Hæstiréttur íslands
Mál nr. 449/2006
Lykilorð
- Veðsetning
- Tryggingarbréf
|
|
Fimmtudaginn 22. febrúar 2007. |
|
Nr. 449/2006. |
Halldór Mikkaelsson og Guðrún Hanna Óskarsdóttir (Valgeir Kristinsson hrl.) gegn Sparisjóði vélstjóra (Valgarður Sigurðsson hrl.) |
Veðsetning. Tryggingarbréf.
Deilt var um hvort að fasteign H og G hefði verið sett S að veði fyrir skuldum bróður H. Hélt H því fram að hann hefði einungis verið að veðsetja eignarhluta G í fasteigninni en G hélt því fram að ætlunin hefði verið að veðsetja eignarhluta H í fasteigninni. S krafðist þess að viðurkennt yrði að tryggingarbréfið fæli í sér gilda veðsetningu af hálfu bæði H og G. Af skýrslugjöf H og G fyrir héraðsdómi var ráðið að þeim var báðum ljóst að fasteignin væri sett að veði vegna skulda bróður H við S. Samkvæmt því, orðalagi umrædds tryggingarbréf og umboðs þess sem G veitti H var talið að veðsetningin næði til fasteignarinnar allrar eins og hún var tilgreind í tryggingarbréfinu. Var krafa S því tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 16. ágúst 2006. Þau krefjast aðallega sýknu af kröfu stefnda. Til vara krefjast þau að veðréttur stefnda í fasteign þeirra að Álfabrekku 15 í Kópavogi verði aðeins staðfestur fyrir skuldum Björns Braga Mikkaelssonar við stefnda að fjárhæð allt að 5.000.000 krónur. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Sparisjóður Hafnarfjarðar, sem var stefnandi í málinu í héraði, og Sparisjóður vélstjóra sameinuðust í eitt firma um síðustu áramót sem rekið er undir nafni Sparisjóðs vélstjóra.
Eins og rakið er í héraðsdómi áttu áfrýjendur í óskiptri sameign þá fasteign sem um er deilt hvort sett hafi verið Sparisjóði Hafnarfjarðar að veði fyrir skuldum Björns Braga Mikkaelssonar, bróður áfrýjandans Halldórs Mikkaelssonar, við sparisjóðinn. Þurfti atbeina beggja áfrýjenda til veðsetningar eignarinnar allrar. Af skýrslugjöf áfrýjenda fyrir héraðsdómi verður ráðið að þeim hafi báðum verið ljóst að fasteignin væri sett að veði vegna skulda Björns Braga við Sparisjóð Hafnarfjarðar en þau töldu bæði að um væri að ræða tímabundið ástand og að skuld Björns Braga við sparisjóðinn myndi greiðast fljótlega. Samkvæmt þessu og orðalagi umrædds tryggingarbréfs og umboðs verður ekki séð að hvor áfrýjenda um sig hafi talið að um væri að ræða veðsetningu á hluta hins í fasteigninni, eins og þau halda fram, heldur hafi veðsetninginn átt að ná til fasteignarinnar allrar eins og hún er tilgreind í tryggingarbréfinu. Að þessu virtu og með skírskotun til forsendna héraðsdóms er staðfest niðurstaða hans um að tryggingarbréfið feli í sér gilda veðsetningu af hálfu áfrýjenda.
Tryggingarbréfið var gert á staðlað eyðublað frá stefnda. Á þeim stað í bréfinu þar sem getið er um fjárhæð sem því er ætlað að tryggja stendur að um sé að ræða tryggingu fyrir „kröfu, að samtaldri fjárhæð allt að kr. 5.000.000,00 Fjárhæð í bókstöfum Fimm milljónir 00/100“. Hins vegar eru sérstaklega vélrituð skástrik yfir eftirfarandi orð sem á eftir koma „auk vaxta, dráttarvaxta, verðbóta og alls kostnaðar“. Prentaðan texta með svipuðu efni er að finna aftar í bréfinu og er hann þar óyfirstrikaður að því undanskyldu að strikað er yfir orðið „vaxta“ í upptalningu þess sem veðið á að tryggja. Með fyrrgreindri yfirstrikun þykja þeir sem undir bréfið rituðu hafa gefið til kynna að umræddir skuldaliðir ættu ekki að njóta veðréttar í eigninni ef þeir leiddu til þess að skuldin í heild færi yfir 5.000.000 krónur. Verður því niðurstaðan sú að bréfið telst aðeins tryggja skuld Björns Braga Mikkaelssonar við stefnda allt að 5.000.000 krónur, en ekki vexti og kostnað umfram þá skuld.
