Hæstiréttur íslands
Mál nr. 218/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Kæruheimild
- Lögbann
- Friðhelgi einkalífs
- Tjáningarfrelsi
- Gagnaöflun
|
|
Föstudaginn 24. maí 2002. |
||
|
Nr. 218/2002. |
Hrönn Sveinsdóttir |
|
|
|
|
Árni Sveinsson |
|
|
|
|
Böðvar Bjarki Pétursson |
|
|
|
|
Inga Rut Sigurðardóttir og |
|
|
|
|
Tuttugu geitur sf. |
|
|
|
|
(Erla S. Árnadóttir hrl.) |
|
|
|
|
gegn |
|
|
|
|
Ungfrú Íslandi ehf. |
|
|
|
|
Elvu Dögg Melsteð Ingunni Hafdísi Hauksdóttur |
|
|
|
|
|
|
|
|
|
Írisi Hrund Þórarinsdóttur |
|
|
|
|
Margréti Jóelsdóttur |
|
|
|
|
Maren Ösp Hauksdóttur |
|
|
|
|
Jóhönnu Ósk Halldórsdóttur |
|
|
|
|
Margréti Óskarsdóttur |
|
|
|
|
Sunnu Þorsteinsdóttur |
|
|
|
|
Halldóru Þorvaldsdóttur |
|
|
|
|
Agnesi Ósk Þorsteinsdóttur |
|
|
|
|
Ingu Kristínu Campos |
|
|
|
|
Írisi Björk Árnadóttur |
|
|
|
|
Pálu Hallgrímsdóttur og |
|
|
|
|
Elvu Hrönn Eiríksdóttur |
|
|
|
|
(Ragnar Aðalsteinsson hrl.) |
|
|
Kærumál. Kæruheimild. Lögbann. Friðhelgi einkalífs. Tjáningarfrelsi. Gagnaöflun.
U ehf. o.fl. kröfðust þess að lagt yrði lögbann við því að H o.fl. gæfu út, sýndu eða birtu opinberlega með öðrum hætti kvikmynd sem sýndi og fjallaði um fegurðarsamkeppni. Hafði H, sem var einn keppenda, ýmist sjálf tekið eða fengið aðra til að taka upp á myndband talsvert efni frá undirbúningi og framkvæmd keppninnar, sem sneri bæði að henni sjálfri og öðrum keppendum. Hafði hún í framhaldi af því notað efni úr þessum upptökum við gerð kvikmyndar, sem var kynnt opinberlega að fyrirhugað væri að sýna almenningi. Héraðsdómari taldi að H o.fl. þyrftu að bera hallann af því að neita að sýna kvikmyndina við meðferð málsins, og að aðrir lögbannsbeiðendur en U ehf. hefðu á þeim grunni nægilega gert sennilegt að með sýningu kvikmyndarinnar yrði vegið að friðhelgi einkalífs þeirra. Við meðferð málsins fyrir Hæstarétti lögðu H o.fl. fram eintak af kvikmyndinni. Í dómi Hæstaréttar segir að H o.fl. hafi lítið sem ekkert vísað til þessa eintaks af myndinni í málatilbúnaði sínum fyrir réttinum. Liggi þannig ekki nægilega fyrir hvað H o.fl. telji sannað með þessu gagni í einstökum atriðum. Til þess verði einnig að líta að í greinargerð þeirra sé tekið fram að þetta eintak af kvikmyndinni sé aðeins til afnota fyrir dómendur, en um helmingur keppenda hafi ásamt lögmanni horft á þessa gerð hennar og geti á þeim grunni tjáð sig um verkið ef efni séu talin til þess. Með þessu háttalagi við gagnaöflun hafi H o.fl. virt að vettugi þá grundvallarreglu einkamálaréttarfars að jafnræðis beri að gæta um rétt málsaðila til að kynna sér og tjá sig um sönnunargögn gagnaðila síns. Auk þessa hafi H o.fl. með því að leggja fyrst fram á þessu stigi eintak af kvikmyndinni raskað í öllum meginatriðum þeim grundvelli, sem þau hafi kosið sjálf að reisa málatilbúnað sinn á fyrir héraðsdómi. Þegar alls þessa sé gætt séu ekki skilyrði til að taka tillit til þessa sönnunargagns við úrlausn málsins fyrir Hæstarétti. Var hinn kærði úrskurðar því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 29. apríl 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. maí sama árs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. apríl 2002, þar sem lagt var fyrir sýslumanninn í Reykjavík að leggja lögbann við því að sóknaraðilar gefi út, sýni eða birti á annan hátt opinberlega kvikmynd um keppnina Ungfrú Ísland.is árið 2000. Um kæruheimild vísa sóknaraðilar til 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Þau krefjast þess að staðfest verði ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 19. mars 2002 um að hafna kröfu varnaraðila um lögbann, svo og að lagt verði fyrir hann að fella niður lögbann, sem hann mun hafa lagt á 24. apríl 2002 samkvæmt hinum kærða úrskurði. Sóknaraðilar krefjast einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Í báðum tilvikum krefjast varnaraðilar kærumálskostnaðar.
I.
Samkvæmt 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. gilda meðal annars ákvæði 86. - 91. gr. laga nr. 90/1989 um meðferð máls, sem rekið er fyrir dómi á grundvelli V. kafla fyrrnefndu laganna. Af því leiðir að heimild í 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989, eins og þeim var breytt með 102. gr. laga nr. 92/1991, nær til þess að kæra úrskurð héraðsdómara í slíku máli. Eru af þessum sökum engin efni til að fallast á með varnaraðilum að heimild bresti hér til kæru. Verður aðalkröfu þeirra fyrir Hæstarétti því hafnað.
II.
Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði hélt varnaraðilinn Ungfrú Ísland ehf. á árinu 2000 keppni, sem nefnd var Ungfrú Ísland.is. Aðrir varnaraðilar voru þar keppendur ásamt sóknaraðilanum Hrönn Sveinsdóttur, svo og einum þátttakanda enn, sem upphaflega stóð að málinu með varnaraðilum en dró sig út úr því undir rekstri þess fyrir héraðsdómi. Sóknaraðilinn Hrönn mun ýmist sjálf hafa tekið eða fengið aðra til að taka upp á myndband talsvert efni frá undirbúningi og framkvæmd keppninnar, sem sneri bæði að henni sjálfri og öðrum keppendum. Er því borið við af varnaraðilum að hún hafi sagt þessar upptökur vera gerðar til einkanota sinna, en aldrei leitað samþykkis þeirra fyrir því að þær yrðu nýttar á annan hátt. Óumdeilt er í málinu að sóknaraðilar hafa nú notað efni úr þessum upptökum við gerð kvikmyndar, sem þau nefna „Í skóm drekans“ og hafa kynnt opinberlega að fyrirhugað sé að sýna almenningi.
Með beiðni 7. mars 2002 leituðu varnaraðilar eftir því við sýslumanninn í Reykjavík að lagt yrði lögbann við því að sóknaraðilar „gefi út, sýni eða birti opinberlega með öðrum hætti kvikmynd sem sýnir og fjallar um keppnina Ungfrú Ísland.is árið 2000 og sýnir m.a. myndskeið frá undirbúningi keppninnar, framkvæmd keppninnar, frá keppnishaldi og myndefni af þátttakendum keppninnar.“ Sýslumaður hafnaði þessari beiðni með ákvörðun 19. mars 2002. Varnaraðilar leituðu 22. sama mánaðar úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur um þá ákvörðun og var mál þetta þingfest af því tilefni 11. apríl sl. Með hinum kærða úrskurði var því hafnað að skilyrðum væri fullnægt fyrir lögbanni samkvæmt kröfu varnaraðilans Ungfrúr Íslands ehf., en fallist á hinn bóginn á kröfu annarra varnaraðila um það. Fram er komið að sýslumaðurinn í Reykjavík lagði á lögbann þessu til samræmis 24. apríl 2002.
III.
