Hæstiréttur íslands
Mál nr. 499/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Skuldabréf
- Gengistrygging
- Réttindaröð
|
|
Fimmtudaginn 19. september 2013. |
|
Nr. 499/2013.
|
Bogi Ragnarsson (Jóhannes Sigurðsson hrl.) gegn Glitni hf. (Steinunn Hólm Guðbjartsdóttir hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Skuldabréf. Gengistrygging. Réttindaröð.
B lýsti kröfu við slit fjármálafyrirtækisins G hf., sem reist var á því að þegar B hefði greitt upp lán sitt hjá G hf. hefði stofnast endurkrafa hans á hendur G hf. vegna ætlaðra ofgreiðslna af láninu af hans hálfu á lánstímanum, en lánið taldi hann vera um skuldbindingu í íslenskum krónum, sem með ólögmætum hætti hefði verið bundin gengi erlendra gjaldmiðla. Kröfu sína studdi B meðal annars ákvæðum laga nr. 151/2010. Talið var að lán það sem B reisti kröfu sína á hefði verið erlent lán og því var hafnað að viðurkenna að B ætti fjárkröfu á hendur G hf. við slitin. Þá var talið að lög nr. 151/2010, sem B studdi kröfu sína við, gætu ekki tekið til lögskipta sem lokið var fyrir setningu laganna.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. júlí 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. júlí 2013, þar sem hafnað var að viðurkenna að sóknaraðili ætti fjárkröfu á hendur varnaraðila við slit hans. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að viðurkennt verði að krafa hans njóti stöðu í réttindaröð við slit varnaraðila samkvæmt 3. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991 en til vara 113. gr. sömu laga. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar að öðru leyti en því að hann krefst málskostnaðar í héraði auk kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti. Kemur krafa hans um málskostnað í héraði því ekki til álita fyrir Hæstarétti.
Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði var sakarefni málsins skipt samkvæmt ósk aðila þannig að fyrst yrði dæmt um hvort sóknaraðili eigi fjárkröfu á hendur varnaraðila og hvort sú krafa hafi fallið niður fyrir vanlýsingu, sbr. 118. gr. laga nr. 21/1991. Í þessum þætti málsins er því ekki deilt um fjárhæð kröfunnar.
Hinn 21. febrúar 2007 gaf sóknaraðili út veðskuldabréf til varnaraðila en efni þess og skilmálum er lýst í úrskurði héraðsdóms. Sóknaraðili greiddi upp skuldabréfið 9. október 2008 en Fjármálaeftirlitið hafði 7. þess mánaðar skipað varnaraðila skilanefnd, sem tók við réttindum og skyldum stjórnar og hluthafafundar í honum samkvæmt heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008. Sóknaraðili reisir málatilbúnað sinn á því að lánið sem skuldabréfið fyrir hafi verið í íslenskum krónum en fjárhæð þess á ólögmætan hátt bundin gengi erlendra gjaldmiðla. Af þeim sökum hafi hann ofgreitt skuldina og eigi því endurkröfu á hendur varnaraðila. Með vísan til forsenda hins kærða úrskurðar verður staðfest sú niðurstaða hans að um lán í erlendum myntum hafi verið að ræða. Samkvæmt því stofnaðist ekki endurkrafa á hendur varnaraðila þegar hann greiddi upp skuldabréfið. Jafnframt verður fallist á það með héraðsdómi að lög nr. 151/2010 sem leiddu meðal annars til breytinga á lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu geti ekki tekið til lögskipta sem var lokið fyrir setningu laganna. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Rétt er að kærumálskostnaður falli niður.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. júlí 2013.
Þetta mál, sem barst dóminum, 21. nóvember 2011, með bréfi slitastjórnar Glitnis hf., var þingfest 9. janúar 2012 og tekið til úrskurðar 22. maí 2013.
Sóknaraðili, Bogi Ragnarsson, kt. 280681-4749, Rauðási 21, Reykjavík, krefst þess að fjárkrafa sem hann lýsti í bú varnaraðila, 1. október 2011, verði viðurkennd sem búskrafa skv. 110. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. 161/2002.
Til vara krefst sóknaraðili þess að fjárkrafa hans verði viðurkennd sem almenn krafa skv. 113. gr. ofangreindra laga.
Sóknaraðili krefst einnig málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili, slitabú Glitnis hf., kt. 550500-3530, Sóltúni 26, Reykjavík, krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og staðfest verði sú afstaða varnaraðila að krafan sé fallin niður gagnvart búinu samkvæmt 1. mgr. 118. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 4. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002.
Varnaraðili krefst einnig málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
Málavextir
Sóknaraðili er félagsfræðingur að mennt og starfar sem grunnskólakennari en hefur hvorki sérþekkingu á fjármálagerningum né lögum. Hann gaf, 21. febrúar 2007, út veðskuldabréf í erlendum gjaldmiðlum til Glitnis banka hf. en það nam jafnvirði 6.880.000 kr. miðað við gengi 7. febrúar 2007. Með bréfinu veitti bankinn sóknaraðila húsnæðislán til 40 ára, tryggt með veði í fasteign hans að Kársnesbraut 23, Kópavogi. Lánið átti að greiðast upp með 160 afborgunum. Fyrsti gjalddagi var 1. maí 2007.
Í bréfinu segir að sóknaraðili viðurkenni með undirritun sinni að skulda Glitni banka tilgreindar fjárhæðir í fimm mismunandi myntum, nánar tiltekið 10.128 Bandaríkjadali, 5.139 bresk pund, 18.860 svissneska franka, 2.440.149 japönsk jen og 35.122 evrur. Í umsókn hans um lánið, 28. febrúar 2007, eru erlendu myntirnar tilgreindar á sama hátt og í veðskuldabréfinu. Sama dag greiddi bankinn 6.806.742 íslenskar krónur inn á almennan reikning sóknaraðila en ekki gjaldeyrisreikning. Ástæðu þess að sóknaraðili fékk lægri fjárhæð í íslenskum krónum útgreidda kveður varnaraðili þá að reikna skyldi lánið yfir í íslenskar krónur á því gengi sem skráð var í Seðlabanka Íslands á útborgunardegi. Vegna gengisbreytinga frá 7. febrúar til 28. febrúar 2008 hafi fjárhæðin sem lögð var inn á bankareikning sóknaraðila lækkað um ríflega 70.000 kr. frá fyrsta viðmiðunardegi. Ekki hefur verið skýrt hvers vegna lánsumsóknin er dagsett viku síðar en lánið.
Í veðskuldabréfinu er bankanum ekki veitt sérstök heimild til að greiða lánið út í íslenskum krónum en í umsókninni um lánið er tilgreindur reikningur fyrir íslenskar krónur til að leggja lánið inn á. Í veðskuldabréfinu er tekið fram að lántaki skuli inna afborganir af hendi í íslenskum krónum.
