Hæstiréttur íslands

Mál nr. 286/2001


Lykilorð

  • Lífeyrisréttindi
  • Opinberir starfsmenn
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 23

 

Fimmtudaginn 23. maí 2002.

Nr. 286/2001.

Lára Hafliðadóttir

(Helgi Birgisson hrl.)

gegn

Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins

(Þórunn Guðmundsdóttir hrl.)

 

Lífeyrisréttindi. Opinberir starfsmenn. Gjafsókn.

Aðilar deildu um upphæð ellilífeyris LH eftir að hún lét af störfum í félagsmálaráðuneytinu árið 1991. LH hafði gegnt starfi deildarstjóra í ráðuneytinu frá árinu 1978 og fram til þess dags er hún lét af störfum. Hafði hún fengið greiddan lífeyri frá LSR miðað við þá stöðu. Fyrir lá í málinu að starfsskyldur LH í ráðuneytinu þann tíma sem hún gegndi störfum þar sem deildarstjóri voru m.a. fólgnar í því að annast skjalavörslu og um 16 ára skeið hafði hún það verkefni innan ráðuneytisins að hafa umsjón með Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, eða fram til ársins 1990. LH taldi að störf sín sem umsjónarmanns sjóðsins ætti að meta henni til hagsbóta við ákvörðun upphæðar lífeyrisins og reisti hún kröfu sína bæði á eftirmannsreglunni í lögum um LSR og á svokallaðri tíu ára reglu í sömu lögum. Sýnt þótti að til ársloka 1989 hafi það verkefni fallið undir deildarstjórastöðu LH að annast umsjón með Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, en í því verkefni hafi ekki falist sérstök staða í skilningi eftirmannsreglunnar svokölluðu. Einnig var fram komið að 1. janúar 1990 hafi sjóðurinn breyst mjög með nýjum lögum um tekjustofna sveitarfélaga og auknum verkefnum. Starf umsjónarmanns sjóðsins hafi aldrei verið sérstök staða í lögum og ekki hafi verið sýnt fram á að ráð hafi verið fyrir henni gert í kjarasamningum. Þá lá og fyrir að þegar LH hætti að hafa þetta verkefni með höndum hélt hún óbreyttum launum sínum sem deildarstjóri. Samkvæmt þessu var ekki unnt að líta svo á að krafa hennar yrði reist á svokallaðri tíu ára reglu. Var LSR sýknaður af kröfum LH í málinu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. ágúst 2001 og krefst þess að stefndi greiði sér 1.381.036 krónur með nánar tilgreindum dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 12. maí 1996 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags og málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Ágreiningur málsaðila lýtur að upphæð ellilífeyris áfrýjanda hjá stefnda eftir að hún lét af störfum í félagsmálaráðuneytinu árið 1991, eins og nánar greinir í héraðsdómi. Áfrýjandi telur að störf sín sem umsjónarmanns Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í sextán ár eigi að meta henni til hagsbóta við ákvörðun upphæðar ellilífeyrisins. Hér koma til skoðunar ákvæði 2. mgr. og 6. mgr. 24. gr. núgildandi laga um stefnda, sem eru nr. 1/1997, og eru ákvæðin nær samhljóða 6. mgr. og 7. mgr. 12. gr. laga nr. 29/1963, sem voru í gildi er áfrýjandi lét af störfum.

