Hæstiréttur íslands

Mál nr. 180/2017

VHE ehf. og Sjóvá-Almennar tryggingar hf. (Guðjón Ármannsson lögmaður)
gegn
A (Jónas Þór Jónasson lögmaður)

Lykilorð

  • Vinnuslys
  • Líkamstjón
  • Ómerking héraðsdóms
  • Kröfugerð
  • Málsástæða
  • Gjafsókn

Reifun

Í málinu krafðist A viðurkenningar á bótaskyldu V ehf. vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir er hann slasaðist við vinnu sína í kerskála álvers Alcoa Fjarðaráls. Einnig krafðist hann viðurkenningar á óskertum rétti sínum til bóta úr slysatryggingu launþega hjá S hf. Tildrög slyssins voru þau að A var að vinna við opið álker þegar hann steig upp á rist við kerið en við það hrasaði hann og lenti fótur hans í bráðinni raflausn með þeim afleiðingum að hann hlaut brunaáverka á fætinum. Kröfðust V ehf. og S hf. aðallega sýknu af kröfum A en til vara að skaðabótaskylda V ehf. yrði aðeins viðurkennd að hluta. Með hinum áfrýjaða dómi var skaðabótaskylda V ehf. viðurkennd en aftur á móti var hvorki dæmt um hvort eigin sök A hefði verið fyrir hendi né í hvaða mæli reyndist hún til staðar af þeirri ástæðu að ekki hefði verið gerð sérstök krafa um það í stefnu. Féllst Hæstiréttur ekki á það með héraðsdómi að A hefði haft forræði yfir því hvort dómurinn fjallað um eigin sök A. Var héraðsdómur því ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason og Ingibjörg Benediktsdóttir fyrrverandi hæstaréttardómari.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 20. mars 2017. Þeir krefjast aðallega sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefjast þeir þess að verða aðeins dæmdir skaðabótaskyldir að hluta og að málskostnaður falli niður á báðum dómstigum.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.

Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi slasaðist stefndi 16. ágúst 2012 við vinnu sína hjá áfrýjandanum VHE ehf. í kerskála álvers Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði. Tildrög slyssins voru þau að stefndi var við opið álker þegar hann steig upp á rist við kerið. Við það mun hann hafa hrasað og vinstri fótur hans lent í bráðinni raflausn með þeim afleiðingum að hann hlaut brunaáverka á fætinum.

Stefndi höfðaði málið til viðurkenningar á skaðabótaskyldu áfrýjandans VHE ehf. vegna líkamstjónsins sem hann hlaut við slysið. Einnig krafðist hann þess að viðurkenndur yrði óskertur réttur sinn til bóta úr slysatryggingu launþega hjá áfrýjandanum Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Áfrýjendur tóku til varna og kröfðust aðallega sýknu af kröfum stefnda en til vara að skaðabótaskylda áfrýjandans VHE ehf. yrði aðeins viðurkennd að hluta.

Með hinum áfrýjaða dómi var viðurkennd skaðabótaskylda áfrýjandans VHE ehf. vegna ófullnægjandi verkstjórnar og leiðbeiningar til stefnda. Aftur á móti var hvorki dæmt um hvort eigin sök stefnda væri fyrir hendi né í hvaða mæli, reyndist hún á annað borð til staðar, af þeirri ástæðu að ekki væri sérstök krafa gerð í stefnu um að kveðið yrði á um skerta bótaskyldu ef skilyrði þess reyndust vera fyrir hendi. Á það verður ekki fallist með héraðsdómi að stefndi hafi haft forræði yfir því hvort dómurinn fjallaði um sök stefnda þannig að réttur hans til bóta á hendur áfrýjandanum VHE ehf. yrði skertur. Því bar dóminum að leggja mat á þetta en við það reyndi á sérfræðileg álitaefni, sem hinir sérfróðu meðdómsmenn þurftu að leysa úr með dómara málsins, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í þessu tilliti skiptir ekki máli þótt dómurinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að réttur til bóta úr slysatryggingu launþega hjá áfrýjandanum Sjóvá-Almennum tryggingum hf. yrði ekki skertur vegna stórfellds gáleysis stefnda, enda ekki sjálfgefið að eigin sök hans yrði virt með sama móti gagnvart áfrýjendum eftir reglum skaðabótaréttar annars vegar og vátryggingaréttar hins vegar. Samkvæmt þessu verður að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en um gjafsóknarkostnað stefnda fer eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnda, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 800.000 krónur.

 

               

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2016.

                                                                                  I.

Mál þetta var höfðað 11. mars 2015 og dómtekið 22. nóvember 2016. Stefnandi er A, til heimilis að […], en stefndu eru Vélaverkstæði Hjalta Einarssonar ehf., […] og Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Kringlunni 5, Reykjavík.

                Stefnandi krefst þess að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda stefnda, Vélaverkstæðis Hjalta Einarssonar ehf. (VHE ehf.), vegna líkamstjóns er stefnandi hlaut í vinnuslysi 16. ágúst 2012, í kerskála álvers Alcoa Fjarðaáls, Reyðarfirði. Einnig er þess krafist að viðurkenndur verði óskertur réttur stefnanda, vegna líkamstjóns, til bóta úr slysatryggingu launþega, sem stefndi VHE ehf., hafði á slysdegi hjá stefnda, Sjóvá Almennum tryggingum hf. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

                Stefndu krefjast aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda, auk málskostnaðar. Til vara er þess krafist að skaðabótaskylda stefnda, Vélaverkstæðis Hjalta Einarssonar ehf., verði aðeins viðurkennd að hluta og að málskostnaður verði felldur niður.

                                                                                 II.

Þann 16. ágúst 2012, slasaðist stefnandi þegar hann var við vinnu sína hjá stefnda, VHE ehf., í kerskála álvers Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði. Tildrög slyssins voru þau að verið var að vinna við að skera svokallaða bakskautaleiðara (aftengja ker) við opið álker. Steig stefnandi upp á rist við kerið þar sem hann hrasaði með þeim afleiðingum að vinstri fótur hans lenti ofan í bráðinni raflausninni. Hlaut stefnandi þriðja stigs brunaáverka á fætinum.