Rétt þykir að hver aðila beri sinn málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Staðfestur er 1. veðréttur í fasteign áfrýjenda, Guðrúnar Hönnu Óskarsdóttur og Halldórs Mikkaelssonar, að Álfabrekku 15, Kópavogi, 173,5 fermetra íbúð ásamt 6,2 fermetra stigarými og 71% hlutdeild í 8,3 fermetra sameign samkvæmt tryggingarbréfi útgefnu 3. júní 1998 til tryggingar skuld Björns Braga Mikkaelssonar við stefnda, að fjárhæð allt að 5.000.000 krónur.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 23. maí 2006.
Mál þetta var þingfest 4. maí 2005 og tekið til dóms 4. maí 2006. Stefnandi er Sparisjóður Hafnarfjarðar, Strandgötu 8-10, Hafnarfirði en stefndu eru Halldór Mikkaelsson og Guðrún Hanna Óskarsdóttir, Neðri-Breiðadal, Flateyri.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði gert að þola staðfestingu á 1. veðrétti (áður 2. veðréttur) í eigninni Álfabrekku 15, Kópavogi, fastanúmer 222-0352, íbúð merkt 0201 og bílskúr merktur 0103, ásamt hlutdeild í sameign, samkvæmt tryggingarbréfi útgefnu í Hafnarfirði þann 3. júní 1998 að upphæð 5.000.000 krónur, til tryggingar skuldum Björns Braga Mikkaelssonar, auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 27. mars 2002 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu með virðisaukaskatti.
Af hálfu stefndu er aðallega krafist sýknu en til vara að kröfur stefnanda á hendur stefnda verði að hámarki 5.000.000 krónur. Stefndu krefjast málskostnaðar auk virðisaukaskatts.
I.
Í málinu liggur fyrir skjal sem ber yfirskriftina tryggingarbréf. Skjalið er samkvæmt efni sínu gefið út af Birni Braga Mikkaelssyni þann 3. júní 1998. Það er sagt til tryggingar skuldum sem útgefandi þá eða síðar kunni að standa í við stefnanda málsins allt að fjárhæð 5.000.000 krónur. Með skjalinu er veittur 2. veðréttur í fasteigninni að Álfabrekku 15, Kópavogi, nánar tiltekið 173,5 fm. íbúð, 6,2 fm. stigarými og 71% hlutdeild í 8,3 fm. sameign, á eftir 2.500.000 króna veðrétti í eigu Sparisjóðs Þingeyinga. Óumdeilt er að á þeim tíma sem hér um ræðir var umrædd fasteign í sameiginlegri eigu stefndu sem eru í sambúð og er sú skráning óbreytt. Stefndi Halldór ritar undir skjalið í reit sem ber yfirskriftina: „Samþykkir framangreinda veðsetningu sem maki veðsala.“
Í málinu liggur einnig fyrir vottað umboð sem gefið er út af stefndu Guðrúnu Hönnu sama dag og fyrrnefnt tryggingarbréf, þar sem segir: „Ég undirrituð Guðrún Hanna Óskarsdóttir [kt.] gef hér með manni mínum Halldóri Mikkaelssyni [kt.] fullt og óskorðað umboð til að skrifa undir fyrir mína hönd vegna veðsetningar á eigninni Álfabrekku 15, Kópavogi.“ Skjölin bera bæði með sér að hafa verið færð í fasteignabók 5. júní 1998.
Í málinu liggur einnig fyrir stefna í máli sem stefnandi höfðaði á hendur Birni Braga Mikkaelssyni vegna yfirdráttar á tékkareikningi að fjárhæð samtals 10.543.837,40 krónur. Stefnan er árituð um aðfararhæfi 26. júní 2002 og var stefndu birt greiðsluáskorun 14. nóvember 2002. Er þar vísað til þeirrar árituðu stefnu sem að framan er lýst og eins þess að kröfuhafi eigi veðrétt fyrir skuldinni í eign stefndu samkvæmt fyrrnefndu tryggingarbréfi.
