Hæstiréttur íslands
Mál nr. 48/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Gagnaöflun
- Vitni
- Kæruheimild
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Miðvikudaginn 29. janúar 2014. |
|
Nr. 48/2014.
|
Glitnir hf. (Ólafur Eiríksson hrl.) gegn Atorku Group hf. (Jón Ögmundsson hrl.) |
Kærumál. Gagnaöflun. Vitni. Kæruheimild. Frávísun frá Hæstarétti.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem tekin var til greina beiðni A hf. um að leiða tvö nafngreind vitni fyrir héraðsdóm til skýrslugjafar. Í dómi Hæstaréttar kom fram að samkvæmt e. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála væri heimilt að kæra til Hæstaréttar úrskurði héraðsdóms þar sem synjað hefði verið um heimild til að afla sönnunargagna fyrir öðrum dómi. Af orðum þessa lagaákvæðis leiddi að heimild brysti til að kæra úrskurð héraðsdóms þar sem beiðni um gagnaöflun sem þessa hefði verið tekin til greina. Var málinu vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. janúar 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. janúar 2014, þar sem tekin var til greina beiðni varnaraðila um að leiða tvö nafngreind vitni fyrir héraðsdóm til skýrslugjafar. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til b. liðar 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hann krefst þess að beiðni varnaraðila verði hafnað og sér dæmdur málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurður og kærumálskostnaðar.
Mál þetta á rætur að rekja til þess að dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur 17. maí 2013 í máli, sem sóknaraðili höfðaði á hendur varnaraðila, og hefur sá síðarnefndi áfrýjað þeim dómi. Í tengslum við það leitaði varnaraðili með beiðni 12. nóvember 2013 eftir því að fá að leiða tvo nafngreinda menn fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur til að gefa skýrslur til afnota í málinu. Í beiðninni var réttilega vísað til 76. gr. laga nr. 91/1991 sem stoð fyrir henni. Sóknaraðili tók til andmæla gegn beiðninni, en með hinum kærða úrskurði var hún sem áður segir tekin til greina.
Samkvæmt e. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 er heimilt að kæra til Hæstaréttar úrskurð héraðsdóms, þar sem synjað hefur verið um heimild til að afla sönnunargagna fyrir öðrum dómi. Sú kæruheimild lýtur meðal annars að slíkri gagnaöflun, sem um ræðir í 1. mgr. 76. gr. laganna. Af orðum þessa lagaákvæðis leiðir að heimild brestur til að kæra úrskurð héraðsdóms, þar sem beiðni um gagnaöflun sem þessa hefur verið tekin til greina. Samkvæmt þessu verður málinu vísað frá Hæstarétti.
Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af kærumáli þessu.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. janúar 2014.
Með beiðni, móttekinni í Héraðsdómi Reykjavíkur 12. nóvember 2013, óskaði sóknaraðili, Atorka Group hf., Suðurlandsbraut 18, Reykjavík eftir því að skýrsla yrði tekin af vitnunum Gunnari V. Engilbertssyni, kt. [...], Lækjargötu 4, Reykjavík og Halldóri Bjarkari Lúðvígssyni, kt. [...], Þinghólsbraut 47, Kópavogi.
Við þingfestingu málsins 25. nóvember 2013 mótmælti varnaraðili, Glitnir hf., Sóltúni 26, Reykjavík, því að umbeðin skýrslutaka færi fram.
Sóknaraðili krefst þess að beiðni hans nái fram að ganga. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili krefst þess að beiðni sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
Málið var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 2. desember 2013.
