Hæstiréttur íslands

Mál nr. 742/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                     

Föstudaginn 14. desember 2012.

Nr. 742/2012.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

Y

(Grétar Dór Sigurðsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson. 

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. desember 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. desember 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 21. desember 2012 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Hún krefst þess að henni verði ekki gert að sæta einangrun.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. desember 2012.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur úrskurði að kærðu Y, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 21. desember nk. kl. 16. 

Þá er þess krafist að kærða verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi undanfarna mánuði haft til rannsóknar ætluð brot gegn 181. gr., 183. gr.,184. gr. og 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, auk brota á lögum nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, sem fari fram gegnum áhugamannafélagið A og forsvarsmenn þess félags þau X, [...], stjórnarformann A, Y, [...], eiginkonu X og meðstjórnanda í A, Z, [...], meðstjórnanda í A, og B, [...], bróðir X og stofnanda A ásamt framangreindum einstaklingum. Séu kærðu grunuð um að afla sér ávinnings með ólögmætum hætti, þ.e. með því að starfrækja fjárhættuspil í húsnæði félagsins við [...], um langt skeið. Auk framangreindra einstaklinga sé Þ, [...], grunaður um að tengjast félaginu og rekstrinum með beinum hætti.

Lögregla hafi staðfestar upplýsingar um að staðurinn hafi verið opinn flesta daga vikunnar og spilað sé frá kvöldi og langt fram undir næsta morgun. Við rannsókn málsins hafi komið fram upplýsingar um að töluverðar fjárhæðir hafi verið í umferð á spilaborðinu hverju sinni.

Við rannsókn málsins hafi lögregla fengið úrskurð um afléttingu bankaleyndar varðandi fjóra einstaklinga sem grunaðir séu um að standa að starfseminni og A áhugamannafélags. Við skoðun á fjármálum einstaklinganna og félagsins hafi sá grunur lögreglu styrkst um að í húsnæðinu við [...] fari fram fjárhættuspil og einstaklingarnir hafi atvinnu af starfseminni.

Í gær hafi lögregla svo gert húsleit í húsnæði félagsins [...], að undangengnum úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur. Í umræddu húsnæði sé herbergi sem í sé spilaborð (poker) og við það 10 skrifborðsstólar. Innar í rýminu sé svo nokkuð stór salur sem hafi að geyma eitt poker-spilaborð og við það 10 skrifborðstóla, tvö Black Jack spilaborð og eitt rúllettu spilaborð. Í salnum hafi verið um 30 stólar flestir þeirra eins konar barstólar. Þá hafi verið 6 stk. leðurstólar og tveir samliggjandi leðursófar. Innst inni sé eldhús og bar sem hafi verið búinn helstu rafmagnstækjum. Kl. 00:53 hafi húsleit í húsnæðinu hafist og haldlagning muna. Við húsleitina hafi fundist í geymslu tvær fartölvur, önnur þeirra hafi verið merkt með post it miða, "straujuð", og skjávarpi, en tölvurnar og skjávarpinn hafi verið haldlögð vegna gruns um að um þýfi sé að ræða. Þá hafi fundist á botni frystikistu í sömu geymslu talsvert magn peningaseðla sem hafi verið vafðir saman, 526.500 ísl.krónur. Á skrifstofu í litlum peningaskáp hafi fundist 25.000 ísl.krónur og loft skammbyssa. Á skrifstofunni hafi einnig verið haldlagðar tölvur og tölvubúnaður, þar á meðal tölva sem hafi tekið upp efni úr eftirlitsmyndavélum sem hafi verið á staðnum, sem og bókhaldsgögn og posi. Fimm spilaborð hafi verið haldlögð ásamt miklu magni af spilastokkum og spilapeningum. Í sal hafi tvær fartölvur, sem hafi verið á borði, og skjávarpi í lofti verið haldlagt. Í eldhúsi hafi mjög mikið magn af áfengi verið haldlagt þ.e. 48 flöskur af sterku áfengi, 11 flöskur af ætluðum "landa", 294 flöskur / dósir af bjór, 10 flöskur af líkjör, 3 kassar af léttvíns"beljum" og 35 dósir með erlendu fínkorna munn / nef tóbaki.

Auk húsleitar í [...] hafi verið leitað á heimilum framangreindra einstaklinga og þeir allir handteknir, að B undanskildum sem muni vera erlendis. Í kjölfar handtöku kærðu hafi þau verið færð á lögreglustöð til skýrslutöku.

Að mati lögreglu sé rökstuddur grunur um að ábyrgðaraðilar staðarins séu að afla sér ávinnings með ólögmætum hætti og taki sér fé út úr rekstrinum. Jafnframt því telji lögregla rökstudda ástæðu til að ætla að á staðnum og í starfseminni hafi farið fram sala áfengis og annarra veitinga.

Fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi framið verknað sem varði allt að 6 ára fangelsisrefsingu. Rannsókn máls þessa sé á frumstigi og sé ljóst að rannsóknarhagsmunir krefjist þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi en meðal annars eigi eftir að rannsaka bókhaldsgögn, tölvur og upptökur úr eftirlitsmyndavélum sem fundist hafi á staðnum, auk þess sem greina þurfi fjármálagögn kærðu frekar. Að því loknu liggi fyrir að yfirheyra þurfi sakborninga frekar, svo og vitni í málinu, en skv. framburði eins sakborninga séu allt að 500 manns meðlimir í A. Mál þetta sé því enn á það viðkvæmu stigi að hætt sé við því að sakborningur muni torvelda rannsókn málsins gangi hann laus.

Til rannsóknar séu m.a. ætluð brot gegn 181. gr., 183. gr., 184. gr. og 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 auk brota á lögum nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Samkvæmt því sem rakið er í greinargerð lögreglustjóra og ráða má af öðrum gögnum málsins er kærða undir rökstuddum grun um að hafa, í félagi við aðra, framið brot gegn 181. gr., 183. gr., 184. gr. og 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með rekstri spilavítis, auk brota á lögum nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, og hafa af þeim rekstri ólögmætan ávinning. Brot það sem kærða  er grunuð um getur varðað fangelsisrefsingu. Kærða hefur neitað sök, en rannsókn  málsins er á frumstigi og er fallist á það með lögreglustjóranum að kærða geti torveldað rannsókn þess, svo sem með því að hafa áhrif á samseka eða vitni, gangi hún laus. Með vísan til þess eru uppfyllt skilyrði a.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.  Verður krafan því tekin til greina eins og hún er fram sett, en ekki þykir ástæða til að marka varðhaldinu skemmri tíma. Með sömu rökum er fallist á að kærða sæti einangrun í gæsluvarðhaldinu.       

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærða Y, [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 21. desember nk. kl. 16.                      

Kærði skal sæta einangrun í gæsluvarðhaldinu.