Síðar þetta ár, 15. nóvember 2007, seldi sóknaraðili fasteign sína að Kársnesbraut og óskaði eftir því við varnaraðila að fá að halda erlenda láninu þar sem hann hygðist kaupa sér aðra íbúð. Varnaraðili samþykkti það og aflétti veðinu, 9. janúar 2008, gegn handveði í bankareikningi sóknaraðila til tryggingar láninu. Í byrjun árs 2008 var mikil óvissa á fasteignamarkaði. Sóknaraðili fann ekki íbúð sem hann hafði bæði ráð og hug á að kaupa. Á sama tíma hrönnuðust upp kólguský á fjármálahimninum og gengi íslensku krónunnar lækkaði. Lán sóknaraðila hækkaði í samræmi við það. Þetta ískyggilega ástand ágerðist þegar leið á árið og alkunna er að í september og október 2008 urðu miklar hræringar á fjármálamörkuðum erlendis sem höfðu veruleg áhrif á starfsemi íslenskra fjármálafyrirtækja. Helgina 4. og 5. október 2008 varð ljóst að þrír stærstu bankar landsins Landsbankinn, Kaupþing og Glitnir gætu ekki tekist á við þennan vanda og væru ófærir um að standa við þær skuldbindingar sem á þeim hvíldu. Af þessum sökum meðal annars setti Alþingi, að kvöldi mánudagsins 6. október 2008, lög nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., svonefnd neyðarlög. Með 5. gr. laganna, sem varð 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, var Fjármálaeftirlitinu veitt heimild til að taka yfir vald hluthafafundar fjármálafyrirtækis. Á grundvelli þessarar heimildar tók eftirlitið, 7. október 2008, yfir starfsemi Glitnis banka hf. og skipaði honum skilanefnd sem tók við réttindum og skyldum stjórnar og hluthafafundar félagsins. Jafnframt var stofnaður nýr banki, Nýi Glitnir banki hf.
Á tímabilinu 15. september til 8. október 2008, hafði sóknaraðili greitt inn á handveðsetta reikninginn sinn hjá Glitni banka þar sem bankinn krafði hann ítrekað frekari trygginga fyrir láninu enda lækkaði gengi krónunnar með hverjum degi. Ætíð varð sóknaraðili við kröfum bankans. Hinn 9. október 2008 krafðist bankinn þess, enn og aftur, að sóknaraðili setti frekari tryggingar eða greiddi lánið upp. Þá ákvað sóknaraðili að koma í veg fyrir frekara tjón og greiða lánið upp en þá námu eftirstöðvar þess 11.420.816 kr. Sóknaraðili hafði ætíð staðið í skilum og hafði á þessum tíma greitt sex gjalddaga af 160. Ríflega 38 ár voru því eftir af lánstímanum. Til þess að greiða lánið upp þurfti hann meðal annars að fá lánað fé frá foreldrum sínum. Eðlilega hafði þessi þróun mála veruleg áhrif á fjárhagsstöðu sóknaraðila.
Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, 14. október 2008, var eignum og skuldum Glitnis banka ráðstafað til Nýja Glitnis banka hf. Samkvæmt ákvörðuninni tók nýi bankinn yfir flestallar innlendar eignir og skuldir gamla bankans. Sóknaraðili telur ótvírætt að veðskuldabréf hans hefði færst yfir til Nýja Glitnis banka á grundvelli ákvörðunar eftirlitsins hefði það ekki þá þegar verið greitt upp. Einungis hafi munað fimm dögum á því hvort lánið flyttist yfir til nýja bankans.
Með gildistöku laga nr. 44/2009, 22. apríl 2009, var varnaraðili tekinn til slitameðferðar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði laganna var slitameðferðin kennd við greiðslustöðvun á meðan heimild varnaraðila til greiðslustöðvunar á grundvelli laga nr. 129/2008 um breytingu á lögum nr. 161/2002 var enn í gildi. Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði varnaraðila slitastjórn, 12. maí 2009. Samkvæmt lögum nr. 44/2009 gilda reglur laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. í meginatriðum um slitameðferð fjármálafyrirtækja, þar á meðal um meðferð krafna á hendur slíku fyrirtæki. Slitastjórn birti innköllun til skuldheimtumanna í fyrra sinn í Lögbirtingablaðinu, 26. maí 2009. Kröfulýsingarfrestur var ákveðinn sex mánuðir og lauk honum því 26. nóvember 2009. Skilanefnd og slitastjórn óskuðu eftir því að Glitnir hf. yrði tekinn í formlega slitameðferð fyrir 24. nóvember 2010 þegar hámarkslengd greiðslustöðvunar rynni út. Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði, 22. nóvember 2010, að Glitnir hf. væri tekinn til formlegrar slitameðferðar.
Í dómum sem voru kveðnir upp 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010 komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að gengistrygging lána í íslenskum krónum væri óheimil samkvæmt lögum nr. 138/2001 um vexti og verðtryggingu. Sóknaraðili telur óumdeilt að lánið sem hann greiddi upp hafi verið bundið gengi erlendra mynta á ólögmætan hátt. Veðskuldabréfið hafi verið húsnæðislán í erlendum gjaldmiðlum að jafnvirði 6.880.000 íslenskra króna. Það hafi verið greitt sóknaraðila í íslenskum krónum og hafi sóknaraðila jafnframt borið að greiða af láninu í íslenskum krónum, sbr. 5. gr. veðskuldabréfsins.
Frá 31. maí 2001 gilti sú regla samkvæmt 18. gr. laga nr. 38/2001 að teldist lánssamningur ógildur í heild eða að hluta og hefði endurgjald verið greitt bæri kröfuhafa að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hefði þannig ranglega af honum haft.
Hinn 28. desember 2010 tóku gildi lög nr. 151/2010. Með þeim var allmörgum málsgreinum bætt við 18. gr. laga nr. 38/2001 og sex bráðabirgðaákvæðum bætt við lögin. Í einu þeirra, bráðabirgðaákvæði X, segir að í þeim tilvikum þar sem húsnæðislán hafi verið greitt út í íslenskum krónum en endurgreiðsla lánsins hafi verið miðuð við gengi erlendra gjaldmiðla skuli miða uppgjör vegna ofgreiðslu við 18. gr. laganna. Tekið er fram að lánveitanda beri að hafa frumkvæði að uppgjöri vegna slíkra lána og skuli uppgjör fara fram innan 90 daga frá gildistöku laganna. Þar sem lánið hafði verið greitt upp endurreiknaði Glitnir banki ekki lán sóknaraðila og sendi honum því ekki endurútreikning þar sem metið var hvort og hversu mikið hann hefði ofgreitt þegar hann gerði lánið upp 9. október 2008.
Frá og með 24. febrúar 2009 hét Nýi Glitnir banki hf., sem hafði tekið við innlendum eignum og skuldum gamla bankans, Íslandsbanki hf. Hinn 30. desember 2010 tilkynnti bankinn að hann myndi, í samræmi við nýsett lög nr. 151/2010, endurreikna húsnæðislán í erlendri mynt auk annarra erlendra lána með veði í eigin íbúðarhúsnæði. Í byrjun árs 2011 fór sóknaraðili að leita réttar síns á grundvelli hinna nýju laga. Meðal annars sendi hann Íslandsbanka bréf, 3. febrúar 2011, og krafðist þess að ofgreiðslan yrði endurgreidd sér. Með bréfi, 14. apríl 2011, hafnaði Íslandsbanki kröfunni á þeim grundvelli að kröfur, sem gerðar voru upp áður en nánar ákveðnar eignir og skuldir Glitnis banka voru færðar yfir til Nýja Glitnis banka hf. (síðar Íslandsbanka) með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, 14. október 2008, hafi ekki færst yfir til Íslandsbanka.
