Hæstiréttur íslands
Mál nr. 14/2006
Lykilorð
- Landamerki
|
|
Fimmtudaginn 26. október 2006. |
|
Nr. 14/2006. |
Kristján Hafsteinn Leifsson Kristjana Leifsdóttir Ólína Gunnlaugsdóttir Elín Guðrún Gunnlaugsdóttir Kristján Gunnlaugsson Þorvarður Gunnlaugsson Vera Roth og Ólafur Magnússon (Sigurður Jónsson hrl. Jón Höskuldsson hdl.) gegn Björgu Pétursdóttur (Karl Axelsson hrl.) Guðjón Ægir Sigurjónsson hdl.) og gagnsök |
Landamerki.
Deilt var um landamerki jarðanna Akra, Bárðarbúðar og Melabúðar annars vegar og Gíslabæjar hins vegar á Snæfellsnesi. Talið var að dómur um merki jarðanna yrði reistur á fyrirliggjandi landamerkjalýsingum frá 1885 og 1887, en þeim bar saman um að mörkin milli jarðanna lægju um þrjá merkjasteina og var staðsetning þeirra óumdeild. Af lýsingu landamerkja varð ekki annað ráðið en um væri að ræða beina línu á milli merkjasteinanna og hafði engin skýring fengist á því hvers vegna K o.fl. kröfðust lykkju á þeirri leið. Í kröfugerð þeirra var jafnframt miðað við að merki lægju frá síðasta steininum að Svarðartjörn en ekki var talið að stoð væri fyrir því í landamerkjalýsingum. B krafðist þess að merkin við Króarfjöru lægju í punkt við leifar mannvirkis við Heimstutjörn, en fyrir lá matsgerð dómkvadds manns og álit fornleifafræðings, sem aflað hafði verið í héraði, um þær. Hvorki var talið að í landamerkjalýsingum né eldri heimildum væri rætt um mannvirki eins og lýst var í matsgerðinni og álitinu. Komist var að þeirri niðurstöðu að landamerki lægju í snösina við Króarfjöru í samræmi við kröfugerð K o.fl. og var í því sambandi meðal annars vísað til uppdráttar fyrrum eiganda Gíslabæjar fyrir Örnefnastofnun og framburðar sonar hans fyrir dómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 6. janúar 2006. Þau krefjast þess að dæmt verði að landamerki milli jarðanna Akra, Bárðarbúðar og Melabúðar annars vegar og Gíslabæjar hins vegar liggi frá punkti á sjávarbakka við Eiríkshlein með hnitin X 279166 og Y 480092 í punkt í gömlum túngarði við Efritröð með hnitin X 279067 og Y 480054, þaðan í punkt í sama túngarði með hnitin X 279038 og Y 480063, þaðan í punkt í sama túngarði með hnitin X 279042 og Y 480045, þaðan í punkt við Svarðartjörn með hnitin X 278782 og Y 479919 og þaðan í punkt við Króarfjöru með hnitin X 278609 og Y 479018. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. mars 2006. Hún krefst þess að dæmt verði að landamerki fyrrgreindra jarða liggi frá punkti á sjávarbakka við Eiríkshlein, með sömu hnit og áður er getið, í punkt í gömlum túngarði milli Stóruflatar að ofan og Melabúðartraðar að neðan með hnitin X 279042 og Y 480045 og þaðan í punkt í grjótgarði fram á bökkum fyrir austan Króarfjöru með hnitin X 278763 og Y479028, en til vara í punkt með hnitin X 278699 og Y479026. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómarar Hæstaréttar gengu á vettvang 17. október 2006.
I.
Fyrir Hæstarétt hafa verið lögð nokkur ný gögn. Þeirra á meðal er matsgerð Magnúsar A. Sigurðssonar, minjavarðar Vesturlands og Vestfjarða, 2. maí 2006, en hann var að ósk gagnáfrýjanda dómkvaddur 7. mars sama ár til þess að skoða aðstæður og gera skriflega og rökstudda grein fyrir eftirfarandi:
1. Er manngerð grjóthleðsla á svæðinu milli hnita X 278609 og Y 479018 og X 278763 og Y 479028 við og austan Króarfjöru?
2. Ef slík hleðsla finnst hver er staðsetning hennar og líklegur aldur?
3. Er manngerð hleðsla í eða við hnit X 278609 og Y479018? Ef svo er hver er líklegur aldur hennar?
4. Er manngerð hleðsla í eða við hnit X 278763 og Y 479028? Ef svo er hver er líklegur aldur hennar?
5. Finnst manngerð grjóthleðsla á svæðinu austan hnits X 278763 og Y 479028? Ef svo er hver er líklegur aldur hennar?
Til að svara þessum spurningum kveðst matsmaðurinn hafa gengið eftir fjörukambinum frá landamerkjum Laugarbrekku, sem er næsta jörð vestan við Gíslabæ, og austur fyrir Heimstutjörn, en þá var hann örugglega kominn yfir á land aðaláfrýjenda. Hann gerði afstöðuteikningu af svæðinu og tók myndir af ætluðum staðsetningum grjótgarðs, staðfesti hnit og mat staðina. Segir í matsgerð hans að staðirnir séu tveir, annar rétt við Króarfjöru og Miðtjörn, en hinn austar og rétt við Heimstutjörn. Fyrst hafi hann staðnæmst við ætlaðan grjótgarð við Miðtjörn með hnitin X 278609 og Y 479018. Þá hafi hann gengið um 150 metra í austur að Heimstutjörn, en þar megi sjá miklar hleðslur með hnitin X 278763 og Y 479028. Hleðslurnar séu stórar og greinilegar og virðist vera um að ræða stóran hlaðinn ferhyrning (herbergi), 9 metra langan og 8 metra breiðan. Við norðurendann virðist vera gap í hleðslunum. Einnig virðist liggja ógreinileg tröð frá hleðslunum að tjörninni en það sé um 12 metra vegalengd. Mikið sé af lausu grjóti allt í kring, sem bendi til þess að þetta mannvirki hafi verið meira um sig, en það látið á sjá, enda líklega þó nokkuð gamalt. Það sem einkenni fjörukambinn sé brimið. Mikið grjót hafi safnast saman á kambinum, sem brimið hafi kastað upp á hann, og sé auðvelt að láta blekkjast af grjótgörðum sem komi og fari eftir duttlungum sjávar. Niðurstöður matsmannsins eru þær að ætlaðar grjóthleðslur við Miðtjörn séu ekki af mannavöldum. Brimið hafi kastað þarna upp miklu magni af lausu grjóti sem hafi safnast í hrauka og geti blekkt mannsaugað. Grjóthleðslurnar við Heimstutjörn séu aftur á móti tvímælalaust af mannavöldum. Erfitt sé að segja til um hvað þetta hafi verið, en helst komi til greina einhvers konar nátthagi. Matsmaður telur þetta vera einu manngerðu grjóthleðsluna á matssvæðinu. Ekki sé unnt að segja til um aldur hennar annað en að hún sé mjög gömul. Aðaláfrýjendur hafa ekki mótmælt matsgerðinni en draga þýðingu hennar í efa.
