Hæstiréttur íslands

Mál nr. 514/2002


Lykilorð

  • Líkamstjón
  • Sjómaður
  • Örorka
  • Miski
  • Þjáningarbætur
  • Slysatrygging
  • Uppgjör


Fimmtudaginn 22

 

Fimmtudaginn 22. maí 2003.

Nr. 514/2002.

Ólafur Rúnar Þórarinsson

(Sigurður Sigurjónsson hrl.)

gegn

Eri ehf.

(Guðmundur Pétursson hrl.)

 

Líkamstjón. Sjómenn. Örorka. Miski. Þjáningabætur. Slysatrygging. Uppgjör.

Ó  varð fyrir slysi við störf sín sem skipverji á fiskiskipi sem E ehf. gerði út til veiða. Vann hann ýmist á skipinu sem háseti eða 2. vélstjóri, en til síðastgreinds starfs hafði hann ekki aflað sér menntunar. Hóf Ó aftur störf um það bil tveimur mánuðum síðar. Ábyrgð E ehf. á slysinu var óumdeild, en félagið hafði ábyrgðartryggingu hjá T hf. ásamt slysatryggingu skipverja í þjónustu sinni samkvæmt 172. gr. siglingalaga. Ó leitaði álits örorkunefndar sem komast að þeirri niðurstöðu að varanlegur miski og varanleg örorka hans væri 15%. Ó náði ekki samkomulagi við T hf. um alla liði bótakröfu sinnar, en í uppgjöri lýstu aðilar sig sammála um að boð um greiðslu úr slysatryggingu sjómanna ásamt vöxtum og á bótum fyrir 15% varanlegan miska yrði innt af hendi. Var tekið fram að greiðslurnar fælu í sér lokauppgjör bóta úr slysatryggingu sjómanna og miskabóta. Nokkru síðar leitaði Ó að nýju til örorkunefndar sem taldi nú að varanlegur miski hans væri 20%, en varanleg örorka 33%. Bauðst T hf. nú til að greiða Ó bætur fyrir varanlega örorku á grundvelli niðurstöðu nefndarinnar svo og þjáningabætur. Ó höfðaði í kjölfarið mál á hendur E ehf. Eftir höfðu málsins þáði Ó boð T hf. með fyrirvara. Undir rekstri málsins fékk E ehf. dómkvadda matsmenn sem mátu hvort tveggja varanlegan miska og varanlega örorku Ó 15%. Yfirmatsmenn mátu hins vegar varanlegan miska 20%, en varanlega örorku 25%. Talið var að eftir að Ó hóf aftur störf á skipi E ehf. hafi hann ekki lengur talist veikur af völdum slyssins í skilningi 3. gr. skaðabótalaga. Var kröfu hans um greiðslu á frekari þjáningabótum því hafnað. Þá var hann talinn bundinn af uppgjörinu við T hf. að því er snerti bætur fyrir varanlegan miska og að 5% breyting á miskastigi væri ekki veruleg í skilningi 11. gr. laganna. Að því er snerti bætur Ó fyrir varanlega örorku var ekki talið unnt að meta árslaun hans sérstaklega á grundvelli 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga þar sem hann hafði ekki aflað sér menntunar til starfa sem vélstjóri. Var E ehf. því sýknað af kröfu Ó.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Haraldur Henrysson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. nóvember 2002. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér aðallega 12.704.799 krónur en til vara aðra lægri fjárhæð með 2% ársvöxtum frá 15. janúar 1996 til 22. nóvember 1999 og með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum samtals 5.796.963 krónum, sem greiddar hafi verið upp í kröfuna 27. nóvember 1998 og 5. apríl 2000. Þá krefst áfrýjandi þess aðallega að stefnda verði gert að greiða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að málskostnaður fyrir Hæstarétti verði látinn falla niður.

Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti.

Áfrýjandi hefur stefnt Tryggingamiðstöðinni hf. til réttargæslu fyrir Hæstarétti.

I.

Samkvæmt gögnum málsins varð áfrýjandi, sem er fæddur á árinu 1969, fyrir slysi 15. janúar 1996 við störf sín sem skipverji á fiskiskipinu Erik BA 204, sem stefndi gerði þá út til veiða á Flæmingjagrunni. Mun áfrýjandi hafa unnið á skipinu frá 27. desember 1995, að virðist ýmist sem háseti eða 2. vélstjóri, en til síðastgreinds starfs hafði hann ekki aflað sér menntunar. Eftir slysið mun áfrýjandi hafa verið fluttur með öðru skipi stefnda í land í Kanada 22. janúar 1996 vegna meiðsla, sem hann hafði hlotið, en eftir læknismeðferð þar hélt hann hingað til lands í flugvél. Leitaði hann eftir heimkomu til slysadeildar Sjúkrahúss Reykjavíkur 25. janúar 1996. Hann reyndist vera með brotna hnéskel á hægri fótlegg, auk þess að hafa óþægindi í hægri öxl eftir högg, sem hann fékk við slysið. Meðferð þessara meiðsla áfrýjanda er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Í málinu er ekki deilt um skaðabótaskyldu stefnda vegna afleiðinga slyssins, en hann hafði á þeim tíma ábyrgðartryggingu hjá Tryggingamiðstöðinni hf. ásamt slysatryggingu skipverja í þjónustu sinni samkvæmt 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985.

Áfrýjandi leitaði 1. desember 1997 eftir mati örorkunefndar á varanlegri örorku sinni og miska af völdum framangreinds slyss. Í álitsgerð nefndarinnar 6. október 1998 var komist að þeirri niðurstöðu að bæði varanlegur miski og varanleg örorka áfrýjanda vegna slyssins væri 15%, en eftir 1. júlí 1998 hafi hann ekki mátt vænta frekari bata. Að fenginni þessari álitsgerð krafði áfrýjandi Tryggingamiðstöðina hf. 6. nóvember 1998 um skaðabætur að fjárhæð samtals 4.010.014 krónur, auk 228.571 krónu í vexti og 249.932 króna vegna lögmannsþóknunar og útlags kostnaðar. Skaðabótakrafa áfrýjanda var sundurliðuð þannig að krafist var 14.359 króna í þjáningabætur vegna 10 daga, sem hann hafi verið veikur og rúmliggjandi, og 686.563 króna vegna 888 daga, sem hann hafi verið veikur með fótaferð. Þá var krafa áfrýjanda um bætur vegna varanlegs miska að fjárhæð 662.706 krónur og varanlegrar örorku 2.646.386 krónur. Með bréfi 16. nóvember 1998 gerði Tryggingamiðstöðin hf. áfrýjanda boð um uppgjör bóta. Voru þar í fyrsta lagi boðnar fram þjáningabætur að fjárhæð 39.270 krónur vegna tímabilsins 11. maí til 30. júní 1998, þegar áfrýjandi gekkst undir læknisaðgerðir, en tekið var fram að hann hafi 16. febrúar sama árs fengið greiddar 54.749 krónur í þjáningabætur fyrir tímabilið frá 15. janúar til 26. mars 1996. Í öðru lagi voru áfrýjanda boðnar miskabætur að fjárhæð 662.700 krónur og í þriðja lagi 1.364.152 krónur í bætur fyrir varanlega örorku. Í fjórða lagi bauð félagið greiðslu á 550.050 krónum úr slysatryggingu sjómanna í örorkubætur vegna 15% læknisfræðilegrar örorku, auk vaxta af þeirri greiðslu að fjárhæð 9.900 krónur. Loks bauðst félagið til að greiða 104.952 krónur í vexti af öðrum liðum í bótakröfu áfrýjanda en þeim síðastnefnda, auk 151.890 króna í lögmannsþóknun. Samkomulag tókst ekki milli áfrýjanda og Tryggingamiðstöðvarinnar hf. um alla liði í kröfu hans á grundvelli þessa boðs, en í uppgjöri 27. nóvember 1998 lýstu þeir sig sammála um að framboðin greiðsla úr slysatryggingu sjómanna ásamt vöxtum og á bótum fyrir varanlegan miska, samtals 1.222.650 krónur, yrði innt af hendi, auk 130.102 króna, sem yrði varið til greiðslu þóknunar fyrri lögmanns áfrýjanda og kæmu til frádráttar kröfu hans vegna varanlegrar örorku við endanlegt uppgjör. Í niðurlagi þessa uppgjörs var eftirfarandi tekið fram: „Þær greiðslur sem að ofan greinir fela í sér lokauppgjör bóta úr slysatryggingu sjómanna og miskabóta úr ábyrgðartryggingu vegna slyssins þann 15. janúar 1996.“ Auk þessa liggur fyrir í málinu að Tryggingamiðstöðin hf. greiddi áfrýjanda 14. maí 1999 alls 498.570 krónur í bætur vegna tímabundins atvinnutjóns á áðurnefndu tímabili í maí og júní 1998.

Með bréfi 21. júlí 1999 óskaði áfrýjandi eftir nýju mati örorkunefndar á varanlegum miska og varanlegri örorku vegna slyssins 15. janúar 1996, þar sem dregið hafi verulega úr starfsgetu hans eftir að áðurgreindrar álitsgerðar nefndarinnar var aflað. Örorkunefnd féllst á að afleiðingar slyssins hafi orðið verulega meiri en áður var lagt til grundvallar og lét af hendi viðbótarálitsgerð 26. október 1999. Varanlegur miski áfrýjanda var þar talinn 20%, en varanleg örorka 33%. Á grundvelli þessarar álitsgerðar krafði áfrýjandi Tryggingamiðstöðina hf. 22. nóvember 1999 um frekari bætur. Leitaði hann nánar tiltekið eftir greiðslu úr slysatryggingu sjómanna á 1.869.840 krónum umfram það, sem félagið hafði áður greitt, auk 169.443 króna í vexti af þeim lið. Þá krafðist hann þjáningabóta vegna fyrrnefnds 898 daga tímabils að fjárhæð alls 738.046 krónur, bóta vegna hækkunar á varanlegum miska um 5%, 267.708 krónur, bóta vegna 33% varanlegrar örorku að frádreginni áðurnefndri innborgun frá félaginu, 11.183.278 krónur, 1.006.316 króna í vexti og loks lögmannsþóknunar að fjárhæð 530.533 krónur. Tryggingamiðstöðin hf. svaraði kröfu þessari með bréfi 26. janúar 2000, þar sem lýst var því áliti að áfrýjandi væri bundinn af áðurnefndu uppgjöri þeirra 27. nóvember 1998 að því er varðaði bætur úr slysatryggingu sjómanna og miskabætur. Án þess að tekin væri afstaða til réttmætis viðbótarálitsgerðar örorkunefndar lýsti félagið sig á hinn bóginn reiðubúið til að leggja hana til grundvallar við uppgjör bóta fyrir varanlega örorku áfrýjanda, sem teldist þannig 33%. Bauðst félagið til að greiða af þessum sökum 4.450.560 krónur að frádreginni fyrrnefndri greiðslu til áfrýjanda úr slysatryggingu sjómanna að fjárhæð 550.050 krónur og innborgun á 130.102 krónum, eða alls 3.770.408 krónur. Þá bauð félagið fram á ný greiðslu þjáningabóta vegna tímabilsins 11. maí til 30. júní 1998, en í þetta sinn með 41.820 krónum. Þessu til viðbótar voru boðnar 363.276 krónur í vexti og 268.707 krónur í lögmannsþóknun. Hljóðaði boð Tryggingamiðstöðvarinnar hf. þannig alls upp á 4.444.211 krónur.

Ekki verður séð af gögnum málsins að áfrýjandi hafi svarað síðastnefndu boði Tryggingamiðstöðvarinnar hf. um uppgjör bóta, en hann höfðaði mál þetta 14. mars 2000. Í héraðsdómsstefnu krafðist hann þess að stefnda yrði gert að greiða sér í fyrsta lagi bætur úr slysatryggingu sjómanna vegna 33% varanlegrar örorku, 2.419.890 krónur, í öðru lagi samtals 738.046 krónur í þjáningabætur, í þriðja lagi 930.408 krónur í bætur vegna 20% varanlegs miska og í fjórða lagi bætur vegna 33% varanlegrar örorku, 11.313.380 krónur. Frá samanlagðri fjárhæð þessara kröfuliða, sem samkvæmt dómkröfu áfrýjanda nam 15.401.224 krónum, skyldu dragast alls 1.352.752 krónur, sem Tryggingamiðstöðin hf. greiddi áfrýjanda samkvæmt áðurgreindu uppgjöri 27. nóvember 1998. Eftir höfðun málsins ítrekaði félagið 23. mars 2000 boð sitt um bætur, sem gert var í fyrrnefndu bréfi 26. janúar sama árs. Tók áfrýjandi 5. apríl 2000 við greiðslu frá félaginu á þeim 4.444.211 krónum, sem áður er getið, en af hendi beggja voru gerðir fyrirvarar varðandi forsendur greiðslunnar og áhrif hennar. Með þessu lauk Tryggingamiðstöðin hf. greiðslu á þeim samtals 5.796.963 krónum, sem áfrýjandi telur eins og áður greinir að koma eigi til frádráttar kröfu sinni á hendur stefnda.

Undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi fékk stefndi dómkvadda tvo menn 22. maí 2000 til að leggja meðal annars mat á það hver væri varanlegur miski og varanleg örorka áfrýjanda vegna áverka, sem hann hlaut við slysið 15. janúar 1996. Í matsgerð 26. janúar 2001 var komist að þeirri niðurstöðu að varanlegur miski áfrýjanda af þessum sökum væri 15% og varanleg örorka jafnframt 15%. Matsgerð þessi var lögð fram á dómþingi 14. mars 2001. Í tilefni af henni fékk áfrýjandi dómkvadda þrjá yfirmatsmenn 17. október 2001 til að meta varanlegan miska og varanlega örorku hans. Í yfirmatsgerðinni, sem lokið var 19. mars 2002, varð niðurstaðan sú að varanlegur miski áfrýjanda vegna slyssins væri 20%, en varanleg örorka 25%. Við aðalmeðferð málsins 23. maí 2002 gerði áfrýjandi sem fyrr kröfu um greiðslu á 15.401.224 krónum að frádregnum áðurgreindum innborgunum að fjárhæð samtals 5.796.963 krónur. Til vara krafðist hann þess að stefnda yrði gert að greiða sér 12.704.799 krónur að frádregnum sömu innborgunum. Þessi krafa var sundurliðuð þannig að samtals 846.713 krónur væru þjáningabætur í 898 daga, 1.067.398 krónur bætur vegna 20% varanlegs miska og 10.790.687 krónur bætur fyrir 25% varanlega örorku, svo sem yfirmatsmenn höfðu komist að niðurstöðu um, en samtals nema þessir kröfuliðir 12.704.798 krónum.

Svo sem nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi var þar komist að þeirri niðurstöðu að áfrýjandi ætti rétt á samtals 94.019 krónum í þjáningabætur, 1.073.248 krónum í bætur fyrir 20% varanlegan miska, bætur fyrir 25% varanlega örorku að fjárhæð 2.867.339 krónur þegar tillit hafði verið tekið frádráttarliða samkvæmt ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993 og greiðslu inn á þær frá Tryggingamiðstöðinni hf. og loks 916.750 krónur í bætur úr slysatryggingu sjómanna, sem tækju mið af sama örorkustigi. Samanlagt taldist áfrýjandi því hafa átt rétt til bóta að fjárhæð 4.951.356 krónur. Með því að fyrrnefndar innborganir Tryggingamiðstöðvarinnar hf., alls 5.796.963 krónur, næmu hærri fjárhæð að teknu tilliti til áfallinna vaxta var stefndi sýknaður af kröfu áfrýjanda.

II.

Fyrir Hæstarétti deila aðilarnir ekki um að leggja eigi til grundvallar niðurstöðu dómkvaddra yfirmatsmanna um að varanleg örorka áfrýjanda af völdum slyssins 15. janúar 1996 sé 25%. Því til samræmis gerir áfrýjandi ekki lengur kröfu um að bætur sér til handa fyrir varanlega örorku verði miðaðar við að sú örorka sé 33%, svo sem fólst í fyrrnefndri aðalkröfu hans fyrir héraðsdómi, sem tók að þessu leyti mið af viðbótarálitsgerð örorkunefndar frá 26. október 1999. Er aðalkrafa áfrýjanda fyrir Hæstarétti þannig um greiðslu sömu fjárhæðar og hann krafðist til vara fyrir héraðsdómi, eða 12.704.799 krónur. Eins og áður er getið hefur þessi krafa verið sundurliðuð þannig í málatilbúnaði áfrýjanda að þjáningabætur í 898 daga nemi alls 846.713 krónum, bætur fyrir 20% varanlegan miska 1.067.398 krónum og bætur fyrir 25% varanlega örorku 10.790.687 krónum. Samkvæmt því felst ekki lengur í kröfugerð áfrýjanda fyrir Hæstarétti krafa um frekari greiðslu úr slysatryggingu sjómanna vegna breytts mats á varanlegri örorku hans frá því, sem lagt var til grundvallar í uppgjöri milli hans og Tryggingamiðstöðvarinnar hf. 27. nóvember 1998. Geta því ekki komið til úrlausnar hér fyrir dómi önnur ágreiningsatriði aðilanna en þau, sem varða rétt áfrýjanda til þjáningabóta, miskabóta og bóta fyrir varanlega örorku, auk ágreinings um vexti og málskostnað.

Áfrýjandi varð sem áður segir fyrir slysinu, sem málið varðar, 15. janúar 1996. Samkvæmt skýrslu, sem hann gaf vegna slyssins hjá lögreglu 15. apríl 1997, hóf hann aftur störf hjá stefnda 27. mars 1996 sem skipverji á sama skipi og fyrr. Samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga, svo sem ákvæðið hljóðaði áður en því var breytt með 2. gr. laga nr. 37/1999, átti tjónþoli rétt til þjáningabóta frá því að tjón varð og þar til ekki væri að vænta frekari bata, að fjárhæð 1.300 krónur fyrir hvern dag, sem hann væri rúmfastur, en 700 krónur fyrir hvern dag, sem hann væri veikur án þess að vera rúmliggjandi. Í dómum Hæstaréttar hefur ítrekað verið slegið föstu að tjónþoli geti ekki átt rétt til þjáningabóta samkvæmt þessu ákvæði nema fyrir það tímabil, sem hann telst veikur í skilningi þess, en að hámarki geti þessar bætur verið reiknaðar fram til þess tíma, sem hann geti ekki að mati lækna vænst frekari bata, enda teljist hann enn á því stigi veikur. Eftir slysið hóf áfrýjandi sem áður segir aftur störf 27. mars 1996. Frá þeim tíma gat hann ekki lengur talist veikur af völdum slyssins í skilningi 3. gr. skaðabótalaga nema síðar kæmu upp tilvik, þar sem hann sannanlega varð aftur óvinnufær vegna veikinda af þeim sökum. Eins og áður er rakið fékk áfrýjandi greiddar frá Tryggingamiðstöðinni hf. 16. febrúar 1998 þjáningabætur að fjárhæð 54.749 krónur, sem reiknaðar voru vegna tímabilsins frá 15. janúar til 26. mars 1996, og síðan til viðbótar 41.820 krónur 5. apríl 2000 vegna tímabilsins 11. maí til 30. júní 1998, þegar hann gekkst undir læknisaðgerðir vegna afleiðinga áverkanna, sem hann hlaut við slysið. Áfrýjandi hefur ekki sýnt fram á með viðhlítandi læknisfræðilegum gögnum að hann hafi af völdum slyssins verið veikur í þeim skilningi, sem að framan greinir, á öðrum tímabilum en hér um ræðir. Hann getur því ekki krafið stefnda um greiðslu á frekari þjáningabótum en þeim samtals 96.569 krónum, sem hann hefur þegar fengið greiddar.

Með áðurnefndu uppgjöri 27. nóvember 1998 þáði áfrýjandi boð Tryggingamiðstöðvarinnar hf. um greiðslu á bótum að fjárhæð 662.700 krónur fyrir 15% varanlegan miska. Í skriflegu samkomulagi um þetta uppgjör var sem fyrr segir tekið sérstaklega fram að það fæli í sér lokauppgjör miskabóta úr ábyrgðartryggingu vegna slyssins 15. janúar 1996. Enginn fyrirvari var gerður af hálfu áfrýjanda þegar greiðsla samkvæmt uppgjörinu var innt af hendi. Áfrýjandi er því bundinn af þessu nema heimild í 11. gr. skaðabótalaga standi til að taka upp að nýju ákvörðun bóta fyrir varanlegan miska hans. Samkvæmt því ákvæði er það skilyrði fyrir slíkri endurupptöku að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsufari tjónþola þannig að ætla megi að miskastig sé verulega hærra en áður var talið. Stefndi hefur ekki vefengt þá niðurstöðu yfirmatsmanna að varanlegur miski áfrýjanda sé 20% eða 5% meira en lagt var til grundvallar í uppgjörinu 27. nóvember 1998. Slík breyting á miskastigi getur ekki talist veruleg í skilningi 11. gr. skaðabótalaga, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 27. febrúar 2003 í máli nr. 411/2002. Með því að heimild brestur samkvæmt þessu til að taka upp fyrri ákvörðun bóta til áfrýjanda fyrir varanlegan miska verður hafnað þeim lið í dómkröfu hans, sem að þessu lýtur.

Í útreikningi, sem áfrýjandi lagði fram í héraðsdómi til skýringar á kröfu sinni um bætur fyrir 25% varanlega örorku, kom fram að þar væru lagðar til grundvallar upplýsingar um tekjur nafngreinds manns, sem hafi gegnt starfi vélstjóra á fiskiskipi við veiðar á Flæmingjagrunni, á árunum 1996 til 1998. Á síðastnefnda árinu hafi þær tekjur numið 4.208.574 krónum, en umreiknuð með tilliti til launabreytinga fram til apríl 2002 svaraði sú fjárhæð til 5.484.118 króna. Að viðbættum 6% af henni vegna missis lífeyrisréttinda væru árstekjur 5.813.165 krónur, en 25% af þeirri fjárhæð væru 1.453.291 króna. Að teknu tilliti til margföldunarstuðulsins 7,5 samkvæmt 6. gr. skaðabótalaga, eins og hún hljóðaði á slysdegi, og að frádregnu 1% vegna aldurs áfrýjanda á þeim tíma, sbr. þágildandi 9. gr. skaðabótalaga, taldist tjón hans vegna varanlegrar örorku 10.790.687 krónur, en það er sú fjárhæð, sem hann krefst sem áður segir fyrir Hæstarétti úr hendi stefnda af þessum sökum.

Samkvæmt því, sem fram er komið í málinu, hefur áfrýjandi verið á vinnumarkaði allt frá því að hann lauk skólagöngu með grunnskólaprófi á árinu 1985. Á tímabilinu fram að ráðningu hans á skip stefnda 27. desember 1995 virðist hann af gögnum málsins að mestu hafa unnið við stjórnun og viðgerð vinnuvéla, en einnig að nokkru leyti við störf á fiskiskipum. Af þeim óverulegu upplýsingum, sem liggja fyrir um tekjur áfrýjanda síðustu árin fyrir slys hans og jafnframt á árinu 1996, verður ekki séð að teljandi munur hafi verið á heildartekjum hans eftir því hvaða störfum hann sinnti á hverjum tíma. Ekkert hefur komið fram um hvort áfrýjandi hafi leitað eftir framtíðarstarfi þegar hann gekk í þjónustu stefnda og enn síður hvort honum hafi þá eða hefði síðar staðið slíkt starf til boða. Áfrýjandi hafði sem áður segir ekki aflað sér menntunar til að starfa sem vélstjóri. Þegar af þessum sökum eru ekki efni til að beita ákvæði 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, eins og það hljóðaði á slysdegi, við útreikning á örorkutjóni áfrýjanda. Því til samræmis verður að miða fjárhæð kröfu hans um bætur fyrir varanlega örorku við heildarvinnutekjur hans á næstliðnu ári fyrir slysið, sbr. 1. mgr. síðastnefndrar lagagreinar.

Í málinu virðist óumdeilt að vinnutekjur áfrýjanda á árinu 1995 hafi alls verið 1.538.667 krónur, en ekki hefur sérstaklega verið aflað gagna um heildartekjur hans á síðasta árinu fyrir slysið 15. janúar 1996. Að viðbættum 6% vegna missis lífeyrisréttinda nemur þessi fjárhæð 1.630.987 krónum. Að teknu tilliti til örorkustigs áfrýjanda, áðurnefnds margföldunarstuðuls þágildandi 6. gr. skaðabótalaga og ákvæðis í 1. mgr. 9. gr. laganna um skerðingu örorkubóta vegna aldurs tjónþola telst tjón hans vegna varanlegrar örorku 3.027.519 krónur. Í héraðsdómsstefnu var krafa áfrýjanda um bætur fyrir varanlega örorku reiknuð út til samræmis við breytingar á lánskjaravísitölu frá slysdegi til nóvember 1999, sbr. 2. mgr. 15. gr. skaðabótalaga eins og hún hljóðaði fyrir gildistöku 11. gr. laga nr. 37/1999. Með sams konar útreikningi samsvaraði síðastnefnd fjárhæð 3.359.314 krónum á umræddum tíma. Upp í þá fjárhæð hefur áfrýjandi fengið greiddar 130.102 krónur með uppgjöri sínu við Tryggingamiðstöðina hf. 27. nóvember 1998, en að auki ber að draga frá henni greiðslu sama dag á 550.050 krónum úr slysatryggingu sjómanna, sbr. þágildandi 2. málslið 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Félagið greiddi síðan áfrýjanda 5. apríl 2000 bætur fyrir varanlega örorku að fjárhæð 3.770.408 krónur. Áfrýjandi hefur ekki sýnt fram á að heildarfjárhæð þessara greiðslna Tryggingamiðstöðvarinnar hf., 4.450.560 krónur auk vaxta, hrökkvi ekki fyrir bótum til hans fyrir varanlega örorku, áðurnefndum 3.359.314 krónum, þegar tillit hefur verið tekið til vaxta af þeirri fjárhæð.