Áfrýjandi reisir kröfu sína bæði á eftirmannsreglunni í 2. mgr. 24. gr. og á svokallaðri tíu ára reglu í 6. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997. Í 2. mgr. 24. gr. segir: „Upphæð ellilífeyris er hundraðshluti af þeim föstu launum fyrir dagvinnu ... sem við starfslok fylgja stöðu þeirri fyrir fullt starf er sjóðfélagi gegndi síðast.“ Sú staða fyrir fullt starf, er áfrýjandi gegndi síðast og allt frá 1978, var deildarstjóri við félagsmálaráðuneytið. Fram er komið að í ráðuneytinu starfi margir deildarstjórar sem taki laun samkvæmt mismunandi launaflokkum eftir mismunandi verkefnum og ábyrgð. Þannig þykir verða að fallast á það með héraðsdómi að til ársloka 1989 hafi það verkefni fallið undir deildarstjórastöðu áfrýjanda að annast umsjón með Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, en í því verkefni hafi ekki falist sérstök staða í skilningi 2. mgr. 24. gr. laga um stefnda. Einnig er fram komið að 1. janúar 1990 hafi sjóðurinn breyst mjög með nýjum lögum nr. 91/1989 um tekjustofna sveitarfélaga, sbr. nú lög nr. 4/1995, og auknum verkefnum. Starf umsjónarmanns sjóðsins hefur aldrei verið sérstök staða í lögum og hefur ekki verið sýnt fram á að ráð hafi verið fyrir henni gert í kjarasamningum. Þá liggur og fyrir að þegar áfrýjandi hætti að hafa þetta verkefni með höndum hélt hún óbreyttum launum sínum sem deildarstjóri. Samkvæmt framansögðu er ekki unnt að líta svo á að krafa hennar verði reist á 6. mgr. 24. gr. laganna.

Samkvæmt þessu ber að staðfesta héraðsdóm.

Eftir atvikum er rétt að hvor aðila beri sinn málskostnað fyrir Hæstarétti.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 200.000 krónur.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. júní 2001.

I

Mál þetta, sem dómtekið var hinn 11. maí sl., er höfðað fyrir dómþinginu af Láru Haf­liðadóttur, kt.171230-3499, Hátúni 8, Reykjavík, á hendur Lífeyrissjóði starfs­manna ríkisins, kt. 430269-6669, Bankastræti 7, Reykjavík, með stefnu þingfestri 16. maí 2000.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 1.381.036 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxta­laga nr. 25/1987 af 150.254 krónum frá 12. maí 1996 til 1. júní 1996, en af 165.628 krón­um frá þeim degi til 1. júlí 1996, en af 169.270 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 1996, en af 178.778 krónum frá þeim degi til 1. september 1996, en af 188.285 krón­um frá þeim degi til 1. október 1996, en af 197.793 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 1996, en af 207.301 krónu frá þeim degi til 1. desember 1996, en af 216.809 krónum frá þeim degi til 1. janúar 1997, en af 230.531 krónu frá þeim degi til 1. febrúar 1997, en af 244.252 krónum frá þeim degi til 1. mars 1997, en af 257.974 krón­um frá þeim degi til 1. apríl 1997, en af 272.341 krónu frá þeim degi til 1. maí 1997, en af 286.708 krónum frá þeim degi til 1. júní 1997, en af 301.075 krónum frá þeim degi til 1. júlí 1997, en af 315.442 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 1997, en af 329.809 krónum frá þeim degi til 1. september 1997, en af 344.176 krónum frá þeim degi til 1. október 1997, en af 358.543 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 1997, en af 372.910 krónum frá þeim degi til 1. desember 1997, en af 410.740 krónum frá þeim degi til 1. janúar 1998, en af 454.552 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 1998, en af 498.364 krónum frá þeim degi til 1. mars 1998, en af 542.176 krónum frá þeim degi til 1. apríl 1998, en af 585.988 krónum frá þeim degi til 1. maí 1998, en af 629.780 krón­um frá þeim degi til 1. júní 1998, en af 673.612 krónum frá þeim degi til 1. júlí 1998, en af 717.424 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 1998, en af 761.236 krónum frá þeim degi til 1. september 1998, en af 805.048 krónum frá þeim degi til 1. október 1998, en af 848.860 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 1998, en af 892.672 krónum frá þeim degi til 1. desember 1998, en af 911.254 krónum frá þeim degi til 1. janúar 1999, en af 933.814 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 1999, en af 956.374 krónum frá þeim degi til 1. mars 1999, en af 995.789 krónum frá þeim degi til 1. apríl 1999, en af 1.035.204 krónum frá þeim degi til 1. maí 1999, en af 1.074.619 krónum frá þeim degi til 1. júní 1999, en af 1.114.034 krónum frá þeim degi til 1. júlí 1999, en af 1.153.449 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 1999, en af 1.192.864 krónum frá þeim degi til 1. september 1999, en af 1.232.279 krónum frá þeim degi til 1. október 1999, en af 1.271.694 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 1999, en af 1.307.781 krónu frá þeim degi til 1. desember 1999, en af 1.343.868 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2000, en af 1.381.036 krónum frá þeim degi til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda, að skaðlausu eins og málið væri eigi gjafsóknarmál, samkvæmt fram­lögðum málskostnaðarreikningi.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefn­anda og að stefnandi verði dæmd til að greiða sjóðnum málskostnað, auk virð­is­aukaskatts á málflutningsþóknun, samkvæmt framlögðum málskostnaðar-reikningi.  Til vara krefst stefndi verulegrar lækkunar á dómkröfum stefnanda og að máls­kostn­aður verði látinn niður falla.

