Hæstiréttur íslands

Mál nr. 47/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Sönnunarfærsla
  • Kæruheimild
  • Frávísun frá Hæstarétti


Mánudaginn 9

 

Mánudaginn 9. febrúar 2009.

Nr. 47/2009.

Sigurður Óli Hákonarson og

Stefán Héðinn Stefánsson

(Stefán Geir Þórisson hrl.)

gegn

Aðalheiði Erlu Arnbjörnsdóttur

Bergljótu Baldvinsdóttur

Bergsveini Þorkelssyni

Birni Óskari Birgissyni

Georg Emil Pétri Jónssyni

Gylfa Guðjónssyni

Helgu Arnberg Gestsdóttur

Hildi Methúsalemsdóttur

Júlíusi Karlssyni

Kristjáni Kristjánssyni

Lárusi Hagalínssyni

Pétri Steingrímssyni

Rannveigu Guðmundsdóttur

Sigurveigu Sigtryggsdóttur

Teiknistofu arkitekta Gylfa G. og félaga ehf. og

Þóri Kristjánssyni

(Eiríkur Elís Þorláksson hrl.)

 

Kærumál. Sönnunarfærsla. Kæruheimild. Frávísun máls frá Hæstarétti.

Kærður var úrskurður héraðsdóms, þar sem fallist var á kröfur A o.fl. um að þeim yrði heimilað að fá skýrslur teknar af SÓ og SH fyrir dómi, án þess að A o.fl. höfðu áður höfðað mál. Málinu var vísað frá Hæstarétti þar sem kæruheimild skorti.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 22. janúar 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. janúar 2009, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að þeim yrði heimilað að fá skýrslur teknar af sóknaraðilum fyrir dómi án þess að varnaraðilar hafi áður höfðað mál. Um kæruheimild vísa sóknaraðilar til b. liðar 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þeir krefjast þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um skýrslutökur og þeim gert að greiða málskostnað í héraði ásamt kærumálskostnaði.

Varnaraðilar krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefjast þau kærumálskostnaðar.

Samkvæmt f. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 er unnt að kæra til Hæstaréttar úrskurð héraðsdómara, þar sem synjað er um heimild til að afla sönnunargagna án þess að mál hafi áður verið höfðað. Úrskurður, þar sem fallist er á beiðni um slíka sönnunarfærslu, sætir því ekki kæru og fær þar engu breytt ákvæði b. liðar 1. mgr. sömu lagagreinar, sem sóknaraðilar vísa eins og áður segir til um kæruheimild, sbr. dóm Hæstaréttar 16. janúar 2003 í máli nr. 571/2002, sem birtur er í dómasafni réttarins 2003, bls. 165. Verður málinu því vísað frá Hæstarétti.

Rétt er að aðilarnir beri hvert sinn kostnað af kærumáli þessu.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. janúar 2009.

                Með beiðni móttekinni 5. nóvember 2007 fór lögmaður sóknaraðila fram á skýrslutökur fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Málið var tekið til úrskurðar 19. desember 2008.

                Sóknaraðilar eru Pétur Steingrímsson, kt. 231043-4979, Ásbúð 44, Garðabæ, Sigurveig Sigtryggsdóttir, kt. 210551-3529, Ásbúð 44, Garðabæ, Gylfi Guðjónsson, kt. 270847- 2509, Bleikjukvísi 9, Reykjavík, Teiknistofa Arkitekta Gylfi Guðjónsson ehf., kt. 531200-3140, Lárus Hagalínsson, kt. 131236-3289, Þrastarási 46, Hafnarfirði, Björn Óskar Birgisson, kt. 300789-2699, Dalbraut 3, Grindavík, Helga Arnberg Gestsdóttir, kt. 100790-3199, Ásvöllum 4a, Grindavík, Bergljót Baldvinsdóttir, kt. 260238-7369, Strikinu 12, Garðabæ, Júlíus Karlsson, kt. 111254-7619, Miðvangi 163, Hafnarfirði, Rannveig Guðmundsdóttir, kt. 011050-4419, Hálsaseli 50, Reykjavík, Georg Emil Pétur Jónsson, kt. 280465-3729, Lækjamótum 1, Sandgerði, Þórir Kristjánsson, kt. 011045-3409, Erluási 74, Hafnarfirði, Kristján Kristjánsson, kt. 200939-2479, Sunnuflöt 1, Garðabæ, Bergsveinn Þorkelsson, kt. 230652-7599, Unnarbraut 12, Seltjarnarnesi, Aðalheiður Erla Arnbjörnsdóttir, kt. 080661-3719, Ekrusmára 11, Kópavogi og Hildur Methúsalemsdóttir, kt. 020146-4199, Bleiksárhlíð 51, Eskifirði.

