Hæstiréttur íslands
Mál nr. 568/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Hjón
- Fjárskipti
- Lífeyrisréttindi
|
|
Mánudaginn 17. september 2012. |
|
Nr. 568/2012. |
K (Gísli M.
Auðbergsson hdl.) gegn M (Berglind
Svavarsdóttir hrl.) |
Kærumál. Hjón.
Fjárskipti. Lífeyrisréttindi.
Vegna hjónaskilnaðar
fóru fram opinber skipti til fjárslita milli M og K. Í málinu krafðist K þess
að lífeyrisréttindi þeirra skyldu koma undir skiptin sem hjúskapareign. Þá
krafðist M þess að K yrði gert að greiða sér útlagðan kostnað vegna síma, hita
og rafmagns í því húsnæði sem þau áttu síðast sameiginlegt heimili. Talið var
að K hefði ekki sýnt fram á að ósanngjarnt væri að halda lífeyrisréttindunum
utan skipta í skilningi síðari málsliðar 2. mgr. 102. gr. laga nr. 31/1993 og
var kröfu hennar því hafnað. Hvað
varðaði endurgjaldskröfu M kom fram að fjárkröfur milli M og K yrðu ekki dæmdar
í máli sem rekið væri fyrir dómi eftir XVII. kafla laga nr. 20/1991 og var
kröfugerð M því skilin á þann veg að taka ætti tillit til þessa kostnaðar við
fjárslitin, honum til hagsbóta. Hins vegar þótti krafa M vanreifuð og ekki
reist á viðhlítandi gögnum. Var kröfu M því einnig hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál
þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason og Greta Baldursdóttir og
Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili
skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. ágúst 2012 sem barst héraðsdómi degi
síðar og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður
Héraðsdóms Norðurlands eystra 1. ágúst 2012, þar sem hafnað var kröfu
sóknaraðila um að lífeyrisréttindi aðila kæmu til skipta sem hjúskapareignir og
ákveðið að innstæða á tilteknum reikningi sóknaraðila að fjárhæð 1.411.889
krónur kæmi ekki til skipta. Þá var sóknaraðila gert að greiða varnaraðila
356.375 krónur. Kæruheimild er í 133.
gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að
tekin verði til greina áðurgreind krafa hennar um að lífeyrisréttindi aðila
komi til skipta sem hjúskapareignir og að hafnað verði fyrrgreindri kröfu á
hendur sér að fjárhæð 356.375 krónur. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í
héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili
krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Eins
og greinir í hinum kærða úrskurði gengu málsaðilar í hjúskap árið 1974. Í mars 2009
slitu þau samvistum og 1. apríl sama ár krafðist varnaraðili skilnaðar að borði
og sæng. Með dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra 12. febrúar 2010 var fallist á
þá kröfu varnaraðila, en 10. sama mánaðar hafði gengið úrskurður sama dómstóls
um opinber skipti til fjárslita milli aðila. Hinn 11. júlí 2011 var aðilum
síðan veitt leyfi til lögskilnaðar. Aðilar eignuðust saman fjögur börn sem eru
uppkomin. Öll hjúskaparárin voru aðilar búsettir á [...] ef frá er talin
skammvinn búseta í [...] meðan varnaraðili gekk í [...].
Við opinber skipti til fjárslita milli aðila
reis ágreiningur milli þeirra um tiltekin atriði sem skiptastjóri vísaði til
úrlausnar héraðsdóms á grundvelli 1. mgr. 122. gr. laga nr. 20/1991. Með hinum
kærða úrskurði var leyst úr þessum ágreiningsefnum, en sóknaraðili hefur með
kæru sinni skotið til Hæstaréttar ágreiningi um hvort lífeyrisréttur aðila
skuli koma undir skiptin sem hjúskapareignir þeirra og hvort varnaraðili eigi
kröfu á hendur sér vegna útlagðs kostnaðar vegna síma og hita og rafmagns í því
húsnæði sem aðilar áttu síðast sameiginlegt heimili. Önnur atriði sem fjallað
er um í hinum kærða úrskurði koma hér ekki til úrlausnar.
II
Varnaraðili
var sjómaður til ársins 1984, en þá hóf hann nám í [...] og hefur síðan verið
[...]. Sóknaraðili starfaði einnig utan heimilis meðan á hjúskapnum stóð, fyrst
við fiskvinnslu og síðan á [...]. Með aðilum er ágreiningslaust að tekjur
varnaraðila á hjúskapartímanum voru umtalsvert hærri en tekjur sóknaraðila
þannig að hann hefur aflað sér meiri lífeyrisréttinda sem því nemur. Aftur á
móti nýtur ekki við í málinu útreiknings eða mats á verðgildi lífeyrisréttinda
aðila.
Í
málinu krefst sóknaraðili þess að lífeyrisréttindi aðila verði talin til
hjúskapareigna og reisir þá kröfu á síðari málslið 2. mgr. 102. gr.
hjúskaparlaga nr. 31/1993. Telur sóknaraðili ósanngjarnt að varnaraðili haldi
óskipt þeim lífeyrisréttindum sem hann eigi umfram varnaraðila, en
framtíðarafkoma þeirra muni velta á þeim réttindum þar sem ekki hafi orðið
teljandi eignamyndun í hjúskapnum. Varnaraðili krefst þess á hinn bóginn að
lífeyrisréttindum hans verði haldið utan við skiptin, sbr. 2. tölulið 1. mgr.
sömu greinar.
Við mat á því hvort lífeyrisréttindi komi
undir skipti til fjárslita milli hjóna er þess að gæta að ákvæði síðari
málsliðar 2. mgr. 102. gr. laganna er undantekning frá þeirri almennu reglu 2.
töluliðar 1. mgr. sömu lagagreinar að lífeyrisréttindi komi ekki til skipta við
fjárslit vegna hjónaskilnaðar. Kemur aðeins til álita að víkja frá þeirri
meginreglu þegar sérstaklega stendur á, en við það mat verður að líta
heildstætt á allar aðstæður aðila. Sóknaraðili hefur með störfum sínum utan
heimilis aflað sér lífeyrisréttinda og gera verður ráð fyrir að hún geti aukið
við þann rétt þar til kemur að töku lífeyris við starfslok. Þá liggur ekki
fyrir verðmæti þess lífeyrisréttar sem sóknaraðili hefur aflað sér borið saman
við lífeyrisréttindi varnaraðila. Samkvæmt þessu hefur ekki verið sýnt fram á
að ósanngjarnt sé að halda lífeyrisréttindum utan skipta. Verður því staðfest
niðurstaða hins kærða úrskurðar um að hafna þeirri kröfu sóknaraðila.
