Hæstiréttur íslands
Mál nr. 88/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Lögvarðir hagsmunir
- Kröfugerð
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Föstudaginn 15. mars 2002. |
|
Nr. 88/2002. |
Kári Þorgrímsson Gylfi Hrafnkell Yngvason og Eysteinn Sigurðsson (Magnús I. Erlingsson hdl.) gegn Kísiliðjunni hf. og (Hörður Felix Harðarson hrl.) íslenska ríkinu (Skarphéðinn Þórisson hrl.) |
Kærumál. Lögvarðir hagsmunir. Kröfugerð. Frávísunarúrskurður staðfestur.
K, G og E höfðuðu mál á hendur K hf. og íslenska ríkinu þar sem þeir kröfðust þess að felldur yrði úr gildi úrskurður umhverfisráðherra um umhverfismat á frekari vinnslu K hf. á kísilgúr úr Mývatni, og að viðurkennt yrði „skuldbindingargildi samkomulags stjórnvalda sem kynnt var 7.4.1993 og staðfest var með námuleyfi til [K hf.] sama dag um að námuvinnsla við Mývatn tæki einungis til Ytri-flóa Mývatns og henni lyki í síðasta lagi árið 2010.“ Í dómi Hæstaréttar segir að þess hafi í engu verið getið í héraðsdómsstefnu, hvorki beint né óbeint, af hvaða ástæðum K, G og E gætu talist hafa lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr kröfum sínum. Úr þeim meginannmarka á málatilbúnaði sínum geti þeir ekki bætt með því að færa fram í kærumáli í þessu skyni upplýsingar og gögn um veiðirétt sinn í Mývatni og Laxá, auk þess sem áðurgreind viðurkenningarkrafa þeirra sé með öllu ótæk til efnisdóms. Staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu héraðsdóms um að vísa málinu frá.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 7. febrúar 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. janúar 2002, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar, svo og að varnaraðilanum Kísiliðjunni hf. verði gert að greiða þeim kærumálskostnað. Til vara krefjast þeir þess að málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður verði felldur niður.
Varnarðilinn Kísiliðjan hf. krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Varnaraðilinn íslenska ríkið krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur, en kærumálskostnaður felldur niður.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði hefur varnaraðilinn Kísiliðjan hf. um árabil unnið kísilgúr úr botni Mývatns. Hinn 31. ágúst 1999 tilkynnti hann skipulagsstjóra ríkisins að hann hefði í hyggju frekari vinnslu á kísilgúr á nánar afmörkuðum svæðum í Mývatni. Með úrskurði 3. nóvember sama árs kvað skipulagsstjóri á um að varnaraðilinn skyldi ráðast í frekara mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Að undangengnu því mati tilkynnti varnaraðilinn skipulagsstjóra 2. maí 2000 að nýju um áform sín. Með úrskurði 7. júlí sama árs ákvað skipulagsstjóri að nánari könnun skyldi fara fram á fjórum þargreindum þáttum, en féllst á efnistöku á tilgreindu svæði með ellefu skilyrðum. Sóknaraðilar skutu úrskurðinum til umhverfisráðherra með kærum 14. og 15. ágúst 2000. Umhverfisráðherra kvað upp úrskurð 1. nóvember sama árs um kærur sóknaraðila og fleiri kærenda. Felldi ráðherra úr gildi úrskurð skipulagsstjóra að hluta, en staðfesti hann með einni breytingu að öðru leyti.
Sóknaraðilar höfðuðu mál þetta 28. júní 2001. Þeir krefjast þess að framangreindur úrskurður umhverfisráðherra 1. nóvember 2000 verði ógiltur og að viðurkennt verði „skuldbindingargildi samkomulags stjórnvalda sem kynnt var 7.4.1993 og staðfest var með námuleyfi til Kísiliðjunnar sama dag um að námuvinnsla við Mývatn tæki einungis til Ytri-flóa Mývatns og henni lyki í síðasta lagi árið 2010.“ Með hinum kærða úrskurði var málinu sem áður segir vísað frá héraðsdómi. Var það gert á þeim grundvelli að sóknaraðilar ættu ekki lögvarða hagsmuni af því að fá efnisdóm um kröfur sínar.