Samkvæmt framangreindu verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu stefnda af kröfu áfrýjanda, svo og um málskostnað og gjafsóknarkostnað. Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. ágúst 2002.

Mál þetta sem dómtekið var föstudaginn 26. júlí sl. er höfðað með stefnu þingfestri 14. mars 2000.

Stefnandi er Ólafur Rúnar Þórarinsson, Torfufelli 28, Reykjavík.

Stefndi er Eri ehf, Síðumúla 34, Reykjavík.

Tryggingamiðstöðinni hf, Aðalstræti 6-8, Reykjavík, er stefnt til réttargæslu.

Stefnandi gerir þær kröfur aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 15.401.224 krónur ásamt 2% ársvöxtum frá 15. janúar 1996 til 6. nóvember 1998 en með hæstu dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum frá þeim degi til 1. júlí 2001 en með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Til vara er gerð sú krafa, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 12.704.799 krónur ásamt 2% ársvöxtum frá slysdegi þann 15. janúar 1996 til 12. nóvember 1999 en með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum frá þeim degi til 1. júlí 2001 en með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Frá dragist innborgun frá réttargæslustefnda 27. nóvember 1998 að fjárhæð  1.352.752 krónur og 4.444.211 krónur sem greiddar voru 5. apríl 2000.

Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar að skaðlausu að mati réttarins eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.

Ekki eru gerðar sjálfstæðar kröfur á hendur réttargæslustefnda, Tryggingamiðstöðinni hf., í máli þessu.

Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum dæmdur málskostnaður. Til vara er krafist stórfelldar lækkunar á kröfum stefnanda og málskostnaðar.

Af hálfu réttargæslustefnda eru engar kröfur gerðar.

MÁLSATVIK

Stefnandi kveðst hafa verið við störf sem vélstjóri á Ms Erik BA-204 þann 15 janúar 1996. Var hann í fyrstu veiðiferð sinni sem skipverji hjá stefnda sem gerði skipið út. Skipið var statt að rækjuveiðum á Flæmingjagrunni undan Nýfundnalandi. Stefnandi var sendur ásamt Óskari Björnssyni háseta yfir í Ms. Kan sem statt var þar rétt hjá til þess að sækja aðföng yfir í Ms. Erik. Þegar skipverjar komu til baka á bátnum varð það slys er báturinn sem þeir voru á var hífður um borð að hann fylltist af sjó og festingar slitnuðu með þeim afleiðingum að báturinn stakkst í sjóinn og þeir stefnandi féllu í sjóinn. Í skýrslu stefnanda hjá lögreglu 15. apríl 1997 sagði hann að hann hefði fallið niður með síðunni á skipinu, lent með hægri öxlina í síðunni og hafi tognað mikið á öxlinni, hún nærri farið úr liði. Hné hans hefði lent á síðunni og hnéskel brotnað og krossbönd slitnað. Þeir Óskar hefðu losnað frá bátnum og borist aftur með skipinu en skipstjóri hafi séð hvað gerðist og bakkað skipinu. Stefnandi var fluttur á land í Kanada og á sjúkrahús þar sem tekin var röntgenmynd af hægra hné. Í ljós kom að hægri hnéskel var brotin og var stefnandi settur í gips og síðan fluttur með flugvél til Íslands. Ekki er deilt um það í máli þessu að stefndi beri ábyrgð á slysinu en ágreiningur er um uppgjör bóta og umfang tjóns stefnanda.

Þann 25. janúar 1996 leitaði stefnandi á slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur (SHR). Stefnandi upplýsti þá að hann hefði þann 15. janúar 1996 fengið högg á hægri öxl og hægra hné. Tekin var röntgenmynd  af hægra hné stefnanda sem sýndi brot þvert yfir efsta hluta hnéskeljarinnar án hliðrunar. Stefnandi var settur í spelku um hægra hné. Þann 21. febrúar 1996 skoðaði Stefán Carlsson læknir stefnanda. Við þá skoðun var stefnandi með eymsli við  hreyfingar í hægri öxl um axlarhyrnu. Tekin var röntgenmynd af hægri öxl og segir í lýsingu Arnars Thorarensen röntgenlæknis: "Hægri öxl: Áverkamerki sjást ekki. Beingerð er eðlileg". Stefnandi fékk  bólgueyðandi sprautu í axlarhyrnubelg. Við eftirlit hjá Stefáni Carlssyni lækni þann 26. febrúar 1996 var að sjá á röntgenmynd að brotið á hnéskel á hægra hné var nánast gróið en stefnandi átti erfitt með að stýra fjórhöfða lærvöðvanum vegna rýrnunar. Fékk stefnandi þá sjúkraþjálfunarbeiðni. Stefnandi kom í sjúkraþjálfun til Sólveigar Steinþórsdóttur þann 26. febrúar 1996. Segir í vottorði hennar, dagsettu 30. júní 1997, að sjúkdómsgreining hafi verið brot á hægri hnéskel. Við skoðun þann dag var bólga í hægra hné og meiri óstöðugleiki en í vinstra hné svo og talsverð hreyfiskerðing. Einnig kvartaði stefnandi um verki og stirðleika í hægri öxl við ákveðnar hreyfingar. Lokaskoðun þann 19. mars 1996 leiddi í ljós lítil einkenni í öxl og hreyfiferill í hægra hné var nánast orðinn eins og í vinstra hné. Stöðuleiki í hægra hné var betri en við komu þann 26. febrúar 1996 en samt lélegri en í vinstra hné. Í vottorði Ásgeirs Kárasonar læknis, dagsettu 13. mars 1997, segir að við eftirlit á SHR þann 18. mars 1996 hafi stefnandi verið kominn með góðan hreyfiferil í hægra hné en verið með talsverð óþægindi yfir efri hluta hnéskeljar og óþægindi við fulla réttigetu yfir efri brún hægri hnéskeljar mótsvarandi vöðvasin. Einnig brak undir hnéskel við hreyfingar á henni. Talsvert los virtist vera á liðböndum við hliðarálag, bæði utan og innanvert á hægra hné og einnig talsverður slaki við fremra og aftara skúffupróf en ekki var að finna neinn verulegan mun milli hliða.

Stefnandi mætti til Stefáns Carlssonar þann 21. ágúst 1996. Stefnandi var þá með mest einkenni frá hægra hné og enn með talsverða rýrnun á fjórhöfða lærvöðvans en hreyfði eðlilega. Stefán taldi ástæðu til að stefnandi færi aftur til sjúkraþjálfara

Stefnandi hafði samband við Sólveigu Steinþórsdóttur sjúkraþjálfara þann 18. desember 1996 og sagðist þá vera slæmur í hægra hné af og til. Var stefnanda þá ráðlagt að hafa samband við Ágúst  Kárason lækni.

Þann 4. febrúar 1997 lýsir stefnandi óþægindum sínum sem kraftleysi og einnig að hann finni fyrir  talsvert miklum smellum við hreyfingar í hægra hné. Skoðun leiddi í ljós óþægindi við þreifingu í kringum hnéskel og nokkuð gróft brak undir hnéskelinni við hreyfingar á hnéskeljarlið. Það var góð  réttigeta og yfirrétta möguleg í hægra hnénu. Full beygigeta og ekki var að finna mun milli hliða en  talsvert útslag í hliðar- og krossböndum við álagspróf. Ummál 10 cm fyrir ofan hnéskel mældist hægri  lærvöðvi 43 cm á móti 47 cm vinstra megin. Kemur þetta fram í vottorði Ágeirs Kárasonar læknis frá 13. mars 1997.

Þann 18. apríl 1997 kom stefnandi til Sólveigar Steinþórsdóttur sjúkraþjálfara að því er fram kemur í áðurnefndu vottorði hennar. Sagðist hann þá illa geta beitt hægra hné, það gefi eftir og alltaf sé erfitt að beita lærvöðvanum (quadriceps) í þungberandi  stöðu. Við skoðun var hægra hné bólgið og eymsli umhverfis hnéskel og átti stefnandi erfitt með að  spenna lærvöðvann. Þá skírði stefnandi svo frá að undanfarið hafi hann einnig fundið meira til í hægri öxl.

Stefnandi kom í skoðun til Stefáns Carlssonar þann 7. maí 1997 vegna einkenna frá hálsi og axlarsvæði. Þá hafði hann tveimur vikum áður verið eitthvað að snúa sig og teygja og fundið þá eitthvað bresta hægra megin í hálsi. Tekin var röntgenmynd og segir í lýsingu Kristjáns Sigurjónssonar röntgenlæknis: "Hægra viðbein og samanburðarmyndir vinstra megin: Sjúklegar  breytingar greinast ekki og það eru ekki merki um los í axlarhyrnulið. Sjúklegar breytingar greinast ekki í mjúkpörtum".

Í bréfi Ásgeirs Kárasonar læknis til Tryggingaráðs, dagsettu 29.janúar, segir að við skoðun þann 13. janúar 1998 hafi komið fram að stefnandi var slæmur í hægri öxl. Hann beið þá eftir að komast í segulómun til að kanna ástand axlarinnar. Þá kom fram varðandi hægra hné stefnanda að ummálið 10 cm fyrir ofan hægra hné mældist 45,5 cm á móti 47 cm fyrir ofan vinstra hné. Þá var stefnandi með veruleg óþægindi við efri brún á hægri hnéskel og við hreyfingu í patello femoral liðnum var hann með crepitationer sem bentu á brjóskeyðingu sem staðfestist með segulómun þann 28. nóvember 1997. Sömuleiðis sáust reactivar breytingar á quadriceps-festunni ofan á hægri hnéskel. Álit Ágústar Kárasonar var að stefnandi væri með kronisk tognunareinkenni í hægri öxl sem óljóst væri á því stigi hvort hægt væri að bæta svo og veruleg patello-óþægindi sem komi í veg fyrir að beita hægra hné við álag.

Þann 16. febrúar 1998 greiddi réttargæslustefnda stefnanda þjáningabætur fyrir tímabilið frá slysdegi  til 26. mars 1996, samtals kr. 54.749.

Þann 11. maí 1998 var gerð aðgerð á hægri öxl stefnanda. Í kjölfarið lagaðist stefnandi verulega í öxlinni.

Þann 5. júní 1998 var gerð liðspeglunaraðgerð á báðum hnjám stefnanda. Segir í álitsgerð örorkunefndar, dags. 6. október 1998, að fyrir aðgerðina hafi stefnandi verið með dálítið los í báðum hnjám, eða 2. gráðu los við 30 gráðu beygju og valgus-álag. Við speglun á hægra hné kom fram merki um brotið á hnéskelinni og voru þaðan fjarlægðar dálitlar brjósktægjur en ekki var að sjá slit í liðnum  milli sköflungs og lærleggs og liðþófar voru heilir. Í vinstra hnénu sást skemmd undir miðju brjóski á innanverðri hnéskel, sprungur með stjörnulaga formi og voru þaðan fjarlægðir lausir brjóskbitar. Ekki  kom fram skemmd í liðnum milli sköflungs og lærleggs, liðþófar voru heilir og ekki sá áverkamerki á  krossböndum.

Í viðtali og skoðun hjá Magnúsi Ólasyni lækni þ. 8. september 1998 er haft eftir stefnanda að hann hafi í kjölfar slyssins verið með stöðug óþægindi í báðum hnjám auk þreytuóþæginda í hægri öxl og hafi þetta orðið þess valdandi að hann hætti á sjó haustið 1996.

Í álitsgerð örorkunefndar, dagsettri 6. október 1998, segir að eftir l. júlí 1998 hafi stefnandi ekki getað vænst frekari bata af afleiðingum slyssins frá 15. janúar 1996 og að miski og varanleg fjárhagsleg örorka sé 15%.

Með bréfi dags. 6. nóvember 1998 sendi lögmaður stefnanda réttargæslustefndu kröfubréf ásamt útreikningi frá Jóni Erlingi Þorlákssyni tryggingafræðingi. Í kröfubréfi var vísað til útreiknings Jóns Erlings.

Með bréfi dags. 16. nóvember 1998 gerði réttargæslustefnda tillögu að uppgjöri bóta úr slysatryggingu sjómanna og skaðabóta úr ábyrgðartryggingu stefnda vegna slyss stefnanda.

Stefndi kveður samkomulag hafa náðast um uppgjör á grundvelli þeirra þátta álitsgerðarinnar sem óumdeildir voru, þ.e. greiða miskabætur úr ábyrgðartyggingu og bætur úr slysatryggingu sjómanna. Uppgjörið fór fram þann 27. nóvember 1998.

Þann 14. maí 1999 greiddi réttargæslustefnda stefnanda kr. 498.570,00 í bætur fyrir tímabundið atvinnutjón. Til grundvallar uppgjöri lá álitsgerð örorkunefndar, dags. 6. október 1998.