III
Með
hinum kærða úrskurði var tekin til greina krafa varnaraðila á hendur
sóknaraðila um að henni yrði gert að endurgreiða sér útlagaðan kostnað að
fjárhæð 356.375 krónur. Mál þetta er rekið fyrir dómi eftir XVII. kafla laga
nr. 20/1991 sem ágreiningsmál við opinber skipti til fjárslita milli aðila
vegna hjónaskilnaðar. Fjárkröfur milli þeirra verða ekki dæmdar í slíku máli án
tillits til þeirrar eignaskiptingar og greiðslu búshluta sem er markmið
skiptanna og ekki umfram það sem eignir hvors um sig hrökkva til að standa
undir kröfum hins. Að þessu gættu verður að skilja kröfugerð varnaraðila þannig
að við opinber skipti til fjárslita milli hans og sóknaraðila verði tekið
tillit til þessa kostnaðar honum til hagsbóta.
Krafa
varnaraðila vegna símkostnaðar er fyrir tímabilið frá 1. apríl 2009 til 15.
september 2010. Miðar varnaraðili við kostnað að fjárhæð 25.000 krónur á mánuði
eða samtals 437.500 krónur. Krafa vegna rafmagnskostnaðar er fyrir sama
tímabil, en varnaraðili miðar við 7.500 krónur á mánuði eða 131.250 krónur. Þá
er krafa vegna hitakostnaðar fyrir tímabilið 1. apríl 2009 til 31. mars 2011 og
miðar varnaraðili við 6.000 krónur á mánuði eða 144.000 krónur. Telur
varnaraðili að sóknaraðila beri að endurgreiða sér helming þessa kostnaðar og
svarar krafan til þeirrar fjárhæðar.
Til
stuðnings kröfunni hefur varnaraðili lagt fram greiðsluáætlun vegna samnings um
greiðsluþjónustu í þeim sparisjóði þar sem varnaraðili hafði sín viðskipti.
Krafan er því ekki studd reikningum, en þeirra nýtur ekki við í málinu ef frá
er talinn símreikningur með gjalddaga 20. október 2009 að fjárhæð 28.607 krónur
og rafmagnsreikningar með gjaldaga 2. desember 2009 að fjárhæð 7.010 krónur og
2. janúar 2010 að fjárhæð 5.759 krónur. Krafan, sem ekki er reist á viðhlítandi
gögnum sem varnaraðila hefði verið í lófa lagið að afla, er því svo vanreifuð
að hún verður ekki tekin til greina gegn andmælum sóknaraðila.
Málskostnaður
í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Dómsorð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, K, um að lífeyrisréttindi aðila
verði talin hjúskapareignir við opinber skipti til fjárslita milli hennar og
varnaraðila, M.
Hafnað er kröfu varnaraðila um að við skiptin skuli lagt til
grundvallar að sóknaraðili skuldi varnaraðila 356.375 krónur.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur
niður.
Úrskurður Héraðsdóms
Norðurlands eystra 1. ágúst 2012.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar
að loknum munnlegum málflutningi 6. júní, er komið til dómsins með tveimur
bréfum Ingvars Þóroddssonar héraðsdómslögmanns, skiptastjóra við opinber skipti
til fjárslita vegna hjónaskilnaðar sóknaraðila, K, kt.
og heimilisfang [...], og varnaraðila, M, kt. og heimilisfang [...].
Með bréfunum, hinu fyrra dagsettu 20. apríl 2011 og hinu síðara 18. október
2011, vísaði skiptastjórinn til dómsins ágreiningi sem risið hafði við skiptin.
Mál vegna þessara ágreiningsefna voru sameinuð.
Dómkröfur
Sóknaraðili krefst þess að öll
lífeyrisréttindi aðila komi til skipta sem hjúskapareignir og að 1.411.889
króna innstæðu sóknaraðila á bankareikningi nr. [...] verði
haldið utan skipta.
Varnaraðili krefst þess að sóknaraðili
endurgreiði sér 356.375 krónur vegna kostnaðar við síma, hita og rafmagn og
greiði sér 1.100.000 krónur í leigu fyrir afnot bifreiðarinnar [...].
Báðir aðilar krefjast þess að kröfum
hins verði hafnað. Þá krefst hvor aðili málskostnaðar úr hendi hins samkvæmt
málskostnaðarreikningi.
Málavextir
Aðilar gengu í hjónaband árið 1974 en
slitu samvistum sínum í marz 2009. Hinn 1. apríl það
ár krafðist varnaraðili skilnaðar að borði og sæng. Með dómi héraðsdóms
Norðurlands eystra hinn 12. febrúar 2010 var varnaraðila veittur skilnaður frá
sóknaraðila að borði og sæng. Lögskilnaðarleyfi var gefið út hinn 11. júlí
2011. Hinn 10. febrúar 2010 var kveðinn
upp úrskurður um opinber skipti til fjárslita aðila og var Ingvar Þóroddsson
héraðsdómslögmaður skipaður skiptastjóri.
Varnaraðili starfar sem [...] og hefur gert frá árinu 1984 en áður hafði hann verið
sjómaður. Sóknaraðili hefur einnig unnið utan heimilis. Hún hefur síðustu tólf
ár eða svo unnið í 80% starfi á [...] en
starfaði áður við fiskvinnslu. Í júlí
2007 lenti sóknaraðili í umferðarslysi og voru varanleg örorka hennar og miski
metin 8% eftir það.
Samkvæmt skattframtali ársins 2010 sem
liggur fyrir í málinu voru tekjur sóknaraðila á árinu 2009 alls 2.909.905
krónur en varnaraðila 9.460.754 krónur.
Skiptastjóri tók saman
bráðabirgðayfirlit um eignir og skuldir aðila miðað við 1. apríl 2009. Samkvæmt
því nema nettóeignir sóknaraðila 935.387 krónum en varnaraðila -2.468.192
krónum.
Aðilar eiga saman fjögur börn, fædd
árin [...].
Málsástæður
og lagarök sóknaraðila vegna kröfu sóknaraðila er tengist lífeyrisréttindum og
bankainnstæðu
Lífeyrisréttindi
Sóknaraðili segir að í hjúskaparrétti
gildi þær meginreglur að allar eignir hjóna séu hjúskapareignir nema önnur
skipan sé sérstaklega gerð og að við fjárskipti milli hjóna beri að beita
helmingaskiptum. Reglur þessar séu
lögfestar í 54. og 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Samkvæmt 102. gr. laganna geti maki þó krafizt þess að lífeyrisréttindi verði utan skipta. Sóknaraðili segir að aðstæður í máli þessu
séu mjög sérstakar. Sé eignastaða hjónanna neikvæð en ágæt réttindi í
lífeyrissjóðum. Meginhluti starfsævi beggja sé að baki og mikil eignamyndun
ólíkleg úr þessu. Muni framtíðarafkoma þeirra að mestu byggjast á greiðslum úr
lífeyrissjóðum. Sé bersýnilega ósanngjarnt að varnaraðili haldi einn þeim
lífeyrisréttindum sem hann eigi umfram sóknaraðila. Sé í því sambandi vísað til
2. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga sem mæli fyrir um að lífeyrisréttindum verði
ekki haldið utan skipta sé það ósanngjarnt gagnvart hinum makanum. Þær sérstöku
aðstæður sem uppi séu í þessu máli leiði til þess að réttindin eigi að falla
undir skiptin og sé það í samræmi við dómafordæmi. Horfa beri heildstætt á
allar aðstæður aðila, en aðilar hafi sameiginlega gert sóknaraðila kleift að
sinna störfum sínum og afla réttindanna.