                Stefnandi er menntaður […]. Hann hóf störf hjá stefnda, VHE ehf., í álveri Alcoa Fjarðaáls í maí 2008, þar sem hann hafði starfað í rúm fjögur ár sem viðhalds- og framleiðslumaður áður en hann varð fyrir umræddu slysi. Stefndi, VHE ehf., starfar sem undirverktaki hjá Alcoa Fjarðaáli. Ber stefndi, VHE ehf., ábyrgð á verkum sínum í álverinu og var stefnandi á slysdegi starfsmaður stefnda. Var slysadagurinn hans fyrsti í nýju starfi hjá stefnda í svokölluðu suðuteymi.

                Samkvæmt lögregluskýrslu, dags. 30. ágúst 2012, segir að tilkynning um vinnuslysið hafi borist frá starfsmannastjóra stefnda, VHE ehf., að kvöldi 16. ágúst 2012. Segir í skýrslunni að slysið hafi orðið um klukkan 19.30 þegar verið var að aftengja ker og hafi stefnandi hrasað þannig að fótur hans hafi farið ofan í kerið, heit raflausn hafi „sest“ ofan í skó hans, með þeim afleiðingum að stefnandi hafi hlotið þriðja stigs bruna á rist. Í niðurlagi skýrslunnar er tekið fram að þar sem lögreglu hafi borist tilkynning eftir að búið var að flytja hinn slasaða á brott og „spilla/eða breyta“ vettvangi, hafi lögregla ekki talið ástæðu til þess að hún færi á vettvang slyssins. Þá segir í skýrslunni að Vinnueftirliti hafi verið tilkynnt um slysið með skilaboðum í talhóf.

                Fram kemur í tölvubréfi Vinnueftirlits Austurlands til lögmanns stefnanda, dags. 28. janúar 2013, að ekki hafi farið fram vettvangsskoðun á slysstað af hálfu Vinnueftirlitsins. Segir nánar í bréfinu: „Slysið var tilkynnt eftirá þannig að vettvangsskoðun var ekki og um upplýsingar að undirritaður hafi komið á slysstað standast ekki vegna sumarleyfis.“

                Stefndi, VHE ehf., tilkynnti Sjúkratryggingum Íslands um slysið þann 18. janúar 2013. Um lýsingu á tildrögum og orsök slyssins segir eftirfarandi í tilkynningunni: Starfsmaður var að vinna við að skera bakskautaleiðara við opið ker. Til að fylgjast með verkinu steig hann upp á rist við kerið og var með vinstri fót á raflausn við brún kersins. Raflausnin lét undan. Við það lenti vinstri fótur niðri í kerinu og bráðin raflausn fór ofan í skóinn. Samstarfsmanni tókst að grípa um handlegg mannsins og draga hann uppúr eftir nokkrar sekúndur. Eldur í buxnaskálm var slökktur með hitaþolnum hanska samstarfsmannsins.

                Í tilkynningu stefnda, VHE ehf., til Vinnueftirlitsins, 17. ágúst 2012, segir m.a.: Vinnulýsing var vegna verksins og öryggisfundur í upphafi vaktar. Allar tilskyldar persónuhlífar voru til staðar, öryggisskór, eldtefjandi buxur og jakki, ullarnærfatnaður, hjálmur, gleraugu og hitaþolnir hanskar.

                Í matsgerð B bæklunarlæknis og C lögfræðings, 3. september 2014, er lýst tímabundnum og varanlegum afleiðingum vegna vinnuslyssins. Var það niðurstaða þeirra að varanlegur miski stefnanda af völdum slyssins væri 15 stig og varanleg örorka 20%.

                Með tölvupósti, 22. nóvember 2013, var þess farið á leit við stefnda, Sjóvá Almennar tryggingar ehf. að viðurkennd væri skaðabótaskylda stefnda, VHE ehf., vegna slyssins úr frjálsri ábyrgðartryggingu stefnda.

                Í svari vátryggingafélagsins, sbr. tölvubréf dags. 1. apríl 2014 til lögmanns stefnanda, var greiðsluskyldu úr ábyrgðartryggingu stefnda, VHE ehf., hafnað, þar sem ekki hefði verið sýnt fram á að slysið yrði rakið til saknæmrar háttsemi VHE ehf. eða starfsmanna á þeirra vegum. Í sama tölvubréfi tók vátryggingafélagið einnig fram að félagið hefði ákveðið, með vísan til greinar 11.2 í vátryggingarskilmálum og 1. mgr. 90. gr. laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga, að skerða bætur úr slysatryggingu launþega um þriðjung vegna stórfellds gáleysis stefnanda. Væri bótaréttur samkvæmt því viðurkenndur að 2/3 hluta.

                Í gögnum málsins liggur fyrir stöðluð vinnulýsing Alcoa Fjarðaáls vegna skurðar á bakskautaleiðara. Þar segir eftirfarandi undir liðnum Heilsa og öryggi, sbr. 7. tölul. Brunahætta vegna vinnu við ker, sannreynið að ekki sé bráðinn málmur í keri. Þá segir í 18. tölul. Ekki stíga í ker, ganga á brún kers, né raflausn kers.

                Þá liggur fyrir í gögnum málsins áhættugreining Alcoa Fjarðaáls þegar unnið er við skurð á bakskautaleiðara. Þar er m.a. eftirfarandi tekið fram undir liðnum Aðgerðir og eftirfylgni: Hvaða varnir gegn hættum verða notaðar og hvernig verður árangur af vörnum ákvarðaður?... Alls ekki ganga á grindarramma kers né raflausn á brúnum kers. ... Rétt ástand kers metið og tryggt að ekki sé til staðar bráðinn málmur í keri með því að fylla út gátlista og sannreyna með því að reyna brjóta skel raflausnar með stöng.

