Hæstiréttur íslands

Mál nr. 269/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Framsal sakamanns
  • Sératkvæði


         

Mánudaginn 26. maí 2008.

Nr. 269/2008.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir, vararíkissaksóknari)

gegn

X

(enginn)

 

Kærumál. Framsal sakamanns. Sératkvæði.

Úrskurður héraðsdóms, um að staðfesta ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 9. apríl 2008 um að framselja varnaraðila til Póllands, var felld úr gildi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. maí 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. maí 2008, þar sem staðfest var ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 9. apríl 2008 um að framselja varnaraðila til Póllands. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

I

Hinn 9. október 2007 barst dóms- og kirkjumálaráðuneytinu beiðni frá Póllandi um framsal varnaraðila. Ráðuneytið framsendi ríkissaksóknara erindið 10. sama mánaðar til frekari málsmeðferðar en samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum ber ríkissaksóknara að sjá til þess að nauðsynleg rannsókn fari fram. Um framkvæmd rannsóknar slíks máls skal fara samkvæmt reglum um meðferð opinberra mála eftir því sem við á, sbr. 3. mgr. sömu lagagreinar. Hinn 12. október 2007 sendi ríkissaksóknari erindið til lögreglustjórans á Akranesi, þar sem varnaraðili var búsettur. Óskað var eftir að honum yrði kynnt framsalsbeiðnin og leitað eftir afstöðu hans til hennar. Einnig skyldi kynna honum að ríkissaksóknari hygðist „veita dómsmálaráðuneytinu umsögn um hvort uppfyllt [væru] skilyrði framsals“, og ef ráðuneytið féllist á framsal gæti hann krafist úrskurðar Héraðsdóm Reykjavíkur um hvort skilyrði laga fyrir framsali væru uppfyllt og að þá ætti hann „þess kost að fá skipaðan verjanda í því skyni.“

Lögreglan á Akranesi kynnti framsalskröfuna fyrir varnaraðila 2. nóvember 2007. Er bókað að honum séu kynnt þau atriði sem hér voru rakin og fram koma í bréfi ríkissaksóknara, þar með talið réttur til að fá sér skipaðan verjanda fyrir héraðsdómi. Síðan er bókað: „X er kynnt efni skýrslutökunnar sbr. 2. gr. (svo) l. nr. 19/1991 og er honum kynntur réttur hans til þess að fá sér tilnefndan/skipaðan verjanda sbr. 1. mgr. 36. gr. sömu laga og að honum sé óskylt að tjá sig um sakarefnið.“ Afstaða varnaraðila til leiðbeininga um að hann gæti ráðfært sig við lögmann við fyrirtöku málsins hjá lögreglu var ekki bókuð. Á hinn bóginn kemur í lok lögregluskýrslunnar fram sú afstaða hans, að verði sú ákvörðun tekin að framselja hann þá óski hann eftir úrskurði dómara, og komi til þess þá óski hann eftir því að honum verði skipaður verjandi. Bókuð er jafnframt afstaða hans til framsalskröfunnar, skýringar hans og persónulegir hagir. Síðan er bókað að hann mótmæli því að verða framseldur. Sýslumaðurinn á Akranesi endursendi síðan málið til ríkissaksóknara 8. sama mánaðar með þeirri athugasemd að varnaraðila hefði verið kynnt krafan og gögn sem henni fylgdu „auk þess sem aflað var afstöðu hans til framsalsins.“

Í umsögn ríkissaksóknara til dómsmálaráðuneytisins 13. nóvember 2007 er talið að skilyrðum til framsals sé fullnægt með vísan til 1. og 2. mgr. 3. gr., 9. gr. og 1. til 3. mgr. 12. gr. laga nr. 13/1984. Í ákvörðun ráðuneytisins 9. apríl 2008 um að leyfa framsal byggir á sömu lagaákvæðum. Lögreglustjórinn á Akranesi kynnti varnaraðila ákvörðun ráðuneytisins 29. sama mánaðar. Enginn lögmaður var viðstaddur. Bókuð voru mótmæli hans við ákvörðuninni og að hann krefðist úrskurðar héraðsdóms og að hann óskaði eftir því að verða skipaður verjandi. Síðan er bókað að varnaraðili staðfesti framburð sinn frá 2. nóvember 2007 og hafi engu við að bæta og honum sé „ítrekað kynntur frestur sá er hann hefur í málinu, þ.e. einn sólarhringur.“ Innan þess frests krafðist lögmaður fyrir hans hönd að málið yrði sent Héraðsdómi Reykjavíkur til úrskurðar um „hvort skilyrði fyrir framsali séu fyrir hendi.“