Þrátt fyrir miklar fjarverur hans frá heimili hafi heimilishald og
barnauppeldi tekizt, þar sem hvort tveggja hafi hvílt
á sóknaraðila. Fjölskyldan hafi tekið sig upp þegar aðstæður varnaraðila hafi krafizt og allt verið gert til að auðvelda honum tekjuöflun
og þar með öflun lífeyrisréttinda. Horfa þurfi til möguleika aðila til
tekjuöflunar þau ár sem enn verði eftir á vinnumarkaði og ekki þurfi sízt að horfa til fjárhagsstöðu þeirra. Þegar til þessa sé
horft telji sóknaraðili ekki forsendur til að varnaraðili haldi
lífeyrisréttindum sínum utan skipta enda sé 2. tl. 1.
mgr. 102. gr. hjúskaparlaga undantekningarregla frá meginatriðum
hjúskaparréttar og beri að skýra hana þröngt.
Sóknaraðili kveðst ekki hafa farið þá
leið að láta reikna út hæfilegar bætur vegna mismunandi lífeyrisréttinda aðila
en krefjist þess í stað viðurkenningar á því að réttindin komi til skipta. Telji
sóknaraðili eðlilegt að eftir að slíkur úrskurður gangi taki kanni skiptastjóri
hvort aðilar semja um skiptingu réttindanna eða hvort og þá eftir hvaða leiðum
bætur verði ákvarðaðar.
Bankainnstæða
Sóknaraðili kveðst byggja kröfu sína um
að bankainnstæðu verði haldið utan skipta á því að þar sé um að ræða slysabætur
sem henni hafi verið greiddar vegna skertrar starfsorku. Meginregla sé og
lögfest í 4. tl. 1. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga að
bætur vegna skerðingar á starfsorku komi ekki til skipta við skilnað eða
sambúðarslit tjónþola. Liggi fyrir að hinn 1. apríl 2009, sem sé óumdeildur viðmiðunardagur
skipta, hafi eftirstöðvar greiddra bóta verið sérgreindar á umræddum
bankareikningi. Jafnvel þótt 4. tl. 1. mgr. 102. gr.
hjúskaparlaga yrði túlkaður svo þröngt að ákvæðið næði aðeins til bóta vegna
varanlegrar örorku og aðeins fyrir ókominn tíma, þá rúmist fjárhæð bankareikningsins
innan slíkra marka. Af bótunum hafi 2.131.097 krónur verið vegna varanlegrar
örorku og séu 1.411.889 krónur augljóslega lægra hlutfall þeirrar fjárhæðar en
það hlutfall örorkutímabils sem óliðið hafi verið á viðmiðunardegi skipta. Auk
þessa mæli öll sanngirnissjónarmið með því að fallast á þessa kröfu
sóknaraðila. Um sé að ræða greiðslu til að bæta sóknaraðila að hún gangi ekki
heil til skógar og búi við skerta tekjumöguleika það sem eftir sé. Séu engin
rök fyrir því að varnaraðili eignist hlutdeild í slíkri eign.
Málsástæður
og lagarök varnaraðila vegna kröfu sóknaraðila er tengist lífeyrisréttindum og
bankainnstæðu
Lífeyrisréttindi
Varnaraðili kveðst krefjast þess, með
vísan til 2. tl. 1. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga að
áunnin lífeyrisréttindi hans verði utan skipta. Í 57. gr. hjúskaparlaga sé
fjallað um persónubundin réttindi og kveðið á um að reglur um hjúskapareignir
eigi við um þau, að svo miklu leyti sem þær brjóti ekki í bága við þær sérreglur
sem gildi um réttindin. Um fjárskipti þessara réttinda segi svo í 1. mgr. 102.
gr. laganna að maki geti krafizt þess að tiltekin
verðmæti, þar með talin réttindi í lífeyrissjóðum, komi ekki undir skiptin. Lífeyrisréttindi
varnaraðila séu persónubundin og ætluð honum til framfærslu að tilteknum
skilyrðum uppfylltum. Því sé ekki um raunverulega eign að ræða heldur rétt til
greiðslu sem verði virkur svo sem þegar sjóðsfélagi nái til teknum aldri eða
hverfi úr starfi vegna heilsubrests. Geti varnaraðili því ekki leyst réttindi
sín út nær honum henti. Lífeyrissjóður
starfsmanna ríkisins sé samtryggingarsjóður sem falli undir lög nr. 129/1997 um
skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Samkvæmt 3. mgr.
14. gr. laganna geti sjóðfélagi og maki, eða fyrrverandi maki, gert með sér
gagnkvæmt samkomulag um skiptingu lífeyrisréttinda en slíkt samkomulag liggi
ekki fyrir í þessu máli og falli réttindin því utan skipta nema það verði talið
ósanngjarnt samkvæmt 2. mgr. 102. hjúskaparlaga.
Varnaraðili segir að í athugasemdum með
hjúskaparlögum komi fram að sérstakar og einstakar ástæður þurfi að vera fyrir
hendi til þess að öðru hjóna verði gert að inna af hendi bætur eða fjárgreiðslu
til hins vegna persónubundinna réttinda sem haldið sé utan skipta. Slíkar
ástæður séu ekki til í máli þessu, engin krafa hafi komið fram um fjárgreiðslu
og sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að ósanngjarnt sé að halda réttindunum
utan skipta. Báðir aðilar hafi unnið utan heimilis megnið af hjúskapartíma
þeirra og báðir sinnt heimili og fjölskyldu, þótt verkum hafi verið skipt. Kveðst
varnaraðili mótmæla því að hann hafi ekki komið að uppeldi barna sinna og segir
aðila hafa gert það jöfnum höndum. Varnaraðili hafi ætíð unnið á vöktum, með
veglegum leyfum inni á milli, og þann tíma hafi hann nýtt með börnunum. Hafi
hann séð um öll samskipti við skóla, farið með börnunum á skólaskemmtanir,
skólaviðtöl og annað sem snúið hafi að samskiptum heimilisins út á við.
Þá segir varnaraðili að í 35 ára
hjónabandi aðila hafi heimilið ætíð verið á [...]
að því frá töldu að í hálft annað ár hafi þau átt heima í [...] á meðan varnaraðili hafi stundað[...]. Hafi hann þá verið á fullum launum og dagpeningum.