Svo sem áður greinir hafnaði héraðsdómari því að skilyrði væru til að leggja á samkvæmt kröfu varnaraðilans Ungfrúr Íslands ehf. lögbann við umræddum athöfnum sóknaraðila. Liggur ekki annað fyrir en að lögbann sýslumanns 24. apríl 2002 samkvæmt hinum kærða úrskurði hafi aðeins náð fram að ganga eftir kröfu annarra varnaraðila. Varnaraðilinn Ungfrú Ísland ehf. hefur ekki kært úrskurð héraðsdómara fyrir sitt leyti og hafa því sóknaraðilar að ófyrirsynju beint að honum kröfum sínum fyrir Hæstarétti. Þegar af þessum sökum verður hinn kærði úrskurður látinn standa óraskaður að því er varðar þennan varnaraðila, en um kærumálskostnað til hans fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.
IV.
Þegar mál þetta var þingfest fyrir héraðsdómi skoruðu varnaraðilar á sóknaraðila að sýna fyrir dómi fyrrnefnda kvikmynd eða að minnsta kosti það efni í hana, sem sóknaraðilar höfðu þá þegar sýnt öðrum. Verður að ætla að með því síðastnefnda hafi varnaraðilar haft í huga að fyrir lá að sóknaraðilar höfðu efnt til sýningar á vinnslueintaki af kvikmyndinni handa boðsgestum 18. mars 2002 þegar enn var beðið niðurstöðu sýslumanns um hvort orðið yrði við kröfu varnaraðila um lögbann. Í greinargerð sóknaraðila, sem lögð var fram í héraði 18. apríl 2002, var hafnað að verða við þessari áskorun. Í hinum kærða úrskurði brást héraðsdómari réttilega við þessu á þann hátt, sem um ræðir í 1. mgr. 68. gr., sbr. 70. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, og taldi á þeim grunni nægilega gert sennilegt að með sýningu kvikmyndarinnar yrði vegið að friðhelgi einkalífs einstaklinganna, sem eru meðal varnaraðila.
Sóknaraðilar hafa nú lagt fram fyrir Hæstarétti eintak af kvikmyndinni „Í skóm drekans“. Þrátt fyrir þetta hafa sóknaraðilar lítið sem ekkert vísað til þessa eintaks af myndinni í málatilbúnaði sínum fyrir Hæstarétti. Liggur þannig ekki nægilega fyrir hvað sóknaraðilar telja sannað með þessu gagni í einstökum atriðum. Til þess verður einnig að líta að í greinargerð sóknaraðila fyrir Hæstarétti er tekið fram að þetta eintak af kvikmyndinni sé aðeins til afnota fyrir dómendur, en um helmingur varnaraðila hafi ásamt lögmanni horft á þessa gerð hennar 11. maí sl. og geti á þeim grunni tjáð sig um verkið ef efni eru talin til þess. Með þessu háttalagi við gagnaöflun hafa sóknaraðilar virt að vettugi þá grundvallarreglu einkamálaréttarfars að jafnræðis beri að gæta um rétt málsaðila til að kynna sér og tjá sig um sönnunargögn gagnaðila síns. Auk þessa hafa sóknaraðilar með því að leggja fyrst fram á þessu stigi eintak af kvikmyndinni raskað í öllum meginatriðum þeim grundvelli, sem þau kusu sjálf að reisa málatilbúnað sinn á fyrir héraðsdómi. Þegar alls þessa er gætt eru ekki skilyrði til að taka tillit til þessa sönnunargagns við úrlausn málsins fyrir Hæstarétti.
Samkvæmt framansögðu verður dómur felldur á mál þetta á þeim grunni, sem það kom til úrlausnar fyrir héraðsdómi. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðilum verður gert í sameiningu að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðilar, Hrönn Sveinsdóttir, Árni Sveinsson, Böðvar Bjarki Pétursson, Inga Rut Sigurðardóttir og Tuttugu geitur sf., greiði í sameiningu varnaraðilum, Ungfrú Íslandi ehf., Elvu Dögg Melsteð, Ingunni Hafdísi Hauksdóttur, Írisi Hrund Þórarinsdóttur, Margréti Jóelsdóttur, Maren Ösp Hauksdóttur, Jóhönnu Ósk Halldórsdóttur, Margréti Óskarsdóttur, Sunnu Þorsteinsdóttur, Halldóru Þorvaldsdóttur, Agnesi Ósk Þorsteinsdóttur, Ingu Kristínu Campos, Írisi Björk Árnadóttur, Pálu Hallgrímsdóttur og Elvu Hrönn Eiríksdóttur, hverjum fyrir sig 15.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. apríl 2002.
Mál þetta var var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þann 11. apríl sl. Sóknaraðilar eru Ungfrú Ísland ehf., kt. 531099-2309, Laugarnesvegi 73, Reykjavík, Elva Dögg Melsteð, kt. 140279-3909, Tómasarhaga 38, Reykjavík, Ingunn Hafdís Hauksdóttir, kt. 010276-3579, Fjörugranda 10, Reykjavík, Íris Hrund Þórarinsdóttir, kt. 111082-53709, Hverafold 35, Reykjavík, Margrét Jóelsdóttir, kt. 130878-4829, Bólstaðahlíð 23, Reykjavík, Maren Ösp Hauksdóttir, kt. 090379-4539, Esjuvöllum 21, Akranesi, Jóhanna Ósk Halldórsdóttir, kt. 150682-3989, Neðri Breiðadal, Flateyri, Margrét Óskarsdóttir, kt. 270780-5129, Starengi 3, Selfossi, Sunna Þorsteinsdóttir, kt. 090779-5169, Danmörku, Karólína Einarsdóttir, kt. 090680-3589, Laugavöllum 17, Egilsstöðum, Halldóra Þorvaldsdóttir, kt. 200482-3959, Starmóa 14, Njarðvík, Agnes Ósk Þorsteinsdóttir, kt. 080982-5859, Áshamri 69, Vestmannaeyjum, Inga Kristín Campos, kt. 010879-2139, Stuðlabergi 66, Hafnarfirði, Íris Björk Árnadóttir, kt. 220781-4109, Bergsmára 4, Kópavogi, Pála Hallgrímsdóttir, kt. 231282-4409, Heiðarhjalla 39, Kópavogi, Elva Hrönn Eiríksdóttir, kt. 310378-4619, Langholtsvegi 173, Reykjavík.
Við aðalmeðferð málsins, þann 22. apríl sl. tilkynnti lögmaður sóknaraðila að Karólína Einarsdóttir væri ekki lengur aðili að máli þessu.
Varnaraðilar eru, Hrönn Sveinsdóttir, kt. 250777-5159, Bergstaðastræti 7, Reykjavík, Árni Sveinsson, kt. 090576-4539, Bergstaðastræti 7, Reykjavík, Böðvar Bjarki Pétursson, kt. 141062-2989, Víðihvammi 34, Kópavogi og Inga Rut Sigurðardóttir, kt. 200258-4289, Víðihvammi 34, Kópavogi, persónulega og sem sameigendur f.h. Tuttugu geitna sf., kt. 611189-1769, með aðsetur að Laugavegi 178, Reykjavík.
Dómkröfur sóknaraðila eru þær að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 19. mars 2002 um að synja um lögbann í máli nr. L-16/2002 og að lagt verði fyrir sýslumann að leggja á lögbann við því að varnaraðilar gefi út, sýni eða birti opinberlega með öðrum hætti kvikmynd sem sýnir og fjallar um keppnina Ungfrú Ísland.is árið 2000 þar sem sýnd eru m.a. myndskeið frá undirbúningi keppninnar, framkvæmd keppninnar, frá keppnishaldi og myndefni af þátttakendum keppninnar. Þá krefjast sóknaraðilar málskostnaðar sameiginlega úr hendi varnaraðila in solidum að mati dómsins.
Dómkröfur varnaraðila eru þær að staðfest verði ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 19. mars 2002 um að synja um lögbann í máli nr. L-16/2002 og að þeir verði sýknaðir af kröfum sóknaraðila um að leggja fyrir sýslumann að leggja á umbeðið lögbann.