Í vottorði frá Ágústi Kárasyni, dags. 29. júní 1999, segir að í kjölfar liðspeglunarinnar þann 5. júní 1998 hafi stefnandi fundið stöðugt meira til í kringum hægra hné og vaxandi óþægindi hafi einnig verið komin fram í vinstra hné. Stefnandi leitaði til Ágústar Kárasonar þann 16. mars 1999 og svo aftur þann 24. júní 1999. Við skoðun kom í ljós veruleg rýrnun á lærvöðva. Ummál var 45 cm 10 cm fyrir ofan hægra hné en 46 cm fyrir ofan vinstra hné. Stefnandi gekk stirðlega og nánast hálf haltur og stakk við bæði í hægri og vinstri ganglim. Þá var stefnandi með áberandi yfirréttu í hnjánum. Við þreifingu voru veruleg eymsli í kringum hnéskeljar báðum megin, þó minna í kringum vinstra hné. Báðar hnéskeljar voru fremur hástæðar. Síðan segir m.a. í vottorði Ágústar: "Það er alveg ljóst að Ólafur fékk brot á hnéskelina hægra megin við slysið en það er einnig alveg ljóst að hann hefur auðveldlega getað fengið áverka á vinstra hné með þeim hætti sem að ofan greinir og aðra áverka svo sem tognun á liðböndum".

Með bréf dags. 21. júlí 1999 óskaði lögmaður stefnanda eftir því að örorkunefndin endurmæti miska og varanlega fjárhagslega örorku stefnanda vegna slyssins þann 15. janúar 1996. Í viðtali og skoðun hjá Magnúsi Ólasyni þann 13. september 1999 segist stefnandi telja að er hann lamdist utan í skipið þann 15. janúar 1996 hafi hann fengi áverka á bæði hné. Með bréfi dags. 30. september 1999 tilkynnti örorkunefnd réttargæslustefndu um beiðni lögmanns stefnanda.

Í viðbótarálitsgerð örorkunefndar, dagsettri 26. október 1999, kemst nefndin að þeirri niðurstöðu að miski stefnanda sé 20% og varanleg fjárhagsleg örorka 33%.

Lögmaður stefnanda sendi réttargæslustefndu kröfubréf, dags. 22. nóvember 1999. Með kröfubréfinu fylgdi tjónaútreikningur Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings, dags. 12. nóvember 1999.

Í bréfi dags. 19. janúar 2000 setur Ágúst Kárason fram þá skoðun sína að í eldri læknisfræðilegum gögnum um stefnanda sé ekki að finna sambærilega áverka og þá sem hann telur stefnanda hafa orðið fyrir í slysinu þann 15. janúar 1996.

Þann 5. apríl 2000 greiddi réttargæslustefnda skaðbætur til stefnanda á grundvelli tillögu sinnar, dags. 26. janúar 2000, samtals 4.444.211 krónur.

Að beiðni stefnda kvaddi dómari læknana Halldór Jónsson og Jón Ingvar Ragnarsson þann 22. maí 2000 til þess að meta og láta í ljós skriflegt og rökstutt álit á eftirfarandi:

1)       Hvort orsakatengsl séu á milli áverka á vinstra hné stefnanda og slyssins 15. janúar 1996.

2)       Ef niðurstaða hinna dómkvöddu mann verður sú að ekki séu orsakatengsl milli áverka á vinstra hné stefnanda og slyssins þann 15. janúar 1996, óskar matsbeiðandi einnig eftir áliti á eftirfarandi:

2-1) Hver sé miski stefnanda vegna slyssins metinn með hliðsjón af 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

2-2) Hver sé varanleg fjárhagsleg örorka stefnanda vegna slyssins metin með hliðsjón af 5.-7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

 

Í matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna, dagsettri 26. janúar 2001, segir m.a:

Hugleiðingar matsmanna og niðurstöður.

1.

Aðalatriði máls þessa eru þau að Ólafur lenti í vinnuslysi til sjós þann 15. janúar 1996. Hann sat þá á afturhluta gúmmíbáts sem verið var að hífa um borð í rækjuveiðiskip sem hann vann á, þegar upphengifestingar slitnuðu að framan. Þar sem núverandi frásögn hans, lögregluskýrslu og öðrum málsgögnum ber ekki saman er óvíst hvað skeði síðan. Fram kemur m.a. að hann hafi hangið einhvern tíma með handleggi krækta um afturvírana og þá sérstaklega haldið sér með hægri hendi og handlegg í festingarnar. Einnig kemur fram að hann hafi slegist nokkrum sinnum utan í bátinn með hægri hlið og öxl áður en hann datt í sjóinn af sársauka eða að festingarnar slitnuðu endanlega. Ekki kemur fram í hvaða líkamsstellingu hann lenti í sjónum. Hann var í flotbúningi og mun hafa flotið aftur með skipinu þar sem það var á togi og kveðst hafa sogast undir kjöl bátsins sem síðan hafi lamið hann nokkrum sinnum í veltingnum eða þar til skipstjórinn bakkaði skipinu og skolaði honum undan því. Að endingu var hann hífður um borð og kveðst þá hafa slegist utan í skipshliðina.

Um borð í bátnum gekk Ólafur að eigin sögn studdur undir dekk.

Hann segir bæði hné hafa verið sársaukafull og bólgin og einnig var hann afllaus í hægri handlegg. Hann reyndi að vinna en gat það ekki vegna sársauka í hæ hné. Hann fékk bólgueyðandi lyf. Bólgan í vi hné hjaðnaði fljótt en ekki hægra megin. Hann gat einnig stigið í vi fót en ekki hægri.

Í læknisskoðun á Nýfundnalandi var bara hægra hné skoðað og rannsakað og síðan sett í stuðningsumbúðir. Ólafur var sendur heim í venjulegu farþegaflugi og fór daginn eftir á Slysadeildina. Við skoðun þar var bólga og þreifieymsli yfir hægri hnéskel. Rtg. mynd sýndi óbreytta legu brots sem lá þvert yfir efsta hluta hnéskeljarinnar án hliðrunar. Hann var þá settur í spelku sem leyfði hreyfingar um hnéð og fimm vikna meðferð ákveðin.

Eins og fram kemur í fyrirliggjandi vottorðum meðferðarlækna voru kvartanir Ólafs þegar frá leið viðvarandi verkir og bólga í hæ hné og 2 árum síðar (aðgerðarlýsing Ágústar Kárasonar dags. 5. júní 1998 og síðar í vottorði hans til T.R. 10. mars 1999) einnig í vinstra hné. Einnig hreyfisársauki og stirðleiki í hæ öxl. Segulómrannsókn á hæ hné 28.11.97 sýndi óreglu í femoro-patellar brjóski. Segulómrannsókn á hæ öxl 03.02.98 sýndi trosnun í sin ofankambsvöðva (supraspinatus).

Vegna viðvarandi óþæginda og óljósrar ástæðu þess að einkenni gengu ekki yfir var gerð liðspeglun á hægri öxl 11.05.98 og síðan á báðum hnjám 05.06.98. Við liðspeglun á hæ öxl var unnt að staðfesta þykknun og einhvers konar örvefsbreytingu í sin ofankambsvöðva við axlarhyrnubelginn. Í þessari aðgerð var rýmkað um sinina með því að fræsa neðan af axlarhyrnunni og þessi örvefsbreyting rökuð. Við liðspeglun á hnjám var unnt að staðfesta óreglu í femoro-patellar brjóski á brotstað í hægra hné og stjörnulaga sprungur á miðjum liðfleti í vinstra hné.

Þar sem óþægindin voru samkvæmt meðferðarlækni talin afleiðing brots á hægra hné og tognunar á hægri öxl var Ólafur strax settur í mjög virka sjúkraþjálfun. Hann lagaðist nokkuð fljótt í öxlinni . Hann kvaðst þreytast við mikið álag og fékk þá einnig verk upp í hnakka og höfuð. Hins vegar lagaðist hann ekkert í hægra hné og fékk einnig svipuð einkenni í vinstra hné.

Ólafur reyndi eftir þetta fyrir sér við ýmis störf bæði til sjós og lands, í landi fyrst og fremst á traktorsgröfum. Hann náði slíkri leikni á gröfunni að hann varð Evrópumeistari í erlendri keppni í október 1998.

Einnig þessi vinna reyndist honum um megn og hann hætti henni alveg.

Eftir þetta hefur hann aðeins sinnt íhlaupavinnu á gröfum og við bílaviðgerðir fyrir vini og kunningja og reynt fyrir sér við lagerstörf.

Ólafur segir ástand sitt hafa verið óbreytt frá því í júlí 1998.

2.

Ólafur lenti í öðru vinnuslysi með vinstri baugfingur þann 10. mars 1997, sem hann gat ekki um í viðtali við matsmenn. Hann var þá sem Baader maður um borð í Ólafi Jónssyni GK 404 hjá Haraldi Böðvarssyni hf. Samkvæmt læknisvottorði mun hann hafa orðið vinnufær frá og með 5. júlí sama ár.

3.

Í viðtali okkar og skoðun á Ólafi getum við staðfest að hann hafi hlotið eftirfarandi líkamlegar afleiðingar slyssins þann 15. janúar 1996:

1) Brot á hægri hnéskel

2) Tognun og/eða höggáverki á hægri öxl

Í viðtalinu kveðst Ólafur hafa viðvarandi verk í báðum hnjám sem versnar við minnsta álag; einnig bólgna hnén þá upp. Hann segir bólguna hafa komið strax við slysið, en verkir í vinstra hné hafi ekki gert strax vart við sig, ekki fyrr en hann fór að reyna á það of mikið til að hlífa hægra hnénu. Einnig er stirðleiki í hæ öxl sem breytist í verk við minnsta álag og leiðir upp í hnakka og höfuð.

Miðað við það atvik sem Ólafur lenti í og þau einkenni sem staðfestust strax við fyrstu skoðun teljum við sjúkdómsgang og núverandi einkenni í hnjám dæmigerð fyrir versnun á undirliggjandi forskaða sem liggur annars vegar í ofhreyfanleika í hnéliðunum (kemur einnig fram í fótum) og hins vegar vegna veiklunar í liðbrjóski á hnéskeljum, svokölluð chondromalacia patellae (sbr. skoðun á heilsugæslu 15.05.92). Þá er þess að geta að brjóskbreyting sú sem lýst er við liðspeglun á vi hné er einkennandi að útliti og staðsetningu fyrir svokallaða brjóskmeiru (chondromalacia patellae) en ekki afleyðing áverka. Þannig getum við aðeins staðfest brot í hægri hnéskel sem beinlínis afleiðingu þess slyss sem hér um ræðir. Þetta staðfestist síðan við skoðun okkar þar sem finna má í báðum hnjám ofurhreyfanleika í öllum liðum, hástæða hnéskel, aukinn liðvökva og liðbrak með sársauka í hnéskeljar-lærbeins liðum.

Þá teljum við að einkenni þau sem komu strax fram í hægri öxl og sem lýst er nú séu dæmigerð fyrir höggáverka og/eða tognun á öxlinni. Þetta staðfestist við skoðun okkar á hægri öxl þar sem kemur fram vægt minnkuð hreyfigeta í axlarliðnum, sársauki í lok hvers hreyfiferils og eymsli yfir sinafestum.

4.

Okkur er falið að svara eftirfarandi spurningum:

1) Hvort orsakatengsl séu á milli áverka á vinstra hné stefnanda og slyssins þann 15. janúar 1996. Ef orsakartengsl séu ekki fyrir hendi, þá óskast svarað hver sé miski stefnanda vegna slyssins metinn með hliðsjón af 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Matsmenn telja að það hafi ekki orðið áverki á vinstra hné stefnanda við slysið þann 15. janúar 1996.

Við mat á miska Ólafs vegna slyssins með hliðsjón af 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 ber að hafa í huga að læknisfræðilegt mat miðast við sjúkdómseinkenni sjúklings, starfsemi líffærakerfa og stoðkerfis, auk þess sem tekið er tillit til andlegra þátta. Með hliðsjón af því sem nú hefur verið rakið, læknisfræðilegum gögnum málsins og læknisskoðun okkar teljum við að við vinnuslysið þann 15. janúar 1996 hafi Ólafur þannig ekki hlotið áverka á vinstra hné en fyrri sjúkdómur  hafi tekið sig upp í kjölfarið vegna aukins álags við að hlífa hægra hnénu. Við teljum því að brotið á hægri hnéskel og tognun á hægri öxl valdi honum varanlegum miska sem samsvarar 15% varanlegri líkamlegri örorku. Við teljum að aðrir áverkar eða sjúkdómar hafi ekki áhrif á niðurstöðu okkar.

5.

Þar sem matsmenn telja að það hafi ekki orðið áverki á vinstra hné stefnanda við slysið þann 15. janúar 1996, er þeim einnig falið að svara hver sé varanleg fjárhagsleg örorka stefnanda vegna slyssins metin með hliðsjón af 5. -7. gr skaðabótalaga nr. 50/1993.