Varnaraðili segir að sóknaraðili hafi
unnið utan heimilis nær allan hjúskapartímann, fyrst í [...] og síðar á [...],
þar sem sóknaraðili starfi enn. Við samvistarslit hafi hún verið 55 ára gömul
og því átt eftir tólf til fimmtán ár af venjulegri starfsævi. Veiti það henni
fullnægjandi tíma til að auka enn við lífeyrisréttindi sín. Varnaraðili segist
vera nær sextugur og gefi auga leið að hann muni ekki lengi enn geta sinnt [...] starfi með sama hætti og fyrr. Sé hann nýkominn úr aðgerð
og fylgi henni nokkurra mánaða veikindaleyfi. Miklar kröfur séu gerðar um
heilsu [...] og megi lítið út af bera til að
möguleikar hans til tekjuöflunar skerðist umtalsvert. Hafi tekjur hans þegar lækkað umtalsvert
síðustu ár, öfugt við tekjur sóknaraðila. Þá sé ekki um auðugan garð að gresja
í atvinnumálum á [...] og allar líkur því á því að
varnaraðili þurfi að nýta sér lífeyrisréttindi sín fyrr en ella.
Varnaraðili segir að fjárskiptum aðila
sé ekki endanlega lokið og sé þar ekki við sig að sakast. Samkvæmt samkomulagi aðila komi húseign
þeirra í hlut sóknaraðila og sé nettóverðmæti hennar um ein milljón króna. Þá
kveðst varnaraðili taka sérstaklega fram að frá samvistarslitum og fram til
áramóta 2010 til 2011 hafi sóknaraðili átt heima í íbúðinni en varnaraðili
greitt allan rekstrarkostnað hennar. Sóknaraðili hafi enga húsaleigu greitt og
hafi hafnað að greiða varnaraðila hluta rekstrarkostnaðar. Þá hafi varnaraðili
greitt afborganir af leigusamningi bifreiðar, 105.000 krónur á mánuði, auk
trygginga og annars kostnaðar, en sóknaraðili haft öll afnot bifreiðarinnar. Þá
neiti sóknaraðili að greiða varnaraðila fyrir þau afnot. Sóknaraðili hafi
fengið nær allt innbú þeirra í sinn hlut og telji auk þess að utan skipta skuli
falla bankainnstæða á hennar nafni að fjárhæð tæplega ein og hálf milljón
króna. Varnaraðili hafi fengið í sinn hlut yfirveðsett ökutæki og sitji hann
uppi með skuldir vegna þeirra auk þess sem hann hafi greitt alfarið allan
kostnað við rekstur húseignar, bifreiða, síma og fleira í hálft annað ár. Ljóst
megi því vera að ekki halli á sóknaraðila hvað varði eigna- og skuldastöðu
þeirra við skilnað.
Varnaraðili segir að í ljósi heildstæðs
mats á aðstæðum aðila sé bersýnilegt að halda beri lífeyrisréttindum
varnaraðila utan skipta. Eðlilegt sé og sanngjarnt að hvor aðili haldi þeim
réttindum sem hann hafi unnið til á starfsævi sinni. Kveðst varnaraðili árétta
að 2. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga sé undantekning frá almennri reglu 2. tl. 1. mgr. sömu greinar að lífeyrisréttindi komi ekki til
skipta við fjárslit vegna hjónaskilnaðar og sé því sóknaraðila að sýna fram á
að ósanngjarnt sé að halda þeim réttindum utan skipta. Það hafi sóknaraðila
ekki tekizt.
Varnaraðili segist hafa margsinnis á
þeim tveimur árum, sem fjárskipti aðila hafi varað, boðið sóknaraðila ýmsar
greiðslur og leiðir til sátta, en öllu hafi verið hafnað. Þess í stað hafi
verið krafizt hlutdeildar í lífeyrisréttindum án
frekari sundurgreiningar og án þess að tiltekið hafi verið hverra fjárhæða væri
krafizt. Að mati varnaraðila komi ekki til greina að
samþykkja ótilteknar og óskilgreindar fjárkröfur auk þess sem slík tilgreining
hljóti að gegna mikilvægu hlutverki við sanngirnismat 2. mgr. 102. gr.
hjúskaparlaga. Skorti slíka tilgreiningu verði sóknaraðili að bera hallann af.
Varnaraðili segir að verði talið að
fara skuli með lífeyrisréttindin eins og hjúskapareignir bendi hann á að
dómafordæmi séu skýr um að líta beri til skattfrelsis og eingreiðsluhagræðis
slíkra greiðslna.
Varnaraðili kveðst vísa til
hjúskaparlaga nr. 31/1993, einkum 57. og 102. gr. svo og ákvæða laga nr.
20/1991 um skipti á dánarbúum og fleira. Þá kveðst varnaraðili vísa til laga
nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
Bankainnstæða
Varnaraðili kveðst ekki mótmæla því að
sóknaraðili hafi lent í slysi og fengið einhverjar bætur vegna þess. Hins vegar
séu ekki uppfyllt skilyrði 4. tl. 1. mgr. 102. gr.
hjúskaparlaga fyrir því að vátryggingarfé vegna líkams-
eða heilsutjóns verði haldið utan skipta.
Í fyrsta lagi liggi ekkert fyrir um að
fyrirliggjandi innstæða á reikningi nr. 1129-15-550340 stafi af greiðslu
vátryggingafjár. Inn á reikning nr. [...]
hafi verið lögð 2.976.101 króna, en það sé ekki sami reikningur og sóknaraðili
vísi til. Ekki sé því unnt að fallast á að sú fjárhæð sé sérgreind. Þá byggi
varnaraðili á því að jafnvel þó svo talið yrði að um sérgreinda fjárhæð væri að
ræða þá væri sú fjárhæð einvörðungu enn fyrir hendi vegna mun hærri framlaga
varnaraðila til sameiginlegs rekstrar þeirra. Ætti fjárhæðin að minnsta kosti
að lækka um sem nemi framlagi varnaraðila, sbr. 4. tl.
1. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga. Þá sé krafa sóknaraðila of seint fram komin en
hennar hafi fyrst verið getið á skiptafundi hinn 11. ágúst 2011, hálfu öðru ári
eftir fyrsta skiptafund, sbr. og að sínu leyti ákvæði 105. gr. laga nr.
20/1991. Loks byggi varnaraðili á því að í ljósi eigna- og skuldastöðu aðila,
skiptingu þeirra eigna og skulda sem þegar hafi farið fram og þeirra útgjalda
sem varnaraðili hafi lagt af mörkum vegna sameiginlegs rekstrar sé bersýnilega
ósanngjarnt að þessari innstæðu verði haldið utan skipta.
