Hæstiréttur íslands

Mál nr. 645/2006


Lykilorð

  • Fasteign
  • Eignarréttur
  • Eignarnám
  • Auðlind
  • Valdmörk


         

Fimmtudaginn 21. febrúar 2008.

Nr. 645/2006.

Íslenska ríkið

(Reynir Karlsson hrl.)

gegn

Sigurði Baldurssyni

(Heimir Örn Herbertsson hrl.)

 og gagnsök

 

Fasteign. Eignarréttur. Eignarnám. Auðlind. Valdmörk.

Árið 2003 hófust framkvæmdir á gerð tvíbreiðra jarðganga milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar í Fjarðabyggð. Lá nyrðri hluti ganganna í landi jarðarinnar S sem var í eigu S, en þar var jafnframt lagður nýr vegur næst gangamunnanum og eldri vegur að nokkru endurgerður. V óskaði eftir því að matsnefnd eignarnámsbóta mæti bætur vegna framkvæmda við vega- og jarðgangagerð í landi S. Ágreiningur varð um þann lið í úrskurði nefndarinnar er kvað á um greiðsluskyldu V vegna jarðefnis sem féll til við borun ganganna. Hafnaði V þeirri greiðsluskyldu með öllu, á þeim grundvelli að efnið væri ekki háð eignarrétti S. Í málinu hélt Í fram að matsnefnd eignarnámsbóta hefði farið út fyrir lögbundið hlutverk sitt með því að meta bætur fyrir jarðefni úr göngunum. Ekki var fallist á þessa málsástæðu Í, en þrátt fyrir að ákvæði 12. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms ætti ekki við um jarðefnið úr göngunum, yrði að líta til þess að ákvörðun nefndarinnar fól ekki í sér að V væri skylduð til að taka eitthvað til sín, sem hún ekki vildi, heldur hefði hún nýtt umrætt jarðefni. Var nefndinni því rétt að meta það sem V tók óháð því hvort henni væri skylt að greiða fyrir það. Hvað varðaði ágreining aðila um hvort jarðefnið úr göngunum hafi verið háð eignarrétti S sagði að samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu væri ótvírætt að grjót og malarefni gætu fallið undir hugtakið auðlind samkvæmt lögunum. Hins vegar þegar litið væri til raunkostnaðar við að vinna hvern rúmmetra efnisins úr veggöngunum og þá jafnframt áætlaðs kostnaðar af vinnslu efnisins ef um efnistökugöng hefði verið að ræða væri ljóst að verðgildi efnisins eftir nám hefði verið einungis lítið brot af kostnaðinum við að vinna það. Væri hafið yfir allan vafa að efnisnámið hefði ekki geta gefið af sér arð og yrði því að leggja til grundvallar að verðmæti efnisins í jörðu hefði ekkert verið. Gæti jarðgangaefnið af þeirri ástæðu ekki fallið undir hugtakið auðlind samkvæmt 3. gr. laga nr. 57/1998 og félli því utan við það sem teldist eign S undir yfirborði lands hans. Var V þannig heimilt að taka efnið og nýta það. Var Í sýknað af kröfum S.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. desember 2006. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda, en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 28. febrúar 2007. Hann krefst að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér aðallega 8.573.500 krónur, en til vara 6.001.450 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. júlí 2005 til greiðsludags. Að því frágengnu krefst hann staðfestingar héraðsdóms. Í öllum tilvikum krefst hann þess að ákvæði héraðsdóms um málskostnað verði staðfest og aðaláfrýjanda gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti.

I.

Vegagerðin hlutaðist til um gerð tvíbreiðra jarðganga milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar og hófust framkvæmdir á árinu 2003. Liggur syðri hluti ganganna í landi jarðarinnar Dala í Fáskrúðsfirði, en nyrðri hlutinn í landi jarðar gagnáfrýjanda, Sléttu í Reyðarfirði.

Með bréfi 26. apríl 2005 til matsnefndar eignarnámsbóta fór Vegagerðin þess á leit að metnar yrðu bætur vegna framkvæmda við vega- og jarðgangagerð í landi Sléttu. Var tekið fram að meta skyldi annars vegar land undir veg, breikkun vegar, vegskála og „gangamunna allt þar til miðlína ganga er á 30 m dýpi“, en Vegagerðin kvað stærð þessa lands vera 11,9 hektara. Hluti þessa svæðis væri vegna endurgerðar og breikkunar eldri vegar á 700 til 800 metra kafla og skyldi miðað við að breidd vegarins þar væri 30 metrar frá miðlínu til beggja handa, alls 60 metrar. Breidd nýja vegkaflans allt þar til komið sé á 30 metra dýpi innan gangamunnans væri hin sama. Hins vegar leitaði Vegagerðin mats á jarðefni til vegagerðar úr Sléttuá. Nefndin kvað upp úrskurð í málinu 1. júní 2005. Samkvæmt honum skyldi Vegagerðin greiða 2.000.000 krónur fyrir land sem nefndin taldi hafa farið undir veg, auk þess sem litið var til þess að kostir á að nýta tiltekna spildu skertust, 250.000 krónur fyrir malarefni úr Sléttuá, 400.000 krónur fyrir jarðrask og óþægindi og 534.012 krónur í málskostnað. Vegagerðin greiddi gagnáfrýjanda samkvæmt þessum liðum í úrskurðinum og er ekki ágreiningur um þá. Loks ákvað nefndin að Vegagerðin skyldi greiða 3.086.460 krónur fyrir jarðefni, sem féllu til við borun ganganna í landi Sléttu, en verð fyrir hvern rúmmetra af efni þessu var ákveðið 18 krónur. Hafnaði Vegagerðin með öllu greiðsluskyldu samkvæmt þessum lið í úrskurði nefndarinnar. Snýst ágreiningur málsaðila um þetta atriði úrskurðarins.

II.