II.
Í héraðsdómi er ágreiningi aðila lýst. Í málinu liggja fyrir þinglesnar lýsingar á landamerkjum Gíslabæjar frá 11. júní 1885, Bárðarbúðar með hjáleigum frá 25. ágúst 1887 og fyrir Hellnapláss og nánar tilgreindar kirkjujarðir, þar á meðal Gíslabæ, frá 27. ágúst 1887. Heimildum þessum ber öllum saman um að mörkin milli eigna aðila liggi um þrjá merkjasteina, einn fram við bjargbrún, annan í melbrún eða melabrún og þann þriðja í túngarði milli Stóruflatar og Melabúðartraðar. Í landamerkjalýsingunum frá 1887 fyrir Bárðarbúð og Hellnapláss er mörkum síðan lýst frá efsta steininum í sjónhendingu yfir ofanvert Hellnanes í grjótgarðsspotta fram á bökkum fyrir austan Króarfjöru í sjó fram, en landamerkjabréfið fyrir Gíslabæ frá 1885 lýsir ekki síðastgreindum mörkum.
Þessar landamerkjalýsingar voru samþykktar vegna aðliggjandi jarða að því er varðar mörk þau sem hér eru til úrlausnar. Gögn málsins bera ekki með sér að þeim hafi verið í nokkru hnikað frá því þau voru gerð með þeim lögformlega hætti sem hér er lýst. Verður því fallist á það með héraðsdómi að dómur um merki jarðanna verði reistur á túlkun þeirra. Á vettvangi kom fram að aðilar deila ekki um staðsetningu þeirra þriggja merkjasteina sem að framan eru taldir. Af lýsingum landamerkja verður ekki annað ráðið en að um sé að ræða beina línu á milli þeirra og engin skýring hefur á því fengist hvers vegna aðaláfrýjendur krefjast lykkju á þeirri leið.
Í kröfugerð aðaláfrýjenda er miðað við að merkin liggi frá merkjasteini í túngarði milli Stóruflatar og Melabúðartraðar í punkt norðaustan við Svarðartjörn og er það stutt við eldri heimildir en framangreindar landamerkjalýsingar. Í landamerkjalýsingunum er hins vegar engin stoð fyrir þessu.
Gagnáfrýjandi gerir kröfu til þess að merkin við Króarfjöru liggi í hnitsettan punkt við þær leifar mannvirkis við Heimstutjörn, sem um getur í áðurgreindri matsgerð. Í héraði studdi gagnáfrýjandi þessa málsástæðu sína við álit Mjallar Snæsdóttur fornleifafræðings en hún hafi talið að ljósmynd, sem henni hafði verið send af þessum stað, sýndi ferhyrnda grjóthleðslu án efa manngerða. Kemur þetta heim og saman við áðurnefnda matsgerð. Verður ekki dregið í efa að þarna séu leifar mannvirkis. Í merkjalýsingunum eru merkin dregin „í grjótgarðsspotta fram á bökkum fyrir austan Króarfjöru í sjó fram.“ Í heimildum frá síðari hluta 18. aldar, sem raktar eru í héraðsdómi, er rætt að merkin séu um garð fram á sjávarklettunum af fyrri tíðar mönnum hlaðinn, garðsspotta og garðsenda. Í Lands-Reglunni á Hellisvöllum frá 8. maí 1804 er talað um „gard út á Sióarklettum af grióti og torfi hladin austan Króar Fióru.“ Hvorki í landamerkjalýsingum né þessum gömlu heimildum er rætt um mannvirki eins og það sem Mjöll Snæsdóttir og matsmaður fjalla um. Gunnar Kristófersson, sem átti Gíslabæ og bjó þar 1944 til 1956 ,,hripaði upp“ á nokkur blöð fyrir Örnefnastofnun Íslands ströndina við Hellnar og færði þar á örnefni og eru þar á meðal Króarfjara, Miðtjörn og Ystatjörn. Staðsetti hann Króarfjöru rétt vestan við Miðtjörn. Í uppdrátt hans vantar hins vegar Heimstutjörn þar sem umrætt mannvirki er. Í héraðsdómi er því lýst að Kristófer sonur Gunnars, sem alinn er upp á Gíslabæ, hafi við vettvangsgöngu og í greinargóðum vitnisburði fyrir dómi lýst merkjum í snösina við Króarfjöru eins og miðað sé við í kröfugerð aðaláfrýjenda. Í framangreindri matsgerð er lýst aðstæðum á ströndinni, sem dómarar Hæstaréttar hafa við vettvangsgöngu staðreynt og eru þær með þeim hætti að vel má ætla að garðsspotti sá sem lýst er í landamerkjalýsingum og öðrum heimildum geti hafa horfið í hafið eða eyðst á annan hátt. Leifar mannvirkis þess sem lýst er í matsgerð eru nokkurn spöl austan við það er Kristófer benti á, en framburður hans sýnist koma heim og saman við uppdrátt þann sem faðir hans gerði fyrir Örnefnastofnun.
Með framangreindum athugasemdum og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað.
Rétt er að hver aðili beri sinn málskostnað í héraði, en að aðaláfrýjendur greiði gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði fellur niður.