Að varnaraðilar verði sýknaðir af málskostnaðarkröfu sóknaraðila og sóknaraðilar greiði in solidum varnaraðilum málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, þar með talinn kostnað vegna meðferðar máls fyrir sýslumanninum í Reykjavík. Gerð er krafa um að sóknaraðilar greiði in solidum varnaraðilum málskostnað hverjum fyrir sig og beri málskostnaður til Hrannar og Árna Sveinsbarna virðisaukaskatt samkvæmt lögum nr. 50/1988.
I
Málavextir
Árið 2000 stóð sóknaraðili, Ungfrú Ísland ehf., fyrir keppninni Ungfrú Íslandi.is. Hafði sóknaraðili útfært hugmynd sína um fegurðarsamkeppni í það form sem keppnin Ungfrú Ísland.is fékk, ákveðið útlit keppninnar og hannað alla umgjörð hennar. Aðrir sóknaraðilar eru 14 af þátttakendum keppninnar árið 2000 en auk þeirra skráði varnaraðili, Hrönn Sveinsdóttir, sig til keppninnar. Á meðan á undirbúningi keppninnar stóð tók varnaraðili upp, eða fékk aðstoð við upptökur af undirbúningi og framkvæmd keppninnar og öðrum þátttakendum hennar. Kallaði hún upptökur sínar “video-dagbók”.
Síðastliðið haust fengu sóknaraðilar í hendur myndbandsspólu með bútum úr því myndefni sem fyrirhugað var að nota í myndinni “Í skóm drekans”.
Í febrúar hófu að birtast í fjölmiðlum viðtöl við varnaraðila vegna fyrirhugaðrar sýningar heimildarmyndarinnar og voru m.a. birt í fjölmiðlum brot úr myndinni, sem innihéldu m.a. myndskeið frá keppninni og frá undirbúningi hennar sem tekin höfðu verið upp á vegum varnaraðila. Hefur því verið lýst yfir af varnaraðilum að myndin verði frumsýnd þann 25. apríl nk.
Hinn 14. mars sl. var tekin fyrir hjá sýslumanninum í Reykjavík lögbannsgerð nr. L-16/2002. Aðilar að gerðinni voru sóknaraðilar og varnaraðilar þessa máls. Í lögbannsbeiðninni var þess krafist að lagt yrði lögbann við sýningu myndarinnar sem sýnir m.a. myndskeið frá undirbúningi keppninnar, framkvæmd hennar og keppnishaldi og myndefni af þátttakendum keppninnar.
Ákvörðun fulltrúa sýslumanns að synja gerðarbeiðendum um framgang lögbannsins lá fyrir þann 19. mars sl. Til grundvallar þeirri ákvörðun lá það mat fulltrúa sýslumanns að gerðarbeiðendur hefðu ekki sannað eða gert sennilegt að ákveðin athöfn væri byrjuð eða yfirvofandi af hálfu gerðarþola sem bryti eða myndi brjóta gegn lögvörðum rétti þeirra og skilyrðum 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. væri því ekki fullnægt. Með vísan til heimildar í 33. gr. laga nr. 31/1990 var þeirri ákvörðun skotið til Héraðsdóms Reykjavíkur með bréfi dags. 22. mars sl.
II
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðilar byggja kröfur sínar á því að Ungfrú Ísland ehf. hafi tekið þá ákvörðun fyrir fáeinum árum að skipuleggja keppni þá sem þegar hafi verið haldin þrívegis í Reykjavík undir nafninu Ungfrú Ísland.is. Hugmyndin á bak við þá samkeppni sé önnur en sú hugmynd sem liggi að baki öllum öðrum sambærilegum atburðum hér á landi. Í hugmyndum skipuleggjendanna felist nýjungar sem njóti verndar að lögum. Í fyrsta lagi njóti hugmyndin og handritið að hugmyndinni verndar að höfundalögum. Umhverfi eða sviðsmynd keppninnar njóti einnig verndar að höfundarétti. Hugmyndin njóti að auki verndar sem viðskiptahugmynd samkvæmt almennum lagareglum um vernd slíkra hugmynda. Þá njóti atburðurinn árið 2000 verndar að samkeppnisrétti og öðrum sé óheimilt að fénýta sér hugmyndina t.d. með því að taka keppnina og undirbúning hennar upp á kvikmynd eða annað myndform í því skyni að birta það opinberlega og fénýta sér þar með hina upphaflegu hugmynd, allt án heimildar rétthafanna. Þetta sé t.d. brýnt brot á 20. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 þar sem fjallað sé um ólögmæta viðskiptahætti.
Sóknaraðili, Ungfrú Ísland ehf., hafi staðið fyrir keppninni Ungfrú Íslandi.is á árinu 2000. Hafi sóknaraðili útfært hugmynd sína um fegurðarsamkeppni í það form sem keppnin Ungfrú Ísland.is hafi fengið, ákveðið útlit keppninnar og hannað alla umgjörð hennar. Ungfrú Ísland ehf. hafi aflað sér nauðsynlegra heimilda þátttakenda í keppninni til að taka upp myndefni frá henni og sýna hana opinberlega og eigi einkarétt á sýningum frá keppninni. Með samningi hafi Ungfrú Ísland ehf. veitt Íslenska útvarpsfélaginu hf. einkarétt til að sjónvarpa beint frá keppninni. Þá hafi einnig verið gerður samningur við hina heimsþekktu fyrirsætu Claudiu Schiffer um að hún mætti til keppninnar og tæki sæti í dómnefnd hennar. Hafi sóknaraðili, Ungfrú Ísland ehf., skuldbundið sig til að koma í veg fyrir óheimilar myndatökur af Claudiu Schiffer. Aðrir sóknaraðilar séu þátttakendur í keppninni árið 2000 en auk þeirra hafi varnaraðili, Hrönn Sveinsdóttir, skráð sig til keppninnar.
Þá byggja sóknaraðilar jafnframt á því að skipuleggjendur keppninnar hafi kynnt og auglýst hana á tíðkanlegan hátt m.a. í sjónvarpi. Varnaraðilum sé með öllu óheimilt að nota það efni án samþykkis skipuleggjenda og þátttakenda í keppninni. Varnaraðilar getiyggja sóknaraðilar jafnframt á því að skipuleggjendur keppninnar hafi kynnt og auglýst hana á tíðka ekki borið fyrir sig að það réttlæti birtingu og fyrirhugaðar birtingar þeirra, án heimildar, að skipuleggjendur og keppendur heimiluðu birtingu myndefnis til kynningar á keppninni.
Sóknaraðilar benda á að á meðan á undirbúningi keppninnar hafi staðið hafi varnaraðili, Hrönn, lagt það í vana sinn að taka upp myndefni af undirbúningi og framkvæmd keppninnar og af öðrum þátttakendum hennar. Yfirleitt hafi þessar myndatökur varnaraðila, Hrannar, farið fram án leyndar en þó hafi það gerst í nokkur skipti að aðstandendur keppninnar hafi uppgötvað falda myndavél hjá varnaraðila, Hrönn. Sumir sóknaraðila sem hafi verið þátttakendur í keppninni hafi ekki kært sig um slíkar myndatökur og beðið varnaraðila, Hrönn, að hætta að taka upp myndefni af þeim. Yfirleitt hafi varnaraðili, Hrönn, ekki orðið við slíkum bónum. Varnaraðili, Hrönn, hafi frá upphafi tilkynnt sóknaraðilum það að hún væri einungis að taka upp myndefni til einkanota fyrir sjálfa sig í minningarskyni. Hafi hún kallaði upptökur sínar "video-dagbók". Aldrei nokkurn tíma hafi hún sagt við sóknaraðila, hvorki við aðstandendur, starfsfólk né þátttakendur keppninnar að hún hygðist nota myndefnið í öðrum tilgangi en til einkanota.