Eftir þetta átti sóknaraðili í frekari samskiptum við Íslandsbanka og fjármálaráðuneytið vegna kröfu sinnar en þau samskipti skiluðu honum ekki árangri. Í kjölfarið eða 1. október 2011 lýsti nýr lögmaður sóknaraðila fyrir hann kröfu í bú varnaraðila samtals að fjárhæð 8.011.685 kr.
Sóknaraðili sundurliðaði kröfu sína þannig í kröfulýsingunni:
Höfuðstóll (ofgreiðsla á láni) 4.730.711 kr.
Dráttarvextir 9. október 2008 til 1. október 2011 3.280.974 kr.
Samtals 8.011.685 kr.
Kröfunni var aðallega lýst sem búskröfu, samkvæmt 3. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002. Til vara var kröfunni lýst sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laganna.
Með bréfi, 12. október 2011, hafnaði slitastjórn varnaraðila kröfu sóknaraðila. Sóknaraðili var boðaður á sáttafund, 8. nóvember 2011. Á þeim fundi var honum gerð grein fyrir þeirri afstöðu slitastjórnarinnar að kröfunni hefði verið lýst of seint. Þar sem varnaraðili teldi undanþáguheimildir 118. gr. laga nr. 21/1991 ekki eiga við væri krafan fallin niður gagnvart búinu. Þar sem sóknaraðili sætti sig ekki við afstöðu varnaraðila beindi skiptastjóri ágreiningnum til héraðsdóms til úrlausnar, í samræmi við 120. gr., sbr. 171. gr., laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Í bréfi slitastjórnar, 21. nóvember 2011, var því álitaefni vísað til dómsins hvort sóknaraðili ætti kröfu í bú varnaraðila svo og hvort hún hefði borist innan lögboðinna tímafresta. Í greinargerð sinni til dómsins krafðist sóknaraðili viðurkenningar á tiltekinni fjárhæð úr búi varnaraðila. Þar sem sú krafa var víðtækari en það ágreiningsmál sem slitastjórnin vísaði til dómsins lögðu málsaðilar, á dómþingi 27. mars, fram sameiginlega bókun þar sem þeir óskuðu þess, með heimild í 31. gr. laga nr. 91/1991, að sakarefni málsins yrði skipt þannig að fyrst yrði dæmt um það hvort sóknaraðili hafi lýst lögmætri kröfu í bú varnaraðila og hvort réttaráhrif vanlýsingar samkvæmt 118. gr. laga nr. 21/1991 eigi við um kröfuna.
Frá og með 1. janúar 2012 tók slitastjórn Glitnis formlega við öllum verkefnum skilanefndar bankans og skilanefndin lét af störfum.
Málsástæður sóknaraðila
Sóknaraðili styður aðalkröfu sína tveimur málsástæðum. Fyrst byggir hann á því að hann hafi hafi orðið fyrir tjóni í skilningi 3. töluliðar 110. gr. laga nr. 21/1991 þegar hann hafi ofgreitt varnaraðila, 9. október 2008, þar sem í lánssamningi hans hafi falist ólögmæt gengistrygging. Verði ekki fallist á þessa málsástæðu byggir hann á því, að hann hafi orðið fyrir tjóni þar sem varnaraðili hafi ekki, í samræmi við fyrirmæli laga nr. 151/2010, endurgreitt honum það sem oftekið var.
Til stuðnings fyrstu málsástæðu sinni vísar sóknaraðili til þess að undir 110. gr. laga nr. 21/1991 falli þær kröfur sem hafi orðið til á hendur þrotabúinu eftir uppkvaðningu úrskurðar héraðsdómara um töku búsins til gjaldþrotaskipta með samningum skiptastjóra eða vegna tjóns sem búið bakar öðrum. Að mati sóknaraðila hafi slitameðferð bankans í raun hafist 7. október 2008 og skilyrði ákvæðisins um að krafan hafi stofnast eftir upphaf búskipta því uppfyllt. Í dómum Hæstaréttar í málum nr. 441/2011 og 112/2012 hafi verið staðfest að búskipti stóru bankanna þriggja hafi í raun hafist þegar þeim var skipuð skilanefnd.
Varnaraðili hafi valdið sóknaraðila tjóni þar sem sóknaraðili hafi í góðri trú ofgreitt varnaraðila fjármuni. Það sé óumdeilt að sóknaraðili hafi skuldað varnaraðila á grundvelli umrædds veðskuldabréfs. Hins vegar hafi fjárhæð þeirrar kröfu sem varnaraðili hélt uppi gegn sóknaraðila á grundvelli veðskuldabréfsins verið of há og útreikningar meðal annars miðaðir við ólögmæta gengistryggingu. Þá hafi varnaraðili krafist þess að sóknaraðili annaðhvort setti auknar tryggingar fyrir láninu inn á handveðsetta reikninginn (þegar tryggingar fyrir láninu voru í raun fullnægjandi) eða greiddi lánið upp. Þessum ólögmætu kröfum hafi varnaraðili, sem þá var fjármálafyrirtæki með starfsleyfi og starfaði undir stjórn skilanefndar sem skipuð var af Fjármálaeftirlitinu, beint að sóknaraðila, sem sé einstaklingur.
Sóknaraðili hafi ekki séð sér annað fært en að greiða upp lánið, 9. október 2008, en áður hafi hann sett frekari tryggingar fyrir láninu með því að leggja fjármuni inn á handveðsetta reikninginn á tímabilinu frá 15. september til greiðsludags. Varnaraðili hafi valdið sóknaraðila tjóni með því að beina til hans og halda til streitu of hárri og ólögmætri kröfu, veita ofgreiðslunni viðtöku og endurgreiða sóknaraðila ekki þegar í stað þess sem ofgreitt var. Samkvæmt almennum reglum kröfuréttar hafi varnaraðila borið að endurgreiða sóknaraðila þá fjárhæð sem ofgreidd var en það hafi hann hins vegar ekki ennþá gert. Byggir sóknaraðili á því að gera eigi ríkar kröfur til skilanefnda og slitastjórna sem skipaðar hafi verið til fara með stjórn fjármálafyrirtækja, sem hafi starfsleyfi, til að haga öllum störfum sínum og aðgerðum í samræmi við lög og reglur sem um starfsemina gilda. Það sé ótæk niðurstaða að fjármálafyrirtæki með starfsleyfi, sem sé stýrt af skilanefnd, geti haldið uppi ólögmætum kröfum gagnvart viðskiptamönnum sínum, tekið á móti fjármunum á þeim grundvelli og komist hjá endurgreiðslu þar sem viðskiptavinurinn, sem ekki búi yfir sérfræðiþekkingu, hafi innt greiðsluna af hendi í góðri trú. Slík niðurstaða gangi ekki einungis gegn öllum sanngirnisrökum og meginreglu um jafnræði kröfuhafa við slitameðferð, heldur leiði hún einnig til óréttmætrar auðgunar annarra kröfuhafa varnaraðila. Þá standist slík framkvæmd ekki þær kröfur sem gerðar séu til fjármálafyrirtækja með starfsleyfi í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og lögum nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti og reglugerðum settum á grundvelli þeirra. Þannig sé ljóst að varnaraðili hafi, á saknæman og ólögmætan hátt, bakað sóknaraðila tjón með aðgerðum sínum.