Aðaláfrýjendur, Kristján Hafsteinn Leifsson, Kristjana Leifsdóttir, Ólína Gunnlaugsdóttir, Elín Guðrún Gunnlaugsdóttir, Kristján Gunnlaugsson, Þorvarður Gunnlaugsson, Vera Roth og Ólafur Magnússon, greiði gagnáfrýjanda, Björgu Pétursdóttur, 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Vesturlands 10. október 2005.
Mál þetta var höfðað 22. apríl 2005 og dómtekið 14. september sama ár. Stefnendur eru Elín Guðrún Gunnlaugsdóttir, Skúlagötu 58 í Reykjavík, Kristjana Leifsdóttir, Hólmasundi 16 í Reykjavík, Kristján Gunnlaugsson, Ökrum II í Snæfellsbæ, Kristján Hafsteinn Leifsson, Heiðargerði 26 í Vogum, Ólafur Magnússon, Egilsgötu 16 í Borgarnesi, Ólína Gunnlaugsdóttir, Háagarði í Snæfellsbæ, Vera Roth, Bala í Mosfellsbæ, og Þorvarður Gunnlaugsson, Svolvær í Noregi. Stefndi er Björg Pétursdóttir, Gíslabæ í Snæfellsbæ. Hinn 17. maí 2005 höfðaði stefnda gagnsök á hendur stefnendum.
Í aðalsök gera stefnendur þá kröfu að dæmt verði að landamerki milli jarðanna Akra, Bárðarbúðar og Melabúðar annars vegar og Gíslabæjar hins vegar séu úr punkti á sjávarbakka við Eiríkshlein (hnit X=279166; Y=480092), þaðan í punkt við gamlan túngarð við Efritröð (hnit X=279067; Y=480054), þaðan í punkt á sama túngarði (hnit X=279038; Y=480063), þaðan í punkt á sama túngarði (hnit X=279042; Y=480045), þaðan í punkt við Svarðartjörn (hnit X=278782; Y=479919) og þaðan í punkt við Króarfjöru (hnit X=278609; Y=479018). Þá er þess krafist að stefndu verði gert að greiða stefnendum málskostnað í aðal- og gagnsök.
Í aðalsök krefst stefnda þess að hún verði sýknuð af kröfum stefnenda, en í gagnsök krefst hún þess aðallega að dæmt verð að umrædd landamerki verði úr punkti á bjargsbrún við Eiríkshlein (hnit X=279166; Y=480092), þaðan í punkt í gömlum túngarði milli Stóruflatar að ofan og Melabúðartraðar að neðan (hnit X=279042; Y=480045) og þaðan í punkt í grjótgarð fram á bökkum fyrir austan Króarfjöru (hnit X=278763; Y=479028). Til vara krefst stefnda þess að mörkin verði ákveðin á sama veg að öðru leyti en því að við fjöruna verði miðað við punkt nokkru vestar (hnit X=278699; Y=479026). Til þrautavara krefst stefnda þess að landamerkin verði ákveðin þau sömu nema miðað verði við punkt í fjörunni enn vestar (hnit X=278609; Y=479018). Þá krefst stefnda þess að stefnendum verði gert að greiða sér málskostnað í aðal- og gagnsök.
Stefnendur krefjast þess í gagnsök að þau verði sýknuð af kröfum stefndu.
I.
Stefnendur eru eigendur jarðanna Akra, Bárðarbúðar og Melabúðar á Snæfellsnesi, en jarðir þessar voru einnig nefndar einu nafni Hleinarpláss. Stefnda er hins vegar eigandi jarðarinnar Gíslabæjar sem liggur að jörðum stefnenda en sú jörð er ein svonefndra Hellnajarða. Í málinu deila aðilar um landamerki milli Gíslabæjar og aðliggjandi jarða stefnenda.
Í þinglýstu landamerkjabréfi fyrir Gíslabæ frá 11. júní 1885 er að finna svohljóðandi lýsingu á mörkum jarðarinnar:
„Tún jarðar þessar liggur áföst við tún Melabúðar að neðan og Brekkubæjar að ofan. En þessi eru túnmerkin:
1. að neðanverðu. Steinn stendur í túngarði milli Stóruflatar og Melabúðartraðar hinnar efri, úr honum bein lína í stein í melabrúninni og þá aptur bein lína úr honum í hinn þriðja stein fram við bjargsbrúnina, skammt fyrir ofan Eiríkshlein. Merki þessi voru gjörð af hlutaðeigandi jarðaeigendum í sýslumanns viðurvist árið 1873 eptir miðjum þrætuparti þeim, sem áður hafði verið, og eru með þinglesnu skjali löggilt fyrir alda og óborna ...“
Landamerkjabréfið er undirritað af Helga Árnasyni vegna Gíslabæjar, en í niðurlagi bréfsins segir að framanskrifuð túnmerki milli Gíslabæjar og Melabúðar samþykki Jón Árnason, umboðsmaður Hleinarplássins, sem staddur hafi verði að Brekkubæ 16. júní 1885.
Í þinglýstri landamerkjaskýrslu frá 25. ágúst 1887 fyrir Bárðarbúð með hjáleigum er að finna svohljóðandi lýsingu á merkjum jarðarinnar:
„Túnamerki milli Gíslabæjar og Melabúðar eru þrír steinar niðurgrafnir, sá fyrsti fram við bjargsbrún skamt fyrir ofan Eiríkshlein, annar í Melbrúninni, og sá þriðji í gömlum túngarði í milli stóruflatar að ofan og Melabúðartraðar að neðan, frá honum er sjónhending yfir ofanvert Hellnanes í grjótgarðsspotta fram á bökkum fyrir austan Króarfjöru í sjó fram. Undir bjarginu eru reka merkin, sjónhending úr merkjasteininum í melbrúninni í merkjasteininn á bjargbrúninni í sjó fram.“
Landamerkjaskýrslan er meðal annars undirritað af Brandi Jóhannessyni vegna Bárðarbúðar og Helga Árnasyni vegna Gíslabæjar.