Stefnandi krafðist fjárnáms hjá stefndu 8. janúar 2003. Er í beiðninni krafist aðfarar fyrir höfuðstól að fjárhæð 5.000.000 krónur auk kostnaðar og krafan því samtals að fjárhæð 6.473.865 krónur. Kemur fram í beiðninni að skuldin sé vegna yfirdráttar Björns Braga Mikkaelssonar á tékkareikningi hjá stefnanda samkvæmt fyrrnefndri stefnu áritaðri um aðfarahæfi þann 26. júní 2002. Skuldin sé tryggð með tryggingarbréfi útgefnu í Hafnarfirði 3. júní 1998 til tryggingar skuldum Björns við kröfuhafa allt að fjárhæð 5.000.000 krónur. Bréfið sé tryggt með veði í 2. veðrétti í Álfabrekku 15, Kópavogi, eignarhluta 0201. Segir svo að kröfuhafi eigi veðrétt samkvæmt nefndu tryggingarbréfi í ofangreindri eign og af þeirri ástæðu sé aðfararbeiðnin tilkomin.
Aðfarargerðin var tekin fyrir hjá sýslumanni í Kópavogi 10. febrúar 2003. Bókað var að samkomulag væri með aðilum um að fresta gerðinni til 24. febrúar 2003. Þann dag mætti bróðir stefnda Halldórs, Eiríkur Mikkaelsson, fyrir hönd stefndu samkvæmt umboði. Er bókað að hann samþykki kröfuna að því er varði höfuðstól hennar en mótmæli að öðru leyti kröfunni hvað varði vexti og dráttarvexti. Ákveðið var að fresta gerðinni til 3. mars 2003. Við þá fyrirtöku mætti Eiríkur á ný ásamt Birni Braga Mikkaelssyni. Málsvari gerðarþola, Eiríkur Mikkaelsson, kvaðst nú vilja breyta afstöðu sinni frá síðustu fyrirtöku málsins. Hann hafnaði nú kröfunni alfarið á þeirri forsendu að votta vantaði vegna undirritunar Halldórs á bréfið og hann hafi skrifað undir sem maki veðsala. Í öðru lagi væri enginn veðsali á bréfinu. Bókað var að ábendingu lögmanns gerðarbeiðanda væri gert fjárnám í eignarhluta gerðarþola í fasteigninni Álfabrekku 15, Kópavogi.
Sýslumaðurinn í Kópavogi tók beiðnina fyrir sem tvö aðskilin mál, annars vegar á hendur stefndu Guðrúnu Hönnu og hins vegar á hendur stefnda Halldóri. Voru málin afgreidd með sambærilegum hætti hjá sýslumanni og þeim skotið samhliða til úrlausnar héraðsdóms. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 28. maí 2003 var fjárnámsgerð sýslumannsins í Kópavogi felld úr gildi.
Í málinu liggja frammi tvær yfirlýsingar sem stafa frá stefndu. Sú fyrri er dagsett 9. mars 2003 og er undirrituð af stefnda Halldóri Mikkaelssyni, svohljóðandi: „Ég undirritaður, Halldór Mikkaelsson [kt., heimilisfang.] staðfesti hér með að áritun mín á tryggingarbréf að upphæð kr. 5.000.000 útgefið 3.6.1998 af Birni Mikkaelssyni [kt.] tryggt með 2. veðrétti í Álfabrekku 15 Kópavogi undir textann, samþykki veðsetninguna sem maki veðsala, ber að skilja eins og það er orðað, sem eigandi eignarinnar að hluta var ég að samþykkja að sambýliskona mín Guðrún Hanna Óskarsdóttir veðsetti eignarhluta sinn fyrir nefndu tryggingarbréfi. Það var ekki vilji minn eða ætlun að veðsetja minn eignarhluta fyrir tryggingarbréfinu.“
Seinni yfirlýsingin er dagsett 11. mars 2003 og er undirrituð af stefndu Guðrúnu Hönnu Óskarsdóttur, svohljóðandi: „Ég undirrituð, Guðrún Hanna Óskarsdóttir [kt., heimilisfang.] staðfest hér með að umboð sem ég undirritaði 3.6.1998 og veitti manni mínum, Halldóri Mikkaelssyni vegna veðsetningar á eigninni Álfabrekku 15 var gert til að nefndur Halldór gæti veðsett eignarhluta sinn vegna skulda Björns Braga Mikkaelssonar við Sparisjóð Hafnarfjarðar. Umboðið náði ekki til að veðsetja minn eignarhlut fyrir tryggingarbréfinu.“
Stefnandi reyndi aðför á ný með beiðni til Héraðsdóms Reykjaness 10. maí 2004. Aðför var hins vegar talin óheimil með áritun dómsins 25. maí 2004.