Varnaraðilar eru Stefán Héðinn Stefánsson, kt. 261271-5679, Tjarnarmýri 21, Seltjarnarnesi, fyrrverandi formaður stjórnar Landsvaka hf. og Sigurður Óli Hákonarson, kt. 020175-3619, Lynghaga 24, Reykjavík, fyrrverandi framkvæmdastjóri Landsvaka hf.

Sóknaraðilar krefjast þess að teknar verði skýrslur af varnaraðilum. Þá er þess krafist að teknar verði skýrslur af þeim aðilum, sem gegna starfi stjórnarformanns og framkvæmdastjóra félagsins þegar skýrslur verða teknar.

Þá er þess krafist að lögð verði fram skjöl í þeim tilvikum sem við á og slík gögn eru tiltæk.

Loks er krafist málskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast þess að beiðni um skýrslutöku verði hafnað. Þá er krafist málskostnaðar.

I

Í beiðninni kemur fram að sóknaraðilar séu allir eigendur hlutdeildarskírteina í peningamarkaðssjóði Landsbankans (Peningabréf Landsbankans ISK), sem rekinn var af Landsvaka hf.

Fyrir liggi að lokað hafi verið fyrir innlausnir úr sjóðnum frá 6. október 2008. Hafi það verið gert samhliða lokun Kauphallar Íslands sama dag og í kjölfarið hafi verið sett lög nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Þann 7. október 2008 hafi Fjármálaeftirlitið (FME) ákveðið að nýta heimild í lögum nr. 125/2008 um sérstakar aðstæður á fjármálamarkaði, og skipa skilanefnd sem tók við öllum heimildum stjórnar Landsbankans.

Þann 17. október 2008 hafi FME beint þeim tilmælum til rekstrarfélaga verðbréfa- og fjárfestingasjóða að grípa til aðgerða sem leiða til þess að peningamarkaðssjóðum félaganna verði slitið og sjóðfélögum greiddar út eignir í formi innlána í hlutfalli við eign hvers og eins þannig að jafnræðis yrði gætt. Landsvaki hf. hafi þann 28. október 2008 sent frá sér, Tilkynningu um slit og ósk um afskráningu á Peningabréfum Landsbankans ISK, til Kauphallar Íslands. Í tilkynningunni, sem undirrituð sé af Stefáni H. Stefánssyni, stjórnarformanni Landsvaka hf., og Sigurði Ó. Hákonarsyni, framkvæmdastjóra félagsins, komi fram að í ljósi framangreindra tilmæla FME hafi stjórn Landsvaka hf. tekið ákvörðun um að selja allar eignir Peningabréfa ISK og slíta sjóðnum. Einnig komi fram í tilkynningunni að útgreiðsluhlutfall fyrir Peningabréf ISK verði 68,8% miðað við síðasta skráða gengi og ennfremur að um fullnaðargreiðslu sé að ræða og muni greiðslur berast sjóðfélögum hinn 29. október inn á innlánsreikninga sem stofnaðir hafi verið í Nýja Landsbankanum hf. (NBI hf.).

Þann 5. nóvember 2008 hafi lögmaður sóknaraðila sent ábyrgðarbréf til Landsvaka hf., þar sem óskað hafi verið eftir upplýsingum um ákveðna þætti og fjárfestingar peningamarkaðssjóða Landsbanka Íslands, sem reknir hafi verið af Landsvaka hf. Í lok bréfsins sé þess beiðst að fyrirspurninni verði svarað án tafar og eigi síðar en tíu dögum frá dagsetningu bréfsins.

Skemmst sé frá því að segja að engin viðbrögð hafi orðið við síðastnefndu bréfi. Með bréfi til Landsvaka hf., dags. 20. nóvember 2008, hafi fyrirspurn sóknaraðila verið ítrekuð, og óskað svara innan sjö daga frá dagsetningu bréfsins. Sömu sögu sé að segja um afdrif þessa bréfs, að engin viðbrögð hafa borist við því, hvorki munnlega né skriflega, og sé því sóknaraðilum nauðugur sá kostur að afla upplýsinganna með atbeina dómstóla.