Í þinglýstri landamerkjaskýrslu frá 27. ágúst 1887 fyrir Hellnapláss og nánar tilgreindar kirkjujarðir, þar á meðal Gíslabæ, kemur fram að jarðirnar eigi óskipt og sameiginlegt land og landsnytjar allar utan tún sem deilist eftir jarðardýrleika að fornu hundraðatali. Í skjalinu er landamerkjum milli Hellna og Hleinarpláss lýst þannig:
„Á túnamerkjum milli Gíslabæjar og Melabúðar eru þrír merkjasteinar, einn fram við bjargsbrún, annar í melbrún og hinn þriðji í gömlum túngarði milli stóruflatar að ofan og Melabúðar traðar að neðan frá honum er sjónhending yfir ofanvert Hellnanes (Hveifarnes) í grjótgarðsspotta fram á bökkunum fyrir austan Króarfjöru í sjó fram, en undir bjarginu eru rekamerkin sjónhending úr merkjasteininum í melbrúninni í merkjasteininn á bjargsbrúninni í sjó fram.“
Landamerkjaskýrslan fyrir Hellna er meðal annars undirrituð af Helga Árnasyni fyrir Gíslabæ og Brandi Jóhannessyni vegna Hleinarpláss.
Af eldri heimildum um landamerki Hellnajarða og Hleinarpláss liggja fyrir nokkrir vitnisburðir um landamerkin og eru þeir allir frá árinu 1789. Þar er fyrst til að nefna vitnisburð fjögurra manna, en þeir voru Ólafur Þórðarson, Magnús Gíslason, Ingimundur Ólafsson og Snorri Árnason. Í vitnisburðinum er að finna svohljóðandi landamerkjalýsingu:
„...að landamerkjum milli Hellnamanna og Hleinarmanna ráði niður á Kveifarnesi garður sá fram á sjávarklettunum sem af fyrri mönnum hlaðinn er fyrir austan Króarfjöru, þaðan sjónhending á sunnanvert Svarðartjarnarholt og í það gamla túngarðshorn fyrir vestan og ofan Melabúð, frá hverju horni að liggur merkjagarður þvert inn í túnið norðan eina skemmu og veit til sjóar, hvers garðsendar báðir gjöra sjónhending við norðari brúnina á Eiríkshlein neðan bakkann í fjörunni norðan lendinguna.“
Í vitnisburði Þorsteins Jónssonar, hreppstjóra, er þessum sömu landamerkjum lýst þannig:
„Landamerkjum ræður Eiríkshlein og garður sá er liggur norðan til við skemmuna stóru, er svo var lengi kölluð, nær hann þvert yfir að túngarði, frá hans enda eru merkin sjónhending sunnanvert í Svarðartjarnarholt réttlínis að garðspotta þeim, sem er út á klettunum austan Króarfjöru og beint í sjó suður.“
Í vitnisburði Guðmundar Árnasonar er að finna svohljóðandi lýsingu á umræddum mörkum:
„...en Eiríkshleinar norðari brún, er stenst á við garð þann, er liggur upp á bakkanum til vesturs útsuðurs, norðan til við eina skemmu að túngarði. Frá hans enda aftur beint sjónhending við sunnanvert Svarðartjarnarholt, beint í garðsenda þann er fram á klettunum er mótlíka langur og hinn af fornmönnum hlaðinn, fyrir austan Króarfjöru á nesinu ...“
Samkvæmt vitnisburði Þorgerðar Heinsdóttur er þessum landamerkjum lýst á þennan veg:
„... að landamerki millum Hleinar- og Balamanna væri að austanverðri Eiríkshlein, er nær sem löng klöpp framundir sjóinn um fjöruna, lítið fyrir norðan Hleinar uppsláttur; svo ræður stór stein og gamall garður hlaðinn þvert yfir túnið að túngarði fyrir norðan þá stóru skemmu, sem lengi var þar; þaðan beint sjónhending fyrir sunnan Svarðartjarnarholt, þvert yfir nesið til gamals garðsenda, sem hlaðinn er af fornaldarmönnum fram á sjávarklettunum fyrir austan Króarfjöru ...“
Einnig liggur fyrir LandsRegla á Hellisvöllum frá 8. maí 1804 í eiginhandarriti séra Ásgríms Vigfússonar, sóknarpresta í Laugarbrekku, sem kom í Landsskjalasafnið í mars 1906 frá Helga Árnasyni í Gíslabæ. Samkvæmt handritinu var skjalið undirritað af eigendum, óðalsmönnum og landsetum á Hellisvöllum og vottar séra Ásgrímur að handritið sé rétt „útskrifuð af sínum Original“. Í skjalinu er mörkum gagnvart Hleinarplássi lýst þannig:
„Hvad vidvíkur Landamerkium mille Hleinar sem er 4# og Upp-platsins sem er 36# þá eru þau eftter prosess og vitnaleidslu árid 1716. Lögfestum 1642 og 1687 samt mörgum ödrum skírum skriflegum vitnisburdum: rett siónhending úr Eyrekshlein undir Sióarklettunum, en upp á böckunum grasgards Spotta einum nordan Melabúdar Skiemu ianan gard út á Sióarkelttum af grióti og torfi hladin austan Króar Fióru.“
Hinn 16. október 1807 fór fram skoðunargerð á túnmerkjum og samkvæmt henni var merkjum lýst „úr Eiríkshlein undir sjávarklettum í grasgarðsspotta norðan Melabúðarskemmu (nú austan til við hlöðuna) og það uppí túngarða Gíslabæjar...“. Í skoðunargerðinni er ekki vikið frekar að þeim landamerkjum sem eru til úrlausnar í málinu.
Hinn 30. júní 1873 var gert samkomulag í viðurvist sýslumannsins í Snæfellsness- og Hnappadalssýslu milli Helga Árnasonar, eigenda Gíslabæjar, og Kristófers Finnbogasonar, eiganda Melabúðar, um merki jarðanna. Var samkomulagið lesið á manntalsþingi 3. júní 1876 og fært í afsals- og veðmálabók. Til samkomulagsins er vísað í fyrrgreindu landamerkjabréfi fyrir Gíslabæ frá 11. júní 1885, svo sem áður er nánar rakið. Í samkomulaginu er mörkum jarðanna lýst þannig:
„... og með [sýslumanns] beztu tillögum komið okkur saman um að gjöra helmingaskifti á hinum umrædda túnparti, og skulu hin nýju merki liggja utanfrá túngarði ofan á sjávarkletta og höfum við látið setja á þau þrjá merkjasteina; einn út við túngarð; annan við svokallaða melabrún og hinn þriðja framundan sjávarklettabrún, og skulu þessi merki vera löggild uppfrá þessum degi fyrir alda og óborna.“
II.
