Hæstiréttur íslands
Mál nr. 63/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Fimmtudaginn 7. febrúar 2002. |
|
Nr. 63/2002. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Jón Magnússon hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Hæstiréttur ómerkti úrskurð héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi. Í dómi Hæstaréttur kemur fram að lögreglustjóri hafi engin gögn lagt fram til stuðnings lýsingu í kröfugerð sinni á tveimur af þremur ætluðum brotum X. Hafi því ekki legið fyrir héraðsdómi nauðsynleg gögn til að tekin yrði afstaða til kröfu hans um að X yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, en héraðsdómara hafi verið rétt að krefja lögreglustjóra um þessi gögn áður en hann tók kröfuna til úrskurðar, sbr. 2. mgr. 74. gr. laganna. Vegna þessa var hinn kærði úrskurður ómerktur og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til meðferðar að nýju.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. febrúar 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. febrúar 2002, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 22. febrúar nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Með hinum kærða úrskurði var varnaraðila gert að sæta gæsluvarðhaldi með vísan til ákvæða a. og c. liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Fyrir Hæstarétti reisir sóknaraðili kröfu sína eingöngu á c. lið 1. mgr. 103. gr. laganna.
Sóknaraðili heldur því fram í kröfugerð sinni að varnaraðili hafi viðurkennt að hafa seint í desember 2001 í félagi við nafngreindan mann svikið út vörur og fé í verslunum í Reykjavík að verðmæti tæplega 700.000 krónur með afhendingu á fölsuðum tékkum. Varnaraðili hafi jafnframt viðurkennt að hafa 8. janúar 2002 í félagi við sama mann svikið út úr verslun í Kópavogi vörur að verðmæti rúmlega 300.000 krónur. Þá hafi fyrrnefndur maður borið að varnaraðili hafi nefndan dag átt þátt í tilraun til að svíkja út vörur að verðmæti tæplega 700.000 krónur. Loks hafi varnaraðili viðurkennt að hafa 23. janúar 2002 í félagi við fyrrnefndan mann staðið að því að svíkja út eða reyna að svíkja út parkett að verðmæti rúmlega þrjár milljónir króna.
Af hálfu sóknaraðila hafa engin gögn verið lögð fram til stuðnings framangreindri lýsingu varðandi ætluð brot varnaraðila í desember 2001 og 8. janúar 2002, svo sem lögregluskýrslur eða rannsóknarúrskurðir. Lágu því ekki fyrir héraðsdómi nauðsynleg gögn til að tekin yrði afstaða til kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Var héraðsdómara rétt samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laganna að krefja sóknaraðila um þessi gögn áður en hann tók gæsluvarðhaldskröfuna til úrskurðar. Er af þessari ástæðu óhjákvæmilegt að ómerkja hinn kærða úrskurð og leggja fyrir héraðsdómara að taka málið til meðferðar að nýju.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er ómerktur og er málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. febrúar 2002.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X verði með úrskurði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 22. febrúar nk. kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglustjórans í Reykjavík kemur fram að [...].
Eins og fram kemur í greinargerð lögreglunnar hefur kærði viðurkennt að hafa átt aðild að því að svíkja út parket í janúar mánuði sl. fyrir andvirði kr. 3.052.711. Þá hefur hann viðurkennt í desember sl. að hafa átt aðild að því að svíkja út í verslunum í Reykjavík vörur og fé. Hjá lögreglunni í Kópavogi stendur nú yfir rannsókn á fjársvikum í verslunum þar 8. þ.m. Þá hafi kærði og Y viðurkennt að hafa nefndan dag svikið út vörur að andvirði kr. 332.243 í [...].
Þegar litið er til þess sem að framan er rakið ber að fallast á það að líkur séu á að kærði muni halda áfram afbrotum gangi hann laus. Teljast skilyrði c. liðar 103. gr. laga nr. 19/1991 því vera fyrir hendi.
Sé litið til rannsóknargagna og þess að enn hefur ekki tekist að upplýsa hvar stór hluti þýfis er niður kominn er fallist á að rannsóknarhagsmunir séu enn fyrir hendi og hætta á því að kærði geti torveldað rannsóknina gangi hann laus. Teljast skilyrði a. liðar 103. gr. laga nr. 19/1991 einnig vera fyrir hendi.
Með vísan til a. og c. liðar 103. gr. laga nr. 19/1991 ber að taka til greina kröfu lögreglustjórans í Reykjavík eins og hún er fram sett.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi til föstudagsins 22. febrúar nk. kl. 16:00.