                Þann 22. maí 2012 fékk stefnandi m.a. afhenta nýja öryggisskó hjá stefnda, VHE ehf., til nota við vinnu sína.

                Stefnandi hafði í störfum sínum fyrir stefnda, VHE ehf., sótt námskeið og fengið fræðslu á ýmsum sviðum sem vörðuðu störf hans, þar á meðal á sviði öryggismála, sbr. yfirlit um ála, sbr. yfirlit um „Emplyee´s training history“ sem liggur fyrir í gögnum málsins.

                Eftirtaldir aðilar gáfu skýrslur fyrir dóminum: A, D, E og F. 

                Stefnandi kvað fyrir dóminum að haldinn hefði verið fundur með starfsmönnum á vakt fyrir slysið. Hafi fundurinn staðið í um 10 til 15 mínútur og rætt um hvað ætti að gera. Stefnandi kvaðst hvorki hafa séð staðlaða vinnulýsingu álversins um skurð á bakskautaleiðara né áhættugreiningu vegna sama verks. Þá kvaðst hann ekki hafa vitað að óheimilt væri að standa á ristinni sem umlykur kerið. Hann hafi verið að tengja rafmagnssnúru og hafi verið nálægt kerinu. Ekkert handrið hafi verið til að styðja sig við. Álið í kerinu hafi ekki verið fljótandi heldur stöðugt. Taldi hann að álið væri hart. Taldi hann sig ekki vita að raflausnin í kerinu væri heit og að álið væri fljótandi. Þá hafi enginn yfirmaður verið á staðnum þegar slysið varð. Þá taldi hann að ekki hefði verið hægt að fara aðra leið í kringum kerið en hann hefði farið. Þá hafi enginn gert athugasemdir við skóbúnað hans, en skórnir hefðu verið lítið notaðir. Þá hefði verið skipt um skó hjá starfsmönnum eftir slysið. Stefnandi kvaðst aldrei áður hafa unnið við opin ker. Þá kvaðst hann hafa sótt almenn öryggisnámskeið. Stefnandi kvaðst hafa misstigið sig þegar hann datt í kerið, það hafi ekki verið þrengsli. Þá tók hann fram að aðstæður á mynd, sem liggja fyrir í gögnum málsins, væru eins og þær voru á slysdegi.

                D, sem vann í álverinu sem suðumaður, tók fram að hann hefði unnið í álveri í fjögur ár. Hann hafi verið að vinna með stefnanda þegar hann slasaðist. Hann sá þegar hann fór með fótinn ofan í kerið og hafi hjálpað honum upp úr kerinu. Tók hann fram að það sem gerðist hafi komið honum á óvart. Hann hafi séð skorpuna á yfirborði, og að fljótandi ál hafi ekki átt að vera þarna undir. Það væri mjög hættulegt. Þá hafi aðrir starfsmenn gengið á sama stað og stefnandi. Það hafi ekki verið neitt annað í boði, ekki annað mögulegt. Þá kvað hann verkfund hafa verið haldinn áður en byrjað var að vinna á vaktinni. Rætt hafi verið um hvernig ætti að forðast slys. Einnig hafi verið rætt um hita. Um hafi verið að ræða „standard fund“ sem alltaf er haldinn. Hann tók fram að verkfundurinn hefði verið haldinn á […] og að hlutverk stefnanda hafi verið eins og þeirra allra að skera „flex“ frá kerinu. Vitnið kvaðst hafa vitað að raflausnin væri heit í kerinu. Það finnist og sé augljóst. Þá taldi hann verkstjóra ekki þurfa að fylgjast með verkinu öllum stundum. Svona slys hafi aldrei orðið áður og að honum væri auðvitað ljóst að það mætti ekki stíga í ker. Það væri bannað.

                E, sem var verkefnisstjóri hjá VHE ehf. á þessum tíma, kvaðst hafa skipulagt verkefnið, þjálfun, undirbúning og framkvæmd verksins. Hann kvað stefnanda hafa verið ráðinn til ýmissa viðhaldsstarfa hjá Alcoa Fjarðaáli. Hann hafi haft grunnþjálfun sem þurfti til að vinna í kerskála og hann hefði unnið á vinnusvæði Alcoa frá því á árinu 2008. Hann tók fram að þeir sem ynnu á umráðasvæði Alcoa fengju tveggja daga þjálfun þar sem farið væri yfir þær hættur sem stöfuðu af bráðnum málmi. Í samræmi við öryggisreglur sé farið eftir vinnulýsingu þegar menn byrji í starfi í fyrsta skipti og þá eigi að sýna þeim hvernig eigi að bera sig að. Vitnið sagði að ekki væri gert ráð fyrir fallvörnum á kerbrún. Menn eigi ekki að standa á kerbrúninni og þess vegna sé ekki gert ráð fyrir fallvörnum. Tók hann fram að Vinnueftirlit hefði ekki gert kröfu um fallvarnir. Hann tók fram að tvær aðalhættur í álveri væru raflost og bráðinn málmur. Gert sé ráð fyrir að unnið sé við ker með bráðnum málmi. Það sé bráðinn málmur í 335 kerum. Slökkt sé á keri sólarhring áður en byrjað sé að vinna við kerið og að vinnulýsingar geri ráð fyrir að hægt sé að vinna við kerin slysalaust. Þá sé staðsetning við vinnuna þannig að menn eigi ekki að falla í kerið. Þá kannast hann ekki við að menn gangi á ristunum. Hefði hann séð stefnanda ganga á rist við kerið þá hefði hann gert athugasemdir við það. Þá kvaðst hann hafa talað við lögreglu og treyst því að hún kæmi upplýsingum til vinnueftirlitsins.