Ábúandi og eigandi Gíslabæjar til ársins 1933 var Árni Helgason og lét hann reisa girðingu frá Melabúð og upp undir Svarvaðartjörn. Gunnar Kristófersson, sem átti jörðina og var ábúandi á árunum 1944 til 1956, færði síðan girðinguna nokkuð utar en samsíða fyrri girðingu. Kristinn Kristjánsson, eigandi Bárðarbúðar, og Gunnlaugur Hallgrímsson, eigandi Akra, reistu síðan girðingu um miðbik liðinnar aldar sem liggur í suður þvert á girðinguna milli Melabúðar og Svarvaðartjarnar.
Hinn 13. júní 1969 fóru fram landskipti á óskiptu landi á Hellnum að viðstöddum jarðeigendum. Fram kemur í landskiptagerðinni að við skiptin hafi meðal annars legið frammi ljósrit frá sýslumanni af landamerkjaskýrslu fyrir Hellnapláss frá 27. ágúst 1887, auk þess sem ábúendur hafi lagt fram landamerkjaskjöl sem hafi verið samhljóða þeirri skýrslu. Þá kemur fram að höfð hafi verið til leiðbeiningar ljósmynd af Hellnaplássi. Við skiptin kom spilda í hlut Gíslabæjar sem afmarkaðist að sunnan við landamerki Hellnapláss og Hleinarpláss.
Í málinu liggur frammi ljósrit af loftmynd af Hellnanesi þar sem færð hafa verið inn landamerki milli Gíslabæjar og Hleinarpláss og virðis sú merkjalína í samræmi við kröfugerð stefnenda í málinu. Aðilar deila um hvort ljósritið sé af þeirri loftmynd sem vísað er til í fyrrgreindri landskiptagerð við skipti á Hellnum. Ef um er að ræða þá loftmynd er einnig ágreiningur með aðilum um hvort merkin hafi verið færð inn við skiptin eða síðar eins og stefnda heldur fram.
Í tilefni af gerð aðalskipulags fyrir Snæfellsbæ á árinu 2002 reis ágreiningur með aðilum um landamerkin milli Gíslabæjar og Hleinarpláss.
III.
Stefnendur reisa kröfu sína í aðalsök á því að Svarðartjarnarholt, sem er dálítið holt sunnan Svarðartjarnar, sé kennileiti á mörkum Hleinarpláss og Gíslabæjar og miða stefnendur mörkin við punkt nærri Svarðartjörn. Virðist sá punktur á sama stað og hornmark á loftmynd sem stefnendur halda fram að hafi legið frammi við fyrrgreind landskipti á Hellnum árið 1969.
Stefnendur vísa til þess að Brandur Jóhannesson hafi undirritað landamerkjaskýrslu frá 27. ágúst 1887 um mörk Hellna og Hleinarpláss og landamerkjaskýrslu sama dag fyrir Bárðarbúð með hjáleigum um túnmerki á milli Gíslabæjar og Melabúðar. Benda stefnendur á að Brandur hafi verið fæddur í Brekkubæ og búið þar til ársins 1890, með foreldrum sínum og eiginkonu. Það hafi síðan ekki verið fyrr en á því ári sem þau fluttu að Bárðarbúð sem þá hafi verið í eigu Kolbeinsstaðakirkju. Enginn hafi því verið til að gæta þess fyrir hönd Hleinarmanna að landamerkjum væri rétt lýst í landamerkjaskýrslum.
Til stuðnings kröfu sinni vísa stefnendur einnig til fjölmargra vitnisburða frá árinu 1789 þar sem vísað sé til Svarðartjarnarholts við lýsingu umdeildra landamerkja milli Hellna og Hleinarpláss.
Þá benda stefnendur á að samkvæmt landskiptagerðinni frá árinu 1969 sé dýrleiki Gíslabæjar talinn 4 hundruð að fornu mati og hafi það landverð verið lagt til grundvallar við skiptin í samræmi við fullt samkomulag jarðeigenda. Til samanburðar hafi dýrleiki Bárðarbúðar, Vætuakra (Akra) og Melabúðar verið samtals 5 hundruð að fornu mati samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1709. Að þessu gættu og yngri gögnum sé land allra jarða stefnenda stærra en land Gíslabæjar. Þessu til frekari stuðnings benda stefnendur á að samkvæmt fasteignamatsbók miðað við 1. apríl 1922 hafi landverð Bárðarbúðar verið 24 hundruð en Gíslabæjar 20 hundruð. Jafnframt hafi landverð jarðanna í fasteignamati árið 1957 verið 4.400 fyrir Gíslabæ en 6.600 fyrir Hleinarpláss (Akrar 2.200, Bárðarbúð 2.400 og Melabúð 2.200). Þetta komi með engu móti heim og saman við málatilbúnað stefndu sem miði við að flatarmál Gíslabæjar sé mun stærra en Hleinarpláss. Í þeim efnum verði einnig að líta til þess að land allra jarðanna sé áþekkt að gæðum þannig að flatarmál þeirra í hekturum sé í sömu eða áþekkum hlutföllum og hið forna hundraðamat. Stefnda miði hins vegar við að stærð Gíslabæjar sé 56 eða 68 hektarar en land Hleinarpláss 49 eða 30 hektarar. Stefnendur miði á hinn bóginn við að stærð Gíslabæjar sé 46 hektarar en land Hleinarpláss samtals 59 hektarar og séu þau hlutföll í mun betra samræmi við fornt mat á dýrleika jarðanna.
IV.
Stefnda vísar til þess að fyrir liggi í málinu lögboðnar landamerkjalýsingar frá árunum 1885 og 1887 gerðar á grundvelli eldri landamerkjalaga, nr. 5/1882. Þessar lýsingar hafi á sínum tíma verið færðar í landamerkjabók lögum samkvæmt, verið þinglýst á viðkomandi jarðir og aldrei sætt neinum andmælum um form eða efni. Telur stefnda að ekki séu fyrir hendi neinar aðrar löglegar og bindandi lýsingar merkja.