II

Við fyrirtöku málsins í héraðsdómi 9. maí 2008 gerði verjandi munnlega grein fyrir kröfum varnaraðila og málsástæðum. Þær eru ekki bókaðar, en í forsendum hins kærða úrskurðar er meðal annars fjallað um 7. gr. laga nr. 13/1984 og komist að þeirri niðurstöðu að ekki þættu „efni til að hnekkja því mati“ dóms- og kirkjumálaráðuneytis að mannúðarástæður mæltu ekki gegn framsali.

Samkvæmt 14. gr. laga nr. 13/1984 getur sá, sem óskað er framsals á, krafist úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur „um hvort skilyrði laga fyrir framsali séu fyrir hendi.“ Skýra ber ákvæði þetta svo, í ljósi 2. og 60. gr. stjórnarskrárinnar svo og orðalags 2. málsl. 2. mgr. 14. gr. laga 13/1984, að dómstólar endurskoði gildi ákvörðunar dóms- og kirkjumálaráðuneytis um framsal meðal annars á grundvelli þess hvort skilyrðum laga sé fullnægt fyrir framsalinu enda séu réttarfarsskilyrði uppfyllt. Af ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 9. apríl 2008 verður ekki ráðið að ráðuneytið hafi tekið afstöðu til þess hvort skilyrði væru til þess að synja um framsal þar sem mannúðarástæður mæltu gegn því, sbr. 7. gr. laga nr. 13/1984. Þar sem ráðuneytið hefur ekki tekið afstöðu til þessa úrlausnarefnis í ákvörðun sinni eru ekki fyrir hendi skilyrði til þess að dómstólar leggi dóm á þessa málsástæðu.

Af gögnum um meðferð málsins, sem hér hefur verið lýst, verður ekki með vissu ráðið að varnaraðili hafi skilið leiðbeiningar lögreglu um rétt hans til að hafa samband við lögmann, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga nr. 19/1991, við meðferð málsins hjá lögreglu. Í lögregluskýrslu er hvorki skráð að hann hafði þegið þetta boð eða hafnað. Þar sem varnaraðili naut ekki aðstoðar lögmanns við fyrirtekt málsins hjá lögreglu voru óskir hans um synjun á framsali á grundvelli 7. gr. laga nr. 13/1984 ekki skráðar í gögn málsins og komu ekki til úrlausnar hjá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Mikilvæg réttindi eru í húfi fyrir mann sem krafist er framsals á og augljósir hagsmunir tengdir því að fá aðstoð lögmanns á frumstigi. Þar sem ekki er hægt að útiloka að þetta hafi haft áhrif á niðurstöðu málsins verður ekki hjá því komist að ógilda úrskurð dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.

Dómsorð:

Ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 9. apríl 2008 um að framselja X er felld úr gildi.

 

Sératkvæði

Jóns Steinars Gunnlaugssonar

Í 3. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna koma fram skilyrði þess að heimila megi framsal manns frá Íslandi. Í 1. mgr. 3. gr. segir meðal annars: „Framsal á manni er aðeins heimilt ef verknaður eða sambærilegur verknaður getur varðað fangelsi í meira en 1 ár samkvæmt íslenskum lögum.“ Texta ákvæðisins má túlka á tvo vegu um skilyrði þess að stjórnvöldum sé unnt að heimila framsal, sbr. dóm Hæstaréttar 10. desember 2007 í máli nr. 634/2007. Annars vegar á þá lund að meta þurfi, óháð refsiramma viðeigandi refsiákvæðis, hver líkleg niðurstaða um refsingu yrði að íslenskum lögum fyrir þann verknað sem framsalsbeiðni er reist á. Hins vegar er sá skýringarkostur að miða skuli við refsiramma viðkomandi íslensks refsiákvæðis sem verknaður varðar við, þannig að öll brot gegn ákvæðum íslenskra laga, er hafa að geyma a.m.k. eins árs fangelsi sem efri mörk refsiramma, geti hlutrænt séð orðið tilefni framsals að öðrum skilyrðum uppfylltum. Dómstólum ber að gæta að því án kröfu hvort skilyrðum lagaákvæðisins fyrir framsali sé fullnægt.

Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. stjórnarskrárinnar skal birta lög. Þá er það undirstöðuregla íslenskrar stjórnskipunar að stjórnvöld eru bundin af lögum við sýslan sína. Í þessari reglu, sem almennt er nefnd lögmætisreglan, felst annars vegar að ákvarðanir stjórnvalds verða að eiga stoð í lögum og hins vegar að þær mega ekki vera í andstöðu við lög. Þýðingarmikill kjarni reglunnar er fólginn í því að stjórnvöld geta ekki íþyngt mönnum með ákvörðunum sínum nema hafa til þess viðhlítandi heimildir í lögum. Við skýringu á valdheimildum stjórnvalda er almennt á því byggt að því tilfinnanlegri eða meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun er þurfi að gera strangari kröfur til þess að lagaheimild sem ákvörðun er reist á sé skýr. Séu uppi tveir kostir við skýringu á texta lagaheimildar skuli velja þann sem hagkvæmari er þeim manni sem valdbeiting stjórnvalds beinist að.

Ákvæði laga nr. 13/1984 hafa að geyma ýmis skilyrði sem uppfylla verður til að heimila stjórnvöldum framsal einstaklinga. Er meðal annars ljóst að lögin ganga út frá því að alvarleiki brots sem framsalsbeiðni er reist á skipti máli þegar afstaða er tekin til hennar. Eðli málsins mælir með því að þá beri að meta brotið sjálft sem um ræðir og alvarleika þess fremur en refsiramma þess lagaákvæðis sem brot varðar við að íslenskum lögum. Texti ákvæðisins bendir að mínu áliti mjög ákveðið til hins sama, þar sem orðið verknaður getur ekki vísað til annars en þess tiltekna verknaðar sem framsalsþola er gefið að sök að hafa drýgt en ekki tegundar hans. Ef miðað væri við refsirammann, en ekki ætlaða refsingu fyrir brotið sjálft, myndi það leiða til mismunandi afgreiðslu á tveimur málum, þar sem brot yrði talið varða sömu refsingu hér á landi, ef annað brotanna ætti undir lagaákvæði með víðum refsiramma en hitt undir lagaákvæði með þröngum. Sú skýring á ákvæðinu myndi leiða til þess að heimilt yrði talið að framselja menn vegna smávægilegra brota, aðeins ef þau teldust að íslenskum lögum falla undir refsiákvæði með víðum refsiramma. Svo dæmi sé tekið mætti verða við beiðni um framsal manns sem væri sakaður um smáhnupl, í landinu sem framsals beiðist, einungis vegna þess að brotið yrði heimfært undir þjófnaðarákvæði 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þar sem refsirammi er 6 ár. Hins vegar mætti ekki framselja mann sem sakaður væri um líkamsárás, sem talin væri falla undir fyrri málslið 1. mgr. 217. gr. sömu laga, þar sem refsiramminn þar er einungis sex mánuðir. Þegar höfð er í huga stjórnskipuleg jafnræðisregla sem gildir hér á landi, meðal annars með vísan til 65. gr. stjórnarskráinnar, bendir eðli málsins mjög sterklega til þess að við skýringu á 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 eigi að miða við mat á því til hverrar refsingar framsalsþoli telst hafa unnið að íslenskum lögum með því broti sem tilgreint er í framsalsbeiðni en ekki refsiramma. Einnig er ljóst að standi vilji löggjafans til þess að efni lagareglunnar sé með þeim hætti sem sóknaraðili vill miða við, er engum vandkvæðum bundið að kveða skýrt á um það í sjálfum lagatextanum sem birtur er almenningi. Það getur að mínu áliti ekki verið hlutverk dómstóla að gefa tvíræðum lagatexta þá merkingu, borgurum til íþyngingar, sem kann að hafa vakað fyrir löggjafanum við lagasetningu en ekki hefur tekist að orða með skýrum hætti. Að frekari sjónarmiðum sem varða skýringu á þessu lagaákvæði er vikið í sératkvæði, sem ég átti aðild að, í dómi Hæstaréttar 10. desember 2007 í máli nr. 634/2007. Vísast til þeirra.