                Vitnið F bar fyrir dóminum að haldinn hefði verið verkfundur fyrir slysið á […], þar sem aðeins hefðu verið […] menn í vinnuteyminu. Tók hann fram að farið hefði verið yfir öryggisreglur með starfsmönnum. Taldi hann alls ekki heimilt að ganga á kerbrún og að starfsmenn vissu þetta. Það væri alvarlegt atvik ef menn gengju á kerbrúninni. Vitnið kvað stefnanda mjög vanan því að vinna í álveri á öllum sviðum og þar með talið í kerskála, við kerskipti og vinnu í kringum kerið. Þá taldi hann ekki nauðsynlegt að fylgjast stöðugt með verkinu. Hann hafi sérstaklega beðið stefnanda um að fara varlega á verkfundi sem haldinn var áður en farið var í verkið og ekki taka neina áhættu. Farið var yfir öryggismál fyrir verkið og því taldi hann ekki nauðsynlegt að vera viðstaddur vinnuna við kerin. Hann sagði starfsmönnum frá hita í kerunum og bað þá að fara varlega. Starfsmenn beri sjálfir ábyrgð á því að skipta um ónýtan öryggisbúnað og fá nýjan búnað ef þörf er á. Þá kannast hann ekki við að skipt hafi verið um skó hjá starfsmönnum eftir slysið. Það hafi ekki verið skipt um skótegund.

                                                                                 III.

1. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi telur að slys hans sé skaðabótaskylt samkvæmt almennu skaðabótareglunni og að það megi rekja til þess að honum hafi verið falið að vinna vandasamt verk, við hættulegar aðstæður, án þess að öryggi hans væri nægjanlega tryggt. Telur stefnandi að stefndi, VHE ehf., hafi vanrækt að framfylgja þeim skyldum sem lagðar eru á vinnuveitendur samkvæmt lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Vísar stefnandi til ákvæða 13. gr., 14. gr., 17. gr., 37. gr., 46. gr. og VIII. kafla laganna.

                Stefnandi telur að slys hans verði rakið til eftirfarandi atvika, sem stefndi, VHE ehf., beri ábyrgð á.

                Í fyrsta lagi hafi honum verið gert að vinna að skurði bakskautaleiðara, er sé vandasamt og hættulegt verk, við óforsvaranlegar vinnuaðstæður, þröngar og erfiðar, án þess að nauðsynlegar ráðstafanir hafi verið gerðar til að tryggja öryggi hans.

                Í öðru lagi hafi það verið óforsvaranlegt að fela stefnanda, sem var á fyrsta degi í nýju starfi, að vinna við skurð bakskautsleiðara við opið og óvarið álkerið, þegar ekki hafi verið búið að kæla raflausnina í kerinu alveg í gegn.

                Í þriðja lagi hafi stefndi ekki séð til þess að stefnandi fengi nauðsynlegar leiðbeiningar, þjálfun og aðstoð, til að hann gæti unnið verkið á öruggan hátt. Honum hafi ekki verið kynntar vinnureglur um skurð bakskautaleiðara. Þessar vinnureglur séu á íslensku sem stefnandi kunni ekki skil á.

                Telur stefnandi að með fyrrgreindu aðgerðarleysi sínu hafi stefndi brotið gegn fyrirmælum 20.-23. gr. laga nr. 46/1980, þar sem mælt sé fyrir um hlutverk og skyldur verkstjóra við verkframkvæmdir. Hefði það verið gert, hefði líklega mátt koma í veg fyrir slys stefnanda. Með því að tryggja stefnanda ekki fullnægjandi vinnuskilyrði og tryggja ekki öryggi hans, hafi stefndi, með vanrækslu sinni og saknæmu athafnaleysi, bakað sér skaðabótaskyldu vegna líkamstjóns stefnanda.

                Þá hafi stefndi ekki tilkynnt um slysið til Vinnueftirlits ríkisins, sbr. 79. gr. laga nr. 46/1980, með fullnægjandi hætti, og ekki fyrr en of seint. Aðstæður á slysstað og orsök slyssins hafi því ekki verið rannsakaðar. Stefndi verði að bera hallann af sönnunarskorti sem af því leiði að lögboðin rannsókn fór ekki strax fram eftir slysið.

                Stefnandi mótmælir því að hann hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi við framkvæmd vinnu sinnar, sem hafi leitt til þess að hann slasaðist. Bendir hann á að verkstjórar hafi ekki gert neinar athugasemdir við störf hans, auk þess sem það sé ekki við hann að sakast að aðbúnaður og öryggi í álverinu hafi ekki verið með fullnægjandi hætti. Hafi stefnanda auk þess ekki grunað að hann væri í hættu umrætt sinn, þar sem hann hafi ekki vitað að raflausnin í kerinu væri ekki orðin nægjanlega kæld þegar hann var þar við vinnu sína. Auk þess hefðu verkstjórar gert honum viðvart um hættuna, hefðu þeir fylgst með störfum hans. Stefnanda verði því ekki gert að bera tjón sitt að hluta til sjálfur, vegna ætlaðs stórkostlegs gáleysis hans og verði réttur hans til skaðabóta því ekki skertur, sbr. 1. mgr. 23. gr. laga a í skaðabótalögum, sbr. 1. gr. laga nr. 124/2009.

                Stefnandi mótmælir því sem fram kemur í bréfi stefnda, Sjóvár Almennra trygginga hf., að hann hafi einungis átt að fylgjast með verklagi, en ekki taka beinan þátt verkinu sjálfu. Stefnandi hafi verið að skera bakskautsleiðara þegar hann slasaðist. Auk þess hafi verið haldinn stuttur verkfundur með starfsmönnum sem tóku þátt í verkefninu, en aðeins fáum og almennum orðum hafi verið beint að stefnanda. Það sé því rangt að farið hafi verið sérstaklega yfir hættur með stefnanda. Þá sé rangt greint frá íslenskukunnáttu stefnanda. Þá er því mótmælt sem röngu og ósönnuðu að stefnandi hafi verið í ófullnægjandi skóm sem hafi valdið slysi hans. Telur stefnandi að hann hafi verið í hefðbundnum öryggisskóm og við þá hafi yfirmenn hans ekki gert athugasemdir.

