Hæstiréttur íslands
Mál nr. 299/2007
Lykilorð
- Líkamsárás
- Skilorð
|
|
Fimmtudaginn 6. desember 2007. |
|
Nr. 299/2007. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir, saksóknari) gegn Samúel Ágústssyni (Páll Arnór Pálsson hrl.) |
Líkamsárás. Skilorðsrof.
S var ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás fyrir að hafa stungið annan mann ítrekað í líkamann með stórum hnífi. Eins og S beitti hnífnum í umrætt sinn var háttsemi hans ekki metin svo hættuleg að hún yrði felld undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Þá voru áverkar mannsins, sem varð fyrir hnífsstungunum, ekki taldir svo verulegir að fella bæri háttsemina undir 1. eða 2. mgr. sömu greinar og var S því sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Með brotinu rauf hann skilorð dóms frá 27. júní 2006, þar sem hann hafði hlotið eins mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir þjófnað. Í samræmi við 60. gr. almennra hegningarlaga var sá dómur var tekinn upp og bæði málin dæmd í einu lagi, sbr. 77. gr. sömu laga. Þótti refsing S hæfilega ákveðin þriggja mánaða fangelsi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 21. maí 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst sakfellingar samkvæmt ákæru og refsiþyngingar.
Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfu ákæruvalds en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa.
Í héraði gerði ákærði aðallega kröfu um sýknu en til vara að háttsemi hans yrði talin varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og var málið flutt með tilliti til þess. Eins rakið er í héraðsdómi eru ákærði og kærandi einir til frásagnar um atvik að ætluðu broti og er fallist á forsendur og niðurstöður héraðsdómara um að ákærði hafi með háttsemi sinni gerst sekur um líkamsárás. Verður við það að miða að tilgangur árásar ákærða hafi verið sá að fá kæranda burt úr íbúð ákærða, en þangað hafi kærandi komið óboðinn. Fallist verður á niðurstöðu héraðsdóms um að ákærði hafi við þetta beitt umræddum hníf með allsérstökum hætti þannig að háttsemi hans verði af þeim sökum ekki metin svo hættuleg að hún skuli felld undir ákvæði 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Áverkum kæranda er lýst í héraðsdómi og er fallist á með héraðsdómara að afleiðingar árásarinnar hafi ekki verið þær sem 2. mgr. 218. gr. tekur til. Þá verða þær ekki heldur taldar þess eðlis að fella beri háttsemi ákærða undir 1. mgr. greinarinnar. Verður háttsemi ákærða því færð undir 1. mgr. 217. gr. laganna, sbr. 117. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Sakarferill ákærða er nægilega rakinn í héraðsdómi. Eins og þar kemur fram var ákærði 27. júní 2006 dæmdur í fangelsi í einn mánuð skilorðsbundið í tvö ár fyrir þjófnað. Hefur ákærði með broti sínu rofið það skilorð. Verður sá dómur tekinn upp og dæmt í einu lagi fyrir brot, sem ákærði var þar sakfelldur fyrir og það brot sem nú er til meðferðar, samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 77. gr. sömu laga. Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann ekki áður gerst sekur um líkamsárás. Er með hliðsjón af framanrituðu, en einkum þeirri aðferð sem ákærði beitti við brot sitt, refsing hans ákveðin fangelsi í þrjá mánuði.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest. Áfrýjunarkostnaði málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins nánar greinir í dómsorði, verður samkvæmt 1. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991 skipt þannig að ákærði greiði helming hans en helmingur greiðist úr ríkissjóði.
Dómsorð:
Ákærði, Samúel Ágústsson, sæti fangelsi í þrjá mánuði.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns, ákveðast 249.000 krónur. Þau og annan áfrýjunarkostnað málsins samtals 285.764 krónur skal ákærði greiða að helmingi, en hinn helmingur áfrýjunarkostnaðar greiðist úr ríkissjóði.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. apríl 2007.
Málið er höfðað með ákæru Ríkissaksóknara, dagsettri 5. mars sl. á hendur ákærða, Samúel Ágústssyni, [kt.], Austurbrún 6, Reykjavík, “fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa, síðdegis laugardaginn 30. desember 2006, á heimili sínu að Austurbrún 6, 9. hæð, Reykjavík, stungið [A], ítrekað í líkamann með stórum hnífi með þeim afleiðingum að [A] hlaut tvö stungusár á baki, eitt á vinstri síðu, sár á vinstri öxl og tvo litla skurði yfir bringubeini.
Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20,1981.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.”