Aðaláfrýjandi heldur fram að matsnefnd eignarnámsbóta hafi farið út fyrir lögbundið hlutverk sitt með því að meta bætur fyrir jarðefni, sem rutt var út úr áðurnefndum göngum. Í matsbeiðni Vegagerðarinnar hafi ekki verið óskað eftir því að það yrði metið til verðs, en samkvæmt 4. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms skuli beiðni eignarnema lögð til grundvallar um það hvaða verðmætum eignarnám lýtur að. Einungis í tveimur tilvikum hafi nefndin heimild til að meta bætur fyrir hagsmuni, sem ekki séu tilgreindir sem matsandlag í beiðni. Það eigi annars vegar við þegar ótvírætt hafi verið skert stjórnarskrárvarin eignarréttindi, sem ekki var getið í matsbeiðni, og hins vegar ef uppfyllt eru skilyrði 1. eða 2. mgr. 12. gr. laga nr. 11/1973 til að taka eignarnámi þann hluta eignar, sem eftir er, ef hann nýtist ekki á eðlilegan hátt sem sjálfstæð eign eða bersýnilegt ósamræmi reynist milli bóta og verðmætis þess hluta, sem eftir er. Þessi aðstaða sé ekki fyrir hendi í málinu. Ástæðulaust hafi verið að tilgreina jarðefnið í matsbeiðni, enda hafi taka þess ekki falið í sér skerðingu á fasteign gagnáfrýjanda. Með því að meta jarðefnið til verðs hafi nefndin kveðið upp úr um eignarrétt gagnáfrýjanda að því og bótaskyldu Vegagerðarinnar. Ekki sé hennar hlutverk að skera úr ágreiningi um eignarrétt og hafi nefndin með þessu gengið lengra en henni var heimilt.

Gagnáfrýjandi mótmælir þessari málsástæðu aðaláfrýjanda, enda hafi matsnefnd eignarnámsbóta verið rétt og skylt að meta jarðefnið til verðs. Reisir hann andmæli sín meðal annars á því að lög ætli eignarnema ekki að eiga sjálfdæmi um hvaða skerðingar á eignarréttindum skuli bættar. Nefndin sé bundin af reglum stjórnsýsluréttar, þar á meðal rannsóknarreglu og andmælareglu, og skýrt lagaákvæði þurfi til að hún verði bundin af málatilbúnaði annars aðilans. Ekkert slíkt ákvæði sé í lögum nr. 11/1973.

Ákvæði 12. gr. laga nr. 11/1973 eiga ekki við um jarðefnið, sem að framan er getið. Til þess verður á hinn bóginn að líta að ákvörðun matsnefndar eignarnámsbóta fól ekki í sér að Vegagerðin væri skylduð til að taka eitthvað til sín, sem hún ekki vildi. Þvert á móti er óumdeilt að hún nýtti við framkvæmdir sínar jarðefni sem féll til við gangagerðina. Nefndinni var að því virtu rétt að meta það, sem Vegagerðin tók, óháð því hvort henni væri skylt að greiða fyrir það. Samkvæmt því verður ekki fallist á þá málsástæðu aðaláfrýjanda að nefndin hafi farið út fyrir lögmælt hlutverk sitt með því að meta jarðefnið til verðs.

III.

Málsaðilar deila um hvort jarðefni, sem kom út úr veggöngunum, hafi verið háð eignarrétti gagnáfrýjanda. Aðaláfrýjandi telur svo ekki vera og að eignarréttur landeiganda til þess, sem er undir yfirborði jarðar, sé ekki án takmarkana. Efnið hafi legið djúpt í jörðu og nýting þess falli utan við það sem skilgreina megi sem venjuleg eignarráð landeiganda. Efnið sé hvorki aðgengilegt né vinnanlegt fyrir gagnáfrýjanda og svo mikið þurfi að hafa fyrir að sækja það að slíkt sé hvorki fjárhagslega né af öðrum ástæðum réttlætanlegt. Þegar komið sé út fyrir framangreind mörk sé öðrum heimilt að nýta það sem er undir yfirborði jarðar án þess að þurfa að greiða fyrir efnið sem tekið sé. Undir það falli gangagerð Vegagerðarinnar, en markmið með framkvæmdum hennar hafi ekki verið að sækja efnið vegna verðgildis þess, heldur að ryðja því burt. Skipti þá engu máli þótt hún hafi getað nýtt sér efnið við vegagerð og sparað sér að kaupa annað í þess stað. Brottnám efnisins hafi ekki falið í sér tjón fyrir gagnáfrýjanda og eignarnámsbótum sé ekki ætlað að gera menn betur fjárhagslega setta en ef ekki hefði komið til eignarnáms.

Í því skyni að sýna fram á kostnað við að ná jarðefni úr göngunum hefur aðaláfrýjandi lagt fram bréf GeoTek ehf. 19. maí 2006, undirritað af Birni A. Harðarsyni jarðverkfræðingi. Í bréfinu segir að hér sé um að ræða nám á „almennum bergmulningi“ og er gerð grein fyrir helstu verkþáttum við efnistöku úr jarðgöngum. Þá er greint frá raunkostnaði við hvern verkþátt í gerð Fáskrúðsfjarðarganga, en sá kostnaður nam 6.995 krónum fyrir hvern rúmmetra af föstu bergi. Í bréfinu er einnig áætlað hver kostnaðurinn hefði orðið miðað við að göngin hefðu verið „hrein efnistökugöng“, en tilhögun verksins hefði þá verið önnur. Í því tilviki var kostnaður áætlaður 3.690 krónur fyrir hvern rúmmetra miðað við jafn mikið efni og tekið var.