                Kröfu sína um viðurkenningu óskertrar bótaskyldu úr kjarasamningsbundinni slysatryggingu launþega, sem stefndi VHE ehf. hafði á slysdegi hjá stefnda Sjóvá Almennum tryggingum hf., reisir stefnandi á ákvæðum gildandi kjarasamnings Félags vélsmiða og málmtæknimanna og Samtaka atvinnulífsins, almennum reglum vinnuréttar og skilmálum vátryggingarinnar. Um sé að ræða slys í skilningi vátryggingarinnar, sem valdið sé af skyndilegum utanaðkomandi atburði. Hafi slysið valdið stefnanda alvarlegu heilsutjóni, eins og staðfest sé í læknisfræðilegum gögnum málsins. Stefndi hafi viðurkennt bótaskyldu sína úr slysatryggingunni, en skert bótarétt stefnanda um þriðjung, vegna ætlaðs stórkostlegs gáleysis hans. Stefnandi hafnar því með öllu að svo hafi verið og krefst þess að honum verði bætt slysið að fullu úr slysatryggingu launþega. Vísar stefnandi hvað þetta varðar til sjónarmiða sinna hér að framan, um skaðabótaskyldu stefnda, VHE ehf.

2. Helstu málsástæður og lagarök stefndu

Stefndu telja rangt og ósannað að meint tjón stefnanda sé að rekja til þess að vinnuaðstæður og öryggisbúnaður hjá stefnda, VHE ehf., hafi verið óforsvaranlegur. Gætt hafi verið fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar. Fyrir liggi áhættumat um skurð á bakskautaleiðara í samræmi við 65. gr. a í lögum nr. 46/1980.

                Stefndu taka fram að samkvæmt staðlaðri vinnulýsingu við skurð á bakskautaleiðara, verði ekki ráðið að við verkið þurfi starfsmaður að standa á kerbrún eins og stefnandi hafi gert. Þvert á móti komi þar skýrt fram að ekki skuli stíga í ker, ganga á brún kers eða raflausn kers. Vinnulýsing þessi mæli nákvæmlega fyrir um hvernig verkið skuli unnið og hvað skuli varast. Auk þess liggi fyrir áhættumat um verkið þar sem áhættur við það eru greindar.

                Áður en verkið hafi verið unnið hafi verið haldinn öryggisfundur með þeim starfsmönnum sem komu að verkinu og hafi stefnandi verið viðstaddur þann fund. Þar hafi verið farið ítarlega yfir þær hættur sem verkið kynni að hafa í för með sér ef ekki væri fylgt réttu verklagi. Er því mótmælt að vinnuaðstæður hafi verið þröngar. Tveir eða fleiri starfsmenn geti auðveldlega athafnað sig á umræddum grindum og ekkert hafi kallað á að stefnandi stigi upp á kerbrúnina þegar hann fylgdist með skurðinum umrætt sinn. Það sé stranglega bannað að stíga upp á kerbrúnina þegar unnið sé við umrætt verk. Þá sé ósannað að stefnda, VHE ehf., hafi verið skylt að hafa hlífðargrind, fallvarnir eða annan öryggisbúnað á kerbrúninni eins og haldið hafi verið fram í stefnu. Starfsmönnum beri að sinna verkinu á grindunum sem séu 80 cm fyrir neðan kerbrún. Þá telja stefndu sig hafa uppfyllt skilyrði laga nr. 46/1980 og reglur nr. 497/1994, um notkun persónuhlífa. Er bent á að stefndi, VHE ehf., hafi afhent stefnanda nýja öryggisskó 22. maí 2012. Þegar óhappið varð, 16. ágúst 2012, hafi stefnandi ekki notað hina nýju öryggisskó við vinnu sína.

                Stefndu telja að það hafi verið forsvaranlegt að láta stefnanda sinna umræddu verki. Stefnandi sé menntaður […] og hafi unnið hjá stefnda, VHE ehf., í ríflega fjögur ár þegar hann hafi orðið fyrir umræddu óhappi. Á þeim tíma hafi hann margoft unnið störf á starfsstöð Alcoa Fjarðaáls, s.s. í kerskála, og fengið fræðslu og upplýsingar um öryggiskröfur á þeim vinnustað. Þegar slysið varð, hafi stefnanda verið ætlað að fylgjast með starfi suðuteymisins, þar sem hann hafði ekki unnið við þetta tiltekna verk áður. Það sé því rangt, sem haldið sé fram í stefnu, að stefnandi hafi tekið beinan þátt í verkinu. Hlutverk hans hafi verið að fylgjast með. Slysatilkynningar tengja slysið við verkið án þess að þar sé verið að greina nákvæmlega hvert hlutverk stefnanda hafi verið umrætt sinn. Þessi skilningur fái einnig stoð í því hvernig umrætt óhapp varð, þ.e. með því að stefnandi stóð uppi á rist við kerbrúnina og hrasaði ofan í kerskálina. Sé ljóst að staðsetning stefnanda hafði ekkert að gera með þá vinnu að skera bakskautaleiðara, eins og haldið sé fram í stefnu. Þá er því mótmælt að kæling raflausnar hafi átt að eiga sér stað áður en unnið hafi verið við verkið. Þá er því mótmælt að viðvaranir og merkingar hafi verið ófullnægjandi við umrædd álker.

                Stefndu telja að stefnandi hafi fengið fullnægjandi fræðslu um umrætt verk. Haldinn hafi verið verkfundur þar sem farið var yfir stöðuna á kerunum og að bráðinn málmur gæti verið til staðar í þeim. Hafi stefnanda verið gerð grein fyrir því að hlutverk hans væri að fylgjast með. Stefnandi hafi ágætan skilning á ensku, auk þess sem verkstjóri yfir verkinu sé […]. Það hafi því ekki hvílt nein skylda á stefnda, VHE ehf., að leggja fyrir stefnanda vinnureglur á […].