Sóknaraðilar hafi, eins og aðrir sjóðfélagar Peningabréfa lSK, orðið fyrir umtalsverðu tjóni vegna framangreindrar ákvörðunar. Áður en sóknaraðilar taki ákvörðun um hvort þeir láti verða af málshöfðun og hvernig aðild að því máli verði háttað, telji þeir nauðsynlegt að fram fari vitnaleiðslur fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur án þess að dómsmál hafi verið höfðað. Um lagaheimild vísist til 2. ml. 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Tilgangurinn með vitnaleiðslunum og/eða öflun sönnunargagna sé að fá skýringar, og skjöl eftir atvikum, á eftirgreindum atriðum:

1.        Hverjir voru 10 stærstu skuldarar sjóðs Peningabréfa Landsbankans ISK í fjárfestingarflokknum „önnur skuldabréf“, hvernig var sú skipting hlutfallslega innan fjárfestingarflokksins og hverjar voru fjárhæðir skuldabréfanna miðað við neðangreindar dagsetningar:

a.        5. ágúst 2008

b.       15. ágúst 2008

c.        25. ágúst 2008

d.       5. september 2008

e.        15. september 2008

f.         25. september 2008

g.       6. október 2008

2.        Óskað er eftir upplýsingum um hvort einhverjar tryggingar hafi verið á bak við þau skuldabréf sem sjóðurinn átti í fjárfestingaflokknum „önnur skuldabréf“. Ef framangreindu er svarað játandi er óskað eftir sundurliðun trygginga miðað við hvern skuldara og hvort og þá hvaða breytingum tilteknar tryggingar tóku á tímabilinu 1. janúar 2008 til 6. október 2008.

3.        Hverjir voru 10 stærstu skuldarar sjóðs Peningabréfa Landsbankans ISK í fjárfestingarflokknum „skuldabréf fjármálastofnanna“, hvernig var sú skipting hlutfallslega innan fjárfestingarflokksins og hverjar voru fjárhæðir skuldabréfanna miðað við neðangreindar dagsetningar:

a.        5. ágúst 2008

b.       15. ágúst 2008

c.        25. ágúst 2008

d.       5. september 2008

e.        15. september 2008

f.         25. september 2008

g.       6. október 2008

4.        Óskað er eftir upplýsingum um hvort einhverjar tryggingar hafi verið á bak við þau skuldabréf sem sjóðurinn átti í fjárfestingaflokknum „skuldabréf fjármálastofnanna“. Ef framangreindu er svarað játandi er óskað eftir sundurliðun trygginga miðað við hvern skuldara og hvort og þá hvaða breytingum tilteknar tryggingar tóku á tímabilinu 1. janúar 2008 til 6. október 2008.

5.        Hvernig var hlutfallsleg skipting undirliggjandi eigna sjóðs Peningabréfa ISK miðað við neðangreindar dagsetningar:

a.        1. janúar 2006

b.       1. janúar 2007

c.        1. janúar 2008

d.       1. febrúar 2008

e.        1. mars 2008

f.         1. apríl 2008

g.       1. maí 2008

h.       1. júní 2008

i.         1. júlí 2008

j.         1. ágúst 2008

k.        1. september 2008

l.         1. október 2008

m.      6. október 2008

6.        Hversu hátt hlutfall innlána átti sjóðurinn þann 6. október 2008 og hver/hverjir var/voru vörsluaðili/ar þeirra fjármuna?