Stefnda heldur því fram að umræddar landamerkjalýsingar falli að kröfugerð hennar í málinu auk þess að eiga sér stoð í enn eldri gögnum. Í þeim efnum vísar stefnda til vitnisburða frá árinu 1789, LandsReglu á Hellisvöllum frá árinu 1804 og skoðunargerðar á túnmerkjum frá árinu 1807. Telur stefnda að merkjapunktur stefnenda norðan Svarðartjarnar eigi sér hvergi stoð í þessum eða öðrum gögnum sem byggt verði á um landamerkin. Þvert á móti séu gögn þessi í samræmi við merkjalýsingu þinglýstra landamerkjabréfa frá níunda áratug 19. aldar um sjónhendingarlínu frá mörkum við túngarð við Melabúð að merkjum við sjó austan Króarfjöru.
Stefnda heldur því fram að engin gögn styðji á einn eða annan veg að hún eða fyrri eigendur Gíslabæjar hafi samið sig undir ný landamerki jarðarinnar eða afsalað landi með breytum merkjum frá lögformlegum lýsingum í landamerkjabréfum frá árunum 1885 og 1887. Í þeim efnum tekur stefnda fram að staðhæfingar um legu girðinga geti engu breytti í málinu, enda hafi girðingunum ekki verið ætlað að gefa til kynna merki jarða. Þvert á móti hafi þessu verið þannig farið að leitað hafi verið eftir heimild þáverandi eiganda Gíslabæjar til að reisa girðingar. Einnig telur stefnda að skipti á óskiptu landi Hellna á árinu 1969 hafi enga þýðingu fyrir sakarefni málsins, enda hafi stefnendur ekki átt neina aðild að þeim skiptum. Þar fyrir utan sé beinlínis tekið fram í landskiptagerðinni að við skiptin hafi legið fyrir landamerkjaskýrsla fyrir Hellnapláss frá 27. ágúst 1887. Þá vekur stefnda athygli á því að í afsali til Karls og Veru Roth frá 18. maí 1994 hafi land verið afmarkað með öðrum hætti en í máli þessu þar sem markapunktur við Króarfjöru hafi verið austar en lagt er til grundvallar í kröfugerð stefnenda.
Stefnda styður kröfu sína í gagnsök við umræddar landamerkjalýsingar frá árunum 1885 og 1887 þar sem merki eru sögð þrír steinar, sá fyrsti fram við bjargsbrún skammt fyrir ofan Eiríkshlein, annar í Melbrúninni og sá þriðji í gömlum túngarði á milli stóruflatar að ofan og Melabúðatraðar að neðan. Frá þeim steini liggi síðan landamerkjalína í sjónhendingu yfir ofanvert Hellnanes í grjótgarð eða grjótgarðsspotta fram á bökkum fyrir austan Króarfjöru í sjó fram. Stefnda telur engan vafa leika á því að í þessu felist sú hefðbundna merking hugtaksins „sjónhending“ að um sé að ræða beina línu milli tilgreindra viðmiða. Því sé með öllu útilokað að lesa þau mörk úr landamerkjalýsingum sem stefnendur miði við. Þá andmælir stefnda fyrirvara sem stefnendur hafi gert við heimild þeirra jarðeigenda sem staðfest hafi landamerkjalýsingar í fyrrgreindum heimildum, enda bendi ekkert til að þeir menn hafi ekki verið til þess bærir að binda viðkomandi jarðir við umrædd merki. Ef eitthvað var athugavert þar að lútandi hefði sýslumanni borið að gera athugasemdir en slíku var ekki fyrir að fara og því hafi landamerkjabréf verið afgreidd lögum samkvæmt án athugasemda um form eða efni. Af þessum sökum beri að leggja bréfin til grundvallar um merki jarða.
Stefnda bendir á að þótt fallist verði á málatilbúnað stefnenda í þá veru að miða við Svarðartjarnarholt útskýri það ekki með nokkru móti að miða við punkt norðan Svarðartjarnar þar sem holtið sé sunnan tjarnarinnar. Þess utan verði ekki ráðið af eldri heimildum að í lögboðnar landamerkjalýsingar vanti neitt kennileiti kennt við Svarðartjarnarholt. Telur stefnda að vitnisburðir frá árinu 1798, sem allir vísi til þess að merki jarðanna liggi milli merkja í túngarði og austan Króarfjöru en sunnan eða sunnanvert við Svarðartjarnarholt, samrýmis vel mörkum í landamerkjabréfum frá níunda áratug 19. aldar.
Um landamerki við austanverða Króarfjöru bendir stefnda á að í landamerkjalýsingum sé jafnan miðað við grjótgarð eða grjótgarðsspotta austan fjörunnar. Telur stefnda einsýnt að sá forni grjótgarður liggi eða réttara sagt hafi legið þar sem hnit í aðalkröfu séu í leifum grjótgarðsins á sjávarbakkanum austan fjörunnar. Þessu til stuðnings vísar stefnda til ljósmyndar af garðinum og álits Mjallar Snæsdóttur hjá Fornleifastofnun Íslands í bréfi 28. apríl 2004 þess efnis að grjótgarðurinn sem stefnda miði við í aðalkröfu sé án efa manngerður. Komist dómurinn á hinn bóginn að þeirri niðurstöðu að mörkin við fjörunna liggi vestar séu vara- og þrautavarakröfur settar fram til málamiðlunar.
Stefnda heldur því fram að rökstuðningur stefnenda sem byggi á samanburði fasteignamata Hellna og Hleinarpláss frá ýmsum tímum sé ekkert minna en fráleitur. Þar komi helst þrennt til. Í fyrsta lagi sé ekki miðað við að útskipt land Gíslabæjar hafi lengst af verið lítið en óskipt land með Hellnum hafi verið þeim mun meira allt fram til ársins 1969 þegar landskipti fóru fram milli Hellnajarða. Í annan stað hafi jörðin Gíslabær aldrei verið í torfu með jörðum stefnenda en þegar af þeirri ástæðu sé samanburður á jarðamötum villandi. Í þriðja lagi gefi stefnendur sér að jarðamat að fornu og nýju endurspegli einungis stærð þess lands sem metið er. Því fari auðvitað víðsfjarri enda hafi jarðamöt um aldir endurspeglað fjölmarga aðra þætti en flatarmál eitt sér sem í mörgum tilvikum segi minnst um gæði og mat jarða. Af jarðamötum verði því engar ályktanir dregnar og örugglega ekki ályktanir sem fái megnað að hnekkja lögformlega settum og staðfestum merkjum samkvæmt landamerkjabréfum.