                Þá er því hafnað að skort hafi á rannsókn stefnda á umræddu óhappi eða að slysið hafi ekki verið tilkynnt til Vinnueftirlitsins með fullnægjandi hætti. Einnig er því hafnað að um sé að ræða sönnunarskort sem stefndu skuli bera hallann af eða að allur mögulegur vafi í málinu um tildrög slyssins skuli túlkaður stefnanda í hag. Lögreglu hafi verið tilkynnt um slysið tveimur tímum eftir að það átti sér stað. Taka stefndu fram að það sé rangt, sem fram komi í lögregluskýrslu, að vettvangi hafi verið spillt eða breytt. Það hafi verið ákvörðun viðkomandi lögreglumanns að rannsaka ekki slysavettvang. Þá liggi fyrir að um leið og slysið varð hafi vinnu við kerið verið hætt og aðstæður hafi því að öllu leyti verið óbreyttar þar til að minnsta kosti sólarhring síðar þegar vinna hófst aftur við skurð á bakskautaleiðara. Þá sé verklag við umrætt verk að öllu leyti hið sama í dag og þegar slysið varð. Stefndi hafi einnig sinnt tilkynningarskyldu til Vinnueftirlitsins. Það hafi verið gert annars vegar með skilaboðum á talhólf svæðisstjóra Vinnueftirlitsins á Austurlandi um tveimur tímum eftir að slysið átti sér stað og hins vegar með skriflegri slysatilkynningu sem gerð hafi verið daginn eftir slysið. Stefndi verði hins vegar ekki látinn bera ábyrgð á þeirri ákvörðun Vinnueftirlitsins að framkvæma ekki rannsókn á óhappinu. Telur stefndu því að tilkynningar til opinberra aðila hafi verið fullnægjandi.

                Stefndu telja að stefnandi beri fulla ábyrgð á tjóni sínu vegna eigin sakar. Af gögnum málsins megi ráða að orsök tjóns stefnanda hafi verið aðgæsluleysi hans sjálfs og ef til vill óhappatilviljun. Gögn málsins beri með sér að stefnandi hafi stigið upp á kerbrúnina án þess að nokkuð við vinnu hans eða utanaðkomandi aðstæður hafi kallað á slíkt. Hafi verið um skýrt brot á verklýsingu við umrætt verk að ræða og telja stefndu að stefnandi hafi með þessu sýnt af sér stórfellt gáleysi sem verði í raun talið eina orsök óhappsins. Hefði stefnanda verið í lófa lagið að fylgjast með störfum við skurðinn án þess að stíga upp á kerbrúnina. Auk þess hafi stefnandi fengið nýja öryggisskó þremur mánuðum fyrir slysið, en hann hafi engu að síður notast við eldri öryggisskó þegar slysið varð. Hafi rannsókn stefnda, VHE ehf., leitt í ljóst að þeir skór hafi verið slitnir og ekki veitt fullnægjandi vörn. Þegar myndir af umræddum skóm, og meiðslum stefnanda, séu skoðaðar sé ljóst að raflausnin hafi lekið inn um óþéttan saum á miðjum skónum. Í ljósi þess að raflausnin sé um 6-7 cm djúp og þess að öryggisskór eru um 18 cm háir, þá hefðu óslitnir skór ekki valdið því tjóni sem varð á fæti stefnanda eins og tilraun sem stefndi. VHE, framkvæmdi beri vott um. Að mati stefndu hafi stefnanda borið að tryggja að öryggisskór gætu komið að tilætluðum notum og láta tafarlaust vita ef gat var komið á skóna, sbr. m.a. 8. gr. reglna nr. 497/1994, um notkun persónuhlífa. Það hafi stefnandi hins vegar ekki gert auk þess sem hann tók þá ákvörðun að notast við ófullnægjandi persónuhlífar þrátt fyrir að honum hafi verið afhentur nýrri búnaður. Verði hann því að bera ábyrgð á þeirri vanrækslu sinni.

                Þá taka stefndu fram að stefnandi hafði unnið um ríflega fjögurra ára skeið hjá stefnda, VHE ehf., hann þekkti vel til aðstæðna á starfsstöð Alcoa Fjarðaáls og fékk nauðsynlegar leiðbeiningar um framkvæmd starfans. Stefnandi verði því að bera tjón sitt að fullu vegna stórfellds aðgæsluleysis við framkvæmd vinnu sinnar í umrætt sinn.

                Um kröfu stefnanda til óskertra réttinda úr launþegatryggingu stefnda, Sjóvár-Almennra trygginga hf., vísar stefndi til fyrri umfjöllunar um eigin sök stefnanda. Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., hafni því að krafan nái fram að ganga og telji augljóst að athafnir stefnanda, annars vegar þegar hann fylgdist með vinnu við skurð á bakskautaleiðara umrætt sinn með því að standa upp á kerbrún og hins vegar með því að notast við eldri og úr sér gengna öryggisskó þegar fyrir lá að honum höfðu verið afhentir nýir öryggisskór, verði metnar honum til stórfellds gáleysis í skilningi greinar 11.2 í vátryggingaskilmálum fyrir slysatryggingu launþega, sbr. 1. mgr. 90. gr. laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga.

                Ef ekki verður fallist á aðalkröfu stefndu er byggt á því til vara að stefndi, VHE ehf., verði aðeins talinn bera ábyrgð á tjóni stefnanda að hluta. Byggja stefndu á því að tjón stefnanda sé að mestu leyti að rekja til óhappatilviks eða aðgæsluleysis hans sjálfs í umrætt sinn. Verði stefnandi því að bera tjón sitt að mestum hluta sjálfur vegna eigin sakar. Vísast að öðru leyti til umfjöllunar um aðalkröfu til stuðnings varakröfu. 

                                                                                 IV.

                                                                    Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um kröfu stefnanda um viðurkenningu á skaðabótaskyldu stefnda, Vélaverkstæðis Hjalta Einarssonar ehf. (VHE ehf.), vegna líkamstjóns sem stefnandi hlaut í vinnuslysi 16. ágúst 2012, í kerskála álvers Alcoa Fjarðaáls og um viðurkenningu á óskertum rétti stefnanda til bóta úr slysatryggingu launþega, sem stefndi, VHE ehf., hafði á slysdegi hjá stefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf.