Gagnáfrýjandi krefst þess að greitt verði fyrir efnið, sem numið var úr þeim hluta ganganna, sem liggi undir landi Sléttu. Telur hann eignarrétt sinn vera ótvíræðan samkvæmt viðteknum viðhorfum í eignarétti og sé hann varinn af 72. gr. stjórnarskrárinnar. Beri að leggja til grundvallar þá meginreglu að eignarráð fasteignareiganda nái jafnt til umráða og nota undir yfirborði jarðar sem yfir því. Jafnframt sé kveðið á um eignarrétt í 3. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, en þar sé mælt fyrir um að eignarlandi fylgi eignarréttur að auðlindum í jörðu. Enginn vafi leiki á því að landið, sem göngin liggi undir, sé eignarland en ekki þjóðlenda. Beri einnig að líta til þess að Vegagerðin hafi nýtt allt efnið, sem kom út úr göngunum. Loks verði að hafa í huga þær skorður sem tilvist ganganna kunni í framtíðinni að setja við nýtingu gagnáfrýjanda á þessum hluta jarðar sinnar. Málsástæður aðilanna eru nánar raktar í héraðsdómi.

IV.

Í settum lögum eru ekki bein ákvæði um takmörk eignarráða fasteignareiganda undir yfirborði jarðar. Samkvæmt hefðbundnum viðhorfum í eignarétti ná eignarráð hans svo langt niður sem nauðsynlegt er til að hann geti haft þau not af landi sínu, sem heyra til venjulegrar hagnýtingar á eignarrétti yfir fasteign. Jafnframt er talið að þeim rétti séu litlar skorður settar og að landeiganda verði til dæmis ekki meinað að nýta sér jarðhita djúpt í jörðu hafi hann til þess fjárhagslega getu. Þá hafa lög nr. 57/1998 að geyma ákvæði í 3. gr. þess efnis að eignarlandi fylgir eignarréttur að auðlindum í jörðu. Í 2. mgr. 1. gr. laganna segir að með auðlindum sé átt við hvers konar frumefni, efnasambönd og orku, sem vinna má úr jörðu, hvort heldur er í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi. Ótvírætt er að grjót og malarefni geta fallið undir hugtakið auðlind samkvæmt lögunum. Fyrrnefnda lagaákvæðið er afdráttarlaust um eignarrétt fasteignareiganda að auðlindum í jörðu, en áður höfðu dreifð ákvæði verið í lögum um eignarrétt landeigenda að tilteknum réttindum undir yfirborði jarðar.

Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi sem varð að lögum nr. 57/1998, er að finna frekari skýringar á inntaki eignarréttar að auðlindum í jörðu. Þar segir meðal annars að mikill kostnaður við virkjun jarðhita á háhitasvæðum eigi almennt að hafa áhrif til lækkunar við mat á endurgjaldi fyrir slík réttindi þegar þau eru metin, til dæmis vegna eignarnáms, á grundvelli þess verðs sem ætla má að þau hafi í frjálsri sölu. Sömu sjónarmið koma að sínu leyti einnig fram í dómi Hæstaréttar í máli nr. 89/1980 í dómasafni réttarins 1983 bls. 1538, þar sem leyst var úr ágreiningi um verð fyrir grjót og malarefni úr yfirborðsnámu vegna eignarnáms. Verðmæti hvers kyns efna, sem vinna má úr jörðu, ræðst samkvæmt þessu af því, sem gera má ráð fyrir að fáist fyrir þau í frjálsri sölu og þau verða ekki bætt landeiganda án tillits til kostnaðar við að ná þeim.

Að framan var þess getið að raunkostnaður við að vinna hvern rúmmetra efnis úr Fáskrúðsfjarðargöngum hafi verið 6.995 krónur, en áætlaður kostnaður af vinnslu efnis úr efnistökugöngum þar væri 3.690 krónur. Samkvæmt kröfugerð gagnáfrýjanda er verðmæti efnisins, sem kom út úr göngunum, að hámarki 50 krónur fyrir hvern rúmmetra. Verðgildi efnisins eftir nám þess úr göngunum er þannig einungis lítið brot af kostnaði við að vinna það og gildir einu hvaða mælikvarða er beitt. Er hafið yfir allan vafa að nám þessa efnis gæti aldrei gefið af sér arð. Að þessu virtu verður að leggja til grundvallar að verðmæti efnisins í jörðu hafi ekkert verið. Getur það af þeirri ástæðu ekki fallið undir hugtakið auðlind samkvæmt 3. gr. laga nr. 57/1998. Það fellur því utan við það, sem telst eign gagnáfrýjanda undir yfirborði lands hans, hvort heldur sem litið er til viðurkenndra sjónarmiða í eignarétti eða áðurnefndra laga. Vegagerðinni var samkvæmt því heimilt að taka efnið og nýta það og sú gerð hennar fól ekki í sér tjón fyrir gagnáfrýjanda. Er aðaláfrýjanda samkvæmt því óskylt að greiða gagnáfrýjanda fyrir það, sbr. til hliðsjónar 2. málslið 1. mgr. 45. gr. þágildandi vegalaga nr. 45/1994.

Að framan var þess getið að gagnáfrýjandi hefur hreyft því í málatilbúnaði sínum að tilvist vegganganna setji nýtingu hans á þessum hluta jarðarinnar skorður. Við munnlegan flutning málsins var nefnt sem dæmi að ókleift yrði að bora eftir vatni yfir göngunum. Varðandi þetta er til þess að líta að ekki var gert eignarnám á landræmu í eigu gagnáfrýjanda yfir Fáskrúðsfjarðargöngum að landamerkjum Dala í suðri og málið hefur ekki snúist um að afnot hans væru skert eða kvaðir lagðar á land hans. Þvert á móti hefur hann krafist þess að fá ætlaða skerðingu á eign sinni bætta í formi einingaverðs fyrir jarðefni úr göngunum. Staðhæfing um skert not af landi hefur ekki verið skýrð frekar eða hvernig bætur á slíkum grunni yrðu ákveðnar. Eins og málið hefur verið rekið af gagnáfrýjanda getur þessi málsástæða ekki komið til frekari álita.

Krafa aðaláfrýjanda um sýknu verður samkvæmt öllu framanröktu tekin til greina. Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfu gagnáfrýjanda, Sigurðar Baldurssonar.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. september 2006.