Málsástæður
og lagarök varnaraðila vegna kröfu hans um endurgreiðslu útlagðs kostnaðar og
vegna afnota af bifreið
Endurgreiðsla
útlagðs kostnaðar
Varnaraðili segir sóknaraðila hafa frá
samvistarslitum átt heima í húseign þeirri sem aðilar hafi átt sameiginlega. Varnaraðili
hafi greitt 360.000 krónur á mánuði, 350.000 krónur þó frá 1. október 2009, inn
á greiðsluþjónustureikning sem notaður hafi verið til að greiða kostnað vegna
fasteignarinnar og annan rekstur, en sóknaraðili hafi greitt 30.000 krónur. Hafi
verið um að ræða hita, rafmagn, fasteignagjöld, bifreiðagjöld, afborganir lána,
síma og tryggingar. Þá hafi varnaraðili ekki fengið greidda neina leigu vegna
afnota sóknaraðila af hans eignarhluta en á sama tíma hafi varnaraðili orðið að
leigja sér íbúð og greiða þann kostnað sem því hafi hlotizt,
þar á meðal rafmagn, hita, síma og húsaleigu.
Varnaraðili kveðst krefjast þess að
sóknaraðili endurgreiði helming útlagðs kostnaðar vegna hita að fjárhæð 6.000
krónur á mánuði frá 1. apríl 2009 til 31. marz 2011,
alls 72.000 krónur, vegna rafmagns að fjárhæð 7.500 krónur á mánuði frá 1.
apríl 2009 til 15. september 2010, alls 65.625 krónur, og vegna síma 25.000
krónur á mánuði „fyrir sama tímabil“. Sé símakostnaðurinn vegna gsm-síma beggja aðila, heimasíma að [...] og ADSL-tengingu þangað.
Varnaraðili kveðst vísa því á bug sem
fráleitu að sóknaraðila beri ekki að endurgreiða útlagðan kostnað þar sem
sóknaraðili hafi ekki nýtt allt húsið eða símann. Varnaraðili hafi ekki átt
kost á því enda hafi hann leigt úti í bæ. Þaðan af síður sé tæk málsástæða að
varnaraðila hafi borið að greiða kostnaðinn þar sem hann hafi verið framfærsluskyldur
við sóknaraðila. Hafi sóknaraðila verið í lófa lagið að krefjast
framfærslulífeyris en hafi kosið að gera það ekki, en sóknaraðili hafi notið
lögmannsaðstoðar alveg frá upphafi. Þá verði ekki fallizt
á að andlegt ástand sóknaraðila geti mögulega verið á ábyrgð varnaraðila og að
hann af þeim sökum beri fjárhagslegar skyldur við sóknaraðila. Hafi sóknaraðili
verið óvinnufær hafi hún væntanlega átt sinn sjúkra- og veikindarétt eins og
aðrir. Þá sé því mótmælt sem ósönnuðu að þær greiðslur sem sóknaraðili hafi
innt af hendi hafi verið fullnaðargreiðslur. Endurgreiðslukrafan snúi einungis
að helmingi þess kostnaðar sem lagður hafi verið út en ætti í raun réttri að
nema helmingi hærri fjárhæð.
Afnot
bifreiðar
Varnaraðili kveðst byggja á því að þar
sem sóknaraðili hafi haft bifreiðina [...]
til umráða beri sóknaraðila að greiða leigu fyrir afnot hennar, enda hafi
varnaraðili greitt allan kostnað vegna trygginga, bifreiðagjalda og afborganir
af leigusamningi. Því sé mótmælt að sóknaraðili hafi ekki haft umráð
bifreiðarinnar enda hljóti slíkar staðhæfingar að vera gefnar gegn betri vitund
svo sem bókanir í fundargerðum skiptastjóra beri sannanlega með sér, sem og
sáttatillaga skiptastjóra. Afborganir leigusamnings vegna bifreiðarinnar hafi
verið um 105.000 krónur á mánuði auk trygginga og bifreiðagjalda. Í því ljósi
verði að telja sanngjarnt að leiga vegna afnota sé að lágmarki fjárhæð er nemi
um helmingi kostnaðar við leigusamninginn, 55.000 krónur, og sé þá ótalinn
kostnaður vegna bifreiðagjalda og trygginga. Sé miðað við tuttugu og tveggja
mánaða tímabil, frá 1. apríl 2009 til 5. febrúar 2011 en þá hafi sóknaraðili
skilað bifreiðinni til varnaraðila.
Varnaraðili kveðst vísa til hjúskaparlaga,
einkum 102. gr., og laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum og fleira.
Málsástæður
og lagarök sóknaraðila vegna kröfu varnaraðila um endurgreiðslu útlagðs
kostnaðar og vegna afnota af bifreið
Endurgreiðsla
útlagðs kostnaðar
Sóknaraðili kveðst byggja sýknukröfu
sína á því að ekki liggi frammi reikningar fyrir þessum kostnaði eða fullnægjandi
skýringar á honum. Sé málið þar vanreifað. Sóknaraðili hafi ekki nýtt allt
húsið og hafi dvalið utan þess um hríð og hafi boðið varnaraðila að búa þar og
sé því ekki eðlilegt að hún greiði ein kostnað vegna þess. Sérstaklega sé því
mótmælt að sóknaraðili hafi nýtt þá síma er tilteknir séu á símareikningum, að
minnsta kosti hafi hún ekki gert það ein. Þá kveðst sóknaraðili byggja á því að
fram að lögskilnaði hafi varnaraðili verið framfærsluskyldur við sig og beri
honum því að bera þennan kostnað. Við sambúðarslit hafi orðið röskun á högum
sóknaraðila. Varnaraðili hafi verið aðalfyrirvinna heimilisins auk þess sem
sóknaraðili hafi orðið óvinnufær vegna andlegra erfiðleika sem hafi verið
afleiðing skilnaðarins. Þá beri að skoða greiðslur sem sóknaraðili hafi innt af
hendi til varnaraðila sem fullnaðarþátttöku sóknaraðila í sameiginlegum
kostnaði þeirra. Varnaraðili hafi aldrei
nefnt að hann ætlaðist til frekari greiðslna af hálfu sóknaraðila fyrr en
lögmaður varnaraðila hafi gert það fyrir skiptastjóra.
Afnot
bifreiðar
Sóknaraðili kveðst ekki hafa haft leiguafnot
bifreiðarinnar [...].
Sóknaraðili hafi í fáein skipti fengið að „skreppa“ á bifreiðinni en
hafi litið á það sem lán og greiða frá fyrrverandi eiginmanni sínum sem ekki
væri ætlazt til endurgjalds fyrir. Til vara kveðst
sóknaraðili benda á að endurgjaldið sé óhæfilega hátt en það sé ekki í neinu
samræmi við notkun bifreiðarinnar og verðmæti hennar.
Skýrsla
varnaraðila
Varnaraðili gaf skýrslu í málinu. Hann
sagði hjúskap aðila hafa staðið frá hausti 1973 og þar til varnaraðili hefði
farið fram á skilnað hinn 1. apríl 2009. Hefðu þau átt heima á [...] alla tíð, að því frátöldu að haustið 1984 hefðu þau flutt
suður og verið þar í hálft annað ár meðan varnaraðili hefði sótt [...]. Einn vetur hefði varnaraðili svo starfað við afleysingar
hjá [...] og fjölskyldan þá átt þar heima. Þann
vetur hefði sóknaraðili ekki unnið úti.