Ólafur var rúmlega tuttugu og sex ára þegar slysið varð. Hann hefur ekki lokið neinu sérnámi, en unnið fyrst og fremst við vélgæslu og vélaviðgerðir. Umrædd sjóferð var sú fyrsta sinnar tegundar í lífi hans hvað varðar lengri útiveru og mjög líkamlega krefjandi vinnu. Hins vegar er ljóst að miklar tekjur voru í vændum, sem Ólafur varð af vegna slyssins.

Ólafur gerði nokkrar tilraunir til að annars vegar komast aftur til fyrri starfa og síðar í skurðgröfustarf sem einnig var vel launað. Hann hafði aldrei fyrir umrætt óhapp unnið svipað erfið störf til þess að geta talað um reynslu á slíku sviði. Matsmenn telja að ekki sé hægt að leggja það beinlínis til grundvallar við spá um framtíðar vinnugetu. Ólafi hefur ítrekað verið bent á að leita sér að léttari vinnu og einnig að afla sér meiri menntunar og viðurkenningu á sviði vélgæslu. Þar sem hann hefur ekki sinnt því á neinn hátt er ekki unnt að sýna fram á að Ólafur hafi á þann hátt reynt að leggja minna á sig og takmarka þannig líkamstjón sitt. Matsmenn telja hins vegar að hann eigi að njóta vafans um að geta stundað vel launuð störf innan kunnáttusvið síns, en þó þannig að hann muni í framtíðinni þurfa að takmarka að einhverju leiti við sig auka- og yfirvinnu.

Við teljum í ljósi framangreinds réttmætt að meta fjárhagslega örorku Ólafs að meðaltali 15%.

VII

Niðurstaða í stuttu máli.

Við teljum að Ólafur hafi ekki hlotið áverka á vinstra hné við vinnuslys þann 15. janúar 1996.

Við teljum hæfilegt að meta varanlegan miska Ólafs vegna vinnuslyss þann 15. janúar 1996, 15%.

Við teljum hæfilegt að meta varanlega örorku Ólafs vegna vinnuslyss þann 15. janúar 1996, 15%.

Við teljum að engin önnur slys eða sjúkdómar hafa áhrif á niðurstöðu okkar.

 

Með beiðni dagsettri 8. október 2001 óskaði lögmaður stefnanda eftir því að dómkvaddir yrðu menn til að framkvæma yfirmat og voru læknarnir Gísli Einarson, Júlíus Valsson og Stefán Yngvason dómkvaddir í þinghaldi 17. október sl. til að meta yfirmati varanlegan miska og örorku stefnanda. Í matsgerð þeirra, dagsettri 19. mars sl., segir m.a:

 

7. Núverandi einkenni og vinnugeta matsbeiðanda

 

Hvað varðar áframhaldandi og núverandi einkenni sín, segist matsbeiðanda frá með eftirfarandi hætti á matsfundi þann 30.01.02:

 

Matsbeiðandi kveðst hafa verið mjög bólginn og illa haldinn í báðum hnjám í fyrstunni eftir slysið en þó miklum mun verri í hægra hné. Verkir þessi koma alltaf öðru hvoru en eru þó einnig nægilega viðvarandi til að hann kveðst stöðugt þurfa á verkjalyfjum að halda. Getur verkurinn komið í bæði hné í einu en einnig einungis í annað hnéð í einu. Þetta "fer eftir álagi". Er einna verstur eftir meira álag en vant er og hann segist þá einnig finna fyrir "losi og óstöðugleika í hnjánum". Allt umfram "eðlilega hreyfingu" veldur óþægindum að áliti matsbeiðanda. Hann tekur sérstaklega fram að vont sé að ganga niður á við. Fer ógjarnan í lengri gönguferðir, fær þá verki og bólgur og fyrrnefnd einkenni fylgja síðan alltaf slíku álagi. Fær hitatilfinningu við að krjúpa. Gengur samt vel að gera við vélar og bíla ef hann fær að standa nokkuð uppréttur. Er sérlega stirður á morgnana og þá oft meir en eina klukkustund á vetrum en styttri tíma þegar hlýrra er á sumrum. Aðspurður kveðst matsbeiðandi alls ekki geta gert "allt sem ég kann" vegna einkenna sinna.

Kveðst oft fá minni háttar einkenni í öxlina en það sé þó verulega minna truflandi en hnén, sér í lagi hægra hnéð. Segist hann gjarna fá "tak" í brjóstkassann og er hann fann meir fyrir þessu nú nýlega en endranær varð það til þess að Ágúst Kárason, læknir matsbeiðanda, sá ástæðu til að senda hann í röntgenmyndatöku og komu þá í ljós gömul rifbrot, aftantil í rifjum hægra megin, sem hann mun hafa fengið við slysið.

Þegar matsbeiðandi er beðinn að setja fram einkenni sín og takmarkanir af þeirra sökum eftir því í hvaða röð þau trufla hann segir hann verkjavandann í hnjám afdráttarlaust númer eitt.

Í öðru sæti setur hann óþægindi í hægri öxl sem oftar en ekki leiðir af sér verki og óþægindi út í herðar og upp í háls. Endi þetta oft með illvígum hálsríg og "dúndrandi höfuðverk".

Í þriðja sæti telur matsbeiðandi hinn andlega þátt sem slysinu hefur fylgt. Skiptir hann þessum þætti í tvennt, annars vegar "skerðing til framkvæmda" og hins vegar andleg vanlíðan sem hann telur stafa af hinni erfiðu lífsreynslu sem slysið hafi verið. Kveðst hann ekki fyrr en nýlega hafa gert sér grein fyrir hversu djúpstæð áhrif lífsháski hans hafi haft á hann og einnig að hann hefði þurft að leita sér hjálpar hjá fagmanni mun fyrr vegna þessa.

Hann er um þessar mundir hjá sálfræðingi vegna þessara einkenna (Þórunni Finnsdóttur), segir það gagnast sér prýðilega en að hann sé "með allt niður um mig andlega".

Þrátt fyrir að axlarverkstengdur höfuðverkur sé í öðru sæti einkenna hjá matsbeiðanda segist hann þó ekki fá verri einkenni af neinu en af blöndu höfuð- og hálsverkjar.

Kveðst hann þá geta orðið svo alverkja að sér finnist eins og hann sé að verða "vitstola". Matsbeiðandi segir höfuðverkinn geta farið í 10 á verkjaskala 1-10 en að hnén fari þó aldrei nema í 7 á sambærilegum skala. Bestu líðan sína hvað verki áhrærir telur matsþoli vera 2 á skala 1-10 og þetta hefur þær afleiðingar að hann verður stöðugt að taka verkjalyf. Við vinnu kveðst matsbeiðandi oftast ekki vera slæmur í hægri öxlinni sjálfri heldur hafi hann einhvers konar verk innanvert á herðablaðinu hægra megin og leiði verkinn svo upp með herðablaðinu.

 

8. Læknisskoðun

Matsbeiðandi er um það bil í meðallagi hár, grannur og virðist vel á sig kominn almennt. Flestar hreyfingar virðast sársaukalausar eða a.m.k. áreynslulitlar, þó virðist hann almennt stirður á gangi, er þó ekki haltur. Hann gengur dálítið gleiðspora eins og hann sé eilítið óstöðugur. Afklæddur og í standandi stöðu stendur matsbeiðandi eðlilega, hann hefur ekki augljósar stöðuskekkjur, og er merkilega vel á sig kominn líkamlega miðað við verkjasögu hans.

Við framsveigju nær matsbeiðandi með fingurgómum í gólf, hann reigir höfuð eðlilega en er stirður og sár að eigin sögn við þá hreyfingu. Framsveigja höfuðs takmarkast við að höku vantar tvær fingurbreiddir til að ná niður á efsta hluta brjóstbeins. Snúningur höfuðs til hægri er 50° en 70° til vinstri. Vangavelta er um 20° til hægri og 40° til vinstri, fremri hálsvöðvar eru allir eðlilegir átöku. Svo er einnig með hnakkavöðvana og festur þeirra í hnakkabein sem eru ekki aumar.

Vöðvar hægri axlargrindar og herðavöðvar þeim megin eru aumir átöku og viss eymsli eru einnig til staðar yfir vöðvafestum hægri axlargrindar. Svo er ekki vinstra megin. Efri festur stóra brjóstvöðva hægra megin eru aumar og við hreyfingar brakar í hægri öxl en ekki í vinstri. Axlahreyfingar eru allar eðlilegar báðum megin.

Við skoðun á hnjám matsbeiðanda kemur í ljós að báða hnéliði má auðveldlega yfirstrekkja við skoðun og nemur sú hreyfing um 10° í báðum hnjám.

Mæling ummáls læra við liðglufu hnéliða, 10 cm ofan liðglufu og 15 cm ofan liðglufu leiðir í ljós mjög óverulegan mun, þó er ummálið um liðglufu og 15 cm ofan hennar ívið meira hægra megin, munar hálfum cm en annars er það hið sama.

Ummál hægri kálfa 15 cm neðan liðglufu er hálfum cm minna hægra megin. Ekki er að finna vökva í hnjám, þrota eða bólgumerki, hins vegar eru þau eilítið heitari viðkomu en vefirnir í kring. Svo kölluð fremri skúffuhreyfing kemur fram hægra megin við hnéskoðun, báðar hnéskeljar eru nokkuð hástæðar og eymsli eru til staðar báðum megin við átöku (merki um brjóskmeyru). Sömu próf og hægra megin eru einnig jákvæð vinstra megin og virðist því svipað los vera á báðum hnéliðum. Sinaviðbrögð eru eðlileg báðum megin.

Þar sem tilefni og gögn málsins, saga matsbeiðanda eða kvartanir hans gefa ekki tilefni til gruns um sjúkdóma eða afleiðingar skaddana í öðrum hlutum stoðkerfis en að framan er greint frá, eru þeir hlutar þess ekki skoðaðir sérstaklega. Ekki koma á matsfundi eða við almenna skoðun fram nein einkenni um sjúkdóma eða skaddanir í öðrum líffærakerfum, og eru þau því ekki skoðuð sérstaklega.

 

9. Athugun á vinnuframlagi og tekjum matsþola

Fyrir liggja afrit af skattframtölum matsbeiðanda vegna tekjuáranna 1994 tom 2000. Í þessum gögnum kemur fram að vinnuframlag matsþola á þessum tímabilum var sem hér segir:

                                               

Tekjur vegna         Atvinnu-                Bóta- eða                                                                                               Tekjusk.

Tekjuár                   Launatekjur           eigin rekstar          leysisbætur           lífeyris-                   stofn

                                                                                                                greiðslur               

1994                        481.416                   869.120                   74.922                     0                              1.425.458

1995                        1.538.667                0                              36.993                     0                              1.516.615

1996                        1.949.941                0                              0                              0                              1.884.219

1997                        2.107.689                159.520                   0                              0                              2.560.202

1998                        2.523.207                0                              0                              86.933                     2.509.212

1999                        557.051                   0                              0                              498.570                   1.268.152

                                                                                                                212.531  

2000                        0                              0                              0                              4.444.211               

 

10. Niðurstaða um miska matsbeiðanda

Yfirmatsmenn telja að matsbeiðandi hafi í sjóvinnuslysinu þann 15. janúar 1996 hlotið eftirfarandi:

1.         Tognunaráverki á hægri öxl með trosnun á ofankambssin og axlarhyrnuheilkenni.

2.         Höggáverka á bæði hné, með broti í hægri hnéskel.

3.         Síðbúin geðræn einkenni um áfallastreitu

Við athugun gagna málsins eru frásagnir af því sem nákvæmlega gerðist er slysið átti sér stað ekki fyllilega samhljóða, t.d varðandi það hvort matsbeiðandi hafi slasast er verið var að hífa hann úr sjónum. Yfirmatsmenn telja þetta ósamræmi minniháttar og það hafi ekki áhrif á niðurstöðu matsins. Óvéfengjanlegt sé hins vegar að matsbeiðandi hafi lent í mikilli lífshættu, bæði meðan hann hékk utan á skipinu og eins er hann var í sjónum. Gögn málsins og frásögn matsbeiðanda styðja þá niðurstöðu um áverka sem getið er í upphafi kaflans. Yfirmatsmenn telja að matsbeiðandi hafi orðið fyrir áverkum á bæði hné, sitjandi á planka með utanborðsmótor í tveimur vírum í veltingi úti á rúmsjó. Við slíkar aðstæður sé mjög sennilegt að högg hafi komið bæði á hægra og vinstra hné hans. Sennilegast hefur hægri hnéskel brotnað við þessar aðstæður. Frásögn matsbeiðanda af því að bæði hné hafi bólgnað er í sjálfu sér trúverðug, sem og að líklegt sé að hafi hann haft óþægindi frá vinstra hné frá slysdegi, hafi athygli ekki beinst að því vegna brotsins á hægri hnéskel. Það vekur hins vegar furðu matsmanna hið mikla ósamræmi í frásögn matsbeiðanda hvað þetta varðar og þær upplýsingar sem læknar og sjúkraþjálfari hans hafa skráð. Þar koma fyrstu upplýsingar um óþægindi í vinstra hné fram í aðgerðarlýsingu Ágústar Kárasonar læknis er hann speglaði bæði hné matsbeiðanda þann 5. júní 1998, eða hartnær 2 1/2 ári eftir slysið í janúar 1996. Ítrekað er lýst hægra hné og þeirri rýrnun sem átti sér stað á lærvöðvum ofan hægra hnés og þá borið saman við mælingar á vinstra hné eins og venja er í slíkum mælingum. Vinstra hné hefur því ítrekað verið skoðað að þessu leyti á þessu tiltekna tímabili, án þess að framangreindir heilbrigðisstarfsmenn hafi séð ástæðu til að skrá það sérstaklega. Slíkt þýðir oftast að skoðun hafi verið eðlileg. Telja yfirmatsmenn líklegast að matsbeiðandi hafi bólgnað tímabundið en telja ekki nægilega sannað að um varanlegt tjón hafi verið að ræða á vinstra hné vegna áverka á það.