V.
Í málinu deila aðilar um landamerki jarðarinnar Gíslabæjar í eigu stefndu og jarðanna Akra, Bárðarbúðar og Melabúðar í eigu stefnenda, en þær jarðir hafa verið nefndar einu nafni Hleinarpláss.
Ágreiningur aðila um landamerkin er þríþættur. Í fyrsta lagi deila aðilar um hvort mörkin liggi frá sjó að túngarði við bæjarstæði Melabúðar og eftir honum til norðurs um bæjarstæðið í niðurgrafinn stein í túngarðinum (hnit X=279042; Y=480045) eða hvort merkin liggi beint frá sjó í fyrrgreindan stein í túngarðinum. Í annan stað deila aðilar um hvort mörkin liggi frá umræddum steini í túngarðinum í beinni sjónhendingu í punkt fyrir austan Króarfjöru eða hvort merkin liggi þaðan um punkt norðaustan við Svarðartjörn og síðan í punkt fyrir austan Króarfjöru. Loks er ágreiningur um hvar mörkin liggi fyrir austan Króarfjöru.
Á það verður ekki fallist með stefnendum að samanburður á fasteignamötum frá ýmsum tímum geti haft nokkur áhrif fyrir niðurstöðu um þau landamerki sem deilt er um í málinu, enda eru slík möt á verðgildi ekki eingöngu reiknuð út eftir flatarmáli. Þess í stað verður dómur reistur á þeim heimildum og sönnunargögnum sem lúta að merkjum þrætusvæðisins.
Í málinu liggja fyrir þinglýstar lýsingar á landamerkjum í landamerkjabréfi fyrir Gíslabæ frá 11. júní 1885, landamerkjaskýrslu fyrir Bárðarbúð með hjáleigum frá 25. ágúst 1887 og landamerkjaskýrslu fyrir Hellnapláss og nánar tilgreindar kirkjujarðir, þar á meðal Gíslabæ, frá 27. ágúst 1887. Þessum heimildum ber öllum saman um að mörkin liggi um þrjá merkjasteina, einn framan við bjargbrún, annar í melbrún eða melabrún og sá þriðji í túngarði milli Stóruflatar og Melabúðartraðar. Í landamerkjaskýrslunum frá árinu 1887 er mörkum lýst frá þeim steini í sjónhendingu yfir ofanvert Hellnanes í grjótgarðsspotta fram á bökkum fyrir austan Króarfjöru í sjó fram, en landamerkjabréfið frá árinu 1885 lýsir ekki mörkum að Króarfjöru. Allar þessar landamerkjalýsingar eru samþykktar vegna aðliggjandi jarða að því er varðar þau mörk sem eru til úrlausnar í málinu.
Um landamerkjalýsingar samkvæmt formlega gildum og samþykktum landamerkjabréfum, sem gerð eru á grundvelli landamerkjalaga, gildir sú regla að sönnunarbyrði hvílir á þeim sem andmælir landamerkjalýsingu. Jafnframt hvílir sönnunarbyrði á þeim sem hnekkja vill landamerkjabréfi á þeim grundvelli að sá sem áritað hefur bréf vegna þeirrar jarðar sem bréfið tekur til eða vegna aðliggjandi jarðar hafi ekki haft heimild til þeirrar ráðstöfunar eða verið til þess bær.
Landamerkjaskýrsla fyrir Bárðarbúð með hjáleigum frá 25. ágúst 1887 og landamerkjaskýrsla fyrir Hellnapláss með tilgreindum kirkjujörðum, þar á meðal Gíslabæ, frá 27. sama mánaðar voru báðar samþykktar af Bandi Jóhannessyni fyrir Hleinarpláss og Bárðarbúð. Í málinu liggur ekki fyrir að heimild hans til að samþykkja skýrslurnar hafi verið vefengd fyrr en með málsókn þessari. Fullyrðing í þá veru í málatilbúnaði stefnenda hefur ekki verið studd neinum gögnum og telst hún því ósönnuð. Verður því lagt til grundvallar að landamerkjaskýrslurnar hafi verið samþykktar vegna Hleinarpláss.
Í landamerkjabréfi fyrir Gíslabæ frá 11. júní 1985 er mörkum gagnvart Melabúð lýst eftir þremur merkjasteinum, nánar tiltekið frá steini fram við bjargsbrún, skammt fyrir ofan Eiríkshlein, beina línu þaðan í stein í melabrúninni og þá aftur beina línu úr honum í þriðja steininn í túngarði milli Stóruflatar og Melbúðartraðar. Í landamerkjabréfinu segir að merki þessi hafi verið gerð af jarðeigendum í viðurvist sýslumanns árið 1873 eftir miðjum þrætuparti þeim sem áður hafði verið. Er hér átt við samkomulagið frá 30. júní 1873 um helmingaskipti á túnparti, en efni þess er áður rakið. Þessar heimildir um jöfn skipti á þrætulandi með merkjum sem sett eru niður með markasteinum benda eindregið til að um sé að ræða beina markalínu. Hefur ekkert komið fram í málinu sem styður að þessi lína liggi milli endimarka um tvo punkta til viðbótar eftir túngarði við bæjarstæði Melabúðar. Samkvæmt þessu verður lagt til grundvallar að merkin á þessu svæði liggi frá bjargsbrúninni, skammt fyrir ofan Eiríkshelin, (hnit X=279166; Y=480092) í beinni línu að punkti sem miðaður er við stein í túngarðinum milli Stóruflatar og Melabúðartraðar (hnit X=279042; Y=480045).