Þau sóknaraðili ættu fjögur börn saman
og bæði séð um uppeldið. Sumum hlutum hefði varnaraðili þó einn sinnt, svo sem
samskiptum við skóla, en sóknaraðili hefði ekkert viljað koma nálægt þeim en
hún hefði alla tíð verið „frekar fælin“. Eins hefði varnaraðili borið hita og
þunga af aðstoð við heimanám barnanna.
Sóknaraðili hefði alla tíð unnið úti, lengi vel í fullu starfi í [...] en að börnunum uppkomnum hefði hún tekið að starfa hjá [...] og þá í 80% starfi en þá einnig gengið vaktir. Hefði hún
alltaf verið eftirsótt í vinnu enda dugleg.
Varnaraðili hefði starfað sem [...]
frá árinu 1984 en hefði áður verið sjómaður á dagróðrabátum. Væri vinnutilhögun
hjá [...] þannig að hann ynni fjóra daga í senn,
á vakt frá klukkan 13 til 21. Því næst ætti varnaraðili tvo frídaga en svo
tækju við vaktir frá klukkan 16 til 24. Ekki væri gerð krafa um að [...] væri jafnan viðlátinn á [...]
eða í [...]
og gæti hann því
verið mikið heima hjá sér. Hefði hann því verið mikið heima við og tvímælalaust
sinnt heimilinu til jafns við sóknaraðila. Þá hefði varnaraðili jafnan verið
með hærri tekjur en sóknaraðili, svo munaði töluverðu.
Varnaraðili sagðist hafa farið í aðgerð
á mjöðm á síðasta ári og hefði hún haldið sér fjóra mánuði frá vinnu. Væri gert
ráð fyrir annarri slíkri aðgerð að hausti. Kvaðst varnaraðili telja að þetta
yrði til þess að hann yrði að flytja sig til annars [...] þar sem sér byðist meiri innivinna. Slíkt myndi lækka laun
hans verulega.
Varnaraðili sagði að eftir skilnað
þeirra sóknaraðila hefði sóknaraðili átt heima í húsi þeirra og verið með „[...]“. Varnaraðili hefði greitt alla reikninga, allt sem hefði
snúið að húsinu og bifreiðinni, símreikninga sóknaraðila og annað, hefði í raun
greitt alla reikninga, þar með talda fyrir hita, rafmagn og
fasteignagjöld. Eldsneytiskostnað
bifreiðarinnar hefði hann þó ekki greitt en hins vegar hefðu lán hvílt á henni
og þau rokið „upp úr öllu valdi“ og hefði varnaraðili greitt þau, allt upp í um
eitt hundrað þúsund krónur á mánuði.
Þau sóknaraðili hefðu ætíð nýtt sér
greiðsluþjónustu í sparisjóðnum og hefði sóknaraðili greitt 30.000 krónur inn á
hana í hverjum mánuði en varnaraðili greitt að öðru leyti. Hefði varnaraðili að
mestu séð um innkaup fyrir heimilið.
Varnaraðili sagði að tekjur sínar á
árinu 2011 hefðu verið á bilinu níu til níu og hálf milljón króna. Síðan þá
hefði yfirvinna sín minnkað talsvert og hefði það verið vegna mikils
niðurskurðar hjá [...], en ekki að sínum vilja.
Varnaraðili var spurður um heilsufar
sóknaraðila. Kvaðst sóknaraðili ekkert geta sagt um núverandi heilsufar hennar,
en fram til skilnaðar hefði hún ætíð getað stundað fulla vinnu. Sóknaraðili
hefði alizt upp við slæmar aðstæður og síðustu ár
hefði hún tekið að „taka sér það til fyrirmyndar og breyta á þann veg, hætti að
hafa samskipti við [varnaraðila], fór að skrifa bara skilaboð á miða eða þá,
eins og gerðist áður, þá notaði hún börnin til að koma skilaboðum til
[varnaraðila].“ Hefði varnaraðili margreynt að taka á þessu en
árangurslaust. Ástandið hefði þó verið
sveiflukennt og ágætir tímar komið inn á milli. Loks hefði varnaraðili þó gefizt upp.
Varnaraðili var spurður hvort rétt væri
að sóknaraðili hefði komið með 400.000 krónur í reiðu fé á vinnustað hans, sem
greiðslu til hans, en hann aftók það. Hann hefði fengið mikið af bréfum frá
henni, lesið þau fyrstu en ekki líkað lesturinn. Síðari bréf hefðu farið „beint
í tætarann“.
Varnaraðili var spurður hvort hann
hefði dvalið á heilsuhæli í Hveragerði eftir skilnað. Kvaðst hann ekki muna
hvort dvöl sín þar hefði verið fyrir eða eftir skilnaðinn, en þangað hefði hann
farið á [...]-bifreiðinni.
Varnaraðili var spurður um símanúmer
sem kæmu fram á reikningum. Kvað hann sóknaraðila nota númerið [...] og [...]
en sjálfur notaði hann [...]
en eitt númerið notaði sonur þeirra. Á reikningunum væri einnig tiltekin
sjónvarpsnotkun sem hefði í fyrstu verið notkun sóknaraðila en eftir að
varnaraðili hefði fært númerið væri þetta vegna sjónvarpsnotkunar hans.
Varnaraðili var spurður hvort hann
kannaðist við að sóknaraðili hafi leitað leyfis hjá sér, eftir skilnað, til að
fara á [...]-bifreiðinni til [...] í lækningaskyni. Kvaðst hann ekki minnast slíks samtals en
sóknaraðili hefði verið á bifreiðinni og ekki þurft að spyrja sig slíks.
Varnaraðili sagðist ekki vita til að
gert hefði verið örorkumat á sóknaraðila vegna andlegra veikinda. Hún hefði
hins vegar verið óvinnufær stuttan tíma eftir [...]slys.
Niðurstaða
Samkvæmt 2. tl.
1. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 getur maki krafizt
þess að réttindum hans í lífeyrissjóðum verði haldið utan skipta. Byggir
varnaraðili á þeirri heimild. Samkvæmt 2. mgr. 102. gr. laganna má hins vegar
bæta hinum makanum slíka tilhögun með fjárgreiðslum, ef ósanngjarnt þykir
gagnvart honum að réttindunum verði haldið utan skipta. Sóknaraðili gerir ekki
kröfu um slíka fjárgreiðslu heldur krefst þess að lífeyrisréttindi beggja
málsaðila komi til skipta sem hjúskapareignir.
Eins og áður segir miðast regla 2. mgr.