Staðfest er að matsbeiðandi hefur svokallaða brjóskmeyru í báðum hnjám. Þess er getið í skoðun Magnúsar Páls Albertssonar í maí 1992 og er álit yfirmatsmanna samhljóða þeirri greiningu, eftir skoðun á matsbeiðanda og mati á gögnum málsins. Viss ofhreyfanleiki er einnig til staðar í báðum hnjám sem telja verður meðfæddan. Þessi atriði gera matsbeiðanda líklegri en ella til að hljóta langvarandi mein af áverkum á hnjáliði en annars. Jafnframt er þekkt að brjóskmeyra ein og sér getur valdið miklum óþægindum í hnjáliðum og snemmkomnum slitbreytingum í liðfletinum milli hnéskeljar og lærbeins. Fyrri áverki sem leiddi til framangreindrar skoðunar 1992, telst ekki líklegur sem orsakavaldur að núverandi verkjaástandi. Hvað verki í hægra hné varðar má telja að þar eigi mestan þátt brot á hnéskel í lið með brjóskmeyru. Sú helti sem af því stafaði er líkleg til að valda álagi á vinstra hné sem illa var í stakk búið til að taka við því álagi vegna brjóskmeyru. Yfirmatsmenn telja að þannig sé fyrst og fremst um óbeinar afleiðingar að ræða í vinstra hné.

Við mat á varanlegum miska, samkvæmt 4. grein skaðabótalaganna, skal einnig litið til þess hvers eðlis og hversu miklar afleiðingar tjóns eru frá læknisfræðilegu sjónarmiði, svo og til erfiðleika sem það veldur í lífi tjónþola. Hin læknisfræðilegu sjónarmið hafa komið fram hér að framan.

Yfirmatsmenn telja einnig að matsbeiðandi hafi verið tryggður í því ástandi sem hann var í er hann slasaðist, það er að segja með veikleika þann í báðum hnjám sem áður hefur verið lýst. Jafnframt verður að telja, með tilliti til fyrri sjúkrasögu, að í reynd hafi matsbeiðandi haft nokkur óþægindi í báðum hnjám, sem meta megi til miska þegar horft er til heildarmiska matsbeiðanda vegna hnjáliða hans. Yfirmatsmenn telja hæfilegt að áætla miska vegna beggja hnjáliða 15%, þar af 5% vegna fyrra heilsufars og 10% vegna slyssins 15. janúar 1996.

Mat á axlaráverka matsbeiðanda hefur ekki verið ágreiningsefni. Yfirmatsmenn telja að hér sé um minniháttar afleiðingar að ræða vegna trosnunar á sin ofankambsvöðva og s.k. axlarhyrnuheilkennis og að gott samræmi sé í lýsingu áverkans, sögu matsbeiðanda, skráningar og læknisskoðunar nú. Miski vegna þessa telst hæfilega metinn 5%.

Matsbeiðandi hefur átt við talsverð andleg vandkvæði að stríða í kjölfar slyssins. Ljóst er að hann lenti í mikilli lífshættu og að hann átti í geðrænum erfiðleikum eftir þetta, sem annars vegar má rekja beint til þessarar lífsreynslu, en einnig til þeirra félagslegu aðstæðna sem hann hefur búið við undanfarin ár. Í gögnum um matsbeiðanda frá heimilislækni hans kemur fram að hann leitaði þangað tvívegis á árinu 1997 vegna geðrænna einkenna og fékk hann aðstoð með lyfjameðferð. Þá hefur einnig komið fram að hann er nú í meðferð hjá sálfræðingi vegna þess sama. Yfirmatsmenn telja að einkenni hans séu þannig vaxin að ekki verði framhjá þeim horft við mat á afleiðingum slyssins þann 15. janúar 1996. Telja yfirmatsmenn að þátt slyssins í geðrænum vandkvæðum matsbeiðanda sé hæfilegt að meta til miska sem svarar 5%.

 

11. Niðurstaða um örorku matsbeiðanda

Matsbeiðandi var 26 ára er hann slasaðist þann 15. janúar 1996 en er nú 32 ára. Hann á stutta skólagöngu að baki en góða þjálfun og leikni í meðferð vinnuvéla. Sé litið til möguleika hans til starfa á almennum vinnumarkaði og sjálfstæðs atvinnurekstrar, þá takmarkast starfsval hans af heilsufarslegum ástæðum annars vegar og hins vegar af takmarkaðri menntun og atvinnureynslu, sem að mestu hefur verið tengd vélum og þungavinnutækjum.

Það sem mælir gegn áhrifum slyssins á örorku matsbeiðanda er umtalsverð atvinnuþátttaka hans og hækkandi tekjur allt til ársins 1999. Það má hins vegar meta það svo að matsbeiðandi hafi verið mjög ósérhlífinn og skyldurækinn við störf sín, meðal annars vegna ábyrgðar hans sem aðalframfæranda stórrar fjölskyldu. Hann hafi síðan gefist upp á þeim störfum sem honum buðust, þegar einkenni hans ágerðust og að hann upplifði vinnuframlag sitt sem ófullnægjandi inn á kröfuharðan vinnumarkað sem þá var í mikilli þenslu. Vaxandi andleg vanlíðan á vafalítið sinn þátt í þessari þróun að mati yfirmatsmanna.

Þegar atvinnusaga matsbeiðanda er skoðuð kemur fram að er hann slasaðist var í sinni fyrstu veiðiferð með Erik BA 204. Jafnframt kom fram að hann leit ekki á störf til sjós sem sinn framtíðarvettvang heldur tímabundna tekjuöflunarleið til að fá fjárhagslegt svigrúm til að verða sér út um menntun á sviði vélfræði. Þannig telja yfirmatsmenn að ekki sé hægt að horfa til starfa á sjó eingöngu þegar meta á aflahæfi matsbeiðanda. Einnig að telja verði ósannað að matsbeiðandi hefði farið í það starfsnám sem hann hafði hugsað sér, þó hann hefði ekki slasast. Jafnframt kemur fram að atvinnuþátttaka hans fyrstu árin eftir slysið er það mikil að setja verður spurningarmerki við að hve miklu leyti slysið þann 15. janúar 1996 hefur haft áhrif á starfsgetu hans til líkamlega þungra starfa. Fingurslys síðar truflar atvinnusögu hans um tíma og síðan virðist draga úr starfsgetu hans um það leyti sem hann fór í speglun á báðum hnjám í júní 1998.

Yfirmatsmenn telja að starfsorka matsbeiðanda sé skert vegna slyssins 15. janúar 1996. Jafnframt telja þeir að til staðar sé umtalsverð starfsgeta til starfa sem henta honum betur en líkamlega erfið störf eingöngu. Yfirmatsmenn vilja fremur horfa á starfa á almennum vinnumarkaði með þeim takmörkunum sem heilsufar hans nú gefur tilefni til, þ.e. minnkuð geta til líkamlega erfiðra starfa og langra vinnulota. Starfsorka matsbeiðanda er þannig skert og geta hans til að vinna yfirvinnu þar með. Á hinn bóginn má gera ráð fyrir að yfirvinna hans hefði minnkað með árunum sökum aldurs og batnandi fjárhagsstöðu ef marka má hina almennu tilhneigingu á vinnumarkaði. Einnig má gera ráð fyrir því að afleiðingar slyssins valdi því að starfsævi matsbeiðanda hefði orðið styttri en ella.

Með hliðsjón af þessu og þeim sjónarmiðum sem hér hafa fram komið telja matsmenn líklegt að fjárhagstjón matsbeiðanda sé nokkru meira en miski hans einn og sér spáir fyrir um. Telja matsmenn örorku matsbeiðanda af völdum völdum slyssins hæfilega metna 25%.

 

12. Niðurstaða í stuttu máli

1. Yfirmatsmenn telja miska matsbeiðanda, Ólafs R. Þórarinssonar, vegna slyssins 15. janúar 1996, hæfilega metinn 20% - tuttugu af hundraði.

2. Yfirmatsmenn telja örorku matsbeiðanda, Ólafs R. Þórarinssonar, vegna slyssins 15. janúar 1996, hæfilega metna 25% - tuttugu og fimm af hundraði.

 

Stefnandi hefur lagt fram örorkutjónsútreikning Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings frá 12. nóvember 1999 þar sem tjón stefnanda er reiknað út og byggt á tekjum Sigurðar G. Kristinssonar árin 1996-1998, sem stefnandi segir hafa gegnt sama starfi og hann gerði fyrir slysið, þ.e. verið vélstjóri á togara  á Flæmska hattinum svonefnda. Er miðað við viðbótarmat örorkunefndar á varanlegri örorku og miska stefnanda og að stefnandi hafi verið rúmliggjandi í 10 daga og veikur en á fótum í 888 daga. Er niðurstaða tryggingafræðingsins sú að tjón stefnanda vegna varanlegrar örorku sé 11.313.380 krónur, þjáningabætur samtals séu 738.046 krónur, varanlegur miski 930.408 krónur, eða samtals 12.981.835 krónur. Þá krefst stefnandi þess að bætur úr slysatryggingu sjómanna verði ákvarðaðar 2.419.890 krónur. Samanlagt gera þessar fjárhæðir 15.401.724 krónur sem er aðalkrafa stefnanda.

Þá hefur stefnandi lagt fram örorkutjónsútreikning Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings frá 29 apríl sl. þar sem tjón stefnanda er reiknað út og byggt á tekjum Sigurðar G. Kristinssonar árin 1996-1998, sem stefnandi segir hafa gegnt sama starfi og hann gerði fyrir slysið, þ.e. verið vélstjóri á togara  á Flæmska hattinum svonefnda. Er miðað við mat yfirmatsmanna á varanlegri örorku og miska stefnanda og að stefnandi hafi verið rúmliggjandi í 10 daga og veikur en á fótum í 888 daga. Er niðurstaða tryggingafræðingsins sú að tjón stefnanda vegna varanlegrar örorku sé 10.790.687 krónur, þjáningabætur samtals séu 846.713 krónur, varanlegur miski 1.067.398 krónur, eða samtals 12.704.799 krónur, sem er varakrafa stefnanda.

 

MÁLSÁSTÆÐUR

Stefnandi byggir á því að hann hafi orðið fyrir tjóni í kjölfar slyss þess er hann varð fyrir 15. janúar 1996. Bótaskylda stefnda sé óumdeild og fyrir liggi gögn til þess að unnt sé að gera upp tjón stefnanda. Ber stefnandi viðbótarmat örorkunefndar, þar sem nefndin mat varanlegan miska hans 20% og varanlega örorku 33%, fyrir sig. Er því haldið fram að hann við ákvörðun bóta vegna varanlegs miska beri að fara að reglu 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga en hann hafi verið að hefja starf sem vélstjóri er hann varð fyrir slysinu. Hafi hann því látið reikna út örorkutjón sitt eins og lýst er hér að framan, þ.e. miða við tekjur manns í sambærilegu starfi þar sem tekjur hans næstliðið ár fyrir slys hafi verið mun lægri en vænta hefði mátt hefði hann ekki orðið fyrir slysinu. Þá beri honum þjáningabætur fyrir 10 daga rúmlegu og veikindi í 888 daga. Stefnandi byggir aðalkröfu sína á því viðbótarmati örorkunefndar að varanleg örorka hans sé 33%, en enginn ágreiningur sé um bótaskyldu stefnda. Greiðsla sem stefnandi hafi fengið frá réttargæslustefnda úr slysatrygginu sjómanna og ábyrgðartryggingu stefnda 27. nóvember 1998 að fjárhæð samtals 1.352.752 krónur hafi engan veginn verið fullnaðargreiðsla heldur einungis innágreiðsla og að fenginni þeirri niðurstöðu í viðbótarmati örorkunefndar, að varanlegur miski stefnanda væri 20% og varanleg örorka 33%, hafi verið ljóst að honum bæru frekari greiðslur úr slysatryggingu og ábyrgðartryggingu auk þess sem varanleg örorka stefnanda væri mun meiri en miðað hefði verið við. Enda þótt réttargæslustefndi hefði greitt 4.444.211 krónur til stefnanda 5. apríl 2000 hafi hann ekki fengið tjón sitt bætt þar eð tekjur þær sem við væri miðað af réttargæslustefnda væru alltof lágar og miða hefði átt við tekjur fyrir sambærileg störf sem væru mun hærri en stefnandi hefði haft áður en hann réðst til stefnda.