7.        Hefur sjóðurinn átt verðbréf með ríkisábyrgð eða ábyrgð sveitarfélaga? Ef þeirri spurningu er svarað játandi er óskað eftir upplýsingum um hlutfall slíkra verðbréfa af heildareignum sjóðsins á hverjum tíma, miðað við:

a.        1. janúar 2006

b.       1. janúar 2007

c.        1. janúar 2008

d.       1. febrúar 2008

e.        1. mars 2008

f.         1. apríl 2008

g.       1. maí 2008

h.       1. júní 2008

i.         1. júlí 2008

j.         1. ágúst 2008

k.        1. september 2008

l.         1. október 2008

m.      6. október 2008

8.        Hver var stærð sjóðsins (heildar fjármunir) miðað við neðangreindar dagsetningar:

a.        1. apríl 2008

b.       1. maí 2008

c.        1. júní 2008

d.       1. júlí 2008

e.        1. ágúst 2008

f.         1. september 2008

g.       1. október 2008

h.       6. október 2008

9.        Hefur sjóðurinn bundið meira en 20% af eignum sínum á einhverjum tíma í verðbréfum og/eða peningamarkaðsskjölum útgefnum af sama útgefanda? Ef því er svarað játandi er þess óskað að gefnar verði nánari upplýsingar um fjárfestinguna.

10.     Þess er óskað að gefnar verði nákvæmar skýringar á því hvernig og með hvaða hætti eignir sjóðsins voru verðmetnar áður en hann var leystur upp og andvirði hans greitt til eigenda hlutdeildarskírteina. Óskað er eftir skýringum um neðangreind atriði:

a.        Hver/hverjir verðmat/verðmátu eignir sjóðsins?

b.       Hvaða verðmatsaðferðum var beitt í hverju tilviki fyrir sig?

c.        Hver er raunmunur á verðmati eignanna fyrir og eftir lokun sjóðsins? Með þessari spurningu er leitast svara við því hver var raunveruleg verðrýrnun viðkomandi eignar fyrir lokun sjóðsins og þar til útgreiðsla átti sér stað. Óskað er eftir skýringum um alla fjárfestingarflokka sjóðsins.

11.     Hver er eigandi Landsvaka hf. í dag, þ.e. þann 1. desember 2008?

Í þeim tilvikum sem við eigi sé þess krafist að skýrslugjafar leggi fram gögn. Til viðbótar þeim tilvikum þar sem gagnaframlagning sé nauðsynleg til að svara ofangreindum spurningum sé þess óskað að lagðar verði fram reglur fyrir Peningabréf Landsbankans ISK, útboðslýsing sjóðsins og árs- og hálfsársuppgjör sl. tveggja ára.

Samkvæmt 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sé aðila heimilt að leita sönnunar fyrir dómi um atvik sem varða lögvarða hagsmuni hans og geta ráðið niðurstöðu um hvort hann láti verða af málshöfðun vegna þeirra. Upplýsingar um framangreind atriði sé grundvallarþáttur í ákvörðun sóknaraðila um málsókn, enda yrðu málsástæður sóknaraðila í slíku máli annars vegar byggðar á ófullnægjandi og röngum ráðleggingum sérfræðinga á vegum bankans og hins vegar á því hvort fjárfestingar sjóðsins, Peningabréf Landsbankans ISK, hafi farið á svig við fyrirfram kunngerða fjárfestingarstefnu sjóðsins sem og lög nr. 30/2003 um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Ákvörðun um málshöfðun sé því aðeins unnt að taka á grundvelli þeirra gagna og/eða upplýsinga sem óskað er eftir með beiðninni.

Það blasi við að umtalsverðir og lögvarðir hagsmunir séu því bundnir fyrir sóknaraðila að upplýst verði um framangreind atriði. Lögvarðir hagsmunir sóknaraðila styðjist jafnframt við þann grundvallarrétt sem þeir eigi til að fá upplýsingar um fjárfestingar sjóðsins enda áttu þeir beina aðild að honum sem eigendur hlutdeildarskírteina. Af meginreglum laga nr. 30/2003 megi jafnframt ráða að rík upplýsingaskylda hvíli á þeim sem annist fjárfestingarsjóði og þá sér í lagi til eigenda hlutdeildarskírteina sem raunverulegra eigenda þeirra fjármuna sem sjóðurinn fari með hverju sinni. Þau réttindi sem í húfi séu fyrir sóknaraðila taki mið af þeirri fjárhagslegu skerðingu sem átti sér stað á eignarhlut þeirra við slit sjóðsins.