102. gr. laganna við þau tilvik þegar ósanngjarnt er að réttindum verði haldið
utan skipta. Telja verður ljóst að um töluvert sérstakar aðstæður þarf að vera
að ræða, svo til greina komi að beita umræddri reglu. Í máli þessu háttar svo
til að báðir aðilar hafa unnið úti drjúgan eða nær allan hluta sambúðartímans
og aflað sér lífeyrisréttinda með vinnu sinni. Óumdeilt er hins vegar að tekjur
varnaraðila hafa verið hærri og lífeyrisréttindi hans eru sömuleiðis mun
ríflegri. Að mati dómsins verður ekki talið, að sú staða, að annað hjóna hafi
unnið fyrir meiri tekjum og aflað ríflegri lífeyrisréttinda en hitt, sé svo
sérstök að það verði til þess að ósanngjarnt teljist að lífeyrisréttindunum
verði haldið utan skipta. Verði þvert á móti álitið, að sú aðstaða sé svo
algeng að hennar hefði beinlínis verið getið í lögum, hefði það verið ætlun
löggjafans að hún breytti þeirri meginreglu sem hann setti um að lífeyrisréttindum
verði haldið utan skipta að kröfu maka. Að sínu leyti þykir það einnig eiga við
um þá aðstöðu sem sóknaraðili kveður nú vera uppi, að til skipta í búinu séu
sáralitlar nettóeignir aðrar en lífeyrisréttindi aðila. Eins og rakið var
kveður 2. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga á um að þegar ósanngjarnt teljist
gagnvart hinum makanum að maka sé leyft að halda lífeyrisréttindum utan skipta,
sé heimilt að bæta honum það með fjárgreiðslum sem eftir atvikum megi greiða í
áföngum. Lagagreinin kveður hins vegar ekki á að um að slík ósanngirni skuli
verða til þess að réttindunum verði ekki haldið utan skipta. Með vísan til
framanritaðs þykir krafa sóknaraðila, um að lífeyrisréttindi aðila komi undir
skiptin, ekki fá þá lagastoð sem dugi til þess að fallast megi á hana gegn
afstöðu varnaraðila, sem fær lagastoð í 2. tl. 1.
mgr. 102. gr. hjúskaparlaga.
Sóknaraðili krefst þess að innstæðu á
reikningi hennar nr. [...] verði haldið utan skipta. Ekki er
ágreiningur um að sóknaraðili hafi lent í slysi og fengið bætur greiddar vegna
þeirra. Samkvæmt gögnum málsins lagði lögmannsstofan Fortis
inn 2.976.101 krónu á reikning hennar nr. 1129-05-2462 hinn 4. febrúar 2009 en
fyrir voru þá á reikningnum 15.579 krónur. Næstu daga eru nokkrar útborganir af
reikningnum en engin innborgun, en hinn 10. febrúar færir sóknaraðili 1.680.000
krónur inn á reikning nr. 1129-15-550340, en engin innstæða var fyrir á þeim
reikningi. Eftir þá útborgun eru 21.984 krónur eftir á reikningi nr.
1129-05-2462. Yfirlit um reikning nr.
1129-15-550340 sem liggur fyrir í málinu sýnir allnokkurrar útborganir en enga
innborgun og er staða reikningsins hinn 1. apríl 2009, þegar varnaraðili
krafðist skilnaðar að borði og sæng, 1.411.889 krónur.
Að mati dómsins er ljóst að greiðsla
lögmannsstofunnar til sóknaraðila hinn 4. febrúar 2009 er greiðsla á bótum til
hennar vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir. Þá þykir ljóst af því sem rakið
hefur verið, að innlegg hennar á hinn umdeilda reikning nr. [...] sex dögum síðar, stafar allt af þessu bótafé hennar. Ekkert
hefur komið fram í málinu um að annað fé hafi síðar blandazt
því fé á þeim reikningi. Þykir dóminum óhætt að líta svo á eins og á stendur að
innstæðan á reikningi nr. [...]
sé nægilega sérgreind sem bótafé hennar.
Krafa sóknaraðila um að innstæðu þessari
yrði haldið utan skipta kom samkvæmt gögnum málsins ekki fram fyrr en á
skiptafundi hinn 11. ágúst 2011, um hálfu öðru ári eftir fyrsta skiptafund. Þótt
nokkuð hafi það verið seint verður það að mati dómsins ekki til þess að krafan
komist ekki að, en sú lagagrein sem varnaraðili vísar til þykir ekki veita
heimild til þess að hafna kröfunni þess vegna. Þykir sóknaraðili ekki hafa
glatað rétti sínum með tómlæti.
Varnaraðili byggir á því að fjárhæð á
umræddum reikningi sé enn fyrir hendi, einungis vegna mun hærri framlaga
varnaraðila til sameiginlegs rekstrar. Beri því að lækka þá fjárhæð sem nemi
því framlagi, svo sem greini í 4. tl. 1. mgr. 102.
gr. hjúskaparlaga. Bótaféð fékk sóknaraðili greitt í febrúar 2009 en sambúð
aðila lauk um mánaðamótin marz og apríl sama ár. Á
þeim tíma tók sóknaraðili 268.111 krónur út af reikningi sínum nr. [...]. Hefur ekki verið
sýnt fram á að framlög varnaraðila til sameiginlegs rekstrar hafi orðið til
þess að bótaféð hafi enn verið fyrir hendi við samvistarslit. Hugsanlegar
greiðslur varnaraðila eftir samvistarslit þykja hér ekki skipta máli, en
varnaraðili hefur krafizt endurgreiðslu útlagðs slíks
kostnaðar og verður leyst sjálfstætt úr þeirri kröfu. Bótafé sóknaraðila er
ætlað að bæta henni skerta möguleika til framfærslu til frambúðar. Eins og áður
segir þykir ekki hafa verið sýnt fram á að það hafi verið vegna framlaga
varnaraðila sem umræddar eftirstöðvar bótafjárins hafi verið fyrir hendi. Þykir
eigna- og skuldastaða aðila við skiptin eða atvik önnur ekki vera þess eðlis að
telja verði ósanngjarnt að sóknaraðili haldi þeim bótum sem henni hafa verið
greiddar og hún hefur haldið nægilega sérgreindum. Verður fallizt
á kröfu hennar sem fær stoð í 4. tl. 1. mgr. 102. gr.
hjúskaparlaga.
Varnaraðili krefst þess að sóknaraðili
endurgreiði sér nánar tilgreindan helming útlagðs kostnaðar vegna rafmagns,
hita og síma. Í málinu liggja greiðsluáætlanir vegna greiðsluþjónustu og
símreikningar. Þessi gögn styðja að mati dómsins að varnaraðili hafi greitt þær
fjárhæðir sem hann staðhæfir. Verður krafa hans ekki talin vanreifuð. Sóknaraðili
kveðst ekki hafa nýtt sér allt húsið og auk þess dvalið um skeið utan þess og
hafa boðið varnaraðila að búa þar. Ekki skiptir máli hér hvort sóknaraðili hafi
í raun nýtt sér allt húsið en fyrir liggur að hún átti heima í því eftir
samvistarslit en varnaraðili flutti annað. Þá hefur því ekki verið mótmælt að
varnaraðili hafi leigt sér húsnæði annars staðar og þykir því ekki skipta máli
þó sóknaraðili kunni að hafa boðið honum að nýta húsið um skeið á tímanum.
