian Tracy International litið enn svo á að gagnstefnda væri umboðsaðili fyrir Brian Tracy á Íslandi.

Gagnstefnda hafnar þeirri kröfu gagnstefnanda að samningur aðila sé fallinn niður vegna riftunar vegna verulegra vanefnda af hálfu gagnstefnda á samningi aðila.  Í fyrsta lagi sé réttur gagnstefnanda til riftunar niður fallinn fyrir tómlæti gagnstefnanda sjálfs.  Ósannað sé með öllu að gagnstefnandi hafi tilkynnt gagnstefnda um riftun í janúarmánuði 2000, en tilkynningu um riftun beri að senda með sannanlegum hætti.  Þá sé tilkynning gagnstefnanda þann 16. október 2001 of seint fram kominn, þar sem gagnstefnanda hafi borið að tilkynna gagnstefnda án ástæðulauss dráttar um þá ætlun sína að rifta samningnum, sbr. 52.gr. kaupalaga.  Sérstaklega hafi þetta átt við þar sem gagnstefnandi hafði fengið hið selda afhent við undirritun kaupsamnings þann 17. október 1999.

Gagnstefnda hafi haft mikla hagsmuni af því að fá vitneskju um það um leið og meintar vanefndir áttu sér stað hvort gagnstefnandi hyggðist bera það fyrir sig að verulegar vanefndir hefðu orðið af hálfu gagnstefnda á samningnum sem réttlættu riftun hans. Þessi dráttur gagnstefnanda að bera fyrir sig vanefndir á samningnum verði að meta sem tómlæti af hans hálfu sem leiði óhjákvæmilega til þess að heimild hans til að bera fyrir sig riftun sé niður fallinn.

Þá hafi gagnstefnandi haft næg tækifæri til öflunar frekari upplýsinga um þau réttindi og gögn sem hann keypti og bera fyrir sig galla á hinu selda strax.  Gagnstefnanda hafi verið í lófa lagið að kynna sér hið selda áður en kaupin hafi farið fram, sbr. 47. gr. kaupalaga.  Afleiðingar þeirrar vanrækslu hljóti að vera þær, að hann hafi firrt sig rétti til riftunar á kaupunum.

Gagnstefnda telur að ekki hafi orðið verulegar vanefndir af hennar hálfu á samningi aðila. Gagnstefnandi hafi vanefnt samninginn með því að greiða ekki eftirstöðvar kaupverðsins, og neita síðan að taka boði Brian Tracy International og láta þær greiðslur renna beint uppí ógreidd umboðslaun gagnstefndu við Brian Tracy International.  Gagnstefnandi hafi enn fremur fengið í hendur allt námskeiðsefni sem samningurinn kvað á um og sömuleiðis telur gagnstefnda að hún hafi framselt höfundarrétt sinn á því námskeiðsefni sem þýtt hafði verið á íslensku til gagnstefnanda.  Gagnstefnda hafi því að sínu leyti staðið við skyldur sínar samkvæmt kaupsamningnum.

Þá mótmælir gagnstefnda þeirri fullyrðingu gagnstefnanda sem rangri og ósannaðri að strax í nóvember 1999 hafi verið ljóst að „stærstur hluti forsendna“ gagnstefnanda fyrir samningsgerðinni væru brostnar og fram komnar verulegar vanefndir á „fjölmörgum liðum samningsins“ af hálfu gagnstefnda.  Mótmælir gagnstefnda einnig þeirri fullyrðingu gagnstefnanda sem röngum og ósönnuðum að hún hafi ekki haft heimild til kennslu og sölu á efni frá Brian Tracy International á Íslandi.   Gagnstefnanda hafi verið gefin vilyrði fyrir því að skrifað yrði undir leyfissamning við hann ef hann tæki að sér greiðslu vangoldinna umboðslauna.  Gagnstefnda hafi haft af því mikla hagsmuni að gagnstefnandi stæði við greiðslur samkvæmt kaupsamningnum.