Með bréfi dagsettu 14. desember 2008 var þess óskað, að til viðbótar við þau atriði sem tilgreind séu í beiðninni frá 1. desember 2008, verði skýrslugjöfum einnig skylt að upplýsa um neðangreint:

a.        Viðbótarspurningar við lið nr. 1 í fyrri beiðni:

                                 i.            1. janúar 2006

                                ii.            1. janúar 2007

                              iii.            1. janúar 2008

                              iv.            1. júní 2008

b.       Breytingar á lið nr. 2 í fyrri beiðni:

Óskað er eftir sundurliðun trygginga í samræmi við veittar upplýsingar samkvæmt lið nr. 1 í beiðninni, sbr. viðbótarspurningar í viðauka þessum. Með þessari breytingu er liður nr. 2 í beiðninni takmarkaður við upplýsingar um skuldara eins og óskað er eftir í lið nr. 1.

c.        Viðbótarspurningar við lið nr. 3 í fyrri beiðni:

                                 i.            1. janúar 2006

                                ii.            1. janúar 2007

                              iii.            1. janúar 2008

                              iv.            1. júní 2008

d.       Breytingar á lið nr. 4 í fyrri beiðni:

Óskað er eftir sundurliðun trygginga í samræmi við veittar upplýsingar samkvæmt lið nr. 3 í beiðninni, sbr. viðbótarspurningar í viðauka þessum. Með þessari breytingu er liður nr. 4 í beiðninni takmarkaður við upplýsingar um skuldara eins og óskað er eftir í lið nr. 3.

e.        Viðbótarspurningar við lið nr. 5 í fyrri beiðni:

                                 i.            1. janúar 2004

                                ii.            1. janúar 2005

f.         Viðbótarspurningar við lið nr. 7 í fyrri beiðni:

                                 i.            1. janúar 2004

                                ii.            1. janúar 2005

II

                Varnaraðilar byggja á að í III. kafla verðbréfasjóðalaganna séu ítarleg ákvæði um upplýsingagjöf verðbréfasjóða og fjárfestingasjóða. Samkvæmt 46. gr. laganna skuli sérgreina í ársreikningi og árshlutauppgjörum rekstrarfélags upplýsingar um sjóðina eða sérhverja deild þeirra. Í reglum nr. 97/2004 um reikningsskil rekstrarfélaga verðbréfasjóða séu nánari ákvæði um það hvernig haga eigi þessari upplýsingagjöf. Samkvæmt fylgiskjali með reglunum skuli eignir sundurliðaðar eftir tegundum fjármálagerninga. Samkvæmt 19. gr. sömu reglna skuli viðskiptamenn verðbréfasjóðs hafa aðgang að ársskýrslunum. 

Samkvæmt 47. gr. verðbréfasjóðalaganna skuli rekstrarfélag gefa út útboðslýsingu og útdrátt úr útboðslýsingu fyrir verðbréfasjóði. Í útboðslýsingu skuli koma fram nauðsynlegar upplýsingar til að fjárfestum sé kleift að meta kosti fjárfestinga í viðkomandi verðbréfasjóði. Í útdrætti úr útboðslýsingu skuli koma fram meginatriði útboðslýsingar. Nánar sé kveðið á um útboðslýsingar og útdrætti úr útboðslýsingum vegna verðbréfasjóða í reglugerð nr. 792/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði.

Í 49. gr. laga nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, (verðbréfasjóðalögin) séu ákvæði um hvaða upplýsingar skuli vera fjárfestum aðgengilegar. Í ákvæðinu sé það nákvæmlega afmarkað hvaða upplýsingum varnaraðilum sé skylt að veita fjárfestum í sjóðum þeim sem Landsvaki hf. hefur rekið. Sé m.a. rakið að upplýsingar eins og útdráttur úr útboðslýsingu, ársskýrslur og hálfsársuppgjör skuli vera aðgengileg fjárfestum. Þá sé kveðið á um að reglur verðbréfasjóða skuli vera aðgengilegar fjárfestum í sjóðnum.

Landsvaki hf. telji að ákvæði III. kafla verðbréfasjóðslaganna og hin tilvitnuðu reglugerðarákvæði feli í sér tæmandi upptalningu á því hvaða upplýsingar honum sé skylt að veita fjárfestum. Ársreikningar Landsvaka hf. síðustu fjögur rekstrarár ásamt 6 mánaða uppgjöri fyrir árið 2008 sé að finna á vefsvæði Landsvaka á heimasíðu Landsbankans. Þá sé þar að finna reglur, útboðslýsingar og útdrætti úr útboðslýsingum auk annarra upplýsinga um sjóði Landsvaka hf. Allar þessar upplýsingar hafi verið sóknaraðilum aðgengilegar á vefsvæði Landsvaka hf. á heimasíðu Landsbankans, www.landsbanki.is.