Gagnkvæm framfærsluskylda hjóna stendur fram að lögskilnaði en við skilnað
aðila að borði og sæng var hvorugu þeirra gert að greiða hinu lífeyri og liggur
ekkert fyrir um að komið hafi fram krafa um framfærslulífeyri. Þykir
framfærsluskylda aðila, sbr. 46. og 50. gr. hjúskaparlaga, ekki gera það að
verkum að varnaraðili eigi ekki rétt á þeirri endurgreiðslu sem hann krefst. Þá
byggir sóknaraðili á því að við sambúðarslit hafi orðið mikil röskun á högum
hennar, bæði vegna þess að varnaraðili hafi verið aðalfyrirvinna heimilisins og
einnig vegna andlegra erfiðleika hennar sem hafi verið afleiðing skilnaðarins. Þessi
atriði geta hins vegar ekki breytt niðurstöðu um greiðsluskyldu hér þótt engin
ástæða sé til að draga í efa að skilnaðurinn hafi orðið sóknaraðila erfiður. Sama
má segja um greiðslur sem hún kveðst hafa innt af hendi til varnaraðila, en
ekkert liggur fyrir um þær annað en 30.000 króna mánaðarlega greiðslu hennar
inn á greiðsluþjónustureikning þeirra. Þykja þær ekki verða til þess að varnaraðila
beri ekki sú endurgreiðsla sem hann fer fram á, en hún nemur sem áður segir
helmingi þess sem varnaraðili kveðst hafa greitt. Þá þykir krafa varnaraðila ekki
hafa komið fram of seint. Sóknaraðili kveðst sérstaklega mótmæla kröfu um
endurgreiðslu símreikninga og segir því „mótmælt að sóknaraðili hafi nýtt þá
síma sem þar eru að baki, a.m.k. ekki ein.“ Hún hefur hins vegar ekki lagt fram
upplýsingar um hvaða síma hún hafi notað og hverja ekki. Fyrir liggur að
símreikningar eins og ýmsar heimilisþarfir voru í greiðsluþjónustu sem
varnaraðili stóð að yfirgnæfandi hluta straum af, en sóknaraðili segir sjálf í
greinargerð sinni að varnaraðili hafi verið „aðalfyrirvinna heimilisins“. Þar
sem sóknaraðili hefur ekki lagt fram upplýsingar um hvaða síma hún hafi notað
og hvaða síma ekki, og ekki aðrar upplýsingar um símanotkun, svo sem um að hún
hafi sjálf greitt eigin símanotkun, þykir mega byggja á þeirri staðhæfingu
varnaraðila að símanotkun sóknaraðila hafi verið innifalin í þeim
símareikningum sem greiddir voru.
Varnaraðili krefst endurgreiðslu nánar
tilgreinds helmings útlagðs kostnaðar, sem nægilegar stoðir þykja vera fyrir að
hann hafi í raun greitt eftir samvistarslit aðila. Hafa engin gögn verið lögð
fram um að greiðslurnar hafi ekki verið inntar af hendi eða farið til annarra
þarfa en varnaraðili byggir á. Þykir endurgreiðslukrafa hans ekki vera úr hófi
og verður með vísan til alls framanritaðs fallizt á
hana.
Loks krefst varnaraðili greiðslu
1.100.000 króna í leigu fyrir afnot bifreiðarinnar [...]. Sóknaraðili krefst hins vegar sýknu og segist ekki hafa haft
leiguafnot bifreiðarinnar. Hún hafi „í fáein skipti fengið að skreppa á bílnum,
það hafi hún litið á sem lán og greiða frá fyrrum eiginmanni sínum sem ekki
væri ætlast til endurgjalds fyrir.“ Í fundargerð skiptafundar sem haldinn var
hinn 7. apríl 2011 skrifar skiptastjóri um bifreið þessa: „[Sóknaraðili] hefur
að mestu haft bifreiðina á skilnaðartímanum. [Varnaraðili] er tilbúinn að taka
við bifreiðinni og taka yfir skuldir. Rætt var um ráðstöfun bifreiðarinnar [...], m.a. um innlausn hjá Avant. Fram
kom hjá lögmanni [varnaraðila] að erfiðlega gengi að fá uppgjörstölur vegna
bílasamnings við Avant. Málefninu frestað til næsta fundar.“
Ekkert liggur fyrir um að fundargerð þessari hafi verið mótmælt að þessu leyti.
Þykir af þessu mega ráða að sóknaraðili hafi að minnsta kosti haft talsverð not
af bifreiðinni. Fyrir dómi kvaðst varnaraðili hafa farið á umræddri bifreið
tiltekna ferð suður á land sér til heilsubótar. Hann kvaðst hins vegar ekki
treysta sér til að svara hvort ferðin hafi verið farin fyrir eða eftir
samvistarslit þeirra. Af því má ráða að varnaraðili hefur eitthvað notað bifreiðina
eftir samvistarslitin. Þykir því verða að ætla að bæði hafi notað bifreiðina
eftir samvistarslit, þótt líkur séu á því að sóknaraðili hafi gert það í meira
mæli. Ekki liggur fyrir hversu mikil sú notkun hefur verið. Ekkert liggur fyrir
um að aðilar hafi samið um að sóknaraðili skyldi ein hafa bifreiðina og að
fyrir slík not skyldi koma mánaðarleg greiðsla. Gegn mótmælum sóknaraðila þykir
varnaraðila ekki hafa tekizt að sýna fram á að
bifreiðin hafi verið í slíkum notum sóknaraðila að hún verði krafin um slíka
fasta mánaðarlega leigu fyrir afnotin og verður kröfum varnaraðila um þær
leigugreiðslur hafnað.
Með vísan til framanritaðs verður fallizt á kröfu sóknaraðila um að fé á reikningi hennar
verði haldið utan skipta en hafnað kröfum sóknaraðila er snúa að
lífeyrisréttindum. Fallizt er á kröfu varnaraðila um
endurgreiðslu hluta útlagðs kostnaðar en hafnað kröfu hans um leigugreiðslur
fyrir bifreið. Með hliðsjón af þessum úrslitum öllum verður hvor aðili að bera
málskostnað sinn. Af hálfu sóknaraðila fór með málið Gísli M. Auðbergsson
héraðsdómslögmaður en af hálfu varnaraðila Berglind Svavarsdóttir
hæstaréttarlögmaður. Gætt var ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.
Þorsteinn Davíðsson kveður upp úrskurð
þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R
Ð
Hafnað er kröfu sóknaraðila, K, um að
lífeyrisréttindi aðila komi til skipta sem hjúskapareignir.
Innstæða að fjárhæð 1.411.889 krónur á
reikningi sóknaraðila nr. [...]
kemur ekki undir skiptin.
Sóknaraðili greiði varnaraðila, M, 356.375
krónur.
Málskostnaður fellur niður.