Efni beiðni sóknaraðila
Sóknaraðili rekur í beiðni sinni að hann sé aðili að hæstaréttarmáli nr. 542/2013, gegn varnaraðila. Málinu hafi verið áfrýjað til Hæstaréttar Íslands 14. ágúst 2013. Sóknaraðili fari fram á að teknar verði skýrslur af Gunnari V. Engilbertssyni, kt. [...], Lækjargötu 4, Reykjavík og Halldóri Bjarkari Lúðvígssyni, kt. [...], Þinghólsbraut 47, Kópavogi. Vitnisburðir þessara manna hafi þá þýðingu að bera um samskipti sóknaraðila við varnaraðila í tengslum við þá málsástæðu að samningar aðila hafi fallið niður sökum riftunar af hálfu varnaraðila. Í niðurstöðu héraðsdóms hafi verið byggt á tómlæti sóknaraðila í því sambandi. Beiðnin sé sett fram með vísan til 76. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður sóknaraðila
Við munnlegan flutning málsins sagði lögmaður sóknaraðila að tilgangur umbeðinnar vitnaleiðslu sé að hnekkja fullyrðingum þess efnis að hann hafi tapað kröfum á hendur varnaraðila vegna tómlætis, sem og að hnekkja þeirri staðhæfingu að riftun hafi ekki verið sett fram fyrr en í greinargerð. Þeir menn sem beðið sé um að teknar verði skýrslur af, hafi tekið þátt í samningaviðræðum milli aðila málsins um uppgjör á gjaldeyrisskiptasamningum og geti borið um málsatvik. Rangt sé að Gunnar V. Engilbertsson hafi verið starfsmaður varnaraðila, heldur hafi hann verið starfsmaður sóknaraðila. Því hafi verið haldið fram árið 2010 að samningar aðila væru óskuldbindandi. Því þurfi að skýra betur samskipti aðila. Sóknaraðili hafnar því að umræddir menn geti ekkert borið um riftun. Halldór Bjarkar Lúðvígsson hafi tekið sæti í stjórn sóknaraðila þegar viðræður hafi staðið yfir.
Sameiginlegur frestur til gagnaöflunar hafi verið veittur til 13. nóvember 2013. Lögmaður sóknaraðila hafi verið staddur erlendis til 10. nóvember s.á. og hafi Hæstiréttur Íslands veitt lengri frest til 27. nóvember 2013. Varnaraðili hafi fyrst mótmælt beiðni sóknaraðila um skýrslutökur með tölvuskeyti til dómarans. Því hafi sóknaraðili beðið um lengri frest en því hafi varnaraðili hafnað. Sóknaraðili hafi áskilið sér rétt til frekari skýrslutaka í greinargerð sinni til Hæstaréttar. Varnaraðili hafi fyrst hreyft málsástæðu um tómlæti í málflutningsræðu í héraði.
Sóknaraðili vísar til þess að hann hafi forræði á sönnunarfærslu sinni. Sóknaraðili mótmælir því að umbeðin gagnaöflun sé tilgangslaus þar sem frestur til gagnaöflunar sé liðinn. Þá sé beiðni sóknaraðila ekki of seint fram komin, enda hafi beiðnin komið fram fyrir lok frests til gagnaöflunar. Sóknaraðili segir að í bréfi Hæstaréttar komi ekkert efnislegt fram. Ekki skipti máli hvaða ákvörðun hafi verið tekin í héraði um skýrslutökur. Þá geti varnaraðili einnig beðið um skýrslutökur af vitnum.
Málsástæður varnaraðila
Varnaraðili fullyrðir að sóknaraðili verði að sýna fram á að samþykki beiðni hans muni ekki tefja meðferð málsins fyrir Hæstarétti Íslands. Að auki verði sóknaraðili að sýna fram á að skýrslutökurnar hafi þýðingu við málarekstur milli aðila og að þeir einstaklingar sem sóknaraðili ætli að kalla fyrir dóminn geti talist vitni um málsatvik.
Varnaraðili telur að hafna beri kröfu sóknaraðila í fyrsta lagi með vísan til þess að Hæstiréttur hafi nú þegar ákveðið að framlengja ekki gagnaöflunarfrest í máli milli aðila sem rekið er fyrir Hæstarétti. Skýrslutaka yfir umræddum tveimur einstaklingum sé þegar af þeirri ástæðu tilgangslaus, enda komi sóknaraðili vitnisburði þeirra ekki að sem hluta málsgagna fyrir Hæstarétti.
Í öðru lagi geri þetta sama atriði það að verkum að Hæstiréttur hafi nú þegar tekið afstöðu til þess að annars vegar tefði það málið of mikið að heimila aukinn gagnaöflunarfrest og hins vegar hefðu skýrslutökur yfir umræddum aðilum ekki áhrif á málið, enda hefði rétturinn þá væntanlega samþykkt aukinn gagnaöflunarfrest.
Varnaraðili byggir í þriðja lagi á því að málsmeðferð í héraði sé lokið, þar með talið töku skýrslna af vitnum. Aðilar hafi í sameiningu ákveðið að leiða engin vitni fyrir dóm. Það liggi í hlutarins eðli að boðun eins aðila dómsmáls á vitni fyrir dóm kunni að leiða til þess að hinn aðilinn kjósi að leiða annan einstakling fyrir dóm. Það fari eftir því hvað umrædd vitni eigi að bera vitna um. Ekkert nýtt sé fram komið í málinu síðan sú ákvörðun hafi verið tekin að leiða engin vitni fyrir dóm. Dómur í málinu hafi verið kveðinn upp á grundvelli fyrirliggjandi gagna og málflutnings beggja aðila. Sóknaraðili beri hallann af því að hafa kosið að taka ekki skýrslu af vitnum við aðalmeðferð málsins, enda ekkert því til fyrirstöðu að gera það á þeim tíma og fjarri því að tilefni hafi orðið á síðari tímapunkti til þess að kveða umrædda einstaklinga fyrir dóm sem vitni.