Verði ekki fallist á framangreint byggir sóknaraðili aðalkröfu sína á því að hann eigi endurgreiðslukröfu á hendur varnaraðila sem hafi stofnast 9. október 2008. Telur sóknaraðili endurgreiðslukröfuna uppfylla skilyrði 3. töluliðar 110. gr. laga nr. 21/1991 þar sem lánið var gert upp með sérstökum samningi á milli sóknaraðila og varnaraðila.
Verði ekki fallist á að búskipti varnaraðila hafi hafist 7. október 2008 heldur síðar þá byggir sóknaraðili á því að krafa hans hafi engu síður stofnast eftir upphaf slitameðferðar varnaraðila og teljist búskrafa samkvæmt 3. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991.
Í annan stað byggir sóknaraðili á því að krafa hans hafi orðið til við gildistöku laga nr. 151/2010. Með þeim hafi meðal annars verið gerðar breytingar á 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og sex bráðabirgðaákvæðum bætt við lögin. Í einu þeirra, bráðabirgðaákvæði X, segi að í þeim tilvikum þar sem húsnæðislán hafi verið greitt út í íslenskum krónum en við endurgreiðslu lánsins miðað við gengi erlendra gjaldmiðla, skuli miða uppgjör vegna ofgreiðslu við reglur 18. gr. vaxtalaga eins og hún varð við gildistöku breytingarlaganna. Enn fremur beri lánveitanda að hafa frumkvæði að uppgjöri slíkra lána og skuli það fara fram innan 90 daga frá gildistöku laganna. Varnaraðili hafi ekki sinnt lagaskyldu sinni og hafi ekki enn sent sóknaraðila endurútreikning vegna ofgreiðslu á láninu. Telur sóknaraðili því að krafa hans hafi í raun stofnast eftir að varnaraðila hafi verið skipuð slitastjórn og slitameðferð hans hófst og sé því búskrafa, sbr. 3. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991.
Til vara krefst sóknaraðili þess að fjárkrafa hans verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Varnaraðili hafi byggt á því að kröfu sóknaraðila hafi verið lýst of seint og að henni verði ekki komið að á grundvelli 118. gr. laga nr. 21/1991. Í 5. tölulið 118. gr. segi meðal annars að hafi kröfu, sem hafi stofnast eftir að bú er tekið til gjaldþrotaskipta, verið lýst án ástæðulausra tafa og áður en boðað hafi verið til skiptafundar um frumvarp til úthlutunar úr búinu, skuli hún ekki falla niður gagnvart því.
Sóknaraðili byggir á því að krafa hans uppfylli skilyrði 5. töluliðar 118. gr. Hún hafi stofnast eftir að slitameðferð varnaraðila hófst, þar sem stöðu varnaraðila, 7. október 2008, megi jafna til þess að hafin væru gjaldþrotaskipti á búi hans, þegar skilanefnd var skipuð sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. 441/2011 og 112/2012.
Verði ekki fallist á þetta byggir sóknaraðili á því að krafa hans hafi stofnast 28. desember 2010 við gildistöku laga nr. 151/2010, þar sem meðal annars voru settar lagareglur um uppgjör á ólögmætum gengistryggðum lánum. Ekki hafi verið ljóst hvernig ætti að haga uppgjöri á ofgreiddum lánum sem fólu í sér ólögmæta gengistryggingu fyrr en með setningu laganna og breytingu á 18. gr. vaxtalaga. Sóknaraðili bendir jafnframt á að varnaraðili hafi verið sérfróður aðili í lánsviðskiptum og hann hafi aldrei upplýst sóknaraðila um að í umræddu láni hafi falist ólögmæt gengistrygging og að hann ætti rétt á endurgreiðslu.
Verði ekki fallist á framangreint byggir sóknaraðili á því að krafa hans hafi fyrst getað stofnast 16. júní 2010, það er á þeim degi er fyrrnefndir dómar Hæstaréttar nr. 153/2010 og 92/2010 um ólögmæti gengistryggingar lánssamninga voru kveðnir upp. Bankinn hafi verið sérfróður um lánsviðskipti. Sóknaraðili hafi treyst því að útreikningar hans væru réttir og byggðir á lögmætum grundvelli. Því hafi ekkert tilefni verið fyrir sóknaraðila til þess að ætla að í láninu sem hann ofgreiddi fælist ólögmæt gengistrygging, fyrr en í fyrsta lagi eftir að dómarnir voru kveðnir upp.
Að öllu framangreindu virtu telur sóknaraðili ljóst að krafa hans hafi fyrst orðið til eftir upphaf slitameðferðar varnaraðila og það skilyrði 5. töluliðar 118. gr. laga nr. 21/1991 sé því uppfyllt.
Þá telur sóknaraðili þann drátt sem varð á því að hann lýsti kröfu í bú varnaraðila ekki hafa verið ástæðulausan. Ekki hafi legið fyrir að gengistrygging lána í íslenskum krónum væri ólögmæt fyrr en í fyrsta lagi með dómum Hæstaréttar 16. júní 2010 og óvíst hvernig uppgjör krafna vegna ofgreiðslu á ólögmætum gengistryggðum lánum skyldi háttað fyrr en með gildistöku laga nr. 151/2010. Eðli málsins samkvæmt verði jafnframt að játa sóknaraðila nokkuð svigrúm til þess að meta hvort lán hans hafi verið ólögmætt. Þá telur sóknaraðili það ekki standast að varnaraðili geti hafnað kröfu sóknaraðila sem of seint fram kominni í ljósi þess að varnaraðili hafi ekki enn sent sóknaraðila endurútreikning á láninu sem honum var skylt að gera samkvæmt lögum nr. 38/2001. Þannig sé enn óljóst hvort varnaraðili hafi athugað lán sóknaraðila og hvort hann telji lánið tengt gengi erlendra mynta á ólögmætan hátt. Þá hafi verið óljóst að hverjum sóknaraðili ætti að beina kröfu sinn en hann hafi leitað bæði til Íslandsbanka og fjármálaráðuneytisins, í góðri trú, á árinu 2011 vegna hennar. Að framangreindu virtu telur sóknaraðili þann drátt á því að hann lýsti kröfu sinni í bú varnaraðila ekki geta talist ástæðulausan.
Þá sé óumdeilt að ekki hafi verið boðað til skiptafundar um frumvarp til úthlutunar úr búi varnaraðila og telur sóknaraðili því kröfuna eiga að komast að þar sem skilyrði 5. töluliðar 118. gr. laga nr. 21/1991 séu uppfyllt.
Sóknaraðili krefst þess að viðurkennt verði að fjárkrafa hans beri dráttarvexti frá 9. október 2008 til greiðsludags. Hann byggir jafnframt á því að í dráttarvaxtakröfu hans felist krafa um aðra og lægri vexti, þar með talið vexti samkvæmt II. og IV. kafla laga nr. 38/2011, verði ekki fallist á að krafa hans skuli bera dráttarvexti frá 9. október 2008.
