Hæstiréttur íslands
Mál nr. 853/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Sértökuréttur
|
|
Mánudaginn 12. janúar 2015 |
|
Nr. 853/2014. |
Egill Hilmar Jónasson (Guðmundur Jónsson hdl.) gegn þrotabúi Reddum öllu ehf. (Elva Dögg Ásudóttir Kristinsdóttir hdl., skiptastjóri) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Sértökuréttur.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu E um að þrotabúi R ehf. yrði gert að afhenda honum tvær bifreiðar. Reisti E kröfu sína á 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. þar sem bifreiðarnar væru í raun hans eign. Með vísan til þess að E hefði ekki sýnt fram á að hann væri eigandi bifreiðanna staðfesti Hæstiréttur úrskurð héraðsdóms.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Eiríkur Tómasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. desember 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. nóvember 2014 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert skylt að afhenda honum bifreiðar með fastanúmerunum RF 798 og ZO 581. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að áðurgreind krafa verði tekin til greina en til vara að viðurkenndur verður réttur hans til greiðslu söluandvirðis bifreiðanna hafi þær verið seldar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Við meðferð málsins í héraði var gætt ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest sú niðurstaða hans að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að hann sé eigandi bifreiða þeirra sem um ræðir í málinu. Verður úrskurðurinn því staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Egill Hilmar Jónasson, greiði varnaraðila, þrotabúi Reddum öllu ehf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. nóvember 2014.
I
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 27. október sl., barst Héraðsdómi Reykjavíkur með bréfi Elvu Daggar Ásudóttur Kristinsdóttur hdl., skiptastjóra varnaraðila, dagsettu 10. apríl sl.
Sóknaraðili er Egill Hilmar Jónasson, Rjúpufelli 48, Reykjavík.
Varnaraðili er þrotabú Reddum öllu ehf., Austurstræti 17, Reykjavík.
Sóknaraðili gerir aðallega þá kröfu að varnaraðila verði gert að afhenda honum Mercedes Benz Sprinter bifreið með fastanúmerinu RF-798 og/eða Mercedes Benz 412D bifreið með fastanúmerið ZO-581 sem eru í vörslum varnaraðila. Til vara krefst sóknaraðili þess að viðurkenndur verði réttur hans til greiðslu söluandvirðis á Mercedes Benz Sprinter bifreið með fastanúmerinu RF-798 og/eða Mercedes Benz 412D bifreið hafi báðar bifreiðar, eða önnur þeirra, verið seld. Jafnframt krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili krefst þess að hafnað verði kröfum sóknaraðila. Jafnframt krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
II
Málavextir
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 8. janúar 2014, var bú varnaraðila tekið til gjaldþrotaskipta og var auglýsing um skiptin birt í Lögbirtingablaði í fyrra skipti þann 20. janúar 2014. Með tölvubréfi lögmanns sóknaraðila, 26. febrúar 2014, var þess krafist að bifreiðarnar Mercedes Benz Sprinter með fastanúmerinu RF-798 og Mercedes Benz 412D með fastanúmerið ZO-581, sem samkvæmt ökutækjaskrá eru eign þrotabúsins, yrðu umskráðar á nafn sóknaraðila. Var á því byggt að raunverulegt eignarhald væri í höndum hans þrátt fyrir hina opinberu skráningu og vísað til tveggja yfirlýsinga því til staðfestingar. Í umræddum yfirlýsingum kemur fram að skráningarskipti hafi verið gerð í bókhaldslegum tilgangi vegna reksturs bifreiðanna en raunverulegt eignarhald þeirra sé í höndum sóknaraðila þar sem hann hafi greitt kaupverð persónulega. Undir yfirlýsingarnar rita seljendur bifreiðanna og sóknaraðili í eigin nafni og fyrir hönd varnaraðila. Hafnaði skiptastjóri kröfu sóknaraðila. Í kjölfarið lagði sóknaraðili fram kröfulýsingu, þar sem krafist var afhendingar bifreiðanna með vísan til 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og til vara var krafist afhendingar söluverðs með vísan til 2. mgr. sama ákvæðis. Með tölvupósti skiptastjóra frá 25. mars 2014 var lögmanni sóknaraðila send kröfulýsingaskrá vegna þrotabús varnaraðila þar sem fram kom að kröfu sóknaraðila var hafnað. Á skiptafundi 27. sama mánaðar lagði sóknaraðili fram mótmæli gegn afstöðu skiptastjóra með vísan til fyrrgreinds auk þess sem því var mótmælt að afstaða skiptastjóra væri of seint fram komin. Á skiptafundinum var ákveðið að vísa ágreiningnum til héraðsdóms.
III
Málsástæður sóknaraðila
Af hálfu sóknaraðila, er til stuðnings aðalkröfu, vísað til þess að hann hafi sannað það með óyggjandi hætti að hann sé eigandi umræddra bifreiða þó að þær hafi verið skráðar á nafn varnaraðila. Vísar hann um það atriði til yfirlýsinga, dags. 1. ágúst 2013, þess efnis að sóknaraðili hafi leigt varnaraðila bifreiðarnar, ótímabundið, og að sóknaraðili hafi greitt fyrir þær sjálfur. Liggi því fyrir fullgildur kaup- og afnotasamningur sem skýri greinilega réttarsamband aðila. Það sé því augljóst að raunverulegur eigandi sé sóknaraðili, sem hafi yfirráð yfir eignunum skv. afnotasamningnum. Eignarréttur hann sé því svo skýr að ekki leiki vafi á að hann eigi rétt á að fá bifreiðarnar afhentar með vísan til 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991.