Í fjórða lagi eigi, samkvæmt erindi sóknaraðila til héraðsdóms, að kalla umrædda menn fyrir dóm til að bera um samskipti sóknaraðila við varnaraðila í tengslum við málsástæðu sóknaraðila þess efnis að varnaraðili hafi einhliða rift samningum aðila með bréfi, dags. 27. október 2008. Umrædd málsástæða hafi verið í greinargerð sóknaraðila fyrir héraðsdómi. Ætti því ekki að koma á óvart að hann yrði að sanna þá málsástæðu fyrir héraðsdómi, hvort sem er með framlagningu gagna eða vitnaskýrslum.
Halldór Bjarkar Lúðvígsson hafi ekki tekið sæti í stjórn sóknaraðila fyrr en árið 2010. Hann hafi því ekki verið í neinum samskiptum við varnaraðila fyrr en eftir það tímamark og þá eftir að nauðasamningar sóknaraðila voru samþykktir án þess að einu orði hefði verið minnst á meinta einhliða riftun varnaraðila á samningum aðila. Hann hafi því ekki getað verið í samskiptum við varnaraðila fyrir hönd sóknaraðila er meint riftun eigi að hafa verið send. Hann sé því ekki vitni um málsatvik. Gunnar V. Engilbertsson hafi verið starfsmaður varnaraðila, en þó ekki fyrr en eftir 15. desember 2008. Hann hafi því ekki verið í neinum samskiptum við sóknaraðila í kjölfar meintrar riftunar. Hann sé því ekki heldur vitni um málsatvik. Báðir þessir menn hafi þó sest í stjórn sóknaraðila á árinu 2010, Gunnar fyrir varnaraðila og Halldór fyrir Arion banka hf. Eftir starfslok sín hjá varnaraðila hafi Gunnar starfað fyrir sóknaraðila. Báðir þeir einstaklingar sem sóknaraðili vilji kalla fyrir dóm séu því í dag í starfi og/eða verkefnavinnu fyrir sóknaraðila.
Verði orðið við beiðni sóknaraðila um skýrslutökur fyrir dómi séu allar líkur á því að slíkt gæfi tilefni til þess að varnaraðili kallaði fyrir dóm þá starfsmenn beggja aðila er hafi verið í raunverulegum samskiptum, bæði fyrir og eftir október 2008. Ljóst sé að það hafi ekki verið þeir menn sem sóknaraðili vilji kalla fyrir dóm. Aðalmeðferð málsins hefði farið fram með allt öðrum hætti en raun bar vitni ef varnaraðili hefði kosið að leiða umrædda menn fyrir dóm. Þetta hafi lögmenn aðila rætt í byrjun árs og komist að því að ekki væri þörf á vitnaskýrslum. Það fari því fjarri að nú fyrst hafi verið tilefni til þess að kalla umrædda menn fyrir dóm. Bakþankar sóknaraðila geri það ekki að verkum að fallast eigi á kröfu hans. Samþykki á beiðni sóknaraðila muni tefja mál aðila verulega.
Í fimmta lagi sé beiðni sóknaraðila um skýrslutöku umræddra manna fyrir dómi sé of seint fram komin að teknu tilliti til þess hvenær dómur héraðsdóms var kveðinn upp. Sóknaraðila hefði átt að vera ljóst í síðasta lagi við dómsuppkvaðningu að tómlæti hans hefði áhrif á málið. Greinargerð sóknaraðila til Hæstaréttar sé dagsett 24. september 2013, eða rúmum fjórum mánuðum eftir að dómur héraðsdóms lá fyrir. Hægur leikur hefði verið fyrir sóknaraðila að kveða umrædda menn fyrir dóm áður en greinargerð hans var skilað svo varnaraðila hefði gefist kostur á að meta hvort þörf væri á frekari sönnunarfærslu í tilefni slíkra vitnaskýrslna. Sóknaraðili verði að bera hallann af því, enda ljóst að greinargerð varnaraðila og farvegur málsins fyrir Hæstarétti kynni að hafa verið annar ef umræddar skýrslutökur hefðu legið fyrir á fyrri tímapunkti. Samþykkt skýrslutaka tefji því mál aðila verulega.