Í október og nóvember 1999 hafi því verið margoft lýst yfir af hálfu Brian Tracy International að þeir óski eftir frekara samstarfi við gagnstefnanda og séu því framangreindar fullyrðingar stefnanda tilhæfulausar með öllu. Gögn málsins sýni að í nóvember 1999 hafi öll skilyrði verið fyrir hendi til að ljúka samningum milli Brian Tracy International og gagnstefnanda og því hafi engar vanefndir verið til staðar sem gagnstefndu sé um að kenna.  Ef gagnstefnandi hefði á þeim tíma undirritað leyfissamning við Brian Tracy International megi leiða líkum að því að fyrirtækinu Vegsauka hefði ekki reynst unnt að taka síðar við Brian Tracy International umboðinu á Íslandi og hagnýta sér í heimildarleysi námskeiðsefni sem gagnstefnda taldi sig eiga höfundarrétt á.

Þá sé ekki síður ástæða til að meta þá ríku hagsmuni gagnstefndu að krefjast fullra efnda á efni samningsins þegar litið sé til þess að hún hafi efnt sínar gagnkvæmu skyldur sem seljandi með afhendingu hins selda.  Gagnstefnandi hafi efnt samninginn að hluta með því að inna af hendi tvær innborganir, og því viðurkennt greiðsluskyldu sína að því leyti.  Riftun á samningi aðila myndi því leiða til ósanngjarnar niðurstöðu fyrir gagnstefndu og verður gagnstefnandi sjálfur að bera áhættuna af því að forsenda sem gagnstefnda hafi verið ókunnugt um hafi brostið.

Að lokum er því vísað á bug að gagnstefnanda hafi verið heimilt að halda eftir greiðslum þegar gagnstefnda hafði þegar innt sínar skyldur samkvæmt gagnkvæmum samningi þeirra. Skilyrði skuldajafnaðar geti ekki talist vera fyrir hendi þar sem um ósambærilegar greiðslur sé að ræða og hvað greiðslutíma snertir hafi kröfurnar ekki verið hæfar til að mætast.  Þá verði að telja það skyldu gagnstefnanda sem kaupanda að bjóða fram greiðslu.  Samkvæmt 15. gr. kaupalaga hafi hann ekki heimild til stöðvunar á greiðslu þegar hið selda hafi verið afhent og sé í vörslum gagnstefnanda.

Gagnstefnda byggir kröfur sínar einkum á meginreglum kröfu- og samningaréttar, svo og ákvæðum kaupalaga nr. 39/1922 en um málskostnað á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 91/1991.

V

Fyrir liggur að samningar tókust, 17. október 1999, með aðilum máls þessa um kaup aðalstefnda á umboði fyrir Brian Tracy International á Íslandi og ýmis gögn varðandi námskeiðahald því tengdu.  Gerð hefur verið grein fyrir megininnihaldi samnings þessa hér að framan.

Stefndi í aðalsök byggir sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi beitt svikum við samningsgerðina og vanefnt samning aðila verulega, þar sem hún hafi m.a. ekki upplýst hann um skuld sína við hinn erlenda leyfisveitanda og ráðstafað með samningnum réttindum sem hún hafi ekki átt  tilkall til.  Þetta hafi leitt til forsendubrests þar sem aðalstefndi hafi ekki fengið það einkaumboð sem samið var um sölu á.  Í gagnsök byggir hann á því að samning þennan beri að ógilda af þessum sökum eða að riftun hans verði dæmd lögmæt.

Af gögnum verður ráðið að aðalstefnandi tilkynnti hinum erlenda aðila um viðskipti sín við aðalstefnda áður en ritað var undir samning aðila þann 17. október 1999.  Þannig kemur fram í tölvuskeyti til aðalstefnda, sem dagsett er 26. september 1999, og stafar frá hinum erlenda aðila, að aðalstefnandi hafi tilkynnt um söluna til aðalstefnda og er hann boðinn velkominn í hópinn og óskað eftir frekari upplýsingum um fyrirtæki hans.  Þá verður ekki annað séð af áframhaldandi tölvusamskiptum aðalstefnda og hins erlenda aðila en að Brian Tracy International hafi litið á aðalstefnda sem leyfishafa á Íslandi.  Í tölvuskeyti frá 19. nóvember 1999 er hann enn á ný boðinn velkominn í hópinn sem nýr leyfishafi fyrir Ísland þótt eins og þar segir, það sé ekki enn orðið opinbert.  Þá sér þessa einnig stað í tölvuskeyti 25. nóvember 1999.  Þá er hann tilgreindur sem hinn íslenski leyfishafi í tölvubréfi 30. desember 1999.