Þann 1. mars sl. hafi birst viðtal við varnaraðila, Hrönn Sveinsdóttur og Árna Sveinsson, í blaðinu Fókus sem fylgi DV á föstudögum. Af orðum varnaraðila þar megi helst ráða að varnaraðili, Hrönn, hafi skráð sig í keppnina á fölskum forsendum, þ.e. til að taka upp myndefni af undirbúningi og framkvæmd keppninnar og birta það opinberlega án samþykkis sóknaraðila. Með orðum sínum þar viðurkenni varnaraðilar einnig að þeim sé ljóst að slík upptaka myndefnis í þeim tilgangi að birta opinberlega hafi verið þeim frá upphafi óheimil. Megi því segja að varnaraðilar hafi gert samning við sóknaraðila um að það myndefni sem hún þó fengi að taka upp væri eingöngu til einkanota en alls ekki til opinberrar birtingar. Þennan samning séu varnaraðilar nú að brjóta.
Sóknaraðilar benda á að varnaraðili, Hrönn Sveinsdóttir, hafi tekið þátt í keppninni á röngum forsendum. Hún hafi látist vera þátttakandi eins og hver annar þátttakandi í keppninni en hafi í raun verið að gera kvikmynd um keppnina, undirbúning og framkvæmd. Jafnframt hafi hún tekið eða látið taka myndir af öðrum þátttakendum í keppninni við ýmsar aðstæður og á stundum við viðkvæmar einkalífsaðstæður, svo sem í búningsherbergjum keppendanna. Þetta hafi hún gert með þeirri skýringu að hún væri að gera vídeódagbók til einkanota eingöngu. Hún hafi hvorki leitað samþykkis keppenda né skipuleggjenda keppninnar fyrir því að efnið yrði birt með einhverjum hætti opinberlega. Hvorki keppendur né starfsmenn eða forsvarsmenn keppninnar hafi á nokkru tímaskeiði haft minnstu ástæðu til að ætla að varnaraðilar ynnu að gerð heimildarmyndir um keppnina og undirbúning hennar. Sóknaraðilar hafi mátt treysta því að varnaraðilinn, Hrönn, brygðist ekki því trúnaðarsambandi sem til hafi verið stofnað annars vegar milli keppendanna sjálfra og hins vegar milli keppendanna og skipuleggjenda keppninnar. Með því að hafa þegar birt kafla af uppteknu efni opinberlega og með því að hafa boðað sýningu á efninu í heild í kvikmyndahúsi fyrir almenning á næstunni hafi varnaraðilar gerst sekir um trúnaðarbrot gagnvart sóknaraðilum.
Sóknaraðilar telja að myndbirting af þátttakendum í keppninni sé með öllu óheimil án sérstaks leyfis hvers og eins keppanda og frá þeirri meginreglu séu aðeins takmarkaðar undantekningar. Þær undantekningarreglur eigi ekki við í máli þessu og sé því myndbirting ein sér brot á persónuréttindum keppendanna. Slík myndbirting geti ekki verið réttlætt af tjáningarfrelsissjónarmiðum í þessu tilviki þar sem þau þröngu skilyrði sem verði að vera fyrir hendi séu ekki uppfyllt. Hafi varnaraðili hug á að tjá sig um slíka samkeppni almennt eða jafnvel þessa samkeppni sérstaklega þá sé ekkert því til fyrirstöðu, enda gæti varnaraðilar einkalífs- og persónuréttinda þátttakenda.
Sóknaraðilar benda á að ljóst sé að enginn varnaraðila hafi gert samning um upptöku, dreifingu eða framleiðslu á myndefni um keppnina Ungfrú Ísland.is við eigendur hennar eða þátttakendur. Þá hafi enginn sóknaraðila heimilað varnaraðilum að birta myndefni sem tekið hafi verið upp við undirbúning og framkvæmd keppninnar Ungfrú Ísland.is opinberlega. Þvert á móti hafi sóknaraðilar ávallt gert varnaraðilum það ljóst að sóknaraðilar heimiluðu ekki slíka birtingu.
Í fyrirtöku hjá sýslumanninum í Reykjavík þann 13. mars 2002 þar sem allir varnaraðilar hafi verið viðstaddir hafi því verið lýst yfir fyrir þeirra hönd að varnaraðilar myndu ekki aðhafast neitt sem bryti í bága við kröfur sóknaraðila samkvæmt framlagðri lögbannsbeiðni á meðan málið væri til meðferðar hjá sýslumanni. Hafi þessi yfirlýsing varnaraðila verið færð til bókar af fulltrúa sýslumanns. Áður en sýslumaður hafi kveðið upp úrskurð sinn um hvort lögbann yrði lagt á eða ekki hafi varnaraðilar sýnt vinnslueintak myndarinnar "Í skóm drekans" opinberlega þvert á fyrri yfirlýsingar sínar. Hafi sú sýning myndarinnar farið fram þann 18. mars 2002, að sögn varnaraðila, og hafi á þá sýningu verið boðið fólki úr röðum kvikmyndaframleiðenda. Varnaraðilar hafi hins vegar aldrei leyft sóknaraðilum að sjá myndina og hafi lýst því yfir að sóknaraðilum verði ekki sýnd myndin fyrr en örskömmu fyrir frumsýningu hennar. Áður hafi varnaraðilar hins vegar margoft lofað að sýna sóknaraðilum myndina og oft nefnt ákveðnar dagsetningar í því sambandi en aldrei staðið við það.
Sóknaraðilar byggja kröfur sínar á því að skilyrðum 24. gr. laga nr. 31/1990 sé fullnægt fyrir því að lagt verði lögbann við því að varnaraðilar grípi til slíkrar háttsemi að sýna myndefni það sem tekið var upp opinberlega.
(i) Byrjuð eða yfirvofandi athöfn: Frá því í febrúar hafi varnaraðilar markaðssett og auglýst sýningu myndar sem þau kalli "Í skóm drekans" og kveði að fjalli um keppnina Ungfrú Ísland.is árið 2000 frá sjónarhóli þátttakanda. Hafi varnaraðilar komið fram í fjölmiðlum til að auglýsa sýningu myndarinnar, m.a. hafi varnaraðilar, Hrönn og Árni, komið fram í þættinum Á milli himins og jarðar sem hafi verið sýndur á RÚV þann 23. febrúar sl. Þá hafi varnaraðilar komið fram í sjónvarpsþættinum Þátturinn sem hafi verið sýndur á Skjá einum. Einnig hafi verið viðtal við sömu varnaraðila í blaðinu Fókus sem hafi komið út þann 1. mars sl. Því hafi verið lýst yfir af varnaraðilum að myndin verði sýnd opinberlega í kvikmyndahúsum þann 25. apríl nk. Nú þegar séu varnaraðilar farnir að sýna brot úr myndinni í fjölmiðlum og að auki hafi varnaraðilar lýst því yfir í fyrirtöku hjá sýslumanni þann 19. mars sl. að þau hefðu deginum áður, þ.e. 18. mars sl., sýnt aðilum úr röðum kvikmyndaframleiðenda myndina þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar sínar um að sýna myndina ekki. Af þessu megi ljóst vera að um byrjaða og/eða yfirvofandi athöfn er að ræða; athöfnin sé byrjuð í þeim skilningi að varnaraðilar séu þegar farnir að sýna í sjónvarpi brot úr myndinni og hafi auk þess sýnt hópi fólks myndina, og athöfnin yfirvofandi í þeim skilningi að yfirlýst sé af hálfu varnaraðila og staðfest af Sambíóunum að opinber frumsýning myndarinnar verði í kvikmyndahúsum í lok apríl.