Stefnandi fékk gjafsókn í málinu með bréfi dómsmálaráðuneytisins dagsett 19. október 1999.

Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, áður en dómur var kveðinn upp.

II

Stefnandi hóf störf í félagsmálaráðuneytinu hinn 15. mars 1958.  Með bréfi forseta Íslands, dagsettu 22. ágúst 1978, var stefnandi skipaður deildarstjóri í fél­ags­mála­ráðuneytinu frá 1. september 1978.  Stefnandi kveður að fram til júlí 1973 hafi starfsvið hennar verið ritara- og bókarastarf.  Stefnandi kveður að sumarið 1973 hafi hún tekið við umsjón Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og sinnt því starfi til ársloka 1989.   Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi tekið að sér umsjón með Jöfnunarsjóði sveit­ar­félaga árið 1974. Fram til ársins 1984 eða 1985 vann stefnandi jafnframt við skjala­vörslu í ráðuneytinu, en frá því í ágústmánuði árið 1984 eða 1985 og fram til ársloka 1989 vann hún eingöngu við jöfnunarsjóðinn.  Að mati félagsmálaráðuneytisins var starfið við jöfnunarsjóðinn metið sem að minnsta kosti 50% starf, en að mati stefnanda 80% af starfi hennar. Stefndi kveðst hafa falið stefnanda störf á vinnumálaskrifstofu ráðu­neytisins árið 1990, en erfitt hafi verið að fá stefnanda til þess að sinna þeim störf­um.  Stefnandi kveðst hafa verið verkefnalaus í ráðuneytinu eftir að hún lét af störf­um umsjónarmanns jöfnunarsjóðsins, en í nóvember 1990 hafi henni verið afhent skjal með nýrri og breyttri starfslýsingu á starfi hennar hjá ráðuneytinu.  Hins vegar hafi þau störf sem hún hafi átt að sinna samkvæmt breyttri starfslýsingu ekki verið laus og því hafi hún verið verkefnalaus.  Í júlí 1991 veiktist stefnandi og kom hún ekki aftur til starfa hjá ráðuneytinu eftir það.  Hinn 3. október 1992 féllu launagreiðslur til hennar niður og hefur stefnandi fengið greiddan lífeyri frá þeim tíma.

Stefnandi hefur fengið greiddan lífeyri úr Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, sam­kvæmt þeim launaflokki, sem hún fékk greidd laun eftir við starfslok í ráðuneytinu.  Stefndi kveður að ekki hafi verið um neinn sérstakan eftirmann stefnanda að ræða, sem hægt hafi verið að taka mið af við ákvörðun lífeyris, og hafi stjórn stefnda því ákveðið að taka mið af launum þeirra starfsmanna í ráðuneytinu, sem stefndi telur að gegni hliðstæðum störfum og stefnandi gegndi.

Stefnandi hefur ítrekað óskað eftir því við stjórn lífeyrissjóðsins að hún fengi greiddan lífeyri samkvæmt 2. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997, samkvæmt svokallaðri eftir­mannsreglu, eða samkvæmt 7. mgr. sömu greinar, svokallaðri 10 ára reglu.  Hefur stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins tvívegis ályktað vegna þessa, hinn 1. nóvember 1995 og hinn 14. desember 1995, að reikna eigi lífeyri á grundvelli laun­anna, sem stefnandi fékk er hún lauk störfum í ráðuneytinu, sem deildarstjóri í vinnu­mála­skrifstofu ráðuneytisins.

