Hæstiréttur íslands

Mál nr. 235/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Brottvísun af heimili
  • Nálgunarbann


Föstudaginn 27. mars 2015.

Nr. 235/2015.

Lögreglustjórinn á Suðurlandi

(Margrét Harpa Garðarsdóttir fulltrúi)

gegn

X

(Auðun Helgason hdl.)

Kærumál. Brottvísun af heimili. Nálgunarbann.

Staðfest var ákvörðun L um að X skyldi sæta brottvísun af heimili og nálgunarbanni á grundvelli laga nr. 85/2011.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. mars 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 18. mars 2015 þar sem staðfest var ákvörðun sóknaraðila 16. sama mánaðar um að varnaraðili sætti brottvísun af heimili og nálgunarbanni, eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að brottvísun af heimili og nálgunarbanni verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.

Dómsorð

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun verjanda varnaraðila, Auðuns Helgasonar héraðsdómslögmanns, fyrir Hæstarétti, 124.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 18. mars 2015.

Lögreglustjórinn á Suðurlandi hefur, með vísan til 1. mgr. 12. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili, krafist þess að staðfest verði ákvörðun lögreglustjórans sem tekin var þann 16. mars 2015, með vísan 4. og 5. gr. laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili nr. 85/2011.

Samkvæmt framangreindri ákvörðun lögreglustjóra var varnaraðila, X, kt. [...], annars vegar gert að yfirgefa heimili sitt að [...], þar sem hann býr ásamt sambýliskonu sinni A, kt. [...], frá og með 16. mars 2015 til og með 13. apríl 2015, sbr. 5. gr. laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili nr. 85/2011. Hins vegar var varnaraðila, jafnframt gert að sæta nálgunarbanni, sbr. 4. gr. sömu laga, frá og með 16. mars 2015 í sex mánuði þannig að lagt var bann við því að hann komi að eða sé við [..], á svæði sem afmarkast af 50 metra radíus mælt frá miðju hússins, og jafnframt verði honum bannað að veita eftirför, heimsækja eða vera með nokkru öðru móti í beinu sambandi við A, kt. [...] svo sem með símtölum, tölvupósti eða með öðrum hætti.

Krafan barst héraðsdómi þriðjudaginn 17. mars 2015 og var tekin fyrir á dómþingi miðvikudaginn 18. mars 2015. Varnaraðili sótti þing ásamt Jóhannesi Árnasyni hdl., sem sótti þingið í stað skipaðs verjanda varnaraðila, Auðuns Helgasonar hdl., en varnaraðili hafði ekki athugasemdir við að vera án skipaðs verjanda síns í þinghaldinu, en Auðun Helgason hdl. er skipaður verjandi varnaraðila við rannsókn lögreglu í málinu, en varnaraðili sætir nú gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar á sömu sakargiftum. Varnaraðili mótmælir kröfunni og krefst þess að henni verði hafnað. Þá er krafist þóknunar.

Þá sótti Kristrún Elsa Harðardóttir hdl. þing vegna brotaþola og óskaði eftir fyrir hönd brotaþola að hún yrði skipuð réttargæslumaður brotaþola og var það gert. Af hálfu brotaþola er þess krafist að kröfu lögreglustjóra verði hafnað. Þá er krafist þóknunar.

Málavextir

Í ákvörðun lögreglustjóra um nálgunarbann og brottvísun af heimili segir að Lögreglustjórinn á Suðurlandi hafi, með vísan til 4. og 5. gr. laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili nr. 85/2011 sem birt hafi verið í A-deild Stjórnartíðinda þann 29. júní 2011, ákveðið að X, kt. [...], verði gert að yfirgefa heimili sitt að [...], þar sem hann búi ásamt sambýliskonu sinni: A, kt. [...], og jafnframt ákveðið að X skuli sæta nálgunarbanni gagnvart A í sex mánuði að telja frá birtingu ákvörðunar þessarar.

Mál þetta sé tilkomið vegna tilkynningar sem borist hafi lögreglu aðfaranótt 15. mars 2015. Í tilkynningu hafi komið fram að X (hér eftir kærði) hafi veist að A (hér eftir brotaþola) með ofbeldi. Lögregla hafi komið umsvifalaust á staðinn þar sem brotaþoli hafi verið stödd og í miklu uppnámi vegna þess sem gerst hafi. Lögregla hafi flutt brotaþola á sjúkrahús til læknisskoðunar og þegar þangað kom hafi hún lýst því í viðurvist lögreglumanns og tveggja vitna, að auk líkamsárásarinnar hefði kærði nauðgað henni þá um morguninn, þ.e. þann 14. mars 2015. Þá hafi hún bætt við að það hefði hann gert alloft áður, auk þess sem hann hefði margoft áður beitt hana líkamlegu ofbeldi án þess þó að hún hefði tilkynnt um slíkt til lögreglu. Hafi hún sagt að þó væri þekkt í vinahópi þeirra að hann þröngvaði henni til samræðis hvenær sem hann kysi svo, og státaði sig jafnvel af því sjálfur í áheyrn annarra.