I

Mál þetta, sem dómtekið var fimmtudaginn 31. ágúst sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Sigurði Baldurssyni, kt. 250849-2659, Sléttu, Fjarðarbyggð, með stefnu þingfestri 1. september 2005 á hendur Vegagerðinni, kt. 680269-2899, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík.  Með gagnstefnu, birtri 29. september 2005, höfðaði stefndi gagnsakarmál á hendur stefnanda.  Undir rekstri málsins féll gagnstefnandi frá kröfum í gagnsök.

 

            Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að stefnda verði gert að greiða stefnanda kr. 8.573.500, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. júlí 2005 til greiðsludags.  Til vara krefst stefnandi þess, að stefnda verði gert að greiða honum kr. 3.086.460, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. júlí 2005 til greiðsludags.

            Í báðum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu, að teknu tilliti til skyldu hans til greiðslu virðisaukaskatts.

 

            Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, en til vara, að stefnukröfurnar verði lækkaðar verulega.  Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.

 

II

Málavextir

Með heimild í 45. gr. vegalaga nr. 45/1994 var landsvæði stefnanda, Sigurðar Baldurssonar, tekið eignarnámi, en tilefni eignarnámsins var gerð jarðganga milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar.  Var munni ganganna Reyðarfjarðarmegin í um 65 m hæð yfir sjávarmáli í landi stefnda, Sléttu í Fjarðarbyggð.  Ná framkvæmdirnar í landi stefnda til lands undir vegsvæði, auk lands undir vegskála og jarðgöng, samtals um 11,90 ha2.  Einnig tekur eignarnámið til 5000 m3 jarðefnis úr námu í Sléttuá.  Stefndi heimilaði eignarnema að hefja framkvæmdirnar, þó samkomulag hefði ekki tekizt um bætur, og hófust framkvæmdir í apríl 2003.  Með beiðni, dags. 26. apríl 2005, fór stefndi fram á, að Matsnefnd eignarnámsbóta mæti hæfilegar bætur vegna eignarnámsins, og var í beiðninni miðað við, að eignarnámið tæki til lands yfir jarðgöngunum, allt að miðlínu þeirra á 30 m dýpi undir yfirborði Sléttu.  Af hálfu stefnanda var hins vegar á því byggt, að stefnda bæri að bæta að fullu vegna þess hluta jarðganganna, sem sannarlega liggur um og undir landi jarðar hans og að landamerkjum við Dali í Fáskrúðsfirði, auk bóta vegna tímabundinna afnota lands og rasks utan hinnar eignarnumdu spildu.

            Matsnefnd eignarnámsbóta kvað upp úrskurð sinn í málinu þann 1. júní 2005, mál nr. 6/2005.  Voru stefnanda úrskurðaðar bætur, samtals kr. 5.736.460, auk málskostnaðar, kr. 552.687.  Sundurliðast bæturnar svo:

 

                                                                               Landbætur  kr. 2.000.000

                                                                               Efnisbætur  kr.    250.000

                                                    Tímabundin óþægindi o.fl.  kr.    400.000

                                               Bætur v. efnis úr jarðgöngum  kr. 3.086.460

 

            Stefnandi, sem hafði áður krafið stefnda um heildarbætur að lágmarki kr. 17.050.000, kveðst hafa ákveðið að una úrskurði matsnefndarinnar.  Stefndi var hins vegar ekki sáttur við úrskurðinn og þá einkum þann þátt, sem laut að bótaákvörðun vegna jarðganganna.  Þann 8. júlí 2005 greiddi stefndi stefnanda kr. 3.202.687.  Í greiðslutilkynningu stefnda segir, að um sé að ræða landbætur til stefnanda, greiddar með fyrirvara um réttmæti fjárhæðar.  Kveðst stefnandi telja einsýnt, af tölulegum forsendum, sem og fyrri samtölum við stefnda, að stefndi greiði ekki úrskurðaðar bætur vegna efnis úr jarðgöngum, kr. 3.086.460, og tiltók lögmaður stefnanda í bréfi til stefnda, dags. 15. júlí 2005, að tekið væri við greiðslunni sem innborgun á kröfu stefnanda.

            Miðar kröfugerð stefnanda og málatilbúnaður við það, að bætur til handa stefnanda séu uppgerðar um annað en vegna jarðganganna sjálfra.  Gerir stefnandi því aðallega kröfu um bætur miðað við kr. 50 pr. m3 þess efnis, sem úr göngunum var unnið, en samkvæmt úrskurði Matsnefndar eignarnámsbóta nam það magn 171.470 m3.  Varakröfu sína byggir stefnandi á verðforsendum Matsnefndar eignarnámsbóta óbreyttum, þ.e. 18 kr. pr. m3.

            Stefndi telur úrskurð matsnefndarinnar ekki byggja á lögmætum sjónarmiðum.  Matsnefndinni hafi hvorki verið heimilt að úrskurða um bætur fyrir jarðefni, sem ekki hafi verið matsandlag, né hafi verið lagagrundvöllur til greiðslu bóta. 

            Höfðaði stefndi gagnsakarmál á hendur stefnanda, þar sem gerð var krafa um, að úrskurður matsnefndar eignarnámsbóta yrði felldur úr gildi og að dæmt yrði, að stefnda væri óskylt að bæta stefnanda jarðefni, sem til féllu við gangagerðina.  Undir rekstri málsins féll stefndi frá gagnsök í málinu.

            Stefnandi kveður, að til skamms tíma hafi verið stundaður hefðbundinn landbúnaður á Sléttu, og nú síðast sauðfjár- og hrossabúskapur.  Í landi jarðarinnar séu malarnámur og hlunnindanýting. 