Í landamerkjaskýrslum frá árinu 1887 er mörkum lýst úr fyrrgreindum markasteini í túngarðinum við Melabúð í sjónhendingu yfir ofanvert Hellnanes í grjótgarðsspotta fram á bökkum fyrir austan Króarfjöru í sjó fram. Á því leikur ekki vafi að með sjónhendingu frá punkti í túngarðinum að punkti nærri Króarfjöru er í samræmi við dómvenju átt við beina merkjalínu. Í vitnisburðum um merkin á þessu svæði frá árinu 1789 er nefnt kennileitið Svarðartjarnarholt og ýmist að línan liggi í sjónhendingu sunnanvert í holtið eða að merkjum er lýst sunnanvert við holtið. Þetta verður þó ekki talið í ósamræmi við lýsingu í landamerkjaskýrslum frá árinu 1887, enda leikur ekki vafi á því að sú lína sem þar er lýst liggur sunnan við holtið sem ekki er nákvæmt kennileiti í landslaginu.
Í málinu verður engu talið breyta um merki gagnvart Hleinarplássi landskipti á Hellnum árið 1969, sem þáverandi eigendur Hleinarpláss áttu enga aðild að. Þar fyrir utan er beinlínis vísað í landskiptagerðinni til landamerkjaskýrslu fyrir Hellna frá 27. ágúst 1887. Hefur heldur ekki þýðingu fyrir úrlausn málsins ljósrit af loftmynd með merkjalínu um punkt nærri Svarðartjörn og leiðir það þegar af þeirri ástæðu að ekki hefur fengist staðfest að sú mynd með þeirri línu hafi legið frammi við skiptin, svo sem vefengt er af hálfu stefndu. Þá getur engu skipt fyrir niðurstöðu málsins uppdráttur frá gróðurkortadeild Rannsóknarstofnunar landbúnaðarins frá árinu 1983 eða uppdráttur byggingarfulltrúa frá árinu 2000, eins og hreyft hefur við af hálfu stefnenda, enda liggur ekki fyrir að þessi gögn hafi verið tekin saman að höfðu samráði við stefndu eða fyrri eiganda Gíslabæjar. Loks hefur ekkert komið fram sem bendir til að girðingar á svæðinu hafi verið settar niður í öðrum tilgangi en beinlínis helgaðist af landbúnaðarnotum. Að öllu þessu gættu verður ekki fallist á það með stefnendum að landamerki frá túngarðinum milli Stóruflatar og Melabúðartraðar að punkti við Króarfjöru liggi um hornpunkt nærri Svarðartjörn norðan við holt það sem kennt er við tjörnina. Hafa ekki komið fram önnur gögn en hér hefur verið vikið að sem stutt geta þá niðurstöðu og verður því dæmt í samræmi við landamerkjaskýrslur að línan liggi beint úr túngarðinum í endapunkt nærri Króarfjöru.
Af hálfu stefndu er því haldið fram að merkin við Króarfjöru liggi í punkt sem hún telur í leifum manngerðs grjótgarðs og miðar aðalkrafa í gagnsök við hnit í þeim punkti. Málsaðilar hafa ekki aflað matsgerðar um hvort austan við Króarfjöru er að finna manngerðan grjótgarð eins og þeim hefði verið í lófa lagið. Þess í stað hefur stefnda lagt fram bréf Mjallar Snæsdóttur hjá Fornleifastofnun Íslands 28. apríl 2004 með tveimur myndum. Í bréfinu er fullyrt að önnur myndin sýni ferhyrnda grjóthleðslu án efa manngerða. Aftur á móti sýni hin myndin grjót sem Mjöll treystir sér ekki til að fullyrða að sé manngerð hleðsla. Í málinu hefur komið fram að umræddur starfsmaður Fornleifastofnunar fór ekki á vettvang og kannaði sjálf hvar væri að finna manngerða grjóthleðslur austan við Króarfjöru. Þess í stað er álitið eingöngu byggt á ljósmyndum sem stefnda tók og sendi til athugunar. Þá kom fram við vettvangsgöngu og munnlegan flutning málsins að stefnendur vefengja að önnur ljósmyndin sýni þann punt nærri fjörunni sem þau miða við í kröfugerð sinni. Að þessu gættu verður dómur ekki reistur á áliti þessu.
Við vettvangsgöngu og í greinargóðum vitnisburði Kristófers Gunnarssonar fyrir dómi lýsti hann því að merkin væru í snösina austan við Króarfjöru í þann punkt sem miðað er við í kröfugerð stefnenda. Hefur komið fram í málinu að vitnið ólst upp á Gíslabæ til 17 ára aldurs en faðir vitnisins, Gunnar Kristófersson, átti jörðina á árunum 1944 til 1956. Með hliðsjón af þessu vætti manns sem er staðkunnugur og þar sem ekki nýtur við annarra gagna sem byggt verður á að þessu leyti verður dæmt að merkin liggi í punkt við Króarfjöru sem stefnendur miðað við í kröfugerð í aðalsök (hnit X=278609; Y=479018).
Eftir þessum úrslitum verða stefnendur dæmd til að greiða stefndu málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn svo sem í dómsorði greinir. Við ákvörðun málskostnaðar er litið til þess að stefnendur höfðuðu mál um sama sakarefni á árinu 2004 en felldu málið niður vegna annmarka á sóknaraðild.
Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Markalína jarðarinnar Gíslabæjar annars vegar og jarðanna Akra, Bárðarbúðar og Melabúðar (Hleinarpláss) hins vegar skal dregin úr punkti á sjávarbakka við Eiríkshlein (hnit X=279166; Y=480092) og þaðan beint í túngarð milli Stóruflatar að ofan og Melabúðartraðar að neðan (hnit X=279042; Y=480045) og þaðan beint í punkt fram á bökkum fyrir austan Króarfjöru (hnit X=278609; Y=479018).
Stefnendur, Elín Guðrún Gunnlaugsdóttir, Kristjana Leifsdóttir, Kristján Gunnlaugsson, Kristján Hafsteinn Leifsson, Ólafur Magnússon, Ólína Gunnlaugsdóttir, Vera Roth og Þorvarður Gunnlaugsson, greiði stefndu, Björgu Pétursdóttur, in solidum 600.000 krónur í málskostnað.