Í formlegri skýrslutöku af brotaþola þann 15. mars 2015 hafi hún lýst framangreindum tveimur skiptum sem hún hafi þegar greint lögreglu frá. Annars vegar því ofbeldi sem hún hafi orðið fyrir af hálfu kærða þáliðna nótt og hins vegar því ofbeldi sem fram hafi farið í október 2014, þegar þau hafi verið stödd á hóteli í [...] en þar muni hann hafa beitt hana grófu bæði líkamlegu- og kynferðislegu ofbeldi. Framangreindum ofbeldisbrotum til viðbótar hafi brotaþoli lýst tveimur öðrum skiptum, þar sem kærði muni hafa beitt hana ofbeldi. Hið fyrra hafi átt sér stað á [...] sem haldin hafi verið á [...] í júlí 2014, þar sem hann hafi hrint henni í jörðina og hrist hana þar sem hún hafi legið. Hið seinna hafi átt sér stað á [...] í ágúst 2014, þar sem kærði hafi veist að henni fyrir utan kaffihús þar í bæ.

Í formlegri skýrslutöku af kærða hjá lögreglu hafi hann viðurkennt hann að hafa veist að brotaþola í öll framangreind skipti sem brotaþoli hafi greint lögreglu frá, en borið þó fyrir sig nokkurt minnisleysi af atburðum en viðurkennt að hafa mögulega beitt hana ofbeldi í öll umrædd skipti. Að því er varðar meint kynferðisbrot hafi kærði þó alfarið neitað sök.

Aðspurð hafi brotaþoli sagst ekki treysta sér til þess sjálf að taka afstöðu til þess hvort hún gerði kröfu um að kærða yrði gert að sæta brottvísun af heimili og nálgunarbanni, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili nr. 85/2011. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. sömu laga geti lögreglustjóri þó einnig að eigin frumkvæði tekið mál til meðferðar ef hann telur ástæðu til, sbr. einnig 1. mgr. 7. gr. sömu laga. 

Í þessu máli séu til rannsóknar hjá lögreglu ætluð brot kærða, sem varðað geti við annars vegar 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og hins vegar við 194. gr. sömu laga. Um sé að ræða mjög alvarlegar sakargiftir og telji lögreglustjóri, þ.á m. með játningu kærða að hluta, að fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi framið brot gegn framangreindum lagaákvæðum, sem varðað geti fangelsisrefsingu allt að 16 ár.

Kveður lögreglustjóri ljóst að um sé að ræða endurtekin brot af hálfu kærða sem sýni ákveðið hegðunarmynstur hans gagnvart brotaþola. Að mati lögreglustjóra sé brotaþoli trúverðug í frásögn. Þá beri frásögn og hegðun brotaþola merki um langvarandi og grófa misnotkun kærða og virðist hún halda nokkrum hlífiskildi yfir honum og sýna honum jafnvel meðvirkni. Þá virðist hún óttast viðbrögð hans við aðkomu lögreglu í þeim málum sem séu til rannsóknar.  Með vísan til framangreinds telji lögreglustjóri að skilyrði standi til þess að lögregla taki mál þetta til meðferðar og ákvörðunar að eigin frumkvæði, skv. 3. mgr. 3. gr. sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2011.

Það sé mat lögreglustjórans á Suðurlandi að vægari úrræði en brottvísun kærða af heimili sínu og brotaþola og að honum verði jafnframt gert að sæta nálgunarbanni gagnvart brotaþola muni ekki vernda friðhelgi og tryggja öryggi og hagsmuni brotaþola, sbr. 1. gr. 6. gr. laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili, þótt afstaða brotaþola til slíkra úrræða liggi ekki fyrir.

Með vísan til framangreinds og fyrirliggjandi gagna í máli lögreglu nr. 318-2015-[...] hafi lögreglustjórinn á Suðurlandi ákveðið að X, kt. [...] verði gert að yfirgefa heimili sitt að [...], þar sem hann búi ásamt sambýliskonu sinni, í fjórar vikur frá og með birtingu þessarar ákvörðunar, sbr. 5. gr. laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili nr. 85/2011.  Þá sé honum jafnframt gert að sæta nálgunarbanni, sbr. 4. gr. sömu laga, frá og birtingu ákvörðunar þessarar í sex mánuði þannig að lagt sé bann við því að hann komi að eða sé við [...], á svæði sem afmarkist af 50 metra radíus mælt frá miðju hússins, og jafnframt verði honum bannað að veita eftirför, heimsækja eða vera með nokkru öðru móti í beinu sambandi við A, kt. [...] svo sem með símtölum, tölvupósti eða með öðrum hætti.

Var ofangreind ákvörðun birt varnaraðila 16. mars 2015 kl. 11:55.