Málavextir
Fyrir liggur að laugardaginn 30. desember sl. var A, sem er heimilislaus óreglumaður, staddur á heimili ákærða á 9. hæð í Austurbrún 6, drukkinn mjög. Urðu með þeim úfar og átök sem lyktaði með því að A hlaut áverka af stórum eldhúshnífi ákærða. Fór hann sjálfur á slysadeild Fossvogsspítala þar sem gert var að sárum hans. Samkvæmt læknisvottorðum í málinu voru tvö stungusár á baki mannsins, 1 sm að lengd, sem náðu inn í vöðva en ekki inn í brjóstholið. Þá var minni skurður á vinstri síðu og tveir smáskurðir voru framan á búk. Loks var grunnt skurðsár á vinstri öxl. Skurðirnir á baki og á öxl voru saumaðir saman. Starfsfólk slysadeildarinnar gerði lögreglu viðvart um þessa áverka á manninum. Þegar tal var haft af honum þar á deildinni kvaðst hann ekki vilja kæra yfir þessu enda skyldi hann sjálfur ganga frá ákærða, eins og segir í lögregluskýrslu um þetta. Allt að einu hófst lögreglurannsókn í málinu og var farið heim til ákærða, vettvangur skoðaður og hald lagt á stóran, oddhvassan eldhúshníf með blóðkámi á oddinum. Var um að ræða stóran, oddhvassan eldhúshníf með 19,5 sm blaði. Ljósmyndir eru af hnífnum í málinu. Blóð var á nokkrum stöðum í íbúð ákærða, í lyftu og í anddyri hússins. Utan dyra fannst jakki með blóði í og var hald lagt á hann einnig svo og skyrtu sem A hafði verið í þegar hann kom á spítalann.
Í skýrslu sem tekin var af ákærða hjá lögreglu daginn eftir að viðstöddum verjanda sínum sagði ákærði að A hefði komið inn til hans, gert sig heimakominn og sest í sófa í stofunni. Kvaðst hann hafa sagt við A að hann væri óvelkominn hjá sér meðan hann væri ölvaður og til leiðinda. Kvaðst hann hafa tekið upp símann til þess að hringja í lögreglu en A þá rifið símann af honum og farið fram í eldhús, tekið hníf að smyrja sér brauð. Kvaðst ákærði hafa farið á eftir honum en hann reynt að hrinda honum frá. Hefði hann samt náð af honum hnífnum og sett hann á eldhúsborðið. Hefði hann svo reynt að opna dyrnar á íbúðinni og sagt við A að annað hvort færi hann út með illu eða góðu. Hann hefði staðið fyrir og komið í veg fyrir að hann gæti opnað Kvaðst ákærði þá hafa náð í hnífinn, haldið um hnífsblaðið með þumalfingri og potað einu sinni, tvisvar eða nokkrum sinnum einhver staðar í bakið á A. Hefði A þá séð að honum var einhver alvara með þessu og kvaðst ákærði þá hafa getað opnað dyrnar. Kvaðst hann svo hafa lagt hnífinn á eldhúsborðið og farið til A og tekið í eyrað á honum og leitt hann þannig að lyftunni. Hefði hann farið með hann niður í lyftunni og sett hann út fyrir anddyrið niðri. Hann hefði svo farið upp til kunningja síns á fjórðu hæð og fengið að fylgjast með A í myndavélum í anddyrinu. Hefði sést að A var að ýta á dyrabjöllur þar. Kvaðst hann hafa hringt í lögregluna og tilkynnt um að A væri til leiðinda þarna niðri. Kvaðst hann hafa haldið að lögreglan hefði komið og tekið A.
A gaf skýrslu hjá lögreglu þennan sama dag. Sagðist hann hafa verið búinn að dvelja hjá ákærða í tvær nætur við drykkju þegar atburðurinn varð. Hefði komið upp misklíð á milli þeirra út af vodkapela, að hann minnti. Hann kvaðst þó muna þetta óljóst vegna ölvunar. Hefði ákærði verið æstur og tekið hníf sem var við sófaborð í stofunni og komið á eftir honum fram í eldhús. Hann hefði svo fundið að hann var stunginn í bakið nokkrum sinnum og þegar hann sneri sér við hefði hann fengið stungu í brjóstið. Næst myndi hann eftir sér á spítalanum. Hann sagði hnífinn hafa verið langan og oddhvassan með 20 25 sm löngu blaði.
Verður nú gerð grein fyrir því sem fram hefur komið í aðalmeðferð málsins.
Ákærði vísar til skýrslunnar sem hann gaf hjá lögreglunni. Hann segir hnífinn sem hald var lagt á vera þann hníf sem hann beitti í umrætt sinn. Hann kveðst hafa tekið hnífinn af A og hefði hnífurinn þá rekist eitthvað í hann. Hann kveðst ekki muna hvað stungurnar voru margar. Hann kveður A hafa barið að dyrum hjá sér, en þeir höfðu verið að drekka saman deginum áður. Hafi hann ruðst inn fram hjá sér fullur. Kveðst ákærði hafa sagt honum að fara út en A sagst vera svangur. Kveðst ákærði hafa sagt að hann skyldi smyrja handa honum brauð og gefa honum mjólkurglas en að hann skyldi svo hypja sig á brott á eftir. Hafi A þá farið fram í eldhús og ætlað að smyrja sér brauð með þessum hnífi. Kveðst hann hafa tekið hnífinn af honum og hnífurinn þá rekist “einhvers staðar í afturendann á honum”. Hafi A þá gert sig til að fljúga á hann en hann kveðst hafa tekið í hnakkadrambið á honum og hent honum út. Ákærði segist hafa verið hálf þunnur þegar þetta gerðis, eftir drykkju þeirra A daginn áður.