Stefnandi leitaði til umboðsmanns Alþingis með kvörtun, en umboðsmaður af­greiddi erindið með bréfi dagsettu 15. nóvember 1996, án þess að fjalla um það efn­is­lega, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 13/1987.

III

Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að hún eigi rétt til lífeyrisgreiðslna á grund­velli launa eftirmanns hennar sem umsjónarmanns Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, í sam­ræmi við svonefnda eftirmannsreglu 2. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfs­manna ríkisins, sbr. 6. mgr. 12. gr. laga nr. 29/1963, sem í gildi voru er stefn­andi lét af störfum í ráðuneytinu.

Stefnandi byggir á því að reikna eigi lífeyrisgreiðslur til hennar á grundvelli laun­aflokks sem umsjónarmaður Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga tekur á hverjum tíma á grund­velli svokallaðrar 10 ára reglu, sbr. 7. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997, sbr. 7. mgr. 12. gr. laga nr. 29/1963.  Beita eigi þessari viðmiðun þar sem stefnandi hafi aðallega starf­að við Jöfnunarsjóð sveitarfélaga í nærri 16 ár eða til loka árs 1989, en aðeins lítill hluti starfstíma hennar hafi farið í að sinna skjalavörslu.

Stefnandi kveður stefnda ekki hafa sýnt fram á að verulegar breytingar hafi orðið á starfi umsjónarmanns Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga frá því er stefnandi gegndi starf­inu.  Jafnframt telur stefnandi að þó svo að breyting hafi orðið á eðli og umfangi starfs­ins ráði það ekki úrslitum um hvort svokölluð eftirmannsregla eigi við.  Kveður stefn­andi og að breyting sú sem orðið hafi á starfinu eftir að hún lét af því, hafi verið þess eðlis að gera starfið bæði auðveldara og einfaldara.

Stefnandi kveðst miða endanlegar dómkröfur sínar við útreikning Jóns Erlings Þorláks­sonar, tryggingafræðings, dagsettan 11. júlí 2000, á því hvaða fjárhæð stefn­andi hafi tapað fyrir þá sök að lífeyrisgreiðslur hennar hafi ekki tekið mið af launum eftir­manns hennar í starfi umsjónarmanns Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

Stefnandi kveður dráttarvaxtakröfu sína taka mið af því, að stigvaxandi vanhöld hafi orðið á greiðslum til stefnanda frá mánuði til mánaðar og höfuðstóll kröfunnar hækki mánaðarlega.

Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkis­ins og laga nr. 29/1963, er verið hafi í gildi er stefnandi hafi látið af störfum.

Kröfu um vexti byggir stefnandi á vaxtalögum nr. 25/1987, einkum III. kafla þeirra laga.

Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um með­ferð einkamála.

IV

Stefndi byggir aðalkröfu sína um sýknu á því að samkvæmt svokallaðri eftir­manns­reglu eigi upphæð ellilífeyris að miðast við hundraðshlutfall af þeim föstu laun­um fyrir dagvinnu, persónuuppbót og orlofsuppbót, samkvæmt kjarasamningum, sem við starfslok fylgi fullu starfi, sem sjóðsfélagi hafi gengt síðast.  Síðasta starf stefn­anda hafi verið deildarstjórastarf á vinnumálaskrifstofu félagsmálaráðuneytisins.  Hafi stefnandi gengt því starfi síðustu þrjú ár sín í vinnu, en áður hafi hún verið í fjögur ár umsjónarmaður Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.  Síðasta starf stefnanda, sem veitt hafi henni aðild að sjóðnum, hafi því ekki verið starf umsjónarmanns Jöfn­un­ar­sjóðs sveitarfélaga heldur deildarstjórastarf í ráðuneytinu.