 

II

Málsástæður stefnanda

Af hálfu stefnanda er á því byggt, að stefnda beri að greiða fyrir það efni, sem unnið hafi verið úr þeim hluta jarðganganna, sem tilheyri Sléttu og fyrr sé gerð grein fyrir.  Svo sem fyrr segi, miðist málatilbúnaður stefnanda við það, að einungis sé ágreiningur um þann þátt, en til öryggis sé á því byggt, að stefndi sé þá bundinn af greiðslu sinni á bótum vegna annarra þátta.  Allt að einu leggi stefnandi fram greinargerð sína fyrir Matsnefnd eignarnámsbóta ásamt þeim gögnum, sem fyrir nefndina hafi verið lögð.  Beri að líta á greinargerðina og þau gögn og sjónarmið, sem þar séu reifuð, sem hluta af málsástæðum stefnanda við rekstur máls þessa.  Af stefnda hálfu hafi því verið hafnað að bæta eignarnámsþola sérstaklega fyrir þann hluta fyrirhugaðra jarðganga, sem liggi um land Sléttu.  Göngin liggi undir fjallgarðinn gengt Fáskrúðsfirði og komi út í landi Dala í Fáskrúðsfirði.  Af stefnda hálfu sé miðað við, að eingöngu komi bætur fyrir land undir jarðgöng, þar til komið sé á 30 metra dýpi, en eftir það komi ekki sérstakar bætur til.  Þessari aðferðafræði, sem stefnandi telji án nokkurrar lagaheimildar, sé harðlega mótmælt og þvert á móti byggt á því, að bæta beri stefnanda að fullu fyrir þann hluta jarðganganna, sem sannarlega liggi undir landi fasteignar hans.

            Við bótaákvörðun og grundvöll hennar beri að leggja þá meginreglu íslenzks réttar til grundvallar, að eignarráð fasteignareiganda nái jafnt til umráða og nota undir yfirborði jarðar sem yfir því.  Hafi í eignarrétti verið viðurkennt, að miða verði við þær kröfur, sem eðlilegt sé að viðurkenna af tilliti til hagsmuna landeiganda.  Vísist í þessu sambandi sérstaklega til 2. og 3. gr. auðlindalaga nr. 57/1998.  Við mat á bótum til stefnanda vegna þess hluta framkvæmdarinnar, sem felist í jarðgöngum undir landi hans, sé eðlilegt að líta til þess efnis, sem tekið verði vegna gangagerðarinnar og verðmætis þess, en allt sé það nýtt af stefnda.  Leggi stefnandi áherzlu á, að hér sé um lágmarksbótaviðmið að ræða.  Landbætur vegna ganganna geti aldrei numið lægri fjárhæð, enda verði jafnframt að hafa í huga þær mögulegu framtíðarskorður, sem tilvist ganganna setji nýtingu stefnanda á þessum hluta jarðar sinnar.  Á þessi grundvallarsjónarmið fallist Matsnefnd eignarnámsbóta í úrskurði sínum, en þar segi:

 

    Ljóst er að eignarnemi þarf að sprengja og flytja grjót úr göngunum og enda þótt fallast megi á það að hér sé ekki um arðvænlegt grjótnám í sjálfu sér að ræða nýtist það eignarnema við vegagerð hans. Telur matsnefndin að efni þetta allt sé háð eignarrétti landeiganda. Ekki verður fallist á það með eignarnema að eignarráð landeiganda séu takmörkuð miðað við 30 metra eins og hann heldur fram. Fyrir þeirri málsástæðu skortir lagarök og getur hún ekki takmarkað úrlausnarvald nefndarinnar við ákvörðun bóta vegna skerðingar eignarréttinda. Kemur og hér til að samkvæmt 3. gr. laga nr. 57/1998 fylgir eignarréttur að auðlindum í jörðu eignarlandi. Verður þá einnig að hafna kröfu eignarnema um frávísun þessa þáttar matsins.

Við mat á bótum vegna efnis úr göngunum verður hins vegar að líta til þess að mjög takmörkuð not hefði verið unnt að hafa af efni þessu nema vegna framkvæmda eignarnema. Öflun og nýting efnisins verður því vegna framkvæmda hans og verður að taka mið af því við ákvörðun bóta. Samkvæmt upplýsingum eignarnema nemur magn efnis sem kom úr göngunum 171.470 m3. Með tilliti til þess sem segir um hlut eignarnema í öflun efnisins þykja bætur til eignarnámsþola vegna þessa hæfilega ákveðnar 3.086.460 krónur (171.470 * 18 krónur).

 

            Þessi niðurstaða sé að sínu leyti í fullu samræmi við niðurstöðu nefndarinnar í málunum nr. 3/2004 og 2/2005. 

            Þegar hins vegar komi að mati á verðmætum efnisins, telji stefnandi, að nefndinni skjöplist verulega og hafi af því tilefni sett fram aðalkröfu sína um kr. 50 pr. m3, en með því skapist jafnframt eðlilegt svigrúm dóminum til handa við ákvörðun bóta.  Telji stefnandi það lítt, ef nokkuð, rökstutt af hverju jarðefnin úr göngunum séu verðlögð svo miklu lægra en jarðefni úr yfirborðsnámum, en stefnandi telji verðgildi þeirra og notin fyrir þau í alla staði sambærileg.

            Málatilbúnaður stefnda, eins og hann birtist í rekstri málsins fyrir Matsnefnd eignarnámsbóta, sé nokkuð sérstakur að mati stefnanda, og sjónarmiðum hans mótmælt í öllum atriðum. 