                Stefnandi reisir kröfur sínar á hendur stefnda, VHE ehf., á því að öryggi hans hjá fyrirtækinu hafi ekki verið nægjanlega tryggt, vinnuaðstæður óforsvaranlegar, hann hafi ekki fengið nauðsynlegar leiðbeiningar, skort hafi á þjálfun og aðstoð við verkið, honum ekki kynntar vinnu- og öryggisreglur og að verkstjórn hafi verið ábótavant. Telur stefnandi að með greindri vanrækslu sinni og saknæmu athafnaleysi beri stefndi, VHE ehf., skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda. Þessu til viðbótar hafi stefndi, VHE ehf., ekki tilkynnt slysið til Vinnueftirlits ríkisins með fullnægjandi hætti. Beri stefndi, VHE ehf., af þeim sökum hallann af sönnunarskorti sem af því leiði að ekki hafi tekist að afla viðhlítandi sönnunargagna um aðdraganda slyssins. Krafan á hendur Sjóvá-Almennum tryggingum hf. er byggð á vátryggingasamningi um slysatrygginu launþega og telur stefnandi að hún eigi að leiða til óskertra bóta miðað við málsatvik í máli þessu.

                Stefndi, VHE ehf., telur ósannað að tjón stefnanda sé að rekja til þess að vinnuaðstæður og öryggisbúnaður hafi verið óforsvaranlegur eða að um hafi verið að ræða bótaskylda vanrækslu að öðru leyti. Fyrir liggi áhættumat og einnig stöðluð vinnulýsing við skurð á bakskautaleiðara, þar sem fram komi m.a. að ekki skuli stíga á ker, ganga á brún eða raflausn kers. Haldinn hafi verið verkfundur með starfsmönnum fyrir verkið, þar sem fram kom að bráðinn málmur gæti verið til staðar. Þá hafi lögreglu og vinnueftirlitinu verið tilkynnt um slysið. Orsök slyssins sé að rekja til aðgæsluleysis stefnanda sjálfs eða óhappatilviljunar. Hann hafi ákveðið að stíga upp á kerbrúnina, sem sé skýrt brot á verklýsingu við umrætt verk, og hafi hann með því sýnt af sér stórfellt gáleysi. Þá hafi hafi hann ekki notað nýja öryggisskó, sem hann hafi fengið afhenta og sem hefðu komið í veg fyrir tjón hans.

                Stefnandi bar fyrir dóminum að haldinn hefði verið fundur með starfsmönnum fyrir slysið, en kvaðst hvorki kannast við staðlaða vinnulýsingu um skurð á bakskautaleiðara né áhættugreiningu vegna verksins, auk þess sem hann kvaðst ekki hafa vitað að óheimilt væri að standa á ristinni sem umlykur kerið utan við brúnina.

                Vitnið, D, bar fyrir dóminum að haldinn hefði verið verkfundur áður en byrjað var á vaktinni þar sem rætt hefði verið um hvernig forðast bæri slys og m.a. rætt um hita. Sá fundur hafi verið á […]. Tók hann fram að aðrir starfsmenn hefðu gengið á sama stað og stefnandi. Þá taldi hann ljóst að ekki mætti „stíga í ker“.

                Vitnið, E, bar fyrir dóminum að þeir sem ynnu á svæði álversins fengju tveggja daga þjálfun þar sem farið væri yfir þær hættur sem stöfuðu af bráðnum málmi. Ekki sé gert ráð fyrir fallvörnum við kerin enda megi ekki standa á kerbrúninni og þess sé heldur ekki þörf þegar unnið sé við skurð á bakskautaleiðara. Kannaðist hann ekki við að starfsmenn gengju á ristunum.

                Vitnið, F, bar fyrir dóminum að haldinn hefði verið verkfundur fyrir slysið þar sem farið hafi verið yfir öryggisreglur. Taldi hann alvarlegt ef menn gengju á kerbrúninni og kvað að stefnandi væri vanur vinnu á öllum sviðum álversins, þar með talið vinnu í kerskála og við kerin. Tók hann fram að á verkfundi fyrir slysið hefði hann beðið stefnanda um að fara varlega og ekki taka áhættu. Þá hefði hann sagt starfsmönnunum frá hitanum sem væri í kerinu.

                Í staðlaðri vinnulýsingu vegna skurðar á bakskautaleiðara (þ.e. að aftengja ker), er sérstaklega tekið fram að brunahætta sé til staðar við kerin og sannreyna skuli að ekki séð bráðinn málmur í kerinu, að ekki skuli stíga í ker, ganga á brún kers né raflausn kers. Þá er sérstaklega tekið fram í áhættugreiningu, þegar unnið er við slíkan skurð, að „alls ekki [skuli] ganga á grindarramma kers né raflausn á brúnum kers“. Í verklýsingu og áhættureglum álvers Alcoa Fjarðaáls er ekki talin þörf á uppsetningu fallvarna þegar unnið er við opin ker eins og gert var í umræddu tilviki.

                Í 1. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, er kveðið á um skyldu vinnuveitanda að tilkynna slys til Vinnueftirlits ríkisins. Eins og þar kemur fram er skylda þessi tengd við alvarleika slyss. Samkvæmt ákvæðinu skal atvinnurekandi, án ástæðulausrar tafar, m.a. tilkynna til Vinnueftirlits ríkisins öll slys þar sem starfsmaður verður óvinnufær í einn eða fleiri daga. Eins og áður segir tilkynnti stefndi, VHE ehf., slysið til Vinnueftirlits Austurlands daginn eftir slysið 17. ágúst 2012. Engin skoðun fór þó fram á slysstað af hálfu eftirlitsins hvorki þá né síðar.

                Af framburði vitna, og því sem fram kom í máli stefnanda fyrir dóminum, er óumdeilt að haldinn hafi verið verkfundur með starfsmönnum fyrir slysið og var stefnandi þar viðstaddur. Stefnandi telur hins vegar að honum hafi hvorki verið kynnt stöðluð vinnulýsing né áhættureglur við skurð á bakskautaleiðara. Enn fremur telur hann að honum hafi ekki verið gerð sérstök grein fyrir þeirri hættu sem er fyrir hendi þegar unnið er við opin ker og að bannað væri að standa á ristinni.