Sóknaraðili byggir jafnframt á því að höfnun skiptastjóra á kröfu hans í bú varnaraðila hafi ekki verið gild og því teljist hún samþykkt. Sóknaraðili hafi gert sértökukröfu um afhendingu bifreiðanna eða söluverðs þeirra, ef þær væru seldar, með kröfulýsingu þann 20. mars 2014. Skiptastjóri hafi hafnaði kröfunni, án rökstuðnings, með tölvupósti aðeins tveimur dögum fyrir skiptafund. Samkvæmt 2. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991 skuli skiptastjóri tilkynna kröfuhafa um afstöðu sína, ef hann fellst ekki á að viðurkenna kröfu eins og henni var lýst, með minnst viku fyrirvara áður en skiptafundur er haldinn. Þar sem tilkynning hafi ekki borist innan tilskilins frests teljist krafa sóknaraðila samþykkt. Í munnlegum málflutningi vísaði sóknaraðili jafnframt til þess að í greinargerð varnaraðila til dómsins hefði þessari málsástæðu ekki verið mótmælt og teldist hún því óumdeild.
Til stuðnings varakröfu sinni bendir sóknaraðili á að ef önnur eða báðar bifreiðarnar hafa verið seldar krefjist hann viðurkenningar á rétti sínum til greiðslu á söluandvirði þeirra skv. 2. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991.
Málsástæður varnaraðila
Af hálfu varnaraðila er því mótmælt að umræddar bifreiðar séu í raun eign sóknaraðila og að sóknaraðili hafi lánað varnaraðila þær, í bókhaldslegum tilgangi. Yfirlýsingar sem lagðar hafi verið fram af hálfu sóknaraðila sanni ekki eignarhald heldur gerir það einungis opinber skráning, þ.e. í þessu tilfelli skráning sem sóknaraðili hafi sjálfur séð um hjá Samgöngustofu, sem fyrirsvarsmaður Reddum öllu ehf. Bifreiðarnar hafi verið skráðar og notaðar af varnaraðila og séu þær báðar á svokölluðum virðisaukaskattsnúmerum. Varnaraðili bendir á að Tollstjóri líti skráningu ökutækjanna sömu augum enda hafi hann farið fram á nauðungarsölu á bifreiðinni RF-798 vegna skuldar Reddum öllu ehf. við embætti Tollstjóra.
IV
Niðurstaða
Samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 skal afhenda eign eða réttindi í vörslum þrotabús þriðja manni ef hann sannar eignarrétt sinn að þeim. Öðrum rétthöfum skal með sama hætti afhenda eignir eða réttindi sem þrotabúið á ekki tilkall til. Hafi þrotabúið selt eign eða réttindi sem þriðji maður sannar síðar að hafi tilheyrt sér getur hann krafist greiðslu þess sem þrotabúið fékk í hendur við söluna. Sóknaraðili vísar til þess að hann sé réttur eigandi tveggja bifreiða, sem skráðar eru opinberri skráningu sem eign varnaraðila, og beri því að afhenda honum bifreiðarnar eða söluandvirði þeirra með vísan til framangreinds lagaákvæðis.
Sóknaraðili byggir á því að þar sem skiptastjóri hafi ekki tilkynnt honum um afstöðu sína til kröfunnar innan tilskilins frests, sbr. 2. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991, teljist krafan samþykkt. Við mat á þessari málsástæðu er til þess að líta, eins og staðfest var með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 375/2012, að lög standa ekki til þess að athafnaleysi eða mistök skiptastjóra geti leitt til þess að krafa teljist viðurkennd við gjaldþrotaskipti. Taldi rétturinn að annar skilningur væri í andstöðu við málsmeðferðarreglur laga nr. 21/1991 og leiddi t.d. til þess að aðrir kröfuhafar glötuðu rétti sínum til að hafa uppi andmæli við umræddri kröfu. Nær krafa sóknaraðila því ekki fram að ganga á þessum grundvelli og skiptir engu í því samhengi þótt varnaraðili hafi ekki mótmælt sérstaklega þessari málsástæðu hans enda um að ræða lagaatriði sem dómurinn hefur forræði á.
Við skipti á þrotabúum ber að leggja til grundvallar opinbera skráningu eigna um eignarráðin. Hvílir því á sóknaraðila sönnunarbyrði fyrir því að hann sé, þrátt fyrir opinbera skráningu, eigandi bifreiða þeirra sem um ræðir í málinu. Eins og rakið hefur verið liggja fyrir í málinu skriflegar yfirlýsingar þar sem fram kemur að raunverulegt eignarhald bifreiðanna sé í höndum sóknaraðila. Engin gögn eða vitni hafa verið leidd sem varpað geta ljósi á meinta fjármögnun sóknaraðila á bifreiðunum. Ljóst er að umræddar yfirlýsingar, sem eru í andstöðu við tilkynningar þeirra sem undir þær rita til ökutækjaskrár, nægja ekki einar og sér sem sönnun fyrir eignarrétti sóknaraðila að bifreið samkvæmt 109. gr. gjaldþrotaskiptalaga.
Að þessu virtu er það niðurstaða dómsins að ekki sé fram komin sönnun þess að bifreiðarnar sem um er deilt séu eign sóknaraðila. Ber því að hafna aðal- og varakröfu sóknaraðila.
Með vísan til þessara málsúrslita verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila málskostnað, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, sem þykir hæfilega ákveðinn 350.000 kr.
Kolbrún Sævardóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kröfum sóknaraðila, Egils Hilmars Jónassonar, um að varnaraðila, þrotabúi Reddum öllu ehf., verði gert skylt að afhenda honum bifreiðar með fastanúmerunum RF-798 og ZO-581, er hafnað.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 350.000 kr. í málskostnað.