(ii) Sannað eða gert sennilegt að háttsemi brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti gerðarbeiðenda. Hvað þetta varði telja sóknaraðilar mál þetta tvíþætt, þ.e. að það snúi annars vegar að keppnishöldurum, Ungfrú Íslandi ehf., og hins vegar að þátttakendum í keppninni. Verði fyrst fjallað um röksemdir og sjónarmið sóknaraðila sem hafi verið þátttakendur í keppninni Ungfrú Ísland.is árið 2000.
a) Lögvarður réttur sóknaraðila sem hafi verið þátttakendur í keppninni:Sóknaraðilar sem einnig hafi verið þátttakendur í keppninni Ungfrú Íslandi.is árið 2000 hafi aldrei veitt varnaraðilum samþykki sitt til að sýna megi opinberlega það myndefni sem tekið hafi verið upp á vegum varnaraðila, Hrannar, meðan á undirbúningi og framkvæmd keppninnar stóð. Hafi upptökurnar ekki farið fram með vitund og vilja keppenda, oft og tíðum hafi keppendur ekki vitað um upptökurnar og stundum hafi þær beðið um að varnaraðili hætti upptökum. Í þau skipti sem sóknaraðilar, sem jafnframt hafi verið keppendur, hafi vitað af upptökum af sér, hafi það verið á þeim forsendum að varnaraðili væri að taka upp myndefni til einkanota en alls ekki til opinberrar sýningar. Myndefni það sem varnaraðili, Hrönn, hafi tekið af sóknaraðilum sem jafnframt séu þátttakendur í keppninni, sé tekið við mjög persónulegar aðstæður, svo sem myndefni af keppendum fáklæddum baksviðs, eða einkasamtöl á milli keppenda eða starfsmanna keppninnar. Telji sóknaraðilar að með birtingu myndefnis varnaraðila og myndarinnar "Í skóm drekans" sé freklega brotið gegn friðhelgi einkalífs þeirra, sem verndað sé í stjórnarskrá, þar sem umrætt myndefni og umrædd mynd sýni upptökur af þeim í einkasamtölum við varnaraðila Hrönn eða aðra og myndefni sem tekið sé við mjög persónulegar aðstæður. Slíkar uppljóstranir um einkalíf séu með öllu óheimilar og ólöglegar og sé vísað til Hrd. 1968, bls. 1007 hvað það varðar. Bent er á að sú athöfn að birta myndir án samþykkis þess sem myndirnar eru af, sé óheimil og ólögleg og hvað það varðar er vísað til Ufr. 1987, bls. 934, til Ufr. 1987, bls. 937, Ufr, 1916, bls. 729, Ufr. 1969, bls. 233, Ufr. 1987, bls. 859 og Ufr. 1973, bls. 730. Vinnubrögð varnaraðila við gerð þessarar myndar séu ekki í samræmi við þau vinnubrögð sem viðurkennd séu og lögleg við gerð slíkra mynda enda ljóst að þeir sem koma fram í slíkri mynd verði að gefa samþykki sitt fyrir því.
b) Lögvarður réttur sóknaraðila sem hafi verið aðstandendur keppninnar: Sóknaraðili, Ungfrú Ísland ehf., hafi kostað keppnina Ungfrú Ísland.is. Ungfrú Ísland ehf. hafi fengið hugmyndina, útfært hugmyndina, hannað útlit keppninnar og umgjörð, m.a. hönnun keppnissviðsins og útlit keppenda hvað klæðnað varðaði og ákveðið allt sem við hafi komið keppnishaldi og markaðssetningu o.þ.h. Keppnin Ungfrú Ísland.is sé þeirra eign. Þeir einir fái að koma baksviðs á keppnina sem starfi við að setja keppnina upp eða séu þátttakendur í keppninni. Þau svæði þar sem æfingar fyrir keppnina og þ.h. hafi farið fram séu ekki opinber vettvangur, heldur þvert á móti einkavettvangur sóknaraðila. Sóknaraðili, Ungfrú Ísland ehf., hafi aflað sér nauðsynlegra heimilda þátttakenda til þess að taka upp keppnina og einkarétt á því að sýna hana og/eða frá henni opinberlega. Gerður hafi verið samningur við Íslenska sjónvarpsfélagið hf. um einkarétt þess til beinnar sjónvarpsútsendingar frá keppninni. Sé þannig ljóst að staða sóknaraðila, Ungfrú Íslands ehf., sé algerlega hliðstæð stöðu kvikmyndaframleiðanda og eigi einkarétt á því að taka upp og sýna efni sem sóknaraðili hafi sjálfur kostað til. Keppnin sé eign Ungfrú Íslands ehf., hún sé eign fyrirtækisins. Þannig sé það fyrirtækisins að ákveða hver fái að taka myndir af atburðinum, hver fái kvikmyndatöku- og/eða sjónvarpsrétt frá keppninni. Brjóti þannig opinber sýning varnaraðila á myndefni sem hún hafi tekið upp við undirbúning og framkvæmd keppninnar gegn lögvörðum einkarétti sóknaraðila. Sóknaraðili, Ungfrú Ísland ehf., eigi einkarétt og jafnframt höfundarétt á umgjörð keppninnar og framsetningu hennar, m.a. á hönnun keppnissviðsins. Myndefni sem sýni umgjörð og framsetningu keppninnar, m.a. keppnissviðið brjóti gegn lögvörðum höfundarétti sóknaraðila. Sé í þessu skyni m.a. vísað til 3. gr. höfundalaga nr. 73/1972. Varnaraðili, Hrönn Sveinsdóttir, hafi skráð sig til keppninnar sem þátttakandi, enda hafi henni verið ljóst að hún fengi aðeins á þann hátt aðgang að einkasvæðum keppninnar eins og t.d. baksviðs og aðgang á æfingar keppninnar. Á annan hátt en með skráningu til keppninnar hefði varnaraðili aldrei haft aðgang að því myndefni sem hún síðan tók upp á þeim forsendum að um einkanot væri að ræða.
(iii) Réttindi fari forgörðum ef beðið yrði dóms. Varnaraðilar séu þegar byrjaðir að sýna opinberlega brot úr myndinni í fjölmiðlum sem m.a. sýni myndefni sem gangi gegn rétti sóknaraðila. Því hafi verið lýst yfir að myndin "Í skóm drekans" verði sýnd opinberlega í lok apríl. Það sé því ljóst að ef beðið yrði dóms um réttindi sóknaraðila myndu þau réttindi fara forgörðum. Lítill tími sé til stefnu fyrir sóknaraðila og eina leiðin til að forða tjóni sé að lögbann verði lagt við sýningu umræddrar myndar.
(iv) Réttarreglur um refsingu eða skaðabætur tryggi ekki nægilega rétt gerðarbeiðanda. Háttsemi varnaraðila varði bæði við hegningarlög og sé skaðabótaskyld. Ljóst sé að sóknaraðilar verði fyrir gríðarlegu tjóni við sýningu myndefnis frá keppninni Ungfrú Ísland.is árið 2000, framkvæmd keppninnar og/eða undirbúningi hennar. 229., 234., 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga leggi fangelsis- eða sektarrefsingu við að skýra opinberlega frá einkamálefnum annars manns án þess að réttlætanlegar ástæður séu fyrir hendi, og við óviðurkvæmilegri eða ærumeiðandi umfjöllun. Einnig stofnist sjálfstæður bótaréttur við brot gegn þessum ákvæðum. Það sé hins vegar ljóst að það tjón sem opinber birting myndefnis varnaraðila myndi valda sóknaraðilum, bæði aðstandendum keppninnar Ungfrú Ísland ehf. og öðrum þátttakendum í keppninni, sé ómælt og verði ekki aftur tekið eftir sýningu myndarinnar. Þannig yrði slík háttsemi sem opinber birting myndefnisins sé, ekki tekin aftur né bætt með því að varnaraðilar taki út refsingu fyrir brot sín eða verði gert að greiða skaðabætur. Þeir hagsmunir sem verði fyrir skaða hjá sóknaraðila, Ungfrú Íslandi ehf., séu m.a. viðskiptavild fyrirtækisins og ásýnd. Mjög örðugt sé að færa tölulegar sönnur fyrir því t.d. hversu mikil skerðing yrði á þátttöku í keppninni í framtíðinni vegna sýningar myndarinnar eða hversu margir styrktaraðila dragi styrki sína til baka eða ákveði að styrkja ekki keppnina í framtíðinni. Þannig blasi mikið tjón við sóknaraðila, Ungfrú Íslandi ehf., en þó sé örðugt um vik að færa fram nákvæmar tölulegar sannanir fyrir því tjóni. Atlaga gegn æru og friðhelgi einkalífs sóknaraðila sem hafi verið þátttakendur í keppninni verði vart metin til fjár en ljóst sé að þeir sóknaraðila munu hljóta mikinn skaða af. Hvað varði samning sóknaraðila, Ungfrú Íslands ehf., við fyrirsætuna Claudiu Schiffer þá sé ljóst að ef myndefni sem varnaraðilar hyggjast sýna opinberlega sýni Claudiu þá muni sóknaraðili, Ungfrú Ísland ehf., þurfa að greiða fyrirsætunni bætur.