Í máli þessu er til meðferðar stjórnvaldsákvörðun sem telst afar íþyngjandi fyrir varnaraðila Brotið sem tilgreint er í framsalsbeiðni er minni háttar þjófnaðarbrot sem hér á landi yrði talið varða að mun vægari refsingu en eins árs fangelsi. Getur það því ekki orðið grundvöllur framsals samkvæmt þeim sjónarmiðum um skýringu á 3. gr. laga nr. 13/1984, sem að framan greinir. Tel ég þegar af þessari ástæðu að taka beri til greina kröfu varnaraðila um að fella hinn kærða úrskurð úr gildi og er því sammála dómsorði meirihlutans.

 

                       Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. maí 2008.

Mál þetta var tekið til úrskurðar 9. maí 2008.

Hinn 9. apríl 2008 féllst dómsmálaráðherra á beiðni pólskra dómsmálayfirvalda um að framselja sóknaraðila, X.  Var þeirri niðurstöðu komið á framfæri við sóknaraðila hinn 29. apríl 2008 og krafðist hann þess að málið yrði borið undir Héraðsdóm Reykjavíkur, með bréfi til ríkissaksóknara, dagsettu sama dag.  Ríkissaksóknari kom þeirri kröfu á framfæri við dóminn 6. maí sl.

Dómkröfur sóknaraðila eru að fyrrgreind ákvörðun dómsmálaráðherra, frá 9. apríl sl., verði felld úr gildi.  Þá er krafist málsvarnarlauna úr ríkissjóði.

Dómkröfur varnaraðila eru þær, að staðfest verði fyrrgreind ákvörðun dómsmálaráðherra frá 9. apríl 2008.

                                               II

Sóknaraðili er pólskur ríkisborgari, fæddur [dags.]. 

Með bréfi dómsmálaráðuneytisins, dagsettu 10. október 2007, til ríkissaksóknara, kom fram að ráðuneytinu hafi borist beiðni pólskra dómsmálayfirvalda um framsal X, kt. [...], pólsks ríkisborgara, sem búsettur er að [heimilisfang].  Framsalsbeiðninni hafi fylgt afrit ákæru héraðssaksóknara í Bialystok, útgefinni 29. nóvember 2005, á hendur varnaraðila fyrir þjófnaðarbrot, en honum er gefið að sök að hafa, hinn 22. júlí 2005, í félagi við nafngreindan mann, brotist inn í tilgreint íbúðarhús í Bialystok og stolið þaðan tölvu og tölvubúnaði að verðmæti um 3.000 zloty (100.692 íslenskar krónur).  Framsalsbeiðninni hafi einnig fylgt handtökuskipun, útgefin af Héraðsdómi Biolystok, dagsett 14. mars 2006, auk endurrits hlutaðeigandi refsiákvæða. Lögreglustjórinn á [...] kynnti varnaraðila framsalsbeiðnina 2. nóvember sl., og mótmælti hann framsalskröfunni.

Að fenginni umsögn ríkissaksóknara, með bréfi dagsettu 13. nóvember sl., um að uppfyllt væru skilyrði framsals, samkvæmt I. kafla laga nr. 13/1984, ákvað dómsmálaráðherra hinn 9. apríl sl., að fallast á beiðni pólskra dómsmálayfirvalda um að framselja sóknaraðila.

Lögreglustjórinn á [...] kynnti sóknaraðila ákvörðunina hinn 29. apríl sl.  Með bréfi, sem barst ríkissaksóknara sama dag krafðist sóknaraðili úrskurðar héraðsdóms um hvort skilyrði laga um framsal væru fyrir hendi.