Með vísan til alls framangreinds telur varnaraðili að hafna beri kröfu sóknaraðila um að kalla fyrir dóminn umrædda tvo menn.
Varnaraðili vísar til XI. kafla laga nr. 91/1991, sbr. VII. til X. kafla sömu laga.
Niðurstaða
Dómur féll í héraði í máli aðila 17. maí 2013. Sóknaraðili áfrýjaði dóminum til Hæstaréttar Íslands 14. ágúst 2013. Málið er nr. 542/2013 í málaskrá réttarins. Fyrir liggur að aðilar málsins fengu sameiginlegan frest til gagnaöflunar frá 24. október 2013 til 13. nóvember s.á., sem var framlengdur frá þeim degi til 27. nóvember s.á. Sóknaraðili mun hafa óskað eftir framlengingu á frestinum með bréfi til Hæstaréttar, dags. 21. nóvember 2013. Varnaraðili sendi réttinum bréf af því tilefni, dags. 22. nóvember s.á., og fór fram á að beiðni sóknaraðila um lengri frest yrði hafnað. Með bréfi Hæstaréttar, dags. 25. nóvember s.á., var beiðni sóknaraðila hafnað.
Samkvæmt 1. mgr. 160. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála eiga aðilar máls fyrir Hæstarétti rétt á sameiginlegum fresti til gagnaöflunar þegar stefndi hefur skilað greinargerð og málsgögnum til Hæstaréttar, nema aðilar hafi þegar lýst gagnaöflun lokinni. Fram kemur í lokamálslið málsgreinarinnar að Hæstiréttur geti heimilað aðila að leggja fram ný gögn eftir lok gagnaöflunar að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Af þessu leiðir að ekki er hægt að slá því föstu að sóknaraðili geti ekki lagt fram þau sönnunargögn sem hann óskar eftir að afla. Það er Hæstaréttar að meta hvort þau gögn komist að við meðferð máls aðila, en ekki héraðsdóms. Því verður ekki á það fallist að umbeðnar skýrslutökur séu bersýnilega tilgangslausar, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Ekki er heldur unnt að fallast á það með varnaraðila að Hæstiréttur hafi, með því að synja sóknaraðila um lengdan frest til gagnaöflunar, tekið afstöðu til umbeðinnar gagnaöflunar sóknaraðila, enda kemur engin slík afstaða fram í bréfi réttarins, dags. 25. nóvember 2013.
Það leiðir af tilvísun 1. mgr. 76. gr. laga nr. 91/1991 til 75. gr. sömu laga að heimild 76. gr. verður beitt m.a. til að taka vitnaskýrslur í tengslum við rekstur máls fyrir Hæstarétti. Sóknaraðili telur nú þörf á sönnunarfærslu, sem hann taldi áður óþarfa. Verður ekki fallist á að fyrri afstaða hans í þessum efnum hafi falið í sér bindandi ráðstöfun sakarefnisins. Ræður heldur ekki úrslitum um heimild hans til að afla gagna nú þótt hann hafi átt þess kost á fyrri stigum að hlutast til um að skýrslur yrðu teknar af umræddum mönnum, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 98/2001. Af 1. mgr. 160. gr. og 1. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 leiðir einnig að það er Hæstaréttar að meta sönnunargildi og þýðingu nýrra sönnunargagna sem lögð eru fyrir réttinn. Það er því Hæstaréttar að meta hvort framburður umræddra vitna snúist um málsatvik, en ekki héraðsdóms, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 746/2013. Loks getur ekki skipt máli sú afstaða varnaraðila að skýrslutökur sóknaraðila kalli á frekari skýrslutökur af hálfu varnaraðila.
Í samræmi við framangreint verður að taka beiðni sóknaraðila til greina.
Eftir þessum úrslitum verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila málskostnað sem þykir, eftir atvikum og með hliðsjón af umfangi málsins, vera hæfilega ákveðinn 80.000 krónur.
Ásbjörn Jónasson, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð. Vegna mikilla anna dómarans hefur uppkvaðning úrskurðarins dregist fram yfir lögbundinn frest, en dómari og lögmenn aðila töldu endurflutning óþarfan.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Beiðni sóknaraðila, Atorku Group hf., um að leiða fyrir dóm vitnin Gunnar V. Engilbertsson, kt. [...], Lækjargötu 4, Reykjavík og Halldór Bjarkar Lúðvígsson, kt. [...], Þinghólsbraut 47, Kópavogi, er tekin til greina.
Varnaraðili, Glitnir hf., greiði sóknaraðila 80.000 krónur í málskostnað.