(v) Ekki stórfelldur munur á hagsmunum sóknar- og varnaraðila. Hagsmunir sóknaraðila séu mjög miklir, bæði viðskiptalega og einnig hvað varði æru og friðhelgi einkalífs. Slíkir hagsmunir verði vart metnir til fjár. Hagsmunir varnaraðila séu einungis þeir að fá að sýna myndefni sem aflað hafi verið á óheimilan hátt með lygum og undir fölsku flaggi og hafa af þeirri háttsemi sinni fé. Sóknaraðilar séu ekki á nokkurn hátt að gera atlögu að tjáningarfrelsi varnaraðila, enda sé varnaraðilum frjálst að tjá sig um keppnina og þátttakendur hennar á öðrum vettvangi en þeim einkavettvangi sem þátttaka varnaraðila, Hrannar, í keppninni Ungfrú Ísland.is hafi gefið Hrönn aðgang að. Hafi sóknaraðili ekki slíka hagsmuni af því að geta gengið á hagsmuni sóknaraðila að slíkt geti notið lögverndar. Þau myndbrot sem varnaraðilar hafi þegar sýnt opinberlega úr myndinni "Í skóm drekans" gefi sóknaraðilum fullt tilefni til að ætla að myndin brjóti gegn lögvörðum rétti þeirra. Varnaraðili hafi neitað að sýna sóknaraðilum myndina eða vinnslueintök hennar þrátt fyrir að hafa sýnt það öðrum aðilum og þrátt fyrir áskorun sóknaraðila um að sýna myndina. Varnaraðilar verði að bera hallann af því að neita að sýna sóknaraðila umrædda mynd og myndefni.
Sóknaraðilar styðja kröfur sínar við reglur stjórnarskrár, einkum 71. gr., og almennar reglur um friðhelgi einkalífs, við almenn hegningarlög nr. 19/1940, einkum 228., 229., 234., 235. og 236. gr., höfundalög, einkum 1. og 3. gr. og lög um kyrrsetningu, lögbann o.fl. nr. 31/1990, einkum IV. kafla laganna og 24., 33. og 35. gr. laganna. Sóknaraðilar vísa einnig til samkeppnislaga nr. 8/1993 og laga um persónuvernd nr. 77/2000.
III
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðilar mótmæla því að af hálfu sóknaraðila séu hafðar uppi í málinu kröfur eða málsástæður sem ekki hafi verið hafðar uppi við meðferð lögbannsbeiðni til sýslumanns. Slíkt sé andstætt réttarfarsreglum í V. kafla laga nr. 31/1990 og í 14. kafla laga nr. 90/1989 um aðför, um málskot á ákvörðunum sýslumanns til héraðsdóms, auk þess sem slíkar kröfur og málsástæður séu of seint fram komnar á grundvelli almennra réttarfarsreglna. Af hálfu varnaraðila séu ekki gerðar sérstakar kröfur hér að lútandi en bent á að við geti átt frávísun ex officio sökum þess að viðkvæmar einkalífsathafnir séu í greinargerð sóknaraðila teknar sem dæmi þess efnis sem þeir telji vera að finna í kvikmyndinni Í skóm drekans.
Í greinargerð sóknaraðila sé vísað til samkeppnissjónarmiða. Varnaraðilar benda á að hér sé um að ræða nýja málsástæðu sem sýslumaður hafi ekki tekið afstöðu til og mótmæla henni sem of seint fram kominni.
Varnaraðilar benda á að samkeppnissjónarmið eigi á engan hátt við í þessu máli. Þó svo að sóknaraðilinn, Ungfrú Ísland ehf., kynni, vegna útfærslu á hugmynd að fegurðarsamkeppni, að geta bannað öðrum aðilum að halda keppnir, þar sem þær hugmyndir væru notaðar, skipti það engu máli gagnvart varnaraðilum. Varnaraðilar séu ekki að nýta sér vinnu sóknaraðila að keppninni eða halda keppni í samkeppni við þá heldur einungis að fjalla um þátttöku varnaraðila sem keppanda í keppninni og tjá upplifun hennar af keppninni.
Varðandi tilvísun til laga nr. 77/2000 um persónuvernd sé vísað til mótmæla að framan við nýjum málsástæðum. Tilvísun til laganna hafi auk þess enga þýðingu af þeim ástæðum sem greindar séu í umfjöllun um friðhelgi einkalífs.
Varðandi tilvísun til 228. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sé einnig vísað til mótmæla að framan við nýjum málsástæðum. Vísun til þessa ákvæðis hegningarlaganna hafi auk þess enga þýðingu enda hafi varnaraðilar á engan hátt verið að hnýsast í gögn er hafi að geyma einkamálefni þátttakenda.
Um tilvísun til alþjóðlegra mannréttindasáttmála gildi sömu sjónarmið og að framan um nýjar málsástæður. Auk þess þekki varnaraðilar enga alþjóðlega mannréttindasáttmála er gætu leitt til þess að leggja bæri hömlur á tjáningarfrelsi þeirra með því að leggja lögbann við sýningu myndarinnar en tjáningarfrelsið sé verndað með mannréttindasáttmálum.
Varðandi meint brot gegn þátttakendum í keppninni á grundvelli 229., 234., 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 benda varnaraðilar á að sóknaraðilar hafi aldrei sett varnaraðila, Hrönn, nein skilyrði um notkun myndefnisins. Það sé því alrangt að einhvers konar samningur hafi verið gerður um notkun þess. Hvergi sé að finna í myndinni uppljóstranir um einkalíf sóknaraðila. Myndskeið, þar sem þátttakendum bregði fyrir, sýni ekki einkalífsathafnir og þar sé hvergi að finna neitt sem nálgist móðganir eða ærumeiðandi aðdróttanir í garð sóknaraðila.
Tilvísanir sóknaraðila til dómafordæma eigi ekki við vegna þessa máls. Dómarnir varði danskt ákvæði er samsvari 231. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og ákvæði vegna óleyfilegrar myndbirtingar en samsvarandi ákvæði sé ekki að finna í lögum nr. 19/1940. Hagsmunir séu auk þess ekki sambærilegir og nýrri dómaframkvæmd leggi áherslu á hagsmuni er varði tjáningarfrelsið, sbr. U.1994.988H sem varði tilvik sambærilegt því sem um sé fjallað í U.1987.934 og 937.
Varnaraðilar telja sóknaraðila, Ungfrú Ísland ehf., engin slík réttindi eiga til keppninnar Ungfrú Ísland.is sem falli undir höfundalög, hvorki I. kafla þeirra né önnur ákvæði. Sóknaraðili virðist telja að með því að skipuleggja fegurðarsamkeppni skapi það honum höfundarrétt sem komi í veg fyrir að varnaraðilar geti sýnt upptökur við undirbúning og framkvæmd keppninnar. Slík sjónarmið séu ekki viðurkennd í höfundarrétti, sjá m.a. U.1999.1762 sem hafni höfundarrétti að hugmynd sjónvarpsþáttar. Hrd. 18. janúar 2001 í máli Hrafns Gunnlaugssonar gegn Birni Blöndal Traustasyni kveði á um samhöfundarrétt að ljósmynd og veiti ekki fordæmi í þessu máli. Stöðu keppnishaldara verði heldur með engu móti jafnað til stöðu kvikmyndaframleiðanda samkvæmt höfundalögum. Birting upptakanna brjóti af þessum sökum ekki í bága við höfundalög nr. 73/1972.
