Hæstiréttur íslands
Mál nr. 843/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
- Sjálfræði
|
|
Þriðjudaginn 5. janúar 2016. |
|
Nr. 843/2015.
|
A (Brynjólfur Eyvindsson hdl.) gegn Velferðarsviði Reykjavíkur (Kristbjörg Stephensen hrl.) |
Kærumál. Lögræði. Sjálfræði.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem A var sviptur sjálfræði í fjögur ár.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Helgi I. Jónsson og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. desember 2015, en kærumálsgögn bárust réttinum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. desember 2015 þar sem sóknaraðili var sviptur sjálfræði í fjögur ár. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að sviptingunni verði markaður skemmri tími. Í báðum tilvikum krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun verjanda sóknaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, 148.880 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. desember 2015.
Árið 2015, fimmtudaginn 10. desember, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Guðjóni St. Marteinssyni héraðsdómara, kveðinn upp úrskurður í málinu nr. L-126/2015: Velferðarsvið Reykjavíkur gegn A. Málið var tekið til úrskurðar samdægurs.
Með beiðni, sem barst dóminum 27. nóvember sl. hefur sóknaraðili, Velferðarsvið Reykjavíkurborgar, Borgartúni 12-14, Reykjavík, krafist þess að sjálfræðissvipting varnaraðila A, kt. [...], [...], Reykjavík, verði með vísan til a og b liða 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, framlengd tímabundið um fjögur ár. Um aðild sóknaraðila vísast til d-liðar 2. mgr. 7. gr. sömu laga.
Af hálfu varnaraðila er kröfunni mótmælt og til vara að sjálfræðissviptingunni verði markaður skemmri tími. Þóknunar er krafist úr ríkissjóði.
Fyrir liggur vottorð B geðlæknis, dagsett 25. nóvember 2015, er þar sjúkrasaga varnaraðila ítarlega rakin. Í vottorðinu kemur fram að veikindi varnaraðila hafi fyrst komið fram sumarið 1993, en hann hafi verið greindur með geðklofa með ranghugmyndum og ofsóknarkennd, auk þess sem hann eigi við áfengisfíkn að stríða. Í vottorðinu er ítarleg lýsing á sjúkrasögu varnaraðila sem óþarft er að rekja hér.
Í niðurstöðu læknisvottorðsins er svofelldur kafli: ,,Eins og að framan er ítarlega greint frá hefur sjúklingur erfiðan geðklofasjúkdóm og áfengissýki. Hann vantar nú einsog áður sjúkdómsinnsæi.
Hann þarf óhjákvæmilega að fá áfram þá lyfjameðferð sem reynst hefur honum vel gegnum árin. Það er fyrirsjáanlegt að hann falli fljótlega frá samvinnu um nauðsynlega geðrofslyfjameðferð og göngudeildareftirlit ef það aðhald sem að sjálfræðissvipting veitir verður ekki til staðar. Ef hann nær að veikjast alvarlega er einnig veruleg hætta á því að hann verði hættulegur umhverfi sínu, eins og gerst hefur á tímabilum í veikindum hans.
Aðhald með hjálp sjálfræðissviptingar hefur leitt til góðs árangur í meðferð hans, eins og lýst hefur verið.
Mælist því undirritaður til þess að dómurinn svipti sjúkling sjálfræði til fjögurra ára til þess að koma megi við nauðsynlegri meðferð og til að tryggja áframhaldandi meðferðarheldni.“
B geðlæknir gaf skýrslu fyrir dóminum, staðfesti og skýrði læknisvottorðið. Hann lýsti nauðsyn þess að varnaraðili yrði áfram sviptur sjálfræði vegna veikinda sinna til að unnt væri að koma við áframhaldandi læknismeðferð vegna þeirra. Mælti vitnið með því að sjálfræðissvipting varnaraðila yrði fjögur ár og skýrði það álit sitt.
Með vísan til ofanritaðs og til vitnisburðar B geðlæknis og læknisvottorðs sem hann staðfesti fyrir dóminum, er það mat dómsins að varnaraðili sé vegna alvarlegs geðsjúkdóms ófær um að ráða persónulegum högum sínum, sbr. a og b liði 4. gr. lögræðislaga. Ber samkvæmt því að taka til greina kröfu sóknaraðila og ákveða að varnaraðili skuli vera sviptur sjálfræði tímabundið í fjögur ár.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga ber að greiða úr ríkissjóði kostnað af málinu, þ.m.t. þóknun talsmanns varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, 225.060 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Guðjón St. Marteinsson héraðsdómar kvað upp þennan dóm.
Úrskurðarorð:
Varnaraðili, A, kt. [...], [...], Reykjavík, er sviptur sjálfræði í fjögur ár.
Kostnaður af málinu, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, 225.060 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.