Í kæru til Hæstaréttar kemur fram að sóknaraðilinn Kári Þorgrímsson eigi jörðina Garð II og sóknaraðilinn Gylfi Hrafnkell Yngvason jörðina Skútustaði 2, en þeim fylgi báðum veiðiréttur í Mývatni. Þá sé sóknaraðilinn Eysteinn Sigurðsson eigandi jarðarinnar Arnarvatns, en henni fylgi veiðiréttur í Laxá, sem falli úr Mývatni. Hafa sóknaraðilarnir lagt fyrir Hæstarétt gögn frá Fasteignamati ríkisins til staðfestingar á þessu. Þeir bera því við að þessi réttindi valdi því að þeir hafi lögvarða hagsmuni af efnisdómi um kröfur sínar.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði var þess í engu getið í héraðsdómsstefnu, hvorki beint né óbeint, af hvaða ástæðum sóknaraðilar gætu talist hafa lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr kröfum sínum. Úr þeim meginannmarka á málatilbúnaði sínum geta sóknaraðilar ekki bætt með því að færa fram í kærumáli þær upplýsingar og gögn, sem að framan er getið, auk þess sem áðurgreind viðurkenningarkrafa þeirra er með öllu ótæk til efnisdóms. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur um annað en málskostnað.
Rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af máli þessu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. janúar 2002.
I
Mál þetta var höfðað 28. júní sl. og tekið til úrskurðar 21. janúar sl.
Stefnendur eru Kári Þorgrímsson, Garði II, Gylfi Hrafnkell Yngvason, Skútustöðum 2 og Eysteinn Sigurðsson, Arnarvatni 4, allir í Mývatnssveit.
Stefndu eru íslenska ríkið, og er umhverfisráðherra og iðnaðar- og viðskiptaráðherra stefnt fyrir þess hönd, og Kísilsiðjan hf., Reykjahlíð, Mývatnssveit.
Stefnendur krefjast þess að úrskurður umhverfisráðherra frá 1. nóvember 2000 um að heimila kísilgúrvinnslu í Mývatni verði ógiltur með dómi. Einnig að viðurkennt verði með dómi skuldbindingargildi samkomulags stjórnvalda sem kynnt var 7. apríl 1993 og staðfest var með námuleyfi til Kísiliðjunnar hf. sama dag um að námuvinnsla við Mývatn tæki einungis til Ytriflóa Mývatns og henni lyki í síðasta lagi árið 2010. Þá er krafist málskostnaðar.
Stefndi, Kísiliðjan hf., krefst aðallega frávísunar og málskostnaðar og er sá þáttur málsins til úrskurðar.
Stefndi, íslenska ríkið, hefur ekki látið þennan þátt málsins til sín taka.
II
Stefndi, Kísiliðjan hf., fékk leyfi til efnistöku af botni Mývatns á árinu 1966 og hefur síðan numið þar kísilgúr og unnið í verksmiðju sinni í Mývatnssveit. Upphaflega leyfið gilti í 20 ár en var, að þeim tíma liðnum, framlengt um 15 ár. Það er alkunna að allt frá upphafi starfsemi stefnda hafa menn ekki verið á einu máli um hver áhrif hún hefði á lífríki Mývatns. Í stefnu er nokkur grein gerð fyrir því hvernig yfirvöld hafa með breytingum og viðaukum við námaleyfið tekið á þessum ágreiningsefnum en ekki er þörf á að gera frekari grein fyrir því við úrlausn þessa þáttar málsins.
Í stefnu kemur fram að 2. maí 2000 hafi stefndi, samkvæmt ákvæðum laga um umhverfismat nr. 63/1993, tilkynnt til skipulagsstjóra umsókn um leyfi til að ráðast í efnistöku af botni Mývatns. Var sótt um að taka efni á svæðum, sem ekki höfðu áður fallið undir námaleyfið og stefnendur halda fram að stefndi, íslenska ríkið, hafi samið um, bæði við þá og alþjóðlega samningsaðila stefnda að hefja ekki vinnslu á.
Skipulagsstjóri úrskurðaði 7. júlí 2000 að ráðist skyldi í frekara mat á umhverfisáhrifum þessarar vinnslu. Úrskurðurinn var kærður til umhverfisráðherra, sem breytti honum 1. nóvember 2000 og heimilaði efnistöku af botni vatnsins. Stefnendur krefjast þess að þessi úrskurður verði felldur úr gildi.
Varðandi samkomulagið frá 7. apríl 1993, sem um getur í kröfugerð stefnenda, þá er ekki nánari grein gerð fyrir því í málavaxtalýsingu stefnunnar og ekki hefur það verið lagt fram. Hins vegar er meðal gagna málsins fréttatilkynning iðnaðarráðuneytisins dagsett þennan dag þar sem fram kemur að gefið hafi verið út nýtt námaleyfi fyrir stefnda, Kísiliðjuna hf. Í tilkynningunni segir m.a. að leyfið verði bundið við kísilgúrnám af botni Ytriflóa með takmörkunum vegna náttúruverndar, sem nánar eru tiltekin á korti. Enn fremur að ekki sé rétt að taka þá áhættu fyrir lífríki Mývatns, sem efnistaka af botni Syðriflóa gæti haft í för með sér.