Fyrirbærið "einkasýningarréttur" til tiltekinnar sjónvarpsstöðvar, sem iðulega sé vísað til varðandi sýningar frá ýmsum viðburðum, svo sem íþróttaviðburðum, tónlistarhátíðum o.þ.h. byggist ekki á höfundalögum heldur á skilyrðum sem sett séu fyrir aðgangi að viðburðinum. Sóknaraðili, Ungfrú Ísland ehf., hafi ekki sett varnaraðilum nein slík skilyrði eins og áður sé getið. Ef aðstandendur keppninnar hefðu viljað meina Hrönn Sveinsdóttur upptökur í tengslum við þátttöku hennar í keppninni hefði þeim verið í lófa lagið að gera það. Það hafi hins vegar ekki verið gert.
Varðandi samninga um einkasýningarrétt sé rétt að taka fram að slíkir samningar beinist að því að sá er standi fyrir viðburði veiti tilteknum aðila rétt til að sýna viðburðinn í sjónvarpi, oftast í beinni útsendingu. Tilgangur þessa sé að koma í veg fyrir að fleiri en ein sjónvarpsstöð sýni viðburðinn almenningi, en þá sé átt við viðburðinn sem slíkan. Þrátt fyrir að með einhverjum hætti væri unnt að líta svo á að varnaraðilar hefðu brotið eitthvert óskilgreint samningsígildi geti sóknaraðilar ekki borið fyrir sig þessi sjónarmið þar sem tilgangur varnaraðila með gerð kvikmyndarinnar sé allt annar heldur en tilgangur sóknaraðila, Ungfrú Íslands ehf., með keppnishaldi.
Sóknaraðilar hafi lagt fram með lögbannsbeiðni tvö myndbönd þar sem fram komi myndskeið úr myndinni á vinnslustigi, en efni þetta hafi verið sýnt í sjónvarpi. Sóknaraðilar hafi ekki í beiðninni gert neinar athugasemdir við þetta efni en þar sé m.a. að finna kynningarmyndband. Þeir hafi heldur engar athugasemdir gert við efni á myndbandi sem hafi verið afhent þeim síðastliðið haust (dskj. 4). Í beiðni til héraðsdóms taki sóknaraðilar fram að myndbrot úr myndinni sem sýnd hafi verið opinberlega gefi þeim fullt tilefni til að ætla að myndin brjóti gegn lögvörðum rétti þeirra. Sóknaraðilar hafi hins vegar aldrei bent á tiltekin myndskeið í öllu því efni sem liggi fyrir í málinu, sem þeir telji að brjóti gegn rétti þeirra. Óframkvæmanlegt sé að taka kröfuna til greina þar sem þá mætti ekki sýna neitt af þessu efni opinberlega.
Af framangreindu sé augljóst að auk þess að vera tilefnislaus efnislega sé lögbannskrafan alltof víðtæk, hún taki ekki til þess að hindra birtingu tiltekinna efnisatriða sem talin væru brjóta gegn réttindum gerðarbeiðenda, sbr. m.a. Hrd. 1975, bls. 578. Sóknaraðilar geti ekki heft tjáningarfrelsi varnaraðila með því að bera fram getgátur um efnistök eða innihald kvikmyndarinnar. Það að leggja fyrir sýslumann að taka lögbannskröfuna til greina fæli í sér ritskoðun er ekki samrýmist 73. gr. stjórnarskrárinnar eða 1. mgr. 10. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu.
Varnaraðilar hafi kosið að miðla upplifun af þátttöku í fegurðarsamkeppninni, Ungfrú Íslandi.is, til almennings með gerð heimildarmyndar. Fjallað hafi verið um fegurðarsamkeppnir á opinberum vettvangi og muni áfram verða fjallað um þær á þeim vettvangi. Þátttaka í slíkri umfjöllun sé varnaraðilum algerlega frjáls og heimil, m.a. með vísun til 73. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Vart sé unnt að koma auga á nein rök fyrir að meina varnaraðilum almennt umfjöllun um fegurðarsamkeppnir með því að sýna myndefni af varnaraðila, Hrönn, við undirbúning og þátttöku í slíkri keppni. Áherslan og sjónarhornið sé á Hrönn þó öðrum þátttakendum bregði fyrir. Sérstaklega skuli tekið fram að skoðanafrelsi verði ekki takmarkað með lögum með skírskotan til 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar. Það séu því ótvíræðir hagsmunir varnaraðila sem listamanna og kvikmyndagerðarmanna að tjá sig með því að sýna kvikmyndina opinberlega.
Á hverjum degi séu sýnd í sjónvarpi myndskeið er tekin hafi verið af einstaklingum í daglegu lífi og við tiltekna atburði. Einstaklingar geti ekki takmarkað slíka notkun nema augljóslega sé verið að misnota sér persónu þeirra með því að tengja hana hagsmunum eða skoðunum sem þeir vilji ekki láta bendla sig við eða sýna atriði sem opinbera einkalífsatriði. Ekkert slíkt sé um að ræða í þessu máli. Með því að taka þátt í keppni sem auglýst sé opinberlega og seldur aðgang að hafi þátttakendur veitt almenningi upplýsingar um að þeir séu þátttakendur í keppninni. Sóknaraðilar geti ekki meinað varnaraðilum að í myndinni sé sú staðreynd látin í ljós. Kröfur sóknaraðila feli í sér kröfu um ritskoðun sem standist ekki ákvæði stjórnarskrár.
Krafa varnaraðila um málskostnað sé byggð á 91. gr. laga nr. 90/1089, sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé byggð á lögum nr. 50/1988 þar sem lögmönnum sé gert að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni. Varnaraðilarnir, Hrönn og Árni, séu ekki virðisaukaskattskyld og sé þeim því nauðsyn á að fá virðisaukaskattinn dæmdan úr hendi sóknaraðila.
IV
Niðurstaða
Sóknaraðilar máls þessa krefjast þess að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 19. mars 2002 um að synja um lögbann í máli nr. L-16/2002 og að lagt verði fyrir sýslumann að leggja á lögbann við því að varnaraðilar gefi út, sýni eða birti opinberlega með öðrum hætti kvikmynd sem sýnir og fjallar um keppnina Ungfrú Ísland.is árið 2000 þar sem sýnd eru m.a. myndskeið frá undirbúningi keppninnar, framkvæmd keppninnar, frá keppnishaldi og myndefni af þátttakendum keppninnar.
Í 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 er mælt fyrir um skilyrði lögbanns. Samkvæmt ákvæðum þeirrar greinar er það skilyrði sett að gerðarbeiðandi sanni eða geri sennilegt að athöfn gerðarþola brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans á þann veg að réttindi hans fari forgörðum eða verði fyrir teljandi spjöllum verði hann knúinn til að bíða dóms um þau. Samkvæmt 1. tl. 3. mgr. greinarinnar verður lögbann ekki lagt við athöfn ef talið verður að réttarreglur um refsingu eða skaðabætur fyrir röskun hagsmuna gerðarbeiðanda tryggi þá nægilega.
Sóknaraðilar málsins eru annars vegar aðstandendur keppninnar, Ungfrú Íslands ehf., og hins vegar 14 þátttakendur í ofangreindri keppni.