                Dómurinn telur að atvik að slysinu hafa verið upplýst í mörgum atriðum við meðferð málsins, bæði með framburði vitna fyrir dóminum og öðrum gögnum málsins. Engu að síður telur dómurinn að ekki verði fram hjá því litið að með skoðun vinnueftirlitsins hefði mátt fá nánari upplýsingar um hvort stefnanda hafi verið kynnt sérstaklega stöðluð vinnulýsing eða áhættureglur um skurð á bakskautaleiðara og hvort verkstjórn hafi verið fullnægjandi, sbr. 23. gr. laga nr. 46/1980. Til þess er enn fremur að líta að samkvæmt staðlaðri vinnulýsingu og áhættureglum Alcoa Fjarðaáls ber að sannreyna að ekki sé bráðinn málmur í keri þegar unnið er við skurð á bakskautaleiðara. Samkvæmt því er ekki gert ráð fyrir að unnið sé við skurð á bakskautaleiðara ef bráðinn málmur er fyrir hendi í keri. Hinu sama gegnir um bann við því að ganga á brúnum kers. Auk þess verður að telja að með skoðun eftirlitsins hefði mátt fá nánari upplýsingar um skóbúnað stefnanda þegar hann varð fyrir slysinu og þá einkum hvort ófullnægjandi skóbúnaður hans hafi átt þátt í slysi hans. Verður að telja að stefndi, VHE ehf., verði að bera hallann af sönnunarskorti um þessi atriði.

                Verður því að leggja til grundvallar í málinu að stefnandi hafi orðið fyrir líkamstjóni umrætt sinn sem rekja megi til þess að hann hafi ekki verið sérstaklega upplýstur um verklýsingar og öryggisreglur sem gildi við skurð á bakskautaleiðara. Í því sambandi er haft í huga að stefnandi var nýr í umræddu starfi sínu þó að hann hafi unnið í álverinu við önnur störf í nokkur ár þar á undan.

                Ber stefndi, VHE ehf., því skaðabótaábyrgð á tjóni sem stefnandi varð fyrir og rekja má til ófullnægjandi verkstjórnar og leiðbeininga til stefnanda. Hafa verður þó í huga að í stefnu er krafist dóms um viðurkenningu á skaðabótaskyldu stefnda, VHE ehf., vegna líkamstjónsins án þess að sérstök krafa sé gerð um að kveðið sé á um skerta bótaskyldu ef skilyrði þess reynast vera fyrir hendi. Af þeim sökum mun dómurinn hvorki dæma um hvort eigin sök sé fyrir hendi né í hvaða mæli, reynist hún á annað borð til staðar.

                Er það því niðurstaða dómsins að stefndi, VHE ehf., hafi bakað sér skaðabótaskyldu gagnvart stefnanda með vanrækslu sinni og saknæmu athafnaleysi gagnvart honum. Af því leiðir að dómkrafa stefnanda um viðurkenningu á skaðabótaskyldu stefnda, VHE ehf., er tekin til greina.

                Víkur þá að kröfu stefnanda um bætur úr slysatryggingu launþega. Ekki er um það deilt að stefnandi eigi rétt á bótum vegna slysatryggingar launþega á hendur stefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf., en félagið hefur þó aðeins viðurkennt þennan rétt að því er varðar 2/3 sakar. Þegar stefnandi varð fyrir vinnuslysi 16. ágúst 2012, í kerskála Alcoa Fjarðaáls, stóð hann uppi á ristum sem umlykja kerbrúnirnar, þar sem hann hafði verið að tengja rafmagnssnúru. Fyrir dóminum kvaðst hann hafa misstigið sig á brúninni með þeim afleiðingum að hann hrasaði og tyllti þá öðrum fætinum ofan í kerið þar sem fyrir var bráðin raflausn.

                Með vísan til þess sem að framan greinir, um ófullnægjandi leiðbeiningar til stefnanda og til þess að bráðinn málmur var í kerinu þegar stefnanda var falið umrætt verk, telur dómurinn ekki rétt að meta stefnanda það til stórfellds gáleysis að hafa staðið á ristum kersins.

                Samkvæmt þessari niðurstöðu eru dómkröfur stefnanda á hendur stefnda, Sjóvá- Almennum-tryggingum hf., einnig teknar til greina.

                Stefnandi nýtur gjafsóknar í málinu. Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefndu, hvorum um sig, gert að greiða 704.713 krónur í málskostnað sem rennur í ríkissjóð. Af þeirri fjárhæð er útlagður kostnaður stefnanda, samtals 309.426 krónur.

                Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Jónasar Þórs Jónassonar hrl., 1.100.000 krónur.

                Dóm þennan kveða upp Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari og meðdómsmennirnir Ásmundur Ingvarsson byggingarverkfræðingur og Magnús Þór Jónsson vélaverkfræðingur og prófessor við Háskóla Íslands.

                                                                   DÓMSORÐ:

Viðurkennd er skaðabótaskylda stefnda, Vélaverkstæðis Hjalta Einarssonar ehf., vegna líkamstjóns er stefnandi hlaut í vinnuslysi 16. ágúst 2012, í kerskála álvers Alcoa Fjarðaáls, Reyðarfirði. Viðurkenndur er óskertur réttur stefnanda, vegna líkamstjóns, til bóta úr slysatryggingu launþega, sem stefndi, Vélaverkstæði Hjalta Einarssonar ehf., hafði á slysdegi hjá stefnda, Sjóvá -Almennum tryggingum hf.

Stefndu, ber hvorum um sig, að greiða 704.713 krónur í málskostnað sem rennur í ríkissjóð.
    
Allur málskostnaður stefnanda fyrir héraðsdómi greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Jónasar Þórs Jónassonar hrl., 1.100.000 krónur.