            Hvað form málsins varði, hagi þannig til, að stefndi hafi talið, að þar sem hann sjálfur hefði ekki, við eignarnámsákvörðun, ákveðið sérstaklega, að eignarnámið tæki til efnis úr göngunum, væri nefndinni fyrirmunað að ákvarða bætur þar að lútandi.  Um þetta sé það að segja, að um stjórnsýslunefnd sé að ræða, en ekki dómstól, og allt svigrúm hennar, hvað formhlið máls varði, því með öðrum hætti.  Að öðru leyti sýnist málatilbúnaður stefnda í þessa veru byggjast á þeim skilningi, að hann sjálfur, eignarneminn, fari með ákvörðunarvald þess, hvaða þætti Matsnefnd eignarnámsbóta leggi til grundvallar við mat á eignarröskunum vegna lagningar vega og jarðganga.  Þessu sé alfarið mótmælt, enda hljóti eignarnámið, eðli málsins samkvæmt, að taka til þessara þátta, sbr. 45. gr. vegalaga nr. 45/1994 og áratugalöng framkvæmd á grundvelli laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms, sbr. t.d. Hrd. 1997/52.  Væri sú niðurstaða næsta fráleit, ef stefndi, eignarneminn, sem í tilviki vegalaga færi bæði með þá hagsmuni, sem um sé að ræða, og heimildina til að heimila eignarnám þeirra vegna, gæti í matsbeiðni takmarkað þá þætti, sem matsnefnd bæri að líta til við mat á eignarnámsbótum, sem eðli málsins samkvæmt eigi að vera heildarmat á allri þeirri eignarýrnun, sem stefnandi, eignarnámsþoli, verði fyrir.

             Hvað efnislega umfjöllun stefnda varði, sé síðan þörf á því að árétta ákvæði 2. og 3. gr. laga nr. 57/1998.  Stefndi hafni þeim meginreglum, sem þar sé byggt á með lögfestum hætti, en hafi sjálfur smíðað algjörlega órökstudda reglu þess efnis að bæta beri land yfir jarðgöngunum, þar til þau hafi náð 30 metra dýpi.  Kenningum um takmarkanir eignarréttarins af þessum toga hafi síðast verið hreyft af alvöru á sjötta áratug síðustu aldar, en löngu sé viðurkennt, að eignarráðum niður á við verði ekki sett slík útmæld takmörk.  Þá sé minnt á, að kröfugerð stefnanda hafi ekki tekið mið af sérstökum bótum fyrir það land jarðarinnar, sem liggi ofan ganganna, þó svo ekki sé útilokað, að tilvist þeirra takmarki til framtíðar nýtingu þess og/eða náttúruauðlinda þar undir.  Kröfugerð taki, m.a. til einföldunar, eingöngu mið af áætluðu verðmæti þeirra jarðefna, sem unnin verði úr gangastæðinu.  Af hálfu stefnanda sé byggt á því, að þær bætur, sem þar eigi réttilega að koma fyrir, bæti þá eignaskerðingu, sem af tilvist ganganna leiði.  Verði engin frekari sönnunarbyrði lögð á stefnanda þar um og þá ekki heldur um meint fjárhagslegt tjón vegna efnistökunnar, sbr. skýrt fordæmi Hæstaréttar í dómi frá árinu 1983, Hrd. 1983/1538.

            Loks gæti þess grundvallarmisskilnings í málatilbúnaði stefnda, að eignarhald auðlinda í jörðu fasteignar sé með einhverjum hætti háð handhöfn, ytri tengslum eða vinnanleika auðlindarinnar.  Málatilbúnaður þessi tengist og vangaveltum í þá veru, að ekki sé sýnt fram á fjárhagslegt tjón eignarnema.  Stefnandi bendi á, að hér sé enn og aftur um misskilning að ræða.  Taka megi dæmi af jörð, þar sem jarðhiti eða grunnvatn sé í jörðu.  Samkvæmt skilningi stefnda væri öllum heimilt að vinna slíkan jarðhita, eftir atvikum frá öðrum fasteignum, vegna þess eins að viðkomandi fasteignareigandi hefði ekki uppi virk áform um slíka nýtingu sjálfur eða af því að slík nýting væri honum ekki hagkvæm eða arðbær að svo stöddu.  Sama dæmi mætti taka af fjölmörgum öðrum jarðrænum auðlindum.  Hér sé rangt með farið í grundvallaratriðum, sbr. og dóma Hæstaréttar um bótarétt eigenda jarðhitajarða, þar sem nýting frá öðrum fasteignum hafi haft áhrif á þann hluta auðlindarinnar, sem liggi undir þeirra fasteign.

            Loks sé áréttað, að hvað sem líði margítrekuðum staðhæfingum stefnda um erfiðleika þá og kostnað, sem vinnsla efnisins með þessum hætti sé háð, sé efnið allt notað til vegagerðar stefnda, sem með því spari sér sambærileg efniskaup.  Nýting þess sé stefnda því fjárhagslega hagkvæm, sbr. Hrd. 1983/1538.

            Stefnandi vísi til laga nr. 11/1973, 9. kafla vegalaga nr. 45/1994 og meginreglna eignarréttar, sbr. einkum 72. gr. stjórnarskrár.  Krafa um dráttarvexti sé studd við ákvæði III. kafla laga nr. 38/2001.  Krafa um málskostnað sé studd við ákvæði XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála í héraði, með síðari breytingum.  Minnt sé á, að stefnanda sé nauðsynlegt að fá dæmdan virðisaukaskatt ofan á málflutningsþóknun, svo honum verði haldið skaðlausum af þeim skatti.  Sé um þetta efni vísað til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

Málsástæður stefnda

Aðalkröfu sína um sýknu byggir stefndi á eftirtöldum málsástæðum og lagarökum.

            Algerlega sé óásættanlegt, að stefnda verði gert að greiða fyrir jarðefni úr jarðgöngum, sem liggi djúpt undir yfirborði jarðar stefnanda og hafi engin áhrif á nýtingu hans á jörðinni.  Jafna megi jarðgöngum við flug yfir landi, sem landeigandi verði að sætta sig við.

            Með eignarnámsbótum sé verið að bæta mönnun þá fjárhagslegu skerðingu, sem þeir verði fyrir vegna eignarnáms.  Eignarnámsbótum sé ekki ætlað að gera menn betur setta fjárhagslega en ef aldrei hefði komið til eignarnámsins.  Þessi grunnsjónarmið komi skýrt fram í lögum um eignarnám nr. 11/1973, sbr. t.d. 12. gr. þ.l., og IX. kafla vegalaga nr. 45/1994, sbr. t.d. 45. gr. þ.l.