A hefur komið fyrir dóminn. Hann segist muna óljóst eftir atvikum. Hann segir að opið hafi verið inn til ákærða og hann gengið inn til hans. Hafi ákærði viljað losna við sig og hafi hann þá farið. Ekki muni hann af hverju misklíðin milli þeirra ákærða spratt en það hafi líklega verið út af vínleysi og auk þess kveðst hann hafa verið fullur. Hann segir þá ákærða hafa verið að drekka saman daginn áður. Hann segir þá ákærða hafa lent í ryskingum inni hjá ákærða. Hafi hnífur komið þar við sögu og kveðst hann hafa fengið stungur í sig, eins og sjá megi af skýrslum. Kannast hann við að það sé hnífurinn sem hald var lagt á. Hann kveðst hafa komið sér sjálfur upp á slysadeild í leigubíl.
Þórður Þorsteinsson rannsóknarlögreglumaður, segir ákærða hafa sagt á vettvangi að hann hefði verið að vísa A út vegna ölvunar en einnig hefði hann verið með lítinn vasahníf að ógna sér með. Hefði hann sagst hafa náð hnífnum af A og rekið hann út.
Hrafnkell Óskarsson læknir, sem gerði að sárum A, hefur í símaskýrslu sagt frá því að hann muni eftir komu A á slysadeildina. Hafi áverkarnir á honum ekki verið djúpir og ljóst hafi verið að maðurinn hefði sloppið nokkuð vel frá þessu. Hann segir mjög stutt vera frá húð og inn í brjóstkassa á manni. Þurfi því ekki djúpar stungur til þess að ná inn að lungum eða stóru æðunum í brjóstholinu. Hnífnum sem um ræðir er lýst er fyrir lækninum. Segir hann aðspurður að miðað við gerð hnífsins geti honum ekki hafa verið beitt af miklu afli.
Niðurstaða
Á skýrslum A er lítið að byggja enda mun hann hafa verið ofurölvi þegar atburðurinn varð. Ákærði hefur verið nokkuð reikull í framburði sínum. Skýrsla hans hjá lögreglu, sem rakin var hér að framan og hann gaf að viðstöddum verjanda sínum, er þó heilleg og trúverðug. Er hún ólík losaralegu tali hans fyrir dómi, þar sem hann þó vísaði til þessarar skýrslu sinnar. Það sem ákærði sagði um það hjá lögreglunni hvernig hann beitti hnífnum getur vel samrýmst áverkunum á A, og því áliti Hrafnkels læknis Óskarssonar að hnífnum hafi ekki verið beitt af miklu afli. Þykir mega byggja á skýrslu ákærða hjá lögreglu og þeirri staðhæfingu hans að hann hafi haldið um hnífsoddinn og “pikkað” með honum í A þegar hann neitaði að fara út. Með því athæfi hefur ákærði gerst sekur um líkamsárás. Samkvæmt 2. mgr. 218. gr. varðar brotið þeirri refsingu, sem þar er tiltekin, ef af hlýst stórfellt líkams- eða heilsutjón eða ef brot er sérstaklega hættulegt vegna þeirrar aðferðar, þ. á m. tækja, sem notuð eru. Áverkarnir á A geta ekki talist vera slíkir að þetta ákvæði eigi við. Aftur á móti er hnífurinn sem um ræðir bæði stór og beittur og hefði auðveldlega geta valdið bráðum bana, hefði öllu hnífsblaðinu verið beitt af afli. Eins og ákærði beitti hnífnum þykir brot hans þó ekki hafa vera “sérstaklega hættulegt” í skilningi þessa lagaákvæðis. Samkvæmt læknisvottorðunum í málinu náðu tvær stungur inn í vöðva og þurfti að sauma saman þau sár og einnig sárið á öxlinni. Þykir líkamsárás ákærða því varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.
Refsing og sakarkostnaður
Ákærði á að baki talsverðan sakaferil þar sem eru 14 fangelsisdómar frá því á árinu 1971 og til þess að hann var dæmdur fyrir þjófnað í mánaðarlangt, skilorðsbundið fangelsi í júní 2006. Auk þess hefur hann tvisvar verið sektaður fyrir umferðarlagabrot. Athæfi ákærða var bæði ófyrirleitið og yfirvegað og málsbætur litlar. Þá hefur hann rofið skilorð síðasta dómsins. Ber að dæma upp þann dóm og gera honum refsingu í einu lagi. Þykir hún hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði.
Dæma ber ákærða til þess að greiða 150.000 krónur í málsvarnarlaun til Páls Arnórs Pálssonar hrl., sem dæmast með virðisaukaskatti, og 28.200 krónur í annan sakarkostnað.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærði, Samúel Ágústsson, sæti fangelsi í 6 mánuði.
Ákærði greiði 150.000 krónur í málsvarnarlaun til Páls Arnórs Pálssonar hrl. og 28.200 krónur í annan sakarkostnað.