Sóknaraðili krefst sömu fjárhæðar í aðal- og varakröfu og sundurliðast hún svo:
Höfuðstóll (ofgreiðsla) 4.684.691 kr.
Ofgreiddir vextir að nafnvirði 102.504 kr.
Staða kröfu 9. október 2008 4.787.195 kr.
Dráttarvextir frá 9. október 2008 til 27. mars 2012 3.458.945 kr.
Samtals krafa miðað við 27. mars 2012 8.246.540 kr.
Til stuðnings kröfu sinni vísar sóknaraðili til almennra reglna kröfuréttar, svo og til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., einkum 110. og 113. gr. þeirra, laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Sóknaraðili byggir kröfur sínar á ákvæðum laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, einkum bráðabirgðaákvæði X og XI, svo og 18. gr. og 1. mgr. 6. gr. laganna. Kröfu um málskostnað byggir hann á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður varnaraðila
Varnaraðili mótmælir öllum málsástæðum og lagarökum sóknaraðila sem röngum og/eða ósönnuðum. Krafa sóknaraðila byggist á því að uppgreiðsla á veðskuldabréfi hafi farið fram á ólögmætan hátt og að sóknaraðili hafi ofgreitt varnaraðila vegna uppgreiðslu lánaskuldbindingar sinnar. Varnaraðili telur þvert á móti að uppgreiðsla sóknaraðila á veðskuldabréfinu hafi verið lögmæt og hafi sóknaraðili ekki getað eignast neina kröfu á hendur varnaraðila vegna hennar. Varnaraðili telur kröfu sóknaraðila jafnframt of seint fram komna, enda sé kröfulýsingarfrestur útrunninn og skilyrði 118. gr. laga nr. 21/1991 ekki uppfyllt.
Uppgreiðsla á veðskuldabréfi er byggð á löglegu láni
Varnaraðili hafnar því alfarið að lánsskuldbinding samkvæmt veðskuldabréfinu frá 21. febrúar 2007 hafi verið í íslenskum krónum. Í skuldabréfinu viðurkenni sóknaraðili að hann skuldi varnaraðila tilteknar erlendar fjárhæðir. Jafnvirði hins erlenda láns í íslenskum krónum, á gengi 7. febrúar 2007, hafi svo verið tilgreint. Grunnvextir hverrar myntar séu mismunandi. Á þessum tíma hafi ekki verið nein gjaldeyrishöft og því hægt að velja þá mynt sem hið erlenda lán yrði greitt út í og telur varnaraðili lánið því löglegt.
Í 5. gr. veðskuldabréfsins segi að greiðslur af láninu skuli vera í íslenskum krónum og að varnaraðili verði að reikna út fjárhæð hverrar afborgunar og/eða vaxta miðað við skráð sölugengi Seðlabanka Íslands á þeim gjaldmiðlum sem sóknaraðili tók að láni allt að 10 dögum fyrir gjalddagann. Þannig sé skýrt tekið fram að lánið sé í erlendum myntum, en um það samið að greiðslur fari fram í íslenskum krónum.
Enda þótt lánsfjárhæðin hafi verið greidd út í íslenskum krónum og lánið endurgreitt með íslenskum krónum fái það ekki breytt þeirri niðurstöðu að lánsskuldbindingin sé í erlendri mynt. Því sé ekki nein þörf á að horfa til annarra atriða svo sem greiðslu höfuðstóls og afborgana og vaxta. Að þessu leyti sé skýr greinarmunur á þessu láni annars vegar og þeim sem reyndi á í þeim Hæstaréttardómum sem sóknaraðili vísi til, þar sem vafi hafi leikið á um þetta atriði.
Öndverð niðurstaða leiddi til þess að enda þótt lánsskuldbindingin sem slík sé í erlendri mynt teldist lánið allt að einu vera í íslenskum krónum þar sem það hefði verið greitt út í íslenskum krónum og varnaraðili efnt skyldu sína í íslenskum krónum. Slík niðurstaða þýddi jafnframt að væri lánsskuldbinding tiltekin í íslenskum krónum, en andvirði hennar greitt út og/eða endurgreitt í erlendri mynt, teldist lánið ekki lán í íslenskum krónum. Slík niðurstaða standist augljóslega ekki.
Varnaraðili bendir jafnframt á það að lánið hafi verið greitt út í íslenskum krónum af þeirri ástæðu að sóknaraðili hafi sjáanlega viljað nýta sér lánsfjárhæðina í íslenskum krónum. Ekkert hefði verið því til fyrirstöðu að greiða lánsfjárhæðina út í hinum erlendu myntum hefði sóknaraðili óskað þess. Varnaraðili telur það hins vegar með öllu útilokað og í andstöðu við viðurkennd sjónarmið um samningsfrelsi að leggja þá skyldu á lánveitanda að afhenda fjármunina í hinni erlendu mynt, eða inn á gjaldeyrissreikning, til þess að lánsskuldbinding geti verið í erlendri mynt. Niðurstaðan í fjárhagslegu tilliti sé sú sama, hvort sem er fyrir lánveitanda eða lántaka, það er án tillits til þess hvort andvirði fjárhæðarinnar hafi verið lagt inn á reikning í íslenskum krónum eða ekki. Varnaraðili telur með öllu útilokað, að líta megi fram hjá efni lánssamnings nánast að öllu leyti á þeim grundvelli einum að lántaki hafi ekki fengið tiltekinn gjaldmiðil í sína vörslu, þegar fyrir liggi að hann hafi hvorki beðið um hann né haft fyrir hann not og hefði skipt honum með aðstoð lánveitenda þegar í stað. Sömu sjónarmið eigi að mati varnaraðila við um greiðslu afborgana og vaxta að breyttu breytanda.
Varnaraðili bendir einnig á að í lánsumsókn hafi sóknaraðili óskað eftir því að lánið yrði í erlendri mynt. Þannig sé fullt samræmi milli lánsumsóknarinnar og veðskuldabréfsins í þessu tilliti. Ekki fari á milli mála að sóknaraðili hafi viljað skuldbinda sig í erlendri mynt. Meginreglan sé að mönnum sé frjálst að bindast skuldbindingum með samningum við aðra þannig að samningar teljist gildir nema sýnt sé fram á að þeir fari í bága við ófrávíkjanlegar reglur settra laga.
Varnaraðili telur vafalaust að lánið sé ekki gengistryggt íslenskt lán og því ekki sambærilegt þeim lánum sem reynt hafi á í dómum Hæstaréttar í málum nr. 92/2010 og 153/2010 sem sóknaraðili hafi vísað til. Varnaraðili telur kröfu sóknaraðila falla í annan flokk en þann sem hin ólöglegu gengistryggðu lán falli í. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 520/2011 hafi sambærilegt skuldabréf komið til úrlausnar dómsins en málinu hafi verið vísað frá héraðsdómi þar sem það lán sem var til skoðunar hafi verið talið fela í sér ólögmæta gengistryggingu. Hæstiréttur hafi vísað málinu aftur heim í hérað þar sem ekki yrði fallist á að það skuldabréf sem reyndi á í því máli væri sambærilegt þeim skuldabréfum sem voru til skoðunar í dómum Hæstaréttar í málum nr. 153/2010 og 92/2010. Meðal annars komi fjárhæð skuldbindingar samkvæmt bréfinu í erlendum gjaldmiðlum skýrt fram þar sem greind sé fjárhæð skuldar. Svo sem greini í forsendum dóma Hæstaréttar 16. júní 2010 fari skuldbinding í erlendum gjaldmiðli ekki gegn ákvæðum laga nr. 38/2001. Framangreindir dómar Hæstaréttar væru því ekki fordæmi fyrir ólögmæti þeirrar skuldbindingar sem fjallað væri um í málinu.