            Aldrei geti verið um skerðingu í skilningi laganna að ræða, þegar um sé að ræða efni, sem hvorki sé aðgengilegt né vinnanlegt fyrir landeiganda.  Svo mikið þurfi að hafa fyrir því að sækja efnið, að það sé hvorki fjárhagslega né af öðrum ástæðum réttlætanlegt.  Hér sé ekki um nám á jarðefnum að ræða, heldur sé verið að gera hið gagnstæða, þ.e. að ryðja jarðefnum úr vegi vegna samgöngubóta.  Breyti engu, þótt slík jarðefni gagnist að einhverju leyti sem vegfylling í nærliggjandi vegastæði.

            Það sé skilyrði bótaréttar við þessar kringumstæður, að það sé mögulegt fyrir eignarnámsþola að nýta hin meintu gæði.  Því sé ekki fyrir að fara í tilfelli stefnanda.  Honum sé ómögulegt að nýta jarðefnin vegna þess hversu djúpt þau liggi í jörðu og hversu kostnaðarsamt sé að sækja þau.  Hafi t.d. verið byggt á þessum sjónarmiðum í norskum rétti.  Þá hafi verið talið, að það sé skilyrði bóta fyrir meint gæði, að eitthvert verðgildi sé á þeim, burtséð frá eignarnáminu, þ.e. að eigandi hefði getað nýtt sér þau, ef ekki hefði komið til eignarnámsins.  Því sé ekki að heilsa í tilfelli stefnanda.

            Fullyrðingum í stefnu þess efnis, að stefndi telji, að aðeins eigi að bæta jarðefni niður á 30 metra dýpi, sé mótmælt.  Sú viðmiðun sé vegna fordæmis úr Hvalfirði, þar sem talið hafi verið, að gangastæði á meira en 30 metra dýpi kæmi landeiganda að engum notum.  Það sé í samræmi við framangreinda reglu um, að bótaréttur sé háður því, að hagnýting hinna meintu gæða sé möguleg fyrir landeiganda.

            Orsakasamband þurfi að vera milli eignarnáms og þess tjóns eða skerðingar, sem eignarnámsþoli verði fyrir.  Stefnandi hljóti að hafa sönnunarbyrðina fyrir því, að um orsakasamband sé þarna að ræða.  Þá hljóti stefnandi að hafa sönnunarbyrðina fyrir því, að um tjón sé að ræða, og að það tjón sé fjárhagslegt.  Það hafi hann ekki sannað.  Enda liggi göngin langt niður í jörðu og því ekki um að ræða landspjöll í hefðbundnum skilningi þess orðs.  Engin verðrýrnun sé heldur á þeim hluta jarðar, sem eftir sé.

            Við ákvörðun eignarnámsbóta sé einkum byggt á þrenns konar sjónarmiðum, þ.e. söluverði, notagildi og enduröflunarverði.  Augljóst sé, að söluverð eigi ekki við í þessu tilviki, þar sem það svari engan veginn kostnaði að sækja efni að þessum gæðum djúpt í jörðu.  Af því yrði aldrei annað en tap.  Sama eigi við um notagildi.  Augljóst sé, að jarðefni svo djúpt í jörðu, sem ekki borgi sig að vinna, gefi engan arð af sér.  Viðmiðun við enduröflunarverð eigi heldur ekki við, þar sem skerðing sé engin og fyrir liggi, að stefnandi hefði aldrei getað nýtt sér efnið, þar sem of kostnaðarsamt sé að sækja það.

            Inntak eignarréttarins hljóti að þurfa að skoða í framangreindu ljósi.  Hann hljóti að takmarkast við, að menn geti nýtt sér hin meintu gæði með eðlilegum og skynsamlegum hætti, þ.e. að nýting hinna meintu gæða sé raunhæf og möguleg fyrir eiganda.  Telji stefndi að skýra verði 2. gr. laga nr. 57/1998 með hliðsjón af þessu, þ.e. að eignarland sé land, þar sem eigandi lands fari með öll venjuleg eignarráð.  Því sé ekki að heilsa um jarðefni úr göngum djúpt undir yfirborði viðkomandi jarðar, sem eigandi jarðarinnar hafi aldrei möguleika á að gera sér verðmæti úr, og sem ekki séu verðmæti nema vegna aðgerða stefnda.  Hér sé því ekki um að ræða hefðbundið nám á jarðefnum í landi stefnanda, sem að jafnaði sé grundvöllur bóta í slíkum tilvikum, heldur hið gangstæða, eins og áður segi, að verið sé að fjarlægja hindrun úr vegi fyrir samgöngubótum, í þessu tilfelli með gerð jarðganga djúpt í jörðu.

            Það sé jafn fráleitt að úrskurða bætur fyrir efni úr jarðgöngunum og að úrskurða bætur fyrir það „landsvæði“, sem göngin liggi um.  Athygli veki, að stefnandi láti sér ekki detta í hug að krefjast bóta fyrir það svæði.  Sömu rök liggi til þess, að ekki eigi að greiða bætur fyrir það efni, sem falli til við jarðgangagerðina.

            Jafnvel þótt dómurinn telji, að jarðefnin úr jarðgöngunum séu háð eignarrétti stefnanda, beri ekki að bæta fyrir þau, þar sem stefnandi hafi ekki sýnt fram á, að hann hafi orðið fyrir tjóni.

            Þá sé úrskurðinum áfátt varðandi rökstuðning fyrir verðmæti jarðefnis úr jarðgöngunum, enda hafi matsnefnd eignarnámsbóta ekki haft undir höndum nægar upplýsingar um eiginleika efnisins til að geta lagt mat á verðmæti þess og notkunarmöguleika.