II.
Stefndu komu fyrir dóminn og gáfu skýrslu. Í máli þeirra kom meðal annars fram að tildrög málsins hafi verið að Björn Bragi Mikkaelsson, bróðir stefnda Halldórs, hafi leitað til þeirra þar sem að hann hafi vantað veð fyrir tímabundið lán. Stefnda Guðrún sagði að henni hafi fundist í lagi að stefndi Halldór lánaði Birni veð en hún hafi ekki verið tilbúin til þess. Hún kvaðst aldrei hafa vitað að hennar eignarhluti væri veðsettur. Stefndi Halldór kvaðst hins vegar hafa ritað undir tryggingarbréfið sem maki veðsala og taldi að hann hefði verið að veðsetja eignarhluta stefndu Guðrúnar.
III.
Stefnandi byggir á því að stefndi Halldór hafi undirritað tryggingarbréfið fyrir hönd sambýliskonu sinnar, stefndu Guðrúnar, svo og sem veðsali enda hafi tryggingarbréfinu verið þinglýst þannig, þ.e. á eignarhluta 0201 sem sé sameign þeirra beggja. Stefndu hljóti að hafa verið þetta ljóst frá upphafi og hafi eignin verið metin af fasteignasala í þessum tilgangi. Tryggingarbréfinu hafi verið þinglýst án athugasemda og þinglýsingarstjóri því metið bréfið fullgilt að formi til. Stefnandi bendir á og byggir á að mótmæli við veðsetningunni hafi ekki komið fram af hálfu stefndu fyrr en við fyrirtöku aðfararbeiðni hjá sýslumanni eða tæpum 5 árum eftir veðsetningu. Þetta tómlæti valdi því að stefndu geti ekki byggt rétt á þessum sjónarmiðum sínum. Stefndu hafi haldið því fram að tryggingarbréfið sé ekki vottað. Það sé hins vegar ekki rétt eins og tryggingarbréfið beri með sér.
IV.
Stefndu halda því fram að skjalagerð stefnanda sé alvarlegum annmörkum háð og beri stefnandi áhættuna af því. Tryggingarbréfið hafi verið samið á vegum stefnanda sem sé lánastofnun með fjölda starfsmanna og sérfræðinga í sinni þjónustu. Stefndu séu hins vegar bæði ófaglærð og hafi ekki starfsreynslu eða þekkingu á gerð lánsskjala. Skýra beri texta bréfsins eftir orðanna hljóðan þar á meðal undirskrift stefnda Halldórs þar sem hann skrifi undir sem maki veðsala. Stefndu mótmæla þeirri röksemd stefnanda að tómlæti geti átt við. Ekkert hindri stefndu í að gæta hagsmuna sinna til hins ítrasta og bera fyrir sig galla í skjalagerð stefnanda. Við fyrirtöku fjárnáms 24. febrúar 2003 hafi bróðir stefnda Halldórs, Eiríkur Mikkaelsson, mætt fyrir hönd stefndu. Hann hafi samþykkt kröfuna en hins vegar ekki haft umboð stefndu til slíkrar viðurkenningar. Stefndi Halldór hafi talið sig hafa umboð til að undirrita tryggingarbréfið fyrir hönd stefndu Guðrúnar en stefnda Guðrún hafi hins vegar hafnað þeim skilningi. Nauðsynlegt hafi verið að Guðrún ritaði á tryggingarbréfið sjálf til þess að það yrði bindandi fyrir hana sem veðsali. Þá vanti votta vegna undirritunar stefnda Halldórs. Stefndi Halldór hafi ekki skrifað undir bréfið sem veðsali heldur sem maki stefndu Guðrúnar. Með öðrum orðum sé enginn veðsali á tryggingarbréfinu og sé það því markleysa. Ljóst sé allavega að veðsetningin sé stefnda Halldóri óviðkomandi og því beri að fella réttaráhrif tryggingarbréfsins niður gagnvart honum vegna aðildarskorts. Hér megi líta til 60. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 um samþykki maka til tiltekinna ráðstafanna. Vottar á bréfinu hafi vottað rétta dagsetningu, undirritun og fjárræði útgefanda og maka. Útgefandi tryggingarbréfsins sé Björn Mikkaelsson og varði vottunin einungis hann. Samkvæmt 2. mgr. 22. gr., sbr. 1. mgr. 24. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978 beri að votta sérstaklega samþykki þinglesins eiganda fasteignar til veðsetningar fyrir skuldbindingum annars en eiganda veðsins. Vegna þessa annmarka á tryggingarbréfinu hafi verið ólögmætt að þinglýsa því á umrædda fasteign samkvæmt þinglýsingarlögum. Beri því að ómerkja eftirfarandi staðfestingu sem byggist á þinglýsingu sem brjóti gegn lögum. Með umboði 3. júní 1998 hafi stefnda Guðrún einvörðungu veitt stefnda Halldóri umboð til að Halldór mætti veðsetja sinn eignarhlut. Þá sé umboðið mjög óljóst þar sem hvergi sé getið í umboðinu um hver sé kröfuhafi væntanlegs láns eða fjárhæð þess. Varakröfu sína styðja stefndu þeim rökum að í texta tryggingarbréfsins hafi verið krossað með ritvél yfir prentaðan texta þar sem staðið hafi „auk vaxta, dráttarvaxta, verðbóta og alls eftirfarandi kostnaðar.“ Með þessum frágangi telja stefndu að ábyrgð samkvæmt tryggingarbréfinu geti aðeins náð að hámarki 5.000.000 króna.
V.
Í málinu kveðst stefnandi þurfa að höfða mál á hendur stefndu ,,...til tryggingar skuldar, in solidum, að fjárhæð kr. 5.000.000...“ Síðan segir í dómkröfum að stefndu sé jafnframt stefnt til þess að þola staðfestingu á veðrétti. Litið verður svo á að kröfugerð stefnanda hljóði á um að fá staðfestan 1. veðrétt í fasteigninni Álfabrekku 15, Kópavogi, samkvæmt tryggingarbréfi sem nánar er lýst í dómkröfum stefnanda. Skuld sú sem stendur á bak við tryggingarbréfið kemur því ekki til umfjöllunar dómsins.
Óumdeilt er að bróðir stefnda Halldórs, Björn Bragi Mikkaelsson, leitaði til stefndu og óskaði eftir að þau lánuðu honum veð. Þau urðu við þeirri málaleitan og voru útbúin skjöl í þeim tilgangi. Stefndu ber hins vegar ekki saman um hvað hafi verið ákveðið í þessu sambandi. Þannig segir stefndi Halldór að til hafi staðið að veðsetja eignarhluta stefndu Guðrúnar en Guðrún segir aftur á móti að ætlunin hafi verið að veðsetja eignarhluta Halldórs. Stefndu voru í sambúð á þessum tíma og eru enn. Þau eiga hinn veðsetta eignarhluta í óskiptri sameign. Guðrún veitti Halldóri fullt og óskorað umboð til að skrifa undir fyrir hennar hönd vegna veðsetningar á eigninni Álfabrekku 15, Kópavogi. Umboðið er dagsett sama dag og tryggingarbréfið og samkvæmt efni sínu veitir það Halldóri umboð til að veðsetja eignarhluta Guðrúnar. Halldór ritaði undir tryggingarbréfið samkvæmt þessu umboði, undir textann: „Samþykki framangreinda veðsetningu sem maki veðsala.“ Samkvæmt þessu er ótvírætt að Guðrún samþykkti veðsetninguna fyrir sitt leyti.