Aðstandendur keppninnar, Ungfrú Íslands ehf., telja hugmynd sína að keppninni, Ungfrú Íslandi.is, ásamt handriti og sviðsmynd njóta verndar að höfundarrétti og öðrum sé óheimilt að birta verkið og fénýta sér hugmyndina. Kvikmyndað hafi verið á einkavettvangi sóknaraðila. Staða aðstandenda keppninnar sé hliðstæð stöðu kvikmyndaframleiðanda. Brotið sé gegn lögvörðum einkarétti þeirra og höfundarrétti á umgjörð keppninnar og framsetningu. Um sé að ræða brot gegn höfundalögum og samkeppnislögum. Varnaraðilar telja Ungfrú Ísland ehf. engin réttindi eiga til keppninnar sem falli undir höfundalög. Einkasýningaréttur byggist ekki á höfundalögum, heldur á skilyrðum sem sett séu fyrir aðgangi að viðburðinum. Samningar um einkasýningarrétt beinist að því að sá sem standi fyrir viðburði veiti tilteknum aðila rétt til að sýna viðburðinn í sjónvarpi. Þá geti sóknaraðilar ekki borið þessi sjónarmið fyrir sig þar sem tilgangur varnaraðila með gerð kvikmyndarinnar sé allt annar en tilgangur sóknaraðila með keppnishaldi.
Ekki verður talið að gert hafi verið sennilegt að nein slík réttindi hafi verið brotin á Ungfrú Íslandi ehf. sem fara muni forgörðum sé beðið dóms til úrlausnar á hvort um sé að ræða brot gegn höfundalögum og samkeppnislögum. Eru þau ekki þess eðlis að óbætanlegt tjón verði ef til sýningar myndarinnar kemur. Unnt er að krefjast skaðabóta vegna höfundaréttarbrota, auk þess sem refsingar liggja við brotum gegn höfundalögum, samkvæmt VII. kafla þeirra. Samkvæmt því verður að telja að skilyrðum fyrir lögbanni sé ekki fullnægt að því er varðar sóknaraðila, Ungfrú Ísland ehf.
Af hálfu þátttakendanna í keppninni er á því byggt að myndefni það sem varnaraðili, Hrönn, tók eða lét taka af þeim sé tekið við mjög persónulegar aðstæður, svo sem myndefni af keppendum fáklæddum baksviðs, eða einkasamtöl á milli keppenda eða starfsmanna keppninnar. Telja sóknaraðilar að með birtingu myndefnis varnaraðila og myndarinnar “Í skóm drekans” sé freklega brotið gegn friðhelgi einkalífs þeirra, sem verndað sé í stjórnarskrá. Af hálfu varnaraðila er byggt á því að þeir hafi kosið að miðla upplifun af þátttöku í fegurðarsamkeppninni Ungfrú Íslandi.is til almennings með gerð heimildarmyndar. Fegurðarsamkeppnir séu fyrirbæri sem um hafi verið fjallað á opinberum vettvangi og muni áfram verða fjallað um á þeim vettvangi. Þátttaka í slíkri umfjöllun sé varnaraðilum algerlega frjáls og heimil, m.a. með vísun til 73. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Vart sé unnt að koma auga á nein rök fyrir því að meina varnaraðilum almennt umfjöllun um fegurðarsamkeppnir með því að sýna myndefni af varnaraðila, Hrönn, við undirbúning og þátttöku í slíkri keppni. Áherslan og sjónarhornið sé á Hrönn þó öðrum þátttakendum bregði fyrir. Sérstaklega er tekið fram að skoðanafrelsi verði ekki takmarkað með lögum með skírskotan til 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar. Það séu því ótvíræðir hagsmunir varnaraðila sem listamanna og kvikmyndagerðarmanna að tjá sig með því að sýna kvikmyndina opinberlega.
Þegar meta skal hvort sýning myndarinnar ”Í skóm drekans” brjóti gegn lögvörðum rétti þátttakenda í keppninni Ungfrú Íslandi.is árið 2000 kemur til álita réttur þeirra til friðhelgi einkalífs annars vegar og réttur varnaraðila til tjáningarfrelsis hins vegar, sem hvort tveggja er stjórnarskrárverndaður réttur. Mörkin þar á milli eru ekki skýr. Verður því að meta hvort gangi framar, tjáningarfrelsi varnaraðila eða réttur sóknaraðila til friðhelgi einkalífs. Fyrir liggur að varnaraðili, Hrönn, hafði ekki heimild þátttakenda til þess að taka af þeim myndir til opinberrar sýningar og ekki er fallist á það sjónarmið varnaraðila að um þegjandi samkomulag þeirra hafi verið að ræða. Lagt hefur verið fram í málinu myndband með bútum úr því myndefni sem fyrirhugað var að nota í myndinni sem sýna m.a. þátttakendur við undirbúning keppninnar, þar sem sum atriði eru tekin á vettvangi, sem öðrum var ekki heimill aðgangur að. Fyrir dómi hafa sóknaraðilar borið að Hrönn eða einhver á hennar vegum hafi myndað þær í búningsklefum og í baðfötum án heimildar. Þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir hafa varnaraðilar neitað að sýna myndina við meðferð málsins og er því ekki unnt að taka afstöðu til þess hvort einhver atriði í henni brjóti gegn lögvörðum rétti þátttakendanna. Með því að halda slíku sönnunargagni frá dóminum, sem verður að telja að hafi verulega þýðingu fyrir úrslit málsins, eru varnaraðilar fyrir fram að torvelda úrlausn dómsins. Með hliðsjón af þessu og vísan til ákvæða 1. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991 verða varnaraðilar að bera hallann af því að neita að sýna myndina, enda verður að telja að við þessar aðstæður vegi hagsmunir þátttakendanna af friðhelgi einkalífs þyngra en frelsi varnaraðila til sýningar myndarinnar. Verður því að telja að sóknaraðilar, sem voru þátttakendur í keppninni, Ungfrú Íslandi.is, árið 2000, hafi gert sennilegt að yfirvofandi sýning myndarinnar ”Í skóm drekans” muni brjóta gegn lögvörðum rétti þeirra og að réttindi þeirra muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum, verði sóknaraðilar knúnir til að bíða dóms um þau.
Sóknaraðilum var ekki unnt að takmarka lögbannskröfu sína við tiltekin efnisatriði myndarinnar þar sem þeir hafa ekki fengið að sjá hana í heild. Verður því hvorki talið að lögbannskrafan sé of víðtæk né að lögbannið feli í sér ritskoðun sem brjóti í bága við 73. gr. stjórnarskrárinnar eða 1. mgr. 10. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu eins og varnaraðilar halda fram.
Samkvæmt framansögðu er skilyrðum lögbanns fullnægt að því er varðar tilgreinda sóknaraðila, sem voru þátttakendur í keppninni og verður krafa þeirra tekin til greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Varnaraðilum er gert að greiða sóknaraðilum óskipt 250.000 kr. í málskostnað, eins og segir í úrskurðarorði. Málskostnaður fellur niður að því er varðar sóknaraðilann, Ungfrú Ísland ehf.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Felld er úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík hinn 19. mars 2002 þess efnis að synja um framgang lögbanns í lögbannsgerð nr. L-16/2002 og er lagt fyrir sýslumann að leggja á lögbann við því að varnaraðilar gefi út, sýni eða birti opinberlega með öðrum hætti kvikmynd sem sýnir og fjallar um keppnina, Ungfrú Ísland.is, árið 2000 þar sem sýnd eru meðal annars myndskeið frá undirbúningi keppninnar, framkvæmd keppninnar, keppnishaldi og myndefni af þátttakendum keppninnar.
Varnaraðilar, Hrönn Sveinsdóttir, Árni Sveinsson, Böðvar Bjarki Pétursson og Inga Rut Sigurðardóttir, persónulega og sem sameigendur f.h. Tuttugu geitna sf., greiði sóknaraðilum, Elvu Dögg Melsteð, Ingunni Hafdísi Hauksdóttur, Írísi Hrund Þórarinsdóttur, Margréti Jóelsdóttur, Maren Ösp Hauksdóttur, Jóhönnu Ósk Halldórsdóttur, Margréti Óskarsdóttur, Sunnu Þorsteinsdóttur, Halldóru Þorvaldsdóttur, Agnesi Ósk Þorsteinsdóttur, Ingu Kristínu Campos, Írisi Björk Árnadóttur, Pálu Hallgrímsdóttur og Elvu Hrönn Eiríksdóttur, óskipt 250.000 kr. í málskostnað, en málskostnaður fellur niður að því er varðar sóknaraðilann, Ungfrú Ísland ehf.