Stefndi telur að svokölluð tíuára regla, sbr. 6. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997, sbr. 7. mgr. 12. gr. laga nr. 29/1963, eigi ekki við um stefnanda.  Stefndi kveður stefnanda ekki hafa haft umsjón Jöfnunarsjóðsins að aðalstarfi í meira en tíu ár.  Hún hafi aðeins verið í fullu starfi sem umsjónarmaður sjóðsins í rúm fjögur ár, þ.e.a.s. frá 1985 til loka árs 1989.  Að mati ráðuneytisins hafi umsjón hennar með Jöfnunarsjóðnum verið að minnsta kosti 50% starf fram til ársins 1985.  Stefnandi hafi sjálf viðurkennt að ekki hafi verið um fullt starf að ræða fram til ársins 1985, en telji starf sitt við jöfn­un­ar­sjóð­inn hafa verið 80% starf.

Stefndi telur að ekki verði við ákvörðun lífeyris til handa stefnanda hægt að miða við laun núverandi umsjónarmanns sjóðsins, þar sem starfsemi Jöfnunarsjóðs sveit­ar­fél­aga hafi breyst verulega frá því að stefnandi gegndi starfi umsjónarmanns sjóðsins og því sé alls ekki um sama starf að ræða.  Með lögum nr. 91/1989 hafi lögum nr. 73/1980 um tekjustofna sveitarfélaga verið breytt verulega.  Hafi þá orðið verulegar breyt­ingar á starfsemi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.  Í tengslum við þessa laga­breyt­ingu hafi stefnandi látið af störfum umsjónarmanns jöfnunarsjóðsins.  Helstu breyt­ingar hafi verið þær, að tekjuöflun sjóðsins hafi breyst þannig, að í stað framlags frá rík­inu, hafi ákveðið hlutfall af tekjuskattstofni í staðgreiðslukerfinu runnið beint í sjóð­inn og sé það meirihluti tekna sjóðsins nú.  Þá hafi greiðslum úr sjóðnum verið breytt þannig að almenn framlög hafi verið felld niður, en þau hafi numið 2/3 hluta af út­gjöldum sjóðsins.  Árið 1990 þegar miklar breytingar hafi verið gerðar á verka­skipt­ingu ríkis og sveitarfélaga hafi umtalsverð endurskoðun orðið á starfsemi sjóðs­ins.  Jöfnunarhlutverk hans hafi þá verið stóraukið.  Þá hafi hlutverk sjóðsins enn breyst árið 1996 í tengslum við yfirfærslu alls kostnaðar við grunnskólana frá ríki til sveit­arfélaga.  Starf umsjónarmanns hefur því bæði breyst mikið og aukist.

Varakröfu sína um lækkun byggir stefndi á því að svo miklar breytingar hafi verið gerðar á starfi umsjónarmanns jöfnunarsjóðsins frá því er stefnandi gegndi því starfi, að ekki sé hægt að miða lífeyri stefnanda alfarið við laun núverandi um­sjón­ar­manns, eins og stefnandi geri kröfu um.  Þá hafi stefnandi ekki í kröfugerð sinni tekið til­lit til staðgreiðslu skatta, sem stefnandi hefði þurft að greiða af viðbótarlífeyri, sem hún geri kröfu um.

Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 1. mgr. 130. gr., sbr. 4. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir stefndi á lögum um virðis­aukaskatt nr. 50/1988, þar sem lögmönnum sé gert skylt að innheimta virðis­auka­skatt af þjónustu sinni.  Stefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur og því beri honum nauð­syn til að fá hann sér dæmdan úr hendi stefnanda.