III
Stefnendur byggja á því að úrskurður umhverfisráðherra sé haldinn bæði formlegum og efnislegum annmörkum, er leiða eigi til ógildingar hans.
Í fyrsta lagi hafi ekki verið leitað til lögbundinna umsagnaraðila, en þeir hafi átt andmælarétt sem kærendur í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Í öðru lagi þá sé úrskurðurinn ógildur vegna ólögmæts valdframsals en í honum komi fram að umhverfisráðherra framselji vald sitt og skipulagsstjóra til framkvæmdaaðilans. Honum sé falið að rannsaka og hafa eftirlit með þeim þáttum, sem liggja eigi fyrir áður en ákvörðun sé tekin um það hvort framkvæmdir verði leyfðar eða ekki.
Í þriðja lagi byggja stefnendur á því að rannsóknarregla stjórnsýsluréttarins hafi verið brotin. Rannsókn skipulagsstjóra hafi verið ófullnægjandi og úr því hafi ekki verið bætt af hálfu umhverfisráðherra.
Loks byggja stefnendur á því að úrskurðurinn sé andstæður þeirri meginreglu stjórnsýsluréttarins að úrskurðir skuli vera skýrir. Þá telja þeir að hann brjóti gegn ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum eins og beri að skýra þau með hliðsjón af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
Þá byggja stefnendur á því að stjórnvöld hafi með bindandi hætti gert samkomulag, og kynnt það hagsmunaaðilum, þess efnis að með útgáfu leyfis 7. apríl 1993 yrði ekki ráðist í frekari kísilgúrvinnslu af botni Mývatns, umfram það, er fólst í leyfinu, sem gefið var út þennan sama dag. Hafi stefnendur mátt treysta því að við þetta samkomulag yrði staðið.
Stefndi, Kísiliðjan hf., byggir frávísunarkröfu sína á því að stefnendur eigi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá niðurstöðu um kröfur sínar og vísar í því efni til ákvæða 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
IV
Í stefnu er ekki gerð önnur grein fyrir stefnendum en að tilgreina nöfn þeirra, kennitölur og heimilisföng. Þar er hvergi að finna lýsingu á því hvernig þeir tengjast hagsmunum þeim, sem þeir krefjast að dómur gangi um. Aðeins á einum stað segir orðrétt: "Þar sem stefnendur telja að námuvinnsla í Syðriflóa muni hafa stórkostleg og varanleg skaðvænleg áhrif á lífríki Mývatns og á áhrifasvæði vatnsins og þar með stefna lífríki þess og fiskgegnd í vatninu í stórfellda hættu, er nauðsynlegt að höfða ógildingar- og viðurkenningarmál þetta." Við flutning málsins kom fram hjá lögmanni stefnenda að þeir ættu veiðirétt í Mývatni og ættu þar af leiðandi hagsmuna að gæta af því að kröfugerðin næði fram að ganga.
Það er meginregla samkvæmt lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991 að menn geta ekki krafist dóms nema þeir eigi lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um ágreiningsefni það, sem þeir bera undir dómstóla. Má ráða þetta af ákvæðum 24. og 25. gr. laganna. Þá verða dómstólar, samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laganna, ekki krafðir álits um lögfræðileg efni nema að því leyti sem nauðsynlegt er til úrlausnar um ákveðna kröfu í dómsmáli.
Í máli þessu hefur, eins og áður sagði, engin grein verið gerð fyrir því hverjir hagsmunir stefnenda eru af því að fá leyst úr kröfugerð þeirra. Þá verður ekki önnur ályktun dregin af framangreindri tilvitnun í stefnuna en að þeir séu að leita eftir lögfræðilegu áliti á gildi þeirra gerninga, sem greinir í kröfugerðinni. Samkvæmt þessu er fallist á það með stefnda, Kísiliðjunni hf., að stefnendur eigi ekki lögvarða hagsmuni í málinu og ber því að vísa málinu í heild sinni frá dómi.
Málskostnaður á milli stefnenda og stefnda, íslenska ríkisins, skal falla niður en stefnendur skulu óskipt greiða stefnda, Kísiliðjunni hf., 280.000 krónur í málskostnað.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð
Málinu er vísað frá dómi. Stefnendur, Kári Þorgrímsson, Gylfi Hrafnkell Yngvason og Eysteinn Sigurðsson, skulu óskipt greiða stefnda, Kísiliðjunni hf., 280.000 krónur í málskostnað en málskostnaður á milli stefnenda og stefnda, íslenska ríkisins, fellur niður.