Varakrafa stefnanda er byggð á mati yfirmatsmanna og við flutning málsins kom fram að stefnandi byggir einnig á örorkutjónsútreikningi þar sem miðað er við að varanleg örorka stefnanda sé 25% og miðað er við laun kunningja stefnanda sem  á árunum 1996-1998 sem hann kveður hafa verið vélstjóra á Erik BA.

Stefnandi vísar til skaðabótalaga nr. 50/1993 einkum I. kafla sbr. l. 42/1996. Stefnandi vísar sérstaklega til 7. gr. 2. mgr. skaðabótalaga varðandi aðalkröfu. Einnig er vísað til 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985 með áorðnum breytingum.

Stefnandi vísar til laga nr. 91/1991 varðandi málskostnað.

Krafa um dráttarvexti og vaxtavexti er studd við III. kafla laga nr. 25/1987 ásamt síðari breytingum og lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Kröfu um virðisaukaskatt á tildæmdan málskostnað styður stefnandi við l. nr. 50/1988 um virðisaukaskatt en stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og beri því nauðsyn til þess að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.

Aðalkrafa stefnda er sú að sýkna beri hann af öllum kröfum stefnanda. Hvað skaðabætur úr ábyrgðartryggingu stefnda varði sé sýknukrafan byggð á þeim grundvelli að stefnandi hafi þegar fengið tjón sitt að fullu bætt. Eftirtaldar skaðabótagreiðslur hafi verið inntar af hendi úr ábyrgðartryggingu stefnda vegna slyss stefnanda:

1. Tímabundið atvinnutjón                                                                                 kr.            498.570                   2. Þjáningabætur                                                                                                  kr.            96.569

3. Miskabætur                                                                                                       kr.            662.700

4. Varanleg fjárhagsleg örorka                                                                           kr.            3.770.408

5. Vextir skv. 16. gr. skbl.                                                                                     kr.            363.276

6. Lögmannsþóknun til lögmanns stefnanda                                                  kr.            268,707

7. Greiðsla á lögmannsþóknun til

lögmannsstofu Gylfa Thorlacius hrl.                                                               kr.            130.102

 

Heildargreiðsla úr ábyrgðartryggingu                                                              kr.            5.790. 332

 

Hvað bætur úr slysatryggingu sjómanna varði byggi sýknukrafa stefnda í fyrsta lagi á aðildarskorti og í öðru lagi á að stefnandi hafi þegar fengið fullar bætur úr slysatryggingunni.

1. Þjáningabætur

Fram komi í frum- og viðbótarálitsgerðum örorkunefndar að eftir 1. júlí 1998 hafi ekki verið að vænta frekari bata stefnanda í skilningi skaðabótalaga nr. 50/1993, þ.e.a.s. svokallaður stöðugleikatímapunktur miðist við þann dag. Kröfugerð stefnanda miðist við að stefnandi hafi verið veikur í skilningi 3. gr. skaðabótalaga í 898 daga og veikur og rúmliggjandi í 10 daga. Stefndi telur þessa kröfugerð hvorki eiga stoð í gögnum málsins né í 3. gr. skaðabótalaga. Mat örorkunefndar á stöðugleikatímapunkti hafi ekki sjálfstætt gildi hér. Stefnandi teljist aðeins veikur í skilningi 3. gr. skaðabótalaga þá daga sem hann hafi verið óvinnufær. Eftir slysið þann 15. janúar hafi stefnandi verið óvinnufær til 26.mars 1996 en hafið aftur störf um borð í Erik BA-204 daginn eftir. Þann 11 maí 1998 hafi verið gerð aðgerð á hægri öxl stefnanda og 5 júní 1998 hafi verið gerð liðspeglunaraðgerð á báðum hnjám stefnanda. Stefnandi hafi verið óvinnufær tímabilið frá 11. maí til 30. júní 1998, en örorkunefnd rniði stöðugleikatímapunkt við þann dag. Þann 5. maí 2000 hafi stefndi greitt stefnanda 41.820 krónur í þjáningabætur vegna þessa tímabils. Stefndi telji gögn málsins sanna að ef frá séu talin þau tímabil sem hér hafi verið nefnd hafi stefnandi ekki verið óvinnufær á tímabilinu frá slysdegi til 1. júlí 1998 af völdum slyssins frá 15. janúar 1996. Stefndi telur því stefnandi hafa fengið þær þjáningabætur sem honum beri samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og því beri að sýkna stefnda af þessum kröfulið stefnanda.

2. Miskabætur

Þann 27. nóvember 1998 hafi stefnandi fengið greiddar 662.700 krónur í miskabætur. Uppgörið hafi verið byggt á 15% miskamati örorkunefndar í álitsgerð dagsettri 6. október 1998. Aðilar hafi verið sammála um að uppgjörið fæli í sér fullnaðar- og lokauppgjör miskabóta enda ekki ágreiningur milli aðila um að leggja 15% miskamat örorkunefndar til grundvallar uppgjöri. Stefndi telji því að miskabótakrafa stefnanda hljóti að byggja á því að uppfyllt séu skilyrði um endurupptöku á grundvelli 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þau skilyrði séu ekki uppfyllt enda megi ljóst vera af gögnum málsins að hækkun örorkunefndar á miska stefnanda úr 15 í 20% hafi byggt á þeirri forsendu að ástand stefnanda væri verra en nefndin hefði áður talið, þ.e. að heilsufar stefnanda hafi versnað, en ekki að orðið hafi ófyrirsjáanleg breyting á heilsufari hans. Þá telji stefndi að jafnvel þótt dómurinn kæmist að þeirri niðurstöðu að skilyrði 11. gr. skaðabótalaga væru uppfyllt, sé mat örorkunefndar ekki í samræmi við gögn málsins.

3. Varanleg fjárhagsleg örorka

Kröfugerð stefnanda í aðalkröfu um bætur fyrir varanlega fjárhagslega örorku sé í andstöðu við reglur skaðabótalaga nr. 50/1993 um útreikning bóta fyrir varanlega fjárhagslega örorku. Stefndi hafi slasast þann 15. janúar 1996. Í 1. mgr. 7. gr., samanber 6. gr. skaðabótalaga, komi fram að rneginregla laganna sé sú að leggja beri tekjur tjónþola síðustu 12 mánuði fyrir slys til grundvallar útreikningi á bótum fyrir varanlega fjárhagslega örorku. Ekki liggi nákvæmlega fyrir í málinu hverjar tekjur stefnanda hafi verið síðustu 12 mánuðina fyrir slysið. Í dómsskjali nr. 39 komi fram að tekjur stefnanda árið 1995 hafi verið 1.538.667. Hér sé nánast um að ræða tekjur síðustu 12 mánuðina fyrir slysið. Þetta hafi því verið þær tekjur að viðbættu 6% í framlagi í lífeyrissjóð sem réttargæslustefnda hafi lagt til grundvallar í tillögum sínum að uppgjöri dags. 16. nóvember 1998 og 26. janúar 2000 og sem bótagreiðslur til stefnanda þann 5. maí 2000 hafi byggst á. Í 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga sé að finna undantekningarreglu þar sem fram komi að við óvenjulegar aðstæður skuli meta árslaun sérstaklega. Í lögskýringargögnum komi fram að meginregla 1. mgr. 7. gr. eigi fyrst og fremst við um launþega en að 2. mgr. myndi t.d. beitt um sjálfstætt starfandi atvinnurekendur eða aðra sem hafi sveiflukenndar tekjur. Það verði þó að telja að undantekningarreglan  geti átt við um tjónþola hvort heldur hann er sjálfstætt starfandi eða launþegi ef tekjur hans síðustu 12 mánuði séu verulega frábrugðnar tekjulegri stöðu hans á slysdegi. Undir engum kringumstæðum verði undantekningarreglu 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga beitt með þeim hætti sem stefnandi gerir í aðalkröfu, þ.e. að reikna bætur fyrir varanlega fjárhagslega örorku út frá tekjum einhvers annars en stefnanda og miða við tekjuárið 1998. Í fyrsta lagi sé hér miðað við tekjur á tímabili löngu eftir að stefnandi slasast. Í öðru lagi sé miðað við tekjur annars en stefnanda, þ.e. manns sem sagður er hafa verið vélstjóri á öðrum togara á Flæmska hattinum en stefnandi var skipverji á er hann slasaðist. Í gögnum málsins komi fram að er stefndi slasaðist þann 15. janúar 1996 hafi hann gegnt stöðu háseta um borð.

4. Bætur úr slysatryggingu sjómanna

Í málinu er Eri ehf. stefnt en Tryggingamiðstöðinni hf. er stefnt til réttargæslu en ekki gerðar sjálfstæðar kröfur á hendur félaginu. Eri ehf. keypti slysatryggingu sjómanna hjá réttargæslustefndu fyrir áhöfnina á Erik fyrir vátryggingatímabilið 1. janúar til 31. desember 1996 á grundvelli lagaskyldu samkvæmt 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Kröfu um bætur úr slysatryggingu sjómanna beri því að beina að réttargæslustefndu en ekki stefnda. Varðandi þann þátt málsins sem snerti bætur úr slysatryggingu sjómanna hefði stefnandi því átt að stefna réttargæslustefndu en ekki stefnda og því krefst stefndi þess að verða sýknaður af þessum kröfulið sökum aðildarskorts. Ef ekki verði fallist á sýknukröfu vegna aðildarskorts telur stefndi engu að síður að sýkna beri af kröfu stefnanda þar sem fullnaðarbótagreiðsla hafi þegrar farið fram en réttargæslustefnda hafi greitt stefnanda 550.050 krónur í örorkubætur úr slysatryggingu sjómanna og 9.900 krónur í vexti 27. nóvember 1998. Hafi aðilar verið sammála um að greiðslan, sem byggði á 15% miskamati örorkunefndar í álitsgerð hennar frá 6. október 1998, hafi falið í sér fullnaðar- og lokauppgjör bóta úr slysatryggingu sjómanna. Þá er því haldið fram af stefnda að hækkun sú sem varð í viðbótarmati örorkunefndar og enn fremur mat yfirmatsmanna, þar sem fram kemur það mat þeirra að varanlegur miski stefnanda sé 20%, réttlæti ekki endurupptöku. Sömu rök og að framan greini um að skilyrði 11. gr. skaðabótalaga séu ekki fyrir hendi í máli þessu eigi við hér enda komi fram í lögskýringargögnum að skilyrði um endurupptöku samkvæmt reglunni séu í samræmi við almennar reglur fjármunaréttar. Ekki komi til greina að reikna örorkubætur úr slysatryggingu sjómanna samkvæmt mati örorkunefndar á varanlegri fjárhagslegri örorku eins og gert sé í stefnu. Slysatrygging sjómanna sé summutrygging þar sem bætur miðist við læknisfræðilega örorku (miska) og séu örorkubætur þær sömu til allra sem hljóti sömu læknisfræðilega örorku, óháð stöðu þeirra eða tekjum. Þá fái stefndi ekki séð á hvaða gögnum stefnandi byggi kröfu sína um 2.419.890 krónur í örorkubætur úr slysatryggingu sjómanna vegna 33% varanlegrar fjárhagslegrar örorku. Örorkubætur úr slysatryggingu sjómanna beri að reikna út frá þeim bótaupphæðum sem í gildi hafi verið á slysdegi. Þó svo að stefndi telji ekki forsendur til að miða útreikning örorkubóta úr slysatryggingu sjómanna við 33% í varanlega fjárhagslega örorku bendir stefndi á að þær bætur gætu aldrei orðið hærri en kr. 1.503.390.

Með vísan til þess sem að framan er sagt telur stefndi að sýkna beri af vaxtakröfu stefnanda. Þá sé ekki lagaheimild til að reikna vexti samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga á örorkubætur úr slysatryggingu sjómanna eins og gerð er krafa um í stefnu.

Stefndi mótmælir dráttarvaxtakröfu stefnanda og telur að hér eigi að greiða vexti skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 ef um áfellisdóm verði að ræða.

Til vara krefst stefndi lækkunar á dómkröfum stefnanda.

