Hæstiréttur íslands

Mál nr. 189/2009


Lykilorð

  • Ávana- og fíkniefni
  • Umferðarlagabrot
  • Skilorðsrof


Fimmtudaginn 3

 

Fimmtudaginn 3. desember 2009.

Nr. 189/2009.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari)

gegn

Ingólfi Steinari Ingólfssyni

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)            

 

Ávana- og fíkniefni. Umferðarlagabrot. Skilorðsrof.

I var sakfelldur fyrir umferðar- og fíkniefnalagabrot. Með brotunum rauf hann þriggja mánaða skilorð eldri dóms. Með vísan til 60. gr. almennra hegningarlaga var skilorðið tekið upp og I gerð refsing með hliðsjón af 77. gr. laganna. Var I dæmdur í 6 mánaða fangelsi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. apríl 2009 og krefst þyngingar á refsingu ákærða. 

Ákærði krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms.

Í héraði var farið með málið sem játningarmál samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Eins og að framan greinir er máli þessu einungis áfrýjað af hálfu ákæruvalds til endurskoðunar á refsingu ákærða, en úrlausn héraðsdóms um upptöku er ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti.

Sakarferill ákærða er nægilega rakinn í héraðsdómi. Eins og þar greinir hefur ákærði með brotum sínum rofið skilorð samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 25. október 2007 og ber að dæma upp hinn skilorðsbundna hluta þess dóms og gera ákærða refsingu í einu lagi samkvæmt 60. gr., sbr. 77. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Refsing ákærða er ákveðin fangelsi í sex mánuði. Af hálfu ákærða hafa verið hafðar uppi fullyrðingar um að hann hafi tekist á við vímuefnavanda sinn, en hann hefur ekki stutt þær gögnum. Samkvæmt því og að virtum sakarferli ákærða eru ekki efni til að skilorðsbinda refsingu hans.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað verða staðfest.

Samkvæmt 2. mgr. 220. gr., sbr. 1. mgr. 218. gr., laga nr. 88/2008, verður ákærði dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðast að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Ingólfur Steinar Ingólfsson, sæti fangelsi í sex mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað eru óröskuð.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins 77.983 krónur þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 62.250 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 2. apríl 2009.

                Mál þetta, sem dómtekið var 24. mars 2009, er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á Suðurnesjum 3. nóvember 2008 á hendur Ingólfi Steinari Ingólfssyni, kt. 050184-2939, Víðimel 50, Reykjavík, fyrir eftirtalin brot gegn umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni:

1.        Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa, mánudaginn 21. júlí 2008, ekið bifreiðinni PF-380, undir áhrifum ávana- og fíkniefna sem bönnuð eru á íslensku yfirráðasvæði (tetrahýdrókannabínól) og því ekki verið fær um að stjórna bifreiðinni örugglega, vestur Austurbraut, Við Fjörubraut, Keflavíkurflugvelli.

Þetta er talið varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a, sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006.

2.        Fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa mánudaginn 21. júlí 2008, haft í vörslum sínum 182,92 g af hassi og 6,93 g af maríhúana, efni ætluð til söludreifingar er hann geymdi í bifreiðinni PF-380 og 1,42 g af maríhúana og 0,85 g af tóbaksblönduðu kannabisefni er hann geymdi í buxnavasa sínum og lögregla fann við leit í bifreiðinni og við líkamsleit á ákærða í kjölfar afskipta sbr. 1. lið ákæruskjals.

Þetta er talið varða við 2., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001.           

3.        Fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa, þriðjudaginn 22. júlí 2008, haft í vörslum sínum 9,09 g af maríhúana er lögregla fann í eldhúsviftu við húsleit á heimili hans að Fjörubraut 1228, Keflavíkurflugvelli.

Þetta er talið varða við 2., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og sviptingar ökuréttar, skv. 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006. Þá er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að sæta upptöku á 201,21 g af kannabisefni, samkvæmt heimild í 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, sbr. lög nr. 10/1997 og 68/2001, sbr. 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001, og til að sæta upptöku á rafbyssu sem haldlögð var í þeirri húsleit sem framkvæmd var, sbr. 3. tl. ákæruskjals, sbr. 1. mgr. 37. gr. vopnalaga nr. 16/1998.

                Ákærði krefst þess að honum verði ekki gerð refsing en til vara er þess krafist að honum verði gerð vægasta refsing er lög leyfa. Þá gerir verjandi ákærða kröfu um hæfilega þóknun sér til handa.

                Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

                Ákærði hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að hann er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Ákærði er fæddur í janúar 1984 og á að baki nokkurn sakaferil. Samkvæmt sakavottorði hans hefur hann hlotið 11 refsidóma frá árinu 2000 fyrir ýmiss konar brot, m.a. fíkniefnabrot og auðgunarbrot, síðast með dómi 25. október 2007 þar sem hann var dæmdur í fangelsi í sex mánuði og voru þar af þrír mánuðir skilorðsbundnir til þriggja ára. Ákveðin var afplánun refsivistar vegna rofs á skilyrðum samfélagsþjónustu 9. október 2008. Með brotum þeim sem ákærði er nú sakfelldur fyrir hefur hann rofið skilorð framangreinds dóms og er skilorðsbundni hluti dómsins því dæmdur upp og ákærða gerð refsing í einu lagi, sbr. 60. og 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði afplánar nú refsivist samkvæmt dómi 25. október 2007 vegna rofs á skilyrðum samfélagsþjónustu. Ákærði hefur skýlaust játað brot sín og þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í fjóra mánuði. Ákærði hefur átt við fíkniefnavanda að stríða og hefur leitað sér aðstoðar, hann er í sambúð og á ungt barn. Að öllu þessu virtu verður refsing hans bundið skilorði, eins og nánar greinir í dómsorði.

                Með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, ber að dæma ákærða til að greiða sakarkostnað. Um er að ræða útlagðan kostnað að fjárhæð 57.274 krónur vegna rannsóknar, sbr. 1. tl. ákæru. Þóknun verjanda ákærða, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, þykir hæfilega ákveðin, með hliðsjón af fjölda þinghalda í málinu, 167.328 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.

Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

                Ákærði, Ingólfur Steinar Ingólfsson, sæti fangelsi í fjóra mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum þremur árum frá birtingu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

                Ákærði skal sæta upptöku á 201,21 g af kannabisefni og rafbyssu sem lögregla lagði hald á.

                Ákærði greiði 224.602 krónur í sakarkostnað, þar með talin þóknun skipaðs verjanda hans, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, að fjárhæð 167.328 krónur.