Varnir Halldórs byggjast meðal annars á því að hann hafi ekki undirritað skjalið sem veðsali heldur aðeins sem maki Guðrúnar. Sýnt þykir að tilgangur beggja stefndu var að veita bróður Halldórs veðleyfi til tryggingar skuldum hans hjá stefnanda. Talið verður að stefndu báðum hafi verið þetta ljóst eða mátt vera ljóst enda hreyfðu þau engum andmælum við veðsetningunni fyrr en tæpum 5 árum eftir að hún fór fram. Verður litið svo á að með undirskrift sinni undir tryggingarbréfið hafi Halldór ekki einvörðungu verið að skrifa undir sem sambýlismaður Guðrúnar heldur einnig sem eigandi veðsins og með því einnig samþykkt veðsetninguna fyrir sitt leyti, þ.e. er að hans eignarhluti væri einnig veðsettur samkvæmt tryggingarbréfinu. Með undirritun sinni gaf Halldór gilt loforð um veðsetningu og hefði hann þurft að gera fyrirvara ef til hefði staðið að undanskilja hans eignarhluta í sameign stefndu.
Þau sjónarmið stefndu að bréfin hafi verið útbúin af bankastofnun sem hafi sérfræðinga á þessu sviði og skjöl frá slíkri stofnun eigi að vera nákvæm og skýr, hagga ekki framangreindri niðurstöðu.
Ákvæði þinglýsingarlaga um votta á veðbréfum skipta ekki máli varðandi gildi tryggingarbréfsins enda ekki deilt um útgáfudag bréfsins eða fjárræði aðila. Þá skipta formskilyrði þinglýsingarlaga, hvenær skjal er tækt til þinglýsingar, ekki heldur máli varðandi gildi tryggingarbréfs en sjónarmiðum í þá veru var hreyft í málflutningi.
Þegar litið er til alls framangreinds verður talið að tryggingarbréfið sé gild veðsetning af hálfu stefndu.
Deilt er um hvort tryggingarbréfið standi einnig til tryggingar vöxtum og halda stefndu því jafnframt fram að ef svo er geti höfuðstóll og vextir að hámarki orðið alls 5.000.000 króna. Í tryggingarbréfinu segir að það sé til tryggingar skuld allt að 5.000.000 króna. Í texta bréfsins segir jafnframt að veðið setji veðsali til tryggingar skaðlausri og skilvísri greiðslu höfuðstóls, verðbóta, vísitöluálags, svo og dráttarvaxta og alls þess kostnaðar sem leiða kann af vanskilum. Samkvæmt þessu er ótvírætt að tryggingarbréfið er einnig til tryggingar dráttarvöxtum af þeirri kröfu sem tryggingarbréfinu er ætlað að tryggja og bætast þeir dráttarvextir við höfuðstól skuldarinnar en höfuðstóll getur að hámarki orðið 5.000.000 króna.
Ekki verður dæmt um upphafstíma dráttarvaxta eins og krafist er í stefnu vegna þess sem áður sagði um kröfugerð stefnanda. Var þar sagt að litið væri svo á að málið væri einungis höfðað til staðfestingar á veðrétti en ekki til greiðslu skuldar eða viðurkenningu á skuld.
Samkvæmt öllu framansögðu verður fallist á þá kröfu stefnanda að staðfestur verði 1. veðréttur í fasteigninni Álfabrekku 15, Kópavogi, nánar tiltekið 173,5 fm. íbúð, 6,2 fm. stigarými og 71% hlutdeild í 8,3 fm. sameign, samkvæmt tryggingarbréfi útgefnu 3. júní 1998 af Bjarna Braga Mikkaelssyni að fjárhæð 5.000.000 króna til tryggingar skuldum útgefanda við stefnanda auk dráttarvaxta. Eftir þessari niðurstöðu verða stefndu dæmd til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 220.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
DÓMSORÐ:
Að kröfu stefnanda, Sparisjóðs Hafnarfjarðar, er staðfestur 1. veðréttur í fasteign stefndu, Halldórs Mikkaelssonar og Guðrúnar Hönnu Óskarsdóttur, að Álfabrekku 15, Kópavogi, 173,5 fm. íbúð ásamt 6,2 fm. stigarými og 71% hlutdeilt í 8,3 fm. sameign, samkvæmt tryggingarbréfi útgefnu 3. júní 1998 af Birni Braga Mikkaelssyni, að fjárhæð 5.000.000 krónur, til tryggingar skuldum útgefanda við stefnanda allt að fjárhæð 5.000.000 krónur auk dráttarvaxta og kostnaðar. Stefndu greiði stefnanda 220.000 krónur í málskostnað.