            Matsnefnd eignarnámsbóta hafi ekki verið heimilt að úrskurða bætur vegna efnis úr jarðgöngunum, þar sem hvorki göngin né efnið úr þeim hafi verið matsandlag svo sem fram komi í matsbeiðni.  Matsnefnd eignarnámsbóta hafi hvorki heimild til þess að taka það upp hjá sjálfri sér né að beiðni eignarnámsþola að úrskurða um hluti, sem ekki séu andlag matsins.  Í lögum nr. 11/1973 séu tæmandi talin þau atvik, sem leitt geti til þess, að nefndin úrskurði um bætur fyrir meint gæði, sem ekki komi fram í matsbeiðni, sbr. 12. gr. laganna.  Verði eignarnámsþoli, við slíkar kringumstæður, að leita til dómstóla, telji hann brotið á sér.

            Allt ofangreint leiði til þess, að sýkna beri stefnda af öllum kröfum stefnanda.  Fari svo ólíklega, að dómurinn fallist ekki á aðalkröfu stefnda um sýknu, byggi hann varakröfu sína um lækkun stefnukrafna á því, að jarðefni, sem sótt séu djúpt í jörðu við þessar kringumstæður, hljóti að vera mjög lítils virði fyrir stefnanda, þar sem hann hafi aldrei möguleika á að nýta sér þau vegna kostnaðar og af tæknilegum ástæðum. „Tjón“ hans hljóti því að vera lítið eða ekkert.

            Varðandi málsástæður, lagarök og önnur atvik að öðru leyti, vísist til matsbeiðni á dskj. nr. 5, greinargerðar stefnda (eignarnema) fyrir matsnefnd eignarnámsbóta á dskj. nr. 27 og andsvara hans á dskj. nr. 46.  Þá vísist til vegalaga nr. 45/1994, einkum IX. kafla þ.l., og laga um framkvæmd eignarnáms nr. 11/1973, 72. gr. stjórnarskrárinnar og til meginreglna eignarréttarins um eignarréttindi manna.  Varðandi málskostnaðar­kröfu vísist til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991.

            Stefndi hafi, að svo stöddu, ákveðið að una úrskurði Matsnefndar eignarnámsbóta um fjárhæð eignarnámsbóta fyrir land á jörð stefnanda, þ.e. kr. 2.000.000, þótt hann telji það hátt og í engu samræmi við bætur fyrir sambærilegt land annars staðar.  Fjárhæð þessi hafi verið greidd með fyrirvara um réttmæti hennar. 

 

IV

Forsendur og niðurstaða

Björn A. Harðarson jarðverkfræðingur gaf skýrslu fyrir dómi.

            Ágreiningur aðila snýst um bætur fyrir efni, sem unnið var úr jarðgöngunum.    Samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar er eignarrétturinn friðhelgur.  Má engan skylda til að láta eign sína af hendi nema lög standi til þess og fullt verð komi fyrir.  Í 45. gr. vegalaga, sem eignarnámsheimild stefnda í máli þessu byggir á, segir, að hver landeigandi sé skyldur til að láta af hendi land það, sem þarf undir vegi eða til breytingar, breikkunar eða viðhalds á vegum, svo og að leyfa, að efni til vega sé tekið í landi hans, hvort heldur sé grjót, möl eða önnur jarðefni, enda komi fullar bætur fyrir.  Í 3. gr. auðlindalaga segir, að eignarlandi fylgi eignarréttur að auðlindum í jörðu.  Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. þeirra laga teljast auðlindir samkvæmt lögunum hvers konar frumefni, efnasambönd og orka, sem vinna má úr jörðu, hvort heldur er í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi.  Í 4. mgr. 2. gr. laganna eru jarðefni skilgreind sem öll gosefni og önnur steinefni, málmar, málmblendingar, málmsteindir, kol, jarðolía, jarðgas og önnur nýtanleg efni, sem finnast kunna í jörðu. 

            Samkvæmt framangreindum lagaákvæðum er fallizt á, að umdeild jarðefni heyri undir eignarrétt stefnanda, en engin lagarök eru fyrir því, að eignarréttur hans sé bundinn við áætlað dýpi. 

            Í 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms segir, að matsnefnd eignarnámsbóta skeri úr ágreiningi um eignarnámsbætur og annað endurgjald, sem ákveða eigi samkvæmt lögunum.  Samkvæmt 4. gr. þeirra laga skal eignarnemi senda matsnefndinni beiðni um, að mat fari fram.  Telja verður, að eignarnámsþola, stefnanda, hafi verið rétt, með heimild í 12. gr. laganna, að fara fram á, að umdeild jarðefni væru tekin inn í matið.  Er því ekki fallizt á, að matsnefnd eignarnámsbóta hafi verið óheimilt að fjalla um umdeild jarðefni í mati sínu.

            Það liggur fyrir, að eignarnemi hafði full not af efni því, sem tekið var úr göngunum, sbr. framburð Björns A. Harðarsonar jarðverkfræðings fyrir dómi.  Malarefnið var því verðmæti, þótt ekki hefði borgað sig fjárhagslega að grafa eftir því sérstaklega.  Eignarnemi nýtti sér þannig auðlind úr landi eignarnámsþola, sem honum bera bætur fyrir skv. 45. gr. vegalaga sbr. og 72. gr. stjórnarskrárinnar.  Í niðurstöðu matsnefndar eignarnámsbóta er litið til þess við ákvörðun bótafjárhæðar fyrir jarðefnið, að eignarnámsþoli hefði haft mjög takmörkuð not af efni þessu, ef ekki hefðu komið til framkvæmdir eignarnema.  Er fallizt á þetta sjónarmið nefndarinnar.  Metur nefndin hæfilegar bætur kr. 18 fyrir hvern rúmmetra.  Þykir fjárhæð bótanna sanngjörn, en málsaðilar hafa ekki sýnt fram á, hvorki með mati dómkvaddra matsmanna né á annan hátt, að önnur, hærri eða lægri fjárhæð eftir atvikum, sé réttari.  Er því fallizt á varakröfu stefnanda í aðalsök, eins og hún er fram sett.

            Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn kr. 800.000.     

            Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

 

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Vegagerðin, greiði stefnanda, Sigurði Baldurssyni, kr. 3.086.460, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. júlí 2005 til greiðsludags og kr. 800.000 í málskostnað.