Forsendur og niðurstaða

Fyrir dóminn hafa verið lögð afrit rannsóknargagna vegna þeirra atvika sem urðu tilefni þess að framangreint nálgunarbann og brottvísun af heimili var ákveðið af lögreglustjóra. Að virtum gögnum málsins ber að fallast á það með lögreglustjóra að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um að hafa framið refsiverð brot umrædd sinn og raskað með því friði brotaþola og að hætta sé á að hann endurtaki það. Ber að geta þess hér að varnaraðili sætir nú gæsluvarðhaldi vegna sömu sakargifta og eru tilefni ákvörðunar lögreglustjóra.

Samkvæmt a-lið 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili er heimilt að beita nálgunarbanni ef rökstuddur grunur er um að sakborningur hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola eða hætta sé á að viðkomandi muni fremja háttsemi samkvæmt framanlýstum a-lið gagnvart brotaþola. Samkvæmt a-lið 5. gr. síðastnefndra laga er heimilt að beita brottvísun af heimili ef  rökstuddur grunur er um að sakborningur hafi framið refsivert brot gegn ákvæðum XXII.–XXIV. kafla almennra hegningarlaga og/eða 108. gr., 233. gr., 233. gr. b, 253. gr. og/eða 257. gr. sömu laga og verknaður hefur beinst að öðrum sem er honum nákominn og tengsl þeirra þykja hafa aukið á grófleika verknaðarins, enda varði brotið fangelsi allt að sex mánuðum, eða skv. b lið ef hætta er á að viðkomandi brjóti gegn brotaþola skv. a-lið. Þykir verða að fallast á það með lögreglustjóra að rökstuddur grunur sé um að varnaraðili hafi gerst sekur um refsiverð brot skv. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1949 gagnvart brotaþola, en brot gegn ákvæðinu geta varðað fangelsi allt að 6 mánuðum en fangelsi allt að einu ári ef háttsemin er sérstaklega vítaverð. Þá verður tekið undir það með lögreglustjóra að rökstuddur grunur sé um að varnaraðili hafi gerst sekur um brot gegn brotaþola þannig að varðað geti við XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá verður að telja tengsl varnaraðila og brotaþola með þeim hætti að auki á grófleika verknaða sem varnaraðili er grunaður um.

Er þannig fullnægt skilyrðum til að varnaraðila verði gert að sæta nálgunarbanni gagnvart brotaþola eins og krafist er. Er jafnframt fullnægt skilyrðum þess að varnaraðila verði vísað af heimilinu eins og krafist er. Tímalengd beggja úrræða þykir í hóf stillt, en hvorki hefur verið sýnt fram á, né gert líklegt, að vægari úrræði geti komið að notum til að tryggja lögverndaða hagsmuni brotaþola. Fram hefur komið að brotaþoli hefur lagst gegn beitingu umræddra úrræða og krafist þess að kröfu lögreglustjóra verði hafnað. Við mat á þessu ber að líta til þess að skv. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/2011 getur lögreglustjóri að eigin frumkvæði tekið mál til meðferðar samkvæmt lögunum telji hann ástæðu til þess. Ræður þá vilji eða afstaða brotaþola ekki baggamuninn og er kröfugerð lögreglustjóra og ákvörðun hans ekki háð vilja brotaþola að þessu leyti. Jafnframt þykir það veikja réttarúrræði það sem felst í nálgunarbanni og brottvísun af heimili, ef slík afstaða brotaþola hindrar beitingu úrræðanna, enda sé skilyrðum þeirra fullnægt að öðru leyti.

Verður þannig fallist á kröfu lögreglustjóra eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Auðuns Helgasonar hdl., ákveðst kr. 163.680 að teknu tilliti til virðisaukaskatts, en ekki er lagaheimild til að ákveða þóknun til annars lögmanns en skipaðs verjanda. Þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Kristrúnar Elsu Harðardóttur hdl., ákveðst kr. 163.680 að teknu tilliti til virðisaukaskatts. Báðar þóknanirnar greiðist úr ríkissjóði og teljast til sakarkostnaðar sbr. 3. mgr. 48. gr. laga nr. 88/2008. 

Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Staðfest er ákvörðun lögreglustjórans á Suðurlandi um að varnaraðila, X, kt. [...] verði gert að yfirgefa heimili sitt að [...], þar sem hann býr ásamt sambýliskonu sinni, í fjórar vikur frá og með 16. mars 2015, sbr. 5. gr. laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili nr. 85/2011. Jafnframt er staðfest ákvörðun lögreglustjóra um að varnaraðili sæti nálgunarbanni, sbr. 4. gr. sömu laga, frá og með 16. mars 2015 í sex mánuði þannig að lagt er bann við því að hann komi að eða sé við [...], á svæði sem afmarkast af 50 metra radíus mælt frá miðju hússins, og jafnframt er honum bannað að veita eftirför, heimsækja eða vera með nokkru öðru móti í beinu sambandi við A, kt. [...] svo sem með símtölum, tölvupósti eða með öðrum hætti.

Úr ríkissjóði greiðist þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Auðuns Helgasonar hdl., kr. 163.680, sem og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Kristrúnar Elsu Harðardóttur hdl., kr. 163.680, en báðar þóknanir eru að meðtöldum virðisaukaskatti.