Af þessu verður að ráða að hinum erlenda aðila hafi verið það fullljóst að aðalstefndi væri að kaupa umboðið af aðalstefnanda og af hans hálfu voru ekki gerðar neinar athugasemdir á þeim tíma er samningurinn var gerður.   Þannig er í símbréfi, sem dagsett er 10. nóvember 1999, vísað til samnings aðalstefnanda og aðalstefnda þegar rætt er um uppgjör skuldar aðalstefnanda við hinn erlenda aðila.   Þá kemur fram í tölvubréfi til aðalstefnda, sem dagsett er 1. október 1999, að aðalstefnda séu send drög að leyfissamningi og að hann færi honum rétt til myndbandspóla og hljóðsnældna sem fylgi Brian Tracy námskeiðunum.  Þau samningsdrög og hugsanlegar breytingar á þeim voru í framhaldinu til umræðu milli hins erlenda aðila og aðalstefnda.  Því verður að ætla að hinn erlendi leyfisveitandi hafi haft fulla vitneskju um viðskipti aðila máls þessa og jafnframt verður að ætla að aðalstefnandi hafi verið í góðri trú er viðskipti aðila áttu sér stað.  Í máli þessu þykir því ekkert það fram komið sem styður það að aðalstefnandi hafi beitt aðalstefnda svikum við samningsgerðina.

Af gögnum verður ráðið að í lok október 1999 hafi Ib Moller sett fram það skilyrði fyrir því að ritað yrði undir leyfissamning við aðalstefnda að aðalstefnandi hefði gert upp skuldir sínar við Brian Tracy International. Þetta má skýrlega sjá í símbréfi hans til aðalstefnanda 27. október 1999.  Þá kemur fram í símbréfi hans til aðalstefnanda 10. nóvember 1999 sá vilji hans að greiðslur sem aðalstefndi átti samkvæmt samningi aðila að greiða til aðalstefnanda myndi aðalstefndi greiða beint til hins erlenda aðila.  Þá er í tölvuskeyti hans til aðalstefnda, 19. nóvember 1999, leitað samþykkis aðalstefnda við þeirri úrfærslu.  Aðalstefndi féllst ekki á að greiða með þessum hætti beint til hins erlenda aðila þar sem hann taldi sig ekki bera ábyrgð á skuld aðalstefnanda við Brian Tracy International auk þess sem aðalstefnandi hafi ávallt véfengt þá fjárhæð sem hinn erlendi aðili sagði hana skulda. 

Óumdeilt er að milli málsaðila var kominn á bindandi kaupsamningur í október 1999.  Þá liggur fyrir að hinn erlendi aðili hafði samþykkt þessa sölu og hafði sent aðalstefnda drög að umboðssamningi.  Jafnframt er ljóst að aðalstefndi greiddi hvorki umsamdar kaupsamningsgreiðslur þann 1. desember 1999 né síðar hvorki til aðalstefnanda né til hins erlenda aðila  eins og óskað hafði verið eftir af hálfu aðalstefnanda.  Með því að gera hvorugt vanefndi hann samning aðila enda mátti honum standa á sama hvert hann beindi greiðslu sinni og bar að fara eftir tilmælum aðalstefnanda í því efni.

Þá liggur fyrir að á þessum tíma hafði aðalstefnda staðið til boða að gera umboðssamning við hið erlenda fyrirtæki sem var nauðsynlegt ef hann ætlaði að nýta sér það umboð sem hann var að kaupa af aðalstefnanda.  Af því sem fram er komið verður ekki annað séð en aðalstefndi verði sjálfur að bera ábyrgð á því að af samningi varð ekki. 

Aðalstefndi hefur og haldið því fram að vanefndir aðalstefnanda hafi falist í því að námskeið sem hann hafi yfirtekið með samningnum hafi ekki verið á döfinni, hann hafi ekki ekki fengið öll þau gögn sem um var samið og ekki fengið þjálfun í þeim námskeiðum utan eins, námskeiðið viðskiptaviðmót.  Skuldlaust uppgjör hafi ekki legið fyrir auk þess sem aðalstefndi hafi ekki haft upplýsingar um raunverulega skuldastöðu aðalstefnanda.