Stefndi vísar til umfjöllunar um aðalkröfu sem jafnframt beri að líta á sem rök fyrir varakröfu hans um lækkun krafna stefnanda. Í varakröfu stefnanda virðist á þvi byggt að reikna beri bætur fyrir varanlega fjárhagslega örorku út frá þeim tekjum sem stefnandi hafði tímabilið 1. janúar til 20. nóvember 1996 framreiknaðar á ársgrundvelli. Síðan sé í stefnu vísað í útreikning Jóns Erlings Þorlákssonar en þar sé að finna útreikning á tjóni vegna varanlegrar fjárhagslegrar örorku stefnanda sem byggi á launum félaga hans árið 1998. Stefndi telur að ekki séu fyrir hendi lagalegar forsendur til að miða útreikning á skaðabótum fyrir varanlega fjárhagslega örorku á tekjum stefnanda árið 1996. Hér vísar stefndi fyrst til þess sem sagt var hér að framan um 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga í umfjöllun um bætur fyrir varanlega fjárhagslega örorku í aðalkröfu. Telur stefndi að aðeins ef það teljist sannað að á slysdegi hafi vinnutekjur stefnanda verið varanlega breyttar frá því sem var á árinu 1995 komi til greina að miða við tekjur tjónþola á slysdegi í stað þess að miða við tekjur síðustu 12 mánaða fyrir slys eins og meginregla 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga geri ráð fyrir. Þetta skilyrði sé ekki uppfyllt í tilfelli stefnanda. Í fyrsta lagi hafi stefnandi aðeins unnið hjá stefnda í u.þ.b. 3 vikur er hann slasaðist þann 15. janúar 1996. Í öðru lagi telji stefndi ósannað að stefnandi hafi þann 15. janúar 1996 verið búinn að taka þá ákvörðun að leggja fyrir sig sjómennsku enda hefði hann lítið fengist við störf á sjó fyrir slysið eða aðeins af og til frá 19 ára aldri. Í þriðja lagi beri að líta til þess að upplýsingar um vinnutilhögun stefnanda 3 síðustu árin fyrir slysið. Árið 1993 hafi hann fengið greiddar skattskyldar tekjur frá tveimur launagreiðendum auk atvinnuleysisbóta, samtals 936.693 krónur fyrir utan atvinnuleysisbætur. Árið 1994 hafi stefnandi fengið greiddar skattskyldar tekjur frá tveimur launagreiðendum auk atvinnuleysisbóta og reiknaðs endurgjalds vegna eigin vinnu og hreinna tekna af eigin atvinnurekstri, samtals 1.350.536 krónur fyrir utan atvinnuleysisbætur og árið 1995 hafi stefnandi fengið greiddar skattskyldar tekjur frá fjórum launagreiðendum auk atvinnuleysisbóta, samtals 1.538.667 krónur fyrir utan atvinnuleysisbætur. Loks hafi stefnandi hætt í vinnu hjá stefnda þann 20. nóvember 1996. Í gögnum málsins komi ekki annað fram en að hann hafi þá verið vinnufær bæði til sjómennsku og annarra starfa. Þá bendir stefndi á að þótt dómurinn teldi að byggja ætti útreikning bóta fyrir varanlega fjárhagslega örorku stefnanda á tekjulegri stöðu hans á tjónsdegi á grundvelli 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga hafi tekjur stefnanda árið 1996 samtals numið 1.949.941 krónu. Þegar horft sé til þess að stefnandi hafi verið vinnufær er hann hætti störfum hjá stefnda þann 20. nóvember 1996 og að árin 1993 til 1995 fékk stefnandi greiddar atvinnuleysisbætur, telur stefndi að ekki komi til greina að byggja útreikning bóta fyrir varanlega fjárhagslega örorku stefnanda á hærri upphæð en 1.949.941 krónu auk 6% framlags í lífeyrissjóð, eða samtals 2.066.937 krónur.

 

NIÐURSTAÐA

Ákvæði 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga hefur verið skýrt svo af dómstólum að bætur skuli einungis greiddar ef sýnt er fram á að tjónþoli sé veikur og ekki vinnufær. Í máli þessu kemur fram að stefnandi var að störfum á tímabilinu frá slysi fram til þess tíma er örorkunefnd taldi að ekki væri frekari bata að vænta þótt ekki hafi það verið samfellt. Kemur fram í gögnum málsins að stefnandi var óvinnufær frá slysdegi til 26. mars 1996 og aftur frá 11. maí til 30. júní 1998. Ekki liggja fyrir gögn um veikindi eða óvinnufærni stefnanda að öðru leyti á greindu tímabili. Réttargæslustefndi greiddi stefnanda 54.749 krónur þar af 2.209 krónur í vexti 16. febrúar 1998 og  5. apríl 2000 greiddi réttargæslustefndi honum 39.270 krónur eða samtals krónur  94.019. Ekki er sýnt fram á það hér að stefnandi eigi rétt til frekari þjáningabóta en hann hefur þegar fengið greiddar.

Þann 27. nóvember 1998 fékk stefnandi greiddar 662.700 krónur í miskabætur úr ábyrgðartrygginu stefnda frá réttargæslustefnda. Á þeim tíma lá fyrir mat örorkunefndar, dagsett 6. október 1998, á varanlegum miska stefnanda sem þar var metinn 15%. Segir m.a. í álitsgerð nefndarinnar að hún telji ekki að afleiðingar slyssins hafi verið þess háttar að stefnandi yrði þeirra vegna að hætta á sjó. Í viðbótarálitsgerð nefndarinnar frá 26. október 1999 segir að afleiðingar slyssins hafi orðið verulega meiri en lagt hafi verið til grundvallar niðurstöðu í álitsgerð nefndarinnar frá 6. október 1998 og að þess vegna bæri að leggja mat á gögn málsins að nýju og taldi nefndin varanlegan miska stefnanda hæfilega metinn 20%. Vottorð læknanna Áskels Karlssonar og Stefáns Karlssonar sem lágu fyrir er greiðslan 27. nóvember fór fram gefa ekki tilefni til að ætla að stefnandi hefði getað vænst þess að miski hans yrði meiri en þá var talið og telur dómurinn að efnisleg skilyrði þess að endurmat á varanlegum miska stefnanda skv. 11. gr. skaðabótalaga séu fyrir hendi. Eins og kröfugerð er fram sett þykir mega vera ljóst að stefnandi reisir kröfugerð sína á þeirri forsendu að efni séu til þess að endurupptaka ákvörðun um bætur enda þótt málatilbúnaður að þessu leyti hefði getað verið gleggri af hans hálfu. Í matsgerð yfirmatsmanna er komist að þeirri niðurstöðu að varanlegur miski stefnanda sé 20% og með matsgerðinni sannað að varanlegur miski stefnanda vegna slyssins 15. janúar 1996 sé 20%. Samkvæmt því er tjón stefnanda vegna varanlegs miska 1.073.248 krónur, þ.e. 800.000 x 4403/3282, sbr. 15. og 29. gr. skaðabótalaga.

Um varanlega örorku stefnanda er það að segja að samkvæmt yfirmati er hún 25% og verður sú niðurstaða matsmanna lögð til grundvallar hér. Samkvæmt ákvæði 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga eins og það var á slysdegi skulu árslaun teljast vera heildarvinnutekjur tjónþola á næstliðnu ári fyrir þann dag er tjón varð. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. eins og hún var á slysdegi skulu árslaun þó metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi, t.d. breytingar á tekjum eða atvinnuhögum. Stefnandi ber fyrir sig þetta ákvæði og hefur látið reikna örorkutjón sitt miðað við tekjur kunningja síns árin 1996-1998 sem hann kvað hafa gegnt sama starfi og stefnandi er sá síðarnefndi slasaðist. Enn fremur miðar hann í kröfugerð sinni við viðbótarmatmat örorkunefndar sem taldi örorku stefnanda 33%. Stefnandi var 26 ára gamall er hann slasaðist og hafði aðallega starfað við vélgröfur síðustu 6-7 árin fyrir slys. Verður að miða við að nokkur reynsla hafi verið komin á tekjuöflun hans er slysið varð. Þykir ekki sýnt fram á það hér að atvinnuhagir stefnanda hafi á slysdegi tekið það miklum breytingum að regla 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga eigi við. Samkvæmt skattframtali stefnanda árið 1996 voru tekjur hans á árinu 1995 1.538.667 krónur sem er því næst sama tímabil og síðustu 12 mánuðir fyrir slys en það varð 15. janúar 1996. Þegar tekið hefur verið tillit til framlags vinnuveitanda til lífeyrissjóðs er tjón stefnanda vegna varanlegrar örorku 3.914.191,05 krónur (1.538.667 + 6% x 7,5 x 4403/3440). Til frádráttar koma 39.142 krónur, sbr. 9. gr. skaðabótalaga, greiðsla að fjárhæð 916.750 úr slysatryggingu sjómanna samkvæmt því sem hér á eftir segir og greidd lögmannslaun 130.102 krónur, eða samtals  1.046.852 krónur, og standa þá eftir 2.867.339 krónur.

Samkvæmt 1. mgr. 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985 ber útgerðarmaður ábyrgð á kröfum vegna lífs- eða líkamstjóns þeirra sem ráðnir eru í skiprúm hjá honum hafi slys borið að höndum er hlutaðeigandi var staddur á skipi eða vann í beinum tengslum við rekstur skips enda þótt slysið eða tjónið verði ekki rakið til bilunar á tækjum eða ónógra öryggisráðstafana né heldur yfirsjónar þeirra er starfa í þágu skips. Samkvæmt 2. mgr. 172. gr. siglingalaga er útgerðarmanni skylt að kaupa tryggingu fyrir dánarbótum og slysabótum er á hann kunna að falla skv. 1. mgr. Réttur stefnanda til bóta byggist á ákvæði 1. mgr. 172. gr. siglingalaga og er því Eri ehf. réttilega stefnt. Stefndi hefur keypt tryggingu hjá réttargæslustefnda eins og honum er skylt, sbr. 2. mgr. 172. gr. siglingalaga. Með  vísan til þess sem segir um varanlegan miska stefnanda þykja skilyrði vera fyrir hendi til þess að endurmeta örorku stefnanda. Samkvæmt skilmálum þeim sem um tryggingu þessa gilda skal fjárhæð slysabóta reiknuð út frá þeim bótaupphæðum sem í gildi eru á slysdegi. Námu þær 36.670 krónum fyrir hvert örorkustig á bilinu 1% - til 25% á slysdegi. Við úrlausn þessa verður byggt á matsgerð yfirmatsmanna um varanlega örorku stefnanda en samkvæmt henni er hún 25% vegna slyss þess er hann varð fyrir 15. janúar 1996. Hér þarf að leysa úr því hvort um sé að ræða læknisfræðilega örorku, sem jafnan var miðað við fyrir gildistöku skaðabótalaga við uppgjör bóta fyrir varanlega örorku, eða varanlega örorku samkvæmt 5. gr. nefndra laga,  en sú grein lýtur að fjárhagslegri örorku, sem leysti hina læknisfræðilegu örorku af hólmi sem viðmiðun fyrir uppgjör skaðabóta vegna tjónsatvika sem urðu eftir 1. júlí 1993. Hugtakið varanleg örorka hefur nú fengið lögákveðna merkingu, sem er fjárhagsleg örorka. Því mati er ekki einungis beitt við uppgjör skaðabótakrafna, heldur ýmis konar krafna um vátryggingabætur. Dómurinn telur að af hinu breytta lagaumhverfi  leiði að við mat á örorku verði miðað við varanlega örorku eins og hún er metin samkvæmt 5. gr. skaðabótalaga. Mat yfirmatsmanna á því hver sé varanleg örorka stefnanda verður lagt til grundvallar hér og samkvæmt því skulu bætur til stefnanda úr slysatryggingu sjómanna nema samtals 916.750 krónum (25 x 36.670).

Samkvæmt framansögðu er tjón stefnanda vegna slyss hans samtals 4.951.356 krónur og eru þá bætur úr slysatryggingu sjómanna taldar með.

Réttargæslustefndi hefur greitt stefnanda samtals 5.796.963 krónur sem taka ber tillit til og með því að sú fjárhæð er hærri en nemur tjóni stefnanda að teknu tilliti til vaxta sem reiknist samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 50/1987 frá 15. janúar 1996 til 1. júlí 2001 en skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til dómsuppsögudags en dráttarvextir skv. III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags. Verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnanda en málskostnaður á milli aðila falli niður.

Stefnandi hefur fengið gjafsókn í máli þessu og greiðist allur málskostnaður hans úr ríkissjóði þar á meðal málflutningsþóknun lögmanns hans, 350.000 krónur.

                Í stefnu segir að ljóst sé að fulltrúi réttargæslustefnda hafi reynt að hagnýta sér þá stöðu stefnanda, að hann væri í fjárhagslegum vandræðum og íbúð hans sætti nauðungarsölumeðferð, til þess að þvinga fram bersýnilega ósanngjarnt fjárhagslegt uppgjör bóta. Ummæli þessi eru vítaverð, en ekki þykja alveg nægjanleg efni til að gera lögmanni stefnanda sekt vegna þeirra eins og krafist er í greinargerð stefnda.

Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ

                Stefndi, Eri ehf., er sýkn af öllum kröfum stefnanda, Ólafs Þórarinssonar.

                Málskostnaður á milli aðila fellur niður.

                Gjafsóknarkostnaður stefnanda þar á meðal málflutningsþóknun lögmanns hans, 350.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.