Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-25
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Laun
- Vinnutími
- EES-samningurinn
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.
2. Með beiðni 9. mars 2022 leitar íslenska ríkið leyfis Hæstaréttar til að áfrýja beint til réttarins dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 11. febrúar sama ár í máli nr. E-967/2019: Eyjólfur Orri Sverrisson gegn íslenska ríkinu á grundvelli 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um viðurkenningu þess að nánar tilgreindar vinnustundir sem hann varði í ferðir á vegum vinnuveitanda síns, Samgöngustofu, séu vinnutími í skilningi 1. töluliðar 52. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Undir rekstri málsins var aflað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um nánar tilgreindar spurningar um skýringu á 2. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2003/88/EB frá 4. nóvember 2003 um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma. Álit dómstólsins lá fyrir 15. júlí 2021.
4. Með dómi héraðsdóms var fallist á kröfu gagnaðila að því frátöldu að dreginn var frá tímaskráningu hans tilgreindur tími við ferðir til og frá hefðbundinni starfsstöð. Í dóminum kom fram að ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins væri stutt haldbærum rökum og það lagt til grundvallar við skýringu á vinnutímahugtaki 2. gr. fyrrgreindrar tilskipunar. Með vísan til þess svo og lögskýringargagna komst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að ferðatími gagnaðila væri vinnutími í skilningi 1. töluliðar 52. gr. laga nr. 46/1980.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að niðurstaða málsins sé fordæmisgefandi, hafi almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna og verulega samfélagslega þýðingu. Í þeim efnum vísar hann til þess að dómur héraðsdóms breyti áratugalangri framkvæmd með tilheyrandi óvissu auk þess sem um verulega hagsmuni leyfisbeiðanda sé að ræða. Því sé jafnframt nauðsynlegt að fá endanlega niðurstöðu Hæstaréttar með skjótum hætti. Loks vísar leyfisbeiðandi til þess að hann telji ekki þörf á að leiða vitni í málinu og að ekki sé uppi ágreiningur um sönnunargildi munnlegs framburðar sem gefinn var fyrir héraðsdómi.
6. Gagnaðili telur að skilyrði 2. málsliðar 1. mgr. 175. gr. laganna um veitingu áfrýjunarleyfis séu uppfyllt. Komi til þess að veitt verði áfrýjunarleyfi muni hann gagnáfrýja dóminum vegna framangreindrar niðurstöðu héraðsdóms um frádrátt vinnustunda. Hann tekur fram að af þeirri ástæðu sé þörf á að taka aðila- og vitnaskýrslur við meðferð málsins á málskotsstigi í tengslum við sönnunarfærslu sem lýtur að framangreindri niðurstöðu héraðsdóms.
7. Samkvæmt 3. málslið 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 skal ekki veita leyfi til að áfrýja dómi héraðsdóms beint til Hæstaréttar ef málsaðili telur þörf á að leiða vitni í málinu eða enn er uppi ágreiningur um sönnunargildi munnlegs framburðar sem gefinn var fyrir héraðsdómi. Eins og að framan greinir telur gagnaðili þörf á að leiða vitni við meðferð málsins á málskotsstigi. Þegar af þeirri ástæðu er beiðninni hafnað.