Af skýrslum aðila sjálfra fyrir dóminum verður ráðið að aðalstefndi hafi ekki skýrlega gengið eftir því við aðalstefnanda að hún efndi þennan hluta samningsins og ber hann því sjálfur að einhverju leyti ábyrgð á því af þessu námskeiðahaldi varð ekki.  Þá verður einnig að telja að honum hafi borið að hlutast til um það sjálfur að þau námskeið sem voru á döfinni yrðu haldin enda eru engin sérstök námskeið tilgreind þar að lútandi í samningnum. 

Í umræddum samningi aðila er því lýst yfir að fyrirtæki aðalstefnanda fylgi ekki skuldbindingar sem seljandi hafi stofnað til fyrir söluna og séu kaupanda óviðkomandi.  Þá segir jafnframt að seljandi skuli skila hreinu og skuldlausu uppgjöri við erlenda sem innlenda birgja þar með talin framseld höfundarlaun vegna þýðinga.

Aðalstefnandi hefur fyrir dómi viðurkennt að við söluna hafi hún skuldað Brian Tracy International einhverja fjármuni sem m.a. hafi verið vegna ógreiddra umboðslauna en einnig kostnaður vegna námskeiða sem þegar höfðu verið haldin.  Af framburði hennar má ráða að eftir að hún hafi greitt 5.000 dollara með tékka gæti skuld hennar hafa verið á bilinu 8.000 til 10.000 dollarar.

Þegar þýðing ofangreindrar yfirlýsingar í samningi aðila frá 17. október 1999 er metin verður hún ekki talin fela í sér að þegar við undirskrift samningsins skyldi aðalstefnandi vera skuldlaus við hina erlendu aðila.

Af þessu verður ekki séð að aðalstefnandi hafi á nokkurn hátt vanefnt samninginn við aðalstefnda.  Samkvæmt öllu framansögðu er því ekkert það fram komið í málinu sem heimilaði riftun aðalstefnda á gildum samningi.  Samkvæmt framansögðu verða kröfur aðalstefnanda teknar til greina að öllu leyti.

Gagnstefnandi höfðaði gagnsök með stefnu birtri og þingfestri 18. október en aðalsök í héraði var þingfest 28. júní 2001.  Þingfesting gagnsakar var því að löngu liðnum mánaðarfresti þeim sem veittur er í lokamálslið 2. mgr. 28. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og þykir sú undantekning sem mælt er fyrir um í 3. mgr., og eðli máls samkvæmt ber að skýra þröngt, eiga ekki við í máli þessu.  Ber því þegar af þeirri ástæðu að vísa gagnsök frá dómi.

Rétt þykir að ákvarða málskostnað í aðalsök og gagnsök í einu lagi.  Eftir úrslitum málsins þykir rétt að aðalstefndi greiði aðalstefnanda 250.000 krónur í  málskostnað, sem rennur í ríkissjóð.  Gjafsóknarkostnaður aðalstefnanda, 364.850 krónur, þar af þóknun lögmanns hennar 360.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Af hálfu aðalstefnanda og gagnstefndu flutti mál þetta Jón Ögmundsson hdl., en af hálfu aðalstefnda og gagnstefnanda, Halldór H. Backman hdl.

Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari, kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Gagnsök er vísað frá dómi.

Aðalstefndi, Sigurður Guðmundsson, greiði aðalstefnanda, Fanný Jónmundsdóttur, 1.400.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 500.000 krónum frá 1. desember 1999 til 1. febrúar 2000, en af kr. 1.000.000 krónum frá þeim degi til 1. apríl 2000, en af 1.400.000 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2001 en frá þeim degi til greiðsludags með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001.

Aðalstefndi greiði aðalstefnanda 250.000 krónur í málskostnað,sem rennur í ríkissjóð. Gjafsóknarkostnaður aðalstefnanda, 364.850 krónur greiðist úr ríkissjóði, þar af þóknun lögmanns aðalstefnanda 360.000 krónur.