 Um skilyrði framsals samkvæmt I. kafla laga nr. 13/1984 vísar varnaraðili til áðurnefndrar umsagnar ríkissaksóknara.  Jafnframt þyki fullnægt skilyrðum II. kafla laganna um form framsalsbeiðninnar.  Af hálfu íslenska ríkisins sé málinu vísað til Héraðsdóms Reykjavíkur, sbr. staflið e 2. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, og II. kafla laga nr. 13/1984.

                                               III

Sóknaraðili byggir á því að hafna beri framsalsbeiðninni á grundvelli 7. gr. laga nr. 13/1984, vegna sérstakra persónulegra aðstæðna hans.  Sóknaraðili byggir á því, að hann hafi aðeins verið 18 ára er brot það hafi verið framið sem honum sé gefið að sök.  Brot þetta hafi verið léttvægt og hann hafi verið með hreint sakavottorð á þeim tíma.  Hann kveðst vera saklaus, en hafa verið neyddur til þess að skrifa undir játningu.  Hann sé nú 21 árs og stundi hér vinnu og standi sig þar vel.  Allir ættingjar hans, m.a. foreldrar, búi hér á landi.  Hann hafi búið hér í rúm tvö ár og hafi ekki lengur neitt samband við föðurlandið.  Stríði það því gegn fyrrgreindu lagaákvæði að framselja hann til Póllands.

Varnaraðili vísar til þeirra raka sem fram koma í bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, að háttsemi sú sem sóknaraðila sé gefin að sök myndi hér á landi varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og gæti samkvæmt því varðað fangelsi allt að 6 árum, og að brotin séu ófyrnd, sbr. 3. tl. 1. mgr. 81. gr.  Að því leyti sé skilyrðum 1. og 2. mgr. 3. gr., 9. gr. og 1.-3. mgr. 12. gr. laga nr. 13/1984, um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, fullnægt.  Málum á hendur sóknaraðila, sem verið hafi til meðferðar hér á landi vegna brota á umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni, sé nú lokið og engin mál séu nú til meðferðar á hendur honum.  Samkvæmt þessu sé fullnægt skilyrðum framsals, samkvæmt lögum nr. 13/1984.

                                               IV

Í 1. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum kemur fram að heimilt sé að framselja mann, ef hann er í erlendu ríki grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað.  Í framsalsbeiðni pólskra yfirvalda kemur fram að sóknaraðili sé grunaður um refsiverðan verknað og hefur verið gefin út handtökuskipun á hendur honum, sbr. 1. gr. og 1. og 2. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984. Meint brot sóknaraðila eru ófyrnd, sbr. 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga og geta varðað samkvæmt íslenskum lögum allt að 6 ára fangelsi.  Stendur 9. gr. laga nr. 13/1984 því ekki í vegi fyrir að sóknaraðili verði framseldur. 

Samkvæmt 7. gr. laga nr. 13/1984 má synja um framsal ef mannúðarástæður mæla gegn því, svo sem aldur, heilsufar eða aðrar persónulegar aðstæður.  Dómsmálaráðherra hefur metið aðstæður í þessu máli svo, að slíkar ástæður standi ekki í vegi fyrir framsali sóknaraðila.  Þó svo að sóknaraðili hafi búið hér hátt á þriðja ár, eigi hér fjölskyldu og hafi hér fasta vinnu þykja ekki efni til að hnekkja því mati dómsmálaráðherra, að mannúðarástæður mæli gegn framsali, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands frá 25. febrúar 2005 í málinu nr. 65/2005.  Verður ákvörðunin því ekki felld úr gildi á þessum grundvelli.

Þegar allt framangreint er virt eru uppfyllt skilyrði um framsal sóknaraðila og staðfest ákvörðun dómsmálaráðherra frá 9. apríl 2008, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Þóknun skipaðs réttargæslumanns sóknaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 150.000 krónur, þ.m.t. virðisaukaskattur, greiðist úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984.

Úrskurð þennan kveður upp Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari.

Ú R S KU R Ð A R O R Ð :

Ákvörðun dómsmálaráðherra frá 9. apríl 2008 um að framselja sóknaraðila, X, til Póllands, er staðfest.

Þóknun réttargæslumanns sóknaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, 150.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.