Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-7

Blikkverk sf. (Sigurbjörn Þorbergsson lögmaður)
gegn
Akraneskaupstað (Ívar Pálsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Lóðarleigusamningur
  • Skaðabótakrafa
  • Sveitarfélög
  • Viðurkenningarkrafa
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.

2. Með beiðni 11. janúar 2024 leitar Blikkverk sf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 15. desember 2023 í máli nr. 549/2022: Blikkverk sf. gegn Akraneskaupstað. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort gagnaðili hafi vanefnt samningsskyldu sína við leyfisbeiðanda samkvæmt lóðarleigusamningi vegna skipulagsbreytinga sem leyfisbeiðandi telur að leitt hafi til þess að honum hafi reynst ókleift að stunda ákveðinn hluta starfsemi sinnar á lóðinni.

4. Með héraðsdómi var gagnaðili sýknaður af kröfu leyfisbeiðanda um greiðslu 6.000.000 króna í skaðabætur og að viðurkennt yrði að hann bæri skaðabótaábyrgð gagnvart leyfisbeiðanda vegna fjártjóns af völdum vanefnda gagnaðila á skyldum sínum samkvæmt lóðarleigusamningi aðila. Fyrir Landsrétti var einungis deilt um kröfu leyfisbeiðanda um viðurkenningu á skaðabótaábyrgð og staðfesti rétturinn héraðsdóm um sýknu gagnaðila af þeirri kröfu. Landsréttur vísaði til þess að ekki væri í lóðarleigusamningnum kveðið á um takmarkanir á nýtingarrétti leyfisbeiðanda á lóðinni. Á hinn bóginn hefði sá réttur lotið almennum takmörkunum sem leiða mætti af lögum, almennum stjórnvaldsfyrirmælum og óskráðum meginreglum nábýlisréttar. Hefði leyfisbeiðandi ekki getað vænst þess að lóðarleigusamningurinn, sem átti að gilda til langs tíma, veitti honum meiri rétt eða legði ríkari skyldur á gagnaðila umfram þau almennu takmörk sem giltu að þessu leyti á hverjum tíma. Komst Landsréttur að þeirri niðurstöðu að ekki hefði verið farið yfir þau mörk og yrði ekki fallist á að gagnaðili hefði vanefnt samningsskyldu sína samkvæmt lóðarleigusamningnum.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Vísar hann einkum til þess að engin heildstæð löggjöf sé um lóðarleigusamninga hér á landi og takmarkað fjallað um þá í settum lögum. Því hafi málið verulegt almennt gildi um staðlaða skilmála lóðarleigusamnings og skyldur sveitarfélaga samkvæmt slíkum samningum. Þá vísar hann til þess að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína enda lúti það að eignarréttindum hans samkvæmt samningi sem njóti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar. Loks byggir leyfisbeiðandi á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki séð að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.