Af öllu framangreindu leiði að enda þótt lánið hafi verið greitt út í íslenskum krónum og sóknaraðili hafi endurgreitt það með íslenskum krónum, fái það ekki breytt þeirri niðurstöðu að lánsskuldbindingin sé í erlendri mynt. Þetta sýni ákvæði skuldabréfsins sjálfs, lánsumsóknarinnar og skýr vilji samningsaðila. Af þessum sökum beri að staðfesta afstöðu slitastjórnarinnar og hafna kröfu sóknaraðila, enda sé hún ekki til og ósönnuð með öllu.
Krafa sóknaraðila of seint fram komin og uppfyllir ekki skilyrði 118. gr. laga nr. 21/1991
Varnaraðili hafnar því að krafa sóknaraðila komist að við slitin þar sem sóknaraðili hafi lýst kröfu sinni of seint og undantekningartilvik 118. gr. laga nr. 21/1991 eigi ekki við.
Sóknaraðili haldi því fram að hann hafi eignast kröfu sína þegar hann greiddi lánið upp 9. október 2008 en honum hafi ekki mátt vera ljós sú krafa fyrr en síðar. Sóknaraðili telji Hæstaréttardóma sem féllu 16. júní 2010 hafa fyrst staðfest að hann hafi ofgreitt bankanum og að lög nr. 151/2010, hafi á einhvern hátt staðfest þann skilning. Hæstaréttardómarnir sem sóknaraðili vísi til geti ekki verið fordæmi um kröfu sóknaraðila, enda byggi þeir á öðrum samningum og forsendum.
Varnaraðili telur heimildir til að koma kröfu að eftir lok kröfulýsingarfrests tæmandi taldar í 118. gr. laga nr. 21/1991. Hann bendir jafnframt á að lög nr. 151/2010, sem fólu í sér breytingu á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, hafi tekið gildi 28. desember 2010. Þar sem atvik þessa máls hafi átt sér stað fyrir þann tíma beri samkvæmt lagaskilareglum að miða við lögin eins og þau voru fyrir breytingu. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001, fyrir gildistöku breytingalaganna, hafi kröfuhafa borið að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hefði ranglega haft af honum ef samningur um vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar eða dráttarvexti teldist ógildur. Byggir varnaraðili á því að þessi lagaregla leysi sóknaraðila ekki undan þeirri grundvallarskyldu að lýsa kröfu sinni við slitameðferð varnaraðila. Lögskýringarreglur geti ekki leitt til þess að horft sé fram hjá vanlýsingaráhrifum, enda gangi reglur gjaldþrotaskiptalaga, svo sem um vanlýsingaráhrif, framar í þessu tilviki.
Telji dómurinn að lög nr. 151/2010 hafi þýðingu fyrir úrlausn málsins bendir varnaraðili einnig á að bráðabirgðaákvæðum X og XI hafi fyrst og fremst verið ætlað að taka til endurútreiknings á stöðu lána og hugsanlegrar endurgreiðslu hjá starfandi fjármálafyrirtækjum. Þar sem varnaraðili hafi ekki lengur starfsleyfi sem fjármálafyrirtæki falli hann þegar af þeirri ástæðu ekki undir gildissvið bráðabirgðaákvæðis XI.
Jafnvel þótt sóknaraðili gæti sýnt fram á ólögmæti veðskuldabréfsins og sýnt sé fram á að tiltekið tjón hafi hlotist af meintri ofgreiðslu, sé slík krafa of seint fram komin. Kröfulýsingarfresti í slitameðferð varnaraðila hafi lokið 26. nóvember 2009 en kröfulýsing sóknaraðila hafi ekki borist fyrr en 1. október 2011, eða tæpum tveimur árum síðar. Þrátt fyrir þetta telji sóknaraðili sér heimilt að koma kröfu sinni að.
Varnaraðili telur þær málsástæður sem sóknaraðili byggi dómkröfur sínar á, ekki eiga við rök að styðjast og að krafa sóknaraðila eigi því ekki að komast að í slitameðferð varnaraðila.
Sóknaraðili byggi aðallega á því að krafa hans sé búskrafa samkvæmt 3. tölulið 1. mgr. 110. gr. Það ákvæði eigi við um kröfur sem hafi orðið til eftir uppkvaðningu úrskurðar héraðsdómara um töku búsins til gjaldþrotaskipta, með samningum skiptastjóra eða vegna tjóns sem búið bakar öðrum. Sóknaraðili telji skilanefnd bankans hafa, 9. október 2008, valdið honum tjóni með því að taka við greiðslu sóknaraðila þegar hann ákvað að gera lánið upp. Sóknaraðili haldi því hins vegar ekki fram að krafa hans hafi stofnast þegar hann greiddi lánið upp, heldur þegar tilteknir Hæstaréttardómar féllu, það er 16. júní 2010 eða með gildistöku laga nr. 151/2010, 28 desember 2010. Varnaraðili telur þessa framsetningu ekki ganga upp, enda geti sóknaraðili ekki miðað við að krafa í slitameðferð komist að á þeim grunni að skilanefnd Glitnis hafi með því að taka við greiðslu sem byggði á löglegum samningi valdið sér tjóni. Varnaraðili telur þannig ekki liggja fyrir neina sönnun þess efnis að skilyrði 3. töluliðar 1. mgr. 110. gr. laga nr. 21/1991 sé uppfyllt, sbr. 5. tölulið 118. gr. sömu laga. Sönnunarbyrði fyrir tjóninu hvíli á sóknaraðila, en málsástæða hans sé hvorki studd efnislegum rökum né tilvísun í samninga aðila.
Sóknaraðili byggi til vara á því að krafa hans sé almenn krafa, enda séu skilyrði 5. töluliðar 118. gr. laga nr. 21/1991 uppfyllt. Í þeim lið lagagreinarinnar komi fram þrjú skilyrði sem öll þurfi að vera uppfyllt til að hægt sé að koma kröfu að eftir að fresti til þess lýkur samkvæmt 2. mgr. 85. gr. laga nr. 21/1991.
Í fyrsta lagi þurfi krafan að hafa orðið til eftir uppkvaðningu úrskurðar um að búið sé tekið til gjaldþrotaskipta, í öðru lagi þurfi að lýsa henni án ástæðulausra tafa og í þriðja lagi þurfi að hafa hana uppi áður en boðað hafi verið til skiptafundar um frumvarp til úthlutunar úr búinu. Varnaraðili telji fyrstu tvö skilyrðin ekki uppfyllt. Kröfunni sé því vanlýst með þeim áhrifum sem fylgi vanlýsingu.