Þessu til viðbótar hafi Landsvaki hf., án þess að honum bæri til þess nokkur skylda, sent frá sér yfirlýsingu sem einnig birtist á sama vefsvæði, þar sem fram komi svör við allmörgum af þeim spurningum sem fram koma í beiðni sóknaraðila. Varnaraðilar telji að hvorki fyrrverandi eða núverandi starfsmönnum Landsvaka hf. sé heimilt né skylt, með vísan til áður tilvitnaðra laga og reglugerðarákvæða og ákvæðis 58. gr. laga nr. 161/2002 um þagnarskyldu, að upplýsa um önnur atriði varðandi verðbréfasjóði Landsvaka hf. en fram hafi komið opinberlega, þ.á m. í hinni nýlegu yfirlýsingu.

Sóknaraðilar byggi beiðni sína á 2. ml. 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en þar segi orðrétt: Aðila er með sama hætti heimilt að leita sönnunar fyrir dómi um atvik sem varða lögvarða hagsmuni hans og geta ráðið niðurstöðu um hvort hann láti verða af málshöfðun vegna þeirra. Byggi sóknaraðilar á því að hinir lögvörðu hagsmunir byggist annars vegar á ófullnægjandi og röngum ráðleggingum sérfræðinga á vegum bankans og hins vegar á því hvort fjárfestingar sjóðsins, Peningabréf Landsbankans ISK, hafi farið á svig við fyrirfram kunngerða fjárfestingastefnu sjóðsins sem og lög nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Hinar umbeðnu upplýsingar muni að sjálfsögðu aldrei geta veitt nein svör við því hvort ráðleggingar sérfræðinga á vegum Landsbankans hafi verið ófullnægjandi, enda liggi ekki fyrir svo vitað sé nein sönnunargögn um það hverjar ráðleggingar sérfræðinga á vegum Landsbankans hafi verið í einstökum tilvikum en hinar umbeðnu upplýsingar muni ekki upplýsa það á neinn hátt. Hvað hitt atriðið varði, þá liggi fyrir með hinni nýju yfirlýsingu Landsvaka hf. að ekki hafi verið farið á svig við fyrirfram kunngerða fjárfestingastefnu sjóðsins, Peningabréf Landsbankans ISK. Það skorti því á það skilyrði sóknaraðila að þeir hafi lögvarða hagsmuni af beiðni sinni eins og áskilið er í 2. mgr. 77. gr. eml. Sóknaraðilar fari fram á framlagningu ótilgreindra gagna, þ.e. ekki sé farið fram á framlagningu nánar tilgreindra gagna, heldur aðeins að lögð verði fram viðeigandi gögn í þeim tilvikum sem þau eru til staðar. Svo óafmarkaðri beiðni sé að sjálfsögðu ekki hægt að verða við. 

III

                Í 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er m.a. veitt heimild til að leita fyrir höfðun máls eftir vitnaleiðslu samkvæmt reglum VIII. kafla laganna og atbeina dómsstóls til að afla sýnilegra sönnunargagna eftir ákvæðum X. kafla laganna ef  sönnun um atvik getur skipt sköpum um hvort verði af málshöfðun.         

Skilja þykir málatilbúnað sóknaraðila þannig að umbeðin vitnaleiðsla geti ráðið úrslitum um hvort þeir láti verða af málshöfðun á hendur Landsvaka hf., en þeir  krefjast þess að teknar verði vitnaskýrslur af Stefáni Héðni Stefánssyni, fyrrum formanni stjórnar Landsvaka hf., og Sigurði Óla Hákonarsyni, fyrrum framkvæmdastjóra Landsvaka hf. Þá er þess krafist að skýrslur verði teknar af núverandi stjórnarformanni og framkvæmdastjóra félagsins, en undir meðferð málsins upplýstist að núverandi framkvæmdastjóri þess er Tryggvi Tryggvason. Þá er krafist afhendingar skjala.

                Í 4. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er kveðið á um að stjórnendur félaga, stofnana eða samtaka komi fram einir eða fleiri í sameiningu sem fyrirsvarsmenn slíkra aðila eftir því sem leiðir af almennum reglum.

                Samkvæmt 68. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög fer félagsstjórn og framkvæmdastjóri með stjórn hlutafélags.

Framkvæmdastjóri Landsvaka hf. telst samkvæmt því fyrirsvarsmaður félagsins. Samkvæmt því gefur hann ekki skýrslu sem vitni heldur sem aðili, sbr. 4. mgr. 48. gr. laga nr. 91/1991, þar sem kemur beinlínis fram að fyrirsvarsmaður gefi skýrslu fyrir dómi með sama skilorði og sömu réttaráhrifum og aðili máls.

                Verður því þegar af þeirri ástæðu að hafna kröfu sóknaraðila um að Tryggvi Tryggvason, framkvæmdastjóri Landsvaka hf., gefi skýrslu fyrir dóminum sem vitni.

                Hins vegar þykir verða að líta svo á að fyrirsvarsmennirnir fyrrverandi, varnaraðilar í máli þessu, hafi vitnastöðu í málinu, sbr. 1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991 en þar er kveðið á um að vitni sé maður sem kemur fyrir dóm til munnlegrar skýrslugjafar og telst hvorki aðili að máli né fyrirsvarsmaður aðila.

                Ekki er fallist á það með varnaraðilum að þeim sé hvorki heimilt né skylt stöðu sinnar vegna, með vísan til III. kafla verðbréfasjóðslaga nr. 30/2003 og ákvæða reglugerðar nr. 792/2003, svo og ákvæðis 58. gr. laga nr. 161/2002,  sem kveður á um þagnarskyldu varðandi viðskipta- og einkamálefni viðskiptamanna, að upplýsa um önnur atriði um verðbréfasjóði Landsvaka hf. en fram hafa komið opinberlega.

                 Sóknaraðilar, sem allir voru eigendur hlutdeildarskírteina í peningamarkaðssjóði Landsbankans (Peningabréf Landsbankans ISK), sem rekinn var af Landsvaka hf., kveðast hafa orðið fyrir umtalsverðu tjóni vegna þeirrar ákvörðunar stjórnar Landsvaka að selja allar eignir Peningabréfa ISK og slíta sjóðnum.

                Verður því að telja að þeir hafi lögvarða hagsmuni af því að leita þeirrar sönnunar sem krafist er. 

Sóknaraðilar kveðast ekki hafa fengið upplýsingar sem þeir hafa óskað eftir, með bréfum dagsettum 5. nóvember 2008 og 20. sama mánaðar, um ákveðna þætti og fjárfestingar peningamarkaðssjóðsins. Upplýsingar um þau atriði sem óskað sé svara við muni ráða því hvort þeir höfði mál, en málsástæður þeirra yrðu annars vegar byggðar á ófullnægjandi og röngum ráðleggingum sérfræðinga á vegum bankans og hins vegar á því hvort fjárfestingar sjóðsins hafi farið á svig við fyrirfram kunngerða fjárfestingastefnu sjóðsins sem og lög nr. 30/2003.

Fallast þykir mega á það með sóknaraðilum að upplýsingar um þau atvik sem þeir leita sönnunar um í máli þessu geti ráðið niðurstöðu um hvort þeir höfði mál.

Þykir samkvæmt framangreindu fullnægt áskilnaði 2. ml. 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 til að verða við kröfu sóknaraðila um skýrslutökur og verður umbeðin skýrslutaka af vitnunum Stefáni Héðni Stefánssyni og Sigurði Óla Hákonarsyni heimiluð.

Ekki þykir ljóst hver þau gögn eru sem varnaraðilum eru nauðsynleg til að geta svarað spurningum sóknaraðila. Er krafan um framlagningu gagnanna því ódómtæk, eins og hún er fram sett, og verður vísað frá dómi.

Sóknaraðilar hafa fallið frá kröfum um framlagningu annarra gagna og koma þær því ekki til álita.

Eftir atvikum þykir rétt að aðilar beri hvorir fyrir sig sinn kostnað af málinu.

Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Umbeðin skýrslutaka af varnaraðilum, Stefáni Héðni Stefánssyni og Sigurði Óla Hákonarsyni, skal fara fram.

Kröfu um gagnaframlagningu er vísað frá dómi. 

Málskostnaður fellur niður.