V

Aðila greinir á um hver skulu vera lífeyrir stefnanda, en hún lét af starfi í félags­mála­ráðuneytinu árið 1991.  Hefur hún fengið greiddan lífeyri frá stefnda frá þeim tíma og hafa lífeyrisgreiðslur til hennar miðast við deildarstjórastarf í at­vinnu­mála­skrif­stofu ráðuneytisins.  Stefnandi var skipaður deildarstjóri við félags­mála­ráðu­neytið 1978.  Staða stefnanda var því deildarstjórastaða frá árinu 1978 fram til þess dags er hún lét af störfum.  Hins vegar liggur fyrir að starfsskyldur hennar í ráðu­neyt­inu þann tíma sem hún gegndi störfum þar sem deildarstjóri voru ýmist fólgnar í því að annast skjalavörslu og um 16 ára skeið hafði hún það verkefni innan ráðuneytisins að hafa umsjón með Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.  Þetta verkefni var fengið öðrum í tengsl­um við miklar breytingar á verkefnum sjóðsins, um áramótin 1989 til 1990.   Stefn­andi hefur fullyrt að hún hafi eftir þann tíma ekki unnið handtak í ráðuneytinu, en ráðuneytisstjóri hefur borið fyrir dómi, að frá þeim tíma hafi stefnanda verið fengið starf við atvinnumáladeild ráðuneytisins.  Hins vegar liggur fyrir að stefnandi hélt sömu launum og sama starfsheiti eftir að breytingar urðu á starfsskyldum hennar.

Stefnandi byggir á því að miða beri útreikning lífeyris henni til handa við þau laun, sem sá starfsmaður hefur, sem nú hefur með höndum umsjón jöfnunarsjóðsins hjá ráðuneytinu. 

Samkvæmt lögum nr. 29/1963, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins sem í gildi voru er stefnandi hætti störfum, skyldi upphæð lífeyris vera hundraðshlutfall af þeim laun­um er á hverjum tíma fylgja því starfi, sem sjóðsfélagi gegndi síðast.  Sam­svarandi ákvæði er í núgildandi lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins nr. 1/1997. 

Í 7. mgr. 12. gr. laga nr. 29/1963, er kveðið á um útreikning lífeyris samkvæmt svo­kallaðri tíuárareglu, og er sams konar ákvæði í 6. mgr. 24. gr. núgildandi laga um Líf­eyrissjóð sveitarfélaga, en þar segir: „Hafi sjóðsfélagi gengt hærra launuðu starfi eða störfum í að minnsta kosti tíu ár fyrr á sjóðsfélagstíma sínum í Lífeyrissjóð starfs­manna ríkisins skal miða lífeyrinn við hæst launaða starfið, enda hafi hann gegnt því í að minnsta kosti tíu ár, ella skal miða við það hærra launaða starf sem hann að viðbættum enn hærra launuðum störfum gegndi í að minnsta kosti tíu ár.”

Eins og áður greinir var stefnandi deildarstjóri í félagsmálaráðuneytinu og fólst vinna hennar aðallega í skjalavörslu og því að hafa umsjón með Jöfnunarsjóði sveit­ar­félaga, þar af síðustu starfsár hennar aðallega í umsjón með fyrrgreindum sjóði, eða uns henni voru falin önnur störf hjá ráðuneytinu.  Verður því ekki séð að starf stefn­anda sem umsjónarmanns jöfnunarsjóðs á vegum ráðuneytisins hafi verið sérstök staða, heldur einungis verkefni sem henni var falið að gegna í ráðuneytinu sem deild­ar­stjóri.

Þar sem ekki getur talist að umsjónarmaður Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sé sérstök staða, heldur sé þar um að ræða ákveðið verkefni, sem starfsmönnum ráðuneytisins sé falið að gegna á hverjum tíma,  verður ekki séð að fyrrgreind ákvæði feli það í sér, þó svo hærra launaður starfsmaður ráðuneytisins hafi nú með höndum umsjón með Jöfn­unarsjóði sveitarfélaga, að miða skuli útreikning lífeyris til handa stefnanda við þau laun.  Samkvæmt framansögðu og þar sem stefnandi fær greiddan lífeyri sam­kvæmt launum sem fylgja deildarstjórastöðum, eins og stefnandi gegndi, verður krafa hennar ekki tekin til greina og ber að sýkna stefnda af dómkröfum stefnanda.

Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda,  329.055 krónur, þar af þóknun lögmanns stefn­anda, 300.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.  Við ákvörðun málskostnaðar hefur ekki verið tekið tillit til virðisaukaskattskyldu stefnanda.  

Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari, kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, er sýkn af kröfum stefnanda, Láru Hafliðadóttur.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 329.055 krónur, þar af þóknun lögmanns stefnanda, 300.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.