Varnaraðili telur kröfuna ekki hafa getað stofnast á öðrum degi en 9. október 2008, þegar lánið var gert upp og að kröfulýsing sóknaraðila beri það jafnframt með sér að það sé skilningur sóknaraðila sjálfs. Dráttarvaxtakrafa sóknaraðila byggist meðal annars á því að meint ofgreiðsla eigi að bera dráttarvexti frá 9. október 2008 þegar krafa sóknaraðila varð til og einnig sé aðalkrafa sóknaraðila byggð á því að krafan hafi orðið til þegar við uppgreiðslu lánsins. Sóknaraðili geti ekki annars vegar haldið því fram að krafa hans hafi ekki orðið til fyrr en dómur Hæstaréttar gekk eða ákveðin lög voru sett, og hins vegar miðað við að krafan skuli þrátt fyrir það bera dráttarvexti frá þeim degi sem meint ofgreiðsla á sér stað. Verði hins vegar fallist á skýringar sóknaraðila á því hvenær krafa hans stofnaðist fyrst, telur varnaraðili engu að síður að annað skilyrði lagagreinarinnar teljist ekki uppfyllt, þ.e. að kröfunni hafi verið lýst án ástæðulausra tafa.
Varnaraðili tekur fram að þegar krafa komist að eftir að kröfulýsingarfresti lýkur sé kröfuhöfum mismunað og þannig gengið gegn meginreglu gjaldþrotalaganna um jafnræði kröfuhafa. Af þessum sökum beri að túlka undantekninguna þröngt. Sóknaraðili telji sig ekki hafa verið í þeirri stöðu að geta gert sér grein fyrir því að hann ætti kröfu á hendur varnaraðila og að varnaraðila bæri að senda tilkynningu um hver meint ofgreiðsla veðskuldabréfsins hafi verið eða að endurútreikningur sýndi að ekkert hafi verið ofgreitt. Í þessu ljósi áréttar varnaraðili að hann sé í slitameðferð og hafi starfsleyfi hans sem fjármálastofnun verið afturkallað. Sóknaraðila hafi borið að senda kröfulýsingu, um leið og honum varð ljóst að hann ætti kröfu, eða hefði átt að gera sér grein fyrir því. Sóknaraðili hafi hins vegar dregið það til 1. október 2011 að senda kröfulýsingu. Varnaraðili telur það ganga þvert gegn tilgangi meginreglna gjaldþrotalaganna um málshraða og jafnræði kröfuhafa verði sá dráttur sem varð á lýsingu kröfu sóknaraðila heimilaður í málinu.
Til stuðnings kröfum sínum vísar varnaraðili til laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 44. gr. laga nr. 44/2009 og síðari breytinga, laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og meginreglna gjaldþrotaskiptaréttar um jafnræði kröfuhafa og hraða málsmeðferð. Enn fremur vísar hann til laga nr. 151/2010 um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, lögum um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins og lögum um umboðsmann skuldara. Kröfu um málskostnað byggir varnaraðili á 130. gr., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og kröfu um virðisaukaskatt á lögum nr. 50/1988.
Niðurstaða
Sóknaraðili tók lán til húsnæðiskaupa hjá Glitni banka hf., 21. febrúar 2007, í formi veðskuldabréfs. Eins og í fjöldamörgum öðrum lánssamningum var sú virkni byggð inn í lánið að lækkaði gengi íslensku krónunnar hækkaði höfuðstóll lánsins og þar með afborganir af honum. Til þess að koma í veg fyrir enn frekari og óyfirstíganlega hækkun á láni sínu við efnahagshrunið ákvað sóknaraðili að greiða það upp 9. október 2008. Á miðju ári 2010 dæmdi Hæstiréttur að tenging gengis erlendra mynta við lán í íslenskum krónum væri ólögmæt. Í lok árs 2010 tóku gildi lög sem mæltu fyrir um hvernig fjármálafyrirtækjum bæri að endurgreiða lán þar sem höfuðstóll og afborganir tækju mið af gengi erlendra mynta burtséð frá því hvort lántaki væri talinn hafa tekið lán í íslenskum krónum eða erlendum myntum.
Ágreiningur þessa máls er sprottinn af því að sóknaraðili telur sig hafa, þegar hann gerði lánið upp, greitt Glitni banka hf. umfram skyldu og telur sig eiga endurkröfu á hann annaðhvort vegna þess að lán hans hafi verið í íslenskum krónum bundið gengi erlendra mynta á ólögmætan hátt eða vegna þess að skilanefnd bankans hafi borið, þegar lög 151/2010 tóku gildi, að endurreikna lán hans eins og það væri bundið gengi erlendra mynta á ólögmætan hátt og endurgreiða honum það sem hann hafði ofgreitt. Þar sem bankinn er til slita lýsti sóknaraðili kröfu í slitabúið en tilraunir hans til að leita réttar síns annars staðar höfðu reynst árangurslausar.
Fyrir aðalkröfu sinni, að fjárkrafa hans sé búskrafa samkvæmt 3. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. 161/2002 færir sóknaraðili tvær málsástæður. Fyrst byggir hann á því að lánið sem hann tók hjá Glitni banka hf. í formi veðskuldabréfs sé í íslenskum krónum en afborganir þess bundnar gengi erlendra mynta. Þegar hann greiddi það upp hafi hann því greitt meira en lögboðið var og hafi af þeim sökum orðið fyrir tjóni.
Í annan stað byggir sóknaraðili á því að með lögum nr. 151/2010 hafi verið lögð sú skylda á skilanefnd Glitnis banka hf. að endurreikna lán sóknaraðila og endurgreiða honum það sem hann hafði ofgreitt bankanum. Þar sem bankinn hafi ekki uppfyllt þessa lagaskyldu sína hafi hann valdið sóknaraðila tjóni sem slitabúi bankans beri að bæta honum.
Frá miðju ári 2010 hafa gengið fjölmargir dómar þar sem Hæstiréttur hefur raðað saman þeim atriðum sem hann telur greina lán, þar sem erlendar myntir hafa verið teknar að láni, frá þeim lánum, þar sem íslenskar krónur eru teknar að láni en höfuðstóll og afborgun lánsins er tengd gengi erlendra mynta þannig að brýtur gegn lögum nr. 38/2001. Af þessum dómum má ráða að við mat á því hvorum megin hryggjar tiltekið lán lendir beri að líta til heitis skuldabréfsins, tilgreiningar lánsfjárhæðarinnar, tilgreiningar vaxta og skilmálabreytingar hafi skilmálum lánsins verið breytt.
Veðskuldabréf sóknaraðila heitir Veðskuldabréf í erlendum myntum-Húsnæðislán. Í því stendur að sóknaraðili viðurkenni að skulda Glitni banka hf. 10.128 Bandaríkjadali, 5.139 bresk pund, 18.860 svissneska franka, 2.440.149 japönsk jen og 35.122 evrur. Jafnvirði þessa í íslenskum krónum, miðað við 7. febrúar 2007, er 6.880.000 kr. Grunnvextir hverrar myntar eru tilgreindir sem LIBOR- og EURIBOR-vextir en hins vegar eru ekki tilgreindir REIBOR-vextir sem reiknast á íslenskar krónur. Þar sem veðskuldabréfið hefur þessi kennimerki og með vísan til dóma Hæstaréttar í málum nr. 524/2011 og 757/2012 verður sóknaraðili talinn hafa tekið lán í hinum erlendu myntum. Ekki frekar en í þeim dómum verður hér talið hafa þýðingu að samningsaðilar báðir efndu sína skyldu í íslenskum krónum. Því er fallist á það með varnaraðila að sóknaraðili hafi tekið lán í erlendum myntum. Lánið brýtur því ekki gegn 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 og varnaraðila ber ekki að endurgreiða það á grundvelli 18. gr. þeirra laga eins og hún var fyrir gildistöku laga nr. 151/2001.
Í annan stað byggir sóknaraðili á lögum nr. 151/2010, svonefndum gengislánalögum, sem tóku gildi 28. desember 2010. Samkvæmt þeim áttu fjármálafyrirtæki að endurreikna afborganir af lánum sem tengd voru gengi erlendra mynta hvort sem lánið var skilgreint sem lögmætt lán í erlendum myntum eða lán í íslenskum krónum með ákvæðum um ólögmæta gengistryggingu og endurgreiða lántökunum það sem ofgreitt var eigi síðar en 90 dögum eftir gildistöku laganna.
Með lögunum var meðal annars breytt lítillega ákvæði 1. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 og fjölmörgum málsgreinum bætt við 18. gr. Í 1. mgr. segir nú að teljist samningsákvæði um vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar eða dráttarvexti ógild skuli peningakrafan bera vexti skv. 1. málsl. 4. gr., enda eigi önnur ákvæði þessarar greinar ekki við. Í 5. mgr. segir nú að kröfuhafa beri að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hafi ranglega af honum haft vegna ólögmætra vaxta eða verðtryggingar. Jafnframt var bætt við lögin sex bráðabirgðaákvæðum, frá X XV. Í bráðabirgðaákvæði X segir:
Hafi húsnæðislán til neytanda verið greitt út í íslenskum krónum eða umbreyting úr erlendum myntum er hluti viðkomandi lánssamnings, en endurgreiðsla skuldarinnar miðast að einhverju leyti við gengi erlendra gjaldmiðla, fer um uppgjör vegna ofgreiðslu og framtíðarskilmála skuldbindingarinnar eftir því sem greinir í 18. gr. laganna.
Sóknaraðili er neytandi og hann tók lánið til húsnæðiskaupa. Þegar hann seldi íbúðina fékk hann að halda láninu þar sem hann hugðist kaupa sér aðra íbúð. Þrátt fyrir að lán hans væri í erlendum myntum endurgreiddi hann það með íslenskum krónum og afborganir og höfuðstóll lánsins tóku breytingum í samræmi við gengi íslensku krónunnar gagnvart þeim myntum sem sóknaraðili tók að láni. Því leikur ekki vafi á að lán sóknaraðila fellur undir skilgreiningu bráðabirgðaákvæðis X.
Inn í lán sóknaraðila var byggð gengisáhætta og það var ekki á hans valdi að ná tökum á afleiðingum hennar. Eina leið hans til að takmarka tjón sitt var að greiða lánið upp með aðstoð foreldra sinna. Lánið var til 40 ára. Því var, þegar sóknaraðili greip til þess ráðs að greiða það upp, einungis ríflega eitt og hálft ár liðið af samningstímanum en ríflega 38 ár eftir.
Á þeim tíma þegar sóknaraðili greiddi upp lánið hljóðaði 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu svo:
Ef samningur um vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar eða dráttarvexti telst ógildur og hafi endurgjald verið greitt ber kröfuhafa að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hefur þannig ranglega af honum haft. Við ákvörðun endurgreiðslu skal miða við vexti skv. 4. gr., eftir því sem við getur átt.
Sú skylda hvíldi því þegar, 9. október 2008, á Glitni banka hf. að endurgreiða það sem oftekið var væri lán eða hluti þess ólögmætur. Fram er komið að lán sóknaraðila er metið sem lán í erlendum myntum en ekki lán í íslenskum krónum með ákvæði um ólögmæta gengistryggingu og heyrði því ekki undir 18. gr. laga nr. 38/2001 eins og hún var 9. október 2008. Eina ástæða þess er orðalag veðskuldabréfsins. Sóknaraðili átti ekki nokkurn þátt í því að valið var að tilgreina hinar erlendu myntir, sem höfðu áhrif á höfuðstól og afborganir, í einingum en ekki hlutföllum þegar skuldabréfið var samið en sú tilgreining er meðal þeirra atriða sem ráða úrslitum um það hvort lán telst vera í erlendum myntum eða íslenskum krónum bundið gengi erlendra mynta á ólögmætan hátt. Starfsmenn Glitnis banka réðu orðalagi skuldabréfsins alfarið.
Tilgangur laga nr. 151/2010 var meðal annars að eyða því ójafnræði sem var byggt inn í 18. gr. laga nr. 38/2001 eins og hún var upphaflega orðuð þar sem endurgreiðsluskyldan tók einungis til ólögmætra lána þrátt fyrir að gengisáhættan væri ekki bundin við þau. Lögunum var því meðal annars ætlað að tryggja að lántakar hlytu ekki skaða af því hvernig starfsmenn lánveitenda orðuðu lánaskjöl.
Fyrir gildistöku laga nr. 151/2010 var réttarstaða sóknaraðila sú að hann gat ekki sótt kröfu sína á bankann samkvæmt 18. gr. laga nr. 38/2001 þar sem lán hans var ekki bundið gengi erlendra mynta á ólögmætan hátt þrátt fyrir að höfuðstóll og afborganir tækju breytingum út frá þeim. Álitamálið er því hvort réttarstaða hans hafi breyst með gildistöku laganna, 28. desember 2010, þannig að þau taki einnig til láns hans og hann hafi við gildistöku þeirra getað krafið bankann um endurgreiðslu þess sem hann ofgreiddi 9. október 2008.
Hvernig svo sem sérstökum atvikum þessa máls er velt upp og sjónarmið sóknaraðila dregin fram verður ekki yfir þann þröskuld komist að í fræðum og framkvæmd hefur hingað til verið litið svo á að yngri lög geti ekki tekið til lögskipta sem er lokið í tíð eldri laga. Þar sem sóknaraðili greiddi lán sitt upp, þrátt fyrir að það hafi einungis verið fimm dögum áður en lánið hefði að öðrum kosti flust yfir til Nýja Glitnis banka, nú Íslandsbanka, megna lög nr. 151/2010 ekki að breyta réttarstöðu hans. Hann verður því ekki talinn hafa eignast kröfu á hendur slitabúi Glitnis við gildistöku laganna.
Þar sem lán sóknaraðila er ekki talið lán í íslenskum krónum bundið gengi erlendra mynta á ólögmætan hátt og þar sem hann eignaðist ekki kröfu á hendur slitabúinu með lögum nr. 151/2010 þarf ekki að taka afstöðu til annarra málsástæðna hans.
Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir rétt, vegna þess hvernig atvikum málsins er háttað, að hvor málsaðila um sig beri sinn kostnað af málinu.
Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Hafnað er þeirri kröfu sóknaraðila, Boga Ragnarssonar, að hann eigi kröfu í slitabú Glitnis hf